Iguana eðlur eru ekki gæludýr fyrir alla, þær þurfa mikla umönnun og þær þurfa rétta umönnun.

Ég mæli ekki með iguana eðlu sem gæludýri fyrir manneskju undir 18 ára að aldri nema viðkomandi sé mjög ábyrg/ur og geti með einu eða öðru leyti sýnt fram á að geta haldið tímafrekt gæludýr.

Að auki geta iguana eðlur reynst dýrar í rekstri, þá sérstaklega þegar kemur að búrinu og aðbúnaði þess, en í búrinu þarf t.d. að vera 75% raki, þrjú mismunandi hitastig, hitaljós, helst gosbrunnur og að lokum UVB pera sem gefur frá sér ljós sem að eðlan notar til að nýta kalk úr fæðunni... Að lokum þarf búrið að vera stórt... Mjög stórt.
Iguana eðlur verða fullvaxta allt að 220 sentímetrar að lengd, en til samanburðar er t.d. meðal herbergishurðin 200 cm á hæðina. Það er því ekki í valdi hvers sem er að glíma við eina slíka fullvaxta sem að vill ekki fara í bað eða aftur inn í búrið sitt eftir göngutúr um íbúðina.

Hvernig hegða iguana eðlur sér?

Margir velta eflaust fyrir sér hlutum eins og hvort iguana eðlur leiki sér, elti eigendur sína út um allt, svari nafni eða liggi bara í sólbaði allan dagin hreyfingalausar.
Fyrst verður fólk að skilja að hérna erum við með skriðdýr, en ekki spendýr eins og við höfum öll vanist og þekkjum vel. Dagurinn hjá hinni almennu iguana eðlu snýst fyrst og fremst um að sleikja sólina og láta sér líða vel, borða og sofa. Þær eiga það til að fá sér sundspretti annað veifið og njóta sín vel þegar þær eru að príla.
En þótt þær leiki sér ekki, svara sumar þeirra nafni og koma þegar það er kallað á þær, sumar fara ekkert nema eigandinn sé nálægt og hætta jafnvel að borða ef eigandinn sést ekki í nokkra daga. En þær, eins og mörg önnur dýr hafa mismunandi skapgerðir eftir einstaklingum og er hægt að flokka þær gróflega í fimm flokka. Þessar skapgerðir koma ekki fram fyrr en eftir kynþroska sem eðlurnar ná á þremur til fimm árum, svo ekki er hægt að flokka ungana í þessa flokka.
Flokkarnir fimm eru:

Flokkur eitt, hið fullkomna gæludýr: Þetta eru langgæfustu og jafnframt sjaldgæfustu eðlurnar. Þetta eru oftast karldýr og líkurnar á að fá eina svona eru á bilinu einn á móti fimmhundruð til einn á móti þúsund. Þeim líður langbest í fanginu á eigendum sínum og sjá ekki sólina fyrir þeim. Þær bíta aldrei, slá aldrei og klóra ekki nema óviljandi. Þær gera ekki mannamun og óttast ekki mannfólk.

Flokkur tvö, mjög gott gæludýr: Þetta eru skapmildar eðlur, en þó ber örlítið á smá sterssi og ótta. Það er í lagi að halda á þeim, en þær eiga það þó til að brölta smávegis. Ekki eins sjálfsöruggar og fyrri flokkurinn og eiga jafnframt erfiðara með að aðlagast breytingum.

Flokkur þrjú, hið sjálfstæða gæludýr: Langflest kvendýrin eru í þessum flokki, en þó finnast mörg karldýr hérna líka. Þessar eðlur spjara sig vel þegar þær eru látnar í friði, borða og lifa vel, en þvertaka fyrir að haldið sé á sér. Það er erfitt að flytja þær á milli staða vegna ofurnæmni þeirra og stanslauss brölts. Þessar eðlur eru talsvert stressaðar í kring um fólk og munu því stökkva/hlaupa í felur þegar þær eru teknar upp eða færðar utan síns svæðis. Þær eiga það til að rymja, hvæsa eða jafnvel slá til manns með halanum þegar maður nálgast þær eða snertir þær. Breytingar á umhverfi þessara eðla mun valda miklu fáti á eðlunni.

Flokkur fjögur, hið erfiða gæludýr: Þessar eru verulega stressaðar og hræddar. Stífna upp og frjósa til þess að þykjast vera dauðar eða hlaupa í miklu fáti stefnulaust til þess að komast í skjól um leið og þær sjá manneskju. Sumar eðlanna í þessum flokki gætu verið of hræddar til þess að nærast eða koma úr felum. Ef þær ná að aðlagast umhverfi sínu og því er svo breytt mun eðlan fara í sjokk. Þessi flokkur er í raun of stressaður til þess að lifa og á það því til að neita að borða og á endanum deyja úr vannæringu ef ekki næst að temja þær.

Flokkur fimm, illkvitna gæludýrið: Reiðar, hræddar, vondar og ögrandi. Þessar eðlur eru bara til vandræða ef þú reynir að nálgast þær eða snerta þær. Þetta er oftast hrætt karldýr sem mun ógna þér og bíta eða slá. Ekki rugla þessum flokki við karldýr á hinu tímabundna fengitímabili eða flokkinum hér fyrir neðan.

Flokkur sex, brjálaða karldýrið: Eðlur í þessum flokki er ótrúlega styggar, árásagjarnar og erfiðar og er það fáheyrt að nokkrum takist að temja eina slíka. Sem betur fer dvelja eðlurnar oftast aðeins tímabundið í þessum flokki og fara svo aftur í upprunalega flokkinn sinn. líkurnar á því að fá eðlu sem er varanlega í þessum flokki eru ca. einn á móti hundrað. Þessar eðlur eru alltaf karldýr og virðast líta á mannfólk sem önnur iguana karldýr sem eru inni á sínu svæði og hegða sér nákvæmlega eins og um slíkt tilfelli væri að ræða. Þessi eðla eltir þig og ræðst á þig þegar hún er ekki í búrinu sínu, og ef eðlan er í búri mun hún stökkva á glerið ef þú kemur of nálægt. Hann mun leita þig uppi þegar hann er ekki í búrinu. Hann er hraustur, myndalegur og gjörsamlega viti sínu fjær. Þegar eðlan er í þessum ham er nánast ómögulegt að hafa hana sem gæludýr nema maður hafi mikla reynslu og háan sársaukaþröskuld. Þegar eðla fer í þennan flokk er best að flytja búrið í afskektan og fáfarin hluta hússins og skipta um vatn og setja mat í búrið á nóttinni þegar hún er svöl og sofandi. Stundum mun eðlan vera í þessu ástandi það sem eftir er, en oftast verður eðlan eðlileg aftur eftir svona þrjár vikur til þrjá mánuði. Þessi flokkur er samt ekki fengitímabilið, sem er alltaf tímabundið og oftast ekki nærri eins slæmt. Sem ráð við þessu hafa sumir dýralæknar mælt með geldingu, en virðast þá gleyma að hérna er verið að tala um skriðdýr en ekki heimiliskött. Gelding iguana eðla er stórhættuleg aðgerð og hafa rannsóknir sýnt að hún hefur langoftast engin áhrif á hegðunarmynstur eðlunnar nema kanski rétt eftir aðgerðina vegna þess að eðlan þjáist eða er máttlaus vegna t.d. blóðmissis.

Að lokum ber að taka fram að viltari eðlurnar eru oftast hraustari (nema þær svelti sig í hel í stresskasti eins og þær í fjórða flokkinum) því viltari sem þær eru. Gæfu eðlurnar eiga það til að vera pínu slappar, en þó er ekkert algilt í þessum málum frekar en öðrum.
Hvað get ég gert til þess að minka líkurnar á að eðlan verði stygg?

Til að byrja með, þá eru kvendýrin oftast mun rólyndari en karldýrin, en þær eru oft feimnar og lokaðar á meðan karldýrin eru akkúrat öfugt og eru virkari. Báðum kynunum fylgir talsvert vesen á fengitímabilinu, kvendýrin verpa eggjum (þótt þær hafi aldrei séð karldýr) og geta stíflast og dáið ef þær komast ekki undir læknishendur, en þó er þetta ekki það algengt. Karldýrin verða pirruð og árásagjörn á fengitímabilinu, en þó eru mörg karldýr sem að eru róleg allan ársins hring. Fáðu þér bara eina eðlu, ef þú vilt auka líkurnar á því að hún verði gæf. Farðu alltaf varlega að eðlunni þinni, ekki hrekkja hana eða bregða henni og ekki koma ofan að henni. Eðlan verður að sjá hendurnar á þér koma til sín, annars getur henni brugðið við óvænta snertingu og bitið ósjálfrátt í viðbragðinu. Búrið á að vera þannig að það opnist frá hlið en ekki ofan frá. Að lokum skaltu byrja á því að temja eðluna þína um leið og þú færð hana og venja hana á þig.