Hér til hægri ættu að hafa byrst nokkrar undirsíður sem fara nánar út í efnið en hér fyrir neðan verður fjallað um matargjöfina sjálfa.


Hið margumþrætta mataræði iguana eðla.

Iguana eðlur verða vinsælli með hverjum deginum sem líður, en það er margt í þeirra fara sem enn er eftir órannsakað og því mun mataræðið og margir aðrir hlutir tengdir tegundinni verða mikið þrætuepli. Green Iguana Society hafa farið þá leið að telja frekar upp þá hluti sem að má gefa iguana eðlum ásamt því að taka fram það sem að vitað er að sé hættulegt fyrir þær. Nálgast má þann lista hérna eða íslenskaða útgáfu af honum á undirsíðunni hér til hægri "Hvað má gefa iguana eðlum?". Það er svo undir hverjum og einum komið hvað af þessum lista eðlunni er gefið.
Iguana eðlur eru eingöngu grænmetisætur!

Þótt margar kennslubækur um iguana eðlur og jafnvel einstaka manneskjur haldi því fram að þessum eðlum skuli gefin skordýr og annað sem inniheldur dýraprótein, þá hefur það verið margsannað að slíkt getur leitt til alvarlegra og oft banvænna heilsukvilla í eðlunum. Sá misskilningur að þær éti skordýr gæti verið kominn frá því að iguana eðlur eiga það til að éta þau í náttúrunni, þegar þau festast óvart við tunguna á þeim, fylgja með mat sem að eðlurnar eru að borða eða þá að eðlurnar éta þau þegar engin annar matur finnst. Þar sem eigendur iguana eðla sjá alfarið um hvað fer ofan í þær ættu skordýr og annað matarkyns sem að inniheldur dýraprótein að vera fjarri matardiski eðlunnar öllum stundum.

Hvernig iguana eðlur borða og drekka.

Iguana eðlur hafa margar litlar tennur sem þær nota til þess að rífa matinn með í stað þess að tyggja hann. Oftast taka þær stóra bita og gleypa hann í heilu lagi og stundum pota þær tungunni í matinn og veiða hann þannig upp í sig. Þegar þær drekka reka þær höfuðið ofan í vatnið og þamba, en stundum lepja þær það eins og kettlingar. Þær eiga það líka til að lepja vatnsdropa sem að hafa sest á ýmis yfirborð.

Mikilvægi þess að útvega ferskt vatn og mat.

Gamalt og/eða fúlt vatn og skemmdur matur geta leitt til alvarlegra heilsukvilla hjá eðlunni ásamt því að bjóða upp á að smásæir, óboðnir gestir setjist að í búrinu. Vatn ætti því alltaf að vera nýtt og skipt um daglega og maturinn ætti sömuleiðis að vera nýr.

Hversu oft ætti að gefa iguana eðlum að borða?

Mælt er með því að þeim sé gefið á hverjum degi... jafnvel tvisvar til þrisvar á dag, en sumar bækur segja þó að í lagi sé að gefa fullvaxta eðlum annan hvern dag eða á nokkura daga fresti. Þó er ekki snyðugt að láta líða meira en einn dag á milli matargjafa og ef maður vill vera viss um að eðlan sé að fá næga næringu og sé södd og ánægð, þá ætti að gefa henni daglega.

Hversu mikið á að gefa þeim í einu?

Það fer eftir stærð og aldri eðlunnar. Það er ekki hægt að gefa iguana eðlu of mikið að borða, hún hættir að borða þegar hún verður södd þannig að það er best að gefa henni þar til hún hættir sjálf að borða. Eftir að hafa átt eðluna í dágóðan tíma mun eigandinn fara að þekkja hversu mikið hún borðar og getur þá hagað matargjöfinni eftir því. Eftir að eðlan er hætt að borða og virðist ekki ætla að fá sér meira í bili (sumar narta aðeins, taka rúnt um búrið/herbergið og koma svo aftur og fá sér meira) þá er best að taka matinn svo hann skemmist ekki og lendi í því ástandi í gini eðlunnar. -Að auki stuðlar það að hreinna búri í lengri tíma.

Hvenær er best að gefa þeim að borða?

Það er best að gefa þeim að borða á morgnanna, um klukkutíma eftir að hún vaknar. Þá hefur hún góðan tíma til þess að liggja á sólbaðsstaðnum sínum í réttu hitastigi til að melta matinn sem best. Þess vegna er einmitt ekki snyðugt að gefa þeim seint á kvöldin, því meltingin getur virkað illa á meðan þær sofa og hafa ekki UVB geislann og hitann til þess að hjálpa við meltinguna. Það er líka góð regla að gefa þeim að borða nokkurn vegin alltaf á sama tíma dags, það einfaldar það verk að þjálfa þær í að gera þarfir sínar alltaf á sama stað í búrinu seinna um daginn.

Matardallar og vatnsskálar.

Maturinn ætti að vera gefinn í eitthvers konar grunnri skál sem er þrifin reglulega. Iguana eðlur róta í matnum og príla stundum ofan á dallana sína, svo það er best að hafa dall sem ekki er auðvelt að hvolfa. Það er eiginlega snyðugast að nota einnota diska fyrir matinn, þeir eru fáanlegir ódýrt í flestum matvöruverslunum og svo fara þeir í ruslið eftir hverja matargjöf og spara þannig tíma og fyrirhöfn. Það er mikilvægt að staðsetja matar og vatnsdalla rétt í búrinu. Helst ekki á botninum þar sem líkurnar eru meiri á því að eitthvað rusl (hamur, saur, þræðir úr klifurköðlum.....) geti dottið yfir matardiskinn og þannig óvart hafnað í gini eðlunnar. Það ætti líka að halda döllunum í góðri fjarlægt frá "klósetti" eðlunnar. Best er svo að hafa fleiri en eina vatnsskál. Vatnsskálar sem eru staðsettar á botninum eru líklegar til þess að enda sem klósett fyrir eðluna, en þær hafa áráttu til þess að gera þarfir sínar í vatn. Ef eðlan hefur ákveðið að nota vatnsskál sem salerni er mikilvægt að það sé önnur skál með hreinu vatni til staðar í búrinu sem að eðlan getur drukkið úr. Stærð vatnsskálanna ætti að vera það lítil að eðlan nái ekki að klifra ofan í þær.

Þjálfaðu eðluna þína í vatnsdrykkju!

Eðlurnar munu venjulega drekka vatn úr skál eða öðru íláti. Það má vel vera að þú takir ekki eftir því, en oftast drekka þær vatn í eitthverju magni. Best er þó að vera viss um að eðlan fái nóg vatn og þá er snyðugt að þjálfa eðluna í vatnsdrykkju. Góð leið til þess er að setja daglega eitthvað sem eðlunni þykir gott að borða ofan í vatnsdall og láta inn í búrið og eðlan mun þá fá góðan sopa að vatni í leiðinni þegar hún étur úr vatnsdallinum, og vonandi fá sér nokkra vatnssopa eftir á. Ef eðlan þín borðar það sem þú settir í vatnsdallinn reglulega, þá er gott að gera þetta aftur daginn eftir og svo smátt og smátt minka stærð þess sem þú situr í vatnsdallinn daglega á nokkrum vikum eða jafnvel mánuðum þar til á endanum ertu bara farin/n að setja dall með engu nema vatni í búrið og eðlan mun þá sennilega halda áfram að drekka. Jafnvel þótt þú sjáir eðluna þína drekka vatn, er sterklega mælt með þessari aðferð til að auka vatnsdrykkjuna jafnvel enn meira og tryggja þar með að eðlan þjáist aldrei af ofþurrki og fylgikvillum hans. Önnur leið til þess að auka á vatnsmagnið sem að eðlan drekkur er að koma fyrir gosbrunni inni í búrinu. Hægt er að fá slíka brunna í Fiskó í Kópavoginum og kosta þeir eitthvað á milli 8000 og 9000 kr. þegar þetta er skrifað.

Að úða matinn með vatni.

Að úða matinn með vatni er önnur góð leið til þess að tryggja að eðlan fái nægan vökva. Þetta er einfaldlega gert með því að úða yfir matinn með blómaúðara (kaupa nýjan brúsa fyrir þetta verk, því notaðir blómaúðarar geta innihaldið áburð sem er eitraður fyrir eðluna!). Maturinn er þá oft úðaður reglulega eða bara þegar þér finnst eðlan ekki vera að drekka nóg af vatni úr þeim mat sem þú ert að gefa henni. Aftur skal það tekið fram að það er mikilvægt að fjarlægja matarleifar skömmu eftir að eðlan hættir að borða til að tryggja að hún éti ekki skemmdan mat.

Mikilvægi rétts hitastigs.

Ef hitastigið er ekki rétt mun eðlan ekki ná að melta fæðuna. Lágmarkshitastig eftir að iguana eðla borðar er 30°C.

Fjölbreytni!

Það er mjög mikilvægt að hafa eðluna á fjölbreyttu og hollu mataræði. Viltar iguana eðlur borða mikið af mismunandi jurtum og eðlur í manna höndum ættu að hafa rétt á því líka. Það vill engin borða sama matinn á hverjum degi. Eftir að hafa átt eðlu í svolítin tíma muntu átta þig á því hvað henni finnst best að borða og þá er hægt að hafa það oftar á matseðlinum.

Mikilvægi hlutfalls kalks á móti fosfórs í fæðu.

Það er lífsnauðsynlegt fyrir iguana eðlu að hafa sterk bein. Einn mikilvægasti þátturinn í að hafa iguana eðlur á réttu mataræði er að halda kalk á móti fosfór hlutföllunum (Ca:P) í um 2 á móti 1. Þetta er nauðsynlegt til þess að beinin vaxi hratt og vel og haldist jafnframt sterk. Sumir ávextir/grænmeti innihalda mikið kalk, en lítin fosfór á meðan aðrir hafa lítið kalk og mikin fósfór. Þá er gott að gefa eðlunni kalkríkari kostinn tvisvar sinnum oftar en fosfórkostinn. En ekki gleyma þér í Ca:P hlutföllunum, það þarf líka að gæta að öðru næringarinnihaldi og viðhalda fjölbreittu fæði.

Hvað sólarljós/UVB gerir fyrir eðluna.

Iguana eðlurnar framleiða D3 vítamín þegar þær eru í UVB geislum. D3 vítamínið nota þær svo til þess að vinna kalk úr fæðunni. Ef ljósið vantar verða þær alvarlega veikar og deyja á endanum.

Holli maturinn.

Hér fyrir neðan verða taldar upp nokkrar góðar tegundir grænmetis, ávaxta o.fl. Prósentutölurnar eru miðaðar við töflu sem finna má á Green Iguana Society heimasíðunni. Maturinn sem er gefinn "einstaka sinnum" ætti aðeins að finnast í matardalli eðlunnar á nokkura mánaða fresti. -Ég á í smávegis basli með þýðingar á nokkrum heitum og er öll hjálp vel þegin!

Kál (40-45%):
Collard greens, næpa/hnúðkál (turnip greens), sinnepskál (mustard greens), Túnfífill (dandelion greens) (með blómum), escalore, vatnakarsi (water cress).
Annað grænmeti (40-45%):
Grænar baunir, valhnotukúrbítur (butternut squash), Kabocha squash, snap baunir, snow baunir, nípa (parsnip), aspas, okra, alfaalfa (þroskað, ekki stönglar), laukar, sveppir, paprikka, sætar kartöflur, zocchini, gulur kúrbítur, gulrætur.
Ávextir (10% eða minna):
Fíkjur (hráar eða þurrkaðar), krækiber, jarðaber, rifsber, greipaldin, mangó, melónur (cantelope, honeydew, vatnsmelóna), papaya, bananar, epli.
Kornfæði (minna en 5%):
Soðin hrísgrjón eða pasta, heilhveitibrauð (snyðugt til lyfjagjafar eða sem verðlaun/nammi)
Viðbætt prótín (minna en 5%):
Alfalfatöflur (t.d. háklassa kanínufóður eða heilsubótartöflur).
Annar matur sem hægt er að gefa einstaka sinnum (minna en 5%):
Sjá listann hér að neðan yfir mat sem ekki má gefa iguana eðlum of oft, en gætu samt sem áður aukið á matarúrvalið. Gæti líka verið snyðugt að blanda þeim einstaka sinnum við annan mat.

Oxalates og phytates.

Ég á eftir að fá almennilega þýðingu á heitum þessara tveggja efna, en þau má finna í ýmsu grænmeti og hefur verið sýnt fram á að þessi efni geta bundið kalk í líkamanum þannig að fólk getur ekki unnið úr því almennilega. Það er hins vegar ekki búið að rannsaka áhrif þessara efna á iguana eðlur, en best er að hafa öryggið í fyrirúmi og forðast að gefa eðlunum mat sem að inniheldur þessi efni. Hér fyrir neðan er listi yfir fæðu sem að inniheldur efnin tvö og ætti því aðeins að gefa eðlunum eftirfarandi einstaka sinnum eða aldrei:

Spínat rófa, rófukál, swiss chard, súra, sorrel, heilhveitikorn (whole grains) sellerýstönglar, kál (kale), gulrótatoppar (carrot tops).


Cruciferous grænmeti og goitrogen.

Aftur skortir mig íslensk orð ("goitre" þýðir skjaldkyrtilsauki), en þetta verður vonandi komið í lag innan tíðar. Það er mikið til af grænmeti sem að inniheldur goitrogen. Goitrogen er efni sem bindur járn í líkamanum og hindrar hann í að vinna úr því. Þetta getur hindrað vöxt og andlegan þroska. Grænmetið sem að inniheldur goitrogen tilheyrir yfirleitt svokölluðum cruciferous flokki. Það er í lagi að gefa þetta einstaka sinnum og þá helst blandað við eitthvað heilsusamlegra og aldrei of mikið. Eftirfarandi er upptalning á grænmeti sem að inniheldur goitrogen:

Kál (kale), spergilkál (brocolli), hvítkál, bok-choi, rófa/næpa/hnúðkál, brusselspýrur (brussels sprouts), blómkál (cauliflower), gulrófa (rutabaga), tófú.

Matur sem ALDREI ætti að gefa iguana eðlum!

Það er mikið af mat þarna úti sem að er verulega skaðlegur fyrir iguana eðlur og hér á eftir fylgir lítill listi yfir það helsta, en ekki örvænta þó ef að eðlan hefur borðað eitthvað af þessu áður, en þá skal hætta að gefa henni þetta héðan af, enda inniheldur mikið af þessu dýraprótín sem að skemmir nýru eðlunnar á löngum tíma.

Skordýr, ormar, mýs, músarungar - Inniheldur allt dýraprótín og er ekki étið af eðlum úti í náttúrunni.
Mjólkurvörur svo sem mjólk, ostur, jógúrt, skyr o.s.frv. - Mjólkurvörur eru fyrir spendýr, ekki skriðdýr.
Egg - Innihalda dýraprótín ásamt hættulega miklu magni fosfórs og fitu.
Hundamatur, kattamatur, skjaldbökufóður o.fl. gæludýrafóður sem að inniheldur dýraprótín - Inniheldur dýraprótín og hættulega hátt magn fitu.
Kjöt (fiskur, kjúklingur, lambakjöt, nautakjöt o.s.frv..) - Dýraprótín og ekki besti fæðukosturinn fyrir grænmetisætur eins og iguana eðlur.
Rabbabari - Eitraður og ætti ekki að koma nálægt iguana eðlum!
Viltar plöntur og blóm - líkurnar á því að þetta hafi verið úðað eitri, bílamengun liggi á þessu, plantan sé eitruð sjálf, plantan sé sýkt af snýkjudýrum o.fl. eru of háar.
Súrir ávextir eins og sítrónur, appelsínur, greipaldin, súraldin (lime), kíví, tómatar o.fl. - Flestum eðlum þykir þetta vont, en að auki eiga þær mjög erfit með að melta þessa ávexti og þær borða þetta ekki úti í náttúrunni.
Tófú - Þrátt fyrir að innihalda mikið af prótínum, er tófú mjög fituríkt og inniheldur goitrogen, í lagi að gefa einstaka sinnum, en aldrei oftar.

Hvar fæst maturinn?

Það getur reynst sérlega erfitt að finna mest af þessu fáa sem að iguana eðlurnar meiga upp í sig láta hér á landi, en ég held að besta úrvalið sé í aldingörðum Hagkaupa í Kringlunni og í Smáralindinni. Að auki er sumt að þessu bara til á vissum árstíma. Það er gott að spyrjast fyrir og hringja í verslanir til að athuga málin hvar hvað fæst og hvenær.

Frosið grænmeti í pokum.

Hægt er að þýða þessa poka og gefa eðlunni úr þeim annað veifið. Það er gott að eiga svona poka í frystinum ef upp skyldi koma skortur eða annars konar neyðartilfelli. Þetta er samt ekki nógu góður matur til daglegrar gjafar og best að gefa ferskt grænmeti. Hægt er að mylja B1 vítamín yfir þetta ef það þarf að gefa þeim frosið grænmeti oft, en það kemur samt ekki í staðinn fyrir ferskt grænmeti.

Matarvenjur og matvandar eðlur.

Sumar iguana eðlur vilja helst svona og ekki hitt. Ekki láta eðluna þína temja þig í að gefa sér bara matinn sem hún vill. Gott er að blanda hollum mat sem hún er ekki spent fyrir saman við mat sem hún er æst í til þess að koma í veg fyrir þetta vandamál. Á endanum mun matarlystin breytast. Að gefa blandaðan mat og sallöt oft getur komið í veg fyrir að eðlan verði matvönd síðar meir. Ekki gefast upp á því að gefa henni rétta fæðið þótt hún vilji það ekki, það leiðir til heilsukvilla og vandræða síðar meir.

Handmötun.

Að gefa iguana eðlu úr lófanum er gaman og getur gert kraftaverk hvað tamningu varðar, en ekki stunda þetta of oft, því þá gæti það endað með því að eðlan vilji ekki matinn nema úr þínum höndum. Þetta gæti orðið til vandræða síðar meir ef þú þarft t.d. að skreppa til útlanda í sumarfrí í tvær vikur og eðlan sveltur á meðan.
Einnig ber að gæta ýtrustu varúðar, sérstaklega með stórar eðlur, þegar gefið er úr lófanum. Jafnvel blíðustu eðlur geta bitið óvart í græðginni og stórslasað eigendur sína. Taktu aldrei augun af eðlunni þegar þú gefur henni úr lófanum og færðu hendina örlítið til þannig að sem minnst hætta sé á því að hún bíti þig óvart.

Að rækta grænmeti fyrir eðluna sjálf/ur.

Þetta er góð hugmynd ef maður vill vera 100% viss um að eðlan fái alveg aukaefnalaust fæði, en því miður, vegna veðráttu hér á landi gæti reynst erfitt að rækta nema rétt yfir hásumartímann. Það er samt eitt grænmeti sem að vex mjög vel í heimahúsum úti í glugga og er jafnframt sérlega hollt fyrir eðluna, og það er alfalfa. Hægt er að rækta nógu mikið af því í gluggum til þess að gefa eðlunni reglulega af því.

Varðandi húsplöntur og eitraðar plöntur.

Það þarf að passa upp á að iguana eðlur komist ekki í húsplönturnar á heimilinu. Margar eru eitraðar og því betra að hafa vaðið fyrir neðan sig og passa að eðlan komi ekki nálægt þeim... Ef eðlan fær að klifra í plöntu, þá ætti að hafa auga með henni og passa upp á að hún kræki sér ekki í mögulega eitrað snarl í leiðinni.