Svo þú hefur ákveðið að lesa þér til um iguana búr. Mjög gott! Iguana eðlur þurfa mjög sérstök búr og mjög stór búr vegna þess að þær hafa í þúsundir ára aðlagast hinu náttúrulega umhverfi sínu, sem að er síðan verulega frábreytt umhverfinu sem að finnst í flestum heimahúsum á Íslandi. Það er því mikilvægt að þú skiljir þarfir eðlunar áður en þú leggur í það að byggja búrið.
Iguana eðlur þurfa sérstakt ljós sem þær nýta til þess að melta fæðu, þrjú mismunandi hitastig í búrinu, hátt rakastig, góða aðstöðu til þess að klifra og margt fleira... Ef eitthvert þessara atriða er ófullnægjandi í eðlubúrinu mun eðlan þjást, missa græna litinn, verða vanhraust og hreyfingarlítil og að lokum deyja.
Ég ætla því að fara í gegn um grunnatriðin sem þurfa að vera til staðar í iguanaeðlubúri til þess að auðvelda þér verkið, en nánar er farið út í smáatriðin á undirsíðunum sem nú hafa byrst hér til hægri.

Stærðin:

Það er sérstaklega mikilvægt að átta sig á því að iguana eðla í góðri umhirðu mun verða vel yfir tvo metrana að lengd! Margir halda að iguanaeðlur stækki bara eftir því hversu mikið pláss er í búrinu þeirra, en það er rangt! Ef eðlan stækkar ekki, þá er ekki rétt um hana hugsað og hún sennilega alvarlega veik.
Iguana eðlur vaxa alla æfi, hratt í fyrstu, og svo hægist á vextinum eftir því sem þær eldast. Iguanaungi mun vaxa upp úr 200 lítra búri á fyrsta aldursári, þannig að áður en þú ræðst í að kaupa þér iguana eðlu skaltu fullvissa þig um að þú hafir pláss fyrir nægilega stórt búr eða laust herbergi fyrir eðluna.

Gott iguana búr ætti að vera tvöföld lengd eðlunnar og ætti að auki að vera hátt. 180 cm er lágmarks hæð á iguana búri. Iguana eðlur lifa í trjánum og líður því best þegar þær eru hátt uppi, en að auki eiga þær það til að vera klaufskar og því best að gera ráðstafanir við uppsetningu búrsins sem að munu draga úr hámarks fallhæðinni. Dýpt búrsins ætti að vera a.m.k. helmingur lengdar eðlunnar.
-Þannig að búr fyrir fullvaxta iguana eðlu ætti helst að vera að lágmarki fjórir metrar á lengd, einn meter að dýpt og 1.8 metra hátt!
Of lítið búr mun gera eðluna mjög viðskotailla og erfiða viðureignar, en að auki mun það sennilega skaða eðluna líkamlega líka. Eðlur sem að eru í of litlum búrum eyða stórum hluta dagsins í að þrýsta höfðinu utan í glerið/veggina og klóra meðfram köntum búrsins í leit að undankomuleið. Búr sem að eru of lítil hamla einnig hreyfigetu eðlunnar, ef hún nær ekki að klifra nóg og trítla um munu vöðvarnir rýrna. Ef þú hefur ekki pláss fyrir nógu stórt eðlubúr, og gerir ekki ráð fyrir því að hafa pláss fyrir það þegar eðlan nær fullri stærð, geturðu hætt að lesa núna og byrjað að íhuga að fá þér smærra gæludýr.

munurinn á fullorðinni eðlu og ungri.
Myndin hér að ofan sýnir muninn á fullorðinni iguana eðlu og ungri!
-Myndin er tekin af Diane Remphrey.



Hitastigið:

Þar sem iguana eðlur eru frá hitabeltinu og hafa kalt blóð þurfa þær búr sem að býður upp á mikinn hita. Þú þarft að útbúa "sólbaðsstað" fyrir hana sem að er á milli 32 - 35°C heitur hitinn annars staðar í búrinu ætti ekki að vera minni en 26°C. Iguana eðlur í búrum sem að eru of köld ná ekki að melta fæðuna rétt, vaxa lítið, verða óvirkar, þjást af næringarskorti og vanlíðan og deyja á endanum fyrir aldur fram. Eðlurnar verða líka að hafa dag og nótt í búrinu sínu, þannig að þú verður að halda hita á búrinu án þess að nota ljós á nóttunni. Margar aðferðir eru í boði og eru þær ræddar frekar á Hiti, ljós og raki síðunni.



Ljósabúnaðurinn:

Iguana eðlur VERÐA að hafa sérstök UVA og UVB ljós! UVA ljós örva náttúrulega hegðun eðlunnar með því að gefa frá sér hluta náttúrulegs sólarljóss. UVB er mikilvægt fyrir iguana eðlur af öðrum ástæðum. Án þess, munu líkamar þeirra ekki geta framleitt D3 vítamín og ekki getað unnið kalk úr fæðunni. Eðlur sem að fá ekki UV ljós þjást af svokölluðum MBD (Metabolic bone disease) sjúkdómi, en þá fara beinin að "mygla" inni í eðlunni og afmyndast, lömun fylgir oftast í kjölfarið þegar hryggjarliðirnir afmyndast eða brotna vegna veikleika og undantekningarlaust (lömuð eða ekki) deyr eðlan á endanum fyrir aldur fram. Þessi sjúkdómur er því miður allt of algengur hjá iguana eðlum, sérstaklega þeim sem haldið er hér á landi. Þetta er synd, því auðveldlega er hægt að koma í veg fyrir hann með því að setja eina UVA og UVB flúorperu inn í eðlubúrið. Allt of algengt er líka að iguana eðlur þjáist af MBD þrátt fyrir að réttu perurnar séu til staðar... Þá er það vegna þess að peran er of dauf fyrir iguana eðlutegundina, peran er staðsett í meiri fjarlægð en 30 cm frá eðlunni eða þá að peran sé staðsett þannig að það sé gler, net eða plast á milli hennar og eðlunnar, en þá gerir hún ekkert gagn.

Langbesta uppspretta UV geisla er sólin, en því miður er lítið af henni hér á klakanum. Á þessum tveimur til þremur sólardögum sem við fáum á ári, þar sem hitastigið er einnig hátt er því góð hugmynd að kíkja út á svalir með eðluna. Mundu bara að passa vel upp á að eðlan hlaupist ekki á brott, því ef hún næst ekki fljótlega mun hún deyja úr kulda innnan nokkura klukkustunda. Athugaðu einnig að það er ekki nóg að skella eðlunni bara í gluggakistuna þegar sólin skín, því glerið síar burtu alla geislana og það eina sem eðlan fær er hiti. Eðlur dýrka samt gluggakistur og þykir gaman að horfa út og fylgjast með lífinu úti, það er því snyðug hugmynd að leyfa eðlunni að vera þar í dálítin tíma einstaka sinnum til að brjóta upp hversdagsleikann. En ekki of oft og ekki of lengi, því oftast er ekki nægur hiti, raki og UV geislar í gluggakistunni til að halda eðlunni hraustri.

UV ljós fyrir skriðdýr fást nú þegar í mörgum gæludýrabúðum, þar sem sumar tegundir froska og salamandra þurfa ljósið og þær eru löglegar hérlendis. Þar sem sjaldan sést almennilega til sólar hérlendis lifir iguana eðla ekki hér án slíks ljóss. Það eru fjölmargar tegundir í boði og allar með mismunandi styrkleikum. Skoðaðu Hiti, ljós og raki síðuna til þess að lesa nánar um hvaða ljós er best, hvar þau fást og hvert þau eiga að fara í búrið.



Rakastigið:

Iguana eðlur þurfa hátt rakastig í búrinu sínu. Aðaldánarorsök iguana eðla í manna höndum er ofþurrkur af völdum ófullnægjandi rakastigs og/eða vegna þess að eðlan fær ekki nógu mikið vatn að drekka/drekkur ekki vatnið sem henni er gefið. Eðlurnar virðast ekki drekka nógu mikið þótt nóg sé af fersku vatni til staðar, gæti það verið t.d. vegna þess að í náttúrulegu umhverfi þeirra er rakastigið mjög hátt og maturinn þeirra sömuleiðis rakamikill eða einfaldlega vegna þess að vatnið í skálinni hreyfist ekki og þær einfaldlega sjá það ekki. Ofþurrkur veldur nýrnaskaða og dregur eðlurnar til dauða, en að auki eiga eðlur mun erfiðara með hamskipti þar sem rakastig er ófullnægjandi, þetta getur átt þátt í því að orsaka ólögulega eða brotna gadda á bakinu ásamt vaxtarvandamálum. Þess vegna er mikilvægt að rakastigið sé nægilega hátt, eða á bilinu 65 til 75%. Leiðir til þess að halda rakastiginu uppi eru gefnar upp á Hiti, ljós og raki síðunni.



Niðurstaða:

Eins og þú hefur nú lært, þá getur reynst erfitt að útbúa búr sem fullnægir öllum þeim skilyrðum sem iguana eðlan þarf. Hins vegar er það mjög mikilvægt að þú skiljir að það er nauðsynlegt að þetta sé allt til staðar á fullnægjandi hátt í búrinu. Hlutirnir hér að ofan eru ekki bara eitthverjir hlutir sem að eðlan vill, heldur hlutir sem að eðlan þarf til þess að vera hraust og ánægð. Nú þegar þú hefur lesið um það sem að þarf að vera til staðar er næsta skref að læra hvernig þú getur komið þeim fyrir í búrinu. Þú þarft einnig að hugsa um hvaða efni þú ætlar að nota fyrir eðluna til þess að klifra í, hvaða efni verður í botninum á búrinu og hvaða ljós, hita og rakabúnaður verður til staðar og hvernig þú ætlar að setja hann upp. Þannig að það er enn margt eftir ólært um hvernig eðlubúrin þurfa að vera!