Iguana eðlur þurfa sérstakar UV perur í búrið sitt til þess að halda lífi. Þær nota ljósið til þess að mynda D3 vítamín sem þær síðan nota til þess að vinna kalk úr fæðunni. Ef þær fá ekki rétt ljós ná þær ekki að vinna kalkið úr fæðunni og taka því að draga kalkið úr sínum eigin beinum til þess að halda taugakerfinu gangandi. Þegar eðlan tekur kalkið úr beinunum veikjast þau stórkostlega og þau munu óhjákvæmilega brotna á endanum og gróa aftur snúin og afmynduð. Þetta ástand kallast MBD (Metabolic Bone Disease) og mun á endanum leiða eðluna til dauða ef ekkert er að gert.
Helstu einkenni MBD eru: Snoppan og/eða kjálkinn á eðlunni verður svampkenndur viðkomu (leiðir til þess að það verður sársaukafullt fyrir eðluna að borða og hún gæti misst matarlyst), eðlan tútnar út (virkar voða feit), gaddar á baki verða svartir og detta af, beinin verða mjög mjúk og brotna við minnsta átak, lömun (oftast afturfætur og halinn) og eðlan skelfur þegar haldið er á henni.
Bein sem brotna vegna þessa súkdóms gróa aftur snúin og bogin og verða aldrei söm aftur. Þess vegna er best að lesa sér vel til um hita, lýsingu og mataræði dýranna sem fyrst. Ef þú átt, eða veist um einhvern sem að á eðlu sem ber sýnileg einkenni MBD þá þarf hún að fara STRAX í kalksprautu hjá dýralækni. Og svo aftur reglulega þar til hún fer að hressast, sé ekki orðið um seinan.

MBD hrjáð iguana eðla
Þessi litli vinur hefur þjáðst af MBD.
-Að auki þarf peran sem þú ákveður að velja í búrið að vera nógu öflug fyrir iguana eðlur, ekki vera lengra frá eðlunni en hámark 30 cm (ef þetta er flúorpera) og alls ekki má staðsetja peruna þannig að nokkuð sé á milli eðlunnar og perunnar, ekki einu sinni gler eða vírnet!
Það ætti að minsta kosti að vera ein, góð UVB pera yfir sólbaðsstað eðlunnar í búrinu, þar sem hitinn er mestur. Þessir staðir eru iðulega hafðir hæst í búrinu þar sem eðlunni líður best.

UV Perurnar gefa frá sér geisla sem mældir eru í mælieiningunni uW/cm2, þ.e. hversu sterkir geislarnir eru per fersentimeter. Miklu máli skiptir líka hversu langt frá perunni er mælt.

Mælt er með því að iguana eðlur fái að meðaltali 75 til 150uW/cm2 sex klst. á sólarhring (þessar tölur skýrast betur með feitletruðu tölunum hér fyrir neðan). En algert lágmark er 10uW/cm2. Eðlan ætti þó að geta haldið góðri heilsu með UV á bilinu 20 - 40 uW/cm2. Misjafnt er svo eftir eðlutegundum hversu mikið af svona geislum þær þurfa.

Því hærra því betra, en ekki ofgera þessu samt því úti í náttúrunni liggja iguana eðlur í sólbaði á morgnanna og seinni part dags, en leita skjóls undir laufblöðum í hádeginu þegar UV geislunin er sem mest (allt að 450uW/cm2). Undir laufblöðunum fá þær samt endurkast UV geislanna sem mælist ekki ósvipað og bein geislun að morgni og seinni part dags (allt að 200uW/cm2).
UV flúorperurnar gefa frá sér svona geisla sem eðlan þarf, en einnig eru til svokallaðar "MV" perur (sjá nánar neðar á síðu). Geislarnir eru mestir næst perunni, en dofna svo hratt með aukinni fjarlægð.


Hentugasta peran sem ég hef fundið hingað til er Repti-Glo 8.0 (fæst í Fiskó) og gefur hún frá sér þessar tölur:

í 5 cm fjarlægð: 220 - 280 uW/cm2 (fer eftir aldri perunnar)
í 10 cm fjarlægð: 120 - 150 uW/cm2
í 15 cm fjarlægð: 70 - 100 uW/cm2
í 20 cm fjarlægð: 50 - 70 uW/cm2
í 25 cm fjarlægð: 40 - 50 uW/cm2
í 30 cm fjarlægð: 30 - 40 uW/cm2
í 35 cm fjarlægð: 20 - 30 uW/cm2

(hæstu tölurnar hér að ofan eru úr splunkunýrri peru og þær lægstu úr peru sem hefur logað í samtals 4000 klst).

En að auki hefur ZooMed 5.0 verið að fá svipaðar tölur og Repti-Glo 8.0 við prófanir, en hentugasta peran, ZooMed Reptisun 5.0 hefur ekki enn fundist í dýrabúðum hérlendis. Endilega látið mig vita ef þið finnið slíka peru og ég mun uppfæra síðuna eins fljótt og ég get!

Hér er listi yfir áhugaverða hluti sem komið hafa í ljós við hlutlausar prófanir á ýmsum UVB perum:

-Lengd perunnar skiptir verulega miklu máli. 24" perur gefa frá sér yfir tvöfalt sterkari geisla en 15" perur sömu tegundar.
-Perur hafðar fyrir utan búr, sem ekki eru úr neti, gera ekkert gagn. Perur hafðar fyrir utan búr sem eru úr neti gera mun minna gagn en áður hefur verið talið, netið síar burt helling af geislum. Færa ætti peruna inn í búrið eða þá kaupa aðra til þess að vinna með hinni.
-Styrkur UVB peranna fellur mjög, mjög mikið á hvern sentimeter (í fjarlægð frá perunni).
-Plöntur draga til sín UVB ljós. Ef mikið er af plöntum í búrinu, getur það hindrað að skriðdýrið fái næga UVB geisla.
-Svæði í búrum sem eru hugsuð sem basking staður (UVB sólbaðsstaður) fyrir eðlurnar ættu að vera algerlega plöntulaus.
-Notgun svokallaðra "Reflektora" getur margfaldað afl UVB perunnar og er mælt með notgun þeirra.


Reflektor
Reflektor; stykki sem fer yfir perunna þeim megin sem óþarft er að UVB geislarnir nái. Stykkið beinir þá geislunum öllum í eina átt. Hægt er að fá ýmsar gerðir af þessum stykkjum... Margir búa þá til sjálfir úr nokkrum lögum af álpappír (ATH: Hægt er að brenna álpappír, ekki hafa hann of nærri perunni!)



Mercury Vapor (MV) perur:

MV perur eru nýleg leið til þess að sjá eðlunni þinni fyrir UVB geislum. Þær skrúfast í venjuleg perustæði eins og hinar hefðbundnu ljósaperur. MV tæknin hefur þróast í stórum stökkum undanfarið og eru MV skriðdýraperurnar mjög áhrifarík leið til þess að sjá iguana eðlum fyrir UVB geislum, og oft jafnvel betri en flúorperurnar. Góðar MV perur gefa frá sér allt að þrisvar sinnum hærri UVB geislun á 290 til 300 nm bylgjulengdinni (D-UV, hagstæðustu geislarnir fyrir iguana eðlur) af heildar UVB geisluninni heldur en flúorperurnar. Það hefur mikið verið rökrætt og rifist yfir öryggi og notagildi þessara pera, og eftir því sem tækninni fleytir meira fram hafa framleiðendurnir smátt og smátt farið að taka við sér og minkað óöryggið og óstöðuleikann í perunum.

Það eru tvær tegundir MV pera þarna úti: Þær með innbyggðri ballest og þær með útværri ballest. Þrátt fyrir að báðar tegundir gefi frá sér stóran skammt af UVB geislum eru þær ansi frábrugðnar hver annari. Perurnar með innbyggðri ballast eru algengari og koma frá þekktum skriðdýramerkjum eins og Mega-Ray, T-Rex spots og ZooMed Powersuns. Perurnar með útværri ballest gefa bæði frá sér hita og UVB geisla. Það gerir þær vissulega mjög að mjög freistandi kosti, en á móti vegur að þær springa mun oftar en perurnar með innbyggðu ballestinni vegna hitans óháð frá hvaða framleiðenda þær koma.

Green Iguana Society hafa mælt með perunni Mega-Ray MV bulb frá Westron lighting/Mac Industries. Sú pera er sögð gefa frá sér hátt magn UVB geisla og betri endingu en samkeppnisaðillarnir. Sú pera er með innbyggðri ballest, en einnig er hægt að fá hana með útværri ballest.

Þegar MV perur eru notaðar er gott að fylgja þessum ráðum:
-Settu MV peruna þína upp samkvæmt ráðleggingum framleiðenda varðandi staðsetningu og fjarlægðir.
-Fylgstu vel með eðlunni og búrinu til þess að ganga úr skugga um að hitastigið haldist rétt.
-Beindu perunni þannig að geislar hennar nái sem minnst til mannfólks eða hafðu gler á milli. Vegna þess hversu mikil UVB geislun kemur frá henni skaltu líta á hana sem náttúrulegt sólarljós. Of mikil vera í ljósinu er ekki æskileg.
-Fylgstu grannt með UVB geisluninni sem að MV peran gefur frá sér með þar til gerðum UVB mæli. Sterkir MV lampar ættu aðeins að vera notaðir á meðan UVB geislun þeirra er mæld reglulega.
-Eins og með flúorperurnar ætti ekkert að vera á milli eðlunnar og perunnar.

Hafa ætti samt varann á varðandi MV perur þar sem að UVB geislunin þeirra er gríðarlega há og oftar en ekki of mikil fyrir iguana eðlurnar.
Á þessari síðu hefur hin virta Melissa Kaplan skrifað álit sitt á MV perum og til að gera langa sögu stutta er hún alls ekki ánægð og mælir á móti þeim... En jafnframt kemur fram að hún hefur aldrei prófað þær því hún þjáist af sólaróþoli og vill ekki þurfa að skýla sér bæði utandyra og innandyra.
Hún tekur jafnframt fram að geislunin frá Reptisun 5.0 flúorperunum sé fyllilega næg til þess að viðhalda hraustri og ánægðri iguana eðlu án þess að valda hættu á húðkrabbameini í eiganda eðlunnar.

Ég, persónulega hef enga reynslu af MV perum, en það sem ég hef lesið um þær til þessa fær mig til þess að mæla frekar með flúorperunum nema fyrir reynda skriðdýraeigendur sem að vita hvað þeir eru að gera... Að auki veit ég ekki um neina verslun sem að selur þessar perur hérlendis og ekki bætti miðinn utan á einni MV perunni úr skák:

WARNINGS.....This product omits ultraviolet rays. Do not look or allow others to look directly into light. Do not use as a reading light or tanning light. Turn off the lamp if working closer than minimum distance requirements for an extended period of time. Cannot be used on a dimmer or thermostat. If turned off / on again, it will not relight for at least one minute.

Ef þú ákveður að nota MV peru skaltu fylgja leiðbeiningunum til hins ýtrasta og passa að eðlan komist ekki of nálægt perunni og að hún geti auðveldlega komið sér í skugga frá henni.