Iguana eðlur þurfa mjög hátt rakastig og er þetta meðal erfiðustu þáttanna sem gott iguana búr þarfnast, enda ofþurrkur algengasta dánarorsök iguana eðla í manna höndum. Rakastigið ætti alltaf að vera á milli 65 og 75% í búrinu. Ein leiðin til þess að halda eðlunni rakri er að úða hana oft á dag með hreinu vatni úr hreinum blómaúðara (og passa vel upp á að úðarinn hafi ekki verið notaður áður með áburði... best er að kaupa nýjan spes fyrir eðluna). Önnur leið er að baða eðluna daglega og er þetta ráðlagt bæði vegna rakastigs og hreinlætis. Iguanabúr á íslandi ættu EKKI að vera byggð úr vírneti, grindum eða öðru sem að heldur ekki rakanum inni. Plexigler og viður er algengasta og nothæfasta efnið hérlendis, en hér er loftið iðulega frekar þurrt. Gæta þarf þess þó að loft komist inn í búrið því ekki viljum við kæfa grey eðluna.
Rakastigið má heldur alls ekki vera of hátt, því það getur valdið myglu og sveppum bæði í búrinu og á eðlunni sjálfri. Það er mjög mikilvægt vegna þessa að staðsetja amk tvo rakastigsmæla innan í búrinu hafa auga með þeim.

Einn besti kosturinn sem völ er á til þess að halda iguanabúrunum rökum er sérstakur rakabúnaður sem mun úða raka inn í búrið með reglulegu millibili. Þessi tæki eru nær undantekningarlaust rándýr og gæta þarf þess að þau hækki rakastigið ekki of mikið... Ég hef þó rekist á eitt rakatæki sem að er betra en nokkuð annað rakatæki sem ég hef fundið hingað til, en er samt á mun lægra verði og það má finna hérna. Tækið kallast HumidityControl II og það sem að er sérstakt við þetta tæki er að hægt er að stilla það nákvæmlega á það rakastig sem maður vill að það haldi í búrinu og tækið sér um restina, en að auki er hægt að stilla inn á það mismunandi rakastig fyrir dag og nótt. Tækið kostar rétt rúmar 8.000 krónur (ef pundið er 131,77), en gæti verið komið heim að dyrum fyrir samtals rétt rúmar 20.000 kr. Þetta er lítill peningur fyrir svo nothæft tæki, en það gildir það sama um þetta og önnur eðlutól að mikilvægt er að fylgja nákvæmlega leiðbeiningunum sem með fylgja.
-Ég rakst á sjálfvirkt rakatæki í tveimur gæludýraverslunum á höfuðborgarsvæðinu og voru þau á sanngjörnu verði (sem ég man reyndar ekki í augnablikinu, en það var á milli 10 og 15 þúsund kr.). Verslanirnar sem ég veit að selja þessi rakatæki eru Dýragarðurinn, Síðumúla 10 og svo Gæludýraverslunin vinstra megin við Bæjarins Bestu rétt hjá Kolaportinu.

Enn einn kosturinn er svo að fá sér venjulegt rakatæki, tengja það við þurrkarabarka og leiða hann inn í búrið. Þetta ætti að gefa allt að 20% rakabúst, en þó fer það eftir stærð búrsins. Gufan úr tækinu ætti einnig að vera volg eða köld svo hún skaði ekki eðluna.

Að auki er mjög góð hugmynd að hafa lítinn gosbrunn í búrinu því oft drekka iguana eðlur ekki nægilega mikið vatn þótt alltaf sé til hreint vatn í skál fyrir þær. Úti í náttúrunni er alltaf einhver straumur á vatninu eða gola og það er aldrei alveg hreyfingarlaust eins og það á til að vera í vatnsskálinni í búrinu. Þess vegna er líklegt að iguana eðlan hreinlega sjái ekki vatnið og gosbrunnur getur því gert kraftaverk fyrir eðluna þína. Þá bæði sér eðlan vatnið vel og heyrir í því og er því mun líklegri til þess að drekka meira vatn en án brunnsins. Þótt gosbrunnurinn muni sennilega ekki hækka rakastigið í búrinu mikið, þá mun sú staðreynd að eðlan drekkur meira, minka líkurnar á ofþurrki umtalsvert. Svona gosbrunnur fæst til dæmis í Fiskó og ef minnið bregst mér ekki er sá stæsti á tæpar 9.000 krónur.