Svo þú ert búin/n að lesa þér til um það helsta sem þarf að vera til staðar í búrinu sem að gæti haft áhrif á hönnun þess og ert nú kanski nú þegar komin/n með höfuðfylli af hugmyndum. Ef þú hefur ekki enn lesið Hiti ljós og raki síðuna, þá En það er gott að lesa þessa síðu líka áður en þú ræðst í verkið.
Það er einnig gott ráð að fá auka álit frá nokkrum handlögnum einstaklingum áður en ráðist er í verkið. Slíkt getur lækkað kostnaðinn, fyrirhöfnina og slysahættuna umtalsvert.
Það á það til að henda að eftir að búrið er smíðað komi það upp að eitthvað vantar eða þarf að breyta sem að ekki er gert ráð fyrir í hönnuninni og þá gæti smiðurinn þurft að smíða nýtt búr.


Staðsetningin:

Að byggja gott búr fyrir iguana eðlu krefst mjög mikillar úthugsunar og meðal annars þarf að íhuga hvar búrið á að vera í íbúðinni. Ef þú átt þína eigin íbúð og ætlar að búa þar í mörg ár er ein lausnin að byggja búrið varanlega í íbúðina. En oftast eru búrin byggð þannig að hægt sé að færa þau og góð hugmynd er að úthugsa hönnunina þannig að það verði sem minnst vesen að taka það í sundur ef það skyldi þurfa að færa það á milli herbergja eða íbúða. En aðalhugsunin hér er að finna góðan stað í íbúðinni og mæla út hversu stórt búrið getur verið á þeim tiltekna stað. Ef þú hefur ekki enn kynnst eðlunni sem á að vera í búrinu er örugga leiðin að hafa búrið á einangruðum og fáförnum stað íbúðarinnar til þess að auðveldara verði að temja hana ef þú skyldir lenda á óvenjustressuðum einstaklingi, en einnig er hægt að redda sér fyrir horn hafi maður annan fjölfarnari stað í huga með því að útbúa á búrið rúllugardínur sem hægt er að draga fyrir og ekki eru of mikil læti í. Muna bara að fara varlega í það að draga fyrir ef eðlan er stressuð svo henni bregði ekki.


Að ákveða efniviðinn:

Það eru ekki óteljandi möguleikarnir sem eru í boði hérna í þessu þurra lofti íslands (hér meina ég loftraka en ekki þessa sífelldu rigningu sem að einkennir eyjuna). Besti efniviðurinn þarf að vera vatnsheldur til þess að standast hið háa rakastig sem mun vera í búrinu þannig að hægt er að gleyma því að gera búr úr t.d. vírneti ef eðlan á ekki að deyja úr ofþurrki á fyrsta aldursári sínu.

Hér er listi yfir nokkrar hugmyndir sem hægt er að velja úr:

Gler:
+Glerið er flott. -að er ekki í færi hvers sem er að bora í það göt og hillufestingar.
-Sumar eðlur ráðast á spegilmynd sína í glerinu og geta meitt sig.
-Óhreinindi sjást sérstaklega vel á glerinu.
-Glerið gæti brotnað með hræðilegum afleiðingum t.d. ef einhver dettur á það eða ef byggingin er ótraust.
-Mjög þungt.

Plexigler:
+Ódýrara en gler.
+Ekki eins brothætt.
-Rispast auðveldlega, og iguana eðlur hafa klær...
-Óhreinindi sjást sérstaklega vel á plexiglerinu.
Akron Síðumúla 31
PleXigler Bakkastíg 20 (Keflavík)

Vatnsheldur krossviður:
+Sterkur.
+kemur lakkaður frá verslun.
+Eðlan speglast ekki í honum.
-Þykir ljótur og ódýr í útliti.
-Kostar mikið miðað við annan við.
-Þungur.
-Ekki gegnsær.
Húsasmiðjan.
Timbursala BYKO.


Að auki er svo hægt að kaupa sér annan við og húða með vatnsheldu lakki, en þá þarf að gæta þess að eðlan sé hvergi nærri á meðan lakkið er að þorna, því gufurnar gætu drepið hana. Að auki þarf þá að velja lakkið vel, að það sé nógu sterkt til þess að eðlan klóri það ekki auðveldlega upp og nái að éta agnirnar.


Að láta búrið lofta nógu vel:

Það þarf að hafa það sérstaklega í huga að nóg súrefni komist nú inn í búrið þar sem efniviðurinn er allur loftþéttur sem að stendur til boða. Einnig er gott að vita að hiti stígur alltaf upp, þannig að ef að loftgötin eru ofarlega í búrinu eru líkur á því að of mikill hiti sleppi út. Einnig má búrið ekki lofta of vel, því þá sleppur hitinn og rakinn út í herbergið og íbúðina og getur jafnvel á löngum tíma valdið skemmdum.

Góð leið til að láta búrið lofta mátulega vel er að gera nokkur smá loftgöt efst í búrinu, fleiri göt rétt fyrir neðan sólbaðssvæði eðlunnar og svo slatta af götum við botn búrsins. Þannig mun hitinn í búrinu rísa upp og toga með sér loft inn og upp búrið og út um götin undir sólbaðssvæðinu. Götin efst í búrinu munu sporna við þungu lofti á sólbaðssvæðinu.

Holurnar gætu verið einn til tveir sentímetrar í þvermál og það er góð hugmynd að bora frekar of fáar holur heldur en of margar og bora þá fleiri holur seinna ef í ljós kemur að þess gerist þörf. Hægt er að verja þær með fínu neti eða jafnvel kaupa sérstök stykki sem þú getur notað til þess að stækka eða minka op gatanna og þannig stýrt hversu vel búrið loftar (sjá mynd hér að neðan):
alternatetext
Best er að finna svona stykki sem ætluð eru á gólf, því þau hafa oftast ekki neinar hvassar brúnir sem að eðlan getur meitt sig á. Það er best að staðsetja þessi stykki þar sem að eðlan nær hvorki að fikta í þeim né meiða sig á þeim.
Byggðu búrið þannig að eðlan sleppi ekki!

Iguana eðlur eru hreinir snillingar í að flýgja búrin sín, ef það er leið út, þá finna þær hana og notfæra. Krækjur eða einfaldir lásar þurfa að vera á hurðunum svo eðlan opni þær ekki og öllum götum þarf að loka með sterku vírneti, en gæta þarf þó þess að engir oddhvassir endar standi út sem gætu skaðað eðluna.


Sýnileiki:

Það er jafnmikilvægt að þú getir séð eðluna þína og að hún geti séð þig. Ef eðlan sér þig ekki þegar þú kemur til að opna búrið gæti eðlunni brugðið ákaft og það er því sérstaklega mikilvægt eðlan geti séð þig koma. Hún mun sennilega vera pínu stressuð í nýja búrinu og sumar eðlur geta orðið að algjörum ótemjum við þessa einu yfirsýn hönnunar búrsins. Hurðar búrsins ættu því að vera úr plexigleri eða öryggisgleri sem erfitt er að brjóta. Einnig þarf þá að athuga að það ætti alltaf að vera bjart fyrir utan búrið, helst bjartara en inni í því til þess að halda speglun í lágmarki þannig að eðlan sjái vel hvað er í gangi fyrir utan.
Það þarf einnig að gera ráð fyrir felustað fyrir eðluna, þar sem hún getur falið sig ef hún vill ekki sjást. Þetta þarf helst að vera ágætlega stórt svæði og ætti að vera hluti af búrinu. Þetta er sennilega best leyst með rimla- eða rúllugardínum áföstum búrinu, þannig að hægt verði að draga fyrir að öllu leyti eða að hluta til og þá bara efsti hlutinn (sólbaðssvæðið) hulinn, þar sem aðstæður eru jafnan bestar fyrir eðluna. En einnig er hægt að gera ráð fyrir felustað í botni búrsins með því að hafa háan sökkul og hillu yfir hluta botnsins. Gallinn við botnuppsetninguna er sá að ef að eðlan er verulega hrædd að eðlisfari gæti hún hangið þar öllum stundum og þá þarf að gera ráð fyrir UVB ljósi og háum hita þarna niðri sem að mun hækka hitann enn frekar efst í búrinu.


Notagildi:

Það þarf að hugsa fyrir öllu varðandi notgun búrsins áður en farið er í að byggja það. Búrið þarf að vera hannað þannig að auðvelt sé að þrífa það reglulega og að auðvelt sé að ná eðlunni úr því og skila henni aftur í það. Þetta er leyst með stórum góðum hurðum á framhlið búrsins. Það fer síðan eftir aðstæðum og smekk hvers og eins hvort hurðarnar verði á hjörum eða rennihurðar.

Það þarf einnig að hugsa fyrir því hvar sólbaðsstaðurinn/staðirnir, klifurdót, hitabúnaður, rakabúnaður, ljós og aðrir aukahlutir eiga að vera staðsettir í búrinu. Auðveldast er að byrja á því að ákveða hvar ljósin eiga að vera, svo hitabúnaðurinn út frá því og svo sólbaðsstaðurinn eða staðirnir séu þeir fleiri en einn, svo loks klifurdótið og annar útbúnaður út frá því hvar þú settir ljósin og hitann. Mundu að búrinu þarf að skipta upp í svæði sem hafa mismunandi hitastig sem eðlan getur fært sig á milli. Það þarf að vera a.m.k. eitt sólbaðssvæði þar sem UV ljósið er innan 30 cm og þar sem hitinn er á milli 30 og 35°C, svo svalara svæði, myrkara svæði (s.s. myrkara en sólbaðssvæðið en ekki alveg í svartamyrkri), matarsvæði (best staðsett fyrir ofan gólfið, en samt á svalara svæðinu), tvær vatnsskálar/gosbrunnar (annar við sólbaðssvæðið og hinn við matarsvæðið), staður þar sem eðlan getur burslað, "salerni" og loks felustaður fyrir eðluna.
Öryggi:

Öryggið þarf ávalt að vera í fyrirúmi, ekki eingöngu vegna eðlunnar, heldur einnig vegna þín og þeim sem á heimili þínu eru sem og heimilis þíns sjálfs. Hitabúnaðinn þarf að staðsetja og nota þannig að ekki skapist eldhætta, né að eðlan geti brennt sig á því að fara of nálægt þeim. Þegar þú byggir stórt búr hefurðu nóg svigrúm til þess að staðsetja hitalampa og annan hitabúnað þar sem eðlan nær ekki í hann. Hafðu í huga að margar eðlur eru þekktar fyrir að hoppa langar vegalengdir og hátt upp í loft.


Fegurðargildi:

Flest heimatilbúin búr eru forljót, sérstaklega ef notaður er þessi vatnsheldi krossviður sem ég nefndi áðan, en útlitið batnar þó strax þegar komnar eru gerviplöntur (sem eðlan getur ekki étið n.b.), klifurdót og svo auðvitað eðlan sjálf. Sumir mála jafnvel skógarbakgrunn á búrið, en ég á eftir að lesa mér betur til um það áður en ég þori að mæla með því. Eins og er veit ég ekki um neina málningu sem að iguana eðla myndi ekki drepast við að éta.


Búrið teiknað upp:

Núna ættirðu að hafa betri hugmynd um hvað þú vilt hafa með í nýja búrinu þínu og hvernig það mun á endanum líta út. Því fleiri smáatriði sem þú munt geta teiknað upp og séð fyrir, því auðveldari mun smíði búrsins verða og búrið mun að líkindum einnig líta betur út ef það er betur hugsað fyrirfram.
Byrjaðu á því að rissa gróflega upp hvað þú hefur í huga á nokkur blöð og finna þannig út hvar allt á að vera. Þegar þú hefur teiknað upp draumabúrið skaltu setja inn málin á allar breiddir, dýptir og hæðir og ganga úr skugga um að allt saman gangi upp. Ef öll mál eru til staðar geturðu látið verslunina sem að selur þér efniviðinn í búrið afhenda þér allt í stærðunum sem þú hefur ákveðið og þannig sparað þér mikin tíma, erfiði og sóðaskap við sögunnarvinnu. Þegar lokateikningin er tilbúin með nákvæmum málum skaltu útbúa lista yfir það sem að þarf í búrið. Ekki sleppa einum einasta hlut. Listinn gæti innihaldið hluti eins og við, plexigler, vírnet, perustæði, perur, hitabúnað, klifurdót, gólfefni, skrúfur, rafmagnsvíra, rofa, fjöltengi og margt fleira sem þú gætir viljað hafa íbúrinu. Því meiri tíma sem þú tekur þér í að upphugsa búrið, því betra verður búrið og að auki fækkar verslanaferðunum svo um munar.


Fjárhagslega hliðin:

Að byggja sitt eigið eðlubúr mun kosta mikin pening. Peningahliðin ræður oft mjög miklu hjá fólki sem ákveður að byggja eðlubúr og oft fer svo að fólk sparar of mikið og búrið verður óhuggulegt og lélegt. Það er því gott að hafa í huga að þú þarft ekki að kaupa allt í búrið samtímis, heldur geturðu keypt hluti í það vikulega og er þetta óneitanlega mesti kosturinn við að byggja búrið áður en að eðlan er keypt, en ef svo er ekki, þá er betra að láta eðluna í pössun eitthvert þar sem gott búr er til fyrir hana á meðan nýja búrið er klárað. Það er betra að taka sér mikin tíma í að klára búrið áður en eðlan kemur, heldur en að láta eðluna kanski lifa í mörg ár í lélegu búri.