Ein mesta áskörun sem fylgir iguana eðlum er tamningin. Iguana eðlur eru ekki húsdýr eins og hundar og kettir - Það er, þær hafa ekki verið aldar í manna höndum í hundruðir ára og þær hafa ekki verið ræktaðar til þess að kalla fram kosti eða útrýma göllum. Iguana eðlur hafa enn þetta vilta eðli sem að heldur þeim lifandi úti í náttúrunni svo það getur tekið mjög langan tíma að temja eina slíka. Að auki er mjög mikilvægt að þú haldir áfram að halda á eðluni og eyða tíma með henni daglega eftir að hún er tamin, því annars er líklegt að hún taki aftur upp sitt vilta eðli. Iguana eðlur sem ekki eru meðhöndlaðar rétt munu seint ná að temjast vegna þess að þær munu tengja mehöndlunina við ótta og óþægindi. Þess vegna er mikilvægt að þú lærir hvernig á að meðhöndla eðluna þína örugglega og notalega.
-Hér til hægri ættu að hafa bæst við nokkrir undirflokkar meðhöndlunar og tamningar, en hér fyrir neðan verður fjallað um meðhöndlunina sjálfa.

Að meðhöndla unga.

Að taka þá upp: Þegar þú meðhöndlar iguana ungann þinn ættirðu ávalt að hafa í huga að hann mun vera mun meira á iði en fullorðin iguana eðla. Almennt mun heilbrygður iguana ungi vera mjög virkur og pínu smeykur, en þó eru til einstaklingar sem að hafa alltaf verið frekar rólegir.

Það er mikilvægt að þú meðhöndlir iguana ungann þinn daglega. Þar til þú ert viss um að hann muni ekki stökkva burtu og flýgja og mögulega festast eitthvers staðar eða týnast. Meðhöndlaðu ungann í litlu, iguanavænu herbergi (sem sagt án felustaða sem erfitt er að komast að og annara óöruggra hluta). Hafðu handklæði undir hurðinni ef þröskuldurinn nær ekki alveg upp í hana þannig að eðlan geti ekki troðið sér á milli. Oftast verður baðherbergið fyrir valinu þegar þetta herbergi er valið. Þá ber að tryggja að öll niðurföll (bæði á gólfi og í vaski og baðkari/sturtubotni) séu lokuð og að klósettsetan sé niðri. Einnig ber að fjarlægja alla smáa hluti sem að eðlan gæti reynt að leggja sér til munns eins og tannstönglar, klipptar neglur, klósettpappír, plastpoka o.fl. Ef ruslið er ekki með loki er öruggast að geyma það frammi á meðan.

Það versta sem þú getur gert við lítin, ótamin eðluunga er að teygja þig í búrið og hrifsa hann upp. Það á alltaf að fara mjög rólega og hægt í þessa hluti. Þegar þú nálgast ungann þinn skaltu gera það mjög varlega og það gæti hjálpað að hvísla eða tala við hann til þess að hann læri að þekkja röddina þína. Strjúktu unganum varlega á bakinu og ofan á höfðinu. Renndu annari hendinni undir framfæturnar og ýttu honum varlega ofan á lófa þeirrar handar með hinni. Vertu viss um að eðlan standi vel í alla fjóra fætur áður en þú lyftir henni upp. Ef þú skóflar henni upp og lyftir samtímis gæti hún orðið skelkuð. Eitt atriði ber að hafa í huga: Aldrei að grípa um halann á iguana eðlu!! Þá ver sjálfvirkur varnarbúnaður í gang hjá henni og hann slitnar af. Þrátt fyrir að halinn muni vaxa aftur (þá litlaus og ljótur með greinilegum skilum þar sem hann brotnaði af), þá mun þetta vera skelfileg reynsla fyrir bæði eðluna og þig.

Að halda á þeim.

Þú getur haldið stuðningi undir öllum líkama ungans (eða alla vega megninu) með annari hendi. Framendi eðlunar hvílir á fingrunum á þér og afturendinn á lófunum. Ef unginn er órólegur og ótaminn gætirðu viljað halda hinni hendinni lauslega yfir honum til þess að sporna við flótta þegar þú býst síst við því. Þegar þú hefur tekið ungan upp eins og fjallað var um hér að ofan og búin/n að fara með hann í iguanavæna herbergið, þá geturðu leyft unganum að liggja á handlegginum á þér og príla á þér. Það er með ungana, rétt eins og með fullorðnu eðlurnar, að best er að halda á þeim á mornanna eða seint á kvöldin þegar þær eru pínu dasaðar eða syfjaðar.

Veittu unganum stuðning, vertu blíð/ur og ekki hrifsa. Þetta eru þessir þrír hlutir sem hafa ber í huga þegar þú heldur á iguana unga.

Að meðhöndla fulloðrnar eðlur.

Að taka þær upp: Það getur hreint út sagt verið hryllilega erfitt að taka fullorðna eðlu upp. Eðlisávísun þeirra segir þeim að halda eins fast í undirlagið og hægt er þegar þær sjá þig koma og teygja þig til sín. Þess vegna er mikilvægt að þú takir hana upp varlega og blíðlega. Ekki kippa henni snögglega upp þegar þú ert komin/n með hendina undir eðluna og ekki taka hana upp fyrr en að þú hefur ná að losta grip hennar á undirlaginu fyrst, annars geta neglur rifnað af og þá verða þær undantekningarlaust verulega pirraðar. þetta getur reynst erfitt, sérstaklega ef þú ert of lengi að losa um afturfæturna, þá er hún sennilega búin að ná aftur góðu taki á undirlaginu með framfótunum og öfugt. Eftir smávegis æfingu ættirðu að vera orðin/n fljótari að losa gripið og þá geturðu varlega tekið eðluna upp.

Til þess að lyfta eðlunni upp skaltu koma að henni frá hlið, svo hún sjái þig vel koma til sín. Notaðu aðra höndina til þess að losa um grip afturfótanna. Þegar þér hefur tekist það skaltu renna hinni höndinni á milli framfótanna og alla leið undir afturfæturna og lyfta eðlunni varlega upp. Hafðu langa halann hennar í huga þegar þú gengur um með eðluna og passaðu að hann sláist ekki utan í neitt eða beyglist, því það getur styggt eðluna.

Að halda á þeim.

Það gildir það sama hér og um ungana, það verður að halda á þeim þannig að þyngdin hvíli jafnt og þægilega á þér. Það eru margar leiðir til þess að halda á fullorðinni eðlu og fara þær eftir stærð hennar og skapstyggð.

Ef eðlan er róleg að eðlisfari geturðu haldið á henni með því að styðja þunga hennar á handlegginum á þér. Hendin styður þá undir axlirnar á henni og framfæturnir dingla niður á milli fingranna þinna. Eðlan mun sennilega grípa um handlegginn á þér með afturfótunum. Haltu blíðlega á henni, en auðvelt er að þétta gripið ef eðlan fer skyndilega að brjótast um. Myndin hér að neðan sýnir umrædda meðhöndlun:

Stelling 1

Fullorðin iguana eðla sem að er sátt við að haldið sé á sér mun oft glaðlega nota eiganda sinn sem sólbaðsstað. Á myndinni hér fyrir neðan er eðlan Primrose að slappa af á handleggi vinar síns. Þú sér að eðlan heldur sér alveg sjálf í stað þess að henni sé haldið. Þessi tegund meðhöndlunar er aðeins ráðleg þegar þú ert á svæði sem að er öruggt og hljóðlátt, þar sem eðlan þín mun ekki geta orðið skyndilega skelkuð og flýgja burtu áður en þú nærð að bregðast við.

Stelling 2

Fyrir eðlur sem að eru aðeins virkari geturðu notað sömu aðferð og þá sem var nefnd hér fyrst, en nú með því að nota líkama þinn til þess að hafa betri stjórn á eðlunni. Með því að hafa handlegginn nálægt líkamanum geturðu skorðað halann af á milli líkama þíns og handleggjarins. Þannig geturðu haft stjórn á eðlu sem að er aðeins að iða. Eðlur sem að eru smeykar við meðhöndlun spjara sig oft betur þegar þeim er haldið nær líkamanum vegna þess að þá finna þær fyrir meira öryggi og stuðningi. Hér fyrir neðan er mynd af þessari aðferð:

Stelling 3

Fyrir stórar eðlur gæti verið betra að nota báðar hendur til þess að halda á henni. Þá er önnur höndin notuð til þess að styðja undir framhluta líkamans og hin styður undir afturfæturna. Þetta virkar best fyrir eðlur sem að eru of stórar eða iða of mikið fyrir aðferðirnar hér að ofan. Það er líka gott að hafa í huga þegar haldið er á stórum eðlum að halda þeim þannig að höfuð þeirra (og þar með tennurnar) snúi frá þér til að forðast bit ef eðlan styggist. Hafðu halann upp að þér til að hafa betri stjórn á eðlunni og sporna við því að hann rekist utan í eitthvað þegar þú röltir um með hana. Myndin hér að neðan sýnir þessa aðferð:

Stelling 4

Stundum vilja eðlur alls ekki láta halda á sér, og þær láta það í ljós með ýmsum hætti - Til dæmis með því að blása snögglega lofti út um nefið á sér, gefa þér illt auga, slá á hendina á þér með halanum þegar þú teygir þig að sér eða iða um/rúlla sér þegar þú loksins nærð að taka þær upp. Vitaskuld má ekki láta það alltaf eftir þeim að láta þær í friði þegar þær láta svona, því þá ná þær að "þjálfa" þig til þess að láta sig í friði og eðlan mun aldrei verða gæf fyrir vikið. Það er í lagi einstaka sinnum að hætta við að taka eðluna upp þegar hún lætur svona, en ekki gera það að ávana. Þetta getur skapað vandræði þegar þú þarft að taka hana upp síðar meir til þess að láta hana aftur í búrið þegar hún er búin að vera úti t.d. Þú gætir líka þurft að taka hana upp til þess að fara með hana í bað eða til dýralæknis. Ef eðlan er ósamvinnuþýð og erfitt er að halda á henni, þá geturðu prófað að nota handklæði eins og sýnt er á myndinni hér að neðan. Ev þú vefur eðlunni þinni frekar þétt inn í handklæði geturðu spornað við því að verða klóruð/klóraður og slegin/n með halanum. Þessi aðferð býður einnig upp á það að hægt er að taka einn fót undan handklæðinu í einu til þess að klippa neglurnar.

Stelling 5

Önnur leið til þess að hafa stjórn á óþekkri eðlu er að halda henni vel með báðum höndum og lyfta henni svo hátt yfir höfuðið á þér. Þetta róar oft eðlur sem eru að brölta - Kanski vegna þess að þær finna til öryggisins hátt uppi eða eru einfaldlega hræddar um að detta. Þegar eðlan hefur róast og hefur hætt að iða, geturðu aftur haldið eðlilega á henni.

Með tímanum munuð þið venjast hverju öðru og þú munt geta áttað þig betur á hvernig meðhöndlun hentar best. Lykillinn er að halda áfram að halda á eðlunni á hverjum degi, sama hvort hún er stillt eða óþekk þannig að hún læri að það er ekkert að óttast þegar hún er tekin upp. Þegar þú hefur gert þetta lengi, þá munuð bæði þú og eðlan þín njóta samverustundanna mun betur.