ÁÐUR en þú leggur í það að fara að temja eðluna þína er mjög mikilvægt að þú skiljir líkamstjáningu hennar, en það má lesa um hana hérna.


Hvers vegna tamning er mikilvæg.


Tamning og þjálfun er mjög mikilvæg ef að nokkur á að geta komið nálægt eðlunni. Þegar iguana eðlur eru haldnar sem gæludýr er óhjákvæmilegt að sinna henni og því er mikilvægt að þjálfun og tamning eigi sér stað til þess að minka hættu á slysum, bitum, klóri, halaslætti og svo ekki sé minnst á að minka stressið í bæði þér og eðlunni þegar þið eruð nærri. Iguana eðlur eru vilt dýr. Þær geta verið verulega árásagjarnar og jafnvel mjög hættulegar. Með tamningu og þjálfun er hægt að komast yfir þessa hindrun. Langflestar iguana eðlur eru temjanlegar, en það eru vissulega til eðlur sem að taka það ekki í mál að láta temja sig og munu alltaf verða árásagjarnar (sjá "Hvernig gæludýr eru Iguana?"). Eðlur sem að eru látnar vera villtar geta verið verulega hættulegar og þær ættu aðeins vanir skriðdýraeigendur að meðhöndla. Allir ættu að gera sitt besta í að temja eðluna sína.

Hvort sem þú færð þér unga iguana eðlu eða stærri, eldri eðlu, þá verðurðu að venja hana við þær breyttu aðstæður sem að skapast við eigendaskiptin ef þú ætlar að hafa hana sem gæludýr. Sumir vilja hafa eðlurnar sínar viltar, en það leggur mikið stressálag á eðluna og fælir eigendurna frá því að sinna þeim og því mæli ég alls ekki með því, svo ekki sé minnst á bithættu og önnur óþægilegheit sem ótaminni eðlu geta fylgt.
Aðferðin sem hér fylgir á eftir er fyrst og fremst fyrir stressaða unga og litlar eðlur, en ef þú ert að eiga við stærri eðlu sem að lætur öllum illum látum og allt bregst í aðferðinni hér fyrir neðan, þá er önnur aðferð fyrir neðan þessa sem gæti hentað betur. Ef unginn þinn er blíður til að byrja með, þá getur vel verið að þetta sé óþarfi... En það er samt góður siður að gefa eðlunni einn til tvo daga til að venjast nýju búri, þótt ekki sé nema um almenna kurteysi að ræða. ;-)

Hvers vegna það er mikilvægt að húsvenja eðluna.


Ef þú ætlar að hafa eðluna sem gæludýr er mikilvægt að gefa henni smá tíma til þess að venjast búrinu sínu, íbúðinni/húsinu og svo auðvitað sjálfum/sjálfri þér og öðrum sem eiga eftir að umgangast hana. Eðlur sem ekki fá neinn aðlögunartíma þjást af miklu stressi og ótta sem getur síðar meir leitt til heilsukvilla ef ekkert er að gert. Eðlan þín þarf að aðlagast öllu með ró. Þetta er mikilvægasti hluturinn við að venja eðluna á nýju aðstæðurnar... allt á að gerast rólega! Taktu þinn tíma og alls ekki vera að flýta þér að neinu. Flestir sem að fá sér nýja eðlu eru að tryllast úr spenningi og vilja fá að halda á henni og monta sig af henni. Stundum eru hlutirnir bara ekki það einfaldir með iguana eðlur. Eins undarlega og það hljómar; því hægar sem þú ferð í hlutina og tekur meiri tíma í að venja eðluna á nýja heimilið sitt, því fyrr mun það gerast.

Stress.


Eðlan getur verið undir miklu álagi á meðan á hvers lags tamning eða þjálfun stendur yfir. Merki um stress eru til dæmis ákafar síendurteknar flóttatilraunir, eðlan felur sig, missir matarlyst (eða hefur enga til að byrja með), húðliturinn dökknar skyndilega, óreglulegar hægðir, merki um lasleika og óreglulegur svefn. Ef þú verður var/vör við að eðlan sýni merki um stress á meðan tamning eða þjálfun stendur yfir ættirðu að hætta við og gefa eðlunni afvikin stað í húsinu þar sem hún getur verið í friði og falið sig fyrir hverju því sem henni finnst vera að ógna sér. Hvað varðar stress hjá eigendum á þessu tímabili, þá er þolynmæði eina lausnin.

Þolynmæði.


Að húsvenja eðluna og að temja hana getur tekið mjög langan tíma - Allt frá viku og upp yfir heilt ár. Tíminn fer fyrst og fremst eftir einstaklingnum og þolynmæði eigandans. Margir iguana eigendur eru það heppnir að fá í hendurnar mjög rólega og blíða eðlu sem að venst öllu nánast strax, en aðrar eðlur þurfa að ganga í gegnum mislangt ferli tamningar áður en þær verða sáttar. Hver eðla er sérstök bæði í persónuleika og útliti og sumar eru einfaldlega tortamdari en aðrar.

Hér að neðan eru skref-fyrir-skref leiðbeiningar varðandi húsvaningu og tamningu iguana eðla. Þetta eru bara uppástungur og það eru vissulega mjög margar aðrar leiðir til tamningar, en þessi er upphugsuð með það í huga að sem minnst stress hvíli á eðlunni og eigandanum. Markmiðið er að mynda hægt en örugglega gott traust á milli eðlu og eiganda. Á meðan á þessu ferli stendur munt þú læra líkamstjáningu iguana eðlanna og hegðan þeirra. Tíminn sem þú verð í hverju þrepi hér að neðan er algerlega undir því komið hvernig eðlan bregst við breytingu umhverfisins og nýjungum í hverju skrefi fyrir sig. Sum þessara þrepa gætu verið mjög fljótunnin, en önnur geta tekið marga daga, vikur eða jafnvel mánuð að yfirstíga, allt eftir því hvernig týpa eðlan þín er.

Vertu viss um að búrið sé rétt uppsett.


Fyrsta og sennilega mikilvægasta skrefið er að hafa vel uppsett, stórt og gott búr tilbúið fyrir eðluna þegar þú kemur með hana heim. Jafnvel þótt þetta skref hafi verið gert fyrir löngu, þá er gott að renna yfir allt aftur og tvítryggja að allt sé eins og best væri á kosið. Of lágt hitastig í búrinu veldur stressi í eðlunni. Einnig ef það er of heitt eða of kalt á vissum svæðum í búrinu, þá munu þau svæði ekki vera notuð af eðlunni og því mikil sóun á plássi ásamt því að eðlunni finnst hún vera aðþrengd og mun sennilega verja öllum sínum tíma í felum... Svo ekki sé minnst á að rangt hitastig er hættulegt heilsu eðlunnar. Réttur ljósabúnaður er einnig nauðsynlegur ef eðlan á að lifa heilbrygðu lífi. Besta peran fyrir iguana eðlur sem ég hef fundið hérlendis heitir Repti-Glo 8.0 og hún má ekki vera lengra frá eðlunni en 30 cm. Án UVB peru í réttri fjarlægð mun eðlan verða afmynduð og á endanum deyr hún. Vanhraustar eðlur gætu virst gæfari, en það er bara vegna þess að þær eru að deyja og hafa ekki orkuna í að brótast um þegar þær eru teknar upp. Eðlan þarf að hafa góðan felustað í búrinu þar sem hún getur farið og fundið til öryggis ef hún er stressuð. Til að fræðast meira um uppsetningu eðlubúra kíktu þá á "Búr fyrir iguana" síðuna og undirsíður hennar. Án vel uppsetts búr mun eðlan ekki lifa lengi.

Gefðu eðlunni þinni tíma til þess að venjast nýa umhverfinu.


Eftir að þú hefur tryggt að búrið sé rétt upp sett er kominn tími til þess að gefa eðlunni frið og tíma til þess að venjast nýja búrinu. Búrið ætti helst að vera staðsett þar sem rólegt er í íbúðinni og fáir labba framhjá búrinu (þar á meðal önnur gæludýr). Þetta þarf ekki að vera endanleg staðsetning búrsins, bara svona á meðan hún er að venjast. Á meðan eðlan er að venjast ætti einu samskiptin ykkar á milli að vera þegar þú þrífur upp eftir hana og skiptir um vatn og mat. Þegar þú skiptir um mat og vatn og þrífur hjá henni á meðan á þessu skrefi stendur skaltu muna að hreyfa þig mjög hægt og varlega. Þrifin þurfa bara að vera í lágmarki til að tryggja að eðlan styggist ekki. Það er mælt með því að þú fjarlægir hægðir eðlunnar mjög fljótlega eftir að hún skilar þeim af sér. Á meðan eðlan er að venjast nýja umhverfinu gæti verið að þú takir eftir hlutum sem að valda þér áhyggjum, svo sem að eðlan hangi á felustaðnum öllum stundum og hafi litla matarlyst. Í fyrstu skaltu staðsetja matardiskinn alveg í hinum endanum á búrinu miðað við felustaðinn. Þetta þvingar eðluna til þess að koma út til þess að nærast. Ekki setja matinn inn á felustaðinn. Ef þú tekur eftir því að eðlan komi ekki einu sinni úr felum til að borða, þá getur þú sett matinn við opið á felustaðnum og fært hann svo smátt og smátt lengra í burtu á hverjum degi. Það getur verið að eðlan komi sárasjaldan úr felum. Þetta er eðlilegt og í lagi, svo lengi sem eðlan borðar og skilar matnum af sér aftur og er virk að eitthverju leiti. Sem sagt í gróum dráttum, þá er mikilvægt að þú látir eðluna eins mikið í friði og hægt er á þessum tíma en án þess þó að svelta hana eða láta búrið kaffærast í óhreinindum. Ef þú ert ný/r eðlueigandi, þá er þetta tímabil kjörið til þess að lesa sem mest um iguana eðlur og þú kemst yfir.

Gefðu eðlunni þinni tíma til þess að venjast nýa umhverfinu - Án felustaðarins.


Felustaðurinn í búrinu er góður staður fyrir eðluna þína til þess að finna til öryggis ef hún er stressuð, en hann getur líka orðið til þess að eðlan eyði svo miklum tíma í felum að hún taki mun lengri tíma í að venjast. Nú er kominn tími til þess að ákveða hvort þörf sé á því að fjarlægja felustaðinn. Ef þú fjarlægir hann gæti það orsakað smá stress í eðlunni, en ef þú leyfir henni áfram að fela sig þarna inni öllum stundum gæti það þýtt að hún venjist seint eða aldrei. Nú þarftu að ákveða hvort þér finnist eðlan nota felustaðinn of mikið. Ef hún er meira en hálfan daginn í felum (nóttin ekki meðtalin), þá er best að fjarlægja felustaðinn. Þú getur alltaf komið honum aftur fyrir inni í búrinu síðar meir þegar að eðlan er orðin öruggari í búrinu. Margar eðlur hafa felustað í búrinu út alla sína æfi, en flestar venjast þó það vel að það gerist ekki þörf á honum nema þær vilji sofa í þeim. Markmiðið með þessu skrefi er að venja eðluna á búrið sjálft... ekki bara felustaðinn sinn.

Horfðu á eðluna horfa á þig.


Nú ætti eðlan þín að vera orðin nokkuð örugg í búrinu sínu. Nú þarftu að venja eðluna á það að sjá þig. Þú munt þá sitja hinum megin í herberginu og fylgjast með eðlunni þinni. Þetta getur verið mjög fræðandi og gaman, því það er eins og maður öðlist frekari skilning á þessum eðlum með því einu að fylgjast með þeim fylgjast með manni, svo ekki sé minnst á að hún lærir helling um þig líka. Vertu viss um að þú sést það nálægt að eðlan sjái þig, en ekki það nálægt að þú virðist ógnandi. Byrjaðu á því að gera þetta í stuttan tíma og lengja svo tímann eftir því sem á líður og færa þig örlítið nær með hverjum deginum. Farðu samt varlega og gerðu engar snöggar hreyfingar, ef þú þarft að hreyfa þig, hreyfðu þig mjög hægt og rólega. Það er í lagi að labba hægt um herbergið við og við, en ekki í áttina að eðlunni strax. Á endanum muntu vera komin/n svo nálægt að þú situr við hliðina á búrinu. Á meðan þú situr þarna er snyðugt að lesa bók og eðlan mun sennilega fylgjast með þér af mikilli forvitni á meðan. Á meðan þú lest skaltu fletta blaðsíðunum varlega, en eftir að hafa gert þetta nokkrum sinnum skaltu prófa að fletta skyndilega til að venja eðluna við snöggum óvæntum hreyfingum og sjá hvernig hún bregst við. Þetta er bara ein leið af mörgum til þess að venja eðluna þína á að sjá fólk og hlutina sem það gerir.

Búrið opið.


Nú þegar eðlan er orðin vön því að sjá þig geturðu opnað búrið varlega og haldið áfram að fylgjast með eðlunni eins og þú gerðir í skrefinu hér fyrir ofan. Ef búrið þitt opnast að ofan verðu skaltu henda því og fá þér almennilegt búr, því mikið af náttúrulegum óvinum eðlanna eru fuglar og því eru þær smeykari að eðlisfari við allt og alla sem koma ofan að þeim. Það getur reynst ómögulegt að temja stressaðar eðlur ef þær eru hafðar í svona búrum... Þessi búr eru líka öll allt of lítil fyrir iguana eðlur. Í þessu skrefi ertu að byggja upp traust með því að láta eðluna sjá þig opna búrið og vita að þú ert ekki ógnun. Eðlan hefur séð þig opna búrið áður til þess að setja mat inn í búrið, skipta um vatn og þrífa, en nú opnarðu búrið að því er virðist að ástæðulausu. Þetta skref býr eðluna undir það næsta.

Hendur inni í búrinu, en ekki á eðlunni.


Þetta er mikilvægt skref og oft erfitt og því þarf að fara mjög varlega í það. Þetta skref mun venja eðluna á það að sjá hendurnar þínar án þess að verða hrædd. Skrefið er í raun að einfaldlega láta aðra höndina inn í búrið eins langt frá eðlunni og hægt er og án þess að hreyfa hana mikið þegar hún er komin inn í búrið. Ef að eðlan sýnir merki um stress skaltu hægt taka hendina aftur út úr búrinu og reyna aftur síðar. Í hvert skipti sem þú lætur hendina inn í búrið skaltu láta hana vera inni aðeins lengur en skiptið á undan. Einnig, á meðan þetta skref er tekið skaltu setja hendina inn í búrið örlítið nær eðlunni en þú gerðir í skiptið á undan. Þú ættir svo að prófa að hreyfa hendina mjög varlega og sjá hvort eðlan haldi ró sinni, ef ekki, þá skaltu taka hendina út og reyna aftur seinna. Ekki fara yfir á næsta skref (að snerta eðluna) fyrr en eðlan er orðin fullkomlega sátt við að hafa hendina þína í búrinu.

Eðlan snert.


Nú ætti eðlan að vera orðin vön því að sjá hendurnar á þér inni í búrinu hjá sér og nú er kominn tími til þess að snerta eðluna. Það er samt ekki kominn tími til þess að hrifsa hana og valhoppa með hana í burtu! Fyrst ættirðu að venja eðluna á það að vera snert. Í fyrstu muntu aðeins snerta eðluna með einum fingri. Þú skalt koma að eðlunni neðan frá eða frá hlið og hreyfðu þig eins hægt og þú getur og snertu bakið á eðlunni. Forðastu að snerta halann eða svæðið nærri honum, því jafnvel mjög rólegar eðlur geta orðið stressaðar ef einhver er að fikta í halanum á þeim. Þú getur prófað að klappa eðlunni örlítið með einum fingrinum. Svo skaltu fara burtu. Líkur eru á því að eðlan verði pirruð eða hrædd þegar hún er snert. Galdurinn felst í því að klappa henni varlega í stuttan tíma og fara svo hægt aftur í burtu áður en hún verður pirruð eða hrædd. Ef þér tekst þetta, þá er líklegt að eðlan muni eftir þessari reynslu sem góðri reynslu. Ef þú ert of lengi að klappa henni mun eðlan verða reið og/eða dauðhrædd og hlaupa í burtu, bíta eða slá þig með halanum á sér og tengja þetta áfall framvegis við það að vera snert. Ef eðlan er treg til þess að leyfa þér að snerta sig skaltu prófa að hreya þig eins hægt og þú mögulega getur, eða bakka aftur í skrefið hér á undan. Besti tíminn til þess að reyna að klappa eðlum sem að eru órólegar er snemma á mornanna eða seint á kvöldin þegar þær eru syfjaðar og dasaðar og nenna ekki að vera með æsing og líkur eru á því að hún muni sofna út frá klappinu á kvöldin. Þegar þú hefur loksins náð að venja eðluna á það að vera snert skaltu halda því áfram í dálítin tíma áður en þú ferð í næsta skref (halda á henni). Merki um það að eðlunni finnist gott að láta klappa sér eru til dæmis að eðlan loki báðum augunum (eðlan lokar reyndar báðum augunum ef þú snertir höfuðið þar sem það kitlar hana), hefur hökukambinn meðfram hökunni (sem sagt ekki niðri og útbreiddan), reysa upp framfæturna og setja nefið hátt upp í loftið og ef þú ert heppin/n, þá mun hún leggjast niður og leggja annan eða báða framfæturna niður með síðunni. Þegar þú hefur séð merki um að eðlan sé orðin róleg, geturðu fært þig yfir á næsta skref.

Að halda á eðluni inni í búrinu.


Þegar hér er komið við sögu ættuð þið eðlan að vera orðin vön snertingunni. Ef eðlan hefur sýnt merki um það að henni finnist gott að láta klappa sér, þá ætti að vera frekar auðvelt og fljótlegt að taka hana upp. Það er mikilvægt að halda rétt á eðlunni (hægt er að lesa um það á yfirsíðunni "Meðhöndlun og tamning"). Mundu að þú átt ALDREI að grípa um halann á eðlunni! Þú getur prófað að snerta halann á eðlunni varlega til að venja hana á það, en eðlur sem að eru rólegar þegar halinn er snertur eru líklegri til þess að halda ró sinni þegar halinn er óvart snertur eða festist í eitthverju.
Nú ertu komin/n á þann stað þar sem eðlan treystir þér nálægt sér og gerir ráð fyrir því að þú sést að koma aftur til að klappa sér. Klappaðu henni aðeins og reyndu svo varlega að klappa maganum á henni. Ungar eðlur er hægt að taka auðveldlega upp með því að klappa þeim á hliðinni og renna svo fingrunum undir þær. Þegar hingað er komið við sögu geturðu haldið áfram að klappa eðlunni með fingrunum sitt hvorum megin við hana. Þú getur svo prófað að lyfta henni varlega upp. Ef eðlan er róleg skaltu láta hana varlega niður og fara burt... Sama gildir ef eðlan sýnir stress merki eins og að reyna að sleppa eða hreyfa hausinn hratt eða slá halanum að þér. Margir vilja frekar bara grípa eðluna og halda henni fastri og sýna henni hver ræður, en það ætti að vera hægt að komast hjá því með þolynmæði, en þó gæti þessi aðferð verið nauðsynleg ef eðlan bregst ekki jákvætt við því að vera tekin upp eftir svona tvær vikur eða lengri tíma. Það er samt mælt með því að þú reynir að komast hjá því, þar sem mikið traust sem þú hefur unnið þér inn hingað til gæti glatast í ferlinu.
Eftir að þér hefur tekist að taka eðluna varlega upp og láta hana aftur niður án vandkvæða ættirðu að halda því áfram í nokkra daga í viðbót. Það er líka í lagi einstaka sinnum að klappa henni bara án þess að taka hana upp inn á milli. Eða taka hana upp, láta hana niður og klappa henni aðeins, taka hana svo aftur varlega upp og láta hana aftur niður og fara.

Eðlan hreyfð inni í búrinu.


Ef þér hefur tekist að lyfta eðlunni upp án vandkvæða, þá ætti þetta skref að vera sérstaklega auðvelt. Gerðu einfaldlega allt það sem þú gerðir áður í skrefinu hér á undan, klappaðu eðlunni, lyftu henni upp og hreyfðu hana síðan mjög varlega yfir stutta vegalengd. Gerðu þetta nokkrum sinnum í hvert skipti og ekki gleyma að klappa krílinu í leiðinni. Eftir dálítin tíma ættirðu að geta fært eðluna til að vild innan búrsins. Ekki taka eðluna út úr búrinu á þessu tímabili, hreyfðu hana bara innan búrsins og leyfðu henni að venjast því að þú hreyfir sig um. Þú getur líka leift eðlunni að prufa sig áfram í að labba á milli handanna á þér innan búrsins. Þú ættir einnig að byrja á að venja eðluna á það að þú haldir henni dálítið þétt, en hingað til ættirðu að hafa haldið á henni án þess að beyta neinum þrýstingi. Þörf er á þessu til þess að sporna við því að hún hlaupist á brott í næsta skrefi.

Eðlan tekin út úr búrinu.


Það gæti hafa tekið þig dágóðan tíma að komast að þessu skrefi, en þú ættir nú að hafa í höndunum nokkuð tamda iguana eðlu sem að er sátt við að haldið sé á sér. Nú er kominn tími til þess að taka hana út úr búrinu. Þú verður að vera einstaklega varkár þegar þú tekur eðluna út og vertu viss um að eðlan sé sátt við að haldið sé á sér áður en þú leggur í þetta skref. Gott er líka að tryggja að engar hættur séu í herberginu eða felustaðir fyrir eðluna sem gætu gert þér erfitt fyrir ef hún sleppur. Ef hún sleppur og það kemur fát á hana, þá gæti stressið fært ykkur til baka um nokkur skref, svo vertu alveg viss um að allt sé í góðu. Í fyrstu skaltu klappa eðlunni, taka hana upp og færa hana út úr búrinu í örfáar sekúndur og svo láta hana aftur inn í búrið. Eftir þetta geturðu klappað henni aðeins og tekið hana aftur upp og fært hana um innan búrsins. Í hvert skipti sem þú tekur hana upp skaltu lengja tímann sem þú heldur á henni utan búrsins um smá stund í einu. Þú getur byrjað að halda á henni utan búrsins þegar hún er orðin sátt við það og tekið stutta göngutúra um herbergið. Þú getur svo sest niður með eðluna eftir að eðlan er búin að venjast gönguferðunum og prófað að horfa með henni á sjónvarpið (iguana eðlur leika sér ekki á hefðbundin hátt, heldur hafa þær mest gaman af sjónrænni örvun eins og til dæmis fiskabúrum, lífinu fyrir utan gluggann eða sjónvarpinu, teiknimyndir virðast í uppáhaldi og gæti það tengst litadýrðinni). Taktu þinn tíma í að vinna þig upp í að gera þessa hluti með eðlunni og ef eðlan virkar stressuð skaltu einfaldlega láta eðluna aftur inn í búrið og láta hana vera þangað til hún jafnar sig. Það er ekki óalgengt að eðlurnar virki örlítið stressaðar þegar þær eru teknar út úr búrinu í fyrstu skiptin. Þetta getur þýtt að eðlan reyni að bíta, iða og sleppa, slá til þín með halanum og rymja eða hvæsa á þig. Ef þetta gerist skaltu herða takið á henni aðeins og labba svo hægt að búrinu og skila henni aftur inn og láta hana vera. Hér geturðu prófað þá aðferð að sýna henni hver ræður, enda betra en að láta hana sleppa og leggja á flótta. Ef eðlan hins vegar nær að sleppa, þá skaltu ekki elta hana, en vertu alltaf viss um hvar hún er stödd. Ef þú eltir hana, þá mun hún verða mjög hrædd og hlaupa burtu og mikil tamningarvinna gæti tapast. Leyfðu henni að rölta um herbergið í smá stund þar til hún róast. Þá geturðu varlega kropið niður og fært þig rólega til hennar og reynt að klappa henni og svo tekið hana aftur upp... ef það klikkar og hún sleppur verðurðu að leyfa henni að róast aftur í nokkrar mínútur áður en þú reynir aftur. Skilaðu henni svo inn í búr og láttu hana vera í smá stund. Prófaðu svo að koma aftur og klappa henni.

Frelsi utan búrsins.


Hér geturðu nú prófað að taka eðluna út og leyfa henni að flakka um sjálfri. Mundu samt að tryggja að allir staðir sem eðlan kemst á séu öruggir og ekkert sem mögulega gæti komist upp í eðluna sé á stöðum sem hún kemst að. Ef þú átt önnur gæludýr eins og hund eða kött, þá skaltu loka þau dýr af því rými sem eðlan á að hafa aðgang að á meðan hún er á röltinu. Oft eru eðlur hafðar búrlausar og frjálsar á heimilum erlendis, en hér á landi er loftrakinn allt allt allt of lár til þess að öruggt sé að mæla með því. Þetta er jafnframt síðasta skrefið í tamningunni, Til hamingju! :-)


Að sýna eðlunni hver ræður tæknin.


Þetta er ein aðferðin til tamningar á iguana eðlu og hefur virkað vel hjá mjög mörgum. Þessa tækni ætti ekki að nota á ungar eðlur nema nauðsyn krefji og allt annað hafi brugðist. Hugmyndin á bak við þessa aðferð er að sýna eðlunni að það sést þú sem ræður. Það er margt sem felst í þessari tækni, en það helsta er að þegar haldið er á eðlunni og hún reynir að sleppa og byrjar að djöflast um, þá er henni haldið þétt og ekki látið eftir. Ástæðan fyrir vinsældum þessarar aðferðar er sú að ef eðlan byrjar að djöflast um þegar maður heldur á henni og lætur hana niður í kjölfarið, gæti eðlan þannig lært að með því að láta illa, þá fái hún vilja sínum framgengt. Þessi aðferð á þarmeð að sýna eðlunni að það sé gagnslaust að brölta og vera óþekk og hún mun þá á endanum hætta þessu. Ef eðlan hefur verið vanin hægt og varlega eins og í sporunum hér á undan, þá ætti ekki að gerast þörf á þessari aðferð. En þó eru til viltar stórar iguana eðlur sem að vilja ekki láta ráðskast með sig og þá virka skrefin hér á undan ekki. Þessi aðferð er umdeild og flestir hafa mismunandi skoðanir á henni, en áður en þú beitir þessari aðferð skaltu fyrst reyna þessa fyrri.

Að venja eðluna á "klósett".


Nú þegar þú hefur náð að temja eðluna þína gætirðu viljað venja eðluna þína á að gera þarfir sínar alltaf á sama staðinn. Iguana eðlur eru vanaföst dýr og flestar þeirra er hægt að "klósettvenja". Margir hafa þjálfað eðlurnar sínar í að gera þarfir sínar alltaf í kattasandkassa, vatnsbala og janfnvel venuleg klósett!

Já, þetta er hægt!

Ef kattasandkassar eru notaðir er mikilvægt að í þeim sé engin kattasandur, eða nokkuð annað lauslegt og smágert sem að eðlan gæti étið. Best er að leggja tóm dagblöð yfir botninn. Margir nota vatnsbala, sem virkar mjög vel og hratt, en þrifin á skítuga vatninu og balanum á hverjum degi gæti reynst þreytandi til lengdar. Að venja eðluna á að nota venjulegt klósett virkar líka mjög vel, en þá þarf eðlan að vera orðin talsvert stór og að auki þarf helst að vera eitthver strúktúr í kring um klósettið svo eðlan geti gert þetta örugglega án þess að detta ofan í. Ég mæli ekki með því að þjálfa eðlur hérlendis í að gera þarfir sínar í neitt sem krefst þess að þær þurfi að fara út úr búrinu sínu til þess að komast þangað, þar sem það kallar á það að eðlan þurfi að vera mjög mikið laus í íbúðinni í of köldu og þurru umhverfi. Mikilvægasti parturinn til þess að þjálfa eðlu í að gera þarfir sínar alltaf á sama stað er sá að átta sig á því á hvaða tíma sólarhringsins eðlan skilar af sér. Ef þetta á að vera reglulegt, þá þarftu einnig að gefa eðlunni að borða alltaf á sama tíma dags á hverjum degi. Að láta eðluna síðan á staðinn sem þú vilt venja hana á á hægðartímanum á hverjum degi er besta leiðin. Þá er það eina sem eigandinn þarf að gera er að sjá til þess að eðlan haldi sig á staðnum þar til hún hefur lokið sér af. Oftast tekur þessi þjálfun mjög langan tíma, en margborgar sig upp á þrif og hreinlæti að gera. Fyrr eða síðar mun eðlan átta sig á því að þarna á hún að vera þegar hún hefur hægðir og mun fara þangað sjálf án þinnar hjálpar.

Árásagirni.


Rétt eins og með hunda, þá geta blíðustu eðlur skyndilega orðið árásagjarnar. Þýðir þetta yfirleitt að eitthvað sé að angra eðluna og kemur þá tvennt helst til greina:
1) það gætir verið að eðlan sé kvalin eða veik á einn eða annan hátt, ef eðlan gerir árás af ástæðulausu skaltu skoða hana hátt og lágt og athuga hvort hún beri merki um vanhreysti eða sár.
2) Mun algengari orsök fyrir skyndilegri árásagirni er kynþroska karldýr á fengitímabilinu. Karldýrin ná kynþroska á aldrinum tveggja til fimm ára. Eftir að hafa náð kynþroska mun karldýrið fara á fengitímabil einu sinni á ári og verður þá oftast árásagjarnara en áður (en þó eru mörg karldýr sem að halda ró sinni út allt árið). Það ætti að umgangast karldýr á fengitímabilinu með mikilli varkárni þar sem stórar eðlur geta bitið frekar illa. Karldýrin sýna skýr merki um að fengitímabilið sé gengið í garð með því að láta litla gadda vaxa úr vaxkirtlum ("femoral spores") sem eru undir afturfótunum á þeim. Eftir fengitímabilið munu gaddarnir (þeir eru ekki beittir) hverfa og eðlan verða eðlileg á ný.