Flest gæludýr tjá sig við eigendur sína á einn eða annan hátt. Auðvelt er til dæmis að vita hvað urrandi og geltandi hundi gengur til, eða malandi ketti sem strýkur sér utan í fæturna á manni. En Iguana eðlurnar eru ekki alltaf svo augljósar í augum flestra. Þær gefa ekki frá sér mörg hljóð og tungumál þeirra getur verið flókið.

Nánast allar eðlur gefa frá sér skýr og góð merki áður en þær ráðast á eitthvað. Þess vegna er gott að vera á varðbergi og vita hvað er að gerast í kollinum á eðlunni þegar maður er með hana hjá sér og þá mun sambandið við hana batna til muna.

Hökukamburinn.


alternatetext
Mynd af tveggja og hálfs árs gamalli eðlu í varnarstöðu.

Iguana eðlurnar nota kambinn fyrst og fremst til tjáskipta. Þegar eðlan flaggar kambinum getur hún verið að segja "halló". Oft merkir það líka að hún sé að láta mann vita að maður sé á hennar svæði, en það sé í lagi sín vegna (þeas ef hún flaggar kambinum bara án þess að gera neitt annað í leiðinni).
Eðlan flaggar kambinum líka þegar hún er í vörn, þá sennilega til þess að láta sig virðast stærri í þeirri von að rándýr leggi ekki í sig.
Eðlan flaggar líka kambinum þegar hún er að reyna að jafna út líkamshita sinn... Þá kanski til þess að ná sér í meiri sól eða jafnvel að grípa svala golu.
Að lokum getur kamburinn þýtt fjölda annara hluta þegar honum er flaggað og í leiðinni gert eitthvað annað líkamsmál, þannig að það er mikilvægt að fylgjast með allri eðlunni, en ekki bara kambinum.

Höfuðhreyfingar.


Oft kallað "Bobb" eða "hausabobb". Þegar eðla bobbar, hreyfir hún hausinn á sérkennilegan hátt... stundum eins og að kinka kolli eða neita, og oft eins og eitthvers konar krampakast. Þetta getur virkað voða skondið að sjá, en það er eins gott að fylgjast vel með, því þetta getur þýtt allt frá "ég sé þig og ég vil að þú sjáir mig" og yfir í "Eins gott að þú byrjir að hlaupa því eftir 5 sekúndur stekk ég á þig og bít þig!". Karldýrin eru meira í því að bobba en kvendýrin, en þó bobba kvendýrin oft heilan helling líka, svo þetta er ekki nóg til kyngreiningar. Ég ætla að fara lauslega yfir hvað hver hreyfing þýðir:
-Hæg upp og niður hreyfing: Eðlan vill að þú sjáir sig og er að láta þig vita að hún sér þig líka... Þetta kemur stundum upp ef maður er að "njósna" um eðluna og hún tekur eftir manni. :)
-Hröð upp og niður hreyfing (oft óregluleg): Eðlan er orðin frekar pirruð og gæti t.d. verið að láta þig vita að þú sést á hennar svæði og hún er ekki sátt við það, hún flaggar þá oft kambinum í leiðinni.
-Hröð hægri og vinstri hreyfing (axlabobb): Núna er eðlan þín alveg að tapa sér úr bræði og hvað sem þú gerðir til þess að framkalla þessi viðbrögð er að fara virkilega í taugarnar á henni og það er eins gott að hætta því strax, því skömmu eftir axlabobbið er von á leifturárás og biti. Þegar stórar iguana eðlur, þá sérstaklega karldýr, gera axlabobbið er mjög mikilvægt að sýna ítrustu varkárni, helst bakka burtu og leifa eðlunni að jafna sig, því í slíkum ofsabræðisham gæti eðlan slasað þig illa.

Tungan.


Mikilvægasta skynfæri iguana eðlanna er sjónin, en eitthvers staðar á milli bragðskyns og þefskyns hefur eðlan kost á því að ota tungunni í eitthvað til þess að læra meira um það. Þegar iguana eðla er að skoða sig um á nýjum stað mun hún nánast ota tungunni niður í gólfið í öðru hverju skrefi. Tungan mun otast í allt og alla sem eðlunni þykir vera forvitnilegir. Hún er klístruð og ef henni er otað í smáa hluti, þá munu þeir vafalítið verða étnir, jafnvel þótt að eðlan kæri sig ekkert um það. Mikilvægt er að þegar eðlan gengur laus, að þá séu engir slíkir lausahlutir sem gætu verið étnir í færi. Það gæti þurft uppskurð til að ná þeim út aftur.

Hnerrar.


Iguana eðlur eru oftast ekki að hnerra í þeim skilningi sem við þekkjum, heldur kallast það að "snorta". Þegar iguana eðlur eru að snorta, þá kemur út úr nösunum á þeim glær vökvi sem inniheldur ýmiss sölt sem eðlan þarf að losa sig við, það sama og við gerum með því að svitna (þó eru snortin ekki tengd áreynslu hjá eðlunum). Iguana eðlur geta ekki fengið kvef, en ef þær eru að hnerra óvenjumikið, þá gæti verið að það þurfi að breyta mataræðinu.

Halasláttur.


Þegar iguana eðla löðrungar mann með halanum er hún að senda mjög skýr skilaboð sem ættu ekki að fara framhjá neinum. Þetta er oftast fyrsta "vopnið" hennar í sjálfsvarnarferlinu. Þetta getur verið mjög sárt og höggið getur einstaka sinnum verið það fast að húðin rofni og það fari að blæða... Miðið þeirra er einnig mjög gott svo það er mjög mikilvægt að passa upp á að þær nái ekki að slá mann í augun. Merki þess að eðlan sé að fara að slá er að hún reysir sig upp og snýr annari hliðinni að þér og lætur halann vísa í áttina frá þér... oft þá dillar hún bláendanum á hlanaum líka eða lætur hann iða áður en hún slær.
Þetta er eitt af ástæðunum fyrir því að engin önnur dýr ættu að fá að koma nálægt iguana eðlum, því halasláttur frá stórri eðlu getur fótbrotið meðal annars hunda og ketti.

Að iða.


Ef eðlan er stanslaust á iði og brýst um þegar þú heldur á henni er það skýrt merki um að hún vilji ekki að þú haldir á sér. Hér greinir fólki á um hvað skal gera í iðandi iguana eðlum. Sumir segja að það sé betra að láta hana vita hver ræður og halda sem fastast og aðrir segja að það sé best að láta hana niður til að minka stress álag á eðluna. Hvort hver velur sér er undir eigendunum sjálfum komið, en sumar eðlur bregðast mismunandi við því þegar þeim er haldið föstum og sumar missa halann í ferlinu. Enn aðrar gætu farið að líta á eigendur sína sem óvini ef þeir halda þeim gegn vilja sínum... En ef maður lætur þær fara þegar þær vilja fara, þá getur verið að þær fari að líta of stórt á sig og haldi að þær ráði yfir manni sem getur einnig leitt til frekari hegðunarvandamála. Það er undir ykkur komið hvora leiðina þið veljið.

Að reysa sig upp.


Það eru tvær tegundir af þessari stellingu... Önnur þýðir að eðlunni líður vel og er sátt og ánægð en hin þýðir að eðlunni finnst sér vera ógnað og gæti verið í árásarhug, svo það er gott að þekkja muninn.

Góða stellingin kemur oftast upp þegar eðlan er í sólinni eða á sólbaðsstaðnum sínum í búrinu þar sem er hlýtt og notalegt. Hún mun þá reysa sig upp á framfótunum og setja nefið upp í loftið og jafnvel loka augunum. Margir iguana eigendur segja að þeir geti svarið að þær brosi pínulítið líka. :)

alternatetext
Myndin er tekin af Desiree Wong. Vonda stellingin (á myndinni hér að ofan) er að allt öðrum toga en sú fyrrnefnda. Þá snýr eðlan hliðinni að þér, reysir sig upp og blæs sig út. Gerir sig eins stóra og hún getur og flaggar kambinum. Oft dillar hún halanum í leiðinni. Þessi stelling er stundum nefnd "Stríðsaxarstellingin".
Í þessari stellingur er eðlan að segja þér að halda þig fjarri, henni finst sér vera ógnað og oft gapir hún þegar hún er í þessari stellingu. Algengt er að fá svipuhögg frá halanum eða slæmt bit ef fólk hefur ekki varann á þegar eðlan setur sig í stríðsaxarstellinguna.

Að grafa.


Að grafa er eðlilegt athæfi fyrir kvendýr sem eru að gera sig klár til þess að leggja egg. En gröftur getur líka átt sér stað því að eðlan er bara forvitin eða er að prakkarast. En oftast þýðir hann að eðlan er ósátt við umhverfi sitt. Ef eðlan þín er stanslaust að grafa úti um allt búr gæti verið að uppsetningin á búrinu sé ófullnægjandi eða búrið einfaldlega of lítið.

Leifturárásir.


alternatetext

Iguana eðla í leifturárás er mjög hættuleg og allir sem hafa fengið eina slíka hlaupandi í áttina að sér með opið ginið munu taka undir það.
Oftast er um að ræða karldýr á fengitímabilinu sem að ráðast á allt sem hreyfist. Sumar eðlur eru þó skapstærri að eðlisfari og enn aðrar eiga þetta til vegna þess að eitthvað er að angra þær heilsufarslega séð.
Hver sem ástæðan er, þá á maður alltaf að vera á varðbergi gagnvart því að eðlan geri leifturárás.

Fnæs.


Eðlurnar geta fnæst svolítið með því að blása lofti hratt út um nasirnar. Fnæsið þýðir að eðlan er pirruð, en vill ekki slást.

Bit og glefs.


alternatetext
Iguana eðlur hafa yfir 100 hnífbeittar tennur.

Að bíta er mjög augljóst form líkamlegra tjáskipta. Bit geta komið frá reiðum eðlum, svöngum eðlum (óvart), hræddum eðlum eða jafnvel góðum eðlum sem bregður ef hendi birtist óvænt nærri henni (þess vegna er gott að láta þær alltaf sjá vel úr fjarlægð að maður er að koma til þeirra). Á undan biti koma skýr merki (nema ef maður bregður eðlunni, þá gæti hún glefsað viðvörunarlaust) sem gefa til kynna að eðlan sé að fara að bíta (sjá hér að ofan) þannig að það er mikilvægt að fylgjast vel með.

Bólgin augu.


Já, þetta getur virkað frekar óhugnarlegt og minnir einna helst á eitthvers konar sýkingu, en augun tútna út þegar eðlan er fullkomlega afslöppuð og líður vel. Þetta er ekki oft sem eðlur gera þetta almennt, sumar þó mun oftar en aðrar, en meðallinn er svona einu sinni í viku. Þá lokar hún augunum og þau tútna út, þá eiga þær það til að nudda bólgnu augunum við jörðina eða annan hlut sem er nálægt. Þeim þykir oft voða notalegt ef maður nuddar augun þeirra voða blíðlega á meðan þær eru að þessu, passa bara að taka puttann frá þegar þær opna augun svo maður poti ekki í þau. -OG ALLS EKKI ÝTA OF FAST!

Fram- og/eða afturfætur liggja meðfram lengd eðlunnar.


alternatetext
Flestar eðlurnar sofa í þessari stellingu, en setja sig oft í þær þegar þær eru í sólbaði og vilja láta fara vel um sig. :-)

Augun.


alternatetext

Augun láta uppi mjög mikið, en það tekur líka hvað mestan tíma fyrir nýja iguana eigendur að læra að lesa úr þeim.
Lagið á augunum er oftast sívalt og hún lítur vel í kring um sig og skoðar mikið þegar hún er róleg.
Þegar eðlan er orðin pirruð, hrædd eða reið, þá verða augun næstum alveg kringlótt og stara fast á ógnina.
Með tíð og tíma getur maður líka farið að lesa margt annað úr augnaráðinu þeirra, ef þær eru forvitnar, glaðar, syfjaðar, dasaðar, ráðviltar og oft má jafnvel lesa úr þeim hvað þær ætla að gera næst.

Eðlurnar loka líka augunum ef maður er að klappa þeim á hausnum. Margir halda að þær séu að lygna aftur augunum af unaði, en í raun er húðin í kring um augun á þeim ofan á hausnum þeirra mjög þunn og þetta pirrar þær. Svona svipað og þegar enhver er að strjúka augnhárin hjá manni.
Iguana eðlur munu líka loka augunum til þess að gefa í skyn að þær vilji fá að vera í friði. T.d. ef eitthvað er að angra hana sem hún er ekki hrædd við, þá lokar hún augunum og vonar að hvað sem þetta var verði farið þegar hún opnar þau aftur.

Iguana eðlur horfa altaf beint í augun á fólki og öðrum dýrum sem þær gætu mætt. Úr augunum má lesa mikið og dæmir eðlan út frá því hvernig maður horfir á hana, þannig að það er alls ekki gott að stara beint í augun á henni, því þá líður henni oft eins og maður sé að fara að ráðast á hana. Tamdar og vanar eðlur kippa sér ekkert upp við það að það sé horft í augun á þeim, en ótamdar gætu farið í hörkuvörn.

Einstaklingsbundin líkamstjáing.


Þegar maður er búinn að eiga eðluna sína í svolítinn tíma gæti maður tekið eftir ýmsu í fari hennar sem er spes við hana og engar aðrar. Einnig geta þær skipt litum á hausnum til að sýna líðan sína, en hvað hvaða litur táknar er misjafnt eftir eðlum...


Hér er svo myndskeið af iguana eðlu sem er ekki voða sátt við að vera snert og gefur frá sér axlabobbið, en er óvenju róleg þrátt fyrir það. Það kom mér verulega á óvart að manneskjan sem er að atast í eðlunni hafi ekki verið bitin, því axlabobbið þýðir venjulega að eðlan ætli að fara a bíta frá sér.
Smella hér! (YouTube)