Annað efni eftir höfund:

Höfundur


Höfundur kann illa við að tala um sjálfan sig í þriðju persónu svo ég ætla að hætta því hér með. Ég fékk teiknibakteríuna á fyrsta árinu mínu í Menntaskólanum í Reykjavík (sjá fyrstu myndasöguna mína HÉR - mikið rosalega var ég stoltur af þessu á sínum tíma hehe) og það gæti verið ein af ástæðum þess að ég féll það árið og þurfti að reyna aftur. Ég var annar maðurinn í yfir hundrað ára sögu skólans til að vera rekinn úr efnafræðifaginu - ekki bara úr stökum tíma heldur öllu faginu (ég teiknaði skopmynd af kennaranum og hann tók því eitthvað illa). Sá fyrri sem var rekinn er víst að vinna í fiski samkvæmt kennaranum en ég komst síðar að því að hann væri í háskóla erlendis að læra kjarneðlisfræði. Núna segir kennarinn víst að við séum báðir að vinna í fiski þegar hann hótar að reka nemendur úr tímum. Á endanum gafst ég upp á MR og skráði mig á Listabraut í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti. Þar unni ég mér sérstaklega vel og kláraði stúdentinn á þeirri braut. Nokkrir kennarar minntust á það að ég sé sennilega fyrsti litblindi nemandinn í FB sem útskrifast af listabraut, en ég held þeir hljóti nú að vera fleiri þar sem á bilinu fimm til átta prósent karlmanna eru litblindir. Litblindan háir mér lítið í daglegu lífi... Það er einna helst í Púkalandi þar sem ég á það til að reka mig á... Þá helst í húðlitunum þar sem ég lita fólkið óvart grænt (eins og í fyrstu púkalandssögunni), en ég held ég sé búinn að ná tökum á því með því að merkja húðlitinn vandlega í teikniforritinu mínu og tóna hann bara með svörtum og hvítum. :)
Ég er búinn að eyða síðustu tveimur árum í að rífast við sjálfan mig hvað sé næst á dagskrá á menntabrautinni, en forritun og grafísk hönnun koma helst til greina... Ég HELD að ég sé núna búinn að komast að þeirri niðurstöðu að ég taki einfaldlega bara bæði!