Ferð Atla og Hörpu til Krítar sumarið 2010

Við flugum til Kaupmannahafnar föstudaginn 28. maí og gistum þar í eina nótt, fórum svo daginn eftir með flugi til Chania og gistum þar 4 nætur í miðbænum.

Frá Chania héldum við til Matala á suðurströnd Heraklion-sýslu þar sem við gistum í 10 nætur. Frá Matala gengum við í nærliggjandi þorp og ferðuðumst á bíl um Mesara dalinn og um Psiloritis, þ.e. sveitirnar í hlíðum Íða-fjalls.

Næsti áningarstaður var Sougia á suðurströnd Chania-sýslu þar sem við vorum 7 nætur. Þaðan gengum við m.a. til Lissos.

Frá Sougia fórum við til Paleochora sem er vestasti þéttbýlisstaður á suðurströnd Krítar. Þar vorum við í 4 nætur og gengum m.a. til Anyðroi.

Síðustu 3 næturnar gistum við svo í Chania þaðan sem við flugum til Kaupmannahafnar 26. júní. Eftir einn dag í Kaupmannahöfn flugum við heim að kvöldi sunnudagsins 27. júní.

Ítarlegri ferðasaga og fleiri myndir eru á vef Hörpu.


1. Við höfnina í Chania (frb. Hganja).

2 . Harpa á svölum gistihússins Hera sem stendur við Þeotokopoulou-götu í Chania.


3. Á verönd gistihússins í Matala. Strandhandklæðin blankta í golunni.


4. Soffía, eigandi gistihússins í Matala, hefur búið í þorpinu alla sína tíð. Þegar hún ólst upp voru þar 10 kot.

5. Köttur í Matala (einn af fjölmörgum sem ganga um og sníkja bita hjá gestum veitingahúsa).

6. Harpa uppi á hæð við Matala. Í baksýn eru óbyggðar eyjar sem heita Paximaðia.

7. Harpa við ströndina í Matala. Þorpið var vinsæll dvalarstaður hippa fyrir um 40 árum og andi þeirra lifir þar enn þrátt fyrir landakaup og sumarbústaðabyggingar þýskra efnamanna.


8. Ströndin í Matala. Fyrir ofan hana eru hellar, að mestu manngerðir á forsögulegum tíma. Um og upp úr 1970 bjuggu blómabörn í þessum hellum.


9. Harpa í Matala


10. Harpa í Matala


11. Kvöld í Matala. (Myndin er tekin á nokkurn vegin sama stað og mynd 10.)


12. Upp á lágum ás sunnan Matala. Ströndin fremst á myndinni heitir Rauðisandur (Kokkino ammos). Þangað er tæplega hálftíma gangur úr þorpinu um brattan stíg og heldur grýttan. Víkin er í eyði nema hvað þar er rekið kaffihús á sumrin.


13. Á Rauðasandi. Franskur listamaður sem dvelur þar löngum stundum hefur mótað myndir í bergið. Hér sést í eina þeirra.


14. Eitt af fjölmörgum listaverkum Frakkans á Rauðasandi.


15. Rétt norðan Matala er Kommos ströndin og þangað er hátt í klukkutíma gangur úr þorpinu.


16. Í heimsókn hjá bónda rétt ofan við Kommos ströndina. Hann tók okkur afar vel og bauð okkur tómata og kaffi.


17. Harpa í þorpinu Sivas sem er skammt frá Matala.


18. Næsta þorp við Matala (um klukkutíma gang þaðan) heitir Pitsiðia. Þar er þetta bókakaffi.


19. Verslun í Pitsiðia.


20. Köttur í Pitsiðia.


21. Sögulegar minjar eru við hvert fótmál á Krít og þær frá öllum tímum. Þetta mótorhjól er úr seinni heimstyrjöldinni. Krítverjar tóku hraustlega á móti innrásarliði Þjóðverja og sagt hefur verið að ef aðrar þjóðir hefðu brugðist álíka við hefðu landvinningar nasista engir orðið.


22. Í Faistos, skammt frá Matala, eru rústir af borg frá mínóskum tíma. Megnið af þeim er frá því um 1600 f. Kr. Nokkrar hleðslur eru þó mun eldri. Þarna fannst frægur diskur með letri sem ekki hefur tekist á ráða og segir skiltið frá þeim fundi.


23. Við lentum í svartaþoku í ökuferð upp Íða-fjall og snerum við þar sem ofurlítið útskot var á veginum hjá þessum steinkofa. Við fórum aðeins út úr bílnum þarna og komumst að því að vígalegur sheffer hundur var bundinn í keðju við inngang kofans. Tókst honum með mestu ágætum að flæma okkur aftur inn í bíl. Svona kofar eru allmargir þarna.


24. Ströndin í Souga og skilti sem vísar á gistihúsið þar sem við leigðum herbergi í eina viku.


25. Inngangurinn í gistihúsið í Sougia.


26. Á svölum gistihússins í Sougia. Atli búinn að elda súpu.


27. Harpa á veitingastað í Sougia.


28. Í hofi Askleipiosar (lækningaguðs) í Lissos. Frá Sougia er rúmlega klukkutíma gangur í eyðifjörðinn Lissos og liggur leiðin um þröngt gil og svo yfir heiði. Þarna eru rúsir og steinhleðslur fornrar borgar. Veggirnir sem sjást á myndinni eru taldir vera um 2300 ára gamlir en gólfið um 1900 ára.

29. Harpa í Lissos. Byggingin er kirkja.

30. Rétt hjá Sougia eru rústir borgar frá fyrstu öldum e.Kr. Hún hét Syja. Þar gengur búsmali þorpsbúa: geitur, kindur og hænur. Í Sougia búa um 40 manns allt árið og eiga flestir einhverjar skepnur auk olívutrjáa og annars aldinviðar. Á sumrin er fleira fólk þarna m.a. unglingar úr nærliggjandi þorpum sem vinna við ferðaþjónustu. Bændur í grennd framleiða einkum hunang auk olívuolíu.

31. Geitur.

32. Kvöld í Paleochora.

33. Í gönguferð frá Paleochora til Anyðroi (frb. Aniðri). Leiðin lá fyrst eftir malarvegi austur með ströndinni, þá um veglaust og nokkuð torfært gil upp til þorpsins sem er í brattri hlíð inni í landi og svo eftir vegi til baka.

34. Á leið til Anyðroi. Við ströndina var þetta athyglisverða skilti og spottakorn frá því þrír kofar á eyðiströnd. Í einum var selt kaffi. Merkingar gáfu til kynna að hinir væru snyrtistofa og nuddstofa en hvorki sáum við þar viðskiptavini né starfsfólk.

35. Rétt hjá skiltinu sem sést á mynd 34 voru fleiri skilti.

36. Komin til Anyðroi og Harpa sest niður á veitingahúsi þorpsins.

37. Á veitingahúsinu í Anyðroi.

38. Á veitingahúsinu í Anyðroi. Grískur strákpolli við næsta borð tók myndina.

39. Nýlegt veggjakrot í Chania. Allmikið ber á kroti í þessum dúr þar sem efnahagsráðstöfunum grískra stjórnvalda er mótmælt og lýst andstöðu gegn Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Neðsta línan bendir til að ritari sé fylgismaður gríska kommúnistaflokksins (KKE = Kommounistikó Kómma Elláðas).

40. Harpa utan við verslun í Chania.

Atli, 29.júní 2010