Atli Harðarson
Vísnagátur

1. 
Fer af stað á fimmtudegi. 
Fingur knýja, hljómar þá. 
Í henni situr sandur eigi. 
Sællegt fljóð með hýra brá.   

2. 
Kólguskafla klýfur hann. 
Kunnur vegur liggur þar. 
Á riti slíkan rekkur fann. 
Rýna í hann spekingar. 

3. 
Kagar fram á kalda röst. 
Kvarnar niður harðan stein. 
Hausinn lemur höggin föst. 
Heldur lítið mannabein. 

4. 
Smjúga gegnum göt á klæði. 
Gestir teitis bannfæra. 
Um þær snúast flókin fræði. 
Firnasnjallar sannfæra. 

5. 
Farþega í flugi hrjá. 
Finnast lagðar jörðu á. 
Mynda hraunin grett og grá. 
Grautinn á þeim hita má. 

6. 
Rak á land í Reykjavík. 
Rísa hátt í bláan geim. 
Kúra uppi á klettabrík. 
Kallast salur eftir þeim. 

7. 
Ásinn féll á annað tveggja. 
Ellileg er þátíð sagnar. 
Brækur þar oft bætast seggja. 
Beygja á ferli pípulagnar. 

8. 
Bar hann fréttir forðum tíð. 
Fór með stjórn á öllum lýð. 
Vex af honum viðjan fríð. 
Veltur hringi ár og síð. 

9. 
Telst í ætt við ígulker. 
Aðdáandi margur er. 
Yfir heiðan himinn fer. 
Heita skrúfjárn eftir mér. 

10. 
Hefur samið Vögguvísu. 
Víst það litar barið hold. 
Þangað sækjum þorsk og ýsu. 
Þessi nagar grös í mold. 

11. 
Eitt er kennt við kappann Skúla. 
Kennist oft á sundunum. 
Fæðu ber að mannsins múla. 
Milli fóta á sprundunum. 

12. 
Farartálmi á förnum vegi. 
Fingurgullin skreyta þeir. 
Held ég litur heita megi. 
Í höfði manna sitja tveir. 

13. 
Stafur forn með feikna mátt. 
Fer á vorin upp til heiða. 
Ríkur telst ef ærið átt. 
Allar skuldir nær að greiða.

14. 
Magnist deilur mætast stinn. 
Minni slíkt þú hafa átt. 
Bit í hnífinn brýnir minn. 
Í bóndans hlöðu gnæfir hátt. 

15. 
Báru menn frá brýnu heim.
Bifröst ótal litum skreyta.
Eltur margur er á þeim.
Ystu mörkin sjónar heita.

16. 
Fellur hurðin fast að þeim.
Finnast tveir í næstu línu. 
Gyrtir saman gjörðum tveim. 
Geislar yfir landi þínu. 

17. 
Löskun slæm á limum seggja. 
Lögreglan þeim vinnur mót. 
Samnefnd máttu saman leggja. 
Sært þau geta beran fót. 

18. 
Fallegar á fljóðunum. 
Finnast þær í ljóðunum. 
Beittar liggja í bjóðunum. 
Bera orku þjóðunum. 

19. 
Mein sem leggur menn í gröf. 
Milli ljóns og bræðra tveggja. 
Leynist víð'um heimsins höf. 
Hans er mynd í pyngjum seggja. 

20. 
Í vist er oftast vont að fá. 
Veður kennd við elritré. 
Langir og með ljósin á. 
Leita þeir að týndu fé. 

21. 
Skaðlegt úr því skeytið fló. 
Skeið var kallað forðum. 
Breytir elfu í sollinn sjó. 
Sést á veisluborðum. 

22. 
Koma út á hverjum degi. 
Körfu og sveip þau prýða vel. 
Fjúka um haust á förnum vegi. 
Föst á skrúfum víða tel. 

23. 
Köllum bæði korg og leir. 
Konungstign hann bar með sanni. 
Nefnast stæði og stakkar þeir. 
Strengdir yfir glugga í ranni. 

24. 
Um þau grannan þráð ég þræði. 
Þrútna oft af sorg og mæði. 
Renna yfir grund og græði. 
Greina ljós frá skuggum bæði. 

25. 
Bók sem geymdi boðorð góð. 
Bak á hina hlið ég kenni. 
Styrkri lýtur land og þjóð. 
Láta þægir vel að henni. 

26. 
Finnst oss megi fantar heita. 
Fylla margar skræðurnar. 
Atkvæði þeim ýmsir veita. 
Ótal kennd við mæðurnar.

27.
Jötuns vaxa ormum undir.
Ætíð traustum standa hjá.
Lengjast ef þeim fjölgar fundir.
Fjórðung þennan kalla má.

28.
Hefur vél og hefur klár
hefur bergið stóra
og heimurinn um eilíf ár
einn með skafla fjóra.

29.
Sinalausan sagði drótt.
Seldu ei fyrr en unnið getur.
Þarna keyrir karl um nótt.
Kúrir langa dimma vetur.

30.
Kváðu snótir lyppa í lár.
Logi hlýtur af þeim bana.
Galar mest í morgunsár.
Má við guði kenna hana.

31.
Yfir landi, yfir sjó.
Yfir höfin ganga.
Eftir mann og eftir jó.
Eftir koss á vanga.

32.
Segja má að merki hræri.
Markið hitti síst af löngu.
Búið til úr snúnu snæri.
Snöggir grípa lífs á göngu.

33.
Um þá lögmenn þræta þrátt.
Þröm á heljar lontu kemur.
Komdu móti brögðum brátt.
Bragnar velja keldu fremur.

34.
Af því gjörðust skegg og skálmar,
skaflar undir klára þegna.
Ferðalögum fanga tálmar.
Forðum borið skírslu vegna.

35.
Fleytu, skeið og kjól má kalla.
Klæðir veggi, þil og palla.
Seint við eina sumir falla.
Sagt um þjóð og lýði alla.

36.
Aldagömul geymir jörð.
Geira valda bana hörð.
Stjórnir um þau standa vörð.
Stef og bragi fyrir gjörð.

37.
Lokurs brýni skerpa skyldi.
Skjöldungs forðum kennd við hildi.
Með þeim bruður bryðja vildi.
Bráðum sýnir enga mildi.

38.
Fregn sem berast víða vann.
Í vigt þá skipum grönnu barni.
Á þeirri mýri margur brann.
Mundi fótur sannleikskjarni.

39.
Ætum hlaðnar ávöxtum,
einnig sjást í dagblöðum.
Nautn og yndi námfúsum,
nálgast má í lögbókum.

40.
Fundust þar sem gaukar gólu.
Greina beiskt og líka sætt.
Niðri í moldu aldur ólu.
Ágæt prýði smárri ætt.

41.
Danskar ganga grundirnar.
Gyðings niðji mundi þar.
Telur stóri stundirnar.
Stundum köllum undirnar.

42.
Þvílíkt veldur raunum rex.
Rist á kefli, horn og stein.
Heyra má í sunnan sex.
Sorgarefni, böl og mein.

43.
Inn í frá að dulur dregst.
Dafnar blá í sænum.
Í naustum smá að landi leggst.
Leggjum hjá í bænum

44.
Þar uppi bragi kíminn kvað
kraftur náttúrunnar
hvar ævintýrin eiga stað
átu svangir munnar.

45.
Þarna laugast mætti mund.
Mundi ríkis vera pund.
Stundum nefna halir hund.
Harla dáður alla stund.

46.
Æðstu kónga auður var.
Orðatak segir þögn hjá manni.
Grani slíka byrði bar.
Bein af dýrum inni í ranni.

47.
Slíka lind á þorna þorn.
Um þeirra drottin sögukorn.
Auði kenndur heims um horn.
Er höldur talinn æði forn.

48.
Grár og loðinn grær hann hjá
grösum inn til heiða.
Svona nefna seggi má
og sæinn undurbreiða.

49.
Margar innum stafi standa.
Strýtur kalla flestir menn.
Í söltum mari milli landa.
Miðar fólk á tug í senn.

50.
Margir vildu kjósa kyrr.
Kepp'að þessu ver og fljóð.
Um þau tíðum stendur styr.
Stundum auglýst betr' en góð.


 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Lausnir.