HSP103
á vorönn 2009

Verkefni


Aðalsíða - Kennsluáætlun - Verkefni - Próf

13. verkefni. Birtist mánudag 6. apríl. Lausn skal skilað í síðasta lagi klukkan 20 föstudag 24. apríl.

Lestu kaflana Frjáls vilji og Lífið er lotterí í bókinni Afarkostir. Svaraðu svo eftirfarandi spurningum. Textinn á að vera milli ein og hálf og þrjár vélritaðar síður.

 1. Ef til er alvitur guð sem veit nú þegar um allt sem þú munt hugsa og gera á morgun getur þú sjálf(ur) þá ráðið einhverju um hvað þú munt hugsa og gera á morgun?
 2. Ef allt sem þú hugsar og gerir á sér orsakir og þær orsakir eiga sér enn aðrar orsakir og þannig koll af kolli þar til komið er að atburðum sem urðu áður en þú fæddist getur þú þá nokkuð að því gert hvernig þú ert og hvað þú gerir?

   

12. verkefni. Birtist mánudag 30. mars. Lausn skal skilað í síðasta lagi klukkan 20 föstudag 17. apríl.

Lestu kaflana Tvíhyggja, Hughyggja, Ytri veruleiki og Veraldarhyggja í bókinni Afarkostir. Svaraðu svo eftirfarandi spurningum með þínum eigin orðum. Hæfilegt er að svörin séu samtals milli 1 og 2 vélritaðar blaðsíður.

 1. Hvaða munur er á efnishyggju, tvíhyggju og hughyggju?
 2. Er einhver ein þessara þriggja kenninga sennilegri en hinar?
 3. Er hægt að vita hvort þessar kenningar eru sannar eða ósannar?

  

11. verkefni. Birtist mánudag 23. mars. Lausn skal skilað í síðasta lagi klukkan 20 föstudag 3.apríl.

Ljúktu við að lesa Hugleiðingar um frumspeki eftir René Descartes. Segðu svo í stuttu máli (á um 1 til 2 blaðsíðum) og með þínum eigin orðum hvert er meginefni bókarinnar.

 

10. verkefni. Birtist mánudag 16. mars. Lausn skal skilað í síðasta lagi klukkan 20 föstudag 27. mars.

Lestu fjórðu hugleiðingu í bókinni Hugleiðingar um frumspeki eftir René Descartes. Leystu svo eftirfarandi verkefni. Svörin eiga að vera milli ein og tvær vélritaðar síður.

Liður A.
Hvernig rökstyður Descartes að hann geti ekki verið blekktur um alla hluti? Er þetta vel heppnuð röksemdafærsla hjá honum?

Liður B.
Hvernig útskýrir Descartes að mönnum skjátlast oft? Hvers vegna þarf hann að skýra þetta sérstaklega? Er skýring hans sennileg?

 

9. verkefni. Birtist mánudag 9. mars. Lausn skal skilað í síðasta lagi klukkan 20 föstudag 20. mars.

Lestu kaflana Altæk vél og Vélin maður í bókinni Afarkostir. Lestu einnig Þriðju hugleiðingu í bókinni Hugleiðingar um frumspeki eftir René Descartes. Leystu svo eftirfarandi verkefni. Svörin eiga að vera milli ein og tvær vélritaðar síður.

Liður A.
Hugsaðu þér að einhvern tíma verði til vél sem verður hægt að tala við á venjulegu mannamáli og það verði enginn munur á því að spjalla við hana og að ræða við fólk. Mundi tilvera svona vélar gefa okkur ástæðu til að hafna tvíhyggju eins og Descartes hélt fram?

Liður B.
Endursegðu í stuttu máli rök Descartes í Þriðju hugleiðingu fyrir því að hann hafi örugga vitnesku um tilveru alfullkomins Guðs.

Liður C.
Gerðu ráð fyrir að eftirfarandi fullyrðingar fjalli allar um sama hópinn (t.d. bekk í skóla) og í honum séu margir einstaklingar þar á meðal Anna, Dísa, Finnur og Georg. Hver eða hverjar af fullyrðingunum eru afleiðing af einhverri hinna eða í mótsögn við einhverja hinna?

 1. Hver einasti strákur elskar einhverja stelpu.
 2. Allir strákarnir elska Dísu.
 3. Georg elskar allar stelpurnar.
 4. Finnur elskar engan nema sjálfan sig.
 5. Enginn elskar Önnu.

 

8. verkefni. Birtist mánudag 2. mars. Lausn skal skilað í síðasta lagi klukkan 20 föstudag 13. mars.

Lestu kaflann Tvíhyggja í bókinni Afarkostir. Lestu einnig Aðra hugleiðingu í bókinni Hugleiðingar um frumspeki eftir René Descartes og glósur um sögu heimspekinnar sem er krækt í hér.

Liður A.
Undir lok fyrstu hugleiðingarinnar segir Descartes: "Af þessum sökum mun ég ekki ganga að því vísu að til sé algóður Guð, uppspretta sannleikans, heldur að máttugur og kænn illur andi neyti allra bragða til að blekkja mig." (bls. 139) Þessi hugmynd Descartes um illan anda sem blekkir hann er á ýmsan hátt svipuð sögunni um geimverurnar sem fjallað var um í síðasta verkefni. Í næstu hugleiðingum veltir Descartes fyrir sér hvað hann geti, þrátt fyrir þennan möguleika, vitað með öruggri vissu og kemst að því að jafnvel þótt hann væri blekktur af illum anda gæti hann verið viss um að hann sjálfur sé til. Er eitthvað fleira sem er hafið yfir allan vafa? Reyndu að finna dæmi um vitneskju sem engin leið er að efast um.

Liður B.
Lestu eftirfarandi brot úr samtali og segðu í stuttu máli hvor hefur meira til síns máls Georg eða Dísa. Færðu eins góð rök fyrir niðurstöðu þinni og þú getur.

Dísa: Lyf og vímuefni hafa áhrif á hugsun manns og skynjun. Þetta bendir til að hugarstarfið sé í raun ekkert annað en efnaferli í heilanum. Heilaskemmdir og heilasjúkdómar valda líka röskun á hugsuninni sem sýnir að hugsun er eitthvað sem gerist í heilanum og þar sem heilinn er líffæri sem hægt er að skilja og skýra með aðferðum líffræði og efnafræði er trúlegt að að þessi vísindi muni á endanum útskýra hvernig mannshugurinn virkar.

Georg: Hugurinn stendur vissulega í einhverjum mjög nánum tengslum við heilann. En hann hlýtur samt að vera eitthvað meira en bara efnafræðileg og líffræðileg virkni heilans og ég efast um að raunvísindin geti nokkru sinni fært okkur fullan skilning á huganum. Það er hugurinn sem hugsar og skilur allt annað og hann getur því varla verið eins og hver annar partur af þeim heimi sem við skiljum og hugsum um. Vitneskja okkar um eigið hugarstarf er líka af allt öðru tagi en önnur þekking. Ég veit með öruggri vissu hvernig ég skynja hlutina og hvernig mér finnst þeir vera og enginn annar getur vitað hvað gerist í huga mínum. Læknar og líffræðingar geta rannsakað alla líkamsstarfsemi mína en það er sama hvað þeir skoða heilann í mér vel þeir munu aldrei sjá hugsanir mínar. Ef horft er inn í hauskúpuna (t.d. með sneiðmyndatæki) þá sjást bara taugar og æðar og því um líkt. Ef myndin er stækkuð nógu mikið sjást einstök frumulíffæri og jafnvel sameindir en enginn getur séð eða skynjað hugsanir annars manns. Með öðrum orðum má segja að hugarheimur hvers manns sé algerlega hans eigin og enginn annar geti kíkt þar inn. Þetta bendir til þess að hugsun mín sé eitthvað annað en efnaferli og líffærastarfsemi eða hvers konar efnaferli eru það eiginlega sem ég get skynjað en enginn annar?

Lausnin á verkefnunum í A og B lið á að vera ein til tvær blaðsíður (þ.e. hálf til ein blaðsíða fyrir hvorn lið)

   

7. verkefni. Birtist mánudag 23. febrúar. Lausn skal skilað í síðasta lagi klukkan 20 föstudag 6. mars.

Lestu kaflana Efahyggja og Aðleiðsla í bókinni Afarkostir. Lestu einnig fyrstu hugleiðingu í bókinni Hugleiðingar um frumspeki eftir René Descartes.

Í upphafi kaflans Efahyggja er sögð furðusaga um að þú sért ekkert nema heili í krukku sem er mataður á sýndarveruleika. (Flestu sæmilega skynsömu fólki þykir sagan líklega fáránleg. Kannski er öll umræða um hana líka bjánaleg og illa farið með nemendur að setja þeim fyrir að pæla í svona vitlausum möguleikum. En þeir sem ekki sætta sig við slíka meðferð ættu ef til vill að velja aðrar námsgreinar en heimspeki).

Skrifaðu um eftirfarandi viðfangsefni. Textinn á að vera milli ein og hálf og þrjár vélritaðar síður.

Getur þú verið viss um að sagan um heilann í krukkunni sé ósönn? Ef  þú svarar spurningunni neitandi útskýrðu þá hvers vegna þú gerir samt ráð fyrir því í daglegu lífi að sagan sé ósönn. Ef þú svarar spurningunni játandi, útskýrðu þá hvaða ástæður þú hefur til að vera viss um þetta.

 

6. verkefni. Birtist mánudag 16. febrúar. Lausn skal skilað í síðasta lagi klukkan 20 föstudag 27. febrúar.

Liður eitt vegur 75% þegar einkunn er gefin fyrir þetta verkefni og liður 2 vegur 25%. Í svari við lið 2 á ekki að ræða um hverjar af fullyrðingunum eru sannar og hverjar eru ósannar heldur aðeins að skrifa við hverja þeirra eitthvað á borð við: „Í mótsögn við X og afleiðing af Y.“

 1. Lestu kaflana Veðmál Pascals og Bölsvandinn í bókinni Afarkostir. Lestu einnig texta um heimspeki miðalda sem er krækt í hér. Lestu svo eftirfarandi samtal milli Dísu og Georgs og skrifaðu viðbót við það. Láttu þau bæði setja fram góð rök máli sínu til stuðnings. Viðbótin á að vera milli ein og tvær vélritaðar síður.

  Dísa: Svo þú trúir því að til sé algóður, alvitur og almáttugur Guð.
  Georg: Já, auðvitað trúi ég því, eins og flest fólk.
  Dísa: Og þú viðurkennir samt að veröldin sé full af tilgangslausum þjáningum og böli.
  Georg: Já, hver getur neitað því þegar við fáum fréttir af því nánast á hverjum degi að börn deyi úr hungri og illmenni komist upp með að níðast á saklausu fólki.
  Dísa: En þetta gengur ekki upp. Ef þessi guð þinn er alvitur þá hlýtur hann að vita um allt það illa í heiminum. Ef hann er algóður þá hlýtur hann að vilja koma í veg fyrir það og ef hann er almáttugur þá hlýtur hann að geta það.
  Georg: Æ, Dísa, ...

 2. Hver eða hverjar af fullyrðingunum sem á eftir koma eru afleiðing af einhverri hinna eða í mótsögn við einhverja hinna?
  1. Allir kettir hafa rófu.
  2. Til er einn köttur sem hefur þrjár rófur.
  3. Enginn köttur hefur tvær rófur.
  4. Sumir kettir eru rófulausir.
  5. Enginn köttur hefur meira en eina rófu.

  

5. verkefni. Birtist mánudag 9. febrúar. Lausn skal skilað í síðasta lagi klukkan 20 föstudag 20. febrúar.

Ljúktu við að lesa Faídón. Lestu einnig kaflann um Sókrates og Platon eftir Sigurð Nordal (fremst í bókinni Síðustu dagar Sókratesar) og kaflann Stjörnufræði, heimspeki og pýramídar í bókinni Afarkostir. Svaraðu svo eftirfarandi spurningum í stuttu máli. Textinn á að vera milli ein og tvær vélritaðar síður. (Ef þú notar Word þá getur þú látið forritið telja orðin sem þú hefur skrifað með því að nota skipunina Word Count ... á Tools valmyndinni. Ein síða með einu og hálfu línubili og venjulegu 12 punkta letri er svona 300 til 400 orð.)

 1. Lýstu í stuttu máli trúarlegum hugmyndum sem Sókrates heldur fram í Faídóni (þ.e. hugmyndum um guði eða æðri máttarvöld, hvað verður um fólk þegar það deyr og hvað skiptir mestu máli í lífinu). Berðu þessar hugmyndir saman við kristna trú (eða önnur trúarbrögðum sem þú þekkir og eru algeng nú á tímum).
 2. Hver eða hverjar af fullyrðingunum sem á eftir koma eru afleiðing af einhverri hinna eða í mótsögn við einhverja hinna?
  1. Allir menn segja einhvern tíma ósatt.
  2. Enginn maður segir alltaf satt.
  3. Sumir menn segja alltaf satt.
  4. Sumir menn segja alltaf ósatt.

Liður númer 1 vegur 75% þegar einkunn er gefin fyrir þetta verkefni og liður númer 2 vegur 25%.

Ef þér finnst 2. hluti verkefnisins erfiður ættir þú að lesa kaflann um rökfærslur og mótsagnir upp á nýtt. Það er mikilvægt að þú áttir þig á hvað það þýðir að ein setning (eða skoðun eða fullyrðing) sé afleiðing af öðrum setningum (eða skoðunum eða fullyrðingum). Það er líka mikilvægt að þú áttir þig á hvað það þýðir að ein setning sé í mótsögn við aðra setningu (eða jafnvel í mótsögn við sjálfa sig eins og þú sást dæmi um í verkefni 3).

Mundu að mótsögn er ekki það sama og ósannindi. Margar setningar eru ósannar án þess að um neina mótsögn sé að ræða. En ef tvær setningar eru í mótsögn hvort við aðra þá geta þær ekki báðar verið sannar. (Hins vegar geta þær báðar verið ósannar. T.d. eru setningarnar „Allir kettir eru rófulausir “ og „Allir kettir hafa þrjár rófur“ í mótsögn hvor við aðra, en samt báðar ósannar. Þær eru í mótsögn hvor við aðra vegna þess að það væri alveg sama hvernig kettir litu út og hvað þeir hefðu margar rófur, setningarnar gætu aldrei verið báðar sannar.)

Að setning sé afleiðing af annarri setningu jafngildir því ekki að þær séu sannar (og útilokar það ekki heldur). Ef setning b er afleiðing af setningu a þá geta þær báðar verið sannar eða báðar ósannar eftir atvikum. Það eina sem er útilokað ef b er afleiðing af a er að a sé sönn og b ósönn. Ef setning er rökrétt afleiðing af sönnum setningum þá er hún sönn. En rökrétt afleiðing af ósönnum setningum getur verið hvort heldur sem er sönn eða ósönn. Í því sem hér fer á eftir er þriðja setningin (sem er sönn) t.d. rökrétt afleiðing af hinum tveim (sem eru báðar ósannar).

Allir hundar eru skriðdýr.
Öll skriðdýr hafa heitt blóð.
Allir hundar hafa heitt blóð.

 

4. verkefni. Birtist mánudag 2. febrúar. Lausn skal skilað í síðasta lagi klukkan 20 föstudag 13. febrúar.

Lestu að bls. 187 í Faídóni (frá númer 80 til 108 ef miðað er við númerin sem eru á spássíu í flestum útgáfum á ritum Platons.). Einnig getur verið gott að lesa aftur stuttan texta um Platon og gríska heimspeki og  um upprifjunarkenninguna og frummyndakenninguna. Leystu svo eftirfarandi verkefni. Svörin eiga að vera milli ein og tvær vélritaðar síður.

 1. Í seinni hluta Faídons (bls. 149 o. áf.) setur Simmías fram kenningu um samband líkama og sálar sem er á þá leið að sálin sé bara einhvers konar samstilling í líkamanum. Segðu í stuttu máli frá þessari kenningu og gerðu grein fyrir því hvernig Sókrates notar upprifjunarkenninguna til að hrekja hana.
 2. Hvaða álit hefur Sókrates á líkamanum og hversu skynsamlegt er þetta álit?
 3. (Þessi síðasti hluti verkefnisins tengist ekki Faídóni heldur er ofurlítil æfing í rökfimi.) Gerðu ráð fyrir að eftirtaldar fullyrðingar fjalli allar um sama hóp af fólki. Hver eða hverjar tölusettu fullyrðinganna er í mótsögn við skáletruðu fullyrðinguna og hver eða hverjar eru afleiðing af henni?

  Finnur og Dísa eru alsystkini og Anna er móðursystir þeirra.

  1) Móðuramma Dísu á aðeins tvö barnabörn.
  2) Móðuramma Dísu á að minnsta kosti tvö barnabörn.
  3) Dóttir Önnu er frænka Finns en ekki Dísu.
  4) Finnur á þrjár systur.
  5) Móðuramma Dísu á að minnsta kosti tvær dætur.

Taktu eftir því sem Sókrates segir um söng svana í Faídóni 85. Af þessum ummælum hans er dregin merking orðsins „svanasöngur“ þegar það er notað um síðasta (og glæsilegasta) verk listamanns eða afrek sem maður vinnur rétt áður en hann deyr.

 

3. verkefni. Birtist mánudag 26. janúar. Lausn skal skilað í síðasta lagi föstudag 6. febrúar.

Lestu fyrst stuttan texta um Platon og gríska heimspeki og  um upprifjunarkenninguna og frummyndakenninguna. Lestu svo fyrri hluta Faídóns, þ.e. blaðsíður 98 til 139 í bókinni Síðustu dagar Sókratesar - frá númer 57 til 80 ef miðað er við númerin sem eru sett út á spássíu í flestum útgáfum á ritum Platons. Þegar þú lest þennan fyrsta hluta Faídóns skaltu taka vel eftir því sem Sókrates segir um líkamann, því um það verður spurt í næsta verkefni. Svaraðu síðan eftirfarandi spurningum. Svörin eiga að vera milli ein og tvær vélritaðar síður (þ.e. svar við hverri spurningu ætti að vera um það bil hálf blaðsíða).

 1. Af hverju segir Sókrates (Faídón 64) að þeir sem iðka heimspeki með réttum hætti temji sér það eitt að deyja og vera dauðir?
 2. Finndu dæmi eða setningar í Faídóni 72-80 (bls. 124-139) þar sem Sókrates talar um frummyndir og útskýrðu hvað hann á við með þessu tali. (Athugaðu að orðið frummynd kemur ekki fyrir.)
 3. (Þessi síðasti hluti verkefnisins tengist ekki Faídóni heldur er ofurlítil æfing í rökfimi. Athugaðu að ekki dugar að svara með eða nei heldur verður að útksýra svarið.) Er mótsögn fólgin í eftirfarandi fullyrðingum?
  1. Það á aldrei að segja aldrei.
  2. Víðir í Garði er langbesta knattspyrnulið í Evrópu.
  3. Allar skoðanir eru jafnréttar.

Ef þér finnst þriðji liður verkefnisins erfiður ættir þú að lesa aftur kaflana Þverstæður og Um rökfærslur og mótsagnir sem þú last þegar þú leystir fyrsta verkefnið.

  

2. verkefni. Birtist mánudag 19. janúar. Lausn skal skilað í síðasta lagi föstudag 30. janúar.

Lestu Málsvörn Sókratesar í bókinni Síðustu dagar Sókratesar. Svaraðu svo eftirfarandi spurningum. Svörin eiga að vera milli ein og tvær vélritaðar síður samtals (þ.e. svar við hverri spurningu að vera um það bil hálf blaðsíða).

 1. Hvað sagði guðinn (véfréttin) í Delfum um Sókrates og hvernig túlkaði Sókrates ummæli guðsins?
 2. Hvers vegna ætli sumum af samborgurum Sókratesar hafi verið svo illa við hann að þeir dæmdu hann til dauða?
 3. Hvers vegna ætli Platon og fleiri hafi litið á Sókrates sem leiðtoga og fyrirmynd?

(Athugaðu að Málsvörn Sókratesar er í þrem hlutum. Fyrsti hlutinn er ræða sem Sókrates flutti áður en hann var dæmdur. Annar hlutinn er ræða sem hann flutti eftir að dómstóllin hafði greitt atkvæði um hvort hann væri sekur eða saklaus og úrskurðað að hann væri sekur. Þriðji hlutinn er ræða sem hann flutti eftir að búið var að ákveða hvaða refsingu hann hlyti.)

   

1. verkefni. Birtist mánudag 12. janúar. Lausn skal skilað í síðasta lagi föstudag 23. janúar.

Lestu kaflana Þverstæður og Sönnun Anselms í bókinni Afarkostir og stuttan kafla um rökfærslur og mótsagnir sem krækt er í hér.

Liður A.
Hér á eftir fara átta dæmi um rökfærslur. Tilgreindu hverjar þeirra eru gildar og hverjar eru ógildar. Ef þú segir að einhver rökfærslan sé ógild þarftu að útskýra hvers vegna hún er ógild.

Dæmi 1:
Forsenda 1: 
Gunna læsir húsinu sínu alltaf þegar hún fer að heiman.
Forsenda 2: 
Dyrnar á húsinu hennar Gunnu eru opnar.
Niðurstaða: 
Gunna er heima.
Dæmi 2:
Forsenda 1: 
Gunna læsir húsinu sínu alltaf þegar hún fer að heiman.
Forsenda 2: 
Dyrnar á húsinu hennar Gunnu eru læstar.
Niðurstaða: 
Gunna er ekki heima.
Dæmi 3:
Forsenda 1: 
Gunna er á ferðalagi.
Forsenda 2: 
Gunna læsir húsinu sínu alltaf þegar hún fer að heiman.
Niðurstaða: 
Dyrnar á húsinu hennar Gunnu eru læstar.
Dæmi 4:
Forsenda 1: 
Gunna fær gesti í heimsókn á hverjum sunnudegi.
Forsenda 2: 
Í gær voru gestir hjá Gunnu.
Niðurstaða: 
Í gær var sunnudagur.
Dæmi 5:
Forsenda 1: 
Gunna fær aldrei gesti á mánudögum.
Forsenda 2: 
Í gær voru gestir hjá Gunnu.
Niðurstaða: 
Í gær var ekki mánudagur.
Dæmi 6:
Forsenda: 
Hver bóndi í sveitinni á tvær sláttuvélar.
Niðurstaða: 
Sláttuvélarnar í sveitinni eru að minnsta kosti tvöfalt fleiri en bændurnir.
Dæmi 7:
Forsenda: 
Hvert barn í heiminum á tvo foreldra.
Niðurstaða: 
Foreldrarnir í heiminum eru að minnsta kosti tvöfalt fleiri en börnin.
Dæmi 8:
Forsenda 1: 
Enginn köttur hefur tvær rófur
Forsenda 2:
Einn köttur hefur einni rófu meira en enginn köttur.
Niðurstaða: 
Einn köttur hefur þrjár rófur.

Liður B.
Útskýrðu hvers vegna mótsögn er í því fólgin ef sagt er að það sé algild regla að frá öllum reglum séu undantekningar.

Liður C.
1. Hvaða forsendur notaði Anselm í sönnun sinni?
2. Hver var niðurstaða sönnunarinnar.
3. Er rökfærsla hans gild?


Aðalsíða - Kennsluáætlun - Verkefni - Próf