Frjáls vilji

Árið 1912 orti Stephan G. Stephansson hið heimspekilega kvæði Tíundir. Eitt erindi kvæðisins endar svona:

          Það er óþekkt orsök
          allt, sem kallast hending.

Með þessum orðum neitar Spephan G. því að hendingar séu til í raun og veru. Hann áleit að allir atburðir eigi sér orsök.
     Frá því vísindabyltingin hófst á 17. öld og Galíleó Galíleí (1564-1642), Isaac Newton (1642-1727), Robert Boyle (1627-1691) og aðrir upphafsmenn raunvísindanna tóku að skoða heiminn eins og hann væri vél sem lýtur stærðfræðilegum reglum, hefur sú skoðun að allt sem gerist fylgi ströngum og undantekningarlausum lögmálum verið algeng meðal þeirra sem dansa eftir pípu vísindanna. Ef við fylgjum kenningu Davids Hume (1711-1776), og flestra raunhyggjumanna sem á eftir honum hafa komið, og álítum að orsakatengsl séu ævinlega lögmálsbundin þá verður lítill munur á þeirri kenningu að allt eigi sér orsök og þeirri að allt sem gerist fylgi lögmálum náttúrunnar. Þessi skoðun er stundum kölluð nauðhyggja, stundum löghyggja.
     Nauðhyggju er stundum ruglað saman við þá skoðun að hægt sé að segja fyrir, eða spá, um hvaðeina sem gerist í framtíðinni. Þessar skoðanir eru að vísu skyldar en það má þó ekki slá þeim saman því nauðhyggja getur verið sönn án þess að framtíðin sé fyrirsegjanleg eða hægt sé að reikna út hvernig hún verður. Það eru að minnsta kosti til tvenns konar ástæður til að efast um að öll löggeng ferli í náttúrunni séu útreiknanleg.
     Önnur ástæðan er að kannski reiknar náttúran sjálf sína eigin framvindu svo hratt sem vera má þannig að engin reiknivél og enginn reiknimeistari geti verið á undan atburðunum. Til dæmis er kannski engin leið að reikna nákvæmlega hvernig veðrið verður á sama tíma á morgun og ljúka reikningunum innan 24 klukkustunda.
     Hin ástæðan er að ýmis ferli í náttúrunni haga sér þannig að ofurlítil frávik í upphafi valda miklum mun í lokin. Í þessu sambandi er stundum talað um fiðrildisverkun (e. butterfly effect): Hvernig eitt fiðrildi í Ástalíu sveiflar vængjunum í dag getur ráðið úrslitum um hvort óveður fer framhjá Íslandi eða skellur á því hálfum mánuði seinna. Geti svona smáatriði ráðið úrslitum er ljóst að til að gera veðurspá fyrir hálfan mánuð þarf að fylgjast með hverju einasta skordýri á jörðinni og til að spá fyrir um vængjatök eins kvikindis þarf að fylgjast með hverju atómi í líkama þess og það er ekki hægt.
     Það er ekki nóg með að náttúran kunni að vera óútreiknanleg. Á þessari öld hafa komið fram rökstuddar efasemdir um að hún sé yfirleitt löggeng. Á fyrri hluta aldarinnar mótuðu eðlisfræðingar kenningar um hegðun frumeinda og öreinda. Þessar kenningar kallast skammtafræði og eru í grundvallaratriðum ólíkar þeirri klassísku eðlisfræði sem varð til á 17. öld. Reikniformúlur skammtafræðinnar hafa reynst vel. Þær hafa gert alls konar tækniundur möguleg og komið ágætlega heim við rannsóknir, athuganir og mælingar. En allt frá því skammtafræðin varð til hafa eðlisfræðingar verið ósammála um hvernig eigi að túlka hana. Það hefur ekki mótast nein ein viðtekin skoðun á því hvernig hinar smæstu eindir efnisins þurfa að vera til að hegðun þeirra falli að formúlunum.
     Sumir hafa talið réttast að túlka skammtafræðina svo að hegðun öreinda sé að einhverju marki tilviljanakennd eða óregluleg. Frægastur í þessum hópi er Daninn Niels Bohr (1885 - 1962). Þeir sem fylgja honum að málum hafna nauðhyggju í þeirri mynd sem klassísk eðlisfræði gerir ráð fyrir. Allt frá fyrstu árum skammtafræðinnar hafa rök Bohr og fylgismanna hans verið umdeild meðal eðlisfræðinga. Fræg eru ummæli Alberts Einstein (1879-1955) er hann deildi við Bohr um þetta efni og sagði: "Guð kastar ekki teningum".
     Ef við aðhyllumst nauðhyggju í anda klassískrar eðlisfræði þá hljótum við að álíta að hreyfingar vöðva og beina í okkar eigin líkama séu lögmálsbundnar. Orsök þess að ég vélrita þessa stafi sem þú ert að lesa eru einhver ferli í taugakerfi mínu, sem orsakast af einhverjum efnaferlum, sem orsakast af einhverju enn öðru og svo framvegis. Það hlýtur að vera hægt að rekja þessa orsakakeðju aftur í tímann, aftur fyrir fæðingardag minn, til atburða sem ég gat engan veginn ráðið við eða borið ábyrgð á. Það breytir litlu þótt við gerum ráð fyrir að tilviljanakennd hegðun öreinda útiloki að hegðun fólks sé löggeng að öllu leyti, því ekkert bendir til að menn geti neitt við það ráðið á hvern veg þessar tilviljanir verða. Ef þetta er rétt get ég þá nokkuð að því gert að ég er að skrifa þetta? Getur þá nokkur maður gert að nokkrum hlut?
     Ýmsir af merkustu heimspekingum nýaldar hafa velt þessum spurningum fyrir sér. Sumir eins og Benedict Spinoza (1632-1677) og David Hume (1711-1776) hafa fallist á þá niðurstöðu að allt sé fyrirfram ákveðið. Aðrir hafa átt erfitt með að sætta sig við þessa niðurstöðu, meðal annars vegna þess að þeim hefur fundist að sé allt ráðið fyrirfram þá geti enginn að neinu gert og fótunum sé þar með kippt undan öllu siðferði; enginn geti átt gott eða illt skilið og ekkert vit geti verið í að refsa mönnum fyrir ill verk og hrósa þeim fyrir góð verk. Í þessum hópi er þýski heimspekingurinn Immanuel Kant (1742-1804) einna frægastur. Hið mikla og volduga heimspekikerfi hans þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að sýna fram á að það sé að minnsta kosti mögulegt að menn hafi frjálsan vilja.
     Hvað ætli sé nú rétt í þessu efni? Getur verið að heimsmynd vísindanna, hafi þá fáránlegu afleiðingu að það sé ekkert vit að refsa mönnum eða álasa þeim fyrir ill verk og slæma hegðun eða verðlauna þá og lofa fyrir góðverk og mannkosti?
     Það er hægt að nálgast þetta vandamál á ýmsa vegu. Ein leið er að spyrja: Hefði ég getað gert eitthvað annað en ég gerði í raun? Hefði ég til dæmis getað horft á sjónvarpið í gærkvöldi? Svarið sem blasir við er: Ég hefði getað gert það ef ég hefði viljað. En þá má enn spyrja: Gat ég viljað? Og nú vandast málið. "Heilbrigð skynsemi" á ekkert svar við þessari spurningu og það er hér sem skilur á milli nauðhyggju og fríhyggju. Nauðhyggjumaðurinn segir: Nei, vilji mannsins stjórnast af orsökum sem hann hefur ekki vald á. Fríhyggjumaðurinn segir: Já, vilji mannsins er frjáls og óbundinn af orsökum.
     Það eitt að viljinn sé óbundinn af orsökum eða náttúrulögmálum dugar fríhyggjumanninum þó ekki. Þetta þarf ekki að fela annað í sér en að hann ráðist að nokkru af tilviljunum. En kenningar um frjálsan vilja gera ekki ráð fyrir að viljinn sé háður tilviljunum heldur að menn hafi stjórn á honum og ráði sjálfir hvað þeir vilja.
     Fríhyggjumenn líta svo á að vilji mannsins sé hafinn yfir náttúrulögmálin og þeir álíta flestir að mannshugurinn sé af öðru tagi en allt annað í náttúrunni og þessi sérstaða hugans sé forsenda alls siðferðis. Þessi hugmynd um að frjáls vilji sé forsenda siðferðis byggir á tveim forsendum. Önnur forsendan er sú að verk sem menn geta ekki að gert, eða hafa ekki vald yfir, séu hvorki lofsverð né ámælisverð og fyrir þau beri hvorki að refsa mönnum né verðlauna þá. Hin forsendan er sú að ef vilji mannsins er bundinn af orsökum sem hann ræður ekki við þá geti enginn að neinu gert.
     Fyrri forsenduna geta nauðhyggjumenn yfirleitt fallist á. Flestir þeirra hafa hins vegar hafnað þeirri síðari og sagt sem svo að menn hafi vald yfir því sem þeir gera viljandi, jafnvel þótt þeir ráði ekki hvað þeir vilja. Að hafa vald yfir einhverju er einmitt í því fólgið að láta það lúta vilja sínum. Er hugmynd fríhyggjumannsins um að menn hafi vald á eigin vilja ekki hrein rökleysa? Hún þýðir að menn láti vilja sinn lúta vilja sínum, sem er hreint og klárt rugl, eða er það ekki?
     Í höfuðriti sínu, Ritgerð um mannlegan skilning1,  fjallar John Locke (1632-1704) um þetta efni og bendir á að manni sé frjálst að gera eitthvað eða láta það ógert ef það hvort hann gerir veltur á vilja hans. Að vera frjáls er að vera undir stjórn eigin vilja. Svo bætir Locke við:

En viljinn sjálfur, eða það að taka eitt fram yfir annað, er nokkuð sem maður kemst ekki hjá. Athafnir viljans eru nauðsyn bundnar og geta því ekki verið frjálsar, nema þá að nauðsyn og frelsi geti farið saman og maður verið í senn frjáls og bundinn. Eigi maður að vera frjáls með þessum hætti þannig að athafnir viljans velti á því hvað hann vill þá hlýtur þessi vilji að stjórnast af öðrum vilja og sá af enn öðrum og svo framvegis í það óendanlega; því hvar sem numið er staðar getur sá vilji sem er síðastur í röðinni ekki verið frjáls.
     Af þessum vangaveltum Lockes má ljóst vera að það er allt annað en auðvelt að fá botn í þá hugmynd að menn ráði sjálfir hvað þeir vilja. Meðan fylgismönnum fríhyggju tekst ekki að gera skynsamlega grein fyrir hvað í því felist að stjórna eigin vilja er ákaflega erfitt að taka kenningu þeirra alvarlega.
     Eina færa leiðin sem ég veit til að fá vit í þá skoðun að menn stjórni sjálfir eigin vilja er að segja að frjáls vilji sé það sama og venjulega er kallað sjálfstjórn. Hann sé í því fólginn að viljaverk manns séu í samræmi við skoðanir hans og gildismat. Sé þetta rétt skortir nokkuð á að reykingamaðurinn, sem kveikir sér viljandi í sígarettu, þótt hann telji reykingarnar hið mesta böl, hafi frjálsan vilja. Samkvæmt þessu er viljinn frjáls að því marki sem hann er í samræmi við manns betri vitund. En frjáls vilji af þessu tagi útilokar hvorki nauðhyggju né tryggir að menn ráði því sjálfir hversu mikla sjálfstjórn þeir hafa. Eina leiðin til að fá vit í hugmyndina um að ráða sjálfur vilja sínum liggur því fremur í átt til nauðhyggju en fríhyggju.
     Um nauðhyggju og fríhyggju hafa verið skrifaðar margar þykkar bækur. Kenning nauðhyggjumanna fellur ágætlega að heimsmynd vísindanna og röklega er ekkert við hana að athuga. Kenning fríhyggjumanna stingur mjög í stúf við heimsmynd vísindanna og er auk þess á mörkum þess að vera skiljanleg. Samt finnst líklega flestum að hún falli betur að siðferðisvitund sinni og réttlætiskennd heldur en nauðhyggjan. Að nokkru leyti kann þetta að stafa af misskilningi á siðferðinu. Sumir nauðhyggjumenn, þar á meðal ekki minni spekingur en DavidHume, hafa haldið þessu fram og sagt að lof og last, verðlaun og refsingar, geri gagn einmitt vegna þess að vilji mannsins stjórnast af orsökum sem haga sér með reglubundnum hætti. Lof og verðlaun festa tiltekna hegðun í sessi en last og refsingar draga úr vilja manna til að endurtaka svipuð verk.
 

1) An Essay concerning Human Understanding. Kom fyrst út árið 1689. Tilvitnunin sem á eftir fer er úr 2. bók 21. kafla 23. grein.