Lífið er lotterí

Hamingja manna veltur að miklu leyti á heppni. Sumir fæðast hraustir og heilbrigðir, aðrir fatlaðir og vanskapaðir. Sumir fæðast inni í auðugt samfélag þar sem allt er á uppleið. Aðrir eru dæmdir til að líða skort. Sumir eru heppnir og sumir óheppnir og þetta kemur verðleikum fólks yfirleitt ekkert við. Lán og ólán eru utan við allt réttlæti. Um þetta þarf kannski ekki að orðlengja svo augljóst sem það er. En þó þetta virðist augljóst neita því margir. Mér skilst að þeir sem aðhyllast hindúatrú álíti að bág kjör manns í þessu lífi séu afleiðing af einhverju sem hann gerði af sér í fyrra lífi. Ef þetta er rétt þá er hamingja manna ekki komin undir heppni, tilviljunum og blindum náttúrukröftum heldur veltur hún algerlega á verðleikum þeirra og enginn verður fyrir meira óláni en hann á skilið.
     Þessi kenning hindúa á sér samsvörun í mörgum öðrum trúarbrögðum enda boða flest trúarbrögð að einhvers konar æðra réttlæti sé að baki öllu því sem okkur virðist velta á heppni og hendingum. En trúarbrögðin eru ekki ein um að hafna því sem virðist liggja í augum uppi. Ein af áhrifamestu heimspekistefnum fornaldar, Stóuspekin, tók í sama streng.
     Stóuspekin varð til í Grikklandi um 300 f. Kr. en er kunnust af ritum Rómverja sem voru uppi nokkrum öldum síðar. Meðal þessara rómversku Stóuspekinga voru Markús Árelíus keisari sem var uppi á árunum 121 til 180 og þrællinn Epiktet sem var grískur að uppruna og lifði frá 55 til 135. Kenningar þess síðarnefnda eru meðal annars þekktar af lítili bók sem er yfirleitt kölluð Handbók Epiktets og Broddi Jóhannesson þýddi á íslensku fyrir um það bil 40 árum síðan og gaf út undir nafninu Hver er sinnar gæfu smiður.1
     Þessi nafngift lýsir vel siðfræði Stóumanna. Þeir töldu að hver maður ætti hamingju sína undir sjálfum sér en hvorki heppni né tilviljunum. Að dómi Epiktets geta menn verið hamingjusaLífið er lotterímir á hverju sem gengur ef þeir kunna að taka því með æðruleysi og hafa vit á að ergja sig ekki yfir því sem þeir fá ekki við ráðið. Raunar gekk hann svo langt að halda því fram að ástvinamissir, sjúkdómar, kúgun, illt atlæti og annað það sem gerir mönnum lífið leitt hafi engin áhrif á hamingju þeirra - það séu ekki atvikin sem geri mann óhamingjusaman heldur viðhorf hans til þeirra. Í 16. kafla bókarinnar segir Epiktet:
     Ef þú sérð einhvern gráta af trega vegna þess að barn hans er fjarri eða látið eða hann hefur týnt fé sínu, þá gættu þess, að sú hugmynd villi ekki um fyrir þér, að hann sé hryggur vegna þessara ytri hluta. Hugfestu að atvikin hryggja hann ekki, því þau hryggja ekki aðra, heldur horf hans sjálfs við þeim. Með orðum einum mátt þú taka þátt í harmi hans og einnig andvarpa með honum, ef svo ber við. En gættu þess að klökkna ekki með honum á hjarta.
Epiktet og aðrir Stóumenn þóttust geta varist valdi tilviljunarinnar með því að láta sig það engu varða hvernig veröldin veltist. Varnartæki þeirra voru æðruleysi og viljastyrkur. En þeim virðist ekki hafa komið til hugar að hending og blindir náttúrukraftar ráði því hvort maður skarar fram úr að æðruleysi og viljastyrk eða er huglaus óhemja. Þeir trúðu því að hverjum manni sé sjálfrátt um hugarfar sitt. Þótt það blasi við að menn skammta sér ekki sjálfir andlegt atgervi hefur þessi hugsun Stóumanna orðið ákaflega lífseig. Henni hefur skotið upp aftur og aftur í vestrænni siðfræði, meðal annars í ritum þýska heimspekingsins Immanuels Kant (1742 - 1804) sem er jafnan talinn með merkustu siðfræðingum seinni alda.
     Kant áleit að þótt veraldlegt gengi manns sé að miklu leyti háð heppni þá séu verðleikar hans það ekki. Samkvæmt þessu geta menn átt hamingju sína undir heppni og tilviljunum, en hvort þeir eiga illt eða gott skilið kvað vera óháð allri heppni.
     Í sínu frægasta siðfræðiriti Undirstöðum að frumspeki siðferðisins2  segir Kant:
 
Það er engin leið að hugsa sér neitt í þessum heimi, og ekki einu sinni neitt utan þessa heims, sem hægt er án nokkurra fyrirvara að kalla gott, nema góðan vilja. Skilningur, fyndni, dómgreind, og allir aðrir andlegir hæfileikar /.../ eru vafalaust á ýmsan hátt góðir og eftirsóknarverðir. En þeir geta orðið ákaflega illir og skaðlegir ef viljinn sem nýtir sér þessar náttúrugáfur /.../ er ekki góður.


     Allt þetta má kannski til sanns vegar færa. En Kant lætur ekki staðar numið hér heldur bætir því við að verðleikar manns fari ekki eftir því hvert gagn hann vinnur heldur eingöngu eftir því hvort hann vill vel.

Hinn góði vilji er hvorki góður vegna afleiðinga sinna eða þess sem hann kemur í kring né vegna þess að hann henti til að ná einhverjum tilteknum markmiðum. Hann er góður fyrir það eitt að vilja, það er að segja hann er góður í sjálfum sér. Hann er miklu æðri öllu því sem hann getur komið til leiðar. /.../ Jafnvel þótt óblíð örlög eða naumt skornar náttúrugáfur valdi því að þessi vilji komi engu til leiðar, jafnvel þótt ítrasta áreynsla dugi honum á engan hátt til að ná marki sínu og jafnvel þótt ekkert sé eftir nema viljinn einn (ekki bara ósk heldur vilji sem beitir öllum aðferðum sem við höfum á valdi okkar) þá glitrar hann eins og gimsteinn /.../
     Þetta dugar að vísu ekki til þess að verðleikar manns séu óháðir heppni og blindum náttúrukröftum. Til þess að kaupa sér frelsi undan höfuðskepnunum reiðir Kant fram þá kenningu Stóuspekinga að hverjum manni sé sjálfrátt um hugarfar sitt. Hann orðar þessa kenningu svo að vilji mannsins sé frjáls. Í þessu felst að hvort maður vill vel eða illa velti hvorki á uppeldi né erfðum, efnaferlum í heilanum né neinu öðru því sem hann hefur ekki algerlega á valdi sínu.
     Kant var vel að sér í raunvísindum og gerði sér fulla grein fyrir því að allt sem gerist í náttúrunni, og þar með allt sem gerist í mannslíkamanum, fylgir lögmálum sem menn fá engu um breytt. Hann gerði sér manna best grein fyrir því að kenningin um frjálsan vilja passar illa inn í heimsmynd vísindanna. En til þess að skapa viljanum svigrúm setti hann saman einhverja stórkostlegustu heimspeki sem sögur fara af. Samkvæmt þessari heimspeki lýsa vísindin heiminum ekki eins og hann er í sjálfum sér heldur eins og hann kemur okkur fyrir sjónir eftir að skynfæri okkar og skilningur hafa matreitt hann ofan í okkur. Vísindin fjalla sem sé ekki um veruleikann heldur um reynsluheim manna. Um veruleikann sjálfan er ekkert hægt að vita og í honum gæti viljinn sem best verið frjáls.
     Þetta er mikil kenning og myrk. En þeir sem telja sig hafna yfir duttlunga höfuðskepnanna, þótt ekki sé nema að því leyti að þeir eigi það undir sjálfum sér hvort þeir eru góðir menn eða vondir, verða að sæta þeim afarkostum að trúa einhverju ámóta.
 

1) Á frummálinu heitir þessi bóki Enkheiridíon. Hún var rituð af Arríanusi nemanda Epiktets.

2) Á frummálinu heitir bókin Grundlegung zur Metaphysik der Sitten og kom fyrst út árið 1785. Tilvitnanirnar sem á eftir koma eru úr upphafi fyrsta hluta bókarinnar.