Veðmál Pascals

Frakkinn Blaise Pascal (1623 - 1662) er helsti upphafsmaður líkindareikningsins og jafnan talinn með mestu stærðfræðingum 17. aldar. Pascalþríhyrningurinn, sem er fjallað um í stærðfræðikennslubókum fyrir framhaldsskóla, er við hann kenndur. En Pascal fékkst ekki bara við stærðfræði. Á skammri ævi vann hann líka afrek í eðlisfræði og fleiri greinum og telst með merkustu upphafsmönnum raunvísindanna.
     Ólíkt flestum öðrum vísindamönnum síns tíma efaðist Pascal um ágæti vísindalegrar hugsunar og þeirrar skynsemi sem vísindamenn og heimspekingar dásömuðu hvað mest. Honum þótti hún færa mönnum heldur vonarsnauða visku og engan veginn duga til að afla þeirrar þekkingar sem þarf til að lifa lífinu. Pascal áleit rödd hjartans veita öruggari leiðsögn og hann óttaðist að skynsemi og rökhugsun yfirgnæfðu þessa rödd. "Hjartað á sín rök sem rökhugsun nær ekki til" sagði hann.
     Árið 1654 varð Pascal fyrir einhvers konar vitrun eða trúarlegri reynslu. Hann skráði reynslu sína með orðunum "Eldur. Guð Abrahams, Guð Ísaks, Guð Jakobs, ekki Guð heimspekinganna og lærdómsmannanna. Öryggi, vissa, sæla, friður." Alla tíð síðan var þessum einkennilega vísindamanni meira í mun að boða mönnum trú en að kunngera niðurstöður rannsókna sinna í eðlisfræði og stærðfræði. Ekki fór þó hjá því að trúboð hans litaðist nokkuð af hugsun vísindamannsins.
     Afrek Pascals í líkindareikningi gerðu mönnum mögulegt að glöggva sig á hvernig skynsamlegt er að bregðast við óvissu og Pascal notar hugmyndir sínar um skynsamleg viðbrögð við óvissu til að rökstyðja kristna trú. Í Hugleiðingum1  sínum segir hann:
Segjum nú sem svo: Annað hvort er Guð til eða hann er ekki til. En hvort eigum við að halda? Skynsemin getur ekki skorið úr. Á milli þessara tveggja kosta er ginnungagap og úti í óendanleikanum er hlutkesti varpað. Hvor hliðin kemur upp? Á hvað ætlar þú að veðja?
Svo koma rök Pascals fyrir því að leggja lífið að veði fyrir því að Guð sé til: Það eru tveir möguleikar, annað hvort er Guð til eða ekki. Ég get brugðist við á tvo vegu, ég get trúað eða verið trúlaus. Það er því hægt að setja kostina, sem Pascal ræðir, í töflu svona:
 
     Guð er til  Guð er ekki til
Ég kýs að trúa Óendanlega mikill ávinningur - það er eilíf sæla. Endanlegt tap (sem er í því fólgið að hafa rangt fyrir sér).
Ég kýs að vera trúlaus Enginn ávinningur. Endanlegur ávinningur (sem er í því fólginn að hafa rétt fyrir sér).

Séu kostirnir eins og taflan sýnir þá er mun skynsamlegra að trúa en að vera trúlaus því þá eru endanlegar líkur á óendanlegum vinningi og happdrætti þar sem eru endanlegar líkur á óendanlegum vinningi er óendanlega hagstætt.
     En Pascal gerir sér grein fyrir því að þessi rök duga ekki til að snúa þeim trúlausa. Hann er vís til að segja. Hvað á ég að gera? Ég er þannig gerður að ég get ekki trúað.

Það má vel vera en komdu því inn í hausinn á þér að getir þú ekki trúað þá er tilfinningum þínum um að kenna, því skynsemin segir þér að trúa. Vertu ekki að reyna að sannfæra sjálfan þig með sönnunum fyrir tilveru Guðs, reyndu heldur að hafa hemil á tilfinningum þínum. Þú vilt finna trú en veist ekki hvar skal leita. Þú vilt læknast af trúleysi þínu og spyrð um meðal. Lærðu af þeim sem eitt sinn stóðu í þínum sporum en leggja nú allt sitt undir. Þetta fólk þekkir leiðina sem þú vilt fara, farðu í fótspor þess. Það lét sem það væri trúað, notaði vígt vatn, lét syngja messur og svo framvegis.
Síðan Pascal setti þessi rök fram hafa ýmsir spekingar fetað í fótspor hans og reynt að sýna fram á að skynsamlegt sé að trúa einhverju um efni sem enginn veit neitt um.
     Ein rök af þessu tagi má finna í erindum Sigurðar Nordal Líf og dauði.2  Síðasta erindið í flokknum er ekki venjulegur fyrirlestur heldur saga sem heitir "Ferðin, sem aldrei var farin". Þessi saga gerist í Rómaveldi á 2. öld eftir Krist og segir frá ungum manni af tignum ættum sem Lucius hét. Hann hafði erft mikinn auð eftir föður sinn, lifði hátt og "safnaði að sér gjálífum höfðingjasonum, leikurum og dansmeyjum og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði"
     Keisaranum, Markúsi Árelíusi, leist ekki meira en svo á hvernig ungi maðurinn sóaði föðurarfi sínum og hæfileikum svo hann kallaði Lucius á sinn fund og sagði:
Sendiferð hef eg hugað þér /.../ Hún verður að vera með mikilli launungu, svo þú farir hana einn þíns liðs og fátæklega búinn að fararefnum, þótt óríflegt sé fyrir jafnauðugan mann og þú ert, sem á sér gnótt fylgdarmanna og skjólstæðinga. Mér eru ókunn lönd þau og leiðir, er þú verður að kanna, eftir að kemur út yfir landamæri ríkis vors, og veit eg ekki þeirra manna von, er kunni að segja þér af þeim. En bæði hygg eg að þú munir þola vos og mannraunir í förinni. Um erindi þitt veit eg hvorki nú né mun síðar kunna gjör að segja þér annað en það eitt, að velfarnaður Rómaveldis getur mjög verið undir góðum erindislokum kominn.
Þetta varð til þess að Lucius lét af svallinu og tók að iðka íþróttir og læra allt sem hægt var um fjarlæg lönd. Hann tók algerum stakkaskiptum og hugsaði nú um það helst og fremst að verða sem hæfastur til að halda einn síns liðs út í óvissuna.
Dagar hans urðu sem perlur í festi, þar sem hver ný perla varð fegurri og dýrari en hinar fyrri, því að í henni birtist ljómi liðinna stunda með meiri skærleik, og allt af var hann þess minnugur, að perlan, sem lá í lófa hans í dag, gæti orðið hin síðasta í þessari festi.
Svo kom að því að keisarinn kallaði hann á sinn fund og sagði:
Þú hefur búið þig vel og drengilega undir þá ferð sem keisari þinn kvaðst hafa fyrirhugað þér. Þú stendur nú frammi fyrir mér albúinn til þess að færast hverjar þær þrautir í fang, sem þér kunna að bera að höndum. Þú hefur gert þína skyldu. Nú á eg eftir að gera mína: að leysa þig frá þessari kvöð. Ferðin, sem eg talaði um, verður aldrei farin.
pSvo bætir keisarinn því við að þótt þessi ferð verði aldrei farin eigi allir menn líka ferð fyrir höndum þegar þeir yfirgefa þennan heim.
Einmana förum vér til ókunnugs lands, þar sem eg verð ekki Cæsar og þú getur jafnvel ekki haft með þér spjót þitt né sax. Naktir munum vér standa frammi fyrir konungi þessa lands, alls lausir nema þess, sem vér erum í hug og hjarta.
Sagan um ferðina sem aldrei var farin er rök Sigurðar fyrir því að sá sem gerir ráð fyrir öðru lífi og býr sig undir það lifi þessu lífi betur en hinn sem er hirðulaus um allan slíkan undirbúning. Af öðru sem Sigurður segir í erindum sínum er ljóst að hann telur hægt að rökstyðja trú á annað líf með svipuðum hætti og Pascal rökstuddi trú á guð, nefnilega með því að sýna fram á að þótt ekkert sé vitað um hvað er satt í þessu efni þá borgi sig frekar að trúa á framhaldslíf en að trúa ekki á það. Eins og hjá Pascal er hægt að setja möguleikana upp í töflu:
 
   Það er líf eftir dauðann Það er ekki líf eftir dauðann
Ég kýs að trúa á líf eftir dauðann og haga mér í samræmi við þá trú. Ég græði á 3 vegu: Þetta líf verður betra; ég mæti undirbúinn í næsta líf; ég hef rétt fyrir mér. 
(3 stig)
Ég græði á 1 veg og tapa á 1: Þetta líf verður betra; ég hef rangt fyrir mér. 
 
(0 stig)
Ég kýs að trúa ekki á líf eftir dauðann. Ég tapa á þrjá vegu: Þetta líf verður verra; ég er illa búinn undir það næsta; ég hef rangt fyrir mér.  
(-3 stig)
Ég græði á 1 veg og tapa á 1: Þetta líf verður verra; ég hef rétt fyrir mér.
 
(0 stig)

     Miðað við þessa stigagjöf er trú á annað líf hagstætt. Séu jafnar líkur á að slík trú sé rétt og að hún sé röng þá á sá sem veðjar á að hún sé rétt jafna möguleika á 0 og 3 stigum. Hinn sem veðjar á að hún sé röng á jafna möguleika á 0 og ?3 stigum og það er bersýnilega verri kostur.
     Hvernig á að taka þessum rökum þeirra Pascals og Sigurðar Nordal? Þeir sem ekki vilja trúa á guð eða framhaldslíf gætu bent á að til eru fleiri kostir en þeir setja upp. Hvað ef ásatrú er til dæmis rétt og æsirnir senda alla fylgismenn Krists til Heljar en hleypa trúleysingjunum inn í Valhöll? Hvað ef Guð gefur mönnum eilíft líf hvort sem þeir trúa á hann eða ekki? Hvað ef lífið hinu megin er þess eðlis að undirbúningur í þessu lífi kemur ekki að neinu gagni? Það er hægt að halda lengi áfram að tína til ástæður á borð við þessar til að efast um að svona rök sanni neitt um hverju er skynsamlegt að trúa. Sennilegt er að þeim Pascal og Sigurði þættu þessar ástæður ómerkilegar og langsóttar. Að mínu viti eru líka merkilegri ástæður til að taka rökum þeirra með fyrirvara.
     Pascal og Sigurður ráðleggja mönnum að bregðast við óvissu um hinstu rök tilverunnar með því að velja þá afstöðu sem er hagkvæmust. Láti menn sér duga að trúa af tómum hagkvæmnisástæðum þá hætta þeir að leita sannleikans. Sé gert ráð fyrir að það sé engin leið að komast að hinu sanna er þetta ef til vill skynsamlegt. En sé einhver leið að nálgast sannleikann með rökum og rannsóknum eiga menn þá ekki að reyna það fremur en að láta eigin hag ráða sannfæringu sinni?
     Sumir láta sér kannski duga að trúa án þess að hafa nein rök, aðrir láta sannfærast af litlum rökum. En þeir sem unna sannleikanum sætta sig við að leitin að honum sé löng og erfið.
     Fylgismenn Pascals og Sigurðar geta ef til vill svarað þessu svo að menn verði að hafa einhverja bráðabirgðaafstöðu þar til þeir finna rök til að skera úr um hvað sé satt. Hví skyldu bollaleggingar á borð við þær sem Pascal og Sigurður settu fram ekki ráða þessari bráðabirgðaafstöðu?
     Hvað varðar rök Sigurðar er þetta ef til vill ekki galið. Menn geta gert ráð fyrir þeim möguleika að líf sé að loknu þessu og reynt að búa sig undir það en viðurkennt um leið að þessi afstaða sé aðeins til bráðabirgða. En Pascal sætti sig ekki við neinn bráðabirgðakristindóm. Hann vildi fá menn til að trúa af öllum hug og hjarta og rækta með sér fullvissu sem er öllum efa yfirsterkari. Það er dálítið kæruleysisleg umgengni við sannleikann að réttlæta slíka fullvissu með hagkvæmnisástæðum.

1) Á frummálinu Pensées. Pascal lauk aldrei við þetta rit en það var samt gefið út að honum látnum árið 1670. Tilvitnanir sem hér fara á eftir eru úr grein 418.

2) Þessi erindi voru fyrst flutt í Ríkisútvarpinu í febrúar og mars árið 1940. Seinna sama ár komu þau svo út í bók.