Atli Harðarson
Uppruni tegundanna
2. hluti: Félagslegur darwinismi

Kenning Darwins um uppruna tegundanna var sett fram sem líffræðikenning til að útskýra tilurð og eiginleika dýra og jurta. Hún er undirstaða nútímalíffræði. En kenningin hefur ekki aðeins haft áhrif innan líffræðinnar heldur líka innan sálfræði, mannfræði, félagsfræði og fleiri vísinda sem fjalla um mannlífið. Sjálfur ritaði Darwin um mannfræði í bók sinni um Ætterni mannsins (The Descent of Man) sem út kom árið 1871. Þar tekur hann af öll tvímæli um að mennirnir eru hluti af því lífríki sem hann fjallaði um í Uppruna tegundanna og það sem þar segir um eðlishvatir dýra og hvernig þær hafa þróast fyrir náttúruval á líka við um lykilþætti í sálarlífi manna. Raunar víkur Darwin að þýðingu kenningar sinnar fyrir mannvísindin á síðustu blaðsíðunum í Uppruna tegundanna þar sem hann segir:

Ég held að ný og margfalt mikilvægari rannsóknarsvið verði til í náinni framtíð. Sálfræðin verður byggð á nýjum grunni, þar sem litið verður svo á að andlegir eiginleikar og hæfni myndist hægt og sígandi. Og nýju ljósi verður brugðið á sögu og uppruna mannsins. (Bls. 659)

Eins og nefnt var í fyrri pistli tengdist þróunarkenning Darwins ýmsum öðrum hugmyndum um sögulega framvindu sem á kreiki voru á seinni helmingi nítjándu aldar. Orðið darwinismi var notað um alls konar þróunarkenningar, ekki bara þá skoðun að náttúruval hefði mótað lífríkið. Margir reyndu að nota darwinisma í þessum víða skilningi til að rökstyðja misgæfulegar stjórnmálaskoðanir. Til dæmis var reynt að réttlæta nýlendustefnu Evrópumanna á þeim forsendum að hvíti maðurinn sé „þróaðri“ en t.d. Afríkubúar og það sé í þágu framfara að „þróaðri“ verur ryðji þeim „vanþróaðri“ úr vegi.
   Tilraunir nítjándu aldar manna til að nota líffræðilegar þróunarkenningar til að rökstyðja stjórnmálaskoðanir eða hugmyndir um mannlífið og mannlegt samfélag eru stundum kallaðar einu nafni félagslegur darwinismi. Hugmyndir af þessu tagi hafa hlotið heldur slæm eftirmæli og gjarna verið tengdar við kynþáttafordóma, hernaðarhyggju, andstöðu gegn velferðarþjónustu og fátækrahjálp og tilraunir til að réttlæta ofbeldi og óréttlæti með þeim rökum að það sé afleiðing náttúrulögmála sem ekki tjói að vinna gegn. Vissulega álitu sumir talsmenn félagslegs darwinisma að stríð stuðlaði að þróun mannkynsins með því að öflugar og sterkar þjóðir útrýmdu þeim aumu og vesælu og sumir þeirra álitu líka að stétt manna og þjóðfélagsstaða tengdist atgervi sem gengi að erfðum: Fátækt, sjúkdómar og slæm félagsleg staða væru til marks um lítið atgervi og ef aðstoð við þá sem standa höllum fæti yrði svo mikil að þeim yrði gert auðveldara að auka kyn sitt mundi stofninum hnigna því afkvæmi undirmálsmanna yrðu að jafnaði undirmálsmenn; Best væri því að haga samfélagsskipaninni þannig að lélegasta fólkið hefði sem minnsta möguleika á að fjölga sér. Í nafni svona hugmynda var talsvert gert af því að gelda þroskaheft fólk langt fram eftir tuttugustu öld. Darwin orðaði sjálfur hugmyndir í þessa veru í bók sinni Ætterni mannsins þar sem hann segir (í 5. kafla þar sem fjallað er um áhrif náttúruvals á siðmenntaðar þjóðir) að í siðmenntuðu samfélagi eignist aumustu einstaklingarnir börn og enginn sem hafi kynnt sér ræktun húsdýra vefengi að þetta hafi slæm áhrif á mannkynið.
   Á síðustu áratugum nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu áttu fasismi og kommúnismi vaxandi fylgi að fagna meðal evrópskra menntamanna. Þetta var tími harðra átaka og mikilla öfga í stjórnmálum álfunnar og talsmenn alls konar stjórnmálakenninga reyndu að nota vísindalega þekkingu til að rökstyðja sinn málstað. Þetta á jafnt við um frjálshyggjumenn á borð við Herbert Spencer (1820-1903) í Bretlandi; jafnaðarmenn eins og August Bebel (1840-1913) í Þýskalandi; og upphafsmenn fasisma og kynþáttahyggju eins og Frakkann Gustave Le Bon (1841-1931). Líffræðilegur skilningur á mannlífinu og hugmyndir um þróun voru einnig notaðar af konum sem mæltu fyrir jöfnum rétti karla og kvenna eins Clémence-Auguste Royer (1830-1902) í Frakklandi og af körlum eins og Friedrich Nietzsche (1844-1900) sem andmælti jafnrétti á þeim forsendum að það veikti mannkynið og ýtti undir hnignun þess.
   Félagslegur darwinismi er ekki nein ein stjórnmálaskoðun heldur fjölbreytilegar tilraunir til að skilja menningu, trúarbrögð, stjórnmál, samfélagsþróun og sálarlíf manna á þeim forsendum að maðurinn sé háður lögmálum líffræðilegrar þróunar rétt eins og aðrar dýrategundir. Þótt félagslegur darwinismi sé þekktastur fyrir heldur harðneskjuleg viðhorf sem haldið var fram í nafni hans er hann einfaldlega of fjölbreytilegur til að hægt sé að alhæfa mikið um áhrif hans á stjórnmál og stjórnmálahugsun. Um þetta segir Mike Hawkins í bók sinni Social Darwinism in European and American Thought 1860-1945: „Af því einu að einhver aðhyllist félagslegan darwinisma er ómögulegt að álykta neitt um viðhorf hans eða hennar til hernaðar, kapítalisma, kynþátta, heimsvaldastefnu eða félagslegrar stöðu kvenna, enda rúmar þessi sýn á heiminn andstæðar skoðanir um öll þessi efni og mörg önnur.“ (Cambridge University Press 1997, bls. 35)
   Þess er áður getið að sumir notuðu þróunarkenningar til að réttlæta hernaðarhyggju. Þetta á til dæmis við um Le Bon sem áleit að stríð milli þjóða og kynþátta væru forsenda þróunar og framfara. Aðrir höfnuðu þessu. Til dæmis var frjálshyggjumaðurinn Herbert Spencer friðarsinni og hélt því fram að stríð stuðluðu að hnignun mannfólksins því hraustustu strákarnir færu á vígvöllinn og féllu án þess að eignast börn, en vesalingarnir yrðu eftir heima hjá kvenfólkinu. Spencer er líklega frægasti talsmaður félagslegs darwinisma á nítjándu öld og í hugum margra er stefnan nátengd nafni hans og orðalaginu „survival of the fittest“ sem hann er höfundur að. Spencer var þó ekki neinn darwinisti í nútímaskilningi því hann mótaði hugmyndir sínar að mestu leyti áður en Uppruni tegundanna kom út og fylgdi þróunarkenningu Lamarcks. Eftir að hann las bók Darwins áleit hann, eins og Darwin sjálfur, að bæði náttúruval (eiginlegur darwinismi) og erfðir áunninna eiginleika (lamarckismi) hefðu hlutverki að gegna. Áherslan var þó fremur á þróunarkenningu í anda Lamarcks, enda taldi Spencer að samkeppni mundi bæta mannkynið þar sem hún fengi menn til að leggja sig fram og sú aukna hæfni sem af því leiddi gengi í arf.
   Meðal annars vegna þess hvernig félagslegur darwinismi tengist stjórnmálastefnum sem enn vekja sterk tilfinningaviðbrögð er afar umdeilt að hve miklu leyti líffræðilegar kenningar um þróun mannsins eiga réttmætt erindi inn á svið félagsvísinda. Á síðustu áratugum hefur félagslíffræði (sociobiology) þó verið í nokkurri sókn sem segja má að hafi byrjað árið 1975 með útkomu bókarinnar Sociobiology: The New Syntehsis eftir Edward O. Wilson. Kenningar Wilsons hafa sætt harðri gagnrýni af hálfu annarra félagsvísindamanna. Segja má að talsverður hluti af andmælum þeirra sé af svipuðu tagi og andófið gegn félagslegum darwinisma nítjándu aldar þar sem Wilson er bæði fundið það til foráttu að hann einfaldi flókinn veruleika meira en góðu hófi gegnir og að hann geri margt af því slæma í mannlífinu, eins og ofbeldishneigð karla og ótryggð þeirra í ástarmálum, að náttúrulögmáli.
   Að baki síðarnefndu andmælunum býr ef til vill sú hugsun að hvaðeina sem á sér náttúrulegar orsakir sé óhjákvæmilegt og því vonlaust að vinna gegn því. Þetta er vitaskuld misskilningur. Þótt náttúrulegar orsakir séu fyrir ýmsu sem aflaga fer er ekki þar með sagt að það sé óhjákvæmilegt. Það eru til dæmis líffræðilegar skýringar á því að menn sem eru rauðhærðir og ljósir á húð sólbrenna fremur en þeir sem hafa dökkt litarhaft og svart hár. Af þessu leiðir vitaskuld ekki að rauðhausar séu dæmdir til að sólbrenna heldur að ef þeir eru í mjög björtu sólskini ættu þeir annað hvort að klæða sig eða nota öfluga sólvörn. Á sama hátt ættu náttúrufræðilegar skýringar á því að karlar eiga það til að beita konur ofbeldi ekki að leiða til þess að menn sætti sig við ofbeldið eða telji ekkert við því að gera. Rökrétt viðbrögð væru fremur að finna leiðir til að vinna gegn ofbeldishneigðinni og ala stráka upp í að riddaramennska sé karlmannleg og það sé skammarlegt að níðast á konum.
   Á síðustu árum hefur sýn fræðimanna á darwinisma í stjórnmálahugsun nítjándu aldar breyst. Menn gera sér nú ljóst að þótt hugmyndir um líffræðilega þróun hafi sums staðar verið vatn á myllu vafasamra afla er ekki þar með sagt að það hafi að jafnaði haft slæmar afleiðingar þegar kenning Darwins hefur verið notuð til að varpa ljósi á mannlífið. Hitt er sönnu nær að alls konar stjórnmálafylkingar reyndu að nýta nýjustu vísindi málstað sínum til framdráttar. Líffræðilegur skilningur á mannlífinu var til dæmis bæði notaður til að færa rök með hernaðarhyggju (Le Bon) og á móti henni (Spencer), með kvenréttindum (Royer) og á móti þeim (Nietzsche).
   Jafnframt því sem saga félagslegs darwinisma á nítjándu öld hefur verið tekin til endurskoðunar á allra síðustu árum hafa líffræðileg sjónarmið unnið á innan félagsvísinda, einkum sálarfræði. Nú er næstum ein og hálf öld síðan hið mikla rit Darwins um Uppruna tegundanna kom fyrir almennings sjónir. Samt held ég að áhrif hugmyndarinnar um að maðurinn sé hluti af lífríki sem hefur mótast fyrir náttúruval séu engan veginn öll komin fram. Svo róttæk breyting á hugmyndum manna um sjálfa sig og lífið á jörðinni tekur nokkrar kynslóðir. Byltingu Darwins er ekki lokið. Hún stendur enn yfir og enginn veit hvaða afleiðingar hún mun hafa innan sálfræði, félagsfræði og annarra mannvísinda.

(Birist í Lesbók Morgunblađsins 29. október 2005)