Atli Harðarson
Frjálshyggjan og stjórnmál nútímans
(Birtist í Stefni 1. tbl. 56. árg 2006, bls. 31—35)

1. Saga

Frjálshyggjan er meginafl í stjórnmálum nútímans. Það er hægt að rekja sögu hennar langt aftur, en sé stiklað á stóru finnst mér eðlilegt að bera fyrst niður á 17. öld þegar þeir jafnaldrarnir John Locke (1632-1704) og Benedict Spinoza (1632-1677) skrifuðu bækur um trúfrelsi sem urðu kveikjan að upplýsingunni á 18. öld. Þessir tveir upphafsmenn frjálslyndrar einstaklingshyggju héldu því báðir fram að það væri einkamál hvers og eins hvernig hann sæi sáluhjálp sinni borgið og yfirvöld skyldu láta það afskiptalaust. Þeir héldu líka fram jafnrétti allra manna og lögðust á sveif með stjórnmálaöflum sem voru hliðholl frjálsri verslun, eignarrétti og auknum pólitískum völdum borgaranna.

Skrif þessara tveggja frumkvöðla í heimspeki nýaldar mörkuðu þáttaskil í hugmyndum Vesturlandabúa um lýðræði, réttarríki, samviskufrelsi, friðhelgi einkalífs og rétt einstaklinga til að lifa hver sínu eigin lífi í friði fyrir yfirvöldum. Eiginleg frjálshyggja varð þó ekki til fyrr en einstaklingshyggjan og upplýsingin blönduðust saman við hagfræði Adams Smith (1723-1790) sem kenndi að hag þjóðanna væri best borgið með frjálsri verslun, samkeppni og litlum afskiptum yfirvalda af efnahagslífinu.

Þessi sambræðingur úr frjálslyndri einstaklingshyggju og hagfræðilegum rökum fyrir markaðsbúskap hefur þróast á ýmsa vegu síðustu tvær aldir og er nú til í mörgum myndum. Það er til vinstri frjálshyggja. Hér á landi eru talsmenn hennar stundum kallaðir hægri kratar. Það er líka til hægri frjálshyggja og fylgismenn hennar eru stundum kallaðir íhaldsmenn. Hvað sem þessari flokkunarafræði líður er kjarni frjálshyggjunnar orðinn hluti af stefnu flestra mið- og hægriflokka í okkar heimshluta. Þessir flokkar, sem eru, a.m.k. í orði kveðnu, fylgjandi lýðræði, réttarríki, markaðsbúskap, eignarrétti, tjáningarfrelsi, friðhelgi einkalífs og einstaklingshyggju, mynda hina breiðu miðju í stjórnmálum samtímans. Á síðustu árum hafa jafnaðarmannaflokkar, eins og t.d. breski verkamannaflokkurinn, gengið inn í þessa breiðfylkingu og látið af andstöðu gegn markaðsbúskap og eignarrétti.

Á sama tíma og gamlir jafnaðarmannaflokkar hafa í vaxandi mæli tileinkað sér frjálshyggju hafa hægri flokkar tekið velferðarkerfið í sátt svo stærstu flokkarnir hafa ekki aðeins sameinast um að verja markaðsbúskap og einstaklingsfrelsi, heldur hafa þeir líka að mestu náð samkomulagi um að hið opinbera ábyrgist að allir njóti afkomuöryggis og eigi aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu. Flestir stærstu stjórnmálaflokkarnir á Íslandi og í nágrannalöndunum hallast því að einhvers konar frjálshyggju í bland við jafnaðarstefnu. Að vísu kenna fæstir þeirra sig við frelsi og í sumum þeirra er orðið „frjálshyggja“ jafnvel notað sem hálfgert skammaryrði. En það er yfirleitt ekki vegna þess að þeir hafni markaðsbúskap, eignarrétti og einstaklingsfrelsi. Ætli skýringin sé ekki oftar sú að innan þeirra eru þessi meginatriði frjálshyggjunnar nokkurn veginn óumdeild og flokkar skapa sér sérstöðu með stefnumálum sem annað hvort eru viðbætur við frjálshyggjuna (t.d. áherslu á opinber velferðarkerfi) eða minniháttar frávik frá henni (t.d. viðskiptahindranir eða ríkisrekstur á afmörkuðum sviðum). Þetta gildir að minnsta kosti í þeim löndum þar sem frjálshyggjan á sér dýpstar rætur eins og á Norðurlöndum og Bretlandi.

Ef til vill þarf að árétta sértaklega að Norðurlönd eru í þessum flokki, því sumir tala eins og norræn samfélög hafi einkum mótast af jafnaðarstefnu sem hægt sé að stilla upp sem einhvers konar andstæðu við frjálshyggju. Þetta er vægast sagt hæpin sagnfræði. Norðmennirnir sem komu saman á Eiðsvelli 1814 mörkuðu pólitíska stefnu Norðuralanda. Danirnir sem kollvörpuðu einveldinu og settu Júnístjórnarskrána 1849 héldu sömu stefnu og þessi stefna var frjálshyggja eins og Jón Sigurðsson boðaði hér á landi. Alla tíð síðan einveldið var lagt af hefur atvinnulíf á Norðurlöndum verið frjálsara og einstaklingsréttindi betur virt en víðast hvar annars staðar.

Þótt frjálslynd sjónarmið séu nú ríkjandi víða um lönd fer því fjarri að svo hafi verið allar götur síðan frjálshyggjan varð til fyrir rúmum tvöhundruð árum. Framan af tuttugustu öld voru öndverðar stjórnmálastefnur í sókn víðast hvar í Evrópu. Öflugustu fylkingarnar voru kommúnistar og fasistar, sem á tímabili komust nokkuð nálægt því að skipta álfunni á milli sín, ef Norðurlönd og Bretlandseyjar eru frá talin. Nú hafa þessar stefnur runnið sitt skeið. Meginfylkingar í stjórnmálum takast ekki lengur á um hvort afnema eigi markaðsbúskap, réttarríki og borgaralegt lýðræði.

Einn og hálfur áratugur er liðinn síðan kommúnistar töpuðu völdum í Austur Evrópu, tvöfaldur sá tími síðan fasisminn vék fyrir frjálslyndu lýðræði á Spáni og í Portúgal og meira en hálf öld síðan lýðræði var komið á í Vestur Þýskalandi. Það er ekkert mjög langt um liðið síðan stjórnmálaöfl sem voru í raun og veru andstæður frjálshyggjunnar ríktu yfir stórum hluta álfunnar. Þau áttu ekki farsælan ferill. Nú munu fáir mæla þeim bót og þessir fáu eru á jarði stjórnmálanna.

 

2. Samtíð

Í ljósi þeirrar sögu sem hér hefur verið sögð er freistandi að skipta stjórnmálastefnum nútímans í frjálslynda miðju annars vegar og jaðarsjónarmið hins vegar. Á þessu verður þó að hafa ýmsa fyrirvara. Í fyrsta lagi er miðjan ansi breið og innan hennar takast á margs konar sjónarmið. Þótt flestir segist vera í aðalatriðum fylgjandi frjálslyndri einstaklingshyggju og markaðsbúskap er rúm fyrir hugmyndafræðilega togstreitu af margvíslegu tagi, t.d. milli:

Þessi átök eiga sér stað innan flokka sem eru í meginatriðum fylgjandi frjálslyndum sjónarmiðum (sem hér eru í vinstri dálki). En ég held að enginn geti svarað því hvar miðjunni sleppir og jaðarsjónarmiðin taka við. Ég held líka að enginn geti raðað stjórnmálafylkingum nútímans á neinn einn kvarða frá hægri til vinstri. Fyrir hálfri öld virtist sumum að það væri hægt að skilgreina eitt pólitískt litróf þar sem frjálslyndir lýðræðissinnar voru í miðju, kommúnistar til vinstri og fasistar til hægri. En nú þegar flestir virðast sammála um að vera á miðjunni eru átakalínurnar orðnar fleiri en svo að kostur sé á neinu einföldu flokkunarkerfi.

Hugmyndaheimur nútímans er ruglingslegur. Kannski finnst mönnum alltaf að sín eigin samtíð sé ruglingsleg en í fortíðinni, þar sem sagnfræðingar eru búnir að flokka atburði og raða þeim undir fyrirsagnir og kaflaheiti, hafi veröldin verið einfaldari.

Þótt við getum ekki með góðu móti flokkað allar stjórnmálsskoðanir og stefnur sem nú takast á um hugi fólks og hjörtu getum við ef til vill áttað okkur á því hvað laðar fólk til fylgis við frjálshyggju og hvað fælir fólk frá henni.

Fylgi almennings við réttarríki, friðhelgi einkalífs og borgaraleg réttindi byggist vafalítið að nokkru leyti á almennri vitneskja um ríkisrekin grimmdarverk, bág lífskjör, eymd og niðurlægingu þar sem fasistar og kommúnistar réðu ríkjum. Vinsældir markaðsbúskapar og eignarréttar skýrast sjálfsagt að mestu leyti af því að flestum er ljóst að kjör þeirra yrðu verri við aðra skipan efnahagsmála. Stór hluti fólks er líka fylgjandi frjálsræði eins og ferðafrelsi, trúfrelsi og skoðanafrelsi vegna þess að þeir sem hafa notið sjálfræðis vilja ekki glata því. Í stuttu máli er meginskýringin á vinsældum frjálshyggju líklega sú að fólk hefur heldur góða reynslu af því að lifa við markaðshagkerfi og stjórnarhætti í anda frjálslyndrar einstaklingshyggju.

En hvað veldur þá andstöðunni? Af hverju eru sumir á móti? Við þessu er sjálfsagt ekkert eitt svar, en ætti ég að nefna það sem ég held að skipti mestu máli þá er það óttinn. Ótti manna við að börn sín ánetjist fíkniefnum fær þá til að samþykkja að lögreglan hleri síma, læknar séu skikkaðir til að rjúfa trúnað við sjúklinga sína og yfirvöld fái nær ótakmarkaðar heimildir til að rannsaka hús manna, ferðir og fjárráð. Uggur manna um að umhverfinu sé stefnt í voða fær þá til að fallast á skerðingu á eignarrétti og hömlur á atvinnustarfsemi í nafni náttúruverndar. Óttinn við að missa vinnuna eða verða undir í samkeppni við innflutt vinnuafl skýrir líka andstöðu gegn alþjóðavæðingu og frjálsu flæði vinnuafls milli landa.

Þessi ótti er skiljanlegur, enda er það skelfileg tilhugsun að glæpamenn ginni barn til að ánetjast fíkniefnum eða að andrúmsloft og drykkjarvatn spillist svo menn og skepnur missi heilsuna. Og að sjálfsögðu er vont að verða undir í samkeppni eða missa vinnuna. Þótt óttinn sé skiljanlegur og ef til vill skynsamlegur er ekki þar með sagt að viðbrögð manna við honum séu öll jafn gáfuleg. Ofsafenginn hernaður lögreglu gegn fíkniefnum virðist hingað til ekki hafa dregið úr neyslu þeirra. Haftastefna og skerðing á eignarrétti í nafni umhverfisverndar hefur lítt eða ekki bætt umgengni manna við náttúruna. Einangrunarstefna tryggir ekki atvinnuöryggi og lífskjör til langframa.

Þessi þrenns konar ótti sem ég hef nefnt skýrir að hluta hvers vegna sum stjórnmálaöfl inni á miðjunni vilja hverfa, a.m.k. að einhverju leyti, frá stjórnarháttum í anda frjálshyggju. Hann skýrir hins vegar varla fylgi við aðrar hreyfingar sem togast á við frjálshyggjuna og fara sumar talsvert langt út á jarðarinn í stjórnmálum. Sumar þeirra höfða kannski til fólks sem vill eitthvað ævintýralegra og glannalegra– trylltari baráttu– en býðst inni á miðjunni, þar sem er engin leið að garga upp almennilegt stuð. Þetta á ef til vill við um öfgafyllstu græningja og andstæðinga alþjóðavæðingar sem fá spennu í líf sitt með því að flakka um heiminn og ögra lögreglu í sem flestum löndum.

Ég hef farið nokkrum orðum um helstu andstæðinga markaðshyggju og frjálslyndis. Enn hef ég þó ekki nefnt öflugustu andspyrnuna sem er klerkaveldi og trúarfasismi. Fyrir 30 árum þótti flestum lítil ástæða til að taka ofsatrúarmenn alvarlega. Á leikvangi stjórnmálanna virtust trúarlegar forsendur og tilvísanir í helgirit vera á undanhaldi og rök sem skiptu máli byggðust á veraldlegum forsendum sem sóttar voru í hagfræði og önnur vísindi. En nú er öldin önnur og bókstafstrúarmenn hafa veruleg áhrif á stjórnmál, a.m.k. meðal kristinna þjóða, múslima og gyðinga. Mestu þáttaskilin urðu líklega árið 1979 þegar Khomeini erkiklerkur tók völdin í Íran og samtökin Moral Majority undir forystu Jerry Falwell voru stofnuð í Bandaríkjunum. Um svipað leyti jukust áhrif gyðinglegra bókstarfstrúarmanna á stjórnmál í Ísrael. Í Egyptalandi sóttu strangtrúaðir múslimar í sig veðrið og 1981 myrti einn þeirra Anwar Sadat forseta landsins. Í mörgum öðrum löndum múslima hafa herskáar trúarhreyfingar seilst til valda. Hér má t.d. nefna Wahhabíta í Saudi Arabíu, Hamas samtökin í Palestínu og Talibana sem ríktu í Afghanistan frá 1996 til 2001. Þessar trúarlegu stjórnmálahreyfingar úr löndum múslima eru teknar að hafa talsverð áhrif á Vesturlöndum meðal annars fyrir tilstilli innflytjenda frá Vestur-Asíu og Norður-Afríku.

Það er næstum eins og sagan sé komin í hring og frjálslynd öfl eigi nú aftur í höggi við svipaðan hugsunarhátt og Locke og Spinoza gerðu uppreisn gegn á 17. öld. En hér er ef til vill ekki allt sem sýnist. Í ágætri bók sem heitir The Battle for God fjallar enski trúarbragðafræðingurinn Karen Armstrong um sögu öfga- og bókstafstrúarhreyfinga í Ísrael, Egyptalandi, Íran og Bandaríkjunum. Hún bendir á ýmis samkenni þeirra og segir að þótt margir líti á þær sem leifar af gamaldags hugsun séu þær fremur ungar og orðnar til þar sem fólk upplifir iðn- og alþjóðavæðingu, frelsi, jafnrétti og veraldarhyggju sem ógn við lífshætti sína og gildismat. Kannski að bókstafstrúarmenn séu, þegar öllu er á botninn hvolft, knúnir áfram af svipuðum ótta og svo margir aðrir andstæðingar frjálshyggju.

 

3. Stjórnmál og mannleg verðmæti

Markaðsbúskap og frjálsu atvinnulífi fylgja umrót, óvissa, sífelldar nýjungar og opin framtíð. Sjálfur fylli ég flokk þeirra sem álíta að til langs tíma litið sé farsæld manna best borgið með því að þeir sætti sig við óvissuna sem fylgir því að öllum sé frjálst að freista gæfunnar og grípa tækifæri sem gefast. Mér sýnist reynslan benda til þess að stjórnarhættir í anda frjálshyggju séu öðrum fremur í almannaþágu. Þeim sem finnst óþægilegt hvernig hinn frjálsi heimur rokkar og vilja losna við vaggið og veltuna ættu kannski að hugsa til þess að skip sem flýtur á öldunum brotnar síður en fley sem er fast milli kletta.

Hér að framan gerði ég óttann að umtalsefni og hvernig hann getur verið vatn á myllu þeirra sem vilja hverfa frá markaðsbúskap og frjálslyndri einstaklingshyggju. Það er kannski svolítið hlutdrægt orðaval að tala um ótta. Ef til vill má eins segja að sjónarmið græningja eða bókstafstrúarmanna stjórnist af umhyggju fyrir náttúrunni eða hefðbundnum gildum. En hvað sem líður orðavali held ég að það sé lítið vit í öðru en að viðurkenna að þeir sem andmæla frjálshyggju gera það oft vegna þess að þeim er umhugað um eitthvað sem er í raun og veru dýrmætt.

Mörgum finnst eins og málflutningur fólks á hinni breiðu miðju stjórnmálanna snúist aðeins um hagvöxt og meiri neyslu og þeir sem ráða ferðinni séu blindir á önnur verðmæti. Við skulum ekki útiloka að sumum finnist þetta með nokkrum rétti. Við skulum heldur ekki útiloka að einhverjir þeirra sem við köllum öfgamenn og kennum við trúarlegt afturhald hafi tamið sér auðmýkt frammi fyrir leyndardómum tilverunnar og vanist á að skoða sitt eigið litla líf frá sjónarhóli eilífðarinnar og þannig höndlað dýrari perlur en mennirnir sem láta hvað gleiðgosalegast á markaðstorginu.

Allar stjórnmálahugsjónir hverfast um einhver mannleg verðmæti, viðleitni til að skapa eða verja eitthvað sem mönnum er annt um og gefur lífinu gildi. Hættulegustu andstæðingar frjálsmannlegra samfélagshátta eru ekki hættulegir vegna þess að þeir æði fram af blindum ofsa, öfund eða illgirni heldur vegna þess að það er sannleikskjarni í máli þeirra. Hvort sem þeir mæla fyrir viðskiptahindrunum, boðum og bönnum um einkalíf fólks, lokuðum landamærum, ritskoðun eða skertu atvinnufrelsi fær málflutningur þeirra lítinn hljómgrunn nema hann byggist að einhverju leyti á umhyggju fyrir raunverulegum verðmætum.
Verðmæti og gildi eru eitthvað sem fólki er annt um, því finnst vera þess virði að lifa fyrir og jafnvel deyja fyrir. Þau eru sundurleit og margvísleg því lífið getur verið auðugt og innihaldsríkt á marga vegu. Hér er nokkur dæmi um verðmæti sem margir unna:

Frjálshyggjumenn geta sem best viðurkennt öll þessi verðmæti. En þeir leggja ekki til að neinum þeirra sé þröngvað upp á fólk eða að beitt sé valdi til að láta menn sækjast eftir einum þeirra öðrum fremur. Frelsið sem þeir verja er ekki síst frelsi hvers og eins til að móta eigið gildismat og lifa í samræmi við það. Ef til vill má spyrja hvort þeir þvingi menn þá ekki til að búa við frelsi. Í vissum skilningi eru þeir sem búa í ríkjum frjálslyndrar einstaklingshyggju neyddir til að lifa þar sem gengur á ýmsu sem ekki gerist í lokuðum samfélögum. En þeir eru ekki neyddir til að sækjast eftir frelsi, mega raunar ganga í klaustur eða flytja til Kúbu ef þeir kæra sig um.

Það er stuttur vegur frá hlutleysi til tómlætis og alltaf hætta á að frjálslyndið snúist í sinnuleysi um verðmæti. Á tímum ofurviðkvæmni og pólitísks rétttrúnaðar hættir þeim sem halda fram ríkjandi blöndu af frjálshyggju og jafnaðarstefnu líka til að gæta svo mikils hlutleysis um mannleg gildi að þeir þori varla að mæla neinu bót nema helst hagvexti og betri kjörum. Þeir fara þá að hljóma eins og þeir hafi asklok fyrir himin og flest mannleg verðmæti skipti þá engu máli. Andstæðingarnir geta þá aflað fylgis með því að segja að frjálslyndu öflin beiti sér ekki fyrir neinu nema hóflausri neyslu. Svo hnýta þeir við að frjálshyggjan snúist bara um frelsi þeirra ríku til að græða sífellt meira og meira. Það þarf varla að segja lesendum Stefnis að þetta er fjarstæða og stjórnarhættir í anda frjálshyggju eru til miklu meiri hagsbóta fyrir alþýðuna heldur en yfirstéttina. Ríkustu og voldugustu mennirnir hafa það fullt eins gott í Saudi Arabíu eins og á Vesturlöndum. En allt um það. Ég var að tala um að andstaðan gegn frjálslyndri einstaklingshyggju og markaðsbúskap nærist oft á umhyggju fyrir raunverulegum verðmætum og auki fylgi sitt með því að fá fólk til að halda að talsmenn frjálshyggju hirði ekki um nein „æðri“ gildi.

Ég held að þeir sem vilja að sjónarmið í anda frjálshyggju (eða e.t.v. ríkjandi blöndu af frjálshyggju og jafnaðarstefnu) verði áfram ráðandi í stjórnmálum þurfi að temja sér að tala af alvöru um margbreytileg verðmæti. Þeir sem mæla með markaðsbúskap og frjálslyndri einstaklingshyggju mega ekki gleyma sér í fræðilegum pælingum um efnahagsmál og leyfa andstæðingum sínum að einoka umræðu um réttlæti, fegurð og annað sem mörgum góðum mönnum er hjartfólgnara en krónur og aurar.

Með því að andmæla þeim sem mæla fyrir trúarlegri löggjöf eða klerkaveldi gerum við ekki lítið úr þeim sem bera lotningu fyrir æðri máttarvöldum. Með því að andæfa kommúnisma drögum við ekki burst úr nefi þeirra sem vilja hag verkamanna sem bestan. Þótt við mótmælum þjóðernisstefnunni sem fasistar héldu fram er ekki þar með sagt að við höfnum sjónarmiðum allra þeirra sem unna landi sínu og þjóðlegri menningu. Þvert á móti hljótum við að leita leiða til að unnendur þessara verðmæta geti séð þeim borgið án þess að þrengja kosti hinna sem vilja leggja rækt við önnur gildi.

Bestu talsmenn klerkaveldis, kommúnisma og annarra stjórnmálahreyfinga sem eru öndverðar frjálshyggjunni halda flestir fram verðmætum sem eru raunveruleg og mikils verð. Það gera þeir líka sem vilja ganga lengst í stríði gegn fíkniefnum eða umhverfisvá. Við andmælum þeim samt vegna þess að þeir vilja þvinga líf allra undir sitt eigið gildismat og leggja fjötra á þá sem unna öðrum verðmætum eða leita nýrra og áður óþekktra gilda.

Frjálshyggjan er ólík öðrum stjórnmálastefnum því hún leitar leiða til að menn geti lifað saman í sátt þrátt fyrir ólíkt gildismat. Í sinni bestu mynd er hún stöðug viðleitni til að leysa sameiginleg vandamál án þess að beita ofríki, kúgun eða þvingunum og finna leiðir til að menn geti lifað í friði þótt þeir hafi ólíkar skoðanir og sækist ekki allir eftir því sama.