Atli Harðarson

Listin að efast
Hugleiðingar um bókina Að vera eða sýnast eftir Hörð Bergmann. Útgefandi: Skrudda, 2007.

Hörður Bergmann hefur lengi verið þekktur fyrir skarplega gagnrýni á margt í ríkjandi samfélagsháttum og þankagangi. Í bókinni Að vera eða sýnast fjallar hann um fjölmargar klisjur sem eru hafðar fyrir satt og hvernig hægt er að verjast því að láta skrum og áróður blekkja sig.

Bókin er 46 kaflar ef tveir viðaukar eru taldir með. Þessir kaflar eru örstuttir, 2 til 3 blaðsíður hver. Bókin skiptist í 2 hluta. Fyrri hlutinn, sem er 24 kaflar, fjallar um alls konar hugmyndir sem haldið er að fólki, ímyndir, tálmyndir, orðagjálfur í fjölmiðlum og tilbúning sem er látið heita að endurspegli raunveruleikann. Kaflarnir sem á eftir koma eru að mestu leyti leiðbeiningar, ráð og hugmyndir fyrir þá sem vilja temja sér gagnrýna hugsun.

Hörður fjallar um fjölmörg pólitísk álitamál og hvernig þau eru matreidd í fjölmiðlum. Í fæstum tilvikum setur hann fram neinar lausnir eða svör við spurningunum sem eru til umfjöllunar, enda virðist ætlun hans fremur að vefengja margt af því sem þorri fólks gengur að sem gefnu en að boða einhverja stjórnmálastefnu eða skoðun. Í bókarlok (bls. 144) hvetur hann lesanda til að halda áfram að stunda þá list að efast. Að mínu viti er það þörf hvatning.

Eins og John Stuart Mill benti á í Frelsinu er efasemda þörf jafnvel þótt vit sé í þeim skoðunum sem vefengdar eru. Efinn knýr fylgismenn þeirra til að rifja upp rökin fyrir eigin sjónarmiðum og átta sig um leið betur á innihaldi orða sinna. Efasemdamenn gegna því mikilvægu hlutverki fyrir samfélagið og menninguna og þeir sem rækja þetta hlutverk af heiðarleika og skarpskyggni eiga þakkir skildar.

Ýmislegt sem Hörður setur spurningarmerki við hefur svo sem oft verið vefengt áður. Sumt sem hann segir um markaðsvæðingu æ fleiri sviða mannlífsins og allar auglýsingarnar sem á okkur dynja hefur áður verið sagt bæði af íhaldsmönnum sem eru tortryggnir á suma hávaðasömustu þættina í menningu nútímans og vinstri mönnum sem hafa ímugust á kapítalismanum. En hann fer líka inn á ótroðnari slóðir til dæmis í kaflanum Menntastaglið (bls. 38–40). Mér þykir sá kafli merkilegt umhugsunarefni og stafar það kannski að einhverju leyti af því að ég starfa sjálfur í skólakerfinu. Hann hefst á þessum orðum:

Það sem kallað er meiri menntun er annað dæmi um það sem gagnrýnislaust er reynt að gera að mikilvægu markmiði þjóðarinnar. Þegar hinn margraddaði söngur um nauðsyn og gildi meiri menntunar er sunginn á opinberum vettvangi fjallar textinn ekki um þær mörgu leiðir sem nú eru öllum opnar til að auka færni sína, kunnáttu og þroska. Nei, það er einblínt á skólagöngu, einkum lengri leiðir gegnum fleiri háskóla. Aukin menntun í þeirri merkingu er talin forsenda framfara, samkeppnishæfni og hagvaxtar. Því er talin höfuðnauðsyn að auka fjárframlög til skóla. (Bls. 38.)

Þetta virðist nokkuð raunsönn lýsing á skoðun sem er að minnsta kosti mjög útbreidd ef ekki alveg ríkjandi. Hörður heldur áfram og segir:

Með því að einskorða hugtakið menntun við skólagöngu og formlegt nám er merking þess brengluð. (Bls. 39.)

Enn hittir hann naglann á höfuðið. Það má bæta því við að „menntun“ er í vaxandi mæli talin í einingum og gengið að því sem gefnu að sá sem hefur til dæmis lokið 120 eininga námi sé menntaðri en sá sem aðeins hefur klárað 90 einingar alveg óháð því hvort einstaklingarnir sem bornir eru saman hafa numið svipuð fög eða ólík, hvort þeir kunna enn það sem þeir lærðu eða hafa gleymt því, hvort þeir eru sífellt að dýpka skilning sinn með sjálfsnámi, samræðum og umhugsun sem hvergi er skráð í námsferla og hvort þeir náðu öllum sínum einingum með sóma eða rétt skriðu gegnum próf með lágmarkseinkunn.

Í seinni hluta kaflans eru pælingar sem eru svolítið erfiðar fyrir okkur sem störfum í skólakerfinu. Þar segir:

Ókleift hefur reynst, þrátt fyrir víðtækar, endurteknar rannsóknir víða um heim, að færa sönnur á að auknar fjárveitingar til skólastarfs skili betri árangri. Bæði alþjóðlegar rannsóknir og staðbundnar athuganir leiða jafnan í ljós að erfitt er að greina áhrif aukinna fjárveitinga til skóla á árangur nemenda. Þær sýna hins vegar glöggt mikilvægi góðra heimilisaðstæðna þeirra.

Tengsl menntunar við hagvöxt eru jafn óljós og áhrif fjárframlaga á námsárangur. Hvernig eru orsakatengslin? Fer hagvöxtur ekki á undan og opnar leið til að eyða meira í skólahald? (Bls. 39.)

Þegar ég las þennan kafla rifjaðist upp fyrir mér að fyrir nokkrum árum síðan hlustaði ég á prófessor Þorvald Gylfason tala yfir skólastjórnendum um gildi menntunar fyrir efnahag þjóða. Hann hafði á hraðbergi gögn sem sýndu fylgni milli hagvaxtar og aukinnar skólagöngu. Fundarmenn gerðu góðan róm að máli hans enda hljómar það vel í eyrum skólastjórnenda þegar rætt er um gagnsemi skólahalds. Ræðumaður og þeir sem lögðu spurningar fyrir hann að erindi loknu virtust flestir gera ráð fyrir að skýringin á fylgni menntunar og hagvaxtar væri sú að menntun stuðlaði að betri efnahag. En víst má spyrja, eins og Hörður Bergmann gerir, hvort þetta sé allur sannleikurinn? Getur ekki líka verið að fólk fari þá fyrst að senda börn sín í skóla þegar það verður sæmilega bjargálna og hefur efni á að sleppa þeim úr vinnu?

Það er að minnsta kosti ekki ósennilegt að hér á landi hafi samband aukinnar menntunar og betri efnahags á fyrri hluta síðustu aldar að verulegu leyti verið á þann veg að betri kjör orsökuðu aukna eftirspurn eftir kennslu. Það var ekki síður um það að ræða að bændur sendu börn sín í skóla vegna þess að þeir höfðu efni á því en hitt að þeir efnuðust vegna eigin skólagöngu eða annarra. Þó þetta orsakasamband sé næsta líklegt er nánast eins og helgispjöll að nefna það. Skólaganga er orðin heilög kýr og svoleiðis skepnur á helst að umgangast af hæfilegri lotningu. Hún er eitt af því sem stór hluti fólks trúir á nokkurn veginn fyrirvaralaust og um hana geta stjórnmálamenn haft fögur orð án þess að hætta á að neinn krefji þá svara við erfiðum spurningum.

Það er ekki eins og ég sjálfur efist neitt tiltakanlega mikið um gagnsemi þess að ganga í skóla. En ég held samt að þessi vöntun á gagnrýni sé svolítið varhugaverð og þess vegna sé þörf á efasemdamönnum eins og Herði Bergmann. Og það er ef til vill hægt að styðja efasemdirnar fleiri rökum en hann gerir. Þegar efinn fer á kreik kemst hreyfing á hugsunina og manni dettur ýmislegt í hug.

Karlkyns páfuglar hafa ógnarstórt stél. Það íþyngir þeim á ýmsa vegu. Þeir komast ekkert áfram með þetta farg hangandi aftan í sér. En einhvern tíma fyrir löngu forritaði náttúruvalið formæður páfuglsins þannig að þær völdu maka eftir því hve fagurlega hann breiddi úr stélinu. Þetta var að því leyti viturleg skipan að karlfugl sem getur breitt úr stélinu og haldið því fallega samhverfu í góða stund er þokkalega sterkbyggður svo konurnar tryggðu ungum sínum hrausta feður með þessari einföldu reglu um makaval: Taktu þann með glæsilegasta blævænginn.

En það sem er viturlegt fyrir einstaklinginn þarf ekki að vera til góðs fyrir hópinn. Með því að fylgja þessu forriti settu kvenfuglarnir af stað þróun sem mun ef til vill leiða til að þess að tegundin deyi út. Ef karlfuglar eignast ekki afkvæmi nema þeir hafi stærra stél en nágrannar þeirra þá fer þróunin bara á einn veg. Stélið verður stærra og stærra og eftir nógu margar kynslóðir er það orðið óbærilegt hlass.

Ætli síaukinn skólaganga sé kannski að nokkru leyti vegna þess að prófgráður eru að verða eins og stél páfuglsins? Ef fyrirtæki og stofnanir vinna eftir þeirri reglu að ráða þann umsækjanda um starf sem hefur lengsta skólagöngu þá er farin af stað þróun sem getur eiginlega ekki endað nema í vitleysu. Þegar allir sem stefna á starf á einhverju sviði eru komnir með 20 ára skólagöngu er eina leiðin til að fá forskot að bæta einu ári við og mennta sig lengur en hinir og þegar allir hafa náð 21 ári (frá 6 til 27 ára) þá þurfa þeir sem vilja komast fram fyrir að skóla sig ár í viðbót.

Stundum þegar rætt er um mannaráðningar er látið heita að rétt sé og jafnvel sjálfsagt að ráða ævinlega þann sem hefur mesta skólagöngu fremur en til dæmis þann sem fæst til að vinna verkið með minnstum tilkostnaði. Kannski er þetta vegna þess að fáir vita nógu mikið um páfugla. En þetta var útúrdúr og nú sný ég mér aftur að umfjöllun um bókina.

Sumt af því sem segir um gagnrýna hugsun í seinni hluta hennar virðist næsta sjálfsagt, en gleymist samt alltof oft. Þetta á til dæmis við um það sem segir um einfaldar spurningar sem nota má til að greina milli skrums og veruleika í skilaboðum sölumanna:

Er það sem sagt er frá of gott til að geta verið satt? Hvað segir reynsla mín eða annarra um það? Ef málið snýst t.d. um hvernig bæta má útlit og heilsu má skoða það nánar með spurningar á þessa leið í huga: Á eitthvað að breytast fljótt og án teljandi fyrirhafnar? Er verið að segja eitthvað sem stenst ekki miðað við óhlutdrægar heimildir? Er verið að vekja með okkur ótta eða kvíða sem má eyða með því að kaupa eitthvað? Á varan eða þjónustan að bæta margs konar vanda; lækna ótal kvilla? Sé slíkum spurningum svarað játandi hleypur maður ekki til. Gagnrýnar spurningar af þessu tagi koma að gagni á öllum sviðum sem lýst eru með villuljósum, hvort sem ætlunin er að selja þar vöru, þjónustu, hugmyndir eða stefnu stjórnmálaflokks. (Bls. 86).

Einn besti kaflinn í seinni hlutanum er sá sem fjallar um fortöluskilgreiningar. Þar segir meðal annars.

Í auglýsingargerð er oft byggt á fortöluskilgreiningum. Langvarandi, þungar afborganir af láni eru auglýstar sem „léttgreiðslur“. Á markaðnum er eins og áður er nefnt kennd ný líffræði árið um kring og auglýst nauðsyn þess að við kaupum tæki, töflur eða námskeið til að „afeitra“ líkamann eða „hreinsa“ hann af „eiturefnum sem hringsóla um líkamann og valda miklum skemmdum“. (Bls. 107.)

Tal um léttgreiðslur og afeitrun eru tvö af ótal dæmum um villandi orðalag sem er notað til að fá fólk til að kaupa þetta og hitt. Ef til vill er það óhjákvæmilegur fylgifiskur markaðsbúskapar að sumir seljendur reyna að gylla vöru sína meira en efni standa til. Meðal annars þess vegna er gagnrýnin hugsun og efagirni nauðsynlegur hluti þeirrar lífsleikni sem almenningur þarf að tileinka sér til að njóta góðs af markaðnum fremur en að láta hann villa sig og véla. En fortöluskilgreiningar eru svo sem notaðar af fleirum en seljendum vöru og þjónustu. Hörður nefnir dæmi um slíkt og spyr af hverju

Stendur yfirskriftin 10 skref til sóknar í skólastarfi undir nafni á samkomulagi sem menntamálaráðherra og stjórn Kennarasambands Íslands kynntu í fjölmiðlum 2. febrúar 2006? Fortöluskilgreiningar gegna líka því hlutverki að fá væntanlega andmælendur til að halda sér saman. Hver getur verið á móti sókn í skólastarfi? (Bls. 107.)

Í flestum köflum bókarinnar tekst vel að vekja spurningar og hvetja til gagnrýnnar hugsunar. Á stöku stað missir höfundur sig þó í annars konar predikanir. Skýrasta dæmið um þetta er ef til vill þar sem hann víkur að deilu sem var nokkuð fyrirferðarmikil í fjölmiðlum á síðasta ári og snerist um hvort þáverandi ríkisstjórn hefði hækkað eða lækkað skatta lágtekjufólks. Um þetta segir Hörður:

Þarna var tekist á um staðreyndir. Annars vegar túlkaðar af ríkisvaldinu, stuðningsmönnum þess á Alþingi og ráðuneyti fjármálaráðherrans. Hins vegar stóð stjórnarandstaðan, fræðimenn og fjölmiðlar með metnað. Túlkun valdhafanna einkenndist eins og oft vill verða af því að velja hentuga viðmiðun og leitast við að sanna að gagnrýnin væri á misskilningi byggð. Breiddin í andófinu gaf hins vegar aðra mynd og niðurstöðu á þessa leið: Lækkun skatta hjá þeim tekjuhæstu og hækkun hjá hinum. (Bls. 126.)

Ég veit ekki hvort það er réttnefnd fortöluskilgreining að tala um fjölmiðla „með metnað“ og meina fréttamenn sem rengdu fjármálaráðherra. Það er að minnsta kosti eitthvað í ætt við fortöluskilgreiningu. Í þessari deilu voru það fleiri en stjórnmálamenn sem misstu sig í kappræðu þegar rökræða hefði gert meira gagn. Það gerðu líka sérfræðingar, fréttamenn og „hlutlausir“ álitsgjafar.

Í sem stystu máli var um það að ræða að skatthlutfall lækkaði í tíð síðustu ríkisstjórnar en persónuafsláttur stóð því sem næst í stað miðað við fast verðlag. Þetta hafði þær afleiðingar að sá sem hafði til dæmis 2 milljónir í árstekjur, miðað við fast verðlag ársins 2005, borgaði 433 þúsund í skatt árið 2002 en 415 þúsund í skatt árið 2005. Þetta er lækkun um því sem næst 4%. Á þetta gátu talsmenn ríkisstjórnarinnar bent með réttu. Andmælendur þeirra bentu á það með réttu að þeir sem hefðu allan tímann lifað á meðallaunum ófaglærðra verkamanna greiddu hærra hlutfall tekna sinna í skatt árið 2005 heldur en þeir gerðu árið 2002. Skýringin var auðvitað sú að launin höfðu hækkað að raungildi og einn fylgifiskur þess að hafa persónuafslátt, þannig að tekjur undir ákveðnum mörkum séu skattlausar, er að skatthlutfall er því hærra því hærri sem tekjurnar eru.

Annar deiluaðilinn benti sem sagt réttilega á að þeir sem höfðu sömu tekjur að raungildi bæði árin greiddu lægri skatta 2005 heldur en 2002. Hinn aðilinn benti á það með réttu að margir lágtekjumenn sem voru bæði árin á sama stað, eða nokkurn veginn sama stað, í tekjuröðinni, greiddu hærra hlutfall tekna sinna í skatt árið 2005 heldur en þeir gerðu 2002. (Með tekjuröð er átt við röð sem verður til ef öllum er raðað eftir tekjum þannig sá sem fær minnst er á öðrum endanum, næst honum stendur sá sem fær næstminnst og þannig koll af kolli til hins endans þar sem sá stendur sem mestar tekjurnar fær.)

Ef báðir hefðu orðað fullyrðingar sínar svona skýrt hefði ekki verið neinn ágreiningur um staðreyndir málsins. En annar aðilinn vildi segja að skattar lágtekjumanna hefðu lækkað og hinn vildi neita því. Báðir létu sem fullyrðing um skattalækkun væri ótvíræð þegar sannleikurinn var sá að hún gat hvort heldur sem er þýtt að þeir sem höfðu sömu tekjur borguðu lægri skatt eða að sömu menn (eða menn í sömu stétt og stöðu) borguðu lægra hlutfall tekna sinna í skatt. Þar sem tekjur allra standa í stað kemur þetta út á eitt. En ef tekjur allra hækka getur vel farið saman að skattar lækki í fyrrgreinda skilningnum en hækki í þeim sem síðar er tilgreindur.

Það má ef til vill segja að þeir sem þarna deildu hafi viljað nota orðið „skattalækkun“ í fortöluskilgreiningum á ólíkum hugtökum.

Höfundur bókarinnar Að vera eða sýnast hefði sýnt eigin málstað meiri hollustu ef hann hefði bent á þetta fremur en að draga taum annars deiluaðilans á kostnað hins. En þetta er smáyfirsjón sem spillir lítt kostum bókarinnar, en þeir eru eins og áður segir fólgnir í efanum sem hún kveikir og spurningunum sem hún vekur. Hér eru nokkrar að lokum:

Því er oft haldið fram að fjölmiðlar birti það efni sem almenningur vill helst. Óskar almenningur eftir meiri beinum og duldum auglýsingum og freklegri umfjöllun um einkamál? Vilja flestir skemmtanabrag á allt? Er ekki vel unnið, umhugsunarvert íslenskt efni efst á óskalista almennings? Hve stóran hlut hefur það í dagskránni? (Bls. 140–141.)