Ritdómur

Ólafur Páll Jónsson
Náttúra, vald og verðmæti
Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2007.

 
Bókin Náttúra, vald og verðmæti eftir Ólaf Pál Jónsson heimspeking er 15 sjálfstæðir kaflar þar sem fjallað er um viðfangsefni á sviði stjórnmálaheimspeki og siðfræði frá sjónarhóli náttúruverndar. Höfundur kemur fram sem eindreginn talsmaður grænna gilda og bókin er að minnsta kosti öðrum þræði tilraun til að rökstyðja verðmætamat og lífssýn náttúruverndarsinna. Hún er samt ekki áróðursrit í venjulegum skilningi því Ólafur Páll setur fram vönduð rök fyrir máli sínu og glímir við ýmis vandamál og gagnrök með heiðarlegum og yfirveguðum hætti. Mér finnst því full ástæða til að mæla með bókinni við alla þá sem hafa áhuga á heimspekilegum ráðgátum sem tengjast gildismati, umhverfismálum og pólitísku valdi.
 
Kaflarnir í bókinni eru afar ólíkir að lengd og misjafnlega efnismiklir. Nokkrir af þeim styttri virðast hafa verið skrifaðir sem innlegg í deilur um vatnsaflsvirkjanir við Kárahnjúka og í Þjórsá. Þetta á til dæmis við um kaflana „Hvað kosta Þjórsárver?“, „Um vit fram“ og „Vald og víðerni.“ Þessir stuttu kaflar bæta litlu við efni bókarinnar, en þeir hjálpa lesanda ef til vill að átta sig á höfundinum, að hann er ekki hlutlaus fræðimaður heldur talsmaður umdeildra skoðana.
 
Lengstu kaflarnir í bókinni eru hins vegar umhugsunarverð innlegg í heimspekilega umræðu um stjórnmál og bak við þá eru, að mér sýnist, býsna merkilegar pælingar. Þetta á til  dæmis við um kaflana „Undir hælum athafnamanna“, „Staður, náttúra, umhverfi“, „Verðmæti og mælikvarðar“, „Prútt eða rök og réttlæti“ og „Lýðræði og umhverfismál.“ Um tvo þá síðasttöldu, sem báðir eru um lýðræði, mun ég fjalla nánar hér á eftir. En áður en ég sný mér að umfjöllun um lýðræði ætla ég að fara örfáum orðum um hugmynd sem gægist upp á yfirborð textans hér og hvar í bókinni. Ólafur Páll tæpir á henni í fyrstu efnisgrein formálans þar sem hann segir:
 
Góði dátinn Svejk sagði að á stríðstímum væru mannslíf lítils virði. Á stríðstímum eru mannslíf bara kostnaðarliður – og það sem gerir þau svo átakanlega lítils virði er að þessi kostnaður er ekki færður til gjalda í bókum stríðsherranna. Þeir sem verða fyrir kostnaðinum fá líka að bera hann. Þannig er það líka með náttúruna á uppgangstímum. Hún er lítils virði og henni er auðfórnað, og þeir sem verða fyrir kostnaðinum fá líka að bera hann. (Bls. 9.)
 
Hér er breytingum á landslagi líkt við manndráp í stórum stíl. Í framhaldinu er svo talað um „hernað“ gegn landinu og mætti kannski afgreiða það sem innihaldslitla klisju ef höfundur fylgdi orðalaginu ekki eftir eins og hann gerir í kaflanum „Lítilsháttar limlesting.“ Þar talar hann um náttúruna sem vin sinn og líkir framkvæmdum sem breyta landinu við pyntingar og gróft ofbeldi.
 
Undanfarin ár hefur verið gengið í skrokk á einum af mínum bestu vinum. Og það er enn verið að. Það er gert með skipulegum hætti en þó í nokkrum flýti. Til stendur að limlesta hann. Ég veit að þessi vinur minn mun lifa af – hann er mjög sterkur – en hann mun ekki ganga heill til skógar eftir aðförina. Þetta er svona eins og ef framhaldleggur væri tekinn af mér. Ég myndi lifa það af og megnið af líkamanum myndi ekki beinlínis skaðast. En ég myndi skaðast verulega.
      Einhverjum þætti efalaust ónotalegt að horfa upp á meðan hnífnum væri rennt í liðinn og skinnið rist í sundur og skorið á sinar. Mér þætti skárra til þess að hugsa að einhverjir myndu rísa á fætur og segja að svona gerði maður ekki. Jafnvel ekki þótt einhverjir fengju vinnu við að hakka framhaldlegginn og búa til úr honum dýrafóður sem mætti selja fyrir kostnaði. (Bls. 185.)
 
Af þessu er helst að skilja að Ólafur Páll álíti framkvæmdir á borð við virkjanir og vegagerð með einhverjum hætti sambærilegar við níðingsverk– að því sem menn vinna með jarðýtum og skurðgröfum megi jafna við glæpi af verstu gerð. Ég á satt að segja erfitt með að trúa því að maður sem annars skrifar af jafn skynsamlegu viti og Ólafur Páll geti haldið þetta í fullri alvöru og mér finnst að þeir sem vinna við vegagerð og virkjanir eigi betra skilið en að vera líkt við böðla og níðinga.
 
Ef til vill býr lítið að baki þessum samlíkingum annað en viðleitni til að leggja áherslu á mikilvægi náttúrverndar. Ef til vill eru þær bara ýkjur sem beitt er til áhersluauka. En ýmislegt sem Ólafur Páll segir bendir þó til þess að hann líti að nokkru leyti á náttúruna sem persónu. Þetta kemur til dæmis fram í kaflanum „Staður, náttúra, umhverfi“ þar sem hann segir:
 
Sú sýn á náttúruna sem ég hef verið að lýsa dregur dám af siðfræði þýska heimspekingsins Immanuels Kant, en hornsteinn þeirrar siðfræði er að aldrei megi koma fram við aðrar manneskjur sem einbert tæki heldur beri ævinlega að virða þær sem sjálfstæð markmið – sem manneskjur. […] Kant sagði að við skyldum aldrei koma fram við manneðlið sem einbert tæki. Það sama vil ég segja um náttúruna. (Bls. 60–61.)
 
Um leið og Ólafur Páll hefur sagt þetta er eins og hann dragi í land, enda gefur auga leið að það er ekki hægt að rækta land eða nýta nein náttúruleg verðmæti án þess að farið sé með einhvern hluta náttúrunnar sem tæki til að þjóna markmiðum mannfólksins. Menn geta hins vegar, a.m.k. þegar best lætur, lifað saman án þess að nota hver annan sem hver önnur tæki vegna þess að þeir geta gert samninga sem jafningjar og þannig haft gagn hver af öðrum án þess að beita undirokun. Við náttúruna geta menn ekki samið og ef þeir ætla að hafa gagn af henni gera þeir það á sínum forsendum en ekki hennar – enda er hæpið að ætla náttúrunni vilja, markmið eða eigin forsendur.
 
Í beinu framhaldi af orðunum sem vitnað var til hér að framan segir Ólafur Páll:
 
Þetta þýðir þó ekki að allt sem Kant sagði um manneðlið – um persónur – vilji ég segja um náttúruna. Stundum er réttlætanlegt að koma fram við náttúruna sem tæki. […] Kjarninn í því sem ég hef verið að halda fram varðar ekki beint breytni manna gagnvart náttúrunni heldur fremur sýn manna á náttúruna. Kant spurði: Hverjar eru forsendur siðferðilegrar breytni? Ég spyr tveggja spurninga: Hvers konar gildi hefur náttúran? Og hvernig er hægt að koma auga á gildi hennar? Svör mín eru: Náttúran hefur gildi sem er sjálfstætt gagnvart mannlegum hagsmunum. Og eina leiðin til að koma auga á gildi náttúrunnar sem náttúru er að sjá hana óháð mannlegum hagsmunum. (Bls. 61.)
 
Ég á erfitt með að henda reiður á hvað í því felst að hafa gildi óháð mannlegum hagsmunum. Ég get að vísu skilið að bithagi eða vatnsból hafi gildi fyrir villt dýr enda vel skiljanlegt að dýr hafi hagsmuni. En getur til dæmis klettur haft gildi óháð hagsmunum manna eða dýra? Ef svo er getur þá verið að það sé slæmt að kletturinn molni niður eða sé brotinn niður með loftbor þótt engum finnist það slæmt, enginn sakni hans eða verði fyrir neinni skerðingu lífsgæða þótt hann sé mulinn niður? Hvernig getur eitthvað verið slæmt ef það er ekki slæmt fyrir neinn og hvernig getur eitthvað verið gott ef það er ekki gott fyrir neinn?
 
Geta gildi verið til óháð hagsmunum? Ólafur Páll virðist líta svo á en ég vildi að hann skýrði betur hvernig þetta má vera, því mér þykja rökin sem hann tilgreinir fyrir þessu engan veginn fullnægjandi. Þau eru sett fram sem svar við spurningu um hvað sé rangt við að líta á náttúruna sem tæki. Svarið er á þessa leið:
 
Í fyrra lagi vanmetur maður náttúruna á sambærilegan hátt og maður vanmetur aðra manneskju þegar maður lítur á hana einungis í ljósi þeirra hlutverka sem hún gegnir en horfir fram hjá því að viðkomandi er líka sjálfstæð manneskja. Í seinna lagi ofmetur maður eigin stöðu í sköpunarverkinu. Sá sem sér allt frá sjónarhóli eigin hagsmuna, hann lítur á sjálfan sig sem meistara sköpunarverksins – hann segir: „Verðmæti og gildi eru mín uppfinning“ og um leið sér hann líka að verðmæti og gildi eru jafn brotakennd og takmörkuð og hans eigin tilvera. Og slík tilvera getur ekki endað annars staðar en í siðferðilegri sjálfdæmishyggju: Það sem mér finnst gott, það er gott; það sem mér finnst rétt, það er rétt. (Bls. 60.)
    
Fyrri ástæðan staðhæfir aðeins að náttúrunni megi líkja við persónu og getur því ekki réttlætt slíka samlíkingu. Sú seinni gefur til kynna að valið standi milli þess að álíta að náttúran hafi gildi sem er óháð mannlegum hagsmunum eða að fallast á sjálfdæmishyggju. En þetta eru ekki einu kostirnir. Hví skyldi maður ekki líta svo á að náttúran hafi gildi vegna mannlegra hagsmuna en viðurkenna um leið að sínir eigin hagsmunir séu léttvægir í samaburði við hagsmuni milljarða annarra manna núlifandi og ófæddra?
 
Það er engin sjálfdæmishyggja í því fólgin að álíta að náttúruleg gæði (eins og t.d. heilnæmt vatn eða gróðurlendi) séu dýrmæt vegna þess að þau séu forsenda fyrir góðu mannlífi. Mannhverfur skilningur á verðmætum þarf ekki að vera sjálfhverfur. Með þessum orðum útiloka ég ekki að það kunni að vera vit í þeirri hugmynd að náttúran hafi gildi óháð mannlegum hagsmunum. En ég sé ekki að Ólafur Páll færi nein tæk rök fyrir henni.
 
Umhverfissinni sem aðhyllist mannhverfan skilning á verðmætum þarf að rökstyðja friðun og náttúruvernd með tilvísun til mannlegra hagsmuna. Ef hann vill að fallvatn sé látið í friði fremur en virkjað þarf hann að sýna fram á að þegar allt er talið þá verði líf manna, núlifandi eða komandi kynslóða, betra ef fossinn fær að halda sér. Þetta er erfitt. Það þarf að tína til alls konar smáatriði og vigta lítt sambærileg gæði hver á móti öðrum. Ef til vill þarf að vega gleði og þroska sem menn hljóta af umgengni við ósnortna náttúru á móti fleiri atvinnutækifærum og hagvexti og það þarf að taka þátt í flóknum þrætum um hvers konar vog sé rétt að nota til þess arna. Til að gera þetta þarf ef til vill að meta líkur á hvernig verð á orku þróast eða hvaða áhrif breyting á árfarveginum hefur á náttúrufar á stóru svæði. Slíkt mat er óvissu háð og þess vegna er stundum erfitt, eða jafnvel ómögulegt, að byggja ákvarðanir á því hvað er góðs fyrir fólk þegar á allt er litið– málin eru stundum of flókin til að nokkur leið sé að líta til allra þátta og vega þá og meta af réttsýni.
 
Þar sem ég skil ekki hvernig náttúran getur haft gildi algerlega óháð mannlegum hagsmunum finnst mér trúlegt að skásta leiðin, til að rökstyðja viðhorf til náttúrunnar sem er eitthvað í ætt við það sem Ólafur Páll mælir fyrir, sé að segja að það gangi ekki að vega og meta mannlega hagsmuni í hvert sinn sem spurt er hvort breyta megi landslagi eða náttúrulegu lífríki: Slíkt mat sé einfaldlega of mikilli óvissu háð og í hvert sinn sem menn sjái ástæðu til að ráðast í það liti skammtímahagsmunir sýn þeirra á viðfangsefnið þannig að ef ekki er lagt blátt bann við náttúruspjöllum af einhverri tiltekinni gerð þá verði útkoman úr því að vega og meta mannlega hagsmuni í hvert sinn ekki sú hagfelldasta til langs tíma litið. Lengra get ég varla ímyndað mér að hægt sé að ganga til móts við þá sem vilja að náttúran njóti friðhelgi án þess að trúa því bókstaflega að hún sé einhvers konar persóna sem hefur sjálf hagsmuna að gæta.
 
*
Þeir kaflar í bókinni sem mér þykja mest umhugsunarefni fjalla um lýðræði. Þeir heita, eins og ég hef nefnt, „Prútt eða rök og réttlæti“ og „Lýðræði og umhverfismál.“ Í þeim veltir Ólafur Páll fyrir sér mögulegri togstreitu milli lýðræðislegra stjórnarhátta og skynsamlegrar umgengi um landið og náttúruna. Í þeirri fyrrnefndu lýsir hann tvenns konar lýðræði, eða kannski öllu heldur tvenns konar sýn á lýðræði, sem hann kennir annars vegar við prútt og hins vegar við rökræður. Lýsingu sína á „prúttlýðræði“ byggir hann að nokkru á kenningum Bandaríkjamannsins Roberts A. Dahl. Samkvæmt þeim er kjarni lýðræðishugsjónarinnar að allir borgararnir séu jafnir, en þeir hafi ólíka hagsmuni og ólíkar skoðanir. Lýðræðisleg stjórnmál eru þá vettvangur þar sem menn eða hópar manna keppa um að afla sínum sjónarmiðum fylgis. Þeir sem fá meirihlutann með sér vinna keppnina og hinir tapa.
 
Ólafur Páll bendir réttilega á (bls. 124) að lýðræði sem er aðeins svona samkeppni um hylli sem flestra kjósenda stuðli ekki endilega að réttlæti. Það eitt að stjórnskipun uppfylli öll formleg skilyrði þess að vera lýðræðisleg útilokar ekki að einhverjum takist með auglýsingaskrumi að afla ranglátri og heimskulegri stefnu fylgis. Til dæmis er ekkert sem útilokar að meirihlutinn samþykki náttúruspjöll sem komandi kynslóðir munu harma. Af þessu dregur hann þá ályktun að „það prúttlýðræði […] sem við búum að verulegu leyti við í dag [geti] ekki talist réttlát stjórnskipan. (Bls. 126.)
 
Þessi ályktun er að mínu viti röng og villandi– að eitthvað dugi ekki eitt og sér til að útiloka ranglæti jafngildir því ekki að það sé ranglátt. (Að álykta svona er litlu gáfulegra en að segja að öryggisbelti séu slysagildrur því þau dugi ekki ein og sér til þess að koma í veg fyrir að fólk slasist í umferðinni.) Þótt það sé vafalaust rétt hjá Ólafi Páli að réttlæti sé ekki tryggt með því einu að stjórnskipan uppfylli formleg skilyrði þess að teljast lýðræðisleg er ekki þar með sagt að lýðræðið sem við búum við sé ekki réttlát skipan. Hitt er trúlega sönnu nær að það sé ein af mikilvægustu forsendum réttlátra samfélagshátta, þótt það dugi ekki eitt og sér til þess að tryggja réttlæti. Til að samfélag sé réttlátt þarf ef til vill margt fleira að koma til en lýðræðisleg stjórnskipan.
 
Það er fullt vit í að spyrja hvað fleira þurfi til en lýðræðislegar leikreglur til að auka líkur á að pólitískar ákvarðanir séu skynsamlegar og réttlátar. Möguleg svör eru mörg. Ef til vill þarf líka góða almenna menntun, mannréttindaákvæði í stjórnarskrá, heiðarlega og samviskusama embættismenn, sanngjarna og víðsýna dómara. Sennilega dugar þetta ekki einu sinni. Kannski þarf líka gott almennt siðferði sem felur meðal annars í sér að stór hluti almennings reyni eftir bestu getu að vera sanngjarn og móta afstöðu til stjórnmála með hliðsjón af langtímahagsmunum allra fremur skammtímahagsmunum sjálfra sín.
 
Gegn hugmyndinni um prúttlýðræði teflir Ólafur Páll fram hugmynd um rökræðulýðræði. Í stuttu máli má segja að þar sem prúttlýðræði einkennist af samkeppni ólíkra skoðana og hagsmuna um fylgi almennings sé kjarni rökræðulýðræðisins sameiginleg leit að skynsamlegum og sanngjörnum lausnum á vandamálum samfélagsins.
 
Það er óljóst að hve miklu leyti Ólafur Páll álítur rökræðulýðræði öðru vísi stjórnskipan en prúttlýðræði og að hve miklu leyti hann er að ræða um tvær leiðir til að hugsa um stjórnmál innan sama kerfis eða sömu stjórnarskrár og laga. Ef hann er aðeins að hugsa um hið síðarnefnda held ég að það sé talsvert vit í greinarmuninum á prúttlýðræði og rökræðulýðræði. Ég held að það sé líka rétt hjá Ólafi Páli að það sé ekki farsælt að skoða lýðræði eingöngu sem samkeppni hagsmuna og skoðana um fylgi almennings. Ein af forsendum þess að lýðræði heppnist vel og leiði til sanngjarnra og skynsamlegra ákvarðana er að a.m.k. hluti almennings hafi áhuga á að finna skynsamlegar og sanngjarnar lausnir en hugsi ekki um það eitt að sitt lið eða sínir hagsmunir vinni og andstæðingarnir tapi. Slík leit að sanngjörnum og skynsamlegum svörum leiðir óhjákvæmilega til þess að menn breyti skoðunum sínum. Vel heppnað lýðræði verður þannig vettvangur þar sem skoðanir mótast en ekki aðeins leikvangur þar sem þær keppa. Um þetta segir Ólafur Páll:
 
Ný hugmynd um pólitískt réttmæti verður að taka tillit til þess að hlutverk hins pólitíska ferlis er ekki bara að gæta að því hvaða óskir borgararnir hafa heldur er það ekki síður að breyta óskum og skapa nýjar í almennri og opinni rökræðu. (Bls. 128.)
 
Til viðbótar við þessar pælingar um tvær leiðir til að skoða lýðræði eða hugsa um það– annars vegar sem vettvang fyrir samkeppni hagsmuna og skoðana og hins vegar sem vettvang fyrir samráð um skynsamlegar og réttlátar lausnir­– talar Ólafur Páll stundum um rökræðulýðræði sem öðru vísi stjórnarhætti en þá sem við nú búum við. Hann lýsir því ekki nákvæmlega á hvern hátt þessir stjórnarhættir eru öðru vísi og raunar er svolítið óljóst hvort hann er aðeins að hvetja til betra siðferðis innan þess lagaramma sem fyrir er eða hvort um er að ræða öðru vísi leikreglur. Hann talar um (bls. 134) að frá sjónarhóli rökræðulýðræðis séu umhverfismat og lögbundin meðferð þess hluti af innri stoðum lýðræðisins og er helst að skilja að hann líti svo á að mat fagaðila eða sérfræðinga sé hluti af leit samfélagsins að skynsamlegum og sanngjörnum lausnum.
 
Það kann að vera vit í þeirri hugmynd að aðkoma sérfræðinga og stofnana af ýmsu tagi að ákvörðunum geti stuðlað að betri stjórnarháttum, en mér finnst samt að það gæti nokkurrar einsýni hjá Ólafi Páli. Hann notar gildishlaðin orð til að lýsa þessum tveim sjónarhornum til lýðræðis þar sem „prútt“ er fremur neikvætt en „rökræða“ jákvæð. Það væri ef til vill betra að kenna þessi sjónarhorn við samkeppni og samráð. Ætli sannleikurinn sé ekki sá að vel heppnað lýðræði er hvort tveggja í senn. Ef áherslan verður öll á samkeppni hugmynda og hagsmuna er hætt við að auglýsingaskrum fyrir kosningar komi í stað upplýstrar umræðu og lýðræðið snúist upp í hálfgerð skrípalæti. Sé áherslan hins vegar öll á að tryggja skynsamlegar niðurstöður er hættan sú að við endum með sérfræðingaveldi þar sem stofnanir, sérfræðingaráð og embættismenn gera það sem þeir telja almenningi fyrir bestu án þessi að venjulegt fólk fái miklu um ráðið.
 
Rökræða um flókin álitamál, eins og t.d. fiskveiðistjórnun eða skipulagsmál hálendisins, fer fram með fræðilegum hugtökum, útreikningum, rannsóknarvinnu og skýrslugerð sem aðeins fáir skilja og geta tekið fullan þátt í. Ef rök skulu alltaf skera úr fremur en afl atkvæða þá er hætt við að einhvers konar sérfræðingaveldi taki við af eiginlegu lýðræði. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að sé stofnunum á borð við Umhverfisstofnun eða Hafrannsóknarstofnun fengið lykilhlutverk við pólitískar ákvarðanir, þá verða þær bitbein hagsmunaafla, og þá kann jafnvel að verða auðveldara og árangursríkara fyrir sérhagsmunahópa að yfirtaka þær en að ná fylgi í kosningum. Að færa aukin völd til stofnana er því ekki endilega besta leiðin til að bæta pólitískt siðferði eða auka líkur á að ákvarðanir verði skynsamlegar og réttlátar. Það getur allt eins orðið til þess að auka hagsmunapotið.
 
Ég stakk áðan upp á að bæði viðhorfin fengju jákvætt nafn, annað yrði kennt við samkeppni og hitt við samráð. Ef menn vilja velja báðum neikvætt nafn mætti, á vondri íslensku, tala annars vegar um lobbýisma og hins vegar elítustjórnmál.
 
Þessi tvö horf lýsa að mínu viti öfgum sem eru báðar jafnhættulegar og þótt mér finnist greinarmunur Ólafs Páls mikilvægur og skarplega dreginn finnst mér líka rétt að vara við því að gera of lítið úr því sem hann kallar prúttlýðræði og mikla um of kosti rökræðulýðræðis. Vel heppnað lýðræði krefst skynsamlegrar umræðu og vilja margra manna til að hugsa sem ábyrgir borgarar og finna lausnir sem eru réttlátar og skynsamlegar. En það krefst þess líka að afl atkvæða skeri stundum úr og almenningur, eða kjörnir fulltrúar hans, geti sagt nei við áliti sérfræðinga og hafnað niðurstöðu sem er fengin með einhverju sem þeir kalla rökræðu en öðrum þykja kannski hártoganir.
*
Í kaflanum „Lýðræði og umhverfismál“ ræðir Ólafur Páll um þrenns konar togstreitu milli lýðræðis og umhverfisverndar og færir rök að því að hægt sé að sætta sjónarmið þeirra sem vilja veg lýðræðis sem mestan og þeirra sem halda fram málstað náttúruverndar:
 
Í fyrsta lagi er um að ræða það sem hann kallar vandann við stofnanabindingu ákvarðana (bls. 164). Sá vandi er í því fólginn að umhverfisvernd kallar á aukin völd sérfræðistofnana eða að vísindamenn og sérfræðingar hafi töluvert um það að segja hvaða framkvæmdir skuli leyfðar.
 
Í öðru lagi ræðir Ólafur Páll um misvægisvanda en hann er í því fólginn að lýðræðislegar ákvarðanir varða oftast hag manna hér og nú, en umhverfisvernd krefst þess að menn horfi til lengri tíma. Um þetta segir hann:
 
      Ólíkt umhverfismálum er svið lýðræðislegra ákvarðana yfirleitt fremur þröngt og vel afmarkað. Það sem knýr á um lýðræðislegar ákvarðanir er yfirleitt eitthvað sem er brýnt og blasir við: atvinnuleysi, von um skattalækkun, þörf á betri vegum, o.s.frv. Í slíkum tilvikum eru hagsmunirnir jafnan nærtækir og óskirnar skýrar, auk þess sem tengsl mögulegra aðgerða við þau markmið sem um ræðir eru tiltölulega áreiðanleg.
      Það er auðvelt að hafa skýrar óskir um nærtæk efni. Eftir því sem áhrifasviðið víkkar og verður óljósara, eins og oft er tilfellið í umhverfismálum, verður erfiðara að ákvarða hverjir hagsmunir manns eru og setja sér skýr markmið. (Bls. 165.)
 
Þriðju togstreituna eða vandamálið kennir Ólafur Páll við ytri þvinganir og segir:
 
Rætur vandans við ytri þvinganir liggja í því að til að bregðast að gagni við ýmsum umhverfisvandamálum, t.d. mengun og ofveiði, þarf samhæfðar aðgerðir fjölda þjóða. […] Til að leysa samhæfingarvanda ólíkra þjóða þarf yfirþjóðlegar stofnanir […] En slík lausn skapar annan vanda: Með því að láta ákvarðanir um umhverfismál í hendur yfirþjóðlegra stofnana koma mikilvægar staðbundnar ákvarðanir til með að velta á atriðum sem þeir, sem hinar staðbundnu ákvarðanir hafa mest áhrif á, hafa lítið eða ekkert um að segja. (Bls. 166.)
 
Greinargerð Ólafs Páls fyrir þessari þrenns konar togstreitu milli lýðræðis og náttúruverndar er að mínu viti afar skilmerkileg og vel hugsuð. Hann bendir á rökræðulýðræði sem mögulega lausn á vandanum og vera má að það sé nokkuð til í því að hægt sé að draga úr togstreitunni með því að auka líkur á að ákvarðanir séu réttlátar og skynsamlegar. Þetta hlýtur að minnsta kosti að gilda um misvægisvandann því hann er ekki fólginn í öðru en því að lýðræðislegar ákvarðanir geta mótast af skammsýni og eigingirni. Hitt er svo annað mál hvað helst þurfi að gera til að auka líkur á að lýðræðislegar ákvarðanir verði réttlátar og skynsamlegar og þar sé ég ekki að Ólafur Páll hafi nein óbrigðul ráð fremur en við hin. Hann ýjar að kostum á að auka völd sérfræðistofnana, en eins og ég hef nefnt geta hagsmunaklíkur lagt þær undir sig. Einnig eru þess dæmi að sérfræðingahópar slái skjaldborg um blekkingar og ranghugmyndir.
*
Hér hef ég farið yfir nokkur atriði sem fjallað er um í bókinni Náttúra, vald og verðmæti. Um mörg önnur efni mætti hafa langt mál, eins og til dæmis það sem sagt er um eignarrétt og um muninn á náttúru og umhverfi. Bókin er býsna efnismikil þótt hún sé ekki nema 200 síður.
 
Eins og lesanda þessa ritdóms má vera ljóst hef ég talsvert önnur viðhorf til stjórnmála og siðferðis en Ólafur Páll. Þessi skoðanamunur setur vafalaust svip á dóminn og ég hef fundið að æði mörgu í bókinni. Það breytir ekki því að ég tel hana vandað innlegg í mikilvæga umræðu og lofsverða viðleitni til að sveigja stjórnmál hér á landi í átt til skynsamlegar og yfirvegaðrar rökræðu.
 
 
Atli Harðarson