Atli Harðarson
Lýðræði og almannavilji

1. Lýðræði og vilji kjósenda

Árið 1942 kom út í Bandaríkjunum bók sem heitir Capitalism, Socialism and Democracy. Höfundur hennar er Joseph A. Schumpeter. Þessi bók markaði þáttaskil í umræðum stjórnmálafræðinga og heimspekinga um lýðræði og hlýtur að teljast meðal þess merkilegasta sem skrifað var um stjórnmálaheimspeki og tuttugustu öld.

Í bókinni segir Schumpeter meðal annars að síðan á átjándu öld hafi lýðræði verið skilgreint með tilvísun til almannavilja og að ríkjandi hugmynd um lýðræði sé á þá leið að það sé skipulag þar sem almenningur kýs sér fulltrúa sem taka pólitískar ákvarðanir í samræmi við almannavilja. [1]

Þessi gamla hugmynd um lýðræði gerir ráð fyrir að fyrst vilji kjósendur að einhverri stefnu sé fylgt, svo kjósi þeir menn sem fylgja þeirri stefnu og að síðustu komi þessi kjörnu fulltrúar saman og taki ákvarðanir í samræmi við vilja kjósendanna eða almannavilja. Eftir að hafa sett þessa hugmynd fram rökstyður Schumpeter að hún sé engan vegin í samræmi við stjórnarhætti í ríkjum sem venjulega eru kölluð lýðræðisríki. Þar sé veruleikinn ekki sá að kjósendur vilji fyrst þetta eða hitt og velji svo fulltrúa sem framkvæma það heldur sé þessu á þveröfugan veg farið þar sem stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar móti fyrst stefnu og tefli fram leiðtogum og ráðherraefnum og keppi svo um atkvæði kjósenda. Vilji kjósenda er að verulegu leyti mótaður af auglýsingum flokka og frambjóðenda eða af umræðu þar sem stjórnmálamenn eiga frumkvæði. Í ljósi þessa hafnar Schumpeter þeirri viðteknu skilgreiningu á lýðræði sem um var rætt og setur fram nýja sem er á þá leið að það sé skipulag þar sem einstaklingar öðlast vald til að taka pólitískar ákvarðanir í gegnum samkeppni þar sem keppt er um atkvæði almennings. [2] Schumpeter bætir því við [3] að þessi samkeppni geti ekki verið hvernig sem er, hún þurfi að fara fram eftir reglum sem tryggja meðal annars að öllum sem bjóða sig fram sé frjálst að tjá skoðanir sínar og að hverjum kjósanda sé frjálst að verja atkvæði sínu að vild.

Sé lýðræði skilgreint eins og Schumpeter gerir og fyrst og fremst litið á það sem kerfi þar sem menn ná völdum með því að keppa um hylli kjósenda þá eru afar losaraleg tengsl milli lýðræðis og almannavilja. Ef tengsl kjósenda við valdið felast einkum í því að merkja við listabókstaf á fjögurra ára fresti þá er óvíst að kjörnir fulltrúar hagi sér í samræmi við vilja kjósenda sinna. Fyrir þessu eru margar ástæður, eins og til dæmis þessar fjórar:

  1. Kjósandi getur verið ósammála öllum frambjóðendum og merkt við þann sem honum finnst illskástur. Frambjóðandinn eða flokkurinn sem hann kýs mun þá væntanlega ekki breyta í samræmi við það sem kjósandinn vill heldur aðeins í minna ósamræmi en aðrir frambjóðendur.
  2. Kjósandi hefur ef til vill ákveðinn vilja í nokkrum málaflokkum en ekki öðrum. Frambjóðendur tilheyra hins vegar flokkum sem hafa stefnu í flestum málum sem heyra undir ríkisvaldið. Ef kjósandi velur flokk sem hann er sammála í þeim málum sem hann hefur skoðun á velur hann jafnframt stefnu í mörgum öðrum málum sem hann hefur ekki skoðun á. Framganga kjörinna fulltrúa í þeim málaflokkum er varla í samræmi við vilja kjósandans (nema hann kjósi að laga eigin skoðanir að stefnu flokksins og þá er það, eins og Schumpeter benti á, ekki vilji kjósandans sem mótar stefnu stjórnmála­manna heldur stjórnmálamennirnir sem móta vilja kjósandans).
  3. Jafnvel þótt kjósandi velji frambjóðanda eða flokk sem hann er sammála í öllum málum og sá flokkur komist í ríkisstjórn er óvíst að stjórnarstefnan, sem frambjóðandinn gengst inn á og hagar sér eftir, verði í samræmi við vilja kjósandans. Flokkurinn þarf e.t.v. að mynda meirihluta með öðrum flokki eða flokkum og stjórnar­stefnan verður þá einhver málamiðlun, semsagt ný stefna sem ekki var kynnt fyrir kosningar og kjósandinn er kannski alls ekkert ánægður með.
  4. Jafnvel þótt kjósandi velji frambjóðanda sem er sammála honum um öll mál sem eru til umræðu fyrir kosningar geta komið upp ný mál á miðju kjörtímabili þar sem fram­bjóð­andinn vill fara aðrar leiðir en kjósandinn.

Í tengslum við d-lið er vert að hafa í huga að í flestum lýðræðisríkjum er gert ráð fyrir að kjörnir fulltrúar á löggjafarsamkundu séu aðeins bundnir af samvisku sinni. Í 48. grein íslensku stjórnarskrárinnar er þetta orðað svona: Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“ Þótt skynsamir og vandvirkir þingmenn hljóti að leggja sig eftir að heyra rök sem flestra og gaumgæfa þau áður en þeir gera upp hug sinn útilokar 48. grein stjórnarskrárinnar að þeim beri nein skylda til að fara að vilja kjósenda. Eðlilegast er að skilja hana svo að þeir eigi að haga málflutningi sínum og ákvörðunum í samræmi við það sem þeir sjálfir telja rétt hvað sem líður almannavilja.

Hér hef ég rætt ofurlítið um tengsl (eða kannski öllu heldur tengslaleysi) milli þess sem einstakur kjósandi vill og þess sem flokkurinn eða mennirnir sem hann kýs gera eftir kosningar. En gamla skilgreiningin á lýðræði, sem Schumpeter hafnaði, gerði ekki aðeins ráð fyrir að hver þingmaður hagaði sér í samræmi við vilja kjósenda sinna heldur líka að ríkisvaldið í heild endurspeglaði einhvers konar almannavilja, eða vilja sem er samsettur úr vilja allra landsmanna. Þótt meira en 60 ár séu liðin síðan bók Schumpeters kom út og þótt síðan hafi komið fram fleiri rök gegn gömlu skilgreiningunni á lýðræði sem stjórn í samræmi við almannavilja er hugtakið almannavilji enn á kreiki í umræðum manna um lýðræði. Það kom til dæmis fyrir í ræðu sem Ólafur Ragnar Grímsson flutti þegar hann var settur í embætti forseta í þriðja sinn 1. ágúst 2004. Hann sagði: „Kjarni lýðræðisins er að forseti, Alþingi og stjórnvöld öll lúti vilja þjóðarinnar og leiðsögn …“ [4] Hversu raunhæf eru þessi hugmynd um almannavilja? Ætli þess sé einhver kostur að slíkur vilji ráði ferðinni við pólitískar ákvarðanir?

2. Sameiginlegur vilji margra

Tal um almannavilja eða sameiginlegan vilja margra manna er af ýmsu tagi og sennilega nokkuð misjafnt frá manni til manns og einu samhengi til annars hvaða merking er lögð í þessi orð. Ég tel mig hafa orðið var við fjórar mismunandi merkingar en útiloka ekki að þær kunni að vera fleiri. Hér ætla ég að byrja á að telja þær upp. Í framhaldinu fer ég svo nokkrum orðum um hverja og eina.

Almannavilji eða vilji hóps getur merkt:

  1. það sem allir eða langflestir vilja eða eru sammála um.
  2. það sem vegur þyngra þegar vilji allra hefur verið lagður á vogarskálar.
  3. niðurstöðu sem fengin er með lýðræðislegum leikreglum.
  4. rökrétta niðurstöðu opinskárrar og hreinskilinnar umræðu.

2a. Það sem allir eða langflestir eru sammála um.

Þessi skilningur á hugtakinu er líklega sá algengasti í daglegu tali. Stundum er til dæmis sagt að fólki finnist eitthvað almennt eða að almennt samkomulag sé um eitthvað og átt við að þeir sem eru sammála séu í miklum meirihluta. Ef við höldum okkur við þennan skilning getum við t.d. sagt að árið 1944 hafi íslenska þjóðin viljað stofna lýðveldi og væntanlega getum við líka fullyrt að hún vilji eiga aðild að Sameinuðu þjóðunum en vilji hins vegar ekki breyta Gullfossi í raforkuver. Um þessi efni er nógu almennt samkomulag til að hægt sé með nokkurn vegin vandræðalausum hætti að tala um almannavilja. En almannavilji í þessum skilningi getur ekki mótað allar ákvarðanir stjórnvalda því þær snúast oftar en ekki um mál sem landsmenn eru ósammála um.

Ef almannavilji er það sem flestir eða allir eru sammála um og pólitískar ákvarðanir eiga að vera í samræmi við almannavilja þá geta pólitískar ákvarðanir ekki fjallað um önnur efni en þau sem flestir eða allir eru sammála um. Þetta er fráleitt og því engin leið að almannavilji í þessum skilningi móti stefnu stjórnvalda nema að litlu leyti, þ.e. aðeins í málum sem landsmenn eru nokkurn veginn einhuga um.

2b. Það sem vegur þyngra þegar vilji allra hefur verið lagður á vogarskálar.

Í fljótu bragði kann að virðast að ef tveir kostir eru í boði og meira en helmingur vill annan kostinn þá sé hægt að segja að hópurinn sem um ræðir vilji þann kost fremur en hinn. Við getum tekið sem dæmi að þegar deilt var um hvort reisa skyldi raforkuver við Kárahnjúka þá voru þeir sem vildu virkja fleiri en þeir sem vildu það ekki. Getum við ályktað af þessu að af þeim tveim kostum að virkja eða virkja ekki hafi þjóðin sem heild viljað þann fyrrnefnda fremur en þann síðarnefnda­‑ að hægt sé að raða kostunum í forgangsröð og segja að þótt þjóðin vilji hvorugan án fyrirvara þá sé meiri vilji fyrir öðrum en hinum? Ég held ekki og fyrir því eru tvær ástæður, önnur fremur einföld og auðskilin hin aftur á móti flókin og torskilin. Lítum á einföldu ástæðuna fyrst.

Hvað ef þriðjungur manna er á móti virkjun við Kárahnjúka og svo mikið á móti henni að þeim þykir málið mikilvægara en öll önnur pólitísk álitamál til samans en þeir tveir þriðju sem eru meðmæltir virkjuninni telja málið ekki eins mikilvægt? Getur mikill vilji fárra vegið þyngra en lítill vilji margra? Við þessu er að ég held ekkert svar en til að skýra málið skulum við hugsa okkur tvenns konar aðferðir til að mæla almannavilja. Önnur er einföld þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem hver og einn greiðir eitt atkvæði. Hin er kerfi af þjóðaratkvæðagreiðslum þar sem hver maður fær sjóð með 100 atkvæðum til ráðstöfunar um leið og hann öðlast kosningarétt og má nota hvað mörg þeirra sem er í hvert sinn sem efnt er til atkvæðagreiðslu. Kjósendur sem teldu eitthvert mál mjög mikilvægt gætu varið öllum atkvæðum sínum til að hafa áhrif á það og sætt sig við að geta ekki tekið þátt í fleiri kosningum það sem eftir er ævinnar. Líklega mundu þó flestir fara sparlega með atkvæðin til að vera ekki dæmdir úr leik ef mikilvægt mál er borið undir atkvæði þegar þeir eru komnir á efri ár. Mér þykir afar sennilegt að í einfaldri atkvæðagreiðslu um virkjun við Kárahnjúka hefði virkjunin verið samþykkt. En það er líka nokkuð líklegt að ef hér væri kerfi þar sem kjósendur greiða mismörg atkvæði út sjóðum sínum eftir því hvað þeim þykir málið mikilvægt þá hefði virkjun verið felld. Af málflutningi þeirra sem mótfallnir voru framkvæmdunum mátti ráða að margir þeirra hefðu notað öll sín atkvæði í þessu eina máli.

Hvað eigum við að halda ef tvær aðferðir til að mæla vilja hóps gefa ólíkar niðurstöður? Hlýtur ekki önnur aðferðin að vera röng? Jú ef vilji hóps er vel skilgreint fyrirbæri. En ég er hræddur um að enginn hafi neitt svar við því hvor þeirra tveggja aðferða sem hér var lýst gefur réttari mynd af almannavilja og afdráttarlausar fullyrðingar um hvað þjóðin vill um umdeild efni eins og virkjanir og náttúruvernd hljóti því að teljast hæpnar.

Þetta var um einföldu ástæðuna. Snúum okkur nú að þeirri flóknu. Hún er í stuttu máli að ef gert er ráð fyrir að um forgangsröð gildi að sé x framan við y og y framan við z þá sé x framan við z þá felur hugmyndin um forgangsröð hóps í sér mótsögn. Þessi mótsögn var leidd út af Kenneth J. Arrow í bók sem kom fyrst út árið 1951 og heitir Social Choice and Individual Values. Í þeirri bók sýnir Arrow fram á að þótt við vitum forgangsröð hvers einasta einstaklings í hópi þá getum við ekki leitt út forgangsröð hópsins. [5] Svipuð niðurstaða hafði raunar verið þekkt síðan á átjándu öld sem þverstæða sem kennd er við franska stærðfræðinginn og stjórnspekinginn Marquis de Condorcet (1743‑1794). Þessa þverstæðu er hægt að skýra með dæmi:

Hugsum okkur að þrír menn, Gísli, Eiríkur og Helgi, búi í sama húsi, taki sig saman um að mála það að utan og þurfi að ákveða hvernig það skuli vera á litinn. Gerum einnig ráð fyrir að forgangsröð einstaklinganna sé sem hér segir og þeir hafi allir jafneinbeittan vilja til að halda fram sinni forgangsröð:

Gísli : gulur - rauður - grænn
Eiríkur : rauður - grænn - gulur
Helgi : grænn - gulur - rauður

Af þessu virðist ljóst að hópurinn vill gult fremur en rautt þar sem tveir af þrem (Gísli og Helgi) hafa gula litin framan við þann rauða í forgangsröð sinni. Einnig vill hópurinn rautt fremur en grænt þar sem tveir af þrem (Gísli og Eiríkur) hafa rautt framan við grænt í forgangsröð sinni. Sá sem vill gult fremur en rautt og rautt fremur en grænt hlýtur að vilja gult fremur en grænt. En þessi þriggja manna hópur vill samt grænt fremur en gult því tveir af þrem (Eiríkur og Helgi) hafa græna litinn framan við þann gula í forgangsröð sinni. Þessi rökfærsla sýnir að af forsendunum hér að neðan sem merktar eru F1 og F2 leiðir mótsögn.

F1: Af hverjum tveim kostum vill hópur fremur þann sem meirihlutinn kýs.

F2: Sá sem vill x fremur en y og y fremur en z vill x fremur en z.

Afrek Arrows var að sýna fram á að engin leið sé fram hjá þessari mótsögn. Ef einstaklingar í hóp geta raðað þrem eða fleiri kostum í forgangsröð hver með sínum hætti þá er vonlaust að setja fram neina reglu um hvernig leiða má forgangsröð hópsins af forgangsröð einstaklinganna.

Ef hugtakið forgangsröð hóps felur í sér mótsögn þá er slík forgangsröð ekki til neitt frekar en giftir piparsveinar eða lifandi lík. Undir hugtak sem felur í sér mótsögn fellur ekkert sem til er í veruleikanum. Þetta útilokar svo sem ekki að hægt sé í vissum tilvikum að tala um að hópur vilji einn kost fremur en annan á þeirri forsendu að fleiri einstaklingar kjósi hann. Það getur t.d. átt við þar sem aðeins er um tvo kosti að ræða og meirihlutinn vill annan fremur en hinn og líka þegar kostirnir eru fleiri og meira en helmingur hópsins hefur algerlega sömu forgangsröð. En þetta eru undantekningatilvik. Flestar pólitískar ákvarðanir snúast um flókin mál þar sem er margra kosta völ og forgangsröð manna og mat á aðstæðum er með ýmsu móti. Í þessum venjulegu tilvikum geta ákvarðanir ekki verið í samræmi við neinn almannavilja í þeim skilningi sem hér um ræðir. Af þessu má að sjálfsögðu ekki álykta að þær hljóti að vera í ósamræmi við almannavilja. Þar sem enginn slíkur vilji er til er hvorki kostur á að vera með honum né á móti.

2c. Niðurstaða sem fengin er með lýðræðislegum leikreglum.

Þegar fundir eru haldnir þar sem fundarmenn senda frá sér ályktanir eða yfirlýsingar er stundum talað um að fundur eða félag vilji þetta eða hitt. Ef allir, eða nær allir, fundarmenn eru sammála getur verið átt við vilja í skilningi 2a. En oftar er um það að ræða að ályktun sé einfaldlega samþykkt með viðurkenndum aðferðum (sem geta t.d. verið einhvers konar nefndarstörf, atkvæðagreiðslur eða lófatak þar sem menn klappa fyrir tillögum vinsæls leiðtoga). Í slíkum tilvikum er „vilji hópsins“ ekkert annað en niðurstaða sem fengist hefur án þess að brjóta viðurkenndar leikreglur. Slík niðurstaða getur verið ólík því sem einstaklingar í hópnum vilja, jafnvel þótt þeir fallist á hana í orði kveðnu. Sumir samþykkja hana ef til vill vegna þess að þeir vilja ekki rjúfa samstöðu hópsins, sumir vegna þess að þeir gera sér grein fyrir að ekki er von um að ná betri niðurstöðu að sinni og sumir vegna þess að þeir vilja kaupa sér frið eða vinsældir. Að hópur manna samþykki niðurstöðu án þess að víkja frá viðurkenndum leikreglum þýðir ekki endilega að einstaklingarnir í hópnum séu sammála henni. Séu fundarsköp og aðferðir við ákvarðanatöku í þokkalegu lagi má þó oftast nær ætla að sú niðurstaða sem fæst sé þannig að allstór hluti fundarmanna geti að minnsta kosti sætt sig við hana.

Ég býst við að menn leggi þennan skilning í orðið „vilji“ þegar rætt er um vilja Alþingis eða vilja löggjafans eins og hann birtist í lögunum og líka þegar talað er um vilja fjölmennra samtaka eins og verkalýðsfélaga. Eftir því sem ég best veit er ekkert athugavert við þennan skilning. Þegar aðalfundur félags hefur samþykkt eitthvað er ofureðlilegt að tala um að félagið vilji það sem samþykkt var. Í þessu felst ef til vill einhvers konar líking þar sem félaginu er líkt við mennskan einstakling. Ástæðulaust er að fetta fingur út í slíkt orðalag á þeim forsendum að um líkingamál sé að ræða því slík málnotkun er ofureðlilegur hluti af daglegu tali.

Þótt þessi skilningur á umræðu um vilja hóps eða almannavilja sé algengur og líklega laus við mótsagnir af því tagi sem rætt var um í 2b er afar hæpið að leggja hann til grundvallar kenningu um að lýðræði krefjist þess að ákvarðanir séu í samræmi við almannavilja. Þetta er vegna þess að ef almannavilji er ekkert annað en niðurstaða sem fengist hefur með lýðræðislegum aðferðum þá getur ekki verið að þessi vilji stjórni því hver niðurstaðan er. Ef við höldum okkur við þennan skilning á hugtakinu almannavilji þá getum við ekki sagt að þessi eða hin niðurstaða hafi verið ákveðin vegna þess að hópurinn vildi hana. Þessi skilningur felur þvert á móti í sér að hópur vilji niðurstöðu vegna þess að hún var ákveðin. Almannavilji af þessu tagi getur ekki mótað niðurstöðu lýðræðislegrar ákvörðunar því hann er ekki til fyrr en ákvörðunin hefur verið tekin.

2d. Rökrétt niðurstaða opinskárrar og hreinskilinnar umræðu.

Allt frá því Jean-Jacques Rousseau skrifaði Samfélagssáttmálann á átjándu öld hafa verið á kreiki hugmyndir í þá veru að almannavilji sé niðurstaða sem sanngjarnir og réttsýnir menn sjá og skilja að er skynsamleg og réttlát. Nú um stundir er Þjóðverjinn Jürgen Habermas líklega þekktasti talsmaður hugmynda af þessu tagi. Þær styðjast meðal annars við þau sannindi að hvað menn vilja veltur á því hvað þeir skilja og sanngjarnir menn og góðir vilja það sem þeir skilja að er viturlegt og réttlátt.

Í grein sem birtist nýlega í tímariti Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands ræðir Ólafur Páll Jónsson heimspekingur um lýðræði og setur fram hugmyndir um rökræðulýðræði, sem hann telur betra en það ófullkomna lýðræði sem raunveruleikinn hefur upp á að bjóða. Hann segir:

Frá sjónarhóli rökræðulýðræðisins ... er ljóst að lýðræðisleg ákvörðun felst ekki í einberum kosningum, ekki einu sinni þótt þær verði frjálsar í einhverjum skilningi. Rökræðulýðræði verður ekki komið á nema með því að tryggja opna og óhefta umræðu og með því að setja á fót stofnanir og lögbundin ferli sem miða að því að draga fram ólíka hagsmuni og leitast við að taka ákvarðanir án þess að mismuna fólki með tilliti til verðleika og lífssýnar þess. Lýðræðisleg umræða er ekki fyrst og fremst greinaskrif í dagblöð, veggspjöld, áróður og hnútukast í fjölmiðlum mánuðina fyrir kosningar. Slík umræða er vissulega hluti af lýðræðislegri umræðu og misjafnt aðgengi að fjölmiðlum í þeirri umræðu er meinbugur á lýðræðinu. En þetta er aðeins brot af hinni lýðræðislegu umræðu. Umhverfismat vegna virkjanaframkvæmda er einnig hluti af hinni lýðræðislegu umræðu sem og athugasemdir við slíkt mat, gagnrýni á einstakar embættisfærslur ráðherra og annarra embættismanna og greinaskrif fólks um eigin tilfinningar og lífssýn í tengslum við slíkar framkvæmdir. Allt fellur þetta innan hinnar lýðræðislegu umræðu og það ber að líta á þessa umræðu, hvort heldur sem um umhverfismat eða tilfinningaþrungin greinaskrif er að ræða, sem innlegg í umræðu sem miðast við að leita leiða sem allir geta orðið ásáttir um. [6]

Það lýðræði sem Ólafur Páll lætur sig dreyma um er ekki bara samkeppni um atkvæði heldur eitthvað meira í ætt við það sem Schumpeter lýsti sem hefðbundinni hugmynd um lýðræði og sagði að væri hvergi til í raun og veru. Ólafur Páll talar að vísu ekki um almannavilja heldur um rökræðu sem leiðir til niðurstöðu sem allir geta orðið ásáttir um.

Rétt í bili skulum við láta liggja milli hluta hverjir það eru sem hér kallast „allir“, hvort það eru bókstaflega allir landsmenn eða allir þeir sem eru nógu menntaðir og nógu flinkir að raða saman orðum til að geta sett fram marktæk rök. Hugsum okkur að til séu fræðimenn og stofnanir sem draga fram þá þekkingu sem máli skiptir í hvert sinn sem taka þarf afstöðu til pólitískra álitamála. Hugsum okkur einnig að stór hluti almennings hugleiði rök málsins og þeir sem hafa eitthvað til málanna að leggja setji hugmyndir sínar fram skýrt og skilmerkilega. Gerum að síðustu ráð fyrir að þeir sem taka pólitískar ákvarðanir kynni sér öll þessi rök af stillingu og sanngirni og taki tillit til þeirra eftir því sem kostur er. Hversu líklegt er að þetta leiði almennt og yfirleitt til niðurstöðu sem allir geta orðið ásáttir um?

Vissulega leiðir opinská og hreinskilin umræða stundum til sameiginlegs skilnings sem allir hljóta að fallast á ef þeir kynna sér málið af opnum hug. Það er ekki útilokað að rökræða skapi stundum sameiginlegan skilning og þar með sameiginlegan vilja hjá flestum eða öllum. En það er heldur ekki algengt. Fyrir þessu er ýmsar ástæður, sumar augljósar eins og þær að fólk hefur takmarkaðan tíma og takmarkaða getu til að rýna ofan í kjölinn á hverju máli. Aðrar ástæður eru ef til vill ekki eins augljósar þar á meðal sú sem ég held að skipti mestu máli, en hún er að þau gæði sem tekist er á um í stjórnmálum eru of margvísleg og sundurleit og það er of erfitt að bera þau saman til að líklegt sé að rökræða leiði nema í undantekningatilvikum til niðurstöðu sem allir geta fallist á. [7] Eigi pólitískar ákvarðanir að byggjast á rökum sem allir geta fallist á þarf niðurstöðu um hver er hin rétta forgangsröð verðmæta og gilda. Til þess dugar ekkert minna en að sannleikurinn um hið góða líf finnist áður en ákvörðun er tekin.

Talsmenn „rökræðulýðræðis“ geta ef til vill svarað þessum mótbárum mínum með því að segja að jafnvel þótt ekki sé alltaf kostur á að rökstyðja ákvarðanir svo öllum líki eða ná sameiginlegri niðurstöðu með rökræðum beri mönnum samt að reyna það, viðleitni til að leita saman að sannleikanum sé hluti af vel heppnuðu lýðræði jafnvel þótt hún sé misjafnlega árangursrík. Þetta er vissulega rétt svo langt sem það nær. En þótt gagnrýnin umræða og sannleiksleit séu forsenda fyrir farsælu lýðræði finnst mér rétt að vara við of mikilli áherslu á að slík leit eigi að leiða til sameiginlegrar niðurstöðu. Að minnsta kosti er það ekki gott ef gagnrýninni leit er hætt um leið og flestir eru orðnir sammála. Sé einhvern tíma þörf á andófi, gagnrýni, öðru vísi hugmyndum og nýjum sjónarhornum þá er það þegar hver étur sömu tugguna upp eftir öðrum. Þess eru mörg dæmi úr sögunni að allir hafi verið sammála um einhverja endemis vitleysu. Að allir séu ásáttir um niðurstöðu þýðir ekki að hún sé rétt.

Ég hef fleiri ástæður til að efast um ágæti þess að leggja mikla áherslu á að pólitískar ákvarðanir séu ætíð í samræmi við niðurstöðu sem hefur verið rökrædd þar til allir eru ásáttir um hana. Ein er sú að „allir“ hljóta í þessu sambandi að vera allir sanngjarnir menn sem hafa fylgst með rökræðunni fremur en bókstaflega hver einasti maður. Til að úrskurða að rökræða hafi leitt til niðurstöðu sem allir sanngjarnir menn geta sætt sig við þarf að fella dóma um hverjir teljast sanngjarnir. Hætt er við að slíkir dómar verði að minnsta kosti stundum ranglátari gagnvart þeim sem hugsa öðru vísi en hreint og klárt tap í samkeppni um atkvæði.

Krafa um að mál séu rökrædd þar til komin er niðurstaða sem allir geta sætt sig við eða þar til einhvers konar almannavilji hefur mótast er í mörgum tilvikum óraunhæf og áhersla á slíka kröfu getur leitt til þess að þeir sem hugsa öðru vísi en meirihlutinn verði utangarðs þegar dreginn er hringur um þá sem teljast „allir“. Með þessu er ég ekki að draga úr gildi opinskárrar og hreinskilinnar umræðu um pólitísk mál. Hefð fyrir slíkri umræðu og stofnanir (eins og fjölmiðlar, háskólar, óháðir rannsakendur) sem ýta undir hana og halda henni við eru ef til vill með mikilvægustu forsendum þess að lýðræði heppnist vel. Þetta er ekki vegna þess að umræða leiði endilega til sameiginlegrar niðurstöðu heldur vegna þess að þegar best lætur afhjúpar gagnrýni málflutning sem er rangur og heimskulegur og stuðlar þannig að því að vitlausustu hugmyndirnar séu dæmdar úr leik

3. Niðurstöður

Hér hefur verið rætt um ferns konar skilning á hugtakinu almannavilji og í öllum tilvikum er niðurstaðan sú sama að ekki sé kostur á að pólitískar ákvarðanir ráðist af slíkum vilja nema í undantekningatilvikum. Áður voru tilgreindar nokkrar ástæður til að efast um að hegðun kjörinna fulltrúa geti verið í fullkomnu samræmi við vilja þeirra sem greiddu þeim atkvæði. Allt ber þetta að sama brunni. Við hljótum að fallast á það sem Schumpeter sagði að almannavilji geti ekki ráðið ferðinni í stjórnmálum. Ef við þrjóskumst við að skilgreina lýðræði sem skipulag þar sem pólitískar ákvarðanir ráðast af almanna­vilja þá verðum við annað hvort að ljá orðinu „almannavilji“ einhverja aðra merkingu en þær fjórar sem hér voru til umræðu eða fallast á að lýðræði sé ekki til. Þorsteinn Gylfason kýs að fara síðarnefndu leiðina í bók sinni Tilraun um heiminn þar sem hann segir að það sé ekkert lýðræði til og verði aldrei til. [8] Að mínu viti er skynsamlegra að skilgreina lýðræði án tilvísunar til almannavilja. [9] Hér eru ýmsar leiðir færar. Þegar hefur verið nefnd tillaga Schumpeters að skilgreina lýðræði sem frjálsa samkeppni um atkvæði.

Hvaða leið sem valin er til að skilgreinina lýðræði hljótum við ætíð að gera greinarmun á skilgreiningaratriðum og einkennum sem ráða miklu um hvort lýðræðið er vel heppnað og farsælt. Lýðræðisleg stjórnskipan getur verið misgóð og áhugamenn um lýðræðisleg stjórnmál hljóta að leita leiða til að bæta lýðræðið. Ef þau rök sem ég hef sett fram í þessari grein fá staðist ætti slík viðleitni ekki að miða að því að tryggja að pólitískar ákvarðanir verði í samræmi við almannavilja. Hún ætti frekar að hverfast um hugtök eins og réttlæti, hagkvæmni, velferð, jöfnuð og frelsi. Hugsjónamenn hafa af nógu að taka þótt þeir láti almannaviljann sigla sinn sjó.

Rit

Arrow, Kenneth. J. 1963. Social Choice and Individual Values. New Haven: Yale University Press.
Atli Harðarson. 1998. Vafamál. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
Atli Harðarson. 2001. „Lýðræði“ í Líndæla — Sigurður Líndal sjötugur. Reykjavík: Hið íslenska bókmennta­félag.
Atli Harðarson. 2003. „Verðmæti, náttúruspjöll og flótti frá veruleikanum“ grein sem liggur frammi á http://this.is/atli.
Ólafur Páll Jónsson. 2003. „Prútt eða rök og réttlæti — Tvær hugmyndir um lýðræði“ Ritið —Tímarit Hugvísindastofnunar 1/2003 bls. 33—43.
Ólafur Ragnar Grímsson. 2004. „Hvert er erindi Íslendinga?“ Morgunblaðið 3. ágúst 2004 bls. 23.
Schumpeter, Joseph A. 1970. Capitalism, Socialism and Democracy. London: Unwin University Books.
Þorsteinn Gylfason. 1992. Tilraun um heiminn. Reykjavík: Heimskringla — Háskólaforlag Máls og menningar.



[1] Schumpeter 1970 bls. 250.

[2] S.r. bls. 269.

[3] S.r. bls. 271.

[4] Morgunblaðið 3. ágúst 2004 bls. 23.

[5] Rökfærsla Arrows er endursögð og útskýrð á bls. 257-266 í Atli Harðarson 1998.

[6] Ólafur Páll Jónsson 2003 bls. 41.

[7] Um þetta hef ég fjallað í grein sem heitir „Verðmæti, náttúruspjöll og flótti frá veruleikanum“ og liggur frammi á heimasíðu minni http://this.is/atli

[8] Þorsteinn Gylfason 1992 bls. 100.

[9] Um skilgreiningu á hugtakinu lýðræði hef ég fjallað í Atli Harðarson 2001.