Atli Harðarson
Jafnrétti
(inngangserindi á fundi með félögum úr Heimdalli og Femínistafélaginu sem haldinn var á skemmtistaðnum Felix að kvöldi 18. júní 2004)

Síðan á 17. öld hafa flestir helstu frumkvöðlar í stjórnspeki Vesturlanda haldið fram einhvers konar hugmyndum um jafnrétti. Eigi að nefna eitthvað eitt sem greinir stjórnmálahugsun nýaldar frá hugmyndum evrópskra miðaldamanna og fornri speki Grikkja og Rómverja þá er það þetta, að nýaldarmenn trúa á jafnrétti. Ekki er samt svo að skilja að hugmyndir um jafnrétti hafi hlotið almenna viðurkenningu þegar á 17. öld. Það er sönnu nær að þá hafi sigurganga slíkra hugmynda byrjað og hún staðið nokkurn vegin óslitið síðan.
   Hugmyndir um að allir menn séu með einhverjum hætti jafningar voru svo sem til í fornöld og á miðöldum. Slíkar hugmyndir má til dæmis finna í Nýja Testamentinu og Kóraninum og kristnir menn og múslimir hafa löngum álitið að menn séu jafnir að því leyti að guði þyki jafn vænt um þá alla. Þeir hafa líka trúað því að hver og einn hafi ekki aðeins siðferðilegar skyldur við nágranna, vini og ættingja heldur við „náunga sinn“ þ.e. hvert mannsbarn sem á vegi hans verður. Jafnaðar- og jafnréttishugsjónir nútímans eru að einhverju leyti orðnar til fyrir áhrif frá trúarlegum hugmyndum um að allir séu guðs börn og guð vilji að fólk umgangist hvert annað sem systur og bræður. En þar til heimspeki og hugsun menntamanna í Evrópu tók stakkaskiptum á 17. öld tengdu menn trú á að allir séu jafnir fyrir guði sjaldan jafnréttiskröfum af því tagi sem einkenna stjórnmál seinni alda. Menn virðast einfaldlega hafa skilið að það geti vel farið saman að guði þyki jafnvænt um húsbónda og þræl eða ánauðarbónda og lénsherra en það sé samt rétt að þrællin hlýði húsbóndanum og ánauðarbóndinn striti fyrir lénsherrann.
   Misrétti var nánast innbyggt í heimsmynd kristinna miðaldamanna. Mannkynið myndaði stigveldi sem spannaði bilið frá skynlausri skepnu til engils. Upphafsmenn vísindabyltingar og upplýsingarstefnu á 17. öld, menn á borð við Galíleó, Descartes, Gassendi, Hobbes, Spinoza og Locke, rifu þessa heimsmynd niður. Þeir hugsuðu tilveruna upp á nýtt og höfnuðu forsendunum fyrir hefðbundinni ójafnaðarstefnu. Þótt jafnrétti hafi verið í sókn frá því að hugmyndir þessara frumkvöðla byrjuðu að móta hugsun fólks og þótt flestir nútímamenn aðhyllist jafnrétti eru afar skiptar skoðanir um hvað í því felst og deildar meiningar um hvernig rétt sé að rökstyðja að allir menn séu jafningjar. Það er e.t.v. ekki fjarri lagi að meginmunurinn á öflugustu stjórnmálastefnum nútímans felist í ólíkum hugmyndum um jafnrétti.
   Íslenska orðið „jafnrétti“ kann að gefa tilefni til að ætla að þær hugsjónir sem um er að ræða snúist einkum um jafnan rétt, þ.e. að allir séu jafnir að lögum, megi það sama og sé bannað það sama. En þetta íslenska orð er notað til að þýða ensku, frönsku og þýsku orðin „equality“, „égalité“ og „Gleichheit“ og merking þeirra nær yfir meira en jöfn lagaleg réttindi. Þau geta líka merk jöfn kjör að ýmsu öðru leyti eða jafna virðingu. Jafnréttisbarátta t.d. lágstéttarfólks í Evrópu, blökkumanna í Bandaríkjunum, kvenna í fjölmörgum löndum og nú á síðustu árum homma og lesbía hefur stundum snúist um jöfn lagaleg réttindi, stundum um jöfn efnaleg kjör en sé eitthvað eitt sem alltaf hefur fylgt með er það krafan um virðingu, að hver einstaklingur sé metin að verðleikum en ekki settur skör neðar öðrum af ástæðum sem ættu ekki að skipta neinu máli.
   Hér er ekki rúm til að fara mörgum orðum um rök sem færð hafa verið fyrir jafnrétti. Mig langar þó að nefna í örstuttu máli þrjár jafnréttiskenningar úr smiðju heimspekinga sem hafa haft töluverð áhrif á hugsunarhátt fólks og eru, eins og margt annað sem eitt sinn þótti langsótt og snúin heimspeki, komnar í bland við það sem við köllum stundum „heilbrigða skynsemi.“
   René Descartes andmælti stigveldishugmyndum miðalda og sett fram kenningar í þá veru að það sem gerir manninn að manni sé umfram allt skynsemin og hún sé söm í öllum mönnum, að allir hafi í jöfnum mæli þá eignleika sem gera mennina mennska. Á 18. öld tóku Jean-Jacques Rousseau og Immanuel Kant þessa kenningu upp í svolítið breyttri mynd því hjá þeim var það ekki skynsemin heldur samviskan (eða siðvitið eða hinn góði vilji) sem umfram allt gerði mennina mennska og er eins hjá öllum. Enn þann dag í dag eru svona hugmyndir á kreiki og birtast t.d. í því að mörgum sem láta sér annt um jafnrétti er í nöp við þá sem álíta að vitsmunalegum eða siðferðilegum hæfileikum sé misskipt milli hvítra og svarta eða karla og kvenna. Það er eins og mönnum finnist að kröfur um jafnrétti þurfi að styðjast við staðreyndir um að menn séu eins að einhverju leyti eða hafi eitthvert sameiginlegt eðli. Ég held að ekki sé á neinn hallað þó ég segi að þessar hugmyndir um manneðli og sammannlega hæfileika séu umdeildar og það sé erfitt að rökstyðja þær svo öllum líki.
Önnur mikilvæg jafnréttishugmynd var sett fram af John Locke. Hún er á þá leið að jafnvel þótt menn séu misjafnir og ólíkir þá hafi allir sömu siðferðilegu réttindin óháð samfélagsháttum og öðrum aðstæðum. Locke orðaði þetta svo að guð hafi sett mannkyni lög sem hver maður þekki og skilji af hyggjuviti sínu og að samkvæmt þessum lögum (sem hann kallaði „the law of nature“) hafi hver maður rétt til lífs, frelsis og eigna og hver sem beiti annan mann ofbeldi, ræni hann eða hneppi hann í ánauð brjóti lögin sem guð setti þegar hann skapaði heiminn. Öðrum þræði er þessi kenning Lockes flókin leið til að orða þá einföldu hugsun að það sé jafnrangt að beita ofbeldi hver sem fyrir því verður, þannig að lénsherra sem lemur kotung sé jafnsekur og kotungur sem lemur lénsherra. Þessi einfalda hugmynd um að ofbeldi sé jafnrangt hver sem á í hlut er að ég held kjarninn í jafnréttishugmyndum frjálshyggjumanna. Líkt og hugmynd Descartes um sammannlega hæfileika hefur hugmynd Lockes um sammannleg réttindi gengið aftur í ýmsum myndum. Nú til dags er hún stundum orðuð svo að mannréttindi séu algild og óháð aðstæðum. Þessi hugmynd um algild sammannleg réttindi er umdeild ekkert síður en hugmyndin um sameiginlegt manneðli. Það er erfitt að rökstyðja hana og næsta ljóst að margt af því sem nú til dags er í tísku að kalla algild réttindi, eins og t.d. réttur sakbornings á að fá verjanda sem flytur mál hans fyrir óvilhöllum dómstóli eða réttur á menntun og skólagöngu getur varla átt við nema í samfélögum með allflókna verkaskiptingu.
   Þessar tvær hugmyndir sem ég hef kennt við Descartes og Locke eru óháðar hvor annarri, hvorug er afleiðing af hinni og þær stangast ekki heldur á. En sumar hugmyndir um jafnrétti rekast hver á aðra. Einhver áhrifamesta siðfræðikenning nútímans er nytjastefnan. Eins og hún var sett fram af John Stuart Mill á 19. öld stangast hún á við kenningar um algild mannréttindi því samkvæmt nytjastefnunni er rétt að gera hvaðeina sem stuðlar að sem mestri hamingju eða velferð sem flestra og það gerist við og við að meintur réttur einstaklings stangast á við hagsmuni fjöldans. Nytjastefnan er samt jafnréttiskenning því þegar afleiðingar einstakra verka eru metnar skiptir hamingja allra jafnmiklu máli. Vart þarf að taka fram að hún er vandræðagripur ekkert síður en hinar kenningarnar tvær.

*
Hér hef ég reifað þrjár hugmyndir um hvers vegna allir menn séu jafnir: Ein kveður á um sammannlega skynsemi eða samvisku; önnur um algild mannréttindi; sú þriðja um að hamingja allra skipti jafnmiklu máli. Allar þessar hugmyndir hafa kveikt eldmóð með baráttumönnum fyrir betra og réttlátara samfélagi. Þótt þær séu ólíkar þá er ástæðan fyrir vinsældum þeirra allra ef til vill sú sama, nefnilega að kerfisbundið misrétti kynja, stétta eða kynþátta kemur iðulega í veg fyrir að einstaklingar séu metnir að verðleikum og því ekki að undra þótt þeir sem fyrir misréttinu verða grípi tveim höndum kenningar sem hægt er að nota til að rökstyðja að allir menn séu jafnir— og það eins þótt þeir vilji kannski frekar að hver og einn sé metinn af sanngirni en að allir séu jafnmikils metnir.
   Á Vesturlöndum hefur samfélagsþróun undanfarinna alda verið í átt að minni stéttaskiptingu og meira jafnrétti. Þessi þróun hefur að einhverju leyti verið knúin áfram af samkeppni í efnahagslífinu. Kerfisbundið misrétti, kynja, kynþátta eða stétta kemur ekki aðeins í veg fyrir að allir séu metnir að verðleikum. Það kemur líka í veg fyrir að hæfileikar allra nýtist og er því óhagkvæmt, dregur úr samkeppnishæfni og hagvexti. Og hér held ég að skipti litlu máli hvort misréttið er innbyggt í lög og stjórnsýslu eða hvort því er viðhaldið af venjum á vinnumarkaði eða viðhorfum sem móta samskipti fólk í einkalífi. En þótt samkeppni og kröfur um hagkvæmni hafi verið ein helsta driffjöður þróunarinnar eru kröfur um jafnrétti oft og iðulega rökstuddar með tilvísun til stórra kenninga um sammannlega eiginleika eða um algildi mannréttinda eða einhvers konar velferðarhugsjóna af sauðahúsi nytjastefnu. Í mörgum tilvikum mundu einföld hagkvæmnisrök þó standast betur gangrýni því þessar stóru kenningar eru, eins og ég hef sagt, allar óttalegir vandræðagripir. Oftast reynir þó lítið á þetta því flestir eru of háttvísir til að kunna almennilega við að andæfa rökum fyrir jafnrétti, enda eru slík rök sem betur fer oftast sett fram í þeim góða tilgangi að vinna gegn því að fólk sé lítilsvirt eins og gert er þegar það er sett skör neðar öðrum af ástæðum sem ættu að réttu lagi ekki að skipta neinu máli.