Atli Harðarson
Ei þurfandi stað né stundir

Um miðja fjórtándu öld samdi Eysteinn Ásgrímsson helgikvæði sem kallast Lilja. Kvæðið er eitt hundrað erindi og þótti svo vel ort að síðan er haft að orðtaki að allir vildu Lilju kveðið hafa. Fyrsta erindið byrjar svona:

Almáttugur guð, allra stétta
yfirbjóðandi engla og þjóða,
ei þurfandi stað né stundir,
stað haldandi í kyrrleiksvaldi,
Í þriðja vísuorði tilgreinir Eysteinn að guð þurfi hvorki stað né stundir og meinar trúlega að guð sé einhvern veginn utan við tíma og rúm. Í næstu línu er talað um kyrrleiksvald sem eðlilegt er að skilja svo að vald guðs sé hafið yfir hvers kyns hreyfingu og breytileika.
    Hvað eigum við að halda um þá kenningu að guð þurfi hvorki stað né stundir? Getur verið að Eysteinn hafi álitið að guð gæti verið til jafnvel þótt hvorki væri rúm né tími? Ef til vill hefur hann þekkt kenningu sem Platon viðrar í riti sínu Timæos (38b) þar sem segir að tíminn hafi verið skapaður um leið og himininn. Aristóteles, sem er frægasti eftirmaður Platons meðal grískra heimspekinga, hafnaði þessari kenningu um upphaf tímans í Eðlisfræði sinni (Physica 251b) þar sem hann segir að tíminn geti ekki hafa byrjað því það hljóti að vera tími bæði á undan og á eftir hverju augnabliki og því geti ekkert augnablik hafa verið fyrst.
    Eysteinn Ásgrímsson var munkur. Hann tilheyrði reglu sem kennd er við Ágústínus frá Hippó í Norður Afríku. Ágústínus var uppi frá 354 til 430 og er jafnan talinn einn merkasti frumkvöðull kristinnar heimspeki við lok fornaldar og upphaf miðalda. Ég veit ekki hvort Eysteinn hafði veður af kenningum grískra fornaldarheimspekinga sem fjölluðu um rúm og tíma en mér finnst sennilegt að hann hafi þekkt nokkuð til heimspeki Ágústínusar. Það sem Eysteinn segir um kyrrleiksvald og um að guð þurfi hvorki stað né stundir er líka í dúr við sjónarmið sem Ágústínus gerir grein fyrir í riti sínu Um ríki Guðs (IX:21 og XII:16). Þar tekur hann undir kenningu Platons í Timæosi að guð hafi skapað tímann en samþykkir líka þá skoðun Aristótelesar að tíminn hafi aldrei byrjað heldur liðið eilíflega og bendir á máli sínu til stuðnings að þótt englar séu eilífir og hafi alltaf verið til séu þeir engu að síður skapaðir af guði. Þessi rök Ágústínusar sannfæra að sjálfögðu ekki aðra en þá sem trúa kenningum hans um engla og hér verður ekki farið út í þá sálma.
    Skrif Ágústínusar um tímann eru torskilin eins og reyndar flest sem heimspekingar hafa sagt um þetta efni. Ef til vill komumst við næst því að skilja hvað hann var að fara ef við líkjum veröldinni við óendanlega langa kvikmynd. Á filmunni eru rammarnir í röð og við sem erum persónur myndarinnar upplifum rammann á tjaldinu sem nú. Þeir sem þegar hafa verið sýndir eru fortíð okkar og þeir sem ljósið hefur enn ekki lýst í gegnum eru framtíð. En þótt okkur finnist veröldinni vinda fram augnablik fyrir augnablik sér guð alla filmuna í senn, enda er hann ekki hluti af myndinni heldur utan við hana— utan við tíma og rúm.
    Þegar hefur verið minnst á að þessar skoðanir Ágústínusar sem Eysteinn munkur segir frá í fyrsta erindi Lilju séu að einhverju leyti sprottnar af hugmyndum sem finna má í Timæosi Platons og í Eðlisfræði Aristótelesar. Rætur þeirra liggja víðar í heimspeki fornaldar meðal annars í kenningum Parmenídesar frá Elea á Sikiley sem var uppi um 500 f. Kr. og hélt því fram að hinn sanni veruleiki sé einfaldur og óbreytilegur en hverfulleikinn og margbreytileikinn sem við skynjum sé aðeins eitthvað sem okkur sýnist. Eftirmenn Parmenídesar á seinni öldum hafa leikið ýmis tilbrigði við þetta stef um greinarmuninn á hinum sanna veruleika og því sem við skynjum og upplifum.
    Fornmenn sem trúðu á Seif og Heru, Júpíter og Júnó eða Óðin og Frigg hafa vafalítið hugsað sér að guðirnir lifðu í sama rúmi og sama tíma og við mennirnir. Ætli flestu fólki hafi ekki þótt næsta sjálfgefið að rúmið innihaldi allan raunveruleikann og ævi guðanna líði dag af degi eins og okkar mannanna. Trúlega álitu höfundar Gamla testamentisins líka að drottinn hersveitanna byggi í bókstaflegum skilningi á himnum og mér finnst ekki ótrúlegt að sumt trúað fólk á seinni öldum hafi hugsað á svipuðum nótum. Þessir guðir fornaldarinnar og alþýðlegs kristindóms eru ósköp mannlegir. Sé þess gætt að hugsa ekki nema hæfilega langt má vel ímynda sér að þeir búi á fjallstindum eða uppi á himinhvelinu alveg eins og það er hægt að ímynda sér huldufólk í hólum og álfa í steinum. En sennilega er ekki hægt að taka slíkar hugmyndir mjög alvarlega án þess að sniðganga vísindalega hugsun og forðast vitsmunalegan aga.
    Sá guð sem Ágústínus trúði á er óendanlegur, alfullkominn, óbreytilegur og á ýmsan hátt of góður fyrir þennan heim. Til að finna honum stað dugði ekkert minna en að hugsa sér veruleika utan við rúm og tíma. Ef til vill er slíkur veruleiki á mörkum þess sem menn geta með góðu móti gert sér í hugarlund en við getum þó ímyndað okkur eitthvað í áttina. Við getum til dæmis hugsað okkur að rúmið og sá heimur sem við skynjum sé sýndarveruleiki eins og lýst er í kvikmyndunum um Matrix eftir bræðurna Larry og Andy Wachowski. Í Matrix finnst fólki það ferðast um í borg og því finnst að tíminn líði en þetta er aðeins sýndarveruleiki og raunveruleikann sem að baki býr er hvergi að finna í því rúmi sem fólkinu finnst vera allur veruleikinn. Lengra nær líkingin ekki því í Matrix er hinn sanni veruleiki í rúmi og tíma og sýndarveruleikinn eftirlíking af honum eins og hann var nokkrum árhundruðum fyrr.
    Frakkinn René Descartes (1596-1650) er jafnan talinn með merkustu frumkvöðlum í heimspeki seinni alda. Þótt hann hafi markað þáttaskil í heimspekisögunni sækir hann ýmislegt til Ágústínusar og fleiri miðaldamanna. Í upphafi fjórða kafla Orðræðu um aðferð gerir Descartes grein fyrir tvíhyggju sinni, það er að segja þeirri kenningu að líkami og sál séu tvennt ólíkt. Hann segir:
Ég hugleiddi af gaumgæfni, hvað ég var, og sá þá, að ég gat látið sem ég hefði engan líkama og sem ekki væri til neinn heimur né neinn staður minn í þessum heimi, en ég gæti ekki þar fyrir látið, sem ég væri ekki til. Og ég sá, að einmitt af þeirri staðreynd, að mér kom til hugar að efast um sannleiksgildi annarra hluta, leiddi alveg þvert á móti augljóslega og örugglega, að ég var til. En hefði ég hins vegar einungis hætt að hugsa, þó að allt annað, sem ég hafði nokkru sinni ímyndað mér, hefði verið satt, hefði ég enga ástæðu til að trúa því, að ég hefði verið til. Af þessu varð mér vel ljóst, að ég var veruleiki og að allt eðli eða náttúra þessa veruleika var að hugsa og að þessi veruleiki var staðlaus í rúminu. Og hann er ekki heldur háður neinu efni, svo að ég sjálfur, það er að segja sálin, sem gerir mig að því sem ég er, er að fullu aðgreind frá líkamanum og hún er jafnvel auðþekktari en líkaminn og héldi öllu sínu, þó að hann væri ekki til.
(Þýðing Magnúsar G. Jónssonar útg. Hið íslenska bókmenntafélag 1991 bls. 98-9. Leturbreyting AH.)
Hér er mannshugurinn kominn á bekk með guði Eysteins munks að því leyti að hann er staðlaus. Það er erfitt að átta sig á hvað Descartes meinti með þessu. Eftir því sem ég kemst næst áleit hann, eins og þorri kristinna lærdómsmanna á miðöldum að heimur rúms og tíma sé raunverulegur og efnishlutir eins og stokkar, steinar, fólk og dýr séu til í alvöru og nokkurn veginn eins og þeir virðast vera þótt tilvera þeirra sé háð sköpun, stuðningi eða íhlutun æðri máttarvalda sem lifa sínu lífi án þess að þurfa stað né stundir. Nokkrum áratugum seinna þegar hughyggja varð ríkjandi í evrópskri heimspeki komu fram þokkalega skiljanlegar hugmyndir um hvernig hugurinn geti verið til án þess að vera á neinum stað. Þessi hughyggja tók á sig ýmsar myndir í ritum stórlaxa í heimspeki átjándu og nítjándu aldar á borð við Berkeley, Kant, Schopenhauer, Schelling, Fichte, Hegel og Bradley. Sú einfaldasta og skiljanlegasta er skynhyggja Georgs Berkeley (1685-1753) sem kenndi að hinn sanni veruleiki sé guð og sálir sem hann matar á skynjunum. Þótt sálirnar upplifi skynjanirnar sem efnisheim í tíma og rúmi er reynsluheimur þeirra í raun og veru ekkert annað en risastór margmiðlunarsymfónía spiluð af guði almáttugum og rúmið sem okkur finnst við lifa í ekki neitt raunverulegra en sýndarveruleikinn í Matrix.
    Hughyggja átjándu og nítjándu aldar hlýtur að vera sífellt undrunarefni þeim sem fást við hugmyndasögu. Hvernig gátu menn fengið sig til að trúa því að efnisheimurinn sé bara eitthvað sem sýnist og veruleikinn sé í raun og sannleika hugarsmíð? En ef til vill er þetta rökréttasta niðurstaðan ef menn byrja á að gefa sér að guð haldi sig utan við tíma og rúm og þar sem hann er sé hinn sanni veruleiki. Kannski ættu þeir sem trúa á guð af því tagi sem Ágústínus og Eysteinn munkur skrifuðu um að vera hughyggjumenn. Sú skoðun að það sem við sjáum og þreifum á sé ekki hinn sanni veruleiki er skemmtilega glannaleg og varla annað hægt en að dást að mönnum sem þora að elta hugsun sína langt út fyrir þann eina heim sem við þekkjum af reynslu. Og hver veit svo sem nema einhver þeirra hafi ratað á rétta leið.