Atli Harðarson
HEIMSPEKIKENNSLA VIÐ FRAMHALDSSKÓLA

1. HLUTI:  Heimspekikennsla skólaárið 1991-1992

Á þessu skólaári munu 22 framhaldsskólar útskrifa stúdenta. Þar af er heimspeki af einhverju tagi kennd við 13. Við einhverja skóla í viðbót hefur heimspeki verið kennd af og til þó svo sé ekki nú og við einhverja skóla fléttast heimspeki inn í hugmyndasögukennslu.

Heimspekin við þessa 13 skóla er mismikil. Við 6 þeirra er aðeins einn hópur í heimspekitímum. Þessir 6 skólar eru Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Kvennaskólinn, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Menntaskólinn á Ísafirði og Menntaskólinn að Laugarvatni. Við þessa skóla er námsefni í heimspeki breytilegt frá ári til árs og við suma þeirra hefur heimspeki aðeins verið kennd við og við undanfarin ár.

Við hina sjö skólana er heimspekikennslan meiri og í fastari skorðum. Við 6 þeirra er einhvers konar heimspeki skylda á að minnsta kosti einni námsbraut. Þessir sex skólar eru: Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Sund og Verkmenntaskólinn á Akrureyri. Sjöundi skólinn er svo Fjölbrautaskólinn í Breiðholti- þar taka flest stúdentsefni einn áfanga í heimspeki.

Menntaskólinn á Akureyri sker sig nokkuð úr. Hann er eini skólinn þar sem hópi nemenda er gert að taka tvo áfanga í heimspeki. En á félagsfræðibrautinni þar taka nemendur bæði áfanga í rökfræði og í heimspekisögu auk þess sem um helmingur þeirra velur þriðja heimspeki-áfangann sem fjallar um siðfræði. Nokkur hluti MA stúdenta ætti því að vera allvel að sér í heimspekilegum fræðum. Menntaskólinn á Akureyri er líka eini skólinn þar sem boðið er upp á 4 mismunandi áfanga í heimspeki: Þá þrjá sem þegar eru taldir og valáfanga fyrir nemendur á fyrsta ári.

*

Námsefnið í heimspeki við þessa 13 skóla er æði sundurleitt. Við tvo þeirra, Fjölbrautaskólann við Ármúla og Verkmenntaskólann á Akureyri er aðeins kennd siðfræði fyrir fólk sem er að búa sig undir störf í heilbrigðiskerfinu. Við tvo þeirra eru áfangar þar sem nær eingöngu eru lesin rit eftir Platón. Þessir tveir skólar eru Menntaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn að Laugarvatni. Við Menntaskólann í Reykjavík er auk þess valáfangi í heimspeki þar sem farið er í önnur efni en fornaldarheimspeki.

Ætli heimspeki við menntaskólana í Reykjavík og á Laugarvatni annars vegar og við Fjölbrautaskólann í Ármúla og Verkmenntaskólann á Akureyri hins vegar eigi mikið sameiginlegt nema nafnið? - Kannski ekki einu sinni það, því í Ármúlanum er þessi áfangi kallaður siðfræði, en ekki heimspeki og þegar ég spurði Ármýlinga hver kenndi heimspeki þar á bæ var mér svarað að það gerði enginn.

En þótt námsefnið sé sundurleitt ber mest á viðfangsefnum úr fornaldarheimspeki og siðfræði.

Við fimm skóla eru rit eftir Platón lesin í valáfanga í heimspeki. (Þessir skólar eru: Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki. Menntaskólinn á Egilsstöðum, Menntaskólinn að Laugarvatni og Menntaskólinn við Sund). Auk þess er lögð áhersla á fornaldarheimspeki í valáfanga við þann sjötta (Menntaskólann á Ísafirði), og við a.m.k. tvo skóla til hafa rit eftir Platón verið notuð undanfarin ár (Fjölbrautaskóla Vesturlands og Fjölbrautaskólann í Garðabæ). Við Menntaskólann í Reykjavík er svo áfangi í heimspeki Platóns á fornmálabraut I. Af þessu má ætla að heimspekikennsla við um helming þeirra 13 skóla sem um ræðir snúist að verulegu leyti um kenningar þeirra Sókratesar og Platóns.

Af samræðum við heimspekikennara þykist ég hafa komist að því að þeir leggja flestir meiri áherslu á að kenna siðfræði heldur en til dæmis frumspeki, fagurfræði eða rökfræði. Frá þessu eru þó undantekningar: Við Menntaskólann á Akureyri er t.d. áfangi í rökfræði; við Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki er farið í Þrætubókarkorn eftir Þorstein Gylfason og Peter Geach; við Kvennaskólann er líka lögð áhersla á rökfræði og eitthvað farið í heimspeki Descartes og við Menntaskólann í Reykjavík lesa nemendur meðal annars Orðræðu um aðferð. En við að minnsta kosti átta skóla eru kenndir áfangar þar sem megináhersla er lögð á siðfræði.

Auk fornaldarheimspeki og siðfræði má telja áherslu á hugmyndasögu og sögulega yfirferð einkenna heimspekikennslu við framhaldsskóla.

*

Nú má spyrja:
1. Hvers vegna kenna menn fremur heimspeki fornaldar en nýaldar?
2. Hvers vegna leggja þeir fremur áherslu á siðfræði en til dæmis frumspeki?
3. Hvers vegna tengja menn heimspeki svo mjög við sögu, fremur en til dæmis sálfræði eða málfræði?

Við fyrstu spurningunni held ég að sé til einfalt svar: Ástæðan fyrir allri þessari áherslu á Platón er sú að það er til töluvert af aðgengilegum ritum eftir hann á Íslensku. Mér þykir vel líklegt að fleiri kenndu efni frá nýöld ef til dæmis Prolegomena eða Grundlegung Kants, Three Dialogues eftir Berkeley, Nytjastefnan eftir Mill eða valdar ritgerðir eftir heimspekinga 20. aldar væru til í aðgengilegum þýðingum. Það er athyglivert að við tvo skóla lesa nemendur Orðræðu Descartes, en sú bók er nýlega komin út á íslensku.

Ef til vill dugar þetta svar þó ekki. Ef til vill er skýringin á því að svo margir láta nemendur sína lesa rit Platóns að nokkru leyti sú að þeir leggja áherslu á að kynna sögu heimspekinnar og uppruna þeirra kenninga sem hafa mótað hugsunarhátt Vesturlandabúa. En tæpast þarf að fara mörgum orðum um það að engir heimspekingar hafa haft meiri áhrif á sögu greinarinnar en brautryðjendurnir Sókrates og Platón.

Við hinum tveim spurningunum eru sjálfsagt til svör. En þau eru tæpast neitt einföld. Þótt ég hafi sjálfur áhuga á siðfræði þá skil ég ekki hvers vegna lögð er svona mikil áhersla á hana í framhaldsskólum. Hingað til hef ég yfirleitt kennt einn áfanga í heimspeki á vorönn við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og lagt áherslu á frumspeki fremur en siðfræði. Nú í vetur breytti ég til og ákvað að kenna eingöngu siðfræði. Þetta hefur svo sem gengið bærilega, enda hef ég næstum eingöngu góða nemendur sem læra samviskusamlega hvaðeina sem fyrir þá er lagt. En vandamál siðfræðinnar hafa ekki komið neinni verulegri adrenalínframleiðslu af stað eins og bollaleggingar um framhaldslíf eða frelsi viljans og rök fyrir tilveru Guðs hafa stundum gert í kennslustundum hjá mér.

Ég held satt að segja að siðfræði höfði miklu fremur til fullorðinna heldur en unglinga. Kannski held ég þetta bara vegna þess að á unglingsárunum hafði ég sjálfur engan áhuga á siðfræði.

Hvað sem siðfræðiáhuga líður er víst að einfaldar heimspekilegar spurningar kveikja í unglingum, og kannski fólki á öllum aldri.

* Var það Guði að kenna að Adam át eplið?
* Ef þú skiptir um skaft og haus á hamrinum þínum áttu þá áfram sama hamarinn? En ef skipt er um hverja sameind í líkama þínum, eina og eina í senn, ertu þá ennþá sami maðurinn?
* Hvað er slæmt við að vera dauður?
þegar svona spurningar eru lagðar fyrir unglinga, og þeim leyft að átta sig almennilega á þeim áður en kennarinn fyllir töfluna af svörum, þá er gaman. Ævinlega eru einhverjir í hópnum sem upplýsa að þeir hafi pælt í þessu þegar þeir voru yngri. Sjálfum hefur mér tekist best upp í heimspekikennslu þegar ég hef lagt áherslu á svona einfaldar spurningar sem mörg börn spyrja en fullorðnir eiga í mesta basli með að svara.

Þetta var útúrdúr og ég hef víst alls ekki svarað spurningunni um hvers vegna menn leggja alla þessa áherslu á siðfræði. Kannski er ástæðan sú að þeir halda að siðfræði sé svo óskaplega hagnýt. Kannski er ástæðan sú að menn þora ekki í frumspeki því þar er erfiðara fyrir kennarann að sýnast mikið gáfaðri en nemendurnir. Ég vona þó að menn hafi einhverjar betri ástæður en þessar.

Sjálfur ákvað ég að kenna siðfræði á þessari önn til þess að prófa hvernig það væri. Niðurstaða tilraunarinnar er sú að það er gaman þegar nemendur fá sjálfir að fást við einfaldar spurningar. Þessum spurningum hafa sumir þeirra velt fyrir sér áður, en ekki reynt að ræða við aðra síðan einhvern tíma fyrir 10 ára aldur. Ein slík spurning er til dæmis:

* Ef allir hlutir eiga sér orsök ráða menn þá nokkru um hvernig þeir eru og hvað þeir aðhafast?

Ég held ég reyni ekki frekar að svara því hvers vegna heimspekikennarar í framhaldsskólum leggja svona mikla áherslu á siðfræði en snúi mér heldur að þriðju spurningunni: Hvers vegna flétta menn hugmyndasögu svona mikið inn í heimspekikennsluna?

Fyrir þessu eru trúlega nokkrar ástæður. Ein held ég þó að vegi þyngst. Hún er að meginmarkmiðið sem heimspekikennarar setja sér er að upplýsa nemendur um samhengið í hugmyndasögunni og hvernig lífsviðhorf og gildismat okkar hefur mótast. Af samræðum við heimspekikennara er mér þó ljóst að fæstir þeirra orða markmið kennslunnar svona. Samt virðast þeir margir ganga að því sem vísu að heimspekin sé til þess að varpa ljósi á þróunarsögu hugmyndanna: hún sé því eins konar þjónn sagnfræðinnar. Vera má að hjá sumum búi að baki einhver hegelskur skilningur á sambandi heimspeki og sögu. Um það þori ég ekki að fullyrða.

Önnur ástæða fyrir því hvernig heimspekikennslu er fléttað saman við söguna kann að vera sú að þótt kennarinn viti ekki svör við áhugaverðustu gátum heimspekinnar þá veit hann gjarna ýmislegt um sögu þeirra og hvað frægir menn á fyrri tíð hafa haldið vera rétt svör. Það samrýmist betur hefðbundnu skólastarfi að kennarinn viti svörin.
 
 

2. HLUTI:  Markmið

Þegar ég var að viða að mér efni í þetta erindi hringdi ég í eina 12 heimspekikennara. Ég spjallaði góða stund við suma þeirra. Af þessum samræðum fékk ég það á tilfinninguna að þeir væru flestir í nokkrum vafa um hvaða markmiðum kennslan ætti að þjóna. Þetta er kannski von því það er erfitt að setja heimspekikennslu markmið, og svara því hvað sá sem hefur lært heimspeki á að kunna, geta eða vita, nema hafa fyrst einhverja hugmynd um hvað heimspeki er. Og þótt við séum að fást við heimspeki eigum við trúlega flest í mesta basli með að útskýra hvað heimspeki er og hvað heimspekingar skulu kunna, geta eða vita. Hins vegar höfum við þokkalega skýra hugmynd um hvað heimspekisaga er og vitum nokkurn veginn hvernig hægt er að prófa hve vel nemendur hafa tileinkað sér þau fræði. Þetta er ef til vill ein ástæða þess að menn hneigjast til að kenna fremur heimspekisögu en eiginlega heimspeki.

En hvaða markmið ætti að setja heimspekikennslu?

Til að svara þessu verð ég víst að reyna að segja eitthvað gáfulegt um hvað heimspeki er. Þetta er erfitt að gera í stuttu máli því hún er ekki eitt heldur margt.

Einum þræði er heimspeki sú list að komast að kjarna hvers máls, greina um hvaða grundavallaratriði er tekist á þegar menn deila eða eru ósammála. Í samræmi við þetta má setja heimspekikennslu það markmið að þjálfa nemendur í þessari list. Þetta má ef til vill gera með því að láta þá lesa ritdeilur, eða kafla eftir tvo höfunda sem hafa ólíkar skoðanir á sama efni, og spreyta sig á að orða ágreininginn í sem allra stystu máli.

Heimspekin er líka sú list að leita uppi mótsagnir og þverbresti í sínum eigin hugmyndum og leiðrétta þær. Í samræmi við þetta má keppa að því að benda nemendum á, eða hjálpa þeim að finna, mótsagnir í eigin hugarheimi og láta þá takast á við þær.

Heimspeki er ennfremur sú list að rökstyðja mál sitt og þekkja gild rök frá ógildum. Eitt markmið sem má setja heimspekikennslu er því að auka rökfimi nemenda. Þetta hlýtur raunar að gerast um leið og þeir glíma við mótsagnir eða greiða sundur flóknar deilur.

Heimspeki er enn fleira en þetta. Hún er meðal annars viðleitni til að skilja hinstu rök tilverunnar og sjá muninn á skynsamlegum skoðunum um slík efni annars vegar og hjátrú eða fordómum hins vegar. Markmið heimspekikennslu getur því verið að fá nemendur til að velta eilífðarmálunum fyrir sér og ræða þau í sinn hóp.

Þetta síðasta markmið er kannski meira spennandi en hin. Helsti 'gallinn' við það er sá að það er erfitt að gefa einkunn í áfanga þar sem markmiðið er að menn velti þessu eða hinum fyrir sér en ekki að þeir kunni fyrirframákveðin svör. En einkunnagjöfin á nú ekki að vera aðalatriði í skólastarfi og ef við viljum kenna eitthvað og trúum því að það sé þroskandi og uppbyggilegt fyrir nemendur þá skulum við ekki hætta við vegna þess eins að erfitt sé að mæla árangurinn.

Þessi upptalning mín er langt frá því að vera tæmandi. Heimspeki er ennþá fleira. Hún er ekki aðeins fræði heldur líka dyggð, sú dyggð að þora að efast - jafnvel um grundvallar'sannindi'. Kannski ættum við að leggja allt kapp á að innræta nemendum okkar þessa dyggð og setja kennslunni það markmið að eftir önnina efist þeir um sem flest af því sem hinir kennararnir hafa troðið í kollinn á þeim.

Ef skólarnir eiga að berjast gegn heimsku mannanna er ef til vill miklu meiri þörf á að kenna þeim að efast heldur en að innræta þeim meiri fróðleik og speki. Flestir framhaldsskólanemendur, að minnsta kosti þeir sem ég hef kynnst í heimspekitímum, eru uppfullir af fróðleik. Sú heimska sem helst plagar þá er hvorki fáviska né heimóttaskapur heldur skapgerðarheimska, sem birtist ýmist í líki yfirborðsmennsku, hroka eða sinnuleysis, og ekkert bítur á nema ef vera skyldu efasemdir.

En það er með efann eins og umræðuna: það er erfitt að semja próf sem mælir árangur nemenda.

*

Heimspekikennsla í framhaldsskólum hefur aukist ár frá ári. Víðast er þessi kennsla þó enn í fremur lausum skorðum og kennarar flestir í vafa um hvernig best sé að haga henni. Eigi heimspekikennsla að öðlast fastan sess í framhaldsskólum þá verður að setja henni skýr markmið. Þegar það hefur verið gert og ekki fyrr er hægt að velta því fyrir sér hvort hún eigi frekar að vera fyrir nemendur á félagsfræðibraut eða nemendur á málabraut; hvort kenna eigi bækur Platóns eða eitthvað annað; hvort prófa skuli nemendur í hugmyndasögu og ritskýringu eða hvort það eigi ef til vill að sleppa öllum prófum.

Hér hef ég velt fyrir mér nokkrum markmiðum sem til greina koma. Ég sé ekkert að því að flétta saman tvö þeirra eða fleiri. Ég sé heldur ekkert því til fyrirstöðu að kennari við þennan skóla setji sér eitt markmið og kennari við hinn skólann annað. En ég hygg að kennsla geti aldrei orðið markviss nema kennarinn viti sjálfur hvert markmiðið er.
 
 

3. HLUTI:  Möguleikar

Í núgildandi Námskrá handa framhaldsskólum, sem kom út árið 1990, segir ekkert um heimspekikennslu. Þetta hindrar þó ekki að skólar bjóði upp á heimspeki. Áður en ég geri grein fyrir því hvernig hún rúmast innan kerfisins er ef til vill rétt að útskýra Námskrána dálítið.

Námsgreinum er skipt í 9 flokka sem eru: Móðurmál, erlend mál, samfélagsgreinar, raungreinar, stærðfræði, tölvufræði og vélritun, verk- og listgreinar, sérgreinar brauta (t.d. í iðnnámi) og íþróttir.

Þeir sem bjuggu þessa námskrá til hafa trúlega lesið Aristóteles og áttað sig á því að maðurinn er félagsvera, því þeir flokka öll fræði sem fjalla á einn eða annan hátt um mannlífið með samfélagsgreinum. Þar er heimspeki sett ásamt félagsfræði, landafræði, námstækni, sögu, sálfræði, trúarbragðafræði og fleiri greinum.

Námskráin kveður á um hve mörgum einingum í hverjum flokki þarf að ljúka til að útskrifast af hinum og þessum brautum og tiltekur oftast að þar af skuli svo og svo margar vera í þessari eða hinni greininni. Sem dæmi má taka að á málabraut skulu nemendur ljúka 12 einingum í samfélagsgreinum, þar af að minnsta kosti 2 í félagsfræði og 5 í sögu. Það er svo á valdi hvers skóla að ráðstafa þeim fimm einingum sem eftir eru. Við suma skóla er nemendum á málabraut til dæmis gert að nema sögu til 7 eininga en leyft að velja sér sjálfir þær þrjár einingar sem á vantar. Slíkt val kallast bundið því skylt er að velja einhverja samfélagsgrein.

Fyrir þá sem eru óvanir þessu tali um einingar má geta þess að stúdentspróf er 140 einingar og 1 eining er tvær kennslustundir á viku í eina önn, eða hálft skólaár. Flestir áfangar eru þriggja eininga og kenndir sex kennslustundir á viku eina önn. Nokkuð er líka um tveggja eininga áfanga.

Á flestum stúdentsprófsbrautum er 5 einingum í samfélagsgreinum óráðstafað. Á félagsfræðibraut eru þær þó 13. Þarna geta skólar fyllt upp í með heimspeki. Þeir geta líka látið nemendum eftir að velja sjálfir milli heimspeki og annarra greina. Svo geta þeir auðvitað fyllt þetta svigrúm með sálfræði, sögu, landafræði eða öðru.

Auk þess sem Námskráin skilur eftir þetta svigrúm til að nemendur og/eða skólar geti valið sér samfélagsgreinar er dálítið óbundið val á flestum brautum sem nýta má undir heimspeki eða hvað annað sem er. Á flestum stúdentsprófsbrautum eru þetta milli 9 og 18 einingar. Skólarnir fylla þetta svigrúm yfirleitt að hluta, og þá með öðrum greinum en heimspeki, en láta nemendum gjarna eftir svo sem eins og 6 einingar af alfrjálsu vali. Algengt mun að nemendur vinni þetta val af sér með góðri skólasókn eða þátttöku í félagsstörfum.

Af þessu má ljóst vera að Námskráin skilur ekki eftir mikið rúm fyrir heimspeki, en samt nóg til þess að allir nemendur sem það vilja geta valið heimspeki, ef hún er í boði, án þess að leggja á sig nám umfram 140 einingar til stúdentsprófs. Allir skólar geta líka sett heimspeki inn á stúdentsprófsbrautir án þess að brjóta gegn ákvæðum námsskrár.

Þetta segir þó ekki alla sögu. Nokkuð margar greinar bítast um einingarnar sem eru óbundnar í Námskrá og því má telja hæpið að heimspekikennsla aukist mikið úr því sem nú er nema annað hvort komi til að önnur fög detti niður dauð eða Námskrá verði breytt.

Hingað til hefur námsgreinum fjölgað með hverju ári og sér ekki fyrir endann á því. Samkeppnin um pláss fer því trúlega vaxandi heldur en hitt.

Á móti kemur að á næstu tveim árum eða svo verður Námskránni trúlega breytt verulega og það er óvíst hvort hagur heimspekinnar batnar eða versnar við það. Þar sem vinnan við þessar breytingar er í höndum Menntamálaráðuneytisins er með öllu ófyrirsjáanlegt á hvern veg þær verða, því eins og allir vita eru vegir hins opinbera órannsakanlegir. Yfir þeim ríkir sú myrka höfuðskepna sem tilviljun heitir.

Atli Harðarson - 1992