Atli Harðarson
Samkeppni framhaldsskóla

1. Samkeppnisumhverfi

Að jafnaði er það til marks um samkeppni ef fyrirtæki í einhverri grein kosta miklu til auglýsinga. Þau eru þá að togast á um viðskiptavini. Undanfarin ár hefur borið töluvert á auglýsingum frá framhaldsskólum og háskólum. Sumir þeirra birta t.d. stórar og vandaðar auglýsingar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu þar sem nemendur eru hvattir til að sækja um þennan skóla fremur en einhvern annan. Aðrir fræðsluaðilar, t.d. ökukennarar, nota líka auglýsingar til að laða til sín nemendur. Af þessu má ætla að nokkur samkeppni sé milli fyrirtækja sem bjóða upp á kennslu.

Í því sem hér fer á eftir ætla ég að fjalla um samkeppni milli framhaldsskóla og umhverfi hennar. Áður en ég kem mér að efninu langar mig að segja nokkur orð um samkeppni ökukennara. Gera má ráð fyrir að viðskiptavinir, sem eru einkum 16 ára unglingar og foreldrar þeirra, vilji fá sem besta kennslu fyrir sem lægst verð og sækist einkum eftir að öðlast næga leikni og kunnáttu til að standast bílpróf. Ef ökukennari hefur orð á sér fyrir að kenna vel og við hóflegu gjaldi þá fær hann að líkindum fleiri viðskiptavini. Samkeppnin hvetur þá sem bjóða ökukennslu því til að vinna vel. Slík samkeppni er öllum til góðs.

Hugsum okkur nú að ökukennarar hefðu ekki aðeins það hlutverk að kenna nemendum akstur og umferðarreglur og annað sem þarf að kunna til að ná bílprófi. Hugsum okkur að hver þeirra byggi til sitt eigið bílpróf, sæi að öllu leyti um að prófa nemendur sína og réði því hvaða kröfur þeir þyrftu að uppfylla til að fá ökuskírteini. Við þessi skilyrði væri samkeppnisumhverfi hjá ökukennurum allt annað en það er í raun. Nemendur mundu ekki aðeins sækjast eftir að fá sem besta kennslu. Þeir mundu líka sækjast eftir léttari prófum, svo ef það spyrðist út að einn kennari væri öðrum þægilegri, að því leyti að hann leyfði nemendum að ná prófi þótt þeir gerðu smávægileg mistök, þá fengi hann fleiri viðskiptavini. Undir þessum kringumstæðum er hæpið að samkeppni ökukennara yrði öllum til góðs. Hún gæti raunar leitt til þess að menn færu út í umferðina með minni kunnáttu í akstri en nú er hægt að komast upp með.

Til að girða fyrir misskilning er rétt að taka fram að mér dettur ekki í hug að viðskiptavinir ökukennara sækist almennt eftir því að fá ökuskírteini án þess að kunna á bíl og mér dettur heldur ekki í hug að ökukennarar færu upp til hópa að útskrifa óhæfa ökumenn þótt þeir sæju sjálfir um að meta kunnáttu nemenda sinna. Ég held hins vegar að ef nemendur sem telja sig hafa lært á bíl fengju að velja milli tveggja ólíkra prófa til að sanna kunnáttu sína, þá mundu flestir velja það prófið sem þeir álitu auðveldara– ekki endilega til að sleppa við að læra heldur kannski alveg eins til að draga úr líkum á viðbótarkostnaði og koma í veg fyrir að smávægileg mistök, prófstress eða annað ámóta tefði fyrir því að þeir fengju ökuskírteini. Ég held líka að ef ökukennararnir önnuðust námsmat yrði það ekki eins hjá þeim öllum. Jafnvel þótt hver og einn ynni eftir bestu samvisku yrðu prófin misþung og sumir fengju orð á sig fyrir að vera óþarflega strangir og aðrir fyrir að vera með vægasta móti. Ef viðskiptavinir forðast þá ströngu og leita til þeirra vægu skrúfast kröfurnar smám saman niður án þess neinn ætli beinlínis að minnka þær.

Þetta sem ég hef sagt um ökukennslu má draga saman í stutt mál þannig að samræmt bílpróf, sem er jafnþungt fyrir alla nemendur, skapi umhverfi þar sem samkeppni ökukennara er í meginatriðum til góðs. Önnuðust þeir hins vegar sjálfir mat á eigin nemendum væri hætt við að samkeppnin hefði að sumu leyti slæmar afleiðingar. Hvort samkeppni hefur góðar eða slæmar afleiðingar fer sem sagt að nokkru leyti eftir leikreglum, umhverfi og kringumstæðum.

2. Fyrir hvað fá framhaldsskólar borgað

Eins og nefnt hefur verið er nú þegar töluverð samkeppni milli framhaldsskóla. Hún er þó takmörkuð vegna þess hvernig ríkið, sem á flesta framhaldsskólana og greiðir nær allan kostnað við rekstur þeirra, semur við skólana um nemendafjölda og fjárframlög. Í skólasamningi, sem menntamálaráðuneytið gerir við hvern skóla fyrir sig, er kveðið á um hvað skólinn getur fengið greitt fyrir marga ársnemendur hið mesta. En ársnemandi er nemandi sem stundar nám í 35 einingum á ári eða sækir 35 kennslustundir í viku í eitt skólaár. Þegar ársnemendur eru taldir er ekki fundin höfðatala í skólanum heldur talinn saman fjöldi eininga sem nemendahópurinn gengst undir próf í og deilt í þá tölu með 35. Nemandi, sem gengst undir fullnægjandi námsmat í 42 einingum, reiknast t.d. sem 1,2 ársnemendur og nemandi sem aðeins stundar 28 eininga nám reiknast sem 0,8 ársnemendur.

Greiðslur ríkisins til framhaldsskóla velta aðeins á því hvað nemendur gangast undir fullnægjandi námsmat í mörgum einingum, ekki á því hvort þeir ná prófunum og ekki á því hvort þeir kunna námsefnið vel eða illa. Í stuttu máli má orða þetta svo að greitt sé fyrir magn en ekki gæði.

Framhaldsskóli hefur engan fjárhagslegan ávinning af að taka við fleirum en hann getur fengið greitt fyrir samkvæmt skólasamningi. Hver skóli reynir því að fá inn nemendafjölda sem er við efri mörk þess sem ríkið er tilbúið að borga honum fyrir. Best er fyrir skóla að hefja skólaárið með nemendum sem eru litlar líkur á að gefist upp og fari á miðri önn, því ríkið borgar aðeins með nemendum sem gangast undir fullnægjandi námsmat við lok annar. Þetta þýðir að ef skólasamningur segir að skóli fái greitt fyrir allt að 500 ársnemendur þá er óskastaða þess skóla að nemendur séu 500 í upphafi annar og enginn þeirra hætti. Þetta er svona eins konar kvótakerfi, ekki alveg ósvipað „fullvirðisréttinum“ sem margir kannast við úr landbúnaði.

Ef fyrirsjáanlegt er að verulegur hluti nemenda hætti á miðri önn og mæti ekki í próf getur borgað sig fyrir skóla sem hefur 500 ársnemenda „kvóta“ að byrja með meira en 500 nemendur til að tryggja að þeir sem klára próf verði a.m.k. jafnmargir og hægt er að fá greitt fyrir.

Undanfarin ár hefur nemendum í framhaldsskólum fjölgað töluvert og það hefur staðið í járnum að skólarnir gætu tekið við þeim öllum. Á suðvesturhorninu hafa flestir skólar fengið álíka marga nemendur og þeir hafa húsrúm fyrir. Við þessar aðstæður hafa skólar sem standa á einhvern hátt höllum fæti í samkeppni um nemendur ekki þurft að óttast verulega fækkun. Þeir hafa í versta falli þurft að taka við helst til mörgum sem eru líkur á að tolli illa. Þetta kann að breytast á næstu árum þegar nemendum fækkar.

Myndin hér að neðan (sem er byggð á gögnum frá Hagstofu Íslands) sýnir að árgangurinn, sem er fæddur 1990 og hefur nám í framhaldsskóla haustið 2006, er talsvert stærri en árgangarnir sem á eftir koma. Þegar kemur fram yfir 1993 fækkar talsvert í árgangi svo ætla má að á næsta áratug fækki nemendum í framhaldsskólum. Við áhrifin af fækkun í árgangi bætist að bóknám til stúdentsprófs verður væntanlega stytt úr 4 árum í 3 ár og sú breyting veldur fækkun framhaldsskólanema. [1]

Haldist „nemendakvóti“ skólanna óbreyttur næstu árin munu sumir þeirra fá færri nemendur en hagkvæmast er fyrir þá vegna fámennari árganga og styttingar námstíma. Líklegt er að við þetta harðni samkeppnin milli skólanna og fari að hafa meiri áhrif á starf þeirra. Það er því full ástæða til að huga að samkeppnisumhverfinu. Stuðlar það að því að samkeppnin verði öllum til góðs eða stuðlar það að samkeppni sem hefur óheppilegar afleiðingar?

3. Áhyggjuefni

Framhaldsskólanemar eru sundurleit hjörð og námið sem þeir stunda er af margvíslegu tagi. Samkeppnisumhverfið er líka misjafnt eftir námsbrautum. Kennsla í sumum starfsgreinum (t.d. bifvélavirkjun) er aðeins í boði við einn skóla. Nemendur í iðnnámi þurfa að gangast undir samræmd lokapróf (þ.e. sveinspróf) og einstakir skólar ráða hvorki hvernig þau eru né hvernig úrlausnir nemenda eru metnar. Í öðru starfsnámi en löggiltum iðngreinum (t.d. í sjúkraliðanámi) er námsmat algerlega á ábyrgð einstakra skóla og sama má segja um bóknám til stúdentsprófs nú eftir að horfið hefur verið frá því að hafa samræmd stúdentspróf í ensku, íslensku og stærðfræði.

Vegna þess hvað fjölbreytnin er mikil er erfitt að alhæfa um samkeppnisumhverfi framhaldsskólanna. Þó má segja að reglurnar sem ráða því hvað skólar fá mikla peninga frá ríkinu hvetji þá til að hámarka afköst í einingum talið. Ef nemendur í skóla eru með færra móti borgar sig því fyrir skólann að láta hvern þeirra klára fleiri einingar svo reiknaður ársnemendafjöldi verði sem mestur. Þetta þrýstir á skóla að keyra nemendur í gegnum sem flestar einingar og gerir hagkvæmt fyrir þá að minnka fremur en auka þá vinnu sem nemendur þurfa að leggja á sig til að klára hverja einingu. Sé full vinna að ljúka 35 einingum á ári munu fáir teljast vera meira en einn ársnemandi, en sé vandalaust að klára meira en 40 einingar á ári þrátt fyrir vinnu með skóla, þá munu margir teljast sem 1,2 eða jafnvel 1,3 ársnemendur og þannig hækka framlagið sem ríkið greiðir til skólans. Þetta eitt og sér ætti að vera áhyggjuefni og gefa tilefni til að efast um að samkeppnisumhverfi skólanna sé að öllu leyti heppilegt. Og því miður er þetta ekki eina áhyggjuefnið. Þau eru fleiri.

*

Í Aðalnámskrá framhaldsskóla, almennum hluta (Menntamálaráðuneytið 2004) segir í kafla 7.6:

Þegar nemandi flyst á milli skóla sem starfa skv. aðalnámskrá framhaldsskóla og skráir sig þar á tiltekna námsbraut fær hann viðurkennda þá áfanga sem hann hefur lokið með fullnægjandi árangri svo framarlega sem þeir eru skilgreindur hluti af þeirri braut sem hann innritast á.

Yfirleitt mun þetta túlkað svo að hafi nemandi sem stefnir á að útskrifast frá skóla A t.d. lokið öllum skylduáföngum í stærðfræði við skóla B þá eigi skóli A ekkert að vera að prófa hann í stærðfræði. Nemandinn sé búinn með stærðfræðina og eigi að fá nám sitt í henni metið að fullu.

Undanfarin ár hefur sú breyting orðið á íslenskum framhaldsskólum að æ fleiri þeirra bjóða upp á fjarnám. Einnig hafa ýmsar stofnanir sem ekki starfa eftir lögum um framhaldsskóla tekið að bjóða upp á einstaka áfanga á framhaldsskólastigi. Þetta hefur orðið til þess að nemendur geta í vaxandi mæli stundað nám við tvær eða fleiri stofnanir samtímis. Samkeppni skólanna er því ekki aðeins um að fá nemendur inn í fullt nám heldur líka um að fá nemendur sem eru skráðir í aðra skóla inn í einstök fög eða áfanga. Þetta hefur ýmsar góðar afleiðingar og fjölgar kostunum sem nemendur hafa úr að velja. Sem dæmi má taka að við skólann þar sem ég starfa (Fjölbrautaskóla Vesturlands) er áfanginn þýska 503 mjög sjaldan kenndur. Nemandi sem hefur lokið þýsku 403 og langar að læra meira í faginu getur skráð sig í fjarnám í þýsku 503, t.d. við Verkmenntaskólann á Akureyri, og fengið þann áfanga metinn sem hluta af kjörsviði til stúdentsprófs við Fjölbrautaskóla Vesturlands. En hér fylgir böggull skammrifi.

Í starfi mínu sem aðstoðarskólameistari við Fjölbrautaskóla Vesturlands ræði ég við fjölda nemenda, meðal annars um námsval og skipulagningu náms. Á undanförnum árum hafa allmargir sagt mér að þeir hafi valið að taka einstaka áfanga við aðra skóla því þeir séu léttari þar. Hér hefur bæði verið um að ræða sumarskóla og skóla sem bjóða upp á fjarnám á veturna. Ég hef engin gögn sem benda til að fjarnám eða nám í sumarskóla sé að jafnaði neitt léttara en hefðbundið nám og ég býst svo sem ekki við að skólar sem bjóða upp á þessa þjónustu séu almennt og yfirleitt með auðveldari próf en aðrir skólar. En þar sem námsmat á framhaldsskólastigi er á ábyrgð einstakra kennara og skóla (ef frá eru talin sveinspróf sem nemendur í löggiltum iðngreinum þreyta) er nær óhjákvæmilegt að kröfur í einstökum áföngum séu misjafnar frá einum skóla til annars. Meðal nemenda spyrjast því út fréttir á borð við að þýska 303 sé með léttara móti á þessum stað og stærðfræði 403 auðveld á einhverjum öðrum stað og við einn skóla sé hægt að ljúka ensku 503 án þess að taka neitt lokapróf, það dugi að skila verkefnum í tölvupósti og jafnvel sé hægt að fá aðra til að vinna þau fyrir sig. Við þessi skilyrði er auðvelt að þræða dalina.

*

Hér hef ég nefnt tvenns konar áhyggjuefni. Annað er að skólar geta aukið tekjur sínar með því að minnka vinnuna sem nemendur þurfa að vinna til að ljúka hverri einingu og fjölga þannig einingunum sem hver og einn klárar á önn. Hitt er að ef kennari í einhverri grein krefst mikillar vinnu af nemendum geta þeir í vaxandi mæli leitað annað, t.d. með því að taka einstaka áfanga í fjarnámi eða sumarskóla. Erfitt er að meta í hve miklum mæli þetta gerist. Ég get því ekki fullyrt meira en að vissir þættir í samkeppnisumhverfi skólanna ýti undir gengisfall á náminu, þ.e. setji þrýsting á skóla að draga úr námskröfum þannig að nemendur geti lokið fleiri einingum með minni vinnu.

Skólakerfi þar sem einstakir skólar ráða námsmati og námskröfum og nemendur geta ekki aðeins valið hvort þeir stunda allt sitt nám í þessum skólanum eða hinum, heldur tekið einstök fög í þeim skóla þar sem þau eru léttari, býður upp á að þeir sem sækjast (meðvitað eða ómeðvitað) eftir léttari einingum fái það sem þeir vilja. Sé eftirspurn eftir einingum sem ekki þarf að hafa fyrir– og sé skólunum greitt jafn mikið fyrir þær og einingarnar sem nemendur þurfa að vinna sér inn með lestri og lærdómi, puði og prófum– þá er afar líklegt að einhver svari þeirri eftirspurn.

4. Eftir hverju sækjast nemendur?

Skólar sem keppa um nemendur gera það væntanlega með því að bjóða upp á eitthvað sem nemendur sækjast eftir. Meðal þess sem margir nemendur vilja fá í framhaldsskólum er:

  1. Góð kennsla, kunnátta, hæfni, menntun, þroski.
  2. Virðing, próf frá skóla sem er litið upp til.
  3. Gott félagslíf.
  4. Prófgráða eða réttindi.
  5. Sem flestar einingar með sem minnstri fyrirhöfn.

Auðvitað dettur mér ekki í hug að allir nemendur sækist eftir öllu þessu. Ég held því aðeins fram að fyrir hvert atriði á listanum megi finna fjölmarga nemendur sem sækjast eftir því.

Æskilegt er að samkeppnisumhverfi skólanna ýti undir að þeir veiti nemendum þau gæði sem hér eru talin upp undir lið 1. Ekki er verra að það stuðli líka að því að uppfylla þarfir nemenda sem taldar eru upp undir liðum 2 og 3. Samkeppni um að koma til móts við óskirnar í lið 4, þ.e. eftirsókn eftir gráðum og réttindum, er hins vegar beggja handa járn og þegar hún helst í hendur við það sem talið er í lið 5 er hún tæpast í þágu betri menntunar og meiri þroska.

Erfitt er að fullyrða mikið um vægi þeirra fimm tegunda af „gæðum“ sem hér voru talin og nemendur sækjast eftir í skólum. Fyrir suma nemendur skiptir gott félagslíf kannski meira máli en allir hinir þættirnir til samans. Ætla má að þeir sem eru á leiðinni í sveinspróf eða framhaldsnám, þar sem vitað er að menn verða að kunna námsgreinar framhaldsskólans til að ná prófum, vilji umfram allt fá góða kennslu og öðlast sem mesta kunnáttu og hæfni. En hvað með þá sem þurfa skírteini úr framhaldsskóla til að fá launahækkun eða fastráðningu í starf eða þá sem vilja eiga mynd af sér með stúdentshúfu en hafa engin mótuð áform um frekara nám? Mun ekki einhver hluti þeirra sækjast eftir sem flestum einingum með sem minnstri fyrirhöfn. Hlýtur samkeppni um að gera þeim til hæfis ekki að draga úr viðleitni skólanna til að láta nemendur leggja sig fram með þroskavænlegum hætti?

5. Hvað er til ráða – lokaorð

Núverandi samkeppnisumhverfi framhaldsskólanna felur í sér hættur sem mér finnst full ástæða til að hafa áhyggjur af. Séu þessar áhyggur mínar réttmætar er hætt við að harðnandi samkeppni milli skóla á næstu árum vinni gegn viðleitni þeirra til að láta nemendur hafa nógu mikið fyrir náminu til að það skili ásættanlegum árangri.

Vera má að þegar séu fyrir hendi aðstæður sem stuðla að samkeppni um að veita sem besta menntun og vinna gegn gengisfalli af því tagi sem hér hefur verið lýst. Þetta þarf að kanna og skoða betur en gert hefur verið. Einnig þarf að ræða og prófa fleiri kosti á að bæta samkeppnisumhverfi framhaldsskólanna.

Ef til vill geta samræmd próf gert eitthvert gagn í þessa veru. Þau eru notuð í iðnnámi hér á landi og í bóknámi við framhaldsskóla í flestum nágrannalanda okkar og hafa vissulega sína kosti en líka alvarlega ókosti. Vera má að fleiri inntökupróf í háskóladeildir, eins og tekin hafa verið upp við læknadeild Háskóla Íslands, ýti undir samkeppni um að bjóða betri menntun fremur en hámarksfjölda eininga með lágmarksfyrirhöfn. Kannski ættu háskólar að taka saman og birta gögn um námsgengi nemenda úr einstökum framhaldsskólum til að ýta undir samkeppni um að búa nemendur sem best undir háskólanám. Hugsanlega ætti að draga úr kröfum Aðalnámskrár um að framhaldsskólar meti nám hver frá öðrum, og ef til vill ættu nemendur að taka lokapróf í hverri grein við skólann sem þeir útskrifast frá, hvort sem þeir hafa notið kennslu þar eða annars staðar. Einnig kemur til greina fá óháða matsaðila til að skoða próf og námskröfur við einstaka framhaldsskóla. Enn fremur má hugsa sér að menntamálaráðuneytið skipi prófdómara í lokaáföngum, en fyrir slíku er nokkur hefð hér á landi sem ég held að hafi gefist þokkalega. Mögulegar leiðir eru býsna margar. Líklega leysir engin ein þeirra allan vanda. En vandinn er til og mál til komið að takast á við hann.


[1] Erfitt er að meta hvað nemendum fækkar mikið við þessa kerfisbreytingu. En sé gert ráð fyrir að 60% framhaldsskólanema verði á bóknámsbrautum og meðalnámstími þeirra styttist úr 8 önnum í 6 annir gæti þessi fækkun numið 15% af heildarnemendafjölda. Þessa útreikninga þarf að skoða með þeim fyrirvara að í reynd er meðalnámstími til stúdentsprófs lengri en þau 4 ár eða 8 annir sem við er miðað og sjálfsagt verður meðalnámstíminn meira en 6 annir eftir að viðmiðunartíminn hefur verið styttur úr 4 árum í 3 ár. Hvort munurinn á meðalnámstíma og viðmiðunartíma eykst eða minnkar við kerfisbreytinguna er engin leið að spá um. Ekki er heldur nein leið að spá um hvort stytting náms til stúdentsprófs leiði til þess að fleiri klári bóknámsbrautir framhaldsskóla og einhverjir sem nú gefast upp eftir tvö og hálft ár haldi áfram til loka. Spá um 15% fækkun er því aðeins ónákvæm ágiskun.