Atli Harðarson

Hvað er nýfrjálshyggja?

Ritdómur um bókina Eilífðarvélin – Uppgjör við nýfrjálshyggjuna. Ritstjóri Kolbeinn Stefánsson. Háskólaútgáfan, Reykjavík 2010, 268 bls.

Þegar ég rakst á Eilífðarvélina á Bókasafni Akraness vakti undirtitillinn Uppgjör við nýfrjálshyggjuna athygli mína. Það hafði ekki farið fram hjá mér að í goðafræði þeirra sem hæst predika pólitískan rétttrúnað um þessar mundir gegnir nýfrjálshyggja nokkurn vegin sama hlutverki og Loki Laufeyjarson í fornum átrúnaði. Hins vegar var mér hvorki ljóst hvað nýfrjálshyggja er né hvernig hún tengist eldri gerðum frjálshyggju.

Nýfrjálshyggju er alloft lýst sem ríkjandi hugmyndafræði. Samt eru engir stjórnmálaflokkar eða fjöldahreyfingar sem kenna sig við hana. Sé hún einhvers konar fjöldahreyfing er hún mjög óvenjuleg að því leyti að það kannast varla nokkur maður við að tilheyra henni. Þeir sem kalla sjálfa sig frjálshyggjumenn eru fremur fámennur hópur og ég held að þeir telji sig almennt ekki aðhyllast neina frjálshyggju heldur bara gamaldags frjálshyggju.

Ég greip bókina með mér í þeirri von að lestur hennar hjálpaði mér að skilja hvað átt er við með öllu þessu tali um nýfrjálshyggju.

 

Höfundar menntaðir í félagsfræði og heimspeki

Í bókinni eru níu kaflar eftir átta höfunda. Sá sem á tvær greinar er ritstjórinn Kolbeinn Stefánsson félagsfræðingur og sérfræðingur við Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands. Hann ritar bæði fyrsta kaflann og lokakaflann sem er eins konar samantekt eða stutt yfirlit yfir niðurstöður allra hinna. Aðrir höfundar eru Sveinbjörn Þórðarson heimspekingur og vísindasagnfræðingur, Pär Gustafsson félagsfræðingur við Linneausháskóla í Svíþjóð, Salvör Nordal heimspekingur og forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, Mia Vabø félagsfræðingur við Norsk institutt for forskning om oppvekst, velferd og aldring, Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands og Giorgio Baruchello heimspekingur og prófessor við Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.

Kolbeinn segir í fyrsta kafla bókarinnar að höfundar hafi fengið tvenn fyrirmæli:

Þau fyrri voru að fræðilegs hlutleysis væri gætt í hvívetna, það er að umfjöllun þeirra lýsti nýfrjálshyggjunni á raunsannan hátt. […] Seinni fyrirmælin voru að textinn skyldi vera eins laus við tæknimál og kostur er, enda ætlaður hinum almenna lesanda sem eðlilega hefur lítinn áhuga á að lesa texta þar sem sérfræðingar slá um sig með óskiljanlegum orðum þegar hægt er að segja hlutina á mannamáli (bls. 15).

Ég get fullyrt án fyrirvara að höfundar hafa orðið við seinni fyrirmælunum. Ég treysti mér hins vegar hvorki til að fullyrða af né á um hvort allir hafi hlýtt hinum fyrri enda er það margflókið álitmál hvað geti talist raunsönn lýsing á nýfrjálshyggju. Til að meta það þarf meðal annars að vita hvað orðið „nýfrjálshyggja“ merkir.

  

Lýsing ritstjóra á einkennum nýfrjálshyggju

Ritsstjóri bókarinnar, Kolbeinn Stefánsson, fullyrðir að í aðdraganda bankakreppunnar hafi „nýfrjálshyggjan verið ríkjandi hugmyndafræði, bæði á Íslandi og í stórum hluta heimsins“ (bls. 9) og að hún eigi það sammerkt með „kommúnisma Sovétríkjanna“ að vera „tilraun til að skipuleggja samfélög á grundvelli algilds hugmyndakerfis“ þ.e. kerfis „sem reynir að finna eina grundvallarskýringu á öllum samfélagslegum fyrirbærum, sem leiðir til einnar lausnar á öllum samfélagsvandamálum“ (bls. 11-12).

Í fyrsta kafla bókarinnar reynir Kolbeinn að skýra hvað átt er við með hugtakinu nýfrjálshyggja og nefnir nokkur atriði sem mér sýnist að megi skipa niður í fimm flokka.

      1. Viðleitni til að draga úr opinberum umsvifum, m.a. með einkavæðingu ríkisfyrirtækja.
      2. Viðleitni til að afnema höft, regluverk og pólitísk afskipti af efnahagslífinu.
      3. Áhersla á markaðshagkerfi, atvinnufrelsi, samkeppni og frjáls viðskipti.
      4. Tilhneiging til að nota „markaðslausnir“ á æ fleiri sviðum m.a. með nýskipun í opinberum rekstri þar sem „er leitað leiða til að skapa markaðsaðstæður innan opinbera geirans“ (bls. 17).
      5. Trú á hagfræðileg líkön eða kenningar sem fela í sér að frjáls markaður leiti sjálfkrafa jafnvægis; almannahag sé best borgið ef fyrirtæki á frjálsum markaði reyna að hámarka hagnað sinn; hægt sé að nota hagfræðilega mælikvarða á flest eða jafnvel öll verðmæti og skilja allt mannlífið í ljósi hagfræðilegra sértekninga. Um þetta síðastnefnda segir Kolbeinn:

        Nýfrjálshyggjan grundvallast á tiltekinni sýn á manneskjuna. Einstaklingurinn 1) lifir í félagslegu tómarúmi, 2) er sjálfselskur, 3) er ásælinn, 4) er efnishyggin neysluvél, 5) er skynsamur og hagsýnn, 6) er óbrigðull um eigin hag. Þessi sýn á manneskjuna er útgangspunktur nýfrjálshyggjunnar, forsendur sem nýfrjálshyggjufólk gefur sér án þess að kanna hvort þær eigi sér einhverja stoð í raunveruleikanum (bls. 19).

        Þessi mannskilningur er ef til vill hluti af einhverjum líkönum sem getur verið vit í að beita á afmarkaða þætti veruleikans en eins og Kolbeinn bendir á gefa þessar forsendur „mjög sérkennilega mynd af mannlífinu“ ef litið er á þær sem bókstaflegan sannleika (bls. 22).

Í lýsingu á einkennum nýfrjálshyggju er ekki getið um aukna áherslu á réttindi einstaklinga og tilraunir löggjafa til að skilgreina þau, með meira afgerandi hætti en fyrr var gert, sem eru að ýmsu leyti í anda frjálshyggju. Nærtæk dæmi úr íslenskri löggjöf eru Stjórnsýslulög (nr. 30 frá 1993), Lög um mannréttindasáttmála Evrópu (nr. 62 frá 1994), Upplýsingalög (nr. 50 frá 1996) og Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga (nr. 77 frá 2000). Ef til vill er þetta til marks um að einu frjálshyggjuáherslurnar sem til umfjöllunar eru séu þær sem tengjast beint markaðshyggju, markaðsvæðingu og hagfræðilegum þankagangi.

  

Þokukennd umfjöllun

Það er hægt að tengja öll þessi fimm atriði við gamla frjálshyggjuhefð og það má líka til sanns vegar færa að þau fengu öll byr í seglin í kringum 1980 og sum þeirra hafa haft veruleg áhrif. Því fer þó víðs fjarri að þau hafi öll orðið ríkjandi eða náð fram að ganga. Hvað það fyrsta varðar má til dæmis segja að þótt allmörg opinber fyrirtæki hér á landi hafi verið einkavædd á undanförnum árum þá hafa ríkisútgjöld aukist verulega og nýjar ríkisstofnanir litið dagsins ljós. Um númer tvö má segja að þótt viss tegund af opinberum afskiptum af atvinnulífi hafi minnkað hefur ýmiss konar eftirlit og regluverk (sem sumt gildir á öllu Evrópska efnahagssvæðinu) aukist og stjórnvöld stundum hlutast til um málefni einstakra fyrirtækja.

Áhersla á markaðsbúskap, sem nefnd er í þriðja lið, hefur vissulega verið áberandi í stjórnarstefnu hér á landi og í nágrannalöndum okkar. Hún birtist til dæmis í fjórfrelsisákvæðunum í sáttmálum Evrópusambandsríkja (þ.e. Einingarlögunum frá 1986 og Maastrichtsamningnum sem tók gildi 1993) og er hluti af stefnu flestra mið- og hægriflokka. Samt hefur verið þokkaleg sátt um víðtækar undantekningar, meðal annars niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum, byggðastefnu og styrki til einstakra atvinnugreina eins og til dæmis kvikmyndagerðar. Þannig má áfram telja. Pólitík síðustu ára er flóknari en svo að hægt sé að fullyrða án fyrirvara að einhver ein stefna sem hægt er að orða í stuttu máli hafi verið ríkjandi eða einráð.

Það er líka álitamál hvort öll þau atriði sem hér voru talin upp undir liðum 1 til 5 eru hluti af einni og sömu stefnunni eða hugmyndafræðinni. Sum þeirra blandast saman við áherslur ólíkra stjórnmálaflokka sem hver um sig slær við þau sína varnagla og trúlega er leitun að áhrifamikilli stjórnmálahreyfingu sem játar þeim öllum án fyrirvara.

Ekki kemur fram í bókinni hvort það dugar að aðhyllast sum þessara atriða til að teljast með nýfrjálshyggjumönnum eða hvort þarf að fylgja þeim öllum. Þetta gerir alla umfjöllunina um nýfrjálshyggju og meint áhrif hennar svolítið þokukennda.

Ef öll fimm atriðin á listanum þurfa að eiga við um mann til að hann teljist nýfrjálshyggjumaður fer því fjarri að slíkir fuglar séu ríkjandi. Þegar það bætist við, sem Kolbeinn hefur eftir enska þjóðmálaspekingnum David Harvey, að „mikið misræmi sé milli hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar og hvernig hún birtist í framkvæmd“ (bls. 25) vakna efasemdir um að hún hafi verið ríkjandi í neinum venjulegum skilningi. Geta hugmyndir verið ríkjandi ef menn hvorki játa þeim í orði né framkvæma þær á borði? Kolbeinn virðist átta sig á þessu vandamáli þar sem hann segir að margir hafi gengist nýfrjálshyggju „á hönd án þess að gera sér í raun grein fyrir því“ (bls. 262). Ég útiloka ekki að þetta megi til sanns vegar færa en mér finnst samt að þeir sem segja að fólk hugsi annað en það sjálft heldur þurfi að skýra mál sitt betur.

  

Skringileg fræði, glannalegar fullyrðingar og hæpnar ályktanir

Í fyrsta kaflanum virðist Kolbeinn setja ansi sundurleitan mannsöfnuð undir einn hatt þegar hann talar um nýfrjálshyggju. Hann notar þennan merkimiða til dæmis (á bls. 29 o. áf.) á kenningu sem Bandaríkjamaðurinn Robert Nozick hélt fram í bók sinni Anarchy, State, and Utopia sem út kom árið 1975. Í bók þessari setti Nozick fram heldur einstrengingslega kenningu um réttlæti sem leiðir af sér að öll skattheimta umfram það sem þarf til að halda uppi lögum og rétti sé ranglát og ríkisvald sem geri meira en þarf til að verja borgara sína gegn glæpamönnum eigi engan rétt á sér. Mér vitanlega hefur ekki verið reynt að framkvæma þessa kenningu um lágmarksríki nokkurs staðar. Samt lætur Kolbeinn að því liggja (á bls. 34) að kenning Nozicks og hugmyndir nýfrjálshyggjumanna um réttlæti séu eitt og hið sama og kemur það illa heim við yfirlýsingar hans um að þær hafi verið ríkjandi í stjórnmálahugsun síðustu áratuga.

Skömmu eftir að Kolbeinn hefur afgreitt kenningu Nozicks lýsir hann nýfrjálshyggjunni sem viðbrögðum „við þeim vanda sem vestræn ríki stóðu frammi fyrir á 8. áratug 20. aldar“ (bls. 36). Þetta er eitt dæmi af nokkrum um hvernig hann teygir hugtakið yfir fjölbreytt og sundurleitt safn skoðana. Sannleikurinn er sá að ekkert ríki brást við vandamálum í hagstjórn fyrir 30 til 40 árum með því að laga stjórnarhætti sína að heimspekilegum skýjaborgum Nozicks.

Hugmyndir Kolbeins um nýfrjálshyggjuna og áhrif hennar virðist líka í mismiklu samræmi við raunveruleikann hér á landi. Hann segir til dæmis að uppgangi nýfrjálshyggjunnar hafi yfirleitt fylgt niðurskurður eða aðhald í velferðarþjónustu og um leið og nýfrjálshyggjan „dregur úr aðkomu ríkisvaldsins að efnahagslífinu og samfélaginu þenur hún út refsikerfið, þ.e. lögregluna, dómstólana og fangelsin. Slíkum stofnunum ríkisvaldsins er svo beitt til að halda félagslegum vandamálum í skefjum með reglubundnu eftirliti, ofbeldi og fangelsun.“ (Bls. 26). Ef þetta er rétt þá hefur nýfrjálshyggja tæpast verið ríkjandi hér á landi áratuginn fyrir bankakreppu því aukning á ríkisútgjöldum (m.v. fast verðlag) til löggæslu, dómstóla og fangelsismála var um 46% á árabilinu 1998 til 2008. Á sama tíma jukust samanlögð útgjöld ríkisins til almannatrygginga og velferðarmála um 50% og heildarútgjöld ríkisins um 82% (heimild: www.hagstofa.is). Raunar hefur fjöldi fanga á hverja hundraðþúsund íbúa hér á landi breyst fremur lítið undanfarin ár. Hann var 44,0 árið 1996, hefur síðan lægstur orðið 25,3 árið 2000 og var 36,8 árið 2008. Nýrri tölur eru ekki komnar á vef Hagstofunnar svo ég veit ekki hvort föngum hefur fjölgað eða fækkað síðan 2008. Hvað sem því líður hlýtur öllum sem fylgjast með þjóðmálum hér að vera ljóst að kröfur um fleiri og þyngri fangelsisdóma koma frá öðrum en talsmönnum frjálshyggju, einkum femínistum.

Þessi losarabragur á afmörkun hugtaksins og fáeinar glannalegar fullyrðingar sem mér virðast vera nánast út í bláinn spilla þeim tveim köflum sem Kolbeinn ritar. Eitt dæmi sem mér þótti skrýtið er í lokakaflanum þar sem hann segir:

Tilraun nýfrjálshyggjunnar til að frelsa einstaklinga undan valdi ríkisins er markverð í sjálfri sér en felur í sér misskilning á eðli valds. Vald er fyrir samfélagið eins og orka er fyrir efnisheiminn […]. Vald, eins og orka, eyðist ekki. Þegar við drögum úr valdi ríkisins eykst vald annarra, s.s. fjármagnseigenda og grenndarsamfélagsins. Slíkt vald hamlar frelsi einstaklinga ekki síður en vald hins opinbera. (Bls. 263)

Þetta eru skringileg fræði. Það er eins og höfundur ímyndi sér að til sé einhver einn mælikvarði á magn þess valds sem menn eru beittir og þetta magn geti hvorki minnkað né aukist. Maður spyr sig: Til hvers var þá að afnema þrælahald?

Hæpnar ályktanir eru líka nokkrar. Eitt dæmi er þar sem Kolbeinn dregur saman niðurstöður Stefáns Ólafssonar, sem ritar lengsta kaflann í bókinni. Stefán rökstyður að sú leið sem Norðurlönd hafa farið við uppbyggingu velferðarkerfis stuðli að betri kjörum almennings heldur sú skipan sem tíðkast með enskumælandi þjóðum og hann tengir það því að norrænu velferðarkerfin eru meira í anda jafnaðarstefnu og þar gegnir ríkið viðameira hlutverki. Ég sé enga ástæðu til að vefengja að sá millivegur milli markaðskerfis og ríkisforsjár sem einkennir velferðarkerfi Norðurlanda hafi gefist vel. En af þessu leiðir ekki að allt frelsi á markaði spilli kjörum fólks eins og Kolbeinn virðist álykta þar sem hann segir:

   Af þessu ætti að vera ljóst að tengslin á milli frjálsræðis markaða og lífsgæða almennings eru skýr. Því meiri sem áherslan er á óhefta markaði því minni eru lífsgæðin. (Bls. 259)

Það er eins og hvarfli ekki að Kolbeini að Norðurlöndin hefðu komið enn betur út úr samanburði við ríkjahóp þar sem frelsi á markaði er að ráði minna heldur en hjá þeim.

Annað dæmi um ansi glannalega fullyrðingu er þar sem Kolbeinn heldur því blákalt fram og án fyrirvara að nýfrjálshyggjan hafi skilað „okkur þeim efnahagsvanda sem heimsbyggðin á nú við að stríða, þar með talið íslenska bankahruninu“ (bls. 18). Ætli hann haldi kannski að án nýfrjálshyggju væru engar hagsveiflur, kreppur eða efnahagsleg vandræði?

  

Gagnrýni á hagfræðilega rörsýn

Aðrir höfundar en Kolbeinn eru mun gætnari og greinar sumra þeirra eru raunar ágætis lesning.

Grein Sveinbjarnar Þórðarsonar, sem er 2. kafli bókarinnar, rekur sögu frjálshyggjuhugmynda til stjórnspekikenninga frá 17. og 18. öld. Hann bendir á að grundvallarhugmyndir frjálshyggjunnar hafi „átt stærri þátt í að móta vestræn samfélög en nokkur önnur pólitísk hugmyndafræði“ (bls. 66).    Skilningur Sveinbjörns á hugtakinu nýfrjálshyggja virðist á þá leið að hún feli í sér fremur einstrengingslega og öfgafulla trú á að fundinn sé réttur vísindalegur (hagfræðilegur) skilningur á öllu mannlífinu. Hann segir:

Einfaldað líkan hagfræðinnar, sem gerir ráð fyrir fullkominni eða næstum fullkominni skynsemi, hefur færst frá kirfilega takmarkaðri nálgun á mannlega hegðun undir afmörkuðum kringumstæðum yfir í allsherjarkenningu um mannlegt eðli. Það er hér sem nýfrjálshyggjan verður að vísindatrú, gagntekin bjartsýni upplýsingarinnar, og virðir að vettugi gætni og efasemdir hefðbundinnar íhaldsstefnu. (Bls. 64)

Skot Sveinbjarnar á gleiðgosalega markaðshyggjumenn minna á málflutning Sam Tanenhaus í bókinni The Death of Conservatism (New York: Random House, 2009) sem ég fjallaði um í Þjóðmálum á síðasta ári (4. hefti, 5. árg. bls. 19–21). Sveinbjörn segir meðal annars að það séu ekki lengur vinstrimenn sem keppast við að endurhanna samfélagið frá grunni í ljósi allsherjarkenninga.

Í mörgum Evrópuríkjum eru það þvert á móti vinstriflokkarnir sem eru orðnir að eins konar íhaldsflokkum; þeir berjast fyrir því að verja samkomulag eftirstríðsáranna, velferðarríkið, vinnulöggjöf og ríkisafskipti af markaðnum, gegn róttækri einkavæðingar- og markaðsstefnu hægriflokkanna. (Bls. 66)

Í þessu hygg ég sé sannleikskorn fólgið þótt mér sýnist Sveinbjörn einfalda málið nokkuð. Undanfarna áratugi hafa gætni, íhaldssemi og vitneskja um mannleg takmörk, sem lærist fremur af reynslu en af fræðiritum, togast á við óþolinmæði þeirra sem heimta róttækar breytingar innan mið- og hægriflokka eins og í flokkum sem teljast til vinstri.

Líkt og Sveinbjörn beinir Pär Gustafsson (sem ritar 3. kaflann) spjótum sínum að einföldum hagfræðilegum skilningi á mannlífinu og jafnframt að hagfræðideildum háskóla sem hann telur helst til kreddufastar. Hann tekur dæmi af Rússlandi eftir fall kommúnismans og segir m.a.

Forskriftin var sú að ef stjórnvöld kæmu upp markaðshagkerfi myndi lýðræði sjálfkrafa fylgja í kjölfarið. Þá myndi réttlátt og skilvirkt dómskerfi einnig þróast í fyllingu tímans. Þar af leiðandi skipti höfuðmáli að innleiða markaðshætti eins hratt og mögulegt væri enda myndi það leiða sjálfkrafa til betra samfélags. (Bls. 83)

Reyndin segir hann að hafi orðið önnur.

Og í staðinn fyrir að markaðsöflin færðu Rússland í átt til aukins lýðræðis og sterkara réttarkerfis, eins og nýfrjálshyggjuhagfræðingarnir höfðu gert ráð fyrir, urðu þau til þess að skipulagðri glæpastarfsemi óx fiskur um hrygg. Þessi þróun átti sér ekki síst stað vegna þess að markaðsöflunum var gefinn laus taumur án þess að lagaramminn, löggæslan og réttarkerfið væru í stakk búin til að veita þeim aðhald. (Bls. 84)

Grein Salvarar Nordal (sem er 4. kafli) fjallar um samfélagslega ábyrgð í viðskiptalífinu. Hún gagnrýnir kenningu sem Milton Friedman hélt fram fyrir 40 árum síðan og er þess efnis að helsta skylda stjórnenda í fyrirtæki sé að hámarka hagnað þess. Spurningarnar sem Salvör veltir upp eru áhugaverðar til dæmis þar sem hún ræðir hvort stjórnendur banka hafi ríkari skyldur við eigendur bankans en við þá sem eiga sparifé í bankanum; hvort það stuðli ekki að auknu regluverki og opinberu eftirliti ef stjórnendur fyrirtækja gera almennt hvaðeina sem lög leyfa til að græða sem mest, jafnvel þótt það sé andstætt öllu siðferði; og hvort þeir sem hafna samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja kalli ekki þar með eftir sterkara ríkisvaldi sem sinni fleiri hlutverkum, öfugt við það sem Friedman kvaðst vilja.

Mér sýnist margt sem Salvör segir styðja þá niðurstöðu að hagkerfi geti ekki dafnað án siðmenningar og illa fari ef forkólfar atvinnulífsins virða engin mörk nema lögin og hirða ekki um nein markmið önnur en að hámarka gróða sinn.

Í köflunum eftir Sveinbjörn, Pär og Salvöru er gagnrýni á nýfrjálshyggju fyrst og fremst gagnrýni á oftrú á hagfræðileg líkön eða einhvern vísindalegan stórasannleik (semsagt á 5. lið í upptalningunni hér að framan). Þau virðast öll skilja nýfrjálshyggju sem slíka oftrú eða einhvers konar hagfræðilega rörsýn. Svipaða sögu er að segja um 8. kaflann sem er eftir Giorgio Baruchello. Hann fjallar um kenningar kanadíska heimspekingsins McMurtrys sem hefur gert tilraun til að skilgreina verðmæti út frá mannlegum þörfum og gagnrýnt hagfræðikenningar m.a. fyrir að gera engan greinarmun á þörfum manna og löngunum. Mér sýnist að Girogio takast ágætlega að útskýra fyrir lesendum að gegnum gleraugu hagfræðinnar sjáist aðeins hluti af því sem máli skiptir í mannlífinu.

  

Nýskipan í opinberum rekstri, norræn velferð og kynjamyndir

Þær þrjár greinar sem ótaldar eru fjalla um ólík efni. Mia Vabø, sem ritar 5. kaflann, fjallar um nýskipan í opinberum rekstri, þ.e. tilraunir til að skapa einhvers konar markaðsaðstæður innan opinbera geirans (sbr. 4. lið). Hún segir frá því hvernig tilraunir til að auka hagkvæmni í heimaþjónustu fyrir aldraða í Noregi, með því að innleiða einhvers konar markaðs- og samkeppnishugsun, leiddi í raun til aukins kostnaðar og skriffinnsku.

 Mér þykja rök Miu fremur sannfærandi og ég held að það megi segja að mörgu leyti svipaða sögu um ýmsa nýskipan í öðrum greinum opinbers rekstrar þar sem reynt hefur verið að innleiða einhvers konar samkeppni án þess að huga að því hvort hún væri keppni um að gramsa til sín sem mesta peninga úr ríkissjóði eða um að gera sem mest gagn. (Sjálfur skrifaði ég einu sinni grein í Þjóðmál (3. hefti, 2. árg. bls. 40–45) um „samkeppni“ í íslenska framhaldsskólakerfinu sem mér þótti komin út í óttalega vitleysu. Kannski fannst mér kafli Miu sá besti í bókinni vegna þess að ég þekki svolítið til í opinberum rekstri og hef setið allmarga fundi þar sem viðskiptafræðingar sýndu PowerPoint glærur og messuðu um rekstur skóla án þess að gera sér neina almennilega grein fyrir muninum á opinberri stofnun og fyrirtæki á markaði.)

Stefán Ólafsson ritar 6. kafla bókarinnar sem nefnist „Árangur frjálshyggjunnar – samanburður lífskjara í frjálshyggjuríkjum og velferðarríkjum.“ Stefán talar um frjálshyggju fremur en nýfrjálshyggju og skilningur hans á hugtakinu tengist fyrst og fremst opinberum umsvifum (1. lið) þar sem umfangsmikil ríkisrekin velferðarkerfi eru öndverð frjálshyggju að hans dómi.

Stefán notar tölfræðileg gögn til að bera saman 39 atriði sem varða lífskjör almennings á Norðurlöndum annars vegar og í enskumælandi löndum (þ.e. Bandaríkjunum, Bretlandi, Írlandi, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálandi) hins vegar. Þessi atriði varða m.a. hagvöxt, barnadauða, lífslíkur, heilsufar, atvinnuþátttöku, fjölda fólks undir fátækramörkum, jafnrétti kynjanna, tíðni afbrota og ánægju fólks með líf sitt. Undir lok kaflans dregur Stefán niðurstöður sínar saman og segir:

Af þeim 39 þáttum sem yfirlitið nær til voru norrænu þjóðirnar með betri útkomu en þær enskumælandi í 32 tilvikum, þær enskumælandi voru betri í 3 tilvikum og ekki var markverður munur hópanna í 4 tilvikum. (Bls. 185)

Stefán tengir velgengni Norðurlanda öflugum ríkisreknum velferðarkerfum. Mér sýnist hann rökstyðja þá tengingu en hins vegar þykir mér titillinn á grein hans svolítið villandi því eins og hann bendir sjálfur á (bls. 174–5) er markaðshagkerfi á Norðurlöndum. Norræn hagkerfi einkennast af einkaeign og frjálsum viðskiptum ekkert síður en hagkerfi enskumælandi ríkja og trúlega á það ekki minni þátt í velmegun Norðurlandabúa heldur en hin opinberu velferðarkerfi.

Þorgerður Einarsdóttir (sem ritar 7. kafla) fjallar um kynjamyndir og kyngervi nýfrjálshyggjunnar og tengir hugmyndir í anda frjálshyggju um samkeppni og sókn á mörkuðum og ýmis orð sem höfð voru um íslensku útrásina við eiginleika sem taldir eru karlmannlegir. Umfjöllun hennar hefur sérstöðu að því leyti að hún gerir sér skýrari grein fyrir því en aðrir höfundar hvað hugtakið nýfrjálshyggja er mikill vandræðagripur.

   Orðið frjálshyggja hefur alltaf haft óljósa merkingu […] og málið flækist enn frekar þegar rætt er um nýfrjálshyggju. Bæði hugtakanotkun og merking eru á reiki. (Bls. 196)

Hún kýs að nota orðið um „þá hagstjórnarstefnu, pólitísku hugmyndafræði og menningarástand sem náð hefur hnattrænni útbreiðslu í okkar samtíma og upphófst um 1980 með valdatöku Margaretar Thatcher og Ronalds Reagan“ (bls. 196–7) og segir:

Þótt hugtakanotkunin sé nokkuð á reiki byggist nýfrjálshyggja á sama hugmyndagrunni og klassísk frjálshyggja og skilgreiningar á fyrirbærinu nýfrjálshyggja benda iðulega í sömu átt. Þær eru m.a. fólgnar í að lágmarka umsvif ríkisvaldsins með einkavæðingu ríkisfyrirtækja, t.d. banka; aukinni áherslu á einkaeignarrétt m.a. á auðlindum eins og fiskistofnum og orku; minnkandi regluverki og stýringu markaðarins; niðurskurði í velferðarkerfinu og skattastefnu sem ívilnar fyrirtækjum og fjárfestum (bls. 197).

Skilningur Þorgerðar á nýfrjálshyggju virðist líkur þeim sem Kolbeinn reifar í fyrsta kafla bókarinnar að því leyti að hún tilgreinir nokkur einkenni sem varða áherslur á markaðsbúskap og samdrátt þess opinbera.

 

Myrkravöld og máttur til illra verka

Af þessari samantekt ætti að vera ljóst að tal um nýfrjálshyggju getur vísað í skoðanir þeirra manna sem uppfylla öll skilyrðin sem Kolbeinn tíundar í fyrsta kafla bókarinnar eða Þorgerður í þeim sjöunda. Það getur líka snúist um einhvers konar hagfræðilega rörsýn á mannlífið. Enn fremur getur það vísað til áherslu á markaðshagkerfi og ýmis önnur stefnumál mið- og hægriflokka. Svo getur það væntanlega átt við skoðanir þeirra sem sjálfir kalla sig frjálshyggjumenn.

Til viðbótar við þetta sem talið hefur verið virðist orðið „nýfrjálshyggja“ notað um sjálf myrkravöldin, a.m.k. ætlar Kolbeinn þessari stefnu mikinn mátt til illra verka þar sem hann segir:

   Nýfrjálshyggjan hefur haft margar slæmar afleiðingar, s.s. barnaþrælkun í fátækari ríkjum, aukinn ójöfnuð, mengun, ágang á náttúruauðlindir, mannréttindabrot, atvinnustarfsemi við svo slæmar aðstæður að líkja má þeim við þrælakistur, aukið efnahagslegt og félagslegt óöryggi, meiri fátækt, vaxandi vinnuálag og svo mætti lengi telja (bls. 260).

Maður fær það nánast á tilfinninguna að Gúlagið og fyrstu þrælamarkaðir heimsins hafi orðið til fyrir tilstilli nýfrjálshyggjumanna undir lok 20. aldar. Ég neita því að sjálfsögðu ekki að ýmsar öfgar sem lýst er í bókinni, og ég kalla einu nafni hagfræðilega rörsýn, geti leitt menn á villigötur. En að hvaðeina sem höfundar Eilífðarvélarinnar kalla nýfrjálshyggju hafi orkað til ills er fjarstæða.

Til að meta hagstjórn og hagþróun síðustu áratuga dugar hvorki að horfa á einstök dæmi um ranglæti og heimsku né að einblína á margumtalaða bankakreppu. Það þarf líka að skoða hvernig kjör jarðarbúa hafa breyst: Búa færri eða fleiri við hungur, ólæsi eða þrældóm? Hvað með barnadauða, heilsufar og lífslíkur? Flest tölfræðileg gögn benda til að þótt stór hluti jarðarbúa lifi við vond kjör hafi þau atriði sem hér voru nefnd farið skánandi svo fullyrðingar um að breytingar á hagkerfum heimsins, á þeim áratugum sem höfundar kenna við nýfrjálshyggju, hafi verið til tómrar bölvunar geta varla verið allur sannleikurinn. [1]

  

Lokaorð

Þótt ég hafi fundið að ýmsu í bókinni, einkum í köflunum eftir Kolbein, tel ég að Eilífðarvélin sé fróðleg bók. Hún varpar í senn ljósi á tíðarandann og skýrir ýmsar hugmyndir manna sem gagnrýna hagfræðilegan þankagang, markaðshyggju og markaðsvæðingu.

Ég hef einkum beint athygli að einu atriði í bókinni sem er notkun hugtaksins nýfrjálshyggja og rökstutt að það sé teygt yfir ansi mörg og sundurleit atriði. Ég held að þörf sé á skarpari greiningu á stjórnmálahugsun síðustu áratuga eigi að tengja núverandi efnahagskreppu eða aðra óáran einhverri einni stjórnmálaskoðun eða hugmyndafræði öðrum fremur.

Til að koma því heim og saman að nýfrjálshyggja hafi verið ríkjandi þarf að láta hugtakið ná yfir margs konar öfgalausar áherslur mið- og hægriflokka. Það er svo sem ekkert mjög langsótt að kenna þær við frjálshyggju, því eins og Sveinbjörn Þórðarson bendir á í 2. kafla Eilífðarvélarinnar hafa frjálshyggjuhugsjónir frá fyrri öldum blandast saman við stefnu flestra stjórnmálaflokka í Evrópu.

En til að halda því fram að nýfrjálshyggjan sé ofureinföldun á mannlífinu eða hugmyndarfræðileg allsherjarformúla þarf að beina athyglinni að dæmum um hagfræðilega rörsýn eða að einhverju í dúr við kenningu Roberts Nozick um lágmarksríkið.

Að mínu viti er ekki trúlegt að hægt sé að afmarka neina eina kenningu, skoðun eða hugmyndafræði þannig að hún geti allt í senn talist frjálshyggjuættar, ríkjandi síðustu áratugi og þröngsýn kreddukenning eða algilt hugmyndakerfi.



[1] Talið er að frá 1970 til 2000 hafi meðallífslíkur jarðarbúa við fæðingu hækkað að meðaltali úr u.þ.b. 58 árum í u.þ.b. 66 ár. Samkvæmt vef Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, www.who.int, hafa lífslíkur manna aukist frá aldamótum til 2008 í 152 ríkjum, staðið í stað í 26 ríkum og minnkað í 9 ríkjum. Ef til vill telja einhverjir að nýfrjálshyggja hafi verið sérlega öflug í þessum 9 ríkjum sem verst vegnar það sem af er öldinni en þau eru: Brunei, Chad, Írak, Lesotho, Miðafríkulýðveldið, Myanmar, Suður Afríka, Swaziland og Zimbabwe.