Gagnrýni: Morgunblaðið 19. apríl 2000, Hvítt á hvítt ofan

Margrét Sveinsdóttir  byggir einlit málverk sín á reglulegri mynsturgerð svo útkoman verður optísk þegar öll kurl eru komin til grafar. Ferningarnir sem mynda mynstrið reglulega eru upphleyptir og inndregnir svo hvarvetna milli þeirra veður til eins konar fjögurra blaða blóm. Þegar litið er yfir Sverrissal blasa þessi reglulegu mynstur við og stundarkorn fá þau áhorfandann til að ruglast á forgrunni og bakgrunni. Það tekur augun smástund að venjast því sem fyrir augu ber. Margrét byggir á langri hefð einlitra, hvítra verka í list tuttugustu aldar. Þegar árið 1918 var rússneski málarinn Kasimir Malevich kominn að endastöð málverksins þegar hann málaði hvítt á hvítt ofan. Þessi verk sem voru lyktir þeirrar hugmyndar sem listamaðurinn kallaði súpermatisma sýndu að einlitar myndir voru langt frá því að vera einhæfar. Þó voru fáir til að fylgja fordæmi Malevich, að minnsta kosti enn um sinn.
Að vísu reyndi konstrúktívistinn óþreytandi, Alexander Rodchenko, fyrir sér með einlitum málverkum en hvít voru þau ekki. Það var varla fyrr en á sjötta áratuginum, með Ítalanum Piero Manzoni og Bandaríkjamönnunum Robert Rauschenberg og Robert Ryman að hugmyndin um hvítt málverk tók hug listamanna. Hvítur var litur allra lita, og þó var hann eins og andsvar í beinu framhaldi af allri þeirra litadýrð sem listunnendur höfðu kynnst eftir heimstyrjöldina síðari. Ítalski málarinn Lucio Fontana hafði ekki aðeins dregið litina ofan í einn grunntón heldur risti hann göt í myndflötinn eins og hann vildi ná aftur fyrir málverkið. Ítölum bættist enn annar listamaður sem hafði hvíta litinn í hávegum. Það var Cy Twombly, bandarískur málari sem settist að á Ítalíu og átti síðar eftir að taka virkan þátt í mótun listarinnar á níunda áratugnum.
Vestan hafs var svo Jasper Johns að mála stafrófsmyndirnar sínar með hvítum lit á hvítan grunn. Þannig var sjötti áratugurinn sú tíð þegar hvítar myndir sóttu í sig veðrið. Nú fjörutíu árum síðar sýna þær sig ennþá vera ómótstæðilegar. Margrét með hefðina á bakinu hefur hvað sem öðru líður fundið hrífandi leið til að útvíkkunnar mengi litlausa málverksins. Þótt myndir hennar séu stórar, sumar jafnvel risastórar, búa þær yfir þeim töfrum sem látleysið eitt getur framkallað. Þegar allir litir hafa verið prófaðir með misjöfnum árangri rennur upp sól hvíta litarins. Blæbrigðaspilið sem Margrét Sveinsdóttir dregur fram sýnir að lengi má komast af án lita, án þess að verið virki einsleitt eða litvana.

Halldór Björn Runólfsson

Næsta >>