Stórveldið Akureyri

Við fórum til Akureyrar um síðustu helgi. Markmið ferðarinnar var að slappa af í orlofshúsi, borða vel og sjá Karíus og Baktus. Þær tannkremshatandi örverur stóðu undir væntingum litlu barnanna, en sjálfur var ég frekar fúll yfir því að aldrei kæmi risastór tannbursti sem sópaði körlunum út. Ég man vel eftir svart hvítu útgáfunni í sjónvarpinu og vildi hafa þetta alveg eins.

Nostalgían hellist yfir mig á Akureyri því ég fór þangað á hverju sumri með foreldrum mínum að heimsækja afa og ömmu. Ég heimta að fá að fara að húsinu þeirra. Lufsan er löngu hætt að nenna með mér, svo ég fer einn með hjartað í buxunum að núverandi eigendur komi út á hlað og skammi mig fyrir að sniglast þarna. Ég mæni á húsvegginn þar sem ég var einn í viðstöðulausum. Ég glápi á kjallarahlerann. Þar fyrir innan skoðaði ég Sigmund og Ferdinand í fúkkalyktandi Moggum.

Einu sinni var Akureyri iðnaðarstórveldi. Þegar maður kom þangað fékk maður öðruvísi mjólkurvörur en í bænum og öðruvísi sælgæti. Bærinn var nánast sjálfbær. Nú er sama súpan um land allt enda fylgifiskur hagræðingarinnar að allt sé alls staðar eins. Líkt og í stórborgum Vesturlanda. Fyrir 40 árum voru mismunandi verslanir í hverri borg og ólíkt vöruúrval. Nú er alls staðar sama McDonalds og Gap-súpan. Þetta heitir alþjóðavæðing og þykir fínt. En er ógeðslega leiðinlegt.

Ég fékk þá frábæru hugmynd að fara í Iðnaðarsafnið á Akureyri. Safnvörðurinn Jón Arnþórsson leiddi okkur um glæsilegt safnið og sagði sögur af iðnaðarstórveldinu Akureyri og viðskiptum þess við Sovétríkin. Ég var á algjöru nostalgíutrippi. Sá þrjár tegundir af Valash frá Sana, svari Norðlendinga við Appelsíni. Sá líka flösku af Morgan?s Cream Soda, einnig frá Sana, sem ég er búinn að hugsa um síðan ég smakkaði það 1975. Sá Lindu piparmintupakka, Mífa tónbönd og hinar frægu Duffys gallabuxur. Gefjunarmenn voru skammaðir fyrir að kalla buxurnar Duffys en þeir voru bara að reyna að bjarga fyrirtækinu. Krakkarnir hefðu fúlsað við "Góðu Gefjunarbrókunum".

En svo fór allt á hausinn og þar sem verksmiðjan stóð við Glerá stendur nú svar Akureyringa við Kringlunni og selur nákvæmlega sama dótið. Hamingjunni sé því lof fyrir sjónvarpsstöðina N4 sem við horfðum á. Þar var endalaust það sama: frétt af strák sem sökk í drullupoll og auglýsing frá plastábreiðufyrirtæki, en samt var þetta einhvern veginn það næsta sem maður komst því að skipta um umhverfi.