DÝRASTUÐ
Ég á mér nokkur áhugamál. Eitt þeirra er að láta taka mynd af mér með dýrum. Hér eru nokkur sýnishorn.

 
Hér er ég með hressri geit í Noregi. Ég náði ekki hvað hún hét en mér heyrðist það vera "Mmhhh". Hún var sólgin í kexið mitt en afþakkaði boð um að koma á Dr. Gunna tónleika í Oslo seinna um daginn.
Mynd: Ari Eldon
Kári svanur. Hvað er hægt að segja; svanurinn er snillingur. Eftir að vængir Kára frusu á tjörninni og misvitur hönd laganna reddaði málunum með því að klippa vængina af, varð Kári sérvitur og fúllyndur og arkaði um göturnar í hefndarhug. Hann birtist m.a.s. einn daginn í garðinum mínum en varð fjarlægður af löggunni. Sem betur fer uxu vængirnar aftur og Kári hraðaði sér í burtu. Það spurðist til hans á Raufarhöfn þar sem hann var að böggast í fólki, en síðan ei meir. Svanurinn setti svip á bæjarlífið og varð efni í lag eftir finnska listamanninn Kake Puhuu (alias Keuhkot) sem tók þessa mynd af mér og Kára í góðu stuði við tjörnina. Lagið er á fyrstu stóru plötu Keuhkot.
Ég (eins og sýruhippi) með Sigurveigu, hundleiðinlegum ketti sem ég ættleiddi fyrir misskilning. Skömmu síðar ól hún NÍU kettlinga og ég missti vitið og fór með flesta úr fjölskyldunni til svæfingar. Já, ég er illmenni.
Mynd: Hildur Bjarnadóttir
Fá dýr finnst mér svalari en mörgæsir. Ég hef ekki haft persónuleg kynni af mörgæs en þessi öðlingsgæs þáði af mér góðgæti í dýragarði í Köben. Þegar góðgætið var búið hvarf gæsin á braut með hraði.
Mynd: Mattías Hemstock.
Að lokum kemur mynd af mér með hressum íkorna í garði á Manhattan. Hann var dúndurhress og ólmur í frostpinnann minn. Seinna hitti ég hann blindfullan á CBGB´s, en nennti ekki að tala við hann því ég vissi að hann var að falla eftir nokkuð langt bindindi. Ég er nefnilega enginn kó-ari.
Mynd: Einar Falur.