TOPP 5! 12. vika: Bikini - Maradj már / Æla - Fuglinn í fjörunni / Lurkers - Shadow / UK Subs - CID / Rudimentary Peni - Media Person   ELDRI LISTAR
21.03.05
XL Recordings er gott breskt merki með nokkur góð videó á síðunni sinni. Hér er stuðpían MIA og
hér er skemmtilegt viddjó með Basement Jaxx. Gamalmenni í staðin fyrir dansandi unglinga sem eru endalaust í svona stöffi. Ferskt. Meiri gamalmenni takk. Samt ekki of mikið.

20.03.05
Veit það ekki. Finnst alltaf "Rektor" frekar dónalegt orð. Einum of líkt rectum. En hvað með það. Sá Saw sem var ágæt. Nennti hvorki að sjá Microphones né 22PP sem hlýtur eiginlega að tákna að ég sé latari við að fara á tónleika en ég veit ekki hvað. Ég er svo hræðilega heimakær. Kannski ætti maður bara að flytja út á land. Get ekki séð að það breyti diff. Jón var góður í þættinum. Töluðum eiginlega ekkert um guð enda pönk mun skemmtilegra. Sá Karl Sigurbjörnsson hjá Agli. Það var mega leiðinlegt. Sá steinum kastað í Þuríði Bachman. Það var skemmtilegt! Við eigum kröfu á að sjá steinum kastað í þingmennina okkar á hverju einasta kvöldi. Lágmarks kurteysi.
---
Minni á útvarpsþáttinn kl. 16 í dag. Massa stöööð að vanda + Jón Gnarr og pönk og guð kl. 17.
---
Topp 5 - Minna Eurovision. Meira PÖNK!

Bikini - Maradj már: Ungverjaland 1981. Af frábærri plötu "Hova Lett". Aðalmaðurinn er Nagy Feró sem er svaka hetja í Ungó og hefur komið víða við á löngum ferli. (lengst til vinstri. Hugsanlega).


Æla - Fuglinn í fjörunni: Pönk frá Keflavík. Af demódisk sem ég fékk inn um lúguna nýlega.


Lurkers - Shadow: Breskt skítapönk frá 1977. A-hlið á fyrsta síngli. Flott peysa! Hugsanlega enn að.


UK Subs - CID: Meira breskt skítapönk frá 1978. Líklega enn að.


Rudimentary Peni - Media Person: Af brjálæðislega góðri ellefu laga 7" frá 1980. Söngvarinn teiknaði líka umslögin. Borðaði ekki kjöt. Voða vinsælt band í skvöttum víðsvegar.

14.03.05
Tengdamóðir mín kom með svo mikið bakkelsi með kaffinu að það þótti ekki ástæða til að hafa kvöldmat.
---
Hundleiðinlegur kuldi. Ég sem var búinn að leggja flíspeysunni. Búinn að taka hana aftur upp.
---
Hljómsveitin Dr. Gunni tekur Megasarlag í Austurbæ 7. apríl. Þurfum eflaust að byrja að æfa fljótlega. Svo erða Kanaríeyjar bara komminöpp sem er ekkert annað en stórkostlegt.

13.03.05
Tíminn líður hratt... Sunnudagur, það þýðir Tónlistarþáttur Dr. Gunna kl. 16 á Talstöðinni. Svaka stuð í 2 tíma, Benni Karate kíkir inn til að plögga Microphones en annars er þetta bara sígilt músikhakk + slatti af 22 Pistepirkko. En hei, fokk, hér er Topp 5!

Junior Senior - Itch u can't scratch: Nýtt lag frá þessum dönsku skrattakollum. Slógu í gegn með Move your feet eins og kunnugt er, en platan þeirra gamla er líka drulluskemmtileg. Segi það satt. Ný er víst á leiðinni...

Antony & The Johnsons - Hope there's someone: Margir vilja meina að þetta sé hinn nýi Jeff Buckley eða jafnvel hin nýja Nina Simone. Skrýtin rödd, róleg músik. Allt í lagi stöff. Megahæp í gangi. Spurning hvort þetta endi á Bylgjunni...

Arboga Teenage Riot - #6: Einhverjar klikkaðar smástelpur frá Svíþjóð sem fíla Atari Teenage Riot. Gaman að þessum gelgjum alltaf, ekki skemmir fyrir þegar þær tilbiðja satan... 

Iggy Pop & The Stooges - You better run: Nýleg upptaka, mér skilst að þeir ætli í plötu þessir jálkar. Lagið er kóver af blúsarnum Junior Kimbrough, sem margir eru að fatta í dag, en hann er dauður fyrir nokkru. Myndin er af honum enda fallegri en Iggy og þá er nú mikið sagt...

Billy Thorpe & The Aztecs - Most People I Know: Ástralía 1972. Bartar. Karlar með bumbur og bjór. Karlamúsik. Rokk! Höfðu víst áhrif á AcDc á formunarárum þeirra, þessir. Asnalegur gaur samt. Á myndinni allavega...
---
Get ekki gefið Anchorman meira en XX en má alveg vel glápa á hana samt.
---
Er Reykjavíkurnætur versti íslenski sjónvarpsþáttur sem gerður hefur verið? Það var allavega dauðaþögn í stofunni hjá mér rofin með einstaka Hver á að hafa gaman að þessu? og Eruði ekki að grínast!?
---
Teiknimyndasýningin NíAN er algjört möst sí. Þarf að fara aftur, t.d. á mánudaginn (þá er frítt) til að skoða enda hafði maður lítinn tíma til þess á opnuninni, var allan tíman að sötra freyðivín og tala við selebs eins og Vigdísi Finnbogad, Bessa Bjarnason, Halla og Laddi að ógleymdum Jörundi eftirhermu.

09.03.05
Sá Bad Santa. Góð mynd. Er að hlusta á karlkerlinguna Antony sem allir eru að drepast yfir núna. Ágætt svo sem, allir segja að þetta sé svo sérstök rödd, sem er kannski ekki nóg þegar músikin er ekki skemmtilegri en þetta. En jú jú, altso, þokkalegt alveg.

08.03.05
Alveg er mér nú sama um þennan Sjóvá-samning Bubba Morthens og hallærislegt að hlaupa út og grafa einhverjar plötur eins og fífl. Bubbi mætti selja aðgang að rassgatinu á sér mín vegna. Ekki það ég myndi kaupa mig inn. Bubbi er fínn gaur en hann hefur ekki skipt mig máli tónlistarlega í 25 ár. Mér fannst 4 laga platan frá 1980 góð og Geislavirkir en eftir það nennti ég ekki að pæla í honum, allavega ekki af miklum áhuga. Eins bjánalega sem það hljómar missti ég áhugann þegar hann varð almenningseign. Platan Frelsi til sölu frá 1986 veitti mér reyndar ágæta heimþrá þegar ég fékk hana senda til mín til Frakklands. En, sem sé, fínt hjá honum að kassa inn þessum 100 millum eða hvað þetta er. Því meira monní sem Bubbi fær, því betra. Fyrir hann, það er að segja. Skiptir mig engu helvítis máli. Sem betur fer er Bubbi að fá svona 200.000kall fyrir hvern Idol þátt líka, sem er nokkuð vel af sér vikið fyrir að standa upp annað slagið og klappa. Bubbi á listamannalaun! Bubbi rúlar!
---
Styð Þorstein Guðmundsson fullkomlega í baráttu sinni við listamannalaunaliðið. Ég hef ákveðið að sækja aldrei um þetta, enda er það eintómur aumingjaskapur að liggja á skattfé almennings eins og drusla á fjóshaug. Hef aldrei fengið krónu frá Ríkinu og ætla ekki að byrja á að væla út fé á gamalsaldri. Rithöfundaræflarnir mega eiga þessa vasapeninga mín vegna. Þetta er birt með fyrirvara um að ég skipti um skoðun þegar einhver sem ég þekki vel er kominn í úthlutunarnefndina.
---

STÓRFRÉTTIR!

Finnsku meistararnir í 22 Pistepirkko spila á Nasa laugardaginn 19. mars! Þeir komu hérna 1991 og 1993 að mig minnir, hafa haldið 11 gigg á Íslandi só far. Bless hitaði upp fyrir þá 1991 en ég man ekki hvað var í gangi 1993. Svo spilaði Unun með þeim í Frakklandi 1995. En allavega, frábært band og þrumugott læf. Mæli eindregið með þessu! Hér eru nokkur lög til kynningar:
Hongkong King (af Kings of Hong Kong 1987)
Frankenstein (af Bare Bone Nest 1989)
Birdy (af Big Lupu 1992)
Onion Soup (af Eleven 1998)
Rally of Love (af Rally of Love 2001)

07.03.05
Allt að verða vitlaust: Teiknimyndasýningin NÍAN opnar á laugardaginn í Listasafni Rvk og ég er meðal sýnenda. Svo erða Hot Chip á föstudaginn... Já já.

06.03.05
Hinn kinkímagnaði Tónlistarþáttur DR. Gunna er á Talstöðinni í dag kl. 16. Sama sæðislega sullið plús Kiddi í Vínyl með óskalögin. Hlusta eða dusta. En nú að
TOPP FOÐÐÐÐÐÐERMUCCKKKKING FIMM!:

Los Dug Dug's - World of love: Aðalbandið í Mexíkó í kringum 1970, en óþekkt með flestu annars staðar. Þetta er eiturglatt stuðlag og mig langar alltaf í sund þegar ég heyri það.

Panico - Transpiralo (Featuring Crazy Girl): Brjálaðir Chile-búar sem hafa komið sér fyrir í Frakklandi og gefa út hjá hinni mögnuðu Tigersushi útgáfu. Dúndur hressandi stöff verð ég að segja, en bandið ku eiga langa fortíð og hafa gert haug af plötum í heimalandinu. Þetta er af nýjustu plötunni Subliminal Kill, sem téð Tigersushi hefur nú spænt út og maður verður hreinlega að redda sér.

Slagsmålsklubben - Slaxmål: Glaðir Svíar með gamlasintapopp í anda hinna finnsku Aavikko, en þetta lag hljómar þó eins og Dáðadrengir. Kom út 2003 á plötunni Den Svenska Disko. Meira svíagrín hér.

Petra Haden - I Can See For Miles: Petra þessi hefur endurgert snilldarplötuna The Who Sell Out með röddinni einni saman. Nokkuð töff verða ég að segja, hörku töff jafnvel. Petra er víst annars voða fínn fiðluleikari og eitthvað...

The Monochrome Set - He´s Frank: Ég get svo sem enn og aftur tuðast á því að þótt Frank Ferdinand et al sé fínt stöff þá eru þeir ekki að finna upp hjólið. Hér er næsta óþekkt ensk nýbylgjusveit, The Monochrome Set, meðlimirnir voru samferðamenn Adams Ant á tímabili. Þetta fína lag (þeir eiga fleiri) er frá 1979. Það er 25 árum á undan Franz.
---
Hér má annars finna risavaxinn safnhaug af ótrúlegum plötuumslögum!

04.03.05
Úbbs... þátturinn með Carol er víst ekki fyrr en þar næsta sunnudag – 13 mars sem sé. En samt: Ekki missa af því!

03.03.05

Missti víst af svaka fínum þætti um bassaleikarann Carol Kaye sem sýndur var um miðnættið á Rúv í gær. Sú var stúdíóspilari og spilaði inn á marga helstu poppslagarana (Good Vibrations, Light my fire, Happy together...) og vann með öllum þessum körlum... Brian Wilson, Phil Spector, Quincy Jones... Get þó huggað mig við að þátturinn er endurtekinn á sunnudaginn kl. 15.05. EKKI MISSA AF ÞVÍ!
---
Viðtali Rósu Ingólfs við mig á Sögu verður endurvarpað í kvöld kl. 21. Fm-gildið ku 99.4.
---
Sláandi tíðindi að Sigur Rós skuli vera á fóninum þegar Fred Durst hefur kynferðismök. "Það ógeðslegasta sem ég heyrt á ævinni" sagði Kjartan Sveinsson.
---
Hvað er að þessum Nirði? Hann gefur ekkert nema gallaðar gjafir.

02.03.05
Verð í viðtali hjá Rósa Ingólfs á Útvarpi Sögu á morgun (fimmtud) kl. 10. Já, sú stöð er ennþá í loftinu.
---
Fékk diskinn Frank Murder í hendurnar í dag. Gott stöff. Fæst í 12 tónum o.s.frv.
---
Fátt er betra en þögn eftir langt grátkast (orðatiltæki frá Indónesíu)...

01.03.05
Úff hvað stöffið úr Krúa Thai er gott... en líka sterkt. Það svíður á mér túlinn eftir sjóvarréttarsalatið þeirra. Samt bað ég um að hafa það ekki sterkt. Ég lifi þetta af.
---
Keypti barnastól á hjólið. Enda vor í lofti og flugeðlurnar byrjaðar að garga.
---
Útgáfa mín af Bjarkarlaginu Army of me verður á góðgerðarplötunni hennar Bjarkar sem er væntanleg. Ég er auðvitað himinlifandi með það, enda voru 600 versjónir sendar inn og bara tuttugu sem enda á plötunni sem er tvöföld og seld til að gefa Unicef innkomuna. Nú verð ég að fara að tussast til að búa til eins og eina plötu...
---
Já það kemur plata á árinu - andskotinn hafiða!
---
Er að vinna íðí að þróa upp áhuga á rauðvíni. Gengur nokkuð vel. Get dreypt á hálfu glasi á kvöldi án þess að það líði yfir mig eða ég æli.

28.02.05
Var á Skólavörðustíg. Sá flugeðlu stinga sér í tjörnina. Hún öskraði og endurnar fríkuðu út. Þetta var draumur.

27.02.05
Góðan daginn: Topp 5:

Marxy - Neoplasticism vs. De Stijl: Marxy er David Marx, Kani sem býr í Japan og er heillaður af tónlistarlífinu þar, hinu svokallaða Jpop o.s.frv. Hefur gert sólóplötu sem mér lýst vel á. Svona grúví hrærigrautstónlist með Beach Boys á sínum stað og fleiru skemmtilegu. Hér er heimasíðan hans.

Ohio Express - Zig Zag: Hljómsveit sem ég er endalaust að fatta einhver snilldarlög með. Helsta bubblegum sveitin (Bubblegum er gott) og átti megasmellinn Yummy yummy yummy. Þetta öfuga lag var á B-hliðinni á Yummy og er sönnun þess að þessir gaurar reyktu hass og droppuðu jafnvel Lsdi. Endilega tékkið á lögum eins og Chewy chewy og Mercy með þessum snillingum. Bubblegum síðAN er hér.

Huun-Huur-Tu - Aa-Shuu Dekei-oo: Þessir snillingar eru á leiðinni á Listahátíð, spila á Nasa í maí! Maður mætir enda alltaf gaman að þessum barkarsöngvurum frá Túvu. Ég held mig hafi bara aldrei langað á neitt á Listahátíð fyrr. Kannski er þetta merki um andlega hrörnun. Karlarnir frá Túva eru hér.

Zounds - Can't cheat Karma :  Heyrði í Jóni Gnarr. Við töluðum um gamlar Crass-plötur og kaþólska trú. Í framhaldi af því dánlódaði ég slatta af þessu gamla Crass drasli sem maður átti á vinýl. Hér er eitt bandið, Zounds, og þetta hljómar nú bara ennþá í góðu lagi. Crass-leibellinn er hér.

Jay-Z - December 4th: Líklega fréttir síðan í gær fyrir flesta, en ég var nú bara að fá mér þessa Black Album plötu þessa karls núna. Mörg lög eru gott stöff, önnur slappt drasl. Sérlega gaman að lesa textana með enda skilur maður ekkert annars. Megastjarnan er hér. Svo er það náttúrlega Dangermouse platan Grey album, þar sem þessu og Hvíta albúmi Bítlanna hefur verup hrært saman.
---
Curver mætir í Tónlistarþátt Dr. Gunna í dag kl. 16-18. Bara svona að minna á það.

26.02.05
Jamm og já. Það er hann Curver eða Bibbi, sem mætir galvaskur í Tónlistarþátt Doktor Gunna á morgun (sunnudag) kl. 16. Fokking magnað virðulegast hey!
---
Það er minna en mánuður í Kanarí/fjölskyldu-ferðina ógurlega. Fríhöfnin heillar með sinn 20 gb iPod á 27.990 kr (Apple umboð 44.900 sem er reyndar ekki þeim að kenna heldur geðsýktri skattastefnu). Hlakka einnig til að klippa mig (daginn fyrir ferð) enda líður ekki sá dagur að Lufsan segi mér að þessi lubbi í kringum skallann sé viðbjóður. Svo sem rétt hjá henni.
---
Verð að mæla eindregið með þjónustufyrirtækinu Tölvuvirkni. Tipptopp menn og þjónusta.
---
Rósa Ingólfs vill fá mig í þátt sinn á Útvarpi Sögu á fimmtudaginn kl. 10 eða 11 held ég. Læt þig vita. Sólóplata Rósu frá 1972 er auðvitað glamrandi gott batik-popp. 
---
Auðvitað minnkaði bloggið helling eftir að ég byrjaði á DV enda má segja að ég sé á launum við blogga þar. Blogga þó aftur á morgun enda í helgarfríi. Eins og á sunnudögum almennt mætir líka nýr Topp 5 á svæðið...

20.02.05
Sunnudagur: TOPP 5!

Gunni og Dóri - I am just a boy: Fann þessa í Safnarabúð Valda. Gunni og Dóri voru greinilega frá Hafnarfirði miðað við auglýsingarnar á bakhlið smáskífunnar og stórhljómsveitin Júdas spilaði undir hjá þeim. Ágætt 70s popp hjá strákunum. Útgefandi MÓK Records 1975. Gaman að geta þess að Klara Jónasdóttir á Eskifirði átti þessa plötu einu sinni. Skyldi hún sakna plötunnar?


Neo Maya - I won't hurt you: Neo Maya var í raun sólóverkefni Graham Carter-Dimmock (flippaði gaurinn með málninguna framan í sér), sem var í ensku létt-sýru hljómsveitinni Episode Six, sem er frægust fyrir að innihalda Roger Clover og Ian Gillian, sem síðar fóru í Deep Purple (í þessari setningu voru notuð 3 "sem" sem er lögbrot. Ég verð hýddur fyrir framan Þjóðarbókhlöðuna á degi íslenskrar tungu). Lagið kom út 1967 og er kóver af lagi með sækadelíubandinu West Coast Pop Art Experimental Band, sem maður þarf greinilega að tékka betur á. Svona er hægt að skoða rokksöguna endalaust. Þetta lag og mörg fleiri góð má finna á safnplötunni Hot Smoke & Sassfras í Psychedelic Pstones seríunni, en þar er safnað saman ýmsu stöffi sem breska Pye útfgáfan gaf út.


Taugadeildin - Her longing: Var að sjálfssögðu of heimakær til að tékka á endurkomu Taugadeildarinnar sl. föstudagskvöld en vonandi spila þeir einhvern tímann á kristilegum tíma svo ég geti mætt. Eða ég reyni að vaka fram yfir miðnætti næst þegar þeir spila. Annars getur auðvitað brugðið til beggja vona með svona kombökk og oft betra að eiga minninguna ómengaða. Eða ekki. Hér er allavega lag af EPinu góða frá 1981 og myndin er frá tónleikunum Annað hljóð í strokknum í Laugardalshöll, sem var magnað festival (í minningunni allavega). 


Kings of Leon - King of the rodeo: Þessir hárugu folar eru mættir með plötu #2 Aha Shake Heartbreak sem hvarf frekar mikið í fyrra. Kannski brjótast þeir í gegn í ár. Platan er allavega tottþétt á köflum. Samt er eins og bönd eigi bara einn séns í dag. Hampað fyrir plötu #1 en engin nennir að spá í þeim þegar plata #2 kemur. Sjáið t.d. Strokes, Hives o.s.frv. Alveg búnir áðí. Allt hæp búið. Samt undantekningar náttúrlega... White Stripes...


The Kills - No wow: Þetta þunglyndisrokkpar með asnalegu nöfnin (Hotel, VV, hvað er það?!) er líka mætt með plötu #2 og þetta er titillagið. Drullugott stöff verð ég að segja. PJ Harvey all over again eða eitthvað. Drulluferskt helvíti.
---
Þetta og margt fleiri djúsí má svo heyra í þættinum DOKTOR DOKTOR í dag (sunnudag) kl. 16 á Talstöðinni (FM 90.9).

18.05.05
DOKTOR DOKTOR, útvarpsþátturinn góðkunni á TALSTÖÐINNI FM 90.9 verður framvegis á SUNNUDÖGUM á milli 16 og 18 eða 4 og 6 (eins og sagt er). Á Sunnudaginn verður einmitt gífurlega góður þáttur á dagskrá. Meira um það síðar (eins og sagt er).

13.02.05
Hey hó, topp 5!

Nick Drake - Hazey Jane II: Þennan gaur er í tísku að fíla í dag, en mér finnst hann bestur þegar hann hleður aðeins oná músikkina, er ekki bara eitthvað með kassagítar einn að væflast. Því finnst mér Brayter Layter frá 1970 hans besta stöff og þetta lag er einmitt þaðan. Jafnframt fyrsta lagið sem kikkaði inn með honum hjá mér. Gæti verið Love eða Belle & Sebastian.


Seabear - Drunk song: Þetta er nú bara einhver Sindri sem var í Lovers Without Lovers sem spilaði á fyrsta Innipúkanum en kemur nú með svona assgoti flotta plötu Singing Arc sem fæst í 12 tónum á 500 kall. Tékká því krakkar.


M.I.A. - Pull up the people: Öpp and komming stjarna geri ég ráð fyrir sem er voða vinsæl hjá mp3-bloggurum heimsins. Stelpa frá Sri Lanka sem settist að með foreldrum sínum í London og er að meikaða núna með plötuna Arular. Sprellifín borgarmúsik með 3ja heims keim. Mjög grúví. Mia er með heimasíðu.


Slint - Good morning captain: Platan Spiderland var nýkomin út þegar Bless túraði um Bandaríkin. Keypti þetta á kasettu til að hlusta á í sendiferðarbílnum og var svona assgoti hrifinn. Man að maður var líka með Jesus Lizard á spólu og orginal kasettur Daniels Johnston og eitthvað fleira stöff, líklega aðallega frá Touch & Go og Homestead Records, stöff eins og Live Skull, Naked Raygun og My Dad is Dead. Hef verið að endurnýja kynnin við Slint, en Spiderland er auðvitað algjört year 0 í þessu postrokki öllu. Ennþá alveg magnað sjitt.


Couch Flambeau - Ghostride: Í sömu ferð var mér bent á að tékka á þessu bandi af því söngvarinn væri alveg eins og ég. Ég veit það nú ekki en þetta lag hefur löngum verið í uppáhaldi. Titillag plötu frá 1989. Þetta band virðist vera starfandi ennþá, grínrokksveitalúðar frá Milvokí. Meira á heimasíðunni þeirra.
---
Fyrsti DRDR á Talstöðinni var í gær kl 15 en svo er þetta víst endurtekið eitthvað. Veit samt ekki hvenær. Ske-mennið Guðmundur Steingrímsson mætti og var í góðu stuði. Pleilistana má sjá hér. Alltaf gaman að spila tónlist í útvarpinu. Meistari Stjáni Stuð veit hvað hann syngur.
---
Vek athygli á því að Tempó innrömmun er flutt. Nýja addressan er Hamraborg 1-3, inngangur við hliðina á Innvali.
---
Át þorramat í gær. Sem betur fer ekki yfir mig því ég þurfti að vera á sífelldum hlaupum að passa að Dagbjartur dytti ekki niður stiga eða skemmdi ómetanlegt glingur. Kom svo heim og át 200 grömm af blandípoka frá nammilandi Hagkaupa. Tel það ekki kraftaverk ég sé ekki með rosalegan magaverk núna heldur árangur holls matarræðis venjulega. Maður er búinn að massa magann á sér upp sl. mánuði. Einu sinni var maður eins og liðið í "You are what you eat", rekandi við og ropandi í tíma og ótíma, bumbult og sveittur. Nú er það liðin tíð sem betur fer en samt kom Gillian hvergi nærri. Grundvallaratriði að maður eyðileggi sig ekki af ruslmat. Alltílagi að hafa nammidaga annað slagið eins og í gær, fórum með Db í fyrsta skipti á McDonalds. Át þennan Big Tasty. Fyrsti bitinn var eins og maður hefði smakkað á dauðanum sjálfum en næsti var ókei, sá þriðji bestur. Nú þarf maður ekki meira McDonalds fyrr en í nóvember.
---
Ipodd.... tja. Nú eru menn að segja mér að allskonar annað drasl sé í boði. Iriver og Rio og ég veit ekki hvað og hvað... Eru ekki Bang og Olúfsen með eitthvað? Einu sinni voru þeir toppurinn. En kannski eru þeir búnir að missa af mp3 byltingunni. 

11.02.05
Jamm og jú: þátturinn DOKTOR DOKTOR fer aftur í loftið á morgun á TALSTÖÐINNI kl. 15. Þetta verður svipað og það var, en reyndar einum tíma styttra. Fjölbreytt fyrst og fremst. Það verða óskalagagestir þegar það þarf. Á morgun erða Guðmundur Steingrímsson úr SKE. Stilla á 90.9 já já og sei sei.

10.02.05
Massa mössun á DV daglega svo maður nennir ekki miklu hér. Er berfættur í vinnunni og allir á DV/Fbl eru búnir að hafa orð á því. Ægilegt stuð. Maður er bara að verða allt í öllu þarna á Frétt/Og/Baugsmiðlum og ég sé ekki betur en þátturinn DOKTOR DOKTOR hefji útsendingar aftur á laugardaginn, nú á milli 15-17 (eða 3-5 eins og sagt er). Þá á ég við á útvarpsstöðinni TALSTÖÐIN tíðni 90.9 (sama og Skonrokk). Meira um það síðar. En hér er allavega kjallagrein um GRÆNLAND (úr DV frá því sl föstudag) og hér er önnur kjallaragrein um GAMALMENNI (frá því í fyrramálið). Þó kl. sé bara 22 er ég að fara að sofa því kl. 06 erða brettið. Nú með einhvern 512MB mp3-spilara úr BT á 14kall í fyrsta skipti. Konan fær hann þegar ég verð kominn á Æpodd (bráðlega). 

06.02.05
Toppurinn á tilverunni er Topp 5!

Syn - Grounded: Hér er komið bandið sem Gunnar Jökull spilaði með í London áður en hann kom heim og gerði sín þrumuspörk með Flowers og Trúbrot. Syn kom út 2 smáskífum á líftíma sínum (1966-1968) en tveir meðlimanna fóru yfir í ofurbandið Yes eins og kunnugt er og nauðuðu í Gunnari að koma líka. Hann nennti ekki meira harki og átti að auki í veseni með atvinnuleyfið. Því fór sem fór. Nú berast þær frík-fréttir að Syn sé byrjuð aftur og út sé komin plata með gamla stöffinu og rarítes. Meira um málið á heimasíðu Syn, en þessi diskur er möst enda þessi 4 lög sem maður hefur heyrt mjög gott sixtís stöff. Það má til gamans geta að ég fann aðra litlu vinýlplötuna fyrir slysni í Safnarabúðinni fyrir 2 árum og keypti á 50 kall. Seldi svo umsvifalaust til ensku safnarasjoppunnar Intoxica á 60GBP og taldi mig góðan. 

Blood brothers - Crimes: Drullugott lag með misjafnri bandarískri hljómsveit. Er titillag plötu #2 sem kom í fyrra.

Wheels - Bad little woman: Voru við hliðina á Them sem aðal beatbandið í Belfast. Þetta er frumsamið og frá 1966. Hinn magnaði söngvari mun heita Brian Rossi.

Daft Punk - The Prime time of your life: Þessir snillingar eru á leiðinni með plötuna Human after All. Maður gerir gríðarlegar vonir til plötunnar eftir meistaraverkið Discovery frá 2001. Sú útlekna útgáfa sem ég hef náð mér í á forhertan máta á Alnetinu gefur þó lítið tilefni til gleðiláta því hún er svo sannarlega ekki í þeim hágæðaklassa sem Daft Punk hafa verið í hingað til. Þetta er eitt skásta lagið, einfalt og nokkuð kúl. Kannski er þetta eitthvað djók hjá strákunum. Láta lélega plötu leka út og mæta svo með meistaraverkið þegar þar að kemur? Eða kannski ekki.

Tatarar - Fimmta boðorðið: Hér er komið dúndursýruheimsádeilurokk frá 1970 með hljómsveitinni sem er aðallega þekkt fyrir lagið Dimmar rósir. Kaflinn um þetta fína band fokkaðist upp í bókinni Eru ekki allir í stuði (sem ánægjulegt var að sjá Gísla Martein veifa í gær) og því hef ég sett Tatara-kaflann inn hér. Betra seint en aldrei.
---
Sá hljómsveitina Arcade Fire fyrir slysni í þætti Conan O'Brien á einhverri stöð á Digital Ísland í gær. Ég hélt að þetta væri voða alvarlegt og þunglynt band en svo voru þau rosa hress og með líflegt og töff sjó. Magnað stöff og sýnir manni nýja vídd á bandið. Arcade Fire til Íslands!
---
Við konan áttum unaðsnótt á Hótel Selfossi í fyrradag. Mjög módern hótel en full fáir að vinna á því. Þurfti að bíða í korter eftir að tékka mig út. Svo var þjónninn með tyggjó sem er frekar off. Að öðru leiti massíft. Í boði er hótelherbergi, 3xrétta matur (góður) og morgunverður (ókei) á 13.800 kall samtals. Svokallaður "smellur". Í sama húsi og hótelið er Bíó Selfoss sem við nenntum reyndar ekki í en hefðum getað séð Meet the Fockers. Á Selfossi er besta Nóatúnsbúð landsins, ein af topp 5 matvörubúðum Íslands. Magnaður bær Selfoss ha? Gott að lyfta sér aðeins upp í skammdeginu og flatmaga barnlaus á hóteli.

03.02.05
Alltaf gaman að hringja í stofnanir, sama hvort það sé Landsbankinn eða eitthvað annað. Var einmitt að láta skella á mig í LÍ, eða slitið samband. Hringdi, var 10 í röðinni, komst á skiptiborðið, var gefið samband einhvert, var 10 í röðinni þar, það reyndist svo vitlaust kona sem ætlaði að gefa mér samband annað. Beið í þögn (sem er reyndar mun betra en Létt fm) og þá rofnaði sambandið. 10 mínútur af lífi mínu farnar út í loftið. Hvað á ég að gera núna? Hringja aftur og vera með kjaft eða hringja aftur og vera almennilegur, fara kannski sama hringinn aftur. Brjálast þá og æða í bankann með haglarann sem ég ræni hér hjá byssusmiðnum á horninu? Svona verða geðsjúklingarnir til. Já já það eru svo sem mánaðarmót, jakkidíjakk. 
---
Allt þetta lið sem var að kynna í gær á ÍTV var eins og á valíum. Hægt og drafandi. Þá er ég að tala um þá sem afhentu dótið. Guðmundur Steingrímsson var hinsvegar voða hress eins og Gísli Marteinn, topp náungi. Þórunn líka svaka góð. Nenni annars ekki að tala meira um þessa hátíð. Þetta er bara svona. Popp og Rokk hefði samt auðvitað átt að vera einn flokkur en "dægurtónlist" hefði alveg mátt vera sér. Þá hefði bara mátt kalla það Skallapopp.

1.02.05
Byrjaði að vinna á besta blaði landsins í dag, hinu háalvarlega og virta DV. Geir Ólafsson mætti á svæðið. Hann verður víst í blaðinu á morgun, eitthvað um að hann eigi að syngja næsta Eurovision-lag. Hann hringdi í Markús og pantaði fund og allt. Einu sinni kom Geir upp á Fókus þegar ég vann þar fyrir 5 árum eða svo og var ekkert að tvínóna við það heldur hóf að nudda á mér bakið þar sem ég sat í kryppu við tölvuna. Verð að segja að Geir er hörkugóður nuddari og ég linaðist allur upp. Almennilegir vinnuveitendur ættu að hafa rænu á að fá nuddara til að mæta á svæðið einu sinni í viku og nudda liðið, enda hanga flestir fyrir framan einhverjar tölvur allan daginn.
---
Það er komnir helvítis hraðamælar á spinning-hjólin í Ræktinni. Nú getur maður séð svart á hvítu hvað maður er slappur. Það er kannski allt í lagi því getur maður bætt sig og eitthvað svona sjitt.
---
En jæja, ég er semsé byrjaður á DV og því veit maður ekki hvort þetta blogg verður beisið. Jú jú, maður getur eitthvað röflað hér. Samt spurning af hverju maður röfli ekki frekar á DV og fái borgað fyrir það í staðinn fyrir að röfla hér í einhverskonar tómarúmi.

30.01.05
Tími fyrir TOPP 5!

M83 - Don't save us from the flames: Það er komin ný plata frá þessum franska gæðadúett. Þetta er fyrsta sínglan af henni. Katsí stöff.

The Magnetic Fields - Papa was a rodeo: Verð að játa að ég er næstum því hreinn sveinn þegar kemur að þessu bandi og því sem Stephin Merritt hefur gert (hann er allt í öllu í þessu bandi). Ótrúlega mikið stöff sem liggur eftir hann. Þetta lag er t.d. af plötunni 69 Love Songs sem er þreföld og inniheldur 69 lög. Svo er hann í fullt af öðrum böndum og ég veit ekki hvað og hvað. Maður tekur hann svona í skömmtum. Þetta lag er allavega snilld...

Gang of Four - At home he's a tourist: Gang of Four eru afar banda eins og !!!, LCD Soundsystem, The Rapture og Franz Ferdinand og fundu eiginlega upp fönkpönkið á hinni stólpagóðu plötu Entertainment! (sem ætti að vera til að hverju heimili etc). Þessir öldnu snillingar eru nú komnir saman aftur og hafa verið að spila í fyrsta skipti síðan 1981. Í því tilefni er hér eitt af frábærum lögum Entertainment!

The Misunderstood - I Unseen: The Misunderstood var eitt óheppnasta rokkband 7. áratugarins. Stóðu í skugganum af Jefferson Airplane og Grateful Dead í San Fransisco, fluttu þá til Englands og gáfu út fyrsta síngulinn sinn sama dag og Jimi Hendrix kom með Hey Joe. Hættu skömmu síðar. Engu að síður magnað band, drungalegt sýrurokk í bland við venjulegra R&B. Bandið hefur fengið uppreisn æru í seinni tíð og mér sýnist á heimasíðunni að kvikmynd sé í burðarliðnum (Fullt af frírri músik annars á þessari síðu). Önnur góð síða hér. Söngvarinn (þessi lengst til vinstri) fór annars til Tælands eftir að bandið hætti, gekk í klaustur og stendur nú í gimsteinaframleiðslu. Alltaf gaman að þessum gömlu rokkurum.

The Groop - Woman you're breakin' me: Meira 60s stöff. Hér er hittari sem var vinsæll í Ástralíu á sínum tíma enda bandið þaðan. Meira á þessari nostalgíusíðu
---
Sideways er mögnuð mynd...

28.01.05
Frábært videó með Björk hérna, þetta með kettinum. Mjög sannfærandi fyllirríissenur og svo vaknar maður út í móa og allt verður ókei. Egill Sæbjörnsson og Laddi líka alveg að standa sig.
---
Ég er eggjamaðurinn
Þeir eru eggjamennirnir
Ég er rostungurinn
Gú gúgga djúbb...

Hvert var maðurinn að fara? Líklega ekki neitt. Var annars að hlusta á þetta lag í sniglaútgáfu Spooky Tooth. Næs.
---
DV-kjallaragrein í dag. Alveg þokkaleg, segi ég af fullkomnu lítillæti.
---
Stórmeistarinn og pönkskrokkurinn Ceres 4 er búinn að opna á sér heimasíðuna.
---
Stórskemmtilegar fréttir alltaf af göngunum á Árna Johnsen og einhverjum Sven og Knut hjá NCC. Svona var viðtalið með Árna og Þórhalli í gær:
Þ: Já en Sven sagði... 
Á: Sven? Sven segir nú svo margt. Knut segir að Sven sé fífl. 
Þ: Já, en Sven er aðal, er það ekki? 
Á: Nei nei, Knut er aðalmaðurinn í þess. Það eru 40 þúsund manns að vinna þarna og Sven veit ekkert hvað er í gangi.
Þ: Já en annað heyrðist mér nú á Sven.
Á: Sven, Sven? Þú færð ekkert meira út úr mér um þetta. Ég er hérna með tvö A4 blöð sem Knur lét mig fá. Sjáðu... Við erum að tala um 15 kúlur í þessi göng. Það búa 4200 manns í Eyjum sem þýðir 3.5 milljón á kjaft. Hundódýrt. Spörum þar að auki stórfé með að leggja niður Herjólf. Göng til Eyja strax!!!
---

Í hinu frábæra Listasafni Akureyrar má nú sjá 100 milljónir í reiðufé. Ég er reyndar ekkert svo upptjúnaður yfir þessu enda fyrrverandi bankagjaldkeri og fór líka stundum í ferðir í Seðlabankann til að sækja seðla fyrir bankann. Þessi haugur hér að ofan er algjört pínötts miðað við hrúgurnar sem maður sá þar. Illalyktandi pappír maður, það eru peningar. Þarna í Seðlabankanum voru sumir starfsmenn í því að flokka út skemmda og rifna seðla og svo var þeim fargað. Gott djobb og örugglega gaman að fá útborgað. Sorphirða kapítalismans.

25.01.05
Úff, fékk ælupest í gær. Ældi tvisvar (fyrst öllu sem ég át í barnaafmæli á sunnudaginn, svo vínberjum, melónu og 2 plómum). Þetta var nokkuð ömurlegt, en samt dálítið kúl. Verst að ég náði því ekki á mynd þegar ælan spýttist upp. Eitthvað perverskt við það að vera með spýjuna upp úr sér.
---
Keypti líka 6 daga ferð til Kanaríeyja í gær. Djísúskræst mainstrím gæi eitthvað. En þetta verður fínt. Öll systkini mín nema eitt og aldraðir foreldrar öll saman á ströndinni. Verður gaman fyrir Dagbjart. Talandi um mainstrím: Kláraði Kleifarvatn og er byrjaður á Englar og djöflar.
---
Einu sinni var ég með undirskriftasöfnun til að fá Conan O'Brien aftur á Skjá Einn. Það gekk ekki neitt. Conan er auðvitað algjör snilld og endalaust skemmtilegur. Nú er komin síða þar sem hægt er að dánlóda þáttunum hans. Það er nú algjörlega frábært.
---
Funmachine er eins manns hljómsveit með Pétri sem bíður upp á gott stöff.

23.01.05

Þessi mynd er fengin úr National Geographic frá 1951 en í blaðinu var viðamikil landkynning. Blaðið bauð svertingjakonunni M'búggú til landsins til að kynna sér land og þjóð. Við Kerið var M'búggú á vegi Guðrúnar og Sörla og fékk auðvitað þessa sígildu spurningu. Meira um málið í bráðskemmtilegri grein eftir Egil Helgason.
---
Þessi mynd er frá þeim klámlausa tíma (löngu áður en helvítis dönsku hipparnir fóru að troða loðnu kviðarslátrinu á sér framan í hinn vestræna heim) þegar menn létu sér berbrjósta konur af exótísku bergi brotnu nægja sem ýtarefni við sjálfsfróun. Svona myndir var helst að sjá í hinu magnaða tímariti National Geographic. Menn góndu á myndirnar í þágu þekkingar og mannfræði og gátu þannig sameinað vísindarlega viðleitni og holdsins fýsnar. Gullöld rúnksins.
---
Í ljósi áramótaheitsins um jákvæðni vil ég segja eftirfarandi: Gísli Marteinn var fínn í gær enda listamaðurinn Sigurður Guðmundsson hjá honum sem er algjör meistari. Þar að auki var Spaugstofan alveg ágæt. Nei nú gekk ég of langt. 
---
Topp 5! Alltaf á sunnudögum.

Lio - Bébé Vampire: Belgísk en sló í gegn í Frakklandi. Þetta er af fyrsta albúminu (1980). Gæða euronýbylgjupopp. Síðar sýndi hún sig bera í Lui, lék í bíómyndum og var með frægum frönskum köllum. Klikkar ekki.

The Source with Candi Staton - You get the love: Candi Station fædd í Alabama 1943. Soul hetja framan af. Þetta sett í þennan búning af The Source 1997 og sló í gegn. Topp stöff.
ATH: Við þetta hefur meistari Margeir eftirfarandi að athuga: má til með að leiðrétta eitt... þessi útgáfa af Candi Staton (Eren's Bootleg mix) var sett saman 1990 eða 1991. Eflaust endurútgefið 1997.Söngnum frá Candi Staton er skellt ofan á örlítið eldra lag frá Frankie Knuckles, Your Love (frá 1987) sem ég myndi tjékka á - ef þú hefur ekki gert það nú þegar.

Ann Peebles - I can't stand the rain: Önnur suðurríkjadrottning, fædd 1947. Þetta æðislega lag er frá 1973.

Gwen Stefani - Hollaback girl: Það vita nú allir hver þetta er, en kannski ekki allir að sólóplatan hennar ("Love.angel.music.baby") er bara hörkugóð poppplata (XXX) þar sem 80s-new wave-popp áhrif a la GoGos sullast saman við það nýjasta í R&B upptökugeðveiki etc. Mainstream en meingott.

Sir Alice - Bouda is Materia Girl: Hér er hin franska Alice Daquet, eða Sir Alice eins og hún kallar sig. Gerði fyrsta albúmið ("Sir Alice") í fyrra og er ekkert að skafa utan af því. Þess má geta að merde þýðir skítur og putain þýðir hóra. 

22.01.05
Einu sinni þótti dálítið merkilegt að ég, þessi rosalegi rokkari, væri að vinna í banka. Það komu nokkur viðtöl við mig þar sem þessi brjálaða þversögn var í brennidepli. Nú er útfararstjórinn / teknó-djinn Frímann kominn í mitt gamla hlutverk og má segja að hann sé ennþá meiri þversögn en ég var. Sá í morgun á brettinu endurtekið innslag með honum í hinum ágæta unglingaþætti Ópið. Frímann er mikill meistari og ef ég væri dauður vildi ég tvímælalaust að hann sæi um giggið. Vil samt reyna að sleppa við þetta kirkjurugl og glæsilegast væri ef Frímann gæti hakkað mig og hent hakkinu út í sal á Nasa þar sem sveitt liðið mundi maka sig hakkinu og æstasta liðið leggja það sér til munns. Veit samt ekki hvort Björn Bjarnason kirkjumálaráðherra sé búinn að ganga þetta langt í að hætta að hefta einstaklingsfrelsið.
---
Þessi hugmynd, að hakka sig, er ekki mín. Ég las þetta í Tímanum fyrir 20 árum síðan eða svo. Þá þýddi sagnfræðingurinn Árni Daníel (sem var í Taugadeildinni en sú sögufræga nýbylgjusveit mun byrjuð aftur!) viðtal við The Cramps þar sem gítarleikarinn Poison Ivy vildi láta hakka af sér líkið og dreifa því úr flugvél yfir Disneyland. Þetta er eitt af þessum smáatriðum sem hafa tekið sér sæti í einhverri heilafrumunni og sitja þar kyrfilega enn. Samt man maður ekki einu sinni hvað maður var að gera á mánudaginn. Hér er mynd af Poison Ivy áður en lengra er haldið:

---
Hér er kjallagrein sem birtist í gær. Átti að birtast fyrir viku en þá seldist auglýsing á síðustu stundu og mér var hent út.
---
Ég var eitthvað brattur um daginn og boðaði það að fara að skrifa dóma um plötur hérna á síðunni og skrifaði m.a.s. um hina ágætu nýju Chemical Brothers plötu. Held samt ég nenni því ekki því ég er ekki frá því að ég sé eiginlega alveg hættur að hlusta á albúm í heilu lagi nema það sé eitthvað alveg sérstakt. Nú er það bara random eða shuffle sem blífur. Það held ég nú séra minn.
---
Hér er bíómynd sem ég myndi sjá. Hún verður þó varla sýnd hér enda ekkert IMAXbíó á landinu. Djúpsjávarævintýri eru endalaus snilld. Eitt af því "góða" sem flóðbylgjan mikla hafði í för með sér var að allskonar fríkfiskum skolaði á land. Mér skilst að engir af þessum fiskum hafi verið þekktir enda er sjórinn ennþá frekar ókannaður. Hér er tveir fáránlegir fiskar til að ná þér niður eftir Poison Ivy.

19.01.05
Menn halda áfram að lofsyngja Ipoddinn í emailum. "Það besta sem kom fyrir mig á liðnu ári", "'Eg á 40gb iPod og nota hann mikið í ræktinni á hlaupabrettinu og er það
allt annað líf að hlaupa nú eftir að ég fékk mér hann", "Þetta tæki er frábært, ég á 40GB útgáfuna og þar rúmast megnið af tónlistarsafninu mínu"... 
---
Það er því ljóst að nú er Ipod settur á oddinn og dugar þá ekkert minna en 40 GB tæki. Það er greinilegt að tími CDsins er að renna út hratt. Sá konu með Ipod strekkta á hendinni á bretti við hliðina á mér í morgun, mér sýndist það vera svokallaður míní Ipod, en samt, mér datt eitt augnablik í hug að rota konuna og stela tækinu, eða allavega fá að handleika það slefandi af áhuga. Hætti þó við en þetta leiðir hugann að því að þegar Ipodd verður kominn í hús verður maður að læsa það inni er maður fer í sturtu. Þýðir ekkert að láta svona gersemi liggja á glámbekk. Nú er bara að koma sér upp einhverri smygláætlun því það er ekki beint samkeppnishæft verðið sem Apple-umboðið bíður upp á:

iPod 40GB:
Apple á Íslandi: 54.055 (Netverð)
Amazon.com: 399$ = 25.000 

Hér munar ekki nema tæplega 30.000 kalli, enda þarf íslenska Apple-umboðið að geta rekið sig og tollurinn og skatturinn og allt það dót að fá sitt. Ef ég keypti þetta í gegnum Shopusa væri verðið á endanum 44.000 kall sýnist mér, sem er líka ósamkeppnishæft. Hmm. Best annars að tala ekki meira um þetta yfirvofandi stórsmygl hér því þá þarf ég að hátta og mæta gúmmíhanskaklæddum örlögum mínum næst þegar ég fer í gegnum tollinn.
---
Samsæriskenningin um Pentagon-hryðjuverkið lifir góðu lífi. Hér má sjá það hljóð- og myndskreytt.

18.01.05

Nokkrir hafa sent email og mæra allir iPoddinn í hástert. Mjög fræðandi var emaill frá Hákoni á rokk.is sem ég birti hér iPodd-pælandi fólki til upplýsinga:

iPod er jú magnað tæki. Hann er eiginlega ekki hægt að nota nema að nota iTunes líka (nema ef þú setur öll lögin þín inn á iPoddinn bætir svo engu við) þannig að ég mæli með því að þú prófir að sækja iTunes og athugir hvernig þér líkar það. (til að halda utan um tónlistarsafnið). hægt er 
láta iTunes búa til sérmöppur með allri tónlist á tölvunni og inni henni eru svo aðrar möppur flokkaðar eftir flytjendum. sækja hér frítt http://www.apple.com/itunes/  og svo hér 
http://www.apple.com/itunes/download/

núna eru til 3 tegundir af ipod og þó að sá stærsti geymi mest af tónlist (og myndum) þá er hann líka þyngstur og stærstur sem getur verið óskostur ef þú vilt hafa mjög nett tæki.
semsagt:
iPod 20 - 60 gb er 160-190 grömm
ipod mini 4gb er ca 100 grömm
ipod shuffle 1 gb og 22 grömm og pínulítill en enginn skjár (tekur bara 250 lög sem maður ætti að þekkja hvort sem er).

Minn ipod týndist hérna í Þýskalandi og núna ætla ég að kaupa mér iPod shuffle. það tæki er svo ótrúlega lítið og létt og með 12 tíma batterí. þó að hann taki bara 250 lög þá getur maður bara skipt út reglulega. þegar maður tengir hann við tölvuna og iTunes þá er hægt að láta itunes 
fylla á hann af handahófi með uppáhaldslögunum sínum (eftir stjörnugjöf í itunes). ég hugsa að ég setji samt bara heilar plötur inn á hann og þau lög sem ég vil hlusta á í hvert skipti.
það er líka freistandi að fá sér 40 gb ipod og setja allt safnið sitt inn enn hann hentar ekki jafn vel til að hlaupa með úti eða eitthvað svoleiðis, örugglega fínn í ræktina.
Svo á ég líka FM transmitter fyrir ipod sem sendir út á FM tíðni það sem ipoddinn spilar (dugar innanhúss og í bíl). þá getur maður notað græjurnar sínar til að hlusta á lögin úr ipodinnum og þarf ekki að vera að setja einhverja bjánalega diska í spilara til að skipta um tónlist.

Gallarnir eru nokkrir:
fáranalega dýrt á íslandi út af einhverju tolladrasli hjá (ritskoðað) í tollinum. Allir kaupa sér ipod úti eins og staðan er í dag. einnig má ekki selja svona FM transmitter á íslandi og í Evrópu og því kaupa allir sér það í USA (er annars stoppað í tollinum enda stórhættulegt tæki).
ef maður kaupir ipod úti sem svo bilar þá gerir Apple "umboðið" á íslandi ekkert fyrir mann og þá þarf að koma ipoddinum út aftur og síðan til landsins framhjá tollinum.
galli fyrir suma: ekkert útvarp í ipod en maður hlustar lítið á útvarp á íslandi ef maður á ipod.

Það er nebblega það... Nú er bara að byrja að safna fyrir þessari, að því virðist, snilld!

---
Einþáttungur dagsins í boði Símans.
G: Halló?
H: Já, uhhh, Haukur hérna.
G: Haukur?
H: Já Haukur. Haukur timburmaður.
G: Já. uhhh..?
H: Hvað segirðu um spænina?
G: Spænina?
H: Já, spænina.
G: Ég held þetta sé nú vitlaust númer.
H: Nú já.
---
How do you like Iceland var ágætur þáttur. Bara verst að útlent lið sem hefur einhvern áhuga á Íslandi er upp til hópa bjánalegt lið. Það voru margir bjánar að tjá sig í þessum þætti, klisjulegt þrugl, kannski koma klisjurnar að utan, kannski eru þetta klisjur sem við ýtum undir. Veit það ekki. Monty Python kallinn var eini almennilegi viðmælandinn í þessum þætti. 
---
Nýjasta gerviþörfin sem mig langar alveg ægilega í er Ipod, helst með 40GB minni. Þá get ég tekið þetta með á brettið og látið 10.000 lög rúlla á random. Mmm, geðveikt. Miklu betra auðvitað en að taka upp nokkur lög á disk og láta það rúlla á random. Hvað segir fólk um Ipod? Er það ekki æðislegt? Ég er búinn að taka niður gestabókina af því hún ýtti undir skrif fávita með leiðindi, en ég er með email ef einhver vill segja mér hvort Ipod-spilari sé æði eða rusl. 
---
Dauðlangar líka að láta "Ameríska drauminn" rætast í Boston. Hey, ég hef m.a.s. samið lag sem heitir Boston. Björk er búin að vera með Army of me-lagainnlegg. Ég sá þetta á síðunni hennar í gær og gerði kóverversjón af Army of me á klukkutíma. Þetta er fyrsta lag í heimi sem ég tek upp án þess að nota gítar. Framtíðin er gítarlaus segja menn. Nema gítarinn sé kominn aftur. 
---
Hef hlustað smá á XFM. Sumt er ágætt. Andri Freyr þorði t.d. að spila Galvanize með Chemical Brothers í gær. Það versta við þetta er að Andri er með miklu skemmtilegri músiksmekk en það sem heyrist í útvarpinu. Matti skratti er alltof fastur í þessu handboltarokki sem ætlar allt lifandi að drepa. Matti er svo útvarpsstjóri svo þetta verður Incubus og Korn að mestu. Það tottar fyrir allan peninginn.

16.01.05
Ný vika, nýr skammtur: Topp 5!

Dwarves - Salt Lake City: Nammi. Ramoneslegur slagari af nýjustu plötu Dverganna (sem ku vera þeirra aðgengilegasta plata). Bandið var einu sinni rekið frá Sub Pop merkinu fyrir að ljúga því að heimsbyggðinni að gítarleikarinn þeirra væri dauður. Hressir dúddar.

Rocket / Freudental - Sorgen kummer qual: Þýskt listaspíruhrárokk með sömplum. 

Chemical Brothers - Galvanize: Meistarar mættir með nýja plötu.

Bloc Party - Price of gas: Enskir á uppleið. Nýjasta platan: "Silent Alarm" á leiðinni.

The Prefects - Escort girls: Obskjúr enskt pönkband sem tóku bara upp tvö session fyrir John Peel en gerði enga plötu. Þróuðust út í Nigtingales, sem er álíka obskjúr. Hljóma svipað og Wire á pönkuðum degi.
---
Svakalega var þetta nýja lag með Sigur Rós í sjónvarpinu í gær óspennandi, á maður að þora að segja leiðinlegt. Bjöllubandið náttúrlega frábært (ekki pc að segja annað) en svo einhver álfagufa soðin meðfram. Er Sigur Rós alveg búin að missa það? Verður næsta plata eingöngu fyrir ljósverur? Sándtrakk fyrir gufustróka? Vona ekki. Bíð eftir öðru meistaraverki í sama klassa og Ágætis byrjun eins og heimsbyggðin öll. Get ekki sagt að ( ) fari oft á fóninn.

15.01.05
Ótrúlega lítið mál að "stofna útvarpsstöð" í tölvunni sinni. Stofnaði eina í gær og lagði hana niður sama kvöld, enda tók útsendingin dálítið pláss og allt fór í klessu ef ég ætlaði að gera eitthvað annað með tölvuna. Hver veit þó hvenær Útvarp Dr. Gunni hefur útsendingar aftur. Fáðér sjálf(ur) Shoutcast og stofnaðu þína eigin útvarpsstöð...
---
Fínt að fá Franska kvikmyndahátíð hérna í næsta hús, Háskólabíó. Ég get þá flúið þangað þegar heimilisfólkið vill horfa á drasl í sjónvarpinu, ER og eitthvað kellingasjitt á miðvikudögum og Idol-leiðindin á föstudagskvöldum. Fór á mynd í gær.

Tais-Toi! --> bíó XXX
Gerard Dípjartö er vangefinn en vinalegur smákrimmi en Djín Renó svaka harður gaur sem auðvitað linast upp á endanum. Þeir lenda saman í klefa og lenda í ævintýrum. Margt fyndið hér. Mér var strax hugsað til myndarinnar Le Placard, aka The Closet, sem er til á leigum. Fannst húmorinn svipaður. Fletti því svo upp á imdb að leikstjóri og handritshöfundur beggja myndanna er sá sami, meistari að nafni Francis Veber. Fín og fyndin mynd. 

Í Háskólabíói og öðrum bíóum vill það alltof oft brenna við að sýningarmenn eru að fokka upp fyrir manni myndunum. Í þetta skiptið skiptist myndin til helmingi þegar ein rúllan fór í gang þannig að í svona 5 mínútur var efri helmingurinn á myndinni fyrir neðan og öfugt. Þokkalega glatað. Þetta var lagað þegar einhver brjálaður rauk loksins fram. Svo í miðri mynd voru öll ljós kveikt eins og það væri komið hlé en myndin hélt samt áfram. Gestir horfðu því á myndina með öll ljós kveikt þar til sýningarmaðurinn (eða kannski sýningarhundurinn?) fattaði hvað var í gangi og slökkti.  Fullkomlega glötuð frammistaða, en alltof algengt fyrirbæri.

14.01.05
Tilraunaútsendingum lokið í bili!
---
Útvarp Doktor Gunni hefur hafið tilraunaútsendingar. Hlustendur eiga að geta hlustað í gegnum Winamp eða Windows Media með því að klikka hér! (ef þú vilt hlusta í Winamp), hér fyrir Windows Media Player. Reyndar geta bara átta áheyrendur hlustað í einu en það ætti að anna eftirspurn!

13.01.05
Æsandi tímar í útvarpsbransanum: Líkið af Xinu var ekki orðið kalt þegar Hausverksfélagarnir Hlö og Sport tóku af skarið og opna X FM á morgun á 91,9, held ég, og slökkva þar með á einhverju sem var Mix Fm. Freysinn og Gírinn og Mattinn fylgja víst yfir svo þetta verður Xið all óver again, líklega sama músikkin meira að segja, án þess ég viti það. Engin Tvíhöfði þó (Tvíhöfða fréttir einu sinni í viku á Stöð 2 og svo ýmis plott í gangi). Hver veit nema útvarpsþátturinn DR DR komi meira að segja aftur einhvern tímann. Eru þá ekki allir sáttir?
---
Reyndi að hlusta á Útvarp Sögu á leiðinni heim úr ræktinni í bílnum í morgun. Það var ömurlegt, enn og aftur eitthvað pólitískt þrugl. Stillti því á þáttinn Súper á FM. Það var verið að spila þarna lagið frá Moldavíu sem er búið að vera svo vinsælt. Svo komu krakkarnir og töluðu um kynlífsegg, flissandi hress og æðisleg, líklega ein 5 stykki í útvarpinu í einu, mjög innihaldsríkt og fræðandi, ég fæ mér allavega krómað egg við fyrsta tækifæri til að hafa skjálfandi undir pungnum í dagsins önn. Annars var bloggarinn Pezus að benda á Rás 1 sem framsæknustu stöðina í dag, enda geta þeir verið framsæknir, þurfa lítið sem ekkert auglýsingarúnk og geta verið með þætti sem örfáir stilla á. Þátturinn Hlaupanótaner t.d. snarbrattur og lítið sem ekkert talað þar um krómegg og ekki heldur leikin 80s músik eða graðhestarokk. Bara öskrandi erfið nútímamúsik fyrir nútímafólk. Snillingarnir í Stilluppsteypu verða t.d. teknir fyrir í dag kl. 16.13. Hörður Torfason er stundum með ágæta þætti, Magga Stína er þarna annað veifið að spila allan andskotann, Dóri Braga er með blúskennslu og ég veit ekki hvað og hvað. Að hlusta á Rás 1 er lífsstíll. Dálítið eins og að prófa að vera á elliheimili og það getur oft verið ágætt. 
---
Annars er það líklega bara tímaspursmál hvenær þokkaleg stöð fer í loftið á ný. Maður hefði haldið að aðilar eins og 12 tónar, Smekkleysa, Iceland Airwaves og fleiri álíka hefðu hag af því að vera með útvarpsstöð sem sinnti stöffi sem rúmast ekki, eða varla, á öðrum stöðum. Sjáum til. Er annars að hlusta á þáttinn Black Ops á útvarpsstöðinni WFMU. Netið maður netið.
---
Rúv sýnir fyrri jólaþáttinn af The Office í kvöld. Geðveikislega gott stöff!
---
Nú hef ég tekið upp á þeim sið að birta hér alla (hina svokölluðu) dóma sem ég er með á hinum ýmsu síðum. Samhliða þessu hefi ég ákveðið að taka dóma um plötur inn í hinn svokallaða Menningarafurðadálk:

Chemical Brothers - Push the Button --> cd XXX
Efnabræður samir við sig í góðu bíti og skemmtilegheitum. Nokkur frábær lög, önnur ágæt. Gott á brettið.

12.01.05
Nú jæja. Það er þá bara búið að slökkva á Skonrokki og Xinu. Doktor doktor verður því greinilega ekki á dagskrá á laugardaginn, en vonandi einhvers staðar einhvern tímann aftur, eins og sungið var um árið. Takk fyrir að hlusta (ef þú hlustaðir einhvern tímann!)
---
Þá er búið að tilkynna að Tvíhöfði hættir með morgunþáttinn sinn, líklega seinna í þessari viku. Leiðinlegt mál því þátturinn er búinn að vera fínn í 8 ár og alltaf gott að eiga hann að ef maður vill hlusta á útvarp á morgnanna. Jón og Sigurjón koma þó vitaskuld aftur í einhverri mynd, kannski í sjónvarpinu. Í kjölfarið má búast við að skrúfað verði bæði fyrir Xið og Skonrokk og jafnvel fleiri stöðvar. Það er ekki nógu mikill gróði af þessu stöðvum, rokkið er ekki að selja nógu mikið af auglýsingum, eða eitthvað. "Það er hægt að reka þessar stöðvar í bílskúr í Hafnarfirði", segja þeir sem ráða og nenna ekki að hafa svona innan veldisins. Spurning samt hvort það sé hægt, þ.e. að vera með gott útvarp í bílskúr í Hafnarfirði? Nú er víst búið að skrúfa fyrir Útvarp Reykjavík því þeir skulda svo mikið í Stef líklega. Ekki það að ég sakni þeirrar stöðvar, eða Xins eða Skonrokks sérstaklega þannig séð (nema einstaka þátta og snillinga). Hið pottþétta útvarp eins og ég ímynda mér það hefur aldrei verið í gangi hérna og verður líklega aldrei. Í fyrsta lagi er markaðurinn of dvergvaxinn og í öðru lagi er Ríkisútvarp á tveim rásum og kæfir alla samkeppni. Vonlaus barátta og því gott að eiga tölvu og ADSL og geta hlustað á útvarpið hvar sem er í heiminum. Það á eftir að koma í ljós hvort maður nenni mikið að hlusta á talmálsútvarpið hans Illuga, en maður getur svo sem hlustað á Poppland, þannig séð, enda lamandi playlisti bara notaður þar til hálfs við frjálst val dj-a. Ef einhver verður nógu geðveikur til að stofna rokkútvarp í bílskúr í Hafnarfirði ætla ég að vona að hann gleymi því að vera með playlista og leyfi dj-unum að leika lausum hala og spila það sem þeim sýnist.

09.01.05
Topp fimm kemur sterkur inn:
Emilíana Torrini - Sunnyroad: Ég hef hvorki verið sérlega spenntur fyrir Emilíönu eða þessari ofurballad-bylgju sem nú flæðir yfir, en platan hennar, "Fisherman's Woman" er engu að síður góð og aldeilis sérlega ljúf.
Android Sisters - Robots are coming: Að ég tel vera eitís elektrónískt grínband frá Japan, en hef þó ekkert í höndunum því til staðfestingar. Þetta er allavega grúví lag...
Helgi & Hljóðfæraleikararnir - Meira pönk!: Að norðan og eftir bandið liggur heill haugur af plötum sem hægt er að versla á heimasíðunni þeirra. Hér er bráðhuggulegt titillag af nýjustu plötunni þeirra (sem inniheldur pönk).
LCD Soundsystem - Losing My Edge: Ýkt dúndur hér frá New York, reyndar frá 2002 þetta lag. Hafa eingöngu gert sínglur til þessa en von er á massífu albúmi í þessum mánuði. Þetta lag er með skemmtilegum grobb- og rokkfræðilegum texta. Gott á brettinu.
Bacon - Brad Pitt: Í tilefni af hörmulegum fréttum af Brad og Jennifer. Hér eru Baconar af plötunni Krieg, sem ku upphafið á magnaðri tríólógíu. Næsti hluti á að koma í febrúar að mér skilst.
---
Leigðum tvær spólur um helgina og mér tókst að sofna yfir þeim báðum:
Girl next door - klámmyndaleikkonan og nördið. Virtist vera sæmilegasta mynd en svefninn bar mig ofurliði eftir 30 mínútur. Lufsan kláraði myndina og sagði hana ókei.
Trauma - "Mynd í anda Hitchcock" segir kápan, ensk mynd með Colin Frith. Vægast sagt ömurleg artí tilgerð og hreinasti viðbjóður. Sofnaði eftir 15 mínútur. Lufsan sofnaði skömmu síðar.
---
Ég er Íslendingur en stundum verð ég svo hneykslaður á löndum mínum að ég fer að tala um "Íslendinga" eins og eitthvað niðrandi. Eins og t.d. í gær þegar við feðgarnir ætluðum í Hagkaup að athuga hvort til væri view-master 3d kíkir. Kl. 16 á laugardegi og það var allt geðveikt í Kringlunni! Við sveimuðum nokkra hringi en það var hvergi stæði. Þá í Smáralind og þar var eins. Nú var klukkan orðin 17 og við aftur í Kringlunni. Gat þá troðið bílnum í stæði eftir að hafa keyrt nokkra hringi eins og hálfviti. Inni eins og tvöföld Þorláksmessa. Halló! Það er 8. janúar! Svo var auðvitað ekki til neitt view-master. Varð aftur hneykslur á "Íslendingum" þegar KR sprengdi flugelda á Ægisíðunni. Langflestir mættu á bílum sem var lagt út um allar koppagrundir eins og sagt er. Svo hékk liðið inn í bílunum og horfði á flugeldasýninguna í gegnum skítugar framrúðurnar. Allir flautuðu svo þegar sjóið var búið. Ég held að bílabíó eða jafnvel bílaleikhús ættu mikla framtíðarmöguleika hér.

07.01.05
Sigríður Níelsdóttir er búin að fá sér nýtt og fullkomnara hljómborð. Tónlistin hennar hefur tekið breytingum í framhaldi af þessu. Hún tekur reyndar ennþá upp á kasettutækið svo þetta er ló-fæ líkt og áður. Fyrsta sýnishornið af nýju græjunum má heyra í laginu "26. december 2004" sem Sigríður hefur gefið út á disk. Lagið er rúmlega 7 mínútur og er eina lagið á disknum sem kostar 500 kall og fæst í 12tónum. Allur ágóði rennur óskiptur til hjálparstarfsins á flóðasvæðunum svo það er um að gera að mæta með Jón Sigurðsson í 12 tóna.
---
Fjölmiðlaheimurinn mun nötra á næstu vikum. Útvarpsbransin mun riðlast og fullt af gamalgrónu dóti detta upp fyrir. Við erum að tala um end of an era. Útvarpsþátturinn Doktor doktor er þó í fullu fjöri og verður á Skonrokki á morgun kl. 12 - 15. Nú bregður svo við að leikin verða upp til hópa lög sem heita eftir og fjalla um sögufrægar persónur og alvöru fólk, lög eins og "Man Ray" með Futureheads og "(Sometimes I feel like) Fletcher Christian" með Mekons, sem dæmi. Einnig koma 2 úr Skátunum (EP-ið "Heimsfriður í Chile" fæst í næstu búð) og sjá um óskalagaval.
---
Skjár Einn hefur loksins tekið ákvörðun (eins langt og það nær...) um framhaldið á Popppunkti. Það verður ekki þáttaröð í vor eins og áætlað var heldur verður þátturinn ekki á dagskrá fyrr en næsta haust og þá á að gera svokallaða "all stars"-seríu, þ.e. efstu liðin úr seríunum þremur takast á, við erum að tala um að bönd eins og Ensími, Ham, Milljónamæringarnir og Írafár snúi aftur. Það styttist altsog í endalokin (verður varla búið til meira eftir þá seríu) og nú er bara að vona að MTV fari að hringja. Spilið gekk annars ágætlega, einhver 2500 eintök seld. Fullt eftir (5000 búin til) svo ég myndi fylgjast með útsölunum ef ég væri þú og ætti ekki spil.
---
Nýjasta kjallarinn fjallar um samviskubitið mikla sem nú sækir á flesta.

05.01.05
Hversu ógeðsleg getur þessi dýrategund orðið? Svona: Níðingar þykjast vera ættingjar
---
Karlarnir á Baggalút eiga ekkert í DV. "Sonur Sivjar eignast grimman dverghamstur".
---
Hér er falleg mynd sem ég fann á "internetinu":

04.01.05
The Office þættirnir eru algjör snilld, en þetta veit fólk. Keypti mér svokallað "christmas special" á dvd og þar er snilldin yfirþyrmandi. Þetta ku verða sýnt á Rúv bráðlega. Einnig keypti ég fyrstu seríuna af Little Britain, sem er sketsagrín í umsjón tveggja meistara:

Little Britain eru fínir, kannski ekki jafn byltingakenndir og t.d. The Office, Ali G eða League of Gentlemen, en margt helv fyndið. Mér skilst að Rúv ætli að byrja að sýna þetta á árinu, en önnur serían stendur nú yfir á BBC. 

03.01.05
NEYTENDAVAKTIN: OKURVIÐVÖRUN!
Það er oft verið að okra á manni á Íslandi. Það er búið að okra svo lengi og mikið að þeir sem hafa okrað eru nú í svokallaðri "útrás" til að eyða því sem þeir græddu á okrinu. Í Hagkaup, sem mér finnst að sjálfssöfðu skemmtilegast á versla, sá ég þetta lokkandi rækjupartí í kælinum:

Maður var auðvitað búinn að fá leið á reyktum grís og mér leist vel á rækjurnar. Þetta er frá Iceland, sem Baugur keypti nýlega, og enska verðið er prentað á umbúðirnar, 1.99 Pund eða 235 kall íslenskar. Eins og með allt annað í kælum er yfirleitt hvergi að finna verð, eða maður þarf að leita að því með miklu veseni, en ég ákvað að taka séns á þessu enda Jón Ásgeir nýbúinn að lýsa því yfir að matarverð ætti að lækka. Ókei það er flutningskostnaður, matarskattur og eitthvað og ég hélt að þetta myndi kosta svona 300 kall, kannski 350. En, nei nei...

150% álagning takk fyrir! Það er ekki sniðugt að selja dót með verðum sem eru gildandi annars staðar á umbúðunum. Þá er verið að sýna manni svart á hvítu hvað maður er mikið fífl og hvað maturinn er ódýr annars staðar. Það er eins og að taka einhvern í rassgatið og leifa honum að horfa á það á meðan í sjónvarpinu. Og þar fyrir utan var þetta rækjupartí frekar vont. Kannski ókei fyrir 235 kall, en alveg pottþétt ekki fyrir 599!

02.01.05
Fyrsti Topp 5 ársins, gjörsvovel, samhengislaust bland fyrir bjarta vetrardaga:
Dogs die in Hot cars - Godhopping: Enn eitt góða bandið frá Glasgow. Yfirlýstir áhrifavaldar lofa strax góðu – XTC, Talking Heads, Madness – og útkloman eru nokkur frábær lög eins og þetta, fyrsta lagið á fyrstu plötunni þeirra, "Please Describe yourself". 
Xavier Rudd - Let me be: Ástralskur trúbador. Þetta er af plötunni Solance sem kom út í fyrra. Ljúfur sem naut þessi. 
Poppy Family - Where evil grows: Hjónaband Kanadamannanna Susan og Terry Jacks. Þau skyldu og Terry sló í gegn með Seasons in the Sun. Poppy Family átti mörg helv kúl myrk og sækadelísk popplög eins og þetta. 
Harvey Girls - Good morning, bubblegum: Annað hjónaband. Rakst á þetta í músikbloggsörfi. Flott lag frá einhverjum Könum sem aldrei munu slá í gegn.
(Erlend Öye) Alan Braxe & Fred Falke - Rubicon: Af mixplötu þessa norska heiðursmanns úr Kings of Convenience.
---
Hef verið að skoða í National Geography cd-kassanum (complett til 2000) sem ég keypti á hlægilegu verði um daginn. Rakst á frásagnir amerísks hermanns sem var hér í "seinna" stríðinu í blaði frá 1946. Margar gullfallegar myndir fylgja greininni. Sjá t.d. þessi glæsilegu sýnishorn okkar framúrskarandi ættstofns:

01.01.05
Skaupið var allt í lagi. Eftir hundleiðinlega ruslið í fyrra og þá ógnvænlegu staðreynd að Spaugstofan sæi um þetta var maður náttúrlega við öllu búinn og keyrði væntingastöðulinn í núll. En svo var þetta bara ókei. Meiri hluti sketsanna þó allt of langir miðað við innihald og það hefði nú alveg verið í lagi að sleppa þessu kyndlagríni með Sveppa. Hvað var það? Spaugstofan þegar búin að riðlast á mörgum hugmyndunum í allan vetur (Hannes Hólmsteinn... voru ekki allir löngu hættir að spá í því dæmi?) en svona að þessu gleymdu þá var þetta bara ágætt og maður hló oft, enda eru þetta sprettharðir fagmenn og svo bara fínt að láta alvöru fólkið mæta á svæðið, vantaði bara forsetann. Engin snilld a la 2001 og 2002, en miklu betra en í fyrra. En í gvuðana bænum, það væri nú óskandi að Rúv tæki einhverja sénsa með Skaupið næsta ár og reyndi að fríska þetta aðeins upp. Það er fáránlegt hvernig Rúv opereitar og það sést vel í sambandi við grínið. Sem Ríkisstofnun ættu þeir að vera í því að gefa nýjum talentum séns og ef allt væri eðlilegt ætti Spaugstofan að hafa verið á Stöð 2 síðan 1990 en Rúv ætti að hafa verið með Svínasúpuna í fyrra og svo eitthvað nýtt í ár. BBC skilja hlutverk sitt og dæla út því ferskasta ár eftir ár, Ali G, The Office, Little Britain... á meðan Rúv hjakkast ár eftir ár með Spaugstofuna - Þeir halda upp á 20 ára starfsafmæli sitt á þessu ári! Það er einhver ekki alveg að fatta hlutverk sitt þarna upp í Efstaleitinu.
---
Muna kl. 12. Skonrokk. Dr Dr 2004!

---
Tvöþúsund og fjögur hér: