TOPP 5! 10. vika: The Stranglers - Soldier's diary / Dungen - Så blev det bestämt / (Ingenting) - Punkdrömmar / The Stooges - Greedy awful people / Kenneth Bager feat. Julee Cruise - Fragment Seven (Les Fleurs)   ELDRI LISTAR
04.03.07
Hljómsveitarnöfn eru þeirrar náttúru að öll venjast þau á endanum. Nöfn eins og Jeff Who? eða Búdrýgindi – sem hljóma bjánalega í byrjun – venjast fyrir rest. Því skiptir kannski ekki máli hvað böndin heita. Einu sinni, líklega þegar Unun vantaði nafn, skrifaði ég Guðbergi Bergssyni og bað um uppástungu. Hann hafði sýnt gríðargóða takta í hljómsveitanafnagiftum í Sögunni af Ara Fróðasyni og Hugborgu konu hans, en þar koma m.a. fyrir pönkhljómsveitirnar Úldinn skítur og Steiktir naflar. Ég bjóst því við einhverri snilld í þessum dúr en karlinn var í engu stuði og það eina sem honum datt í hug í svarbréfi var "Raddbandið". 
---
Ef einhverjum vantar nafn á band bíð ég hér upp á tvö sæmileg. Hrat. Hljómsveitin Hrat. Virkar í meiki, t.d. H-Rat. Einnig Sófar. Hljómsveitin Sófar. Þrælvirkar í meiki sem So Far. Þessi eru gefins ef einhver vill.
---
Ég er búinn að vera í nokkrum hljómsveitum. Hér eru nafnaskýringar.
Dordinglar = Man ekki tildrög þess.
F/8 = Flokkur átta. Þ.e.a.s. flokkur átta í Vinnuskóla Kópavogs. Við vorum í honum.
GLH = Sólónafnið áður en Dr. Gunni varð ofan á. Gunnar Lárus Hjálmarsson augljóslega. GLH gerði 10 spólur í einu eintaki hver með tilraunakenndu teip á teip stöffi, sirka 1981-1986. Spólurnar heita: Véfréttin talar / Heilagt heilaæxli / 3ja / Ugasta / Kysstu mig áður en ég dey / Maðurinn sem býr til hjörtu / Gamlárskvöld – flugeldarnir – gamlárskvöld / Fjóshaugur / Djúpsjávarfiskarnir / Endalausir mánudagar. Því "besta" var síðan safnað á spóluna Nunnurusl sem Erðanúmúsik gaf út í uþb 150 eintökum 1986.
Geðfró = Fann þetta í eldgamalli orðabók.
Beri-Beri = Stolið frá Tappa tíkarrass, sem var með samnefnt lag.
S.H.Draumur = Svart hvítur draumur í byrjun, stytt í S.H.Draumur v/ meikvona. Hugmyndin kom frá laginu "Do you dream in colour?" á plötunni Quit Dreaming and Get on the Beam með Bill Nelson sem ég sá í Safnarabúðinni. Hef ekki enn orðið svo frægur að heyra þetta lag (jú núna, glóðvolgt af Soulseek... hmm... ekki ýkja merkilegt).
Dr. Gunni = Dúett trommuheilans Dr. Rhythm og mín, þ.e. Dr. Gunni.
Bless = Síðasta plata S.H.Draums heitir Bless og þegar við Biggi byrjuðum aftur með Ara Eldon í stað Steina og þurftum að plögga þessari síðustu plötu þótti upplagt að notast við Bless-nafnið.
Ekta = Ég spurði einhvern karl á 22 hvort hann gæti stungið upp á hljómsveitarnafni og hann kom með "Ekta". Þótti þetta ægilega sniðugt í vímunni svo það stóð.
Unun = Kom upp þegar við Þór Eldon spiluðum Scrabble. Þótti strax upplagt. Eða allavega mun betra en "Zombie duck".
---
Aðrar hljómsveitir sem ég var í á táningsaldri en gerðu kannski líkið nema spila út í skúr og taka upp á kasettu. Man ekki tilkomu nafnanna:
Grisjurnar = Ég og Oddný Eir Ævarsdóttir.
Stuna úr fornbókarverslun = Ég, Steinn Skaptason og Trausti Júlíusson.
Tromman & steinninn = Ég og Örn Ingvar, 5 ára frændi.
Videósílin = Ég og Steinn Skaptason.
---
Þessi færsla var í boði Detox: Þegar anallinn gengur fyrir.

03.03.07
Í dag er bara tvennt í stöðunni: Kroppa í klístrað hrúður eða belgja sig út af Topp 5imm. Auðvelt val:


The Stranglers - Soldier's diary: Giggið er á þriðjudaginn á Nasa og hreinlega hjákátlegt að mæta ekki. Hér er til minnis eitt gott stuðlag af nýjustu plötunni Svít sixtín, eða Suite XVI eins og gömlu karlarnir kalla það. Hér gefst einstakt tækifæri til að sjá ellilífeyrisþega spila pönk því trommarinn er 68 ára og notar rafpumpur til að að ná fallþunga á bassatrommuna. Bandið á vitaskuld hauga af snilldarlögum og ekki er verra að hinir einu og hrikalega sönnu Fræbbblar hita upp. Þeir voru einmitt læf á Rás 2 í gær sem má hlusta á hér.


Dungen - Så blev det bestämt: Ný-sækadelíuSvíar hafa sent frá sér plötuna Tio Bitar, sem sparkar í lamaðan durg. Látiði klippa ykkur.


(Ingenting) - Punkdrömmar: Aðrir sænskir skrattar og poppaðri. Er það nú forsvaranlegt að nefna hljómsveitina sína (Ingenting)? Lagið er tekið af plötunni MYCKET VÄSEN FÖR INGENTING sem kom út í fyrra. Mæspeisið þeirra er http://www.myspace.com/nadazipp


The Stooges - Greedy awful people: Út er að koma ný Stooges plata, The Weirdness. Hún er langt í frá jafn hrikalega æðisleg og fyrstu 3 plötur bandsins (frá því 1700 og súrkál), en gefur maður ekki gömlum körlum séns? Jú jú!


Kenneth Bager feat. Julee Cruise - Fragment Seven (Les Fleurs): Danskur tjillari sem gerði plötuna Fragments From A Space Cadet í fyrra. Megin uppistaðan í þessu lagi er Les Fleur með Minnie Riperton en hvíslkonan úr David Lynch myndunum leggur andstutt lóð og vogarskálina. Grú-ví.
---
Skemmtilegasta lagið sem ég heyrði í vikunni er þó ekki á Topp 5imm í dag enda búið að mp3-blogga það út um allar trissur og maður reynir að vera frumlegur. Þetta er nýjasti síngullinn frá Maximo Park "Our velocity" og má t.d. finna hjá Agli Harðar, undir 18. feb.
---
Varúð: Pólitískt grín: Það var sniðugt hjá Framsókn að fá Laylow til að spila Please dont hate me á fundi. Nú þarf bara Samfokk að fá Björn R. Einarsson til að spila Því ertu svona uppstökk, VG að fá Sveinbjörn I Baldvinsson til að spila Lagið um það sem er bannað, Fúllyndir að fá Bubba til að spila Nýbúann og XD að fá Elsu Sigfúss til að syngja Lofum þreyttum að sofa. 

02.03.07
Í ræktinni var einhver stöð með stanslausar útsendingar af því þegar nokkrir karlar báru líkkistu Önnu Nikól Smitt um borð í þotu. Blessuð sé minning hennar og allt það, en mér fannst þetta minna full mikið á hina nákvæmu útsendingu af því þegar Keikó kom til Vestmannaeyja.
---
Ef ég héti Sigurður gæti ég skýrt dóttir mína Eðlu upp á djók (Eðla Sig, skirurru? ha, skilurrekki?) Það hlýtur að vera raunhæft nafn alveg eins og Bambi, Dúfa og Heiðlóa. Eðla mín.
---
Hér er einn að kvarta undan því að Blaðið skuli vitna í bloggið hans. Hvað get ég þá sagt sem hef verið aðalmaðurinn í bloggi dagsins í sama Blaði þrisvar í þessari viku. Það er náttúrlega algjör geðveiki, en kitlar auðvitað hina kitlanlegu hégómagirnd að vera talinn svona obboslega sniðugur. Ég ætti samt eiginlega að fara að senda þeim reikning fyrir Dr. Gunna blogg hornið.
---
Það er ekki skemmtilegt að fylla þessa smádálka í blöðunum. Ég hef sjálfur staðið í því að hjakkast um hin drepleiðinlegu bloggberangur leitandi að einhverju skítþokkalegu til að setja í "blogghornið". Þessum sem er að vinna á Blaðinu (Atli í Haltri hóru kannski?) skal ég benda á nokkur fín blogg þar sem hann finnur kannski eitthvað í dálkinn sinn: Mengella er eins og áður segir drottning bloggsins og á t.d. nýlegt snilldarblogg um femínsta og lummur. Manni dauðlangar að vita hvaða snillingur þetta er og myndi hlaupa slefandi út í bókabúð ef hún gæfi út bók. Smári Karls er mikill meistari frá Ísafirði, Tóti Leifs er ekkert að skafa utan af því og Gvendur er ekkert slor. Þetta er nú bara það sem mig rámar í í fljótu bragði, en svo er bara að hjakkast áfram eftir línkunum og kópí peista í nýtt skjal.
---
Ég lýsi eftir nýjum blaðasala á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis. Það ættu að vera uppgrip hjá honum núna. Allt vaðandi í pappír sem er fullur af undanrennu úr tíðindaleysinu eða eldgömlum uppgröfnum skandölum (hvenær kemur sláandi grein um Axlar Björn?) og bloggtuð í bland. Er einhver að kaupa þetta? Nýi blaðasalinn myndi fljótlega komast að því. Stæði þarna dúðaður í svifmenguninni með borð og á því Krónikan, Mogginn, DV, Viðskiptablaðið og jafnvel Fbl og Blaðið líka. Er ekki allt fullt af smjörgreiddum skjástörum og foxí verðbréfagellum á sveimi þarna? Ég er viss um að þeim findist öllum mjög erlendis að versla við nýjan blaðasala, sérstaklega ef hann væri jafn kúl og þeir gömlu, Óli, Auðunn og Gunnsi.

01.03.07
Andskotinn... Ég sé það núna að Nancy Cartwright, sem talar fyrir Bart Simpson, er í Vísindakirkjunni. Nei, ég ætla samt ekki að hætta að glápa á Simpsons. Lækka kannski bara þegar Bart talar. Djók.
---
Heimskulegust af mörgum heimskulegum trúarbrögðum er Vísindakirkjan. Ég missi umsvifalaust allt álit á viðkomandi ef ég heyri að hann er í þessari bjánakirkju. Ekki það að mér sé ekki sama hverju fólki trúir í frítíma sínum, en þetta bull fer bara alveg yfir strikið og gerir átrúendur að augljósum fávitum. Því nenni ég t.d. alls ekki að sjá myndir með Tom Cruise og John Travolta. Auðveldara er að leiða þetta hjá sér með tónlistarmenn. Áhugi minn á Beck hefur þó stórlega dregist saman (kannski líka vegna þess að hann er löngu búinn með sína hressustu takta), en ég get alveg hlustað á gamalt Isaac Hayes stöff án þess að æla. Hér er annars nytsamur listi yfir geðsjúklinga.
---
Ég fór á myndlistarsýningu Auðuns blaðasala í Sólheimaútibúi Borgarbókasafns. Auðunn kom til tals á dögunum. Steinn Skaptason fullyrti í mín eyru að Auðunn væri fallinn frá. Sagðist hafa lesið það í Mogganum. Ég var auðvitað nokkuð hnugginn yfir því. Taldi að nú væri stétt blaðasala útdauð. Óli löngu horfinn, Auðunn látinn og Gunnsi Gunn á einhverju smíðaverkstæði. Því var ég aldeilis glaður þegar ég las í DV í gær (þar sem ég stóð í röð í Bónus) að Auðunn væri ekki bara sprelllifandi heldur að opna myndlistasýningu. Verkin eru mörg góð, sérstaklega "Áramót" sem ég falaðist eftir. Verkin voru ekki til sölu en þó er verið að athuga tilboð mitt. Það slagar hátt upp í þetta sem Kjarvalinn fór á.
---
Fór í búð. Rosalega er allt orðið ódýrt. Örugglega alveg 20 krónum ódýrara en í gær.

28.02.07
Ég er orðinn svo gamall að ég notaði einu sinni Alta vista til að leita að drasli á netinu. 
---
Mæspeis og jútjúb er málið í dag, en bæði fyrirbærin eru fötluð. Mæspeis ferlega sló á köflum, t.d. fer þessi lagaspilari oft ekkert í gang fyrr en eftir dúk og disk. Svo mætti alveg setja upp þann möguleika á mæspeisinu að maður gæti spilað tónlist random. Jútjúb er oft líka drulluhægt. Og oft eru myndbrotin í drullugæðum. Það verður eflaust hlegið að hvoru tveggja eftir 5 ár þegar eitthvað miklu flottari verður komið til sögunnar.
---
Dauði myndbandaleigunnar (eða öllu heldur dvd-leigunnar) er yfirvofandi. Það gerist um leið og myndveitur eins og Skjárinn standa undir nafni og fara að bjóða nákvæmlega sama – eða betra – úrval og leigurnar.
---
Íslenska sjoppan er líka á hröðu undanhaldi. Klukkubúðir eru teknar yfir.
---
The Who er eitt af örfáum snilldarböndum gullaldar sem enn höktir þrátt fyrir mikla löskun. Pete Townsend bloggar hér eins og hver annar lúði og er með annað blogg hér, einskonar endurminningarblogg. Hafandi séð McCartney, Stones, Wilson og Davies, myndi ég halda að Hú sé það eina sem vantar upp á til að pakka þessu inn. Nú er bara að grípa gæsina.
---
Hvaða svifryk eru allir að tala um? Ég sé ekkert svifryk.
---
Heiða sagði mér frá saunabaði í Berlín sem hún fór oft í. Þar voru allir saman allsberir, konur og karlar. Og meira að segja líka úti í porti, þangað sem fólk fór til að kæla sig. Porti umkringdu íbúðum þar sem íbúar höfðu beinan aðgang að hinum nöktu líkömum. Engum fannst þetta tiltökumál en í rassaborunni hér yrði líklega allt vitlaust ef einhverjum dytti í hug að opna svona unisex saunu. Fyrir það fyrsta myndu fjölmiðlar fá kast enda ekki á hverjum degi sem eitthvað skemmtilegt gerist. Þeir gætu hætt rétt á meðan að segja frá ósýnilegri svifmengun og óskiljanlegu baugsréttarhaldarugli. Allsbert fólk selur. "Gárungar" færu á kostum og það hlypi á snærið hjá Spaugstofunni. Næst færu hópar herskárra á kreik, Krossinn og femínistar gætu fundið eitthvað á þá viðurstyggð að allsbert fólk væri saman í saunu. Börnin! Ætlar enginn að hugsa um börnin?! Það yrði gífurlegt umtal um "klámsaununa" og ef hún væri einhverntímann opnuð myndu ljósmyndarar hanga í portinu og ná kannski mynd af Bryndísi Schram. Ég sé þetta alveg fyrir mér, stóra klámsaunumálið.
---
Aumingja rassaboran. Of mikil rassabora fyrir allsbert fólk.

27.02.07
Ég er á leiðinni til NYC enn einu sinni af því ég tími ekki að láta miða sem ég fékk fyrir að sjá um sérstakan Manchester þátt af Popppunkti í fyrra, renna út. Það verður náttúrlega kreisígaman að losna aðeins undan þessari rassaboru sem okkar guðdómlega land er. Það er hreinlega andlega nauðsynlegt að komast héðan með jöfnu millibili. Ég keypti mér Lónlí planet gæd um borgina góðu sem ég þekki svo sem ágætlega. Möst er að hitta vin minn KJG vel og mikið enda er hann bæði furðulegasti og skemmtilegasti maður sem ég þekki. Hann er ennþá ólöglegur innflytjandi eftir 21 ára dvöl í borginni. Stefán Jón Hafstein skrifaði ágætis bók um hann fyrir löngu síðan (New York New York heitir hún og er til á bókasöfnum). Svo ætla ég að fara á upptöku á eins og einum Conan þætti. Þetta er vitanlega plebbalegt en ég er plebbi. Ég ætla líka að kíkja á standöpp í frægum klúbbi. Svo var ég að bóka mig á rokktúr. Glápt verður á fyrrum heimili Joey Ramone og fleira og plebbalegra verður það varla. Ég fór á svona túr í Liverpool og sé alls ekki eftir því. Annars stefni ég að því að setja yfirstandandi stórátak í hættu og gúffa í mig sterakjöti og mettuðum fitusýrum. Ef lesendur vilja deila uppástungu að möstsíi í NY er það gvöðvelkomið
---
Kannski er íslensk tónlist orðin nógu rótgróin til að hægt sé að setja á fót svona "rokktúr" í Reykjavík. Take the Icelandic music tour - only 2000 kr. Maður ætti kannski að fara út í þennan bransa í sumar. Your host, the legendary Dr. Gunni, author of Eru ekki allir í stuði (útdráttur á ensku fylgdi með). Ég þyrfti litla rútu og svo væri byrjað á Hótel Borg. "Here Björk used to get drunk as a teenager and play with Tappi tíkarrass". Ég myndi benda á Iðuhúsið -- The Sugarcubes played their last gig here in 1992 at Tunglið, but the original house burned down. I lost my drum machine here in 1991 too, he he. Svo yrði rúntað á Ægissíðuna og allir færu út fyrir framan húsið hennar Bjarkar og tækju myndir. She's not home now but if you look closely you might see her son, Sindri. Slatta af öðrum stöðum væri hægt að bæta við túrinn en auðvitað yrði endað í Álafosskvosinni hjá Sundlaug Sigur Rósar. Kannski næðust samningar og túristunum yrði boðið inn í jurtate. Hmm?!

26.02.07
Í gær var dagurinn sem VG varð aftur að 10% flokki. Það gerðist þegar Agli Helgasyni tókst glottandi og lúmskur að veiða það upp úr foringjanum að hann myndi gjarnan koma upp "netlögreglu". Steingrímur var auðvitað of heyrnarlaus af jarmi jákórs helgarinnar og móðursjúku helgislepjunni síðustu daga til að fatta hvaða fasísku vitleysu hann var að láta út úr sér. Einmitt, netlöggu! Svona eins og í Kína. Og banna svo bara allt klám. Svona eins og í miðausturlöndum. Vei frábært.

25.02.07
Áhugafólk um girðingar í Ástralíu athugið: þetta.
---
Hugmyndin var að fjölskyldan færi austur fyrir fjall og skoðaði drauga- og álfasafnið á Stokkseyri. Sem betur fer hringdi ég á undan mér til að athuga verðið og hætti snarlega við þegar í ljós kom að það kostaði 1500 inn á draugana, og 1500 á álfana. Þetta hefði því kostað 6000 kall fyrir okkur hjónin að skoða. Sorrí þið framtaksömu einstaklingar, það er bara alltof mikið. Ég hefði látið mig hafaða fyrir 3000 kall, en djísús kræst 6000!?
---
Við spöruðum því stórfé með að halda okkur í bænum. Lóna í halarófu niður Laugarveginn og glápa á fríkin, fara í bakarí og maula bakkelsi við Vífilsstaðarvatn, glápa á nýbyggingar í landi Kópavogs á Vatnsenda (og ekkert smá helvíti sem er risað af húsum þar!), og svona fjölskyldudót. Svo leigðum við videó – Ice age 2 og Art School confidential – og lágum á meltunni. Klassík.
---
Maður þarf alltaf að hugsa um menningarsambandið við Finnana og hér eru fimm finnskar hljómsveitir á Mæspeis:
M.A.Numminen & DJ Sane (Numminen er leg-endi í Finnlandi og hér tvistar hann með dj)
The Micragirls (Krampsaðar stuðstúlkur)
Risto (Víðfermt rokkband með diskó og svo framvegis töktum)
Circle (stálslegið eðalhjakk)
Rehtorit (Stuðpönk)
---
Menningarviðburðirnir svoleiðis hringlandi. Vorið er franskt og eitthvað dót á leiðinni sem maður kannast við, t.d. Nouvelle Vague á Nasa 26. apríl. Þetta er bandið sem tekur nýbylgjusmelli í bossanóva og hefur gert tvær plötur. Svo held ég að Air séu á leiðinni líka. Eiga að spila í Höllinni í byrjun júlí.
---
Svo rignir kvikmyndaveislum. Fjalakötturinn alveg rakið dæmi, Græna ljósið dúndurstuð og Kvikmyndasafn Íslands með pakkaða pakka. Manni þarf því ekki að leiðast. En ef manni leiðist og kann á veghefil þá er ísí vei át því Ístak auglýsir nú eftir manni til að vinna á veghefli á Jamaika. Ja man.

24.02.07

Sögur hafa gefið út geisladiskinn Dr. Gunni & vinir hans syngja og leika lögin úr söngleiknum Abbababb! Hann fæst í öllum betri plötubúðum og í Hafnarfjarðarleikhúsinu á meðan á sýningum stendur. En þá er það einn spikfeitur Topp 5imm!


Charles Wright & The Watts 103rd Street Rhythm Band - Express Yourself: Ekki er laust við að látlaus keyrsla á Dressmann-auglýsingu þar sem þetta grúví lag er notað hafi troðið sér ógætilega í heilabörkinn á mér. Eins gott að ég átti þetta á safnplötunni The history of funk vol. 1 - In yo' face, en sem betur fer keypti enginn þann fönkpakka í cd-sölunni miklu í fyrra. Lagið náði 12 sæti í USA árið 1970, en Charles er enn í góðu stuði með heimasíðu og allt.


Curver + Kimono - Chelsea Hotel: Út er kominn hraunkantaður samkrullsdiskur Körversins og Cimono sem iðar í tilraunaspikinu. Hér gefur að heyra opnunarlag disksins. Lagið mun ef til vill fjalla um Chelsea hótelið í NY, en þar áttu Sid og Nancy sín þrumuskot í æðarnar og fleira heimsfrægt listalið lónaði um gangana. Sjálfur hef ég gist þarna eina nótt, en það var ekki upp á neitt annað en djók. Öllu þægilegra hótel í NY er Milford plaza, en þar hefur reyndar enginn dópisti gert neitt eftirminnilegt, svo ég viti að minnsta kosti. Gestir virðast aðallega vera feitir miðríkjamenn á dráttarvélaráðstefnu. 


The Nightingales - Let's think about living: The Nightingales er frá Birmingham og eitt af þessum traustu ensku böndum sem hjakkar áfram í svita síns andlits (sjá The Mekons, The Fall o.s.frv.). Upprunnið í pönki og hét einu þá The Prefects. Bandið mun hafa hafið leik 1979 (Prefects 1977) og er enn að með hléum. Nýjasta platan þeirra kom út í fyrra (Out of time) og þessi glaðningur eftir Bob Luman af henni ætti að koma mönnum í "gírinn". Mér skilst að The Nightingales hafi gert fleiri John Peel-sessjónir allra banda, fyrir utan The Fall.

Bónus 1: Bob Luman - Let's think about living (orginallinn - náði #7 í USA 1960.)

Bónus 2: Prefects - Escort girls (glaður pönkari af "The Prefects are amateur wankers" með efni frá því um 1978).


Yoko Ono & Peaches - Kiss kiss kiss: Mætt er konan sem margir elska að hata því hún skemmdi að sögn fyrir Bítlunum. Ég verð auðvitað fyrstur út í Viðey til að skoða súluna hennar enda búinn að glápa á Dakota bygginguna og eitthvað friðardót sem hún lét planta í Central park. Nú er ekkjan glaða búin að gefa út Já, ég er norn þar sem hún fær rjómann af rokkinu til að púkka upp á katalókinn. Hún er Fíkjan með henni í góðu stuði í einu af betri lögum Ono, en lið eins og Flaming Lips, risadúkkan Antony, The Blow og Spiritualized koma einnig við sögu. 


The Stranglers - Spectre of love: Smekklegur smellur af 16. plötu Kyrkjara, Suite XVI, sem kom út í fyrra. Gleðjast nú pönkaðir gumar því Stranglers koma enn á ný til landsins þann 6. mars og spila í Nasa. Nú er bandið blessunarlega laust við sterahelmútinn sem söng með því í Kópavogi í hitteðfyrra. Bandið er auðvitað frábært og sagnfræðilega mikilvægt því það kom með pönkið til Íslands. Til gamans birti ég hér kafla úr Eru ekki allir í stuði, sem fjallar um fyrstu komu bandsins til Íslands árið 1978:

Í Englandi höfðu The Stranglers fengið þá "flippuðu" hugmynd að kynna þriðju plötuna sína, Black & White, á Íslandi. Hljómsveitin var á öldufaldi pönkvelgengninnar eftir tvær LP-plötur árið áður og þeirrar þriðju var beðið með miklum spenningi.
Á þessum tíma var Steinar Berg að stíga sín fyrstu spor með plötubúðarrekstur, en hann hafði gefið út nokkrar plötur, sem margar hverjar höfðu selst vel. Gunnlaugur Sigfússon var eini starfsmaður fyrirtækisins ásamt eigandanum, og stóð vaktina í plötubúðinni, sem hafði aðsetur í Karnabæ. Vegna þess hve Steinar hafði selt vel af plötu ELO árið áður barst inn á borð til hans fyrirspurn frá umboðsskrifstofu Stranglers: Hvort fyrirtækið gæti hjálpað til við að skipuleggja blaðamannafund og jafnvel tónleika?
"Ég var brjálaður Stranglers-aðdáandi og hvatti Steinar til að kýla á þetta," segir Gunnlaugur. "Honum fannst hugmyndin spennandi, en var samt efins. Það verður að taka inn í myndina að þarna um vorið 1978 var fólk ekki að hlusta á pönkrokk eða nýbylgju. Steinar var nýtt fyrirtæki og varð að skapa sér sérstöðu. Við vorum dálítið upp við vegg. Þar sem hinar búðirnar höfðu umboð fyrir flest stóru erlendu útgáfumerkin, lenti mikið af pönkinu og pöbbarokkinu hjá okkur, en við tókum ekki inn nema kannski fimm eintök af hverri plötu. Ég keypti eitt eintak, sendi eitt beint til einhvers gaurs sem var á vertíð í Vestmannaeyjum, og svo var mesta streð að koma hinum þrem út. Þeir sem voru að fylgjast með tónlist af áhuga voru allir inn á "West-coast/LA"-línunni, hlustuðu á Jackson Browne og þannig músik. Ég man að einu sinni kom Hilmar Örn Hilmarsson (síðar heilinn á bakvið Þeyr) í búðina og ég leyfði honum að heyra nokkur lög af Never mind the bollocks með Sex Pistols. Hann þóttist hafa gaman að, en sagði mér síðar að hann hugsaði "hvað er gaurinn eiginlega að éta?", þegar hann fór út." 
Steinar var tvístígandi um tíma, bauð Hrafni Gunnlaugssyni að fá Stranglers á Listahátíð, en þar sá Hrafn um innflutningsmál. Þegar Hrafn fúlsaði við pönkinu kýldi Steinar sjálfur á dæmið, enda átti áhættan að skiptast á milli hans og erlendu umboðsskrifsstofunnar. Mikil áróðursmaskína fyrir The Stranglers fór því í gang á vormánuðum. Nýjasta myndbandið með The Stranglers (við lagið "Five minutes") fékkst keyrt látlítið í Sjónvarpinu og Sigurjón Sighvatsson og gamli Kinks-innflytjandinn Baldvin Jónsson tóku að sér kynningarmál með Steinari.
"Einu sinni kom strákur í rifnum jakkafötum með sikkrisnælur í búðina og ég var alveg viss um að þetta væri túristi," segir Gunnlaugur. "Svo var þó ekki og hann keypti fyrstu LP-plötuna með The Clash. Mér fannst svo mikið til koma um þennan sálufélaga í pönkinu að ég gaf honum góðan afslátt af plötunni. Daginn eftir kom strákurinn aftur og sagðist hafa fengið of mikið til baka. Við urðum miklir mátar upp frá þessu. Hann hét Einar Örn Benediktsson og hann var fenginn til að hengja upp plaköt fyrir Stranglers-tónleikana um allan bæ."

2% þjóðarinnar verður vitni af pönki
Tónleikum The Stranglers var gefið heitið "Hot Ice" í höfuðið á Hljóðrita. Laugardalshöllin var leigð undir verknaðinn og þriðjudaginn 2. maí mætti bandið með sitt hafurtask, 4 tonna 4000 vatta söngkerfi, og fjölmarga blaðamenn og bransakarla í eftirdragi. Hljómsveitin hitti blaðamenn í Hljóðrita og fór um kvöldið í Klúbbinn þar sem hljómsveitin Tívolí var að spila, en stoppaði stutt, þrátt fyrir að margar smápíur væru sérstaklega mættar til að komast í tæri við stjörnurnar.
Dagurinn eftir var þéttbókaður. Fyrst blaðamannafundur í Skíðaskálanum á Hveradölum, þar sem nýja platan var spiluð í botni og hljómsveitin ljósmynduð í hrauninu. Svo voru það sjálfir tónleikarnir. Áróðursmaskínan hafði greinilega virkað því um 5000 manns voru mættir til að sjá nýbylgjupönkið með eigin augum. Þursaflokkurinn hætti við að spila því hann hafði ekki fengið sándtékk, en Póker létu sig hafaða og voru klappaðir upp. Á milli atriða sprelluðu Halli og Laddi í góðu gríni, bæði á íslensku og ensku, enda aldrei að vita nema þeir gætu meikaða líka þegar svona margir útlendir áhrifamenn væru að horfa. Eftir 20 mínútna hlé komu Kyrkjararnir og byrjuðu án formála. Sveitin rokkaði hrátt og hávært í rúmlega klukkutíma og áberandi var að ungir krakkar, þetta 13-18 ára, skemmtu sér best. Fullorðnara fólki fannst þetta heldur klént, og tautaði að það væri helst hljómborðsleikarinn sem gæti eitthvað. 
Eins og tónleikar Tony Crombie & His Rockets höfðu kveikt rokkneistann á Íslandi 1957 voru það tónleikar The Stranglers 1978 sem sáðu pönkfræjum hjá móttækilegri æskunni. Þetta var mikil opinberun fyrir marga og viðhorfið gagnvart þessari tegund tónlistar tók að breytast. Gunnlaugur hjá Steinari þurfti að panta fleiri en þessi venjulegu 5 eintök af plötunum og smá saman vatt snjóboltinn upp á sig þar til hann rúllaði yfir allt sem fyrir var rúmu ári síðar.
En Stranglers voru ekkert að hugsa um þessi mótunaráhrif þegar þeir fóru í Hollywood eftir tónleikana í brjálað fjör frameftir morgni. Hinn ýturvaxni trommari Jet Black var einna hressastur og gekk um með ginbrúsa sem hann heimtaði að fólk svolgraði af. Hinir voru rólegri, bassaleikarinn og karatefríkið JJ Burnel át t.d. salat allt kvöldið og drakk mjólk, en allir fóru þeir þó heim á hótel með píur, nema hljómborðsleikarinn sem hafði komið með kærustuna með sér. 

Blaðamenn niðurlægðir
Í stórskemmtilegri bók um sögu The Stranglers, No Mercy, eftir David Buckley, rifjar Jet Black upp íslandsferðina og ýkir stórlega: "Sumir þessara 16-17 ára krakka á tónleikunum mættu með heilu flöskurnar af spíra með sér. Þegar við byrjuðum að spila hugsuðum við, "Vá, mikið er fólkið ánægt með að sjá okkur!" Það var mikil hrifning, en í lokin var skollið á stríð. Fólk var brjótandi flöskur á hausnum á hvoru öðru, krakkar liggjandi út um allt ælandi. Glundroðinn var algjör. Ég spurði strák eftir giggið, "látiði svona vegna tónlistarinnar?", og hann sagði, "Nei, þetta er svona á hverju kvöldi!"
Annars minnast Kyrkjararnir ferðarinnar helst fyrir það að þeir komu fram hefndum við nokkra af þeim ensku blaðamönnum sem þeim var sérstaklega illa við. Einn var vitlaust settur upp á ótemju og datt af í miðjum útreiðartúr og öðrum var ýtt í hver og brenndist á fæti. Enn einn var niðurlægður á blaðamannafundinum í Hljóðrita. "Nú birtist blaðamaður New Musical Express," skrifaði Ásgeir Tómasson í Dagblaðið, "gufulegur náungi sem dró býfurnar á eftir sér. Hann sagði eitthvað við Hugh Cornwell (söngvara og gítarleikara), sem lagði snarlega frá sér blaðið, sem hann hafði verið að lesa. "Segðu okkur bara hvert þú vilt fara," sagði hann. "Við skulum borga fyrir þig fargjaldið, þó að þú ætlir alla leið til Mars. Komdu þér bara í burtu eins og skot!" Nokkur frekari orðaskipti fóru þeim tveimur á milli, en Hugh hamraði sífellt á því að náunginn skyldi koma sér í burtu, hvað sem það kostaði. Að lokum lufsaðist blaðamaðurinn í burtu. Jet Black fylgdist með atvikinu án þess að hafast að. "Þessi gaur hefur gert sér far um að rangsnúa öllu sem við gerum og draga fram það, sem hann finnur á móti okkur," sagði hann. "Það hlýtur að vera allt í lagi að vera andstyggilegur við þá sem leggja sig í lima við að vera andstyggilegur við þig."
Stund hefndarinnar rann þó ekki upp af alvöru fyrr en í rútunni út á flugvöll á leiðinni af landi brott. Þá skoraði blaðamaður London Times, sem búinn var að liggja í bleyti allan tímann á Íslandi, á pönkarana í drykkjukeppni. Blaðafulltrúi bandsins, Alan Edwards, segist svo frá í bókinni: "Þessi gaur var algjör efristéttar uppskafningur. Ég held m.a.s. að hann hafi verið með einglyrni. Allavega, hann hélt að hann hefði í fullu tré við pönkarana og sagði, "ég get léttilega drukkið ykkur undir borðið". Þá ákvað JJ að kenna honum lexíu. Við erum alveg að koma á flugvöllinn þegar JJ ræðst á hann, heldur honum niðri og hellir heilli vodkaflösku niður kokið á honum. Gaurinn dettur út úr rútunni og ég er ekki að ýkja; það spýttist æla út um eyrun á honum! Svo dó hann á gangstéttinni. En, þetta voru Stranglers, svo í staðinn fyrir að hringja á sjúkrabíl, setja þeir gaurinn steindauðann upp í hjólastól og trylla honum um flugvöllinn. Hann er allur út í ælu, hálfpartinn búinn að missa brækurnar niðrum sig, og allir blaðamennirnir og ljósmyndararnir eru kallaðir til að verða vitni af þessu. Stranglers létu m.a.s. taka af sér myndir fyrir aftan gaurinn dauðann í stólnum. Frekar sjúkt dæmi!"


Bónus 1: The Stranglers - Nice 'n' Sleazy - Taumlaus snilld af "íslandsplötunni" Black & white. Bandið tók þetta lag ekki í síðustu heimsókn en vonandi rætist úr því núna. Ég vek athygli á þættinum Menn í svörtu á Rás 2, en þar ætlar Jakob Smári að rekja sögu meistarana. Fyrsti þátturinn er á þriðjudaginn. 


Bónus 2: J.J. Burnel - Goebbels, Mosley, God And Ingrams: Bassaleikarinn og karate-meistarinn JJ Burnel ku hafa gefið út tvær sólóplötur. Ég hef bara heyrt þá fyrri, Euroman Cometh frá 1979, sem mér þykir mikið til koma. Sú seinni kom 1988 og svo hafa þeir David orgelleikari gert eina plötu saman árið 1983. Maður þarf auðvitað að athuga þetta stöff. Lagið hér er aftur á móti frá árinu 1980 og kom út á flexidiski. Ég vissi nú ekki einu sinni að þetta væri til en hoppaði auðvitað hæð mína í loft upp þegar ég rakst á þennan flexidisk í Safnarabúðinni á dögunum. Það getur borgar sig að gramsa í Safnarabúðinni.

23.02.07
Ég hef litlu við klámfarsann að bæta sem Magga best og Megellan hafa ekki sagt nú þegar, nema kannski það að gaman væri að ímynda sér viðbrögðin ef ráðstefnan hefði verið fyrir fólk í samkynhneigða klámbransanum. Svo missti ég endanlega alla löngun til að taka þátt í svokölluðu lýðræði í maí, enda ekkert í boði nema hjarðdýr og gungur, og það ótrúlega gerðist að aldrei þessu vant get ég tekið undir það sem fýlupokarnir á Andríki segja. Ísland er Færeyjar norðursins.
---

Friðleifur endurheimti Bee Gees plötuna sína í gær, en hana lét hann frá sér árið 1970. Lauk þar sögu 37 ára aðskilnaðar. Uppsett verð: 1000 kr. Í gær seldi ég líka Gunnari Bjarna úr Jet Black Joe Gibson SG junior gítarinn minn, einnig 1970 módel, en ég og þessi gítar náðum aldrei almennilega saman. Uppsett verð: 110.000 kr.
---
Ég veit hvar Ég og heilinn minn endaði í Eurovision en var skildaður í þagnarbindindi. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum sem kusu lagið og styrktu kaffisjóð Símans um það sem nemur glænýrri smábifreið með aukabúnaði.

22.02.07
Hvernig er það, geta þá Bændasamtökin ekki líka látið undan annars konar þrýstingi og lækkað verð á kjöti?
---

Er klámráðstefnan byrjuð?
---

Því miður hefur svartagallstexti Jóhanns G. Jóhannssonar í lagi Óðmanna "Spilltur heimur" (SG-546, útg. 1970) staðist tímans tönn. Þar sem Jóhann er sextugur í dag (og heldur upp á afmælið á heimasíðu sinni) er engin ástæða til annars en að splæsa þessu frábæra lagi á mannskapinn. Vesgú: Óðmenn - Spilltur heimur. Áhugasamir ættu að nota daginn til að redda sér Óðmönnum komplett, enda leitun að betri bandi á Íslandi. Það væri þá einna helst tvöfalda platan þeirra frá 1970 sem er væntanlega ekki til svo það er kannski ekki um annað að ræða en Tónlist.is.
---
Borðaði 1 og 1/2 bollu á sunnudaginn, enga á Bolludaginn. Borðaði ekkert saltkjötogbaunir. Dagbjartur var bifvélavirki á Öskudaginn og alsæll. Það bregst annars ekki að það er alltaf vitlaust veður á Öskudaginn og í minningunni eru uppáklæddir krakkar sífellt fjúkandi um í óveðrinu.
---
Máttur internetsins er mikill. Hér að neðan sagði ég frá Idea-plötu Bee Gees sem ég keypti í Safnarabúð Valda. Samkvæmt kúlupennamerkingu á umslaginu var platan áður í eigu Friðleifs Kristjánssonar, Hlégerði 16. Í gær hringir sjálfur Friðleifur, líklega um 30 árum eftir að hann lét plötuna frá sér, og fullur vonar biður mig um að selja sér plötuna til baka. Ég, sem skil vel þá tilfinningu að vilja eignast aftur það sem maður lét frá sér í bríaríi, sagði að það væri auðvitað velkomið. Friðleifur er því á leiðinni til að sækja plötuna. Ég myndi segja að þetta væri falleg saga úr hversdagslífinu.
---
Það er alltaf glápt aðeins meira en venjulega næstu dagana eftir að maður hefur sést í sjónvarpinu að einhverju ráði. Þannig hrósaði stuðpiltur mér í hásterti í Bónus á mánudaginn og virtist með þetta allt á hreinu. Á Eiðistorgi snéri eldri konu með slæðu sér í hálfhring og sagði á eftir mér: Þú ert bara svona stór.
---
Einn af uppáhaldsþáttunum mínum á Rás 1 er Pipar og salt sem Helgi Már Barðason stýrir. Þar er komin gamla góða hljóðmyndin sem maður ólst upp við á skömmtunartímum fyrri alda, tónlist sem móðir manns vaskaði upp við, tónlist sem maður hékk í pilsfaldinum á. Stöff úr "lögunum við vinnuna". Unaðslegt six- og seventíspopp sem maður fór að hata með gelgjunni en ólgar nú af ljúfsárri nostalgíu. Missi ekki af þætti!
---
Til að gefa gleggri mynd af því um hvað ég er að tala er hér sýnishorn: Dr. Gunni - Til ama mömmu. Hér er ég að böggast á móður minni við uppvaskið og hvað annað en lögin við vinnuna heyrist í bakgrunni. Þetta er upptaka frá sirka 1980. Ég vissi aldrei hvaða lag þetta var fyrr en ég keypti notaða plötu með Gilbert O'Sullivan.
---
Nú birtast Bakþankarnir á Vísi. Hér er t.d. Bakþanki dagsins sem fjallar um skallafordóma.

21.02.07
Manni heyrist að nú eigi að kynda upp í stríðsarninum til að rebúblikkandi hanar eigi séns á endurkjöri. Kaninn malar nú ansi stíft um árás á Íran sem ég skil ekki alveg hvernig á að ganga upp. Þeir eru þegar með allt niðrum sig og skítinn lekandi úr rassgatinu í Írak sem þó er þrisvar sinnum fámennara land. Tja, nema það eigi bara að taka kjarnorkupakkann á þetta? Gleðilega útrýmingarhættu.
---
Jæja, þá er kosningabaráttan að hefjast... (geisp) Varð fyrir því óláni að stilla á Ástu Möller og Mörð Árnason tuða um orkugjafa á Gufunni áðan og það verður að segjast að Mörður hljómar með leiðinlegri mönnum þegar hann kemst í míkrófón. Engin furða að Samfokk sé að hrynja með honum, Tuðbjörgu og öllu þessu liði – og svo hafnar flokkurinn almennilegu fólki eins og Guðrúnu Ögmunds.
---
Jóhann G er kominn á netið líka og heldur upp á 6tugs afmæli sitt á morgun.

20.02.07
Tuttugu ár í haust síðan Goð með S.H.Draumi var tekin upp. Planið er að fagna með rímasteraðri endurútgáfu og aukadisk í veglegum pakka. Ekkert kombakk í pípunum hins vegar.
---
Meistari Hallbjörn Hjartarson er kominn á netið!
---
Abbababb fær eðlilega einróma lof gagnrýnenda sem eitthvað mark er takandi á. Í Víðsjá á mánudag mátti heyra Þorgerði E. Sigurðardóttir segja þetta meðal annars: Eins og flest góð barnaleikrit höfðar þetta verk bæði til barna og fullorðinna en ekki endilega á sama plani. Í raun efast ég um að börnin skilji allt sem gerist hér, til dæmis held ég að munurinn á pönki og diskói sé ekki eitthvað sem börn almennt átta sig á en það skiptir í sjálfu sér ekki máli, slíkar vísanir eru frekar ætlaðar fullorðnum. Þetta er hreinlega þrælskemmtilegt og fyndið verk sem er ekki ofhlaðið uppeldisboðskap eins og oft vill verða í sambærilegu efni fyrir börn. Hér er auðvitað verið að tengja saman lög af plötu sem hafa ekki sameiginlegan söguþráð og verkið ber þess stundum merki og verður dálítið sketsakennt, sérstaklega framan af, en þetta skiptir í raun ekki höfuðmáli í samhenginu, útkoman er bæði hröð og fyndin. Og verkið er ekki alveg laust við boðskap en hann er einfaldur: Það borgar sig að vera góður við aðra og stríða ekki þeim sem minna mega sín. Hér er mikið fjallað um vináttu og samstöðu og það er auðvitað hið besta mál.
Heildaryfirbragð sýningarinnar eru skemmtilegt, ekki of fágað heldur eru leikmynd og gervi frekar einföld og gróf sem á ágætlega við efnið og tónlistina. Það sama má segja um leikinn sem er frjálslegur og áreynslulaus og laus við uppgerðarvæmni sem stundum einkennir barnasýningar, söngurinn er hvorki of fágaður né viðvanginslegur, þetta er einfaldlega bara unnið á afslappaðan hátt sem kemur vel út. Tónlistin er líka mjög skemmtileg og ber merki átakanna milli tónlistarstefnanna í verkinu, þarna er rokk, diskó og pönk ásamt ýmsu öðru. Þetta er í raun tónlist sem höfðar til allra aldurshópa og sameinar þannig áhorfendur með allskonar tónlistaráhuga og  -þarfir. Hér er börnum treyst til að tileinka sér allskonar tónlist og ég gat ekki betur séð í salnum en að það væri að takast ágætlega. Framan af hafði ég nokkrar áhyggjur af því að brotakenndur söguþráðurinn væri að fara fyrir ofan garð og neðan hjá samferðafólki mínu en róaðist all verulega þegar rétt tæplega sex ára fylgdarmaður minn tilkynnti í hléinu að hann hefði hug á því að sjá þessa sýningu þúsund sinnum. Betri verða meðmælin varla. Hann varð hinsvegar stundum dálítið hræddur en það fór þó aldrei úr böndunum og var innlifunin hjá honum gríðarleg, sérstakleg í seinni hlutanum þegar spennan magnaðist verulega.
---
Við sýnum næst sunnudagana 25. feb og 4., 11., og 18. mars og alltaf kl. 17. Við sýnum svo vonandi tíðar þegar Orri Huginn losnar úr Ronju ræningjadóttir. Platan með lögunum úr söngleiknum er svo væntanleg í þessari viku.

18.02.07
Hér á heimilinu dreymdi okkur eintómt rugl í nótt. Lufsunni dreymdi að hún væri í hjartaþræðingu með Michael Caine. Þau lágu hlið við hlið og hann kvartaði yfir því hvað þetta væri helvíti vont. Minn draumur var enn furðulegri. Ég var að taka þátt í Eurovisionforkeppninni. Heiða var þarna líka í gullgalla og lagið var einhver gífurleg poppsnilld um mannsheilann. Þetta var svaka spennandi og ég hékk skjálfandi á bakvið með fullt af uppstríluðu liði. Mér fannst eins og ég væri staddur á ráðstefnu Star Treknörda. Svo kom Björgvin Halldórsson og sagði mér að þessi keppni væri nú bara "gay pride á sterum". Ég er meira að segja ekki frá því að á tímabili hafi ég verið farinn að halda að við myndum vinna. Farinn að segja krökkunum í bakraddakórnum frá skemmtilegum börum í Helsinki og eitthvað. Nei nei, svo skíttöpuðum við bara fyrir Eiríki Haukssyni! Meira ruglið...
---
Þá er bara að ná úr sér hrollinum og sturta hér úr einum stórkostlegum Topp 5imm:


Abba - Watch out: Talandi um Eurovision. Keppnin náði hápunkti sínum fyrir 33 árum. Þá bar Abba flokkurinn sigur úr bítum. Hér er B-hliðin á Waterloo singlingum frá 1974. Björn sjálfur syngur aðalröddina í þessu mjög svo ótýpíska Abbalagi. Ekki laust við að riffið sé málmkennt, næstum Hamlegt. Lagið byrjar töff en villist nokkuð af leið er á líður.


The Shocking Blue - Love buzz: Abbalagið hér að framan minnir nokkuð á tónsmíðar þessa hollenska örlí seventíshóps, sem einna þekktastur er fyrir hið almagnaða popplag Venus. Söngkonan hét Mariska Veres og dó úr krabbameini í fyrra. Bandið átti nokkur fín lög fyrir utan hittarann, eins og þetta sem fólk kannast etv við af flutningi Nirvana. Sneddí stöff.


Cause co-motion! - Which way is up: Frá Brooklyn núna en hljóma eins og það sé 1979. Minna mig bæði á Swell maps og Television Personalities. Þetta er nýlegur síngull.


Satanicpornocultshop - .aiff skull: Japönsk garnaflækja. Gott á geðveik grill. Lagið kom út á 7unda plötu sveitarinnar, Orochi under the Straight Edge Leaves. Ekki fá heilahristing.


The Besnard Lakes - And you lied to me: Benni í Maríspan mælti sérstaklega með þessu kanadíska bandi og plötu þeirra 
"The Besnard Lakes Are The Dark Horse". Ég tékkaði náttúrlega og er nokkuð sáttur. Dramatískt og dulúðlegt, hintar að ýmsu (Flaming Lips, Mercury Rev, Bee Gees, Beach Boys...) og vinnur snarlega á. Jagjaguwar gefa út.

7.02.07

900 2002

16.02.07
Jude Law var í morgunmat á 101 hótel. Ég passaði mig að glápa ekki á hann þar sem hann fékk sér appelsínusafa beint fyrir framan mig. Ekki vil ég spilla möguleikum Íslands til að verða böggfrír viðkomustaður fyrir fræga fólkið. Hann var í bláum náttbuxum. Eina myndin sem ég man eftir að hafa séð hann í er Gattaca, sem var nú frekar leiðinleg. Þess má geta að Forest Whitaker brosti fallega framan í son minn á Þjóðminjasafninu þegar hann var hér um árið. Mér finnst dáldið flott að Idi Amin hafi brosað framan í afkvæmi mitt. 
---

Hér sjáum við félagana Bruno, Claus og Jeppe á góðri stund á síðustu klámárshátíð. Nú hleypur á snærið því þeir og margir fleiri eru á leið á nýja klámárshátíð á Hótel Sögu. Þetta er auðvitað stórmál og ljóst að kynningarherferðir Icelandair hafa skilað tilætluðum árangri. Heilmikill fjölmiðlasirkus er handan við hornið og femínistar munu fyllast heilagri reiði og mótmæla pjöllunotkun í rúnkskyni ("mansal" o.s.frv.). Þetta er allt gífurlega fyrirsjáanlegt en samt ólgandi spennandi sjónvarpsefni þar sem reiðar konur munu hitta fyrir graðkarla sem þora ekki yfir strikið og viðurkenna klámfíkn sína frammi fyrir reiðu konunum og alþjóð, heldur munu tafsa um eitthvað allt annað en rétt sinn til að rúnka sér yfir klámi. Til að fá forskot á sæluna geta áhugasamir lesið þetta og svo skrollað yfir kommentin. Það mætti finna verri umgjörð fyrir gott sitcom en graða karla versus skinhelga femínista sem dýrka hið heilaga skaut. Bæði hafa rétt fyrir sér, karlar hafa rétt til sjálfsfróunar yfir myndefni af greyjum að riðlast eins lengi og greyin eru ekki tilneydd til riðlunar (af því við erum sem betur fer horfin frá því kristilega hugarfari að kynlíf utan hjónabands sé viðbjóðsleg synd) og það er rétt hjá konunum að þessi bransi er þroskaheftur og niðurdrepandi fyrir sjálfsvirðinguna að vera alltaf útglenntur og sullandi í vessum. Ekkert sem maður vildi sjá einhvern nákominn sér enda í. Andleg rotþró. En hei, vel borguð rotþró!
---
Eiki Hauks var í góðu stuði í gær. Hef held ég aldrei hitt þennan öðling áður. Fbl tók viðtal við okkur 2 með vinklinum rauðhausar í Euro eða eitthvað álíka. Ætti að birtast á morgun. Eiki var með ferðatöskuna nýkominn úr vélinni í Start bol en það var búið að eiga við t-ið frá orginal hönnuninni því fólk hélt almennt að hann væri í Smart bol. Orðið á götunni virðist vera að Heiða eða Eiki séu vænlegastir vinningshafar en ég þori ekki að hafa neinar væntingar. Hvernig sem fer ætti maður alveg að fá þrjátíuþúsund kall í stef-gjöld fyrir lagið eftir 2 ár.

15.02.07
Internetið er fullt af góðu stöffi. Þetta vita allir þótt það vilji gleymast ef maður hangir of lengi á tuðhaugunum. Hlekkir dagsins eru í boði Blás Ópals - klóróform fyrir krakkana:

Ahhh... Hér eru bráðskemmtilegar myndasögur eftir Max Cannon, Rautt kjöt. Hann birtir eina á dag og svo má fletta aftur í aldir.

Ég hef alltaf verið hallur undir amerískt "kits". Og á Bedazzled eru haugarnir, línkar á Youtube-brot og annað drasl. Hægt að gleyma sér góðum stundum. Meðal efnis: Patti Smith í barnatíma og myndir úr gömlum sirkus.

Nú stendur yfir massíf túristakynning á Dalvík. Komdu til Dalvíkur og áttu exótíska nótt, segir látlaus hali á Rás 2. Ég er næstum búinn að panta en geri það varla því ég á inni exótíska nótt á Hótel Búðum sem ég vann þegar ég sigraði spurningakeppni fjölmiðlanna á Rás 2 ásamt þessum meistara í fyrra. Eins og allir vita var Jóhann risi frá Svarfaðardal og hann var ekki bara risi heldur líka töff gaur. Á netinu má finna góða síðu um Jóhann hjá Júlla Dalvíkingi.

Hvar er dána fólkið núna? Find a death staðsetur hinsta stað stjarnanna og er að auki með mikinn fróðleik um það óumflýjanlega. Og á þessum nótum: Það er ekkert byrjað að sjá á see me rot konunni. Klárast ekki batteríið áður en eitthvað gerist?

Einhvern tímann spígspora ég vonandi um á Tonga eyjum. Því er gott að undirbúa sig og komast inn í málin með því að tékka á Matangi Tonga Online.

Eins og ég hef áður sagt er WFMU besta útvarpsstöð í heimi. Liðið þar er flippað og flott og línkabloggar hér. Hægt að sökkva sér hægt í tímaeyðslufen. Meðal efnis: línkur á Devo upptöku frá 1973, en eins og allir ættu að vita er Devo ekki bara ein af bestu hljómsveitum í geimi heldur sú sem var einna mest á undan sinni samtíð (eins og sjá má á þessu myndskeiði). 

Talandi um stöff á undan sinni samtíð: Hljómsveitin Monks. Það er ljóst að maður þarf að sjá heimildarmyndina um þá og svo er tribjútplatan fín og m.a. með Singapore Sling innanborðs.

Ef B2/69 er fyrir graða unglinga þá er Boing Boing línkasíða fyrir snillinga eins og þig. Allskonar áhugavert í boði, t.d. þessi giftingarmynd sem sýnir fram á sigur ástarinnar og hér er saganá bakvið myndina.

14.02.07
Árni Torfason tók myndir af Abbababb! Hér eru nokkrar:


Hr. Rokk & Rokkarnir. Hringferð með Halla og Ladda í sumar?


Meðlimir Rauðu hauskúpurnar, þau Aron Neisti, Halla og Óli, ásamt Systur Óla, Systu. Engin verðlaun í boði fyrir þann sem getur upp á hvaða lag hér er verið að syngja.


Rauða hauskúpan planar stórfenglega uppljóstrun.


Stóru strákarnir, Gulli og Steindór, vilja meira diskó og ekkert pönkrugl.
---
Fyrsti dómurinn um Abbababb! er kominn í Mogganum. Ég var hreinlega með hjartað í buxunum enda hef ég aldrei fengið leikhúsgagnrýni áður. Mér til mikillar gleði og ánægju er dómurinn bæði jákvæður og sanngjarn, þótt ég sé ekki endilega sammála öllu. Til dæmis segir að ég "ofnoti það stílbragð að láta áherslur falla vitlaust í orðum" og að það virðist visvítandi. Ég verð því miður að játa að ég er svo vitlaus að ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en Biggi benti mér á þetta í upptökuferlinu. Samkvæmt honum erum ég og Megas einu mennirnir sem gera þetta. Þetta bara flæðir svona út hjá mér, enda sem ég alltaf melódíurnar fyrst og textana síðan. En allavega, hér er dómurinn. 

13.02.07
Þó Mogginn sé búinn að fatta að blogg sé til þýðir það ekki að blogg sé orðið eitthvað skemmtilegra en það var. Sama tuðið upp til hópa. Stundum tek ég bloggrúnt í leit að einhverju skemmtilegu (ok, einhverju um sjálfan mig) og sárasjaldan finn ég eitthvað skemmtilegt, eiginlega bara ekki rassgat (tja, Katrín er alltaf ágæt, Simmi á Xinu er stundum góður, Freedom fries er fínt ef maður nennir að spá í bandarískri forheimsku og svo er ég örugglega að gleyma einhverju). Það gerðist þó í dag að ég aulaðist inn á blogg sem ég hef aldrei séð áður, en það er svo skemmtilega ófyrirleitið og vel skrifað að ég er búinn að eyða kvöldinu í að lesa það komplett. Algjörlega langskemmtilegasta bloggið í dag og enskur texti fyrir Mig og heilann minn að auki. Má ég kynna: Blogg Mengellu! Hvaða stórfengilegi meistari er þetta eiginlega? Mér dettur einna helst í hug Enter hjá Baggalúti, þó hann hafi nú varla tíma í þetta líka.
---
Kristilegir skandalar á færibandi. Fyrst Byrgið, svo Breiðavík, næst: Bjarg. Lesbískur sadismi og fleira stuð. Lesið um það hér!
---
Gunnar Hansson tók við mig viðtal fyrir barnaþáttinn Vitanná Rás 1. Það verður sent út á morgun kl. 19. Ég stórgræddi á þessari ferð því hann gaf mér Sigti-disk. Á disknum er aukaefni sem er ekkert smá erfitt að fatta, en það má lesa sér til um það hér. Gunnar fór ekki tómhentur af þessum fundi því ég gaf honum dós af Sarsi, en ég hafði verið að byrgja mig upp af Sarsi í Sælkerabúð Nings. Gunnar þykir rótarbjór góður sem er sjaldgæfur kostur. Flestum finnst rótarbjór eins og tannkrem. Það er della.
---
Einu sinni var karl sem gat prumpað á stórkostlegan hátt. Það má segja að þetta sé hinn orginal prumpukarl. Hann hafði atvinnu af þessu og var með sjó á Rauðu myllunni í París. Ef þú trúir mér ekki tékkaðu þá á þessu. Djöf... hefði verið gaman að sjá þetta!
---
Frumsýning afstaðinn og maður í lausu lofti að þurfa ekki að mæta á stífar æfingar daglega. Gekk rosavel og allir gífurlega glaðir. Svaka partí og maður er enn að jafna sig. Nú má einnig kaupa miða á midi puntkur is.
---
Þá er hægt að byrja að fá í magann og svitna fyrir Eurovision næsta laugardag. Það er ansi bjánalegt eitthvað að standa í keppni með popplag eftir sjálfan sig, en selaví. Samkvæmt áræðanlegum heimildum erum við önnur á svið, sem er svo sem ekkert verra en hvað annað...
---
Úlpur, ullarvettlingar og síðar nærbuxur athugið: Hörku fínt nýtt Múm stöff í Hlaupanótunni hér.

11.02.07
Stór dagur. Abbababb! söngleikurinn frumsýndur í dag. Forsýningin var í gær og gekk vel. Krakkarnir gríðarglaðir, allt niður í 2 og hálfs árs, mikið stuð og gleði. Fáum okkur nú Topp 5 til niðurróunar fyrir frumsýninguna miklu:


M.O.T.O. - Ghosts: Í tilefni frumsýningarinnar er hér boðið upp á orginal útgáfuna af Dodda draug. Lagið kom út á smáskífu 1992 en M.O.T.O. (Masters of the Obvious) er ævagamalt rokkband frá Chicago sem Bless spilaði nokkur gigg með á sínum tíma. Aðaldúddinn heitir Paul Caparino og semur helvíti melódísk og skemmtileg lög sem er vel þess virði að tékka á, t.d. á murdochsíðu sveitarinnar. Bandið er í fullu fjöri en með allt öðru lænöppi en þegar Bless spilaði með þeim. Þá var Paul bara einn með stelpu sem trommaði og fannst Moe Tucker ýkt kúl. Bónus: M.O.T.O. - Rot rot rot: stórkostlegt lag um líf nútímamannssins og óumflýjanlegan dauða hans. Kom út fyrir langa löngu.


Boney M - Daddy Cool: Er þetta besta lag allra tíma? Það er ekki laust við það. Geðveik bassalína, þýskar strengjamottur og Þórir Baldursson með fingur á tökkum. Magnað helvíti. Ég reyndi hvað ég gat að verjast safaríkum heilaþvætti Boney M á mínum mótunarárum í pönkinu en man að ég var sólginn í þetta lag. Á svokölluðu "pönkballi" í skólanum var þetta lag leikið. Mér fannst það auðvitað alveg fáránlegt og hugsaði, hvar eru Buzzcocks?, en þó laumaðist ég auðvitað til að dilla mér við Pabba kúl, enda fjandakornið ekki annað hægt.


Bee Gees - Idea: Brautriðjendastarf í þágu fyrstu platna Bee Gees heldur áfram. Nú er það titillagið af 3ju plötu Gibbbræðra, poppsýrður rokksmellur. Lagið er tekið af rispaðri plötu keyptri í geisladiskabúð Valda og samkvæmt plötumiða er upprunalegur eigandi Friðleifur Kristjánsson, Hlégerði 16, Sími 40709. Bónus: Bee Gees - I started a joke, þekktasta lagið af þessari plötu. 


Arcade Fire - Intervention: Ákveðin yfirhæping er yfirvofandi á nýlekna plötu þessara. Hefi hlustað lítillega á hana, alveg þokkaleg held ég en það sem mér finnst standa upp úr er hvað Arcade Fire minnir mikið á eitís hljómsveitina The Triffids frá Ástralíu. Söngrödd og fílingur, jafnvel útlit, er vel samanburðarhæft. Þetta mun vera fyrsti síngull nýju plötunnar.


The Triffids - Wide open road: Þetta er gamalt uppáhaldsband og ég er hrifnastur af fyrstu plötunum. Á seinni skeiðum urðu þau ansi poppuð og einum of late eitís gáfumanna-eitthvað. Þetta er af plötunni Born Sandy Devotional (1986) sem er líklega frægasta platan og þarna mitt á milli tímabilanna tveggja. Þetta lag er líkast til frægasta lagið þeirra. Bandið meikaði það aldrei alveg og söngvarinn David McComb tók það líklega inn á sig því hann drap sig á sukki 1999, þá að verða 37 ára. 
---
Hef annars formlega breytt mæspeissíðunni úr síðu hljómsveitarinnar Dr. Gunna (sem er ekki líkleg til stórræða) í persónulegu mæspeissíðuna mína. Samt er nú ekki líklegt að ég nenni mikið að uppdeita mæspeisið, enda er miklu skemmtilegra að athafna sig hér. Mæspeis er þungt og leiðinlegt og eigandi þess er kúkur. Eiginlega ætti maður bara að hætta þar alveg. 

---
Gamla stöff