26.04.10

Marrrr nú bara hér í akkorði við að semja spurningar í fyrstu umferð Popppunkts. Hafði þó tíma til að skreppa á barnamenningarstuð á Fríkirkjuvegi 11, sem Björgólfur Thor mun hafa "lánað" undir gleðina. Þarna var kvartett að spila Mozart fyrir krakkana, mjög gott. Fín afnot af þessu glæsilega húsi. Það á náttúrlega bara að vera "Barnahús" með allskonar stuði þarna allan ársins hring. Það er m.a.s. til Facebook-hópur þar að lútandi. Hvílíkt ofmat á eigið ágæti hjá Björgólfi litla að kaupa þetta hús í miðri Reykjavík. Hvað ætlaði hann að gera þarna? Vera með stanslaus partí með Ólafi og Dorritt og pabba sínum og 50 cent og einhverjum glingurglamrandi flottræflum og peningaplebbum? Kannski grafa göng út í "Hörpu" og vera með golfbíla í undergrándi til að ferja sig á milli og vera alveg æðislegur? Hver sem hugmyndin var er ljóst að hún er hrunin eins og allar aðrir spilaborgir auraapanna. Þess má geta að myndin hér að ofan er tekin á síma frá Nóva símafyrirtækinu.
---
Hér kemur opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra (eða hvers sem mun hafa með málið að gera þegar þar að kemur): Þegar tónlistarhöllin Harpa verður opnuð 2011, viltu þá sleppa því að bjóða áskriftarflottræflum og silkihúfum þjóðfélagssins á vígslutónleikana, heldur bjóða verkamönnunum sem byggðu kofann. (Helst þá að fá eitthvað sem þeir fíla, t.d. AC/DC). Ef einhver sæti verða eftir væri sniðugt að útdeila þeim í röð Mæðrastyrksnefndar. Takk.

24.04.10

Fórum á Hænuungana í Kassa Þjóðleikhússins. Þetta verk e. bassafantinn Braga Ólafsson hefur fengið rosa dóma og enda er það líka bráðskemmtilegt. Eggert Þorleifsson er frábær í þessu og leikur djassplötusafnara með allt á hornum sér. Það sem tengist plötusöfnun og að fara í Kolaportið og ljúga að konunni að eitthvað hafi kostað miklu minna en það gerði í raun hringdi einhverjum bjöllum. Myndin hér að ofan er að sýningu lokinni og sýnir Top of the pops umslag og rauðvínsslettur, en ég man ekki eftir að hafa séð Top of the Pops plötu í leikhúsi áður. Leikmyndin er frábær og þetta er bara mjög skemmtilegt. Eiginlega bara farsi, dempaður nútímafarsi. Ég nennti nú ekkert að finna táknmyndir um hrunið í þessu, enda þarf þess ekkert frekar en maður vill. Þetta er voða lítið hrun-eitthvað. Kannski er maður þá bara kominn á svaka bragð með að fara í leikhús núna? Ég mæli allavega heilshugar með Hænuungunum - þó það séu eilitlir blettaskallar, fannst mér, á söguþræði, persónusköpun og leik, en það var algjörlega minniháttar.
---
Þá eru öll liðin komin í sjöttu seríu Popppunkts:

1. HLH flokkurinn - KK band 
2. Hjaltalín - Feldberg 
3. Fjallabræður - Bjartmar og Bergrisarnir 
4. Logar - Grjóthrun 
5. Mammút - Agent Fresco 
6. Hellvar - Breiðbandið 
7. Benny Crespo's Gang - Lights on the Highway 
8. Skriðjöklar - Gildran 

Við byrjum í byrjun júní... Það verður m.ö.o. algjört offramboð á mér í sjónvarpinu því í kvöld og næstu 4 laugardagskvöld verð ég þarna röflandi um Eurovisionlögin.

23.04.10
Hér er maður í bullandi framboði fyrir Besta flokkinn en ekki eitt skitið fyrirtæki hefur boðist til að láta mig hafa pening. Hvað er að þessu liði? Þarf maður kannski að hafa frumkvæði að því sjálfur að sníkja þetta? Hvað segir maður? Hæ, heyrðu, áttu kannski 500 þúsund kall, kjellinn er að fara í framboð. Hmm... Ha?Hvað færðu í staðinn? Tja, við reddum einhverju, nudge nudge, wink wink... Svona hefur nú aldrei verið mín sterkasta hlið. Þetta er eitthvað svo plebbalegt. Peningar eru eitthvað svo plebbalegir.
---
Heldurðu að það væri nú ekki fínt að fá svona bland í poka frá nokkrum fyrirtækjum, segjum 12 millur samtals - já, þótt það væru ekki nema tvær. Alveg myndi ég leggja það á mig að hafa eitthvað brjálað lið hangandi fyrir utan hjá mér í nokkur kvöld fyrir 12 millur. 12 millur! Ég myndi næstum því leyfa froðufellandi baráttufólki að berja mig í köku fyrir þann pening. Nei, uss... var ég ekki að enda við að segja að peningar væru plebbalegir? (Fyrirtæki ath: ég er í símaskránni - en ef þið viljið hafa þetta almennt þá er reikningur flokksins: 0137-26-1340
Kt. 611209-1340).
---
Amerískir dagar eru skollnir á enn eina ferðina í Hagkaupum og allt þar vaðandi í lokkandi óhollustu. Ber þar hæst, sýnist mér, haugar af A&W rótarbjór og cream soda. Þú tékkar á þessu. Þetta er samt alltaf sama dótið. Hagkaupsmenn mættu leita til annarra byrgja. Ég er svo hvítruslslegur í matarsmekk, kjafturinn á mér er Kani. Mér finnst gaman að fara í Megastore og Kost að skoða litarefnismat. Ég ætti náttúrlega að vera eingöngu á spelti og hráfæði en ég bara nenni því ekki. Þetta er allt í lagi í bland. 
---
Annaðkvöld byrjar Alla leið, þriðja árið í röð, Páll Óskar og við þrjú að röfla um 39 Eurovisionlög. Þetta er voða fínt og lögin spanna allan skalann, þ.e. skalann frá ógeðslega leiðinleg til viðbjóðslega leiðinleg - nei, ég er að ýkja. Það eru nokkur ágæt lög!
---
Horfði á Hjálma útúrskakka búa til músík á Jamæka á Stöð 2 Extra. Fín mynd. Ég hef aldrei séð svona góðan ásláttarleikara áður. Drullugott band Hjálmar - verður gaman að heyra nýja döbbplötu frá þeim. Í gær fór ég líka á Astroboy og fór að grenja eins og alltaf gerist á barnamyndum, enda er ætlast til þess í lok svona mynda. Fín mynd.
---

Quadruplos - Bitar
Áríðandi tilkynning: Hljómsveitin Quadruplos skipuð þeim Magnúsi Birki Skarphéðinssyni og Tómasi Þórarni Magnússyni gefur út sínu fyrstu plötu í dag. Brak hljómplötur  í samstarfi við Weirdcore gefa út gripinn í takmörkuðu, númeruðu upplagi sem mun fást í helstu plötubúðum landsins. 
Sveitin hefur verið starfandi í núverandi mynd í um það bil eitt ár og hefur á þeim tíma getið sér gott orð sem ein kröftugasta tónleikasveit landsins á sviði raf og danstónlistar. Plata þeirra inniheldur átta lög sem er hvert af öðru fjörugra og á án efa eftir að fá fólk til að hrista rassinn og dilla hausnum í hinum ýmsu veislum landsins.
Quadruplos mun spila fyrir gesti og gangandi í plötubúðinni Havarí í Austurstræti laugardaginn 24. apríl kl. 16.

Kakali - The Cave
Önnur áríðandi fréttatilkynning: The Cave er fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar Kakala. Hljómsveitin samanstendur af þeim Árna Guðjónssyni, Daða Guðjónssyni og Kristjáni Árna Kristjánssyni. Þeir þrír hafa spilað og samið tónlist saman síðan 2003. The Cave er 11 laga plata, sú fyrsta í röð margra sem á eftir munu fylgja. Platan var að mestu tekin upp í október 2009. Meðlimir Kakala sáu að langmestu leyti sjálfir um upptökur en Jóhann Ásmundsson sá um hljóðblöndun. Þess má geta að þrír meðlimir Mezzoforte koma fram á The Cave, Eyþór Gunnarsson spilar á píano í The Wishing Tree, Gunnlaugur Briem á trommur í A Few for All og Jóhann Ásmundsson fyrrnefndur á bassa í Counterclockwise.
Í mars 2010 bættist við fjórði meðlimur Kakala, Þorsteinn Hermannsson, bassaleikari. Á plötunni sáu hinir þrír meðlimir Kakala um bassaleik til skiptis. Hljóðfæraskipan er að öðru leyti svo að Árni spilar á gítar, Daði spilar á hljómborð og syngur bakrödd en hann sá einnig um trommuleik á plötunni, Kristján spilar á gítar og syngur aðalrödd.
Kakali munu halda nokkra tónleika á næstunni og hafa þeir fengið til liðs við sig tvo góða menn til að spila með sér, þá Guðmund Stefán Þorvaldsson á gítar en hann fyllir í skarð Árna, sem býr í Noregi, og Jón Geir Jóhannsson á trommur.
Heimasíðan okkar er www.kakali.is og þar getur þú fundið linka á facebook og myspace síðurnar okkar, hlustað á alla plötuna o.s.frv. Við verðum með tónleika ásamt Jeff Who? og Bigga Bix þann 1. maí á Sódómu.
Plötuna má nálgast í heild á gogoyoko.com (http://www.gogoyoko.com/#/album/The_Cave) og mun hún koma út á CD innan skamms.
---

Björk - Álfur út úr hól
Nei sko, erða ekki sjálf Björk sem næst kemur með Bítla á íslensku með eina Bítlakóverið sitt á ferlinum. Þetta er náttúrlega Fool on the hill á íslensku með texta eftir Björgvin Hólm gólfkennara. Hér er viðtal úr Dagblaðinu 24. sept 1977. Mér finnst löngu kominn tími til að Björk geri aðra plötu með Pálma og Sigga eins og hún talar um 11 ára:

22.04.10

20.04.10

Upptökur eru hafnar á Alla leið, Eurovisionlagaþætti Páls Óskars. Fyrsti þátturinn er á laugardaginn og það verða 5 þættir í allt, sá síðasti laugardaginn fyrir úrslitakeppnina (29. maí). Alla leið er eins og fyrr, við Reynir og Guðrún Gunnars að hlusta á 39 Eurovisionlög með Palla og dissa og hossa til skiptis. Palli mætti með stjörnurnar sínar (þær hanga þarna fyrir aftan) og sparaði leikmunadeild Rúv stórfé. Það er kreppa og allir verða að leggja hönd á plóginn.
---
Þá hefst sýruárás á tennurnar... mér hefur alltaf þótt þetta ógnvekjandi auglýsing. Siglum... öldunum áááÁááá... Norrænu auglýsingin hefur mér aftur á móti þótt ógnvekjandi óþolandi auglýsing.
---
Hér segi ég: "allar myndir með Leonardo DiCaprio eru drasl, nema þegar hann var vangefinn og átti offitusjúka mömmu, hún var ágæt". Svona eftir á að hyggja langar mig að draga aðeins í land með þennan stóradóm. Leonardo er eflaust ágætis strákur og leiðinlegt ef hann myndi lesa þetta. Leonardo lék Jim Carroll, pönkskáld frá NY í myndinni The Basketball Diaries (1995). Ég þarf að athuga þá mynd betur, minnir að ég hafi séð hana einhvern tímann. Hann var ágætur í The Beach, sem er líka alltílagi mynd. Svo var myndin um Howard Hughes ágæt (The Aviator) þótt það hafi klárlega verið rugl að láta beibífeis leika hann, nær hefði verið að fá alvöru karlmenni einsog George Clooney í djobbið.
---
Nú hamast menn á skemmtigarði Hrafns Gunnlaugssonar vegna þess að hann hefur ekki leyfi. Já já, það væri betra að hann hefði leyfi eins og aðrir. Allir voða ánægðir með að það sé verið að tuska Hrafn til því þeir halda að það sé verið að sparka í punginn á Davíð Oddssyni í leiðinni. Það vill bara svo til að í fremur óspenanndi borg er laupurinn hans Hrafns með því allra flottasta sem hér er. Það er mun meira spennandi að fara með krakkana þarna en í Húsdýragarðinn. Ég held að borgarstarfsmenn ættu að líta sér nær, til dæmis byrja á því að malbika bílastæðið við Borgarspítalann sem hefur verið ómalbikað síðan 1968, áður en þeir byrja að þjösnast á sérvitringum sem eru að gera góða hluti. En nei, það er auðveldara að rífa niður en byggja upp (samanber að það er miklu auðveldara að vera svartsýnn/neikvæður en bjartsýnn/jákvæður því það þvingar þig til aðgerða). Það getur vel verið að Hrafn sé kexruglaður frekjuhlunkur, en hann hefur þó allavega komið upp spennandi ævintýralandi, sem er meira og merkilegra framlag til tilverunnar en heil hrúga af reglugerðaruppteknum borgarstarfsmönnum, sem gera ekki neitt nema að vera til leiðinda á fullu kaupi. Besti flokkurinn myndi aldrei níðast á Hrafni Gunnlaugssyni. Sköpunargleði og sérviska á að vera ofar reglugerðarfargani.
---
Hin dúndurgóða hljómsveitir Caterpillarmen (sem hljómar eins og sambland af Trúbrot og hinum finnsku Deep Turtle eða hinum kanadísku No Means No) var víst eitthvað fúl yfir sándinu á fyrstu plötunni sinni (sjá lesendabréf í Grapevine). Þess vegna hefur hljómsveitin sett plötuna sína á netið, eins og hún á að hljóma.

18.04.10
Þetta símafyrirtæki, Alterna, er dáldið ferskt, allavega það sem auglýsingin segir. Er þetta kannski það sem koma skal? Útlendingar, ótengdir rotþrónni, koma inn með fyrirtæki og bjóða betur? Ég sé fyrir mér álíka á sviði bensíns, matvæla, bankaviðskipta o.s.frv. Þetta er það sem Bauhaus ætlaði að gera en náði ekki og svo þarna bensínfyrirtækið í gamla daga, Irwing Oil eða hvað sem það hét, en þeir náðu aldrei að komast inn fyrir vegna öflugs mótþróa íslensku rotþróargrísanna. Kannski fáum við loksins almennilega samkeppni post-hrun?
---
Kannski ekki alveg það sama, en samt: hjólaviðgerðaverkstæðið Kría Cycles er rekið af David, sem ég held að sé Breti frekar en Kani. Hann hefur löngum verið með verkstæði á Hólmaslóð 4, en hefur nú bætt við sig verkstæði að Ármúla 42 og þar selur hann líka hjól frá Specialized. David er toppnáungi, sanngjarn og vandvirkur. 
---
Í gær var Gróttudagur og við þangað. Ég og Dagbjartur fórum upp í Gróttuvita, sem er skerí sjitt. Þröngt og hátt og ekki fyrir lofthrædda. Ég fæ stundum martraðir sem enda mjög áþekkt því að ég sé að skríða upp í toppinn á Gróttuvita en festist á leiðinni. Haraldur Jónsson er með verk á einni hæð vitans, herbergi sem hann er búinn að fylla af veðurbörðum skýslumöppum og pappírsdrasli. Mjög flott:

17.04.10

Í dag er dagur plötubúða - Record Store Day - svo maður hangir augljóslega í plötubúðum í allan dag. Fullt af þeim góðum hér, alveg magnað eiginlega hvað eru margar góðar búðir hérna. Við erum að tala um 12 tóna, Smekkleysu og Havarí upp á nýja dótið og við erum að tala um Lucky Records og Geisladiskabúð Valda upp á notaða dótið. Ég viðurkenni alveg að ég er ekki eins mikið hangandi í plötubúðum og ég var - Bölvað sé þér internet! - en ber vitanlega sterkar taugar til búðanna. Ég er að reyna að muna í hvaða æðislegar plötubúðir ég hef komið í útlöndum. Dettur fyrst í hug Pier Platters í Hoboken í New Jersey (hún er hætt). Þangað fór maður í New York ferðum í kringum 1990 og keypti haugana. Rough Trade búllurnar í London eru grand. Eftirminnilegt þegar ég fór í þá stóru í fyrra og það var verið að spila Óðmenn þegar ég kom inn. Í París man ég eftir einni búð sem var stórkostlega haugótt, en man ekkert hvað hún heitir. Hún er ábyggilega ein af þeim sem er getið hér. En allavega, til hamingju með daginn! (Myndina hér að ofan tók Karólína Thorarensen v/ lítils landkynningarverkefnis sem er væntanlegt).
---

Það er alltaf rosa stuð að fara í strætó, sérstaklega þegar maður mætir heilum bekk á leið í Þjóðminjasafnið. Þeim fannst merkilegt að hitta kallinn í sjónvarpinu (mun skárra en að vera Prumpukallinn! (þótt það sé nú ekkert slor)). Það er fínt að vera í strætó, allavega þegar maður er ekki að flýta sér. Best samt að komast hjá því að vera mikið á Hlemmi, ekkert nema aggressífir ógæfumenn þar þegar ég átti leið hjá í gær (vorið að koma). Hlemmur er dapurlegasti staður landsins. Maður fer í þunglyndiskast að vera þarna, langar bara að hætta að þvo sér og leggjast í ógæfu. Ég held að Besti flokkurinn muni beita sér fyrir gleðiumbótum á Hlemmi, þó ekki nema vegna þess að flokksmenn eiga margar æskuminningar frá staðnum. 
---
FRÆBBBLARNIR HITTA MACLAREN
Ekki veit ég hvort margir Íslendingar hafi hitt Malcolm Maclaren, hinn nýlátna. Valli og Stebbi úr Fræbbblunum hittu hann að minnsta kosti og segist svo frá: Ágúst 1978 - Í London skruppum við að heilsa upp á Malcolm Maclaren í Seditionaries á Kings Road. Vorum að spjalla við hann þegar ungur, reiður, kraftalegur piltur vopnaður kylfu kom og tók af mér orðið. Bað Malcolm að labba út fyrir svo hann gæti lamið hann hressilega án þess að valda skemmdum á saklausum munum. Kenndi honum um að hafa sprengt Pistols að okkur heyrðist. En við vorum kannski ekki í æfingu að skilja illa reiðan Lundúnabúa eftir menntaskólanámið í ensku. Fylgdarstúlka okkar frá Malasíu var orðin ansi smeyk þegar við samþykktum að fara. En þegar við fórum var Malcolm ennþá að kjafta sig út úr barsmíðum. Sáum ekki betur en að honum tækist það bærilega. 
---

The Millennium - It's you
Árin 1967-68 finnst mér sérlega fersk í músík. Þá var sýru sólskins ilmur í lofti og margir farnir að líta á poppið sem listgrein sem mætti teygja og sveigja. Bítlarnir með sín Revolver og Sgt. Peppers og Beach Boys með sín Pet Sounds og Smile/y Smile voru aðalpleyerarnir en allskonar lið var á kantinum með álíka pælingar. Glæsileg meistaraverk eins og Forver Changes með Love og Odessey and Oracle með The Zombies litu dagsins ljós upp úr þessum jarðvegi, og einnig platan Begin með hljómsveitinni The Millennium. Hún kom út 1968. Þarna í forsvari var Curt Boettcher, náungi sem dó ungur úr Aids, held ég. Begin er algjör snilldarplata sem ég mæli með. Þetta lag, It's you, er af henni. Curt var líka viðriðinn plötuna Present Tense með Sagittarius, sem kom líka út 1968 og er einnig snilld.

16.04.10

Eldgos? Er þetta ekki bara svarti reykurinn úr Lost kominn til að refsa okkur fyrir fávitaskapinn? 
---
Núna er alltaf verið að segja að Íslendingar hafi verið fábjánar á ýmsum sviðum, og það blasir við, en þeir eru það ekki á öllum. Sjáðu t.d. hjálparsveitirnar. Ekki er allt stútfullt af fúskurum þar. Ef sama fúskhrúgan og kom kerfinu í klessu væri þar myndi annar hver maður verða úti á meðan fúskhjálparsveitir ætu allar vistirnar sjálfar og væru bara spænandi á tryllitækjunum á fjöllum með tittlingana út úr göllunum. Því það er ástæðan fyrir klessunni: Fúsk. Siðlaust fúsk á öllum sviðum. Siðlausur fúskarar á öllum póstum. Sjálfur ætla ég að taka mér tak og hætta öllu fúski og reyna að dempa þetta "þetta reddast"-hugarfar. Það er hugarfar fúskarans. Þetta reddast bara ef þú ert ekki fúskari.
---
Homage-serían Ekki eins fyndið og Hugleikur sló í gegn í gær með #4. Fólk var segjandi Hugleik snilling hægri vinstri þótt myndin væri eftir mig. Sorrí Hugleikur! Þetta var því homage sem gekk of langt. Hugleikur og aðdáendur hans voru arfareiðir á Facebookinu með að einhver fáviti út í bæ gerði myndir í sama stíl. Héldu að þetta væri einhver bjáni sem væri kominn til að vera:

Líkur þar með verkefninu Ekki eins fyndið og Hugleikur. Þess má geta að Hugleikur - sem án nokkurs vafa er merkilegasti listamaður sem hefur komið fram á þessari öld, eða er allavega hátt á topp 5 (ég er ekki búinn að hugsa þetta alveg) - kynnir nýjustu bók sína, Popular Hits, í Havarí kl. 17 í dag. Hér kemur ein mynd úr þessari geðveiku bók:

---

Ómar Ragnarsson - Karlarnir heyrnarlausu
Meistari Ómar Ragnarsson er með frábæra söngrödd. Ég myndi gefa mikið fyrir að heyra útkomuna ef forlögin hefðu hagað því þannig að hann hefði fæðst 20 árum síðar og þá verið í forsvari fyrir einhverja æðisgengna pönkhjómsveit (plötuumslag fyrstu plötu Ómars og Skítmennana úr þeim hliðarveruleika er hér að ofan). Hér flytur hann eigin texta um Karlana heyrnarlausu á plötunni Gamanvísur og annað skemmtiefni, 1966. Lagið er Twist & Shout, sem John Lennon öskraði í lokin á fyrstu plötu Bítlanna. Ekki Bítlalag, per se, en af öllum kóverum sem Bítlarnir tóku þá kemst það líklega næst því að vera þeirra eigið lag. Þetta er lag með fortíð. Ég þakka Jónasi fyrir að benda mér á lagið og senda mér það!

15.04.10

Heill forseta vorum og fósturjörð á afmælisdegi hennar.
---
Flöfferar útrásarinnar eru í vörn enda stjörnurnar flúnar úr landi. 
---
Talandi um flöffera, þá merkilegu starfsstétt, þá heyrði ég nýlega mjög athyglisverða sögu um einn slíkan íslenskan, sem flöffaði aðallega í hommamyndum erlendis. Hann sagði að atvinnuöryggi hefði minnkað mikið eftir að Víagra kom á markaðinn. 
---
Þór Saari kom best út úr þessum umræðuþætti í gær. Hann talaði á ögn ferskan hátt. Annað var rispuð plata á rípít.
---
Maður er orðinn hundleiður á þessum eldgosum endalaust. Sérstaklega ef þetta fer að ógna lúkkinu á fallegasta bletti landsins, Þórsmörkinni. Manni var lofað töff túristagosi sem myndi endast mánuðum saman og ég ætlaði með tengdó að skoða 5vhálsgosið sirka 20 maí, en nei nei, það bara hætt og komið eitthvað forljótt þokugos í staðinn. Það er ekkert að marka þessa jarðfræðinga.
---
Ekki hafa borist mörg bréf með lista yfir siðferðislega ásættanleg fyrirtæki sem maður á að versla við. Það kom bara eitt sem sagði mér að flytja til Hafnafjarðar: Þú verður bara að flytja í fjörðinn. Í Hafnarfirði er allt fullt af flottum fyrirtækjum sem eru rekin af venjulegum gróðapungum en ekki stjörnufjárfestum. Í Hafnarfirði geturðu t.d. keypt í matinn í Fjarðarkaup sem er flottasta matvöruverslun landsins, Keypt þér rúm í RB rúm sem er búið að smíða og selja rúm í rúmlega 60 ár. Fiskbúðin á Trönuhrauni er líka frábær. Síðan er náttúrulega Helgi í Góu með höfuðstöðvar sínar í firðinum. Kv. Guðmundur
---
Poppararnir eru alltaf að. Toggi sendi bréf: Þar sem nú er allt svo útatað í kúk og drullu í þjóðfélaginu að maður gleðst næstum yfir náttúruhamförum, sem ágætis hvíld frá viðskipta- og pólitíkusarugli, þá fannst mér tilvalið að henda út eins og einu lagi til að létta lund almennings. Það er frítt í hágæðum og með artworki, fyrir þá sem hafa áhuga á að föndra. Lagið heitir - The Artist - og er fjórði singullinn af væntanlegri plötu (kemur út í haust). Dýrðin er hér. Snorri Helgason sendi líka bréf: Ég var að gera smá tilraun. Ég samdi lag og texta og tók það upp og skellti því á netið á klukkutíma. Lagið heitir "Over". Ég er frekar ánægður með það núna. Ég vona að ég verði ánægður með það á morgun líka. Ég vona að ég verði ánægður með það eftir tvo tíma líka. Andskotinn. Má heyra hér.
---
Ekki eins fyndið og Hugleikur #4:

14.04.10
Ég var búinn að ákveða þegar ég fór á Kaffitár í gær að ef einhver útrásarkúkakarl væri þar myndi ég ráðast á hann og rífa af honum veskið, taka alla peningana úr því og segja honum að éta skít ef hann væri með múður. Ég var svona æstur enda nýbúinn að hlusta á fréttir. Var samt að vona að þetta yrði einhver lítill og ræfilslegur kúkakarl svo ég hefði mig upp í þetta. Vissi náttúrlega innst inni að þetta lið lætur ekki sjá sig á götum úti. Vissi enn innar inni að þú læknar ekki siðleysi með því að vera siðlaus sjálfur. Eins var ég að spá í að fylla kerruna í Bónus og labba bara út án þess að borga. Vera svo með rosa steitment ef ég yrði böstaður - Dr. Gunni handtekinn fyrir þjófnað í Bónus - "Ég stel af þeim sem stálu af mér," segir hann. Tók samt auðvitað upp kortið eins og góður strákur við kassann. Aftur sama sagan: Þú læknar ekki siðleysi með því að vera siðlaus sjálfur. Kannski er ég samt bara aumingi?
---
Það er alltaf verið að segja manni að versla ekki hér og versla ekki þar. Aldrei hef ég samt séð handhægan lista yfir óæskileg glæpamannafyrirtæki sem maður á að sleppa. Getur einhver súmmerað þetta upp með hliðsjón af nýjustu eigendaupplýsingum? Ég skal birta listann. Ef ég kaupi eitt Bónusbrauð hvað fá feðgarnir þá marga aura af því til að brenna í fávitaskap? Best væri auðvitað að búa við það siðað þjóðfélag að maður þyrfti ekki að hugsa út frá svona forsemdum heldur gæti bara valið það ódýrasta, eða hvað það er sem fólk lætur ráða vali sínu.

Uppfært:

Þú biður um lista yfir skíthælafyrirtæki:
Hér er eitthvað til að byrja á:
http://www.hagar.is/Forsida/Fyrirtaekin-okkar
og svo náttúrulega Iceland express, tryggingafélögin, bankarnir, símafyrirtækin og olíufélögin.
Líklega er einfaldara að búa til lista yfir fyrirtæki sem eru ekki skíthæar...
Kv. Andri

Þannig að það er annað hvort að flytja úr landi eða láta sullið bara yfir sig ganga? Nema einhver vilji senda mér lista yfir fyrirtæki sem eru ekki skítapakk!
---
Gat nú skeð: Þorgerður Katrín, kona sem kannast bara smá við manninn sinn, vill að við "horfum til framtíðar". Þeir sem segja "nú er málið að horfa til framtíðar" eru með óuppgerða fortíð. En hvað er hægt að gera í þessu? Ég sagði einu sinni (löngu fyrir hrun) að þótt mannát myndi upplýsast í Valhöll myndi Flokkurinn samt fá sín 33%. Nú blasir siðferðislegt mannát við af 2600 blaðsíðum en djöfull er ég samt viss að í næstu könnun verður flokkurinn með sín 33%. Við skulum þá bara vera í mannátinu áfram.
---
Ekki eins fyndið og Hugleikur #3:

13.04.10
Fyrstu viðbrögð við Skýrslunni: Þetta lið kann ekki að skammast sín. Önnur viðbrögð: Í hvaða tugthúsum á að koma öllu þessu liði fyrir? Þriðju: Hún er hott þessi dökkhærða. 
---
Sjúkleg della, bananalýðveldi, "ógeðslegt þjóðfélag"... Það eru takmörk fyrir því hvað maður getur horft ofan í þessa rotþró sem Skýrslan sýnir, en mikið vona ég nú að eitthvað "gerist", einhver "axli ábyrgð", eitthvað "breytist til batnaðar". Maður verður fljótlega sturlaður að mæna ofan í ósköpin og verður að tappa af með músík. Eitthvað létt og skemmtilegt, ha?
---

Teenage Fanclub - The Concept
Skoskt eðalband í glymrandi kraftpoppapönki. Platan Bandwagonesque frá 1991 er ljómandi meistaraverk, sem þú ættir að tékka á asap. Ég er viss um að við hefðum ekki farið svona illa út úr þessu ef eigendur bankanna hefðu ekki verið plebbalegir Verslóhnakkar með ömurlegan tónlistarsmekk.
---
Svo er bara ein leið út úr ruglinu: Besti flokkurinn.

12.04.10
Það nennti enginn að horfa á Skýrslufundinn í ræktinni nema ég, JFM og Jónas Sen sem vorum í röð á þremur brettum. Fundurinn var dáldið eins og að horfa ofan í rotþró. If it looks like shit, smells like shit and tastes like shit, well, then it must shit... eins og einhver sagði. Annars vísa ég til niðurstaðna minna frá 10.04 - þær voru auðvitað réttar. Það var sem sé enginn að spá í þessu í Laugum, allir bara að tala um fótbolta eins og vanalega. Heyrði þó í einum jakkafatakarli gantast með að hann "nennti ekki á Kvíabryggju alveg strax". Sjálfur fór ég beint í Bónus enda á glæpamaðurinn ekkert í því lengur, er það ekki? Að öðru leiti hvet ég fólk til að kjósa Besta flokkinn í næstu kosningum því svona mikið rugl hefði aldrei getað gerst á "hans vakt"... 
---
Skýrsludagurinn mikli. Úff hvað maður nennir þessu varla. Ætli maður nái ekki best-offinu kl. 10:25 af brettinu, en svo ekkert fyrr en japlinu kl. 19:35. Maður verður nú að gera eitthvað meira í lífinu en að velta sér upp úr þessu kjaftæði. Popppunktsspurningarnar semja sig ekki sjálfar.
---

Jafnan er talað um tónleika Led Zeppelin á Íslandi 1970 með mikilli lotningu og stækri nostalgíu. Annað eins hefur ekki sést bla bla bla. Í Vísi stuttu eftir giggið mátti hins vegar lesa allt aðra lýsingu. Þrír íslenskir popparar þess tíma, þeir Gunnar Jökull, Jónas Jónsson og Björgvin Gíslason voru lítið imponeraðir yfir bandinu. Til dæmis segir Björgvin: "Mér fannst ekki nægilega mikill kraftur í hljómsveitinni. Þeir hefðu mátt stilla magnarana mun hærra að mínum dómi. Ég fékk ekkert út úr því, sem þeir voru að gera þarna. Það var greinilegt, að þeir nutu sín engan veginn, enginn þeirra hafði neitt nýtt fram að færa, að trommuleikaranum undanskildum, hann gerði virkilega góða hluti. Ég varð fyrir vonbrigðum með Jimmy Page, ég bjóst satt að segja við miklu meira frá honum, það fór ekki milli mála, að það, sem hann gerði, gerði hann bara vegna peninga. Persónulega hafði ég það ríkt á tilfinningunni, að Led Zeppelin álitu okkur hálfgert útkjálkafólk með einangraðar skoðanir á popmúsík."
Myndirnar hér að ofan eru teknar af Facebook-síðu Péturs Hólm. Þar er stórglæsilegt safn með haugum af frábærum bítlatímamyndum frá Íslandi sem hann tók á imbamatík með kubbi í kringum 1970. Stenst ekki að birta þessa, sem sýnir Megas, Rúnar Þór og einn enn í góðum gír, líklega upp í Hallgrímskirkjuturni.

11.04.10

Ég í Bless sautján hundruð og súrkál (1989?) á Tunglinu (með Risaeðlinu og Ham). Vildi ég ætti þennan flotta bol ennþá. Maggi Strump tók myndina. 
---
"Nytjamarkaðir" er hið viðurkennda orð sem notað er í dag yfir skransölur. Vinýlskúnkar sækja í svona til að grafa upp fornminjar í hinni endalausu leit. Á Vesturlandi eru tveir góðir nytjamarkaðir og við Steinn tókum stefnuna þangað í gær auk þess að heimsækja Bigga á Akranesi. Hér má sjá listrænar myndir úr ferðinni:

Nytjamarkaður Körfuknattleiksdeildar Skallagríms í Brákarey í Borgarnesi er opinn á laugardögum. Þau hafa flutt í minna speis og vinýlhaugarnir eru orðnir nokkuð lægri síðan við Steinn vorum þarna síðast. 


Steinn styrkti Skallagrím um nokkra þúsund kalla og gat fundið "aukaeintök" í Bubbasafnið. Sjálfur fann ég tvær litluplötumöppur sixtísstæl og fyllti þær af eðal sixtís og seventís smáskífum, gauðrispuðum og alls ekki svo ömurlegum! Er einmitt að hlusta á Mister Pleasant með Kinks af PYE smáskífu akkúrat núna og heyri varla lagið fyrir braki. Talandi um Kinks þá keypti ég að auki State of Confusion LP frá 1983 og sólóplötu með Pete Townshend Who came first frá 1972.


Gosminjar. (Keypti ekki)


Vantar yður stól? Þúsund krónur stykkið.

Búkolla Nytjamarkaður á Akranesi er í svipuðum stíl, en þó stærri og meira pró, enda meira opinn. Þar eru hrúgur af skíðum:


Plötuhaugarnir þar voru ekki eins spennandi og í Borgarnesi, en ég keypti þó gullfallega myndaplötu með hljóðsporinu úr E.T. þar sem svo vel hittist á að Dagbjartur er að horfa á E.T. um þessar mundir. Einnig fjárfesti ég í sólóplötu með Guðmundi Gauta (Tónaútgáfan 1975). Þetta er kóverplata með aðkeyptum erlendum hljóðfæraleik. Þarf að tékka betur á henni.


Hér bregður Steinn á leik með Rut Reginlds. 
---

Reptilicus - Okkar heili er innsiglaður
Þær sprengifréttir berast nú úr heimi íslensks iðnaðar að hljómsveitin Reptilicus vinni að nýrri plötu. Ef þú ert með Tímarit.is stillt í tölvuna þína má finna bráðskemmtilegt viðtal sem ég tók við hljómsveitina fyrir Þjóðviljann 1991. Þetta magnaða dúó náði ákveðinni fullkomnun með laginu Okkar heili er innsiglaður enda sjálfur Gunnar í Krossinum í liði með bandinu í því verki. Lagið kom út á ep-plötunni S.O.B.S. árið 1996. Síferskt og framandi!

10.04.10
Skýrslan? Er ætlast til að maður nenni að lesa 2.000 blaðsíður af skraufþurra textanum sem ég geri ráð fyrir að sé þarna? Eru „mennirnir“ ekki að grínast? Ég vil útdrátt á einu A4 blaði, takk. Eða ég skrifa þetta bara sjálfur:

Samantekt: Allir (flestir) urðu geðveikt gráðugir - sumir geðveikt gráðugri en aðrir - og svo fór allt til andskotans út af græðginni. 

Niðurstaða: Græðgi er ekki góð.

Hegning: Ég geri orð dekkjaverkstæðiskarls í Sjónvarsfréttum í gær að mínum: „Ég skal brosa þegar þessir drullusokkar eru komnir inn í svona 8-10 ár.“

Lærdómur fyrir framtíðina: Minni græðgi og meiri samfélagslega ábyrgð, takk. M.ö.o: Jöfnuður er svarið baby. Þegar einn græðir, tapar annar - þegar einn græðir ógeðslega mikið, tapar annar - í þessu tilfelli heilt þjóðfélag - ógeðslega miklu. Ertu búinn að ná þessu eða þarftu annað hrun til að nudda þessari staðreynd betur inn?

Og þá geturðu hætt að pæla í þessu og farið að pæla í einhverju skemmtilegra. Til dæmis ungversku eðalpönki frá 1983:


Bikini - Nem leszek sohasem
Einhver útlendingur sendi mér plötuna „Hova Lett...“ með ungversku hljómsveitinni Bikini á spólu fyrir mörgum mörgum mörgum árum. Síðan þá hefur þetta verið ein af uppáhaldsplötunum mínum - a.m.k. í flokknum „Plötur sem enginn þekkir“ - og þú gætir gert margt vitlausara en að tékka á henni. Þetta er pönk en með allskonar „lærðum“ vísunum, alveg yfir í progg og Devo-lega nýbylgju. Mjög smart og hefur elst vel. Aðalkallinn í þessu bandi heitir Nagy Feró og með honum innanborðs gerði bandið tvær plötur, þessa árið 1983 og svo XX. századi híradó árið eftir. Sú er einnig fín. Þá hætti Nagy en bandið hélt áfram (og er enn að), en varð leiðinlegt. Þegar Nagy hefur komið fram með bandinu upp á síðkastið er það kallað Ös Bikini (Gamla Bikini).
---
Alveg eru gosdrykkjaframleiðendur (les: Ölgerðin) úti að aka. Afhverju er ekki gosdrykkurinn ELDGOS kominn á markaðinn? Hugsið ykkur launch partíið á 5vhálsi! Hugsið ykkur labelmiðann! Grípa gosgæsina meðan hún gefst, strákar.
---
Þetta er af Facebook:

Tvær af hetjum mínum frá unglingsárunum (+ trúbadorinn Halli Reynis) að þrefa um hallærislegan Verslóhnakka sem var smábarn þegar þeir sjálfir voru upp á sitt besta. Undarlegt hvað fólk nennir að eltast við að greina lyktina af kúk, skít og drullu (afsakið ruddalegt orðbragðið) þegar þetta rennur allt úr sama rassgatinu.

09.04.10
Stofnaði Popppunktshóp á Facebook og á voða voða marga vini. Vilt þú líka vera vinur Popppunkts? Ég verð í þættinum H&M á Rás 2 kl. 10 á eftir að röfla um Popppunkt og eitthvað fleira. Ætli ég fái ekki að spila framlag mitt til sumarsmella í ár, sumarsmellinn VINSÆLL sem Hvanndalsbræður syngja og leika.
---
Allir tala um "Kirgistan" eins og ekkert sé sjálfssagðara. Bæði skv. þessu og þessu heitir landið Kirgisistan á íslensku. Ákváðu allir bara hitt upp á sitt einsdæmi? Meikar auðvitað meiri sens - landið heitir Kyrgyzstan á ensku og því liggur Kirgistan beinast við. Hvað voru menn þá að spá með að kalla þetta Kirgisistan? En allavega...
---

Malcolm McLaren - You need hands
Hvenær verður byrjað að sprauta mann gegn dauðaplágunni? Fólk er hreinlega hrynjandi niður úr dauða hvar sem litið er. Allskonar meistarar sem hafa glatt mann í gegnum tíðina eru að drepast eins og enginn sé.. ööö morgundagurinn. Lux Interior dauður, John Peel, Alex Chilton og Roland Howard og nú Malcolm McLaren, sem var frægastur fyrir að "uppgötva" Sex Pistols. Ég hélt alltaf að hann væri hommi en svo les maður í eftirmælunum að hann hafi átt son með Vivanne Westwood og eitthvað. Hann fór úr krabbameini og náði 64 árum. Ég hélt að John Lydon myndi koma með eitthvað pönkað yfirhraun á gamla dána umbann, því það var nú vægast sagt ekki kært á milli þeirra, en svo er Rotteninn bara bljúgur og næs, eins og menn verða með aldrinum. McLaren var nú enginn músíkant þótt hann hafi klínt einhverju saman á þeim vettvangi. Hans verður aðallega minnst fyrir að vera hugmyndamaður sem dreif hlutina áfram. Hér er hann að syngja væmið sjótún eftir Max Bygraves - einhvern enskan grínista - sem honum hefur eflaust þótt svaka sniðugt að setja á The Great rock n roll swindle, það vankaða rusl.
---

Bob Hund - Folkmusik för folk som inte kan bete sig som folk
Sænska bandið Bob Hund (wiki) var æðislegt. Ég sá það á Hróarskeldu 1997 og það var magnað. Önnur plata bandsins, sem gengur undir nafninu "Omslag: Martin Kann" og kom út 1996, er líklega það besta með þeim. Mér var sagt að þeir syngi á einhverri undarlegri sænsku, skánsku eða eitthvað. Þeir voru síðast á ferð árið 2001 með plötuna Stenåldern kan börja en tóku síðustu árin í eitthvað sólóvesen og önnur bönd og enska útgáfu af bandinu sem hét Bergman Rock. Í fyrra kom ný Bob Hund plata sem heitir Folkmusik för folk som inte kan bete sig som folk (Folkmúsík fyrir fólk sem getur ekki hagað sér eins og fólk). Hmmm... engin gargandi stórsnilld við fyrstu yfirferð enda margsannað að menn gera besta stöffið sitt í rokki á milli 20-30. Eftir það erða bara hjakk, bara só sorrí, en þetta er staðreynd. Það er svo sem margt ágætt þarna, eins og til að mynda titillagið sjálft. 
---
Ekki eins fyndið og Hugleikur #2:

p.s. Jón Ásgeir hefur því miður aldrei mútað mér svo titill þessa bloggs í dag er bara tilraun til að sjá í hvaða sæti vinsældarlistans á blogg.gattin.is ég verð í dag (ekki það að mér sé ekki drullusama hversu margir eru að lesa þetta.) (Jæja þá). Þetta er svona nútíma Úlfur! Úlfur! - Jón Ásgeir! Jón Ásgeir! Talandi um "nútímalegt" þá heyrði ég auglýsingu um nútímaleg gluggatjöld í gær í útvarpinu. Gott ef þau voru ekki hæstmóðins líka.

08.04.10

Þarna er Kirgisistan. Kirgisistan, ekki Kirgistan eins og maður gæti haldið. Næsti bær við Kína og heimaland Borats, Kasakstan. Hvað eru Kirgisar í Kirgisistan að spá? Er allt að verða vitlaust? Ég nenni nú ekki að kynna mér stjórnmálaástandið í Kirgisistan, sorrí. Kirgisar eru um 5.5 milljón og þeir taka ekki þátt í Eurovision. Höfuðborgin heitir Bishkek. Ég fann ekki neina almennilega músík frá þeim með einföldu gúggli.
---
Íslenska Hamborgarafabrikkan opnar á morgun. Aldrei áður hefur veitingahúsið opnað með eins miklu fyrirframplöggi. Ég er hamborgara- og djúsí djönkfúddmaður og mun auðvitað gefa þessu séns. Ég á líka alveg eftir að gefa Kaffi Kidda Rót í Mosfellsbæ séns, en þar skilst mér að séu bestu hamborgarar bæjarins og boðið upp á metnaðarfulla poppsögusýningu að auki. Ekki að borgararnir séu neitt slor hjá Búllunni eða Rubys. Mér skilst að einn borgarinn hjá Simmogjóa heiti Morthens, sem er frekar ólystugt. Megasborgari hefði verið nær lagi. Þrátt fyrir gengdarlaust plöggið er pleisið ekki á netinu (nema á Facebook). Það væri sniðugt af Simmogjóa að skella matseðlinum á netið við fyrsta tækifæri.
---

Alíslenskir gosdrykkir eru fáir í dag og allir á vegum Ölgerðarinnar. Við erum með stórfenglegt Appelsín, la la Mix og hina frábæru Orku, sem ég tel til gosdrykkja þótt það eigi að heita orkudrykkur. Nýlega kom Ölgerðin með glænýjan gosdrykk, eða svona endurbætt gamalt dót, Egils Grape. Nú eru blessunarlega engin gervisætu- eða litarefni í drykknum sem skilar sér í hressandi drykk sem smakkast næstum því heilsusamlega. Verst bara að grape er bragðvondur ávöxtur, þetta ramma bragð er a.m.k. ekki að virka á mig. Mér dettur aldrei í hug að kaupa mér grape til að éta og því er ólíklegt að ég eigi eftir að drekka Egils grape í hrönnum. Fyrir grape-ista er þetta þó himnasending. Ég gæti trúað að það sé sama liðið og finnst eyrnamergsdrykkurinn Campari góður. Ítalir eru með gos sem smakkast eins og Campari svo kannski ætti Egils að reyna að flytja þetta út þangað. Egils Grape er vitanlega komið á Gos.
---
Þegar hljómsveitir nefna sig í dag er mikilvægt að velja nafn eftir gúgglvænsku. Sum nöfn gúgglast vel, The Beatles hefði til að mynda verið gott gúggl nafn á sínum tíma á meðan hljómsveitin Them hefði verið vont.
---

Happy Birthday - Subliminal massages
Talandi um vond gúgglnöfn þá er hljómsveitin Happy Birthday með afleitt hljómsveitarnafn. Hún hefur gefið út fyrstu plötuna sína sem er með afleitu umslagi og heitir líka bara Happy Birthday. Þetta ætti því að vera afleit hljómsveit en er skratti góð. Þetta er tríó frá Vermont fylki (næst fámennasta fylki Bandaríkjanna með 620.000 manns, Wyoming er fámennara með 544.000 - Ben og Jerrys ísinn kemur frá Vermont!) og aðalgaukurinn heitir King Tuff. Músíkin er svona líka sallafínt indie power popp, smá kanadískt Sloan í þessu. Bandið er gefið út af Sub Pop og er á Myspace.
---
Ekki eins fyndið og Hugleikur #1:

07.04.10

Megas - Veðurlag
Sieg heil Megas 65 ára í dag! Það er greinilegt að lýsið er að virka. Að því tilefni - og að fjölmörgum öðrum -  er hér "ég bara fokkings nenn'essu ekki" - Veðurlag - af læfplötunni Greinilegur púls sem var tekinn upp á Púlsinum 1991 en kom út 2006. Miðað við það sem ég las í blaðinu er Meggi að vinna að plötu með Rúnari Þór og Gylfa Ægissyni - ííí-ha! Svo má skipa lesendum að kaupa sig inn á Listahátíðargiggið Megas - aðför að lögum (stórtónleikar í Höllinni 24. maí) eða/og Megas hjá Haraldi Jónssyni (vinnustofutónleikar 25. maí).
---
Sá frægan #1: Hrafn Gunnlaugsson og frú voru í mesta basli með að komast inn um augnskanna-aðgönguhliðið í World Class Laugum í hádeginu í dag. Það hafðist á endanum.
---
Horfði á Capitalism, a love story í gær. Þetta væri miklu meira töff hjá Michael Moore ef hann væri ekki svona feitur. Kjagandi þetta um með buxurnar á hælunum og tárin í augunum. Hann hlýtur að geta farið á sama kúr og Peter Jackson sem var sílspikaður en náði sér svo á strik og er töff í dag. Við erum kannski ekki að tala um ofurtöff eins og þetta lið hér, en töff samt. Myndin er annars ágæt. Gráðugu svínin ætti að flá. Full stutt í dumbingdownandi tilfinningaklámið samt. Hann er í þessari mynd hann þarna Hr. Black með rauða skeggið sem var í Maybe I should have. Alveg 3ja stjörnu mynd. Segi ekki "ræma" af því það er svo hallærislegt.
---
Maggi Mix er nýjasta stjarnan á Íslandi. Þú átt að gerast vinur hans á Facebook, hlusta á lögin hans og skoða myndböndin.
---

Hunx and his Punx - You don't like Rock n Roll
Drullugott fávitapönk með hommaívafi er Hunx and his punx frá San Fran. Hunx þessi mun hafa verið í hljómsveitinni Gravy Train sem ég veit ekkert um. Hann var að hita upp með hinum látna Jay Reatard á síðasta ári og hefur gert 5 smáskífur. Þær eru allar uppseldar svo þeim var safnað saman á hið stórgóða safn Gay Singles, sem nú er komið út. Einsog sjá má á þessari fallegu hljómsveitarmynd er hann aðdáandi Edith Massey. Hunx á myspace.

06.04.10
Svo virðist sem allir hafi horft á snuffmynd í sjónvarpinu í gær og séu brjálaðir í dag. Ég er bara of viðkvæmur fyrir svona dót, horfði ekki og þarf þar að auki ekki að sjá svona til að vita að þetta dæmi er allt saman viðbjóður. Stríð hefur ekkert upp á sig eins og Edwin Starr (bróðir Ringo?) söng svo eftirminnilega 1969. Dáldið skrýtið að það þurfi "tvo blaðamenn" til að einhver veiti þessu athygli, en svona er þetta bara. Voru ekki einhverjir 60 sprengir í tætlur í Pakistan í fyrradag og það var áttunda frétt eða eitthvað, langt á eftir nýjustu ferðamannatölum af krúttlega eldgosinu okkar. Kristinn Hrafnsson er að gera góða hluti og allt við þetta er bara hið besta mál. Svona alvöru blaðamennsku sjáum við vonandi þegar bókinni um hrunið verður lokað í eitt skipti fyrir öll.
---
Já ég hef löngum verið viðkvæmur fyrir sláandi ógeðismyndum. Mér varð svo mikið um myndina Friday the 13th að ég þurfti að sofa á milli foreldra minna nóttina eftir bíóferðina. Þetta var 1981 svo ég hef verið tæplega 16 ára, spilandi pönk og drekkandi landa hverja helgi. Ekki segja sálu frá þessu. Ég meikaði ekki Texas Chainsaw massacre og ekki heldur Cannibal Holocaust sem átti að vera ekta snuff en var það ekki. Opnunaratriðið í Irreversible (þegar einn er barinn með slökkvitæki í hausinn og verður smá saman að kjötkássu) er enn greypt í huga mér. En ég þurfti nú reyndar ekki að fara upp í hjá mömmu og pabba eftir það, svo eitthvað hef ég sjóast. 
---

Við höfum gert merka uppgötvun í frístundatengdri afþreyingu: Langholtsskólaleikvöllurinn er líklega sá besti í bænum! Langholtsskóli er við Holtaveg, við hliðina á KFUM heimilinu (þar sem GOÐ var tekin upp) og stutt frá mótmælastað Helga Hós (hvar er minnisvarðinn?). Þarna eru brjálaðar klifrugrindur, geggjaðar rólur, snotur rennibraut , fót-, hand- og körfuboltavellir og síðast en ekki síst þrjú trambólín sem eru glæsilega hönnuð inn í leiksvæðið. Ókeypis stuð fyrir alla fjölskylduna!


Á öðrum í páskum var ekkert að gera nema nota tímann (ekki eyða honum) í eitthvað skemmtilegt. Það var því ís í ísbúðinni Ísland (skyrís með bláberjum að sjálfssögðu) og svo í Hellisgerði í Hafnarfirði. Það er mikið ævintýraland og gríðarlega flott svæði sem málfundafélagið Magni stóð fyrir að yrði komið upp árið 1923. Ég hef reyndar aldrei séð þennan bonsaigarð sem er þarna á sumrin. Í einu horni garðsins er Græna kaffihúsið þar sem mátti fá súkkulaði/vöfflu-kombó á 1000 kall. Í gær var svo gott veður að það mátti borða úti. Snilld.
---

Alfa Beta - Hún vill ekki sjá þig
Alfa Beta var stuðband skipað Ágústi Atlasyni úr Ríó, Halldóri Olgeirssyni og Guðmundi Hauk Jónssyni úr Roof Tops. Hann kenndi mér íslensku í gaggó og ég man ekki annað eftir því en að einu sinni rak hann mig til að þrífa Don Martin-legar myndir sem ég hafði krotað á skólaborðið og einu sinni hló hann að textanum í Æskuminningu Fræbbblanna og fékk mörg rokkstig fyrir vikið. Bandið gerði eina LP, sem hét því stuðlega nafni Velkomin í gleðskapinn og var með gríðarlega töff umslagi eins og sjá má hér að ofan. Umslagið gefur reyndar í skyn að um sé að ræða rafpopp en svo var því miður ekki heldur er um létt stuðpopp að ræða alla leið. Eitt lagið er stílað á Lennon/McCartney, en er líklegast bara samið af Palla popp. Heitir I don’t want to see you again og var flutt af Peter & Gordon. Paul samdi nokkur lög fyrir þennan dúett enda að deita systur Peters, Jane Asher. Frægast þessara laga er World without love. Jónas Friðrik gerði íslenska textann fyrir Alfa Betu. ÁÁ Records gaf út 1976.

05.04.10
Ég vakna stundum með lag á heilanum. Í morgun var það Ég pant spila á gítar með Ladda og í gær Waiting on the World to Change með John Mayer. Ég er með leim smekk þegar ég er sofandi.
---
Hvernig stofnar maður hóp á Facebook? Var nebblega að spá í að stofna hópinn Ef 100.000 joina þessa grúppu fara Davíð og Jón Ásgeir í sleik í Kastljósi. Djöfull væri það annars fínt, að þeir færu bara í sleik. Það gæti verið svona táknræn hreinsun fyrir landið og stemminguna. Báðir í hvítum kyrtlum. Eftir innilegan sleik kæmu lærisveinar þeirra í halarófu, líka í kyrtlum, og færu í bullandi sleik. Svona meistarar eins og Hannes og Skafti öðru meginn, Bubbi og Ólafur hinum megin og svo væri kelað á fullu í reykelsisylmi undir hugljúfri tónlist Friðriks Karlssonar. Svo myndu allir útúrsleiktir og ljúfir á því lofa að hætta nú þessum helvítis endalausu leiðindum og sandkassaleik og fara að eyða tíma sínum og okkar í eitthvað uppbyggilegt og skemmtilegt. Heldur þetta lið annars að við séum fávitar? Auðvitað er sama græðgisrassgatið undir báðum þessum "liðum" og allt venjulegt fólk er löngu búið að fá hundleið á "umræðunni". Hún er í stuttu máli svona: "Þinn er rosa vondur og allt honum að kenna - Ne hei, þinn er sko vondur og minn er góður" (endurtakist eftir þörfum í ýmsum útgáfum). Þetta eru eins og þroskaheftir hanar á haug. Hver ætlar að reka þá inn í kofa? Hó! Hó! Svona drullisti nú í kofann, heimsku hanar. Það er ekki svefnfriður fyrir þessum andskota.
---
Tónlist sem maður hafði mjög gaman af á einhverju tímaskeiði eldist annað hvort vel og heldur gildi sínu eða úreldist og manni fer að finnast leiðinleg. Það sem mér fannst gott og finnst enn gott er til dæmis:
Bítlarnir
Xtc
Wire
The Fall
The Birthday party
The Cardigans
St. Etienne

Það sem mér fannst gott en finnst slappt í dag er t.d.:
Nick Cave - hrútleiðinlegt jesúvæl.
Garbage - galvaníseruð leiðindi.
The Pixies - Fékk óverdós.
Nirvana - Unglingabóluvæl.
---
Páskahumarinn rann ljúflega niður og eggið var gott. Núggategg frá Nóa. Nú étur maður ekki páskaegg í heilt ár en humar við fyrsta tækifæri. Ég keypti lífrænt kaffi frá Bolívíu í Café Haiti og það lyktar rosalega vel og smakkast ekki síður. Næsta skref mitt í lífinu er að drífa mig þangað og fá mér arabískt kaffi. Ég fékk svoleiðis á Babel staðnum í Berlín og ég er ekki frá því að ég sé á góðir leið með að temja mér djúpstæðan áhuga á arabísku kaffi. Það er kryddað og unaðslega sterkt. Svo er sósa í botninum þegar maður er búinn. 

3.04.10
Að syngja á ensku ef maður er Íslendingur er eins og að sjúga úldnar rottuleyfar upp úr klósettskál með röri. Sem sé, vont. Því finnst mér það mjög gott framtak hjá tónlistarkeppninni Þorskastríði að skylda keppendur til að gaula á íslensku. Harkalegt já, en bara fínt að snúa aðeins upp á handleggina á þessu lata liði. Poppsjárhyggja.
---

Mgmt - Song for Dan Treacy
Af plötum ársins hef ég hlustað langsamlega mest á Congratulations með Mgmt og dreg þá ályktun að þetta sé langbesta plata ársins til þessa. Á heimasíðunni þeirra má nú sjá geðsjúkt myndband við flækjulagið góða Flash Delirium og hlusta á alla plötuna þar að auki. Þarna er ekki veikan blett að finna, hver melódíusnilldin lekur inn á eftir annarri og fyrr en varir ertu kominn með þetta á heilann. Fimm stjörnu meistaraverk með vísanir í allar áttir. Til dæmis í þessu lagi, öðru laginu á plötunni, eru yfirdrifin áhrif frá ensku hljómsveitinni Television Personalities (wiki), sem er náttúrlega engin furða því þetta er óður til Dans Treacys, aðalmannsins í bandinu. Bandið var í pönkinu með næfa og poppaða pönkslagara eins og Part-time punks en fór síðan yfir í ekta breskt popp með vísanir í breskan sixtieskúltur og hafði mikil áhrif á marga sem poppuðu um miðjan 9 áratuginn (C86-kynlóðina og bönd eins og Half Man Half Biscuit og The Wedding Present). Dan var/er í ruglinu: heróín, heimilisleysi og allur pakkinn. Ágæta heimildarmynd um Television Personalities má finna á Youtube - Hvað er nú eiginlega ekki til þar? Það er ekkert voðalega hátt risið á Dan ræfilinum í þessari mynd, enda örugglega erfitt að dragast um með sænska kvikmyndagerðamenn þegar maður er þunnur. Hér er slagarinn Smashing time, sem kom út 1980 á þriðju 7" bandsins. Árið eftir kom fyrsta LPið, ...And Don't The Kids Just Love It, en síðan hefur runnið frá þeim.
Television Personalites - Smashing time

02.04.10
Langt er síðan Föstudagurinn langi var eitthvað langur. Nú er enginn að hugsa um Jesús á krossinum og maður getur bara farið í sund eins og fínn maður. Einu sinni var maður skyldaður til þrautar og pínu í bullandi meðvirkni með krosslafa. Kannski af því að þetta var svo rosalega leiðinlegur dagurinn man maður eftir nokkrum liðnum Föstudögum löngum. Eins og t.d. 1. apríl 1988 þegar útvarpsstöðin Rót sló upp tónleikum með Daisy hill puppy farm, Múzzólíní, Ham, Yesminis pestis, Sogblettum og S. H. Draumi. Ég á þetta á spólu:

S.H.Draumur - Grænir frostpinnar (læf 01.04.88)
Mér heyrist það vera Pétur Magnússon sem er þarna æpandi á lagið Mónakó í drykkjurússi í lok lagsins. Skv. lagalista tókum við ekki lagið sem hann var að æpa á, sem er hryllileg framkoma sem ég biðst velvirðingar á. Hljómsveitir sem vilja ekki spila vinsælustu lögin sín og pína áhorfendur með einhverju nýju drasli sem enginn hefur áhuga á ætti að flengja, eða grýta. Bönd sem halda að þau séu eitthvað töff með því að neita að spila lummurnar ættu að bara að vera heima hjá sér ofan í kjallara. Allt í lagi að blanda þessu aðeins saman. Ekki er Paul McCartney spilandi eitthvað nýtt rusl! Nei! Hann tekur sko lummurnar og brosir alla leiðina í bankann.
Myndin hér að ofan er tekin af Sigurði Mar Halldórssyni og sýnir bandið í MH í feb 1988. Ég held þetta sé uppáhaldsmyndin mín af bandinu. Við Biggi höfum svona verið að nefna það við hvorn annan að vera með nett kombakk, gefa dótið út almennilega (safndiskurinn "Allt heila klabbið" frá 1993 er ónýtur sándlega séð og umslagið í fokki og þar að auki uppseldur síðan á síðustu öld). Ég verð hreinlega að fara að hringja í hann Steina gítarleikara (sem er skólastjóri Tónlistarskólans á Egilsstöðum) og tékkáðí hvort hann sé geim. Heildarútgáfan Goð+ og tónleikar og svona.


Unun - Föstudagurinn langi demó 1994
Aðeins seinna, 1.4.1994, sem var líka Föstudagurinn langi, byrjaði Unun að taka upp plötuna æ í stúdíói Gný með Eyþóri Arnalds. Og meira en það, eitt lagið á plötunni heitir náttúrlega Föstudagurinn langi. Þetta átti að vera svona lag sem alltaf væri spilað þennan dag, eins og hæ hó jibbí jó 17. júní eða öll jólalögin, en það hefur enginn kveikt á þessu ennþá. Í 16 ár hef ég aldrei heyrt þetta lag spilað á Föstudaginn langa, sem er meiri áfellisdómur yfir aulahátt útvarpsmanna en gæði þessa lags. Hér er heimademó frá örlí Unun þegar bandið var nafnlaust en hljómsveitarnafnið Zombie Duck er skrifað á kassettuna. Kristín Jónsdóttir, fyrsta söngkona Ununar syngur. Henni var svissað út fyrir Heiðu snemma í upptökuferlinu. Kristín átti síðar átti eftir að syngja í hljómsveitinni Múldýrið. Það band gerði eina 7". Með henni þar voru engir smá tappar heldur Einar Sonic úr Singapore Sling og Helgi Örn sem var í Slinginu + Svavar Skakkamanage og KGB, aka Bob Justman.
---
Hvernig á að temja dreka er gríðargóð teiknimynd í 3D sem fær bæði 4 stjörnur hjá Dagbjarti og mér. Boðskapur og allt í henni - boðskapurinn er: betra er að temja en drepa - og maður spyr sig hvort þetta sé metafor: víkingarnir Bandaríkjamenn og drekarnir múslímar? Og hver er þá vondasti stóri drekinn? Allah sjálfur? Jónsi í SR á lag í myndinni sem ég fattaði nú ekki fyrr en ég las þetta. Hafði bara hugsað, hmm, voða er þetta eitthvað Jónsalegt atriði. Ég er að öllum líkindum fattlausasti maður í heimi.
---
Þótt ég sé fattlaus voru 1. aprílgöbbin fyrirsjáanleg. Flest var maður alveg viss um að væri gabb. En maður var ekki viss með fréttina um að það ætti að grafa Bobby Fischer upp. Ég beið bara eftir því að þulurinn segði: Uppgreftrunin fer fram kl. 14 í dag við Laugardælakirkju, ókeypis pulsur fyrir fyrstu þúsund sem mæta. Hefði þetta verið gabb, og reynt að fá bolinn til að fjölmenna við uppgröft á líki, þá hefði það verið nokkuð frumlegt gabb, verð ég að segja.

01.04.10
Ekkert 1. apríl gabb hér, bara helvítis hellingur af nýrri íslenskri tónlist:


Benni Hemm Hemm - Blood of my blood
Fimm laga EP Retaliate er úti í haga og Benni Hemm Hemm eins og rófulaus hundur um allar koppagrundir að spilana. Hann verður í Ketilhúsinu á Akureyri í kvöld og í Norræna húsinu á laugardaginn. Nýja platan er einfaldari en fyrri verk, útsetningarnar berstrípaðri, og allt sungið á ensku enda Benni búinn að vera búsettur í Skotlandi í næstum 2 ár. Benna mæspeis.


Retro Stefson - Mama Angola
Retro Stefson eru að taka upp enda heillangt síðan bandið gerði Montana. Hér er það fyrsta sem sleppur úr vinnubúðum Unnsteins og kó, en framundan er EP plata í vor og ný LP í haust. Bandið og stóri bróðir FM Belfast ætla að trylla lýðinn í Nasa 16. apríl og kalla giggið Lausir endar.
Prins Póló - Underwear Fm Belfasts
Prins Póló (aka Svavar í Skakkamanage) fer Niveasmurðum höndum um einn smellinn af bestu plötu 2008. Með sendingunni fylgdi fréttatilkynning: 
FM Belfast og Retro Stefson leika lausum hölum og blása til mikillar gleði á Nasa þann 16. apríl nk. kl. 23.30. Forsala aðgöngumiða er á midi.is og á Karamba við Laugaveg. Miðaverð í forsölu er aðeins 1.600 kr. en hækkar sé keypt við innganginn. Síðast þegar þessar sveitir leiddu saman hesta sína, þann 30. desember sl.,  var uppselt og stemmingin mögnuð og er óhætt að segja að árinu hafi verið lokað með stæl! Það er því ráð að næla sér í miða á þessa frábæru skemmtun sem fyrst og komast þannig hjá vandræðum á tónleikakvöldi.
Báðar sveitir hafa verið við upptökur á nýju efni síðustu vikur og verður nýtt efni í bland við gamalt spilað inn í nóttina á Nasa þetta kvöld.
FM Belfast hefur gert víðreist á þessu ári. Spiluðu á Eurosonic hátíðinni í janúar við mjög góðan orðstír. Í framhaldinu var haldið í 3 vikna tónleikaferð um Evrópu sem heppnaðist í alla staði mjög vel – eins og fjölmargir dómar og myndbrot sem finna má á veraldarvefnum sanna.  Plata þeirra How to make friends kom út um alla Evrópu og í Bandaríkjunum og hafa dómar sömuleiðis verið góðir. Hljómssveitin er á leið í aðra tónleikaferð um Evrópu í maí sem stendur í 4 vikur einnig hefur sveitin nú verið bókuð á annan tug tónlistarhátíða í sumar m.a. á Hróarskelduhátíðina og Træna í Noregi. FM Belfast mun því ekki leika á mörgum tónleikum í Reykjavík á árinu sökum anna erlendis. Upptökur standa yfir á nýju efni.  Útgáfa hins magnaða Prins Póló á Underwear verður sett í spilun á næstu dögum.
Retro Stefson hafa undanfarnar vikur verið við æfingar á nýju efni. Upptökur á nýrri plötu hófust fyrir skömmu og er stefnt á EP útgáfu á Íslandi í byrjun sumars og í Evrópu skömmu síðar. Sveitin er þessa dagana læst inni í Hljóðrita hjá Kidda Hjálm og ganga upptökur vel. Nýtt lag Mama Angola kemur í spilun um eða eftir helgina. Ný hljómplata er síðan væntanleg með haustinu. Retro Stefson spilaði á tvennum tónleikum með FM Belfast í Kaupmannahöfn og Osló í byrjun mars og er skemmst frá því að segja að þar, rétt eins og hér á Íslandi, var sveitinni gríðarlega vel tekið.
Í maí fer Retro Stefson í minitúr um Norðurlöndin en stefnan er tekin á lengri ferðalög með haustinu.
Það er alltaf gleði og lausir halar þegar FM Belfast og Retro Stefson spila á tónleikum!

Prins Póló Svavar er svo vitaskuld innsti koppur í búri menningarsjoppunnar Havarí og sendi líka tilkynningu þar að lútandi:
Fimmtudagur 1. apríl klukkan 16.00 (Skírdagur)
Tónlistarmaðurinn The Missing Leech frá Barcelona hefur verið að leika 
vítt og breitt um bæinn undanfarna daga og lýkur víðreist sinni í 
Havarí klukkan 16 á skírdag. Stormy Curves hitar upp!
Laugardagur 3. apríl klukkan 16.00
Benni Hemm Hemm er í páskafríi á Íslandi en það er nú ekki mikið frí 
sem strákurinn fær því hann er með tónleika á Akureyri og í Reykjavík. 
Tilefnið er útgáfa á EP hljómplötunni Retaliate sem er að detta í 
hillurnar í Havarí í þessum töluðu orðum. Benni heldur tónleika í 
Havarí klukkan 16.00 á laugardaginn.
Veggspjald vikunnar heldur afram samkvæmt almanaki en hingað til hafa 
sex frábærir listamenn sýnt veggspjöld á standinum góða. Á 
fimmtudaginn frumsýnum við veggspjald eftir Lóu Hjálmtýsdóttur 
teiknara og söngkonu í FM Belfast!
Að lokum minnum við á ALSÆLU, veggspjaldasýningu Hugins Arasonar og 
Unnars Auðarsonar, sem senn lýkur.
Frítt er inn á alla viðburði í Havarí og allt friðelskandi fólk ávallt 
hjartanlega velkomið án endurgjalds.


Sóley - Theater Island
Freyr Bjarna skrifaði um Sóleyju og hina ágætu 6 laga plötu hennar í Fbl á dögunum: Sóley Stefánsdóttir úr hljómsveitinni Seabear hefur gefið út sólóplötuna Theater Island hjá undirfyrirtæki Morr Music. Hún hefur aldrei spilað lögin sín opinberlega.
„Þetta er ágætis byrjun, það besta sem maður getur hugsað sér," segir Sóley. Hún gefur á næstunni út EP-plötuna Theater Island á vegum Sound of a Handshake, sem er undirfyrirtæki þýsku útgáfunnar Morr Music sem Seabear er einmitt á mála hjá. Þegar hafa komið út tvær plötur með Benna Hemm Hemm hjá Sound of a Handshake.
Sóley hefur aldrei spilað lögin sín á tónleikum, hvorki heima né erlendis, og því er um óskabyrjun að ræða fyrir þessa efnilegu tónlistarkonu. „Thomas Morr, sem er með Morr, hafði samband við mig í október og spurði hvort ég væri með lög. Ég sendi honum eitthvað. Svo í nóvember, desember og janúar var ég allt í einu búin að mixa og mastera EP-plötu," segir Sóley.
„Þetta var ótrúlega skrýtið og fyndið ferli sem gerðist allt í einu. Ég hafði aldrei pælt í að ég myndi gera eitthvað við það sem ég var búin að taka upp." Tónlistin er að sögn Sóleyjar píanóskotin en með lágstemmdum poppáhrifum og er nokkuð frábrugðin því sem Seabear hefur sent frá sér.
Stefnt er að því að platan, sem hefur að geyma sex lög, verði tilbúin 5. mars þegar útgáfutónleikar Seabear verða haldnir í Berlín í tilefni af plötunni We Built A Fire. Þar ætlar Sóley að sjá um upphitun rétt eins og á þriggja vikna tónleikaferð Seabear um Bandaríkin sem hefst 17. mars. Einnig hitar hún upp á þriggja vikna Evróputúr Seabear sem hefst í maí.
Hún viðurkennir að það sé smá skjálfti í sér, enda hefur hún aldrei flutt lögin ein á sviði áður. „Ég er alveg ógeðslega stressuð en maður verður bara að sjá hvað gerist. Ég hef alveg komið fram ein síðan ég var lítil og ég hef reynslu í að koma fram en þetta er samt stökkpallur, að fara og vera ein uppi á sviði. Ég get ekkert gert neitt í því meira en að vera bara bjartsýn og jákvæð."
Sóley, sem lýkur námi í tónsmíðum í Listaháskóla Íslands í vor, ætlar síðan að byrja á sólóplötu í fullri lengd í sumar eftir að tónleikaferð Seabear um Evrópu lýkur. Sóley er svo á Myspace.


Ummi - Svefnleysi
Sólstrandagæjarnir var nú ekki talin mjög góð hljómsveit þegar hún var að ærslast í kringum 1995. Þetta gæti þurft að endurskoða því Jónas Sigurðsson gerði góða hluti á sólóplötu fyrir nokkrum árum, og nú hefur hinn gæinn, Ummi, kveðir sér hljóðs með sólóplötunni Ummi. Þetta er soft kassagítarknúið íslenskt popp, smá Megas og Bjartmar plús útlent kántrí. Tónlistin, sem er ljómandi fín, vekur þó eflaust mun minni athygli en umbúðirnar, lögin þrettán koma innpökkuð í einum rosalegasta pakka sem sést hefur. Þetta er eins og útgáfa á heildarverkum Wagners frá 1980. Í kassanum er LP plata með 10 lögum, CD með 3 og svo allt saman á tréminniskubbi. Ummi, sem býr í London, er í tæknibrellutölvubransanum og á því blessunarlega eitthvað afgangs til að spreða í svona stórkostlega pakka. Ummi er hér.
---
Síðasti Bakþankinn í bili (af því ég er kominn í langt leyfi til að gera annað en að vinna á Fbl) heitir Þegar þjóðir sturlast og fer út á þann þunna ís að draga nasista inn í umræðuna.
---
Jonni pönk er alveg að verða brjálaður á blogginu sínu sem er vitaskuld vinsælasta blogg landsins. Mörg gullkornin velta frá meistaranum, til að mynda: Hvar í heiminum haldið þið að girða þurfi hraunstraum, svo að fólk hlaupi ekki út í hann? Það er auðvitað hjá þjóð, sem að mestu er skipuð fávitum. Þó verð ég að setja varnagla við færslu Jónasar um fávita Suðurnesja. Eingöngu þó þessa línu: Suðurnes eru Dharavi Íslands, botninn á tilverunni. Þar var hermangið og þar var rokkið.Það er akkúrat ekkert sem gerir háklassa rokkista að fávitum. Ég held að Jónas hafi ætlað að segja rokið en ekki rokkið. Ef eitthvað er sem Suðurnesjamenn ættu að vera stoltir að er það auðvitað að hafa hýst vöggu rokkmenningar á Íslandi.
---

Ég sá þessa plötu til sölu á markaðinum í Berlín og sé dáldið eftir því að hafa ekki keypt hana. Umslagið er óneitanlega mjög geðveikt. Þetta er ungverska hljómsveitin Omega með plötuna 8 frá árinu 1978. Maður þarf að tékka betur á þessari hljómsveit! Séu karlar í kvenlegum fötum þitt áhugamál mæli ég sterklega með þessu atriði með Change frá 1975 (bíða þarf í eina mínútu á meðan Sigga Beinteins kynnir). Lagið er Casanova Jones og hefði verið á annarri plötu Change, hefði hún komið út. Menn sýna heldur betur snilldarleg tilþrif og má benda sérstaklega á fagleg dansspor Bós og Jóa Helga á 2:32 mínútu. Svo ekki sé nú minnst á leikhæfileika Tomma Tomm.

31.03.10

Klósett í Berlín eru undarlega há. Maður þarf að tilla sér á tá til að halda jafnvægi. Klósettpappír er líka undantekningalaust harður. Rúmið í hinu ágæta og vel staðsetta Winter's hóteli var einnig glerhart. Gaman að þessu. Mikil harka í öllu þarna og stundvísi og almennilegheit. Berlín er stórborg. Á Friedrichstrasse á morgnanna var ekki ósvipað og í New York. Ys og þys og metropólískt. En svo eru allskonar öðruvísi hverfi með annars konar fílingi. Fórum um Kastanienallée sem er ekki ósvipað og að vera á Notting Hill í London, nema flottara. Svona Skólavörðustígur, bara meira kúl og minna um uppstoppaða lunda. Ég var endalaust að reyna að fatta í hvaða átt ég væri að fara í borginni. Einu sinni villtumst við í sporvagni og fórum djúpt inn Friedrichshain, sem er svaka A-Þýskt hverfi þar sem risablokkir standa mannlausar og grotnandi. Berlín er fín borg - örugglega gaman að búa þarna - en ekkert svaka fínt er að það sé ekki 2007 ennþá og evran á 80 kall. En jæja. Fokk þatt sjitt, eins og gamla konan sagði.
---

Við átumá nokkrum frábærum stöðum, ég drakk nokkra lélega gosdrykki. Og ég keypti ekki nema 2 LP plötur í ferðinni á hinum risavaxna Mauerpark-markaði, mæli eindregið með honum. Eins og Kolaportið á sterum. Fórum á DDR-museum, á hinar ógnvekjandi nasistaslóðir Topography of terror, keypti bol með mynd af Trabant, drakk ekki svo fáa Starbucks-kaffi (af því ég er vestrænn fáviti) og þú veist, gerði þetta vanalega sem maður gerir í örstuttri helgarferð. Étur ógeðslega mikið og eyðir peningum sem maður á ekki.
---

Svo er maður svo geðveikur að maður fer á netið til að tékka á gamla landinu. Les eitthvað endalaust þus og þras um að Jón Ásgeir sé Satan og Davíð Oddsson sé Guð, eða öfugt, eða ekkert, og bla bla og ví ví. Ég held ég verði að fara að láta aflúsa mig til að hætta að eltast við "umræðuna". Dáldið fyndið svo að lesa fyrirsögn eins og "Enginn Íslendingur meðal látinna í Rússlandi" - eins og tölfræðilega séð væri það einhver svaka möguleiki. Afhverju ekki bara "Tveir létust í bílslysi í Basel, hvorugur þeirra Íslendingur". Ég veit ekki hvort þessi svívirðilega örþjóðaminnimáttarkennd sé krúttleg eða ógeðsleg - kannski bara ógeðslega krúttleg. Það má alltaf lesa úr svona: Æ þetta er ekkert merkilegt fyrst enginn Íslendingur drapst, áfram með smjörið...
---
Þotan fór yfir gosið. Sá þetta í nóttinni í bakaleiðinni. Eins og arinn í myrkrinu langt fyrir neðan. Það verður nú að viðurkennast að það er drullukúl að geta boðið upp á eldgos í aðflugi. Ég gæti alveg hugsað mér að skreppa og skoða þetta en manni sýnist einhver geðveik túristageðveiki vera í gangi þarna. Manni óar við þessu. Vona bara að Þórsmörk beri ekki skaða af troðningi.
---

Fischer Z - Berlin
Eins og ég segi þá keypti ég bara 2 LP plötur í þessari ferð. Fann þessa á 2 evrur í kössum staðsettum nálægt drullupolli á Mauerpark markaðinum. Fischer Z var frekar metnaðarfullt nýbylgjuband með skrækum söngvara og ég hef nostalgíu til þeirra því ég átti fyrstu plötuna með þeim í gamla daga. Markmiðið var að eignast fyrstu 3 plöturnar með þeim og þetta er sú þriðja, frá 1981. Dúndurgrís að fyrsta lagið á plötunni skuli einmitt heita Berlín. 

The Nits - Young reporter
Hollensk nýbylgjuhljómsveit sem ég kynntist ekki fyrr en í fyrra hjá Bubba á Akureyri sem seldi mér plötu frá 1980. Í kassa hjá manni með flokkað úrval (þá má alltaf búast við að það sé dýrara) fann ég þessa plötu með The Nits frá því 1979 og það er sami ferski nýbylgjutónninn í henni eins og hinni. Kostaði 6 Evrur.

---
((((((( Fyrsti hluti ársins 2010 )))))))