TOPP 5! 27. vika: Lada sport - Tango in the valley of death / Ljótu hálfvitarnir - Bjór, meiri bjór / Calvin Harris - Acceptable in the 80's / The Broken west - Down in the valley / Eilert Pilarm - Megamix        ELDRI LISTAR
03.07.07
Ég er ljómandi glaður með þá ákvörðun mína að lesa Moby Dick í sumar. Hló upphátt og allt í kaflanum þegar Ismael hitti tattúveraða villimanninn Queequeg í fyrsta skipti. 
---
Ljóst er eftir síðasta Lost þáttinn í bili sem sýndur var í gær að þeir munu ekki eiga í miklum erfiðleikum með að þvæla þessu fram og til baka í 3 seríur í viðbót. Ég mun sitja límdur við skjáinn. Skv. Lostpedíu hefjast sýningar ekki á ný í USA fyrr en e-h tímann næsta vor. Ætli við fáum nokkuð fyrr en í september 08 eða svo?

01.07.07
Í toppstuði með Topp 5imm:

Lada sport - Tango in the valley of death: Fyrsta plata Lödu sport, Time and Tme again, er "handan við hornið" og á skilið góða athygli enda gríðar metnarfull, þrælsprengd og erlendis. Strákarnir setja stefnuna á klósettrúntinn og ættu að ná langt ef súpersmellurinn "The world is a place for kids going far" kemst í Grey's Anatomy og auglýsingu fyrir strigaskó.


Ljótu hálfvitarnir - Bjór, meiri bjór: Ljótu hálfvitarnir gera nú "allt vitlaust" með grínþjóðlagapoppi og almennri gleði. Þeir eru hluti af "út-á-landi"-bylgjunni og þar í liði með Hvanndalsbræðrum, Helga og Hljóðfæraleikurunum, Hundi í óskilum og fleiri höfðingjum. Sonur hafsins hefur þegar riðið röftum á "öldum ljósvakans" en nú er komið að bjór, meiri bjór. Skil reyndar ekki bragðlauka sem vaxa í kringum bjór - bölvað leiðindasull - þá er nú rótarbjór betri. Hér glittir í pönkið sem liggur til grundvallar.


Calvin Harris - Acceptable in the 80's: 23 ára Skoti frá Dumfries með dúndursmell um það sem var ásættanlegt in ðe eitís. Það er reyndar ekki talið upp í textanum. Láttu hugann reika með grúvandi 80's-"skotnu" stuðinu.


The Broken west - Down in the valley: Frá Los Angeles og spila kraftpopp með kántríáhrifum, minna mig á bland af The Byrds og Teenage Fanclub. Þetta lag er helsti hittarinn sófar og var spilað í Grey's anatomy!


Eilert Pilarm - Megamix: Megamix með sænska Elvisnum! Það er varla þverfótað fyrir Elvis-eftirhermum í heiminum, en fáir eru jafn einstakir og Eilert Pilarm. Fyrir það fyrsta gæti hann varla verið ólíkari Elvis Presley (sjá mynd). Hann hljómar ekkert eins og Kóngurinn og ber lítið skinbragð á melódíu, takt og enskan textaframburð. 
Eilert er fæddur árið 1953 og hefur átt við geðklofa að stríða. Hluti af sjúkdómnum var skefjalaus áhugi á Elvis Presley. Sjúkdómurinn háir honum þó ekki í dag. Hann fór snemma að syngja lög kóngsins á karókíbörum og í samkvæmum. Árið 1992 gaf hann sjálfur út fyrstu kasettuna sína sem hann kallaði Elvis 1, en síðan komu Elvis 2 og Elvis 3 kasetturnar. Þessar spólur vöktu það mikla athygli að því besta á þeim var safnað á disk árið 1996 og honum gefið nafnið Greatest hits. Diskurinn EILERT IS BACK kom tveimur árum síðan og svo hafa komið út fleiri diskar, þar á meðal jóladiskur. Eilert er svokallaður kynlegur kvistur og nýtur mikillar lýðhylli í Svíþjóð, þó sumum finnist auðvitað ekki rétt að hlæja að "svona fólki" - þeir sem hafa vit vita þó að það er enginn að hlæja Eilert heldur með honum.. Eilert heldur oft tónleika þar sem gífurlegt stuð ríkir og hann hefur komið fram í auglýsingum. Þá hefur Eilert vakið alþjóðlega athygli fyrir að vera ein skrítnasta Elvis-eftirherman fyrr og síðar og það er kafli um hann í biblíu "outsider tónlistarinnar", Songs in the key of Z eftir Irwin Chusid.
Eilert vann framan af við skógarhögg, en hefur unnið ýmsa verkamannavinnu síðan. Hann sér nú um hreinlætisstörf í pappírsverksmiðju auk þess að sinna list sinni. Eilert lét drauminn rætast árið 1995 og skellti sér til Ameríku og til Gracelands. Þar tók hann lagið í nálægu hóteli og kóngurinn hefur eflaust velt sér um í gröfinni af einskærri gleði. Húrra fyrir Eilerti!
---
Vesenið með afrísku flóttamennina sem íslenski skipstjórinn bjargaði í Miðjarðarhafi beinir sjónum að ömurlegheitunum. Mávarnir í tjörninni eru í svipuðum flokki á Íslandi og afrískir flóttamenn á Möltu. Greinilega talið álíka geðveikt að henda brauði í máv og að bjarga flóttamönnum á reki. 
---

John Waters er snillingur þótt síðasta myndin hans hafi verið algjört rusl. Ég sá plaggat í gær í Háskólabíói að Hairspray er að koma út aftur með nýjum leikurum. Eflaust útþynntari versjón. Þetta er jú mynd byggð á söngleik sem er byggð á mynd frá 1988 (sem er snilld). John hafði víst fullt með þessa nýja versjón að gera svo kannski er þetta ekki svo slæmt. Það sem vekur kannski mesta athygli er að John vísindakirkjuklikkhaus Travolta leikur hlutverkið sem Devine lék í gömlu myndinni. Þegar ég var sem spenntastur fyrir John Waters reyndi ég að safna yfirvaraskeggi eins og hann sem tókst náttúrlega aldrei, enda er ég með svo gróft skegg. Ég fattaði ekki að hann væri hommi fyrr en löngu seinna, því eins og ég hef áður bent á voru hommar ekki til in ðe eitís. Á þessum tíma (1986-90 sirka) var Páll Óskar að vinna í Aðalvideóleigunni og aldrei datt mér heldur í hug að hann væru hommi. Ég var búinn að fá mér ruslmyndabiblíuna Incredible Strange Films og keypti bútleggspólur af myndunum þar frá einhverjum gaur í Svíþjóð. Svo bar maður myndir eftir Waters, örlí splattermyndir Herschells Gordon Lewis og brjóstabombur Russ Mayers í Palla í videóleigunni og hann hefur ekki verið samur maður síðan. Sjálfur nenni ég varla að glápa á svona stöff lengur og sá rómantíska gamanmynd með Hugh þarna mellutott í gær.
---
Einar B er með dúndurgott skræpótt hettupeysu-mp3blogg héééérrrrrrr. Kannski maður ætti að fá sér skræpótta hettupeysu í Nakta apanum? Nei nei.

30.06.07
Illugi Jökulsson á setningu dagsins í blöðunum: Þetta var HUNDUR, for crying out loud! Bjánahrollsvekjandi þessi dýrkun á gæludýrum (af barnalandi: "byð alla hér að sameinast í bæn núna kl 00.08 og byðja algóðan guð að styrkja fjölskyldu Lúkasar á þessum erfiðu tímum.") Fór fólkið kannski að éta hamborgara þegar það var búið að gráta úr sér augun út af hundinum sem hrottarnir drápu? 
---
Allir vilja vera góðir og það er um að gera að gera sér mat úr því. Nú kolefnisjafna allir á sér snudduna og stundum finn ég hjá mér löngun til að kaupa frjáls hænuegg. Sé þá fyrir mér hamingjusama hænu sem verpir miklu hollari eggjum en þrælahænur í búrum. Næst kemur örugglega hamingjubeikon af svínum sem haldið er hamingjusömum með gæða úrgangi og rjómanuddi þar til þeim er slátrað (á unaðslegan hátt auðvitað) og kannski unaðsborgarar af beljum sem fá toppummönnun og þjónustu þar til þær lenda í hakkavél hamingjunnar. Já og svo má náttúrlega bara gerast grænmetisæta ef manni þykir svona voðalega vænt um dýrin.
---

Í gær komst ég að því að ég á einkabaðströnd við Ægissíðuna. Við feðgar óðum í helköldu vatninu sem vandist á endanum. Næst er að mæta í sundskýlu og synda út á haf. Hvílík blíða! Hvílíkt sumarstuð!
---
Skemmtiþáttur í dag að vanda. Jón Þór Lada Sport og Eddi ljóti hálfviti standa vonandi fyrir hnífjöfnum sólópunkti. Ljótu hálfvitarnir halda útgáfutónleika í kvöld í Borgarleikhúsinu og svo var ég beðinn um að koma á framfæri auglýsingu fyrir bjargvættina í Saving Iceland sem halda stórtónleika á Nasa á mánudagskvöldið. Ekkert smá lænöpp þar:  Múm, Ólöf Arnalds, Bogomil Font og félagar, Magga Stína, Rúnar Júl, Ellen Eyþórs, Mr. Silla og Mongoose, Bloodgroup, Evil Madness, Skátar, Ljótu Hálfvitarnir, Retro Stefsson, Strakovsky Horo, Dj Árni Sveins, Reykjavík!, Dimma, Velvet Ego, Captain Tobias Hume - allt þetta á 2500 kall. Talandi um auglýsingu þá má geta þess að Rafskinna er loksins komin út og er með útgáfupartí á Sirkus í dag kl. 18. Í gamla daga (fiftís, sixtís) var Rafskinna nafn á rafknúnu auglýsingaskilti í glugga í Austurstræti sem frumkvöðlar á sviði auglýsingateikninga komu að. Held ég.

29.06.07
Að hlusta á fréttir er oftast eins og að vera staddur í eilífðarvél: 33 sprengdir í Írak, dómur kveðinn upp í Baugsmálinu en flóttalegi saksóknarinn ætlar að vísa dómnum til hæstaréttar. Eilífðarvél sem maður sofnar í.
---
Sól og sumar á skerinu þýðir að maður hreinlega verður að njóta þess því þetta er svo sjaldgæft. Það er sól og logn og ekki sandrok og leiðindi svo ég verð að sjúga í mig sólina. Hugsar fólk. Lítið verður úr verki. Maður hugsar: Hvernig gerist eiginlega hlutirnir í heitu löndunum þar sem alltaf er sól? Nennir einhver að gera eitthvað þar?
---
Þessi síða er áfangastaður langflestra sem koma "á mig". Fylgisíður þessarar síðu er þó nokkrar og mismikið í gangi þar. Hlekki á síðurnar má sjá á forsíðunni. Síðurnar eru:
Listrænn ferill (helstu listrænu afrek sett inn þegar þarf.)
Listrænn ferill á ensku (dittó.)
Sund / Fjöll (rýni á fjöll sem ég hef gengið og sundlaugar sem ég hef legið í. Vonandi bætist eitthvað við þennan lista í sumar).
Í útvarpinu (hlekkir á þá útvarpsþætti sem ég hef verið með síðustu árin. Nú erða Skemmtiþátturinn. Ég er með smá síðu um hann en aðalsíðan er þessi hjá Rúv.)
Ritstörf (útgefin verk, teiknimyndasögur og blaðagreinar. Nýjir Bakþankar úr Fbl vikulega.)
Erðanúmúsik (útgáfulisti rassvasafyrirtækisins míns. Síðasta uppfærsla 2001, en kannski kemur meira?)
Giggógrafían (listi yfir spilaða tónleika í gegnum árin. Lítið að gerast þar þessa dagana.) 
Popppunktur (listi yfir úrslit í Popppunktsleikjum á Skjá einum. Lítið nýtt þar auðvitað, en hver veit? Náttúrlega komin fullt af nýjum böndum og svona...)
Gos (rýni á gos. Þrjár nýjar tegundir rýndar á síðustu dögum og mikið starf fyrir höndum því gostegundir skipta þúsundum.)
Veitingahúsagagnrýni (Skammarlega lítið í gangi hér, en stendur til bóta. T.d. er kominn massífur og ódýr fiskihlaðborðastaður í Grandagarði, Sjávarbarinn, beint á ská á móti designsjoppunni Saltfélagið.)
Menningarafurðir (rýni á séðar myndir og lesnar bækur. Mismikið í gangi hér, en alltaf eitthvað.)
Skemmtilegir hlekkir (skemmtilegir hlekkir)

Gæti ekki verið einfaldara.
---
Ég nenni ekki að kynna mér rss eða koma því upp hér á síðunni svo kannski kemst ég ekki inn á blogghauga eins og mikki vefur eða blogg gáttin. Einhverra hluta vegna er ég þó með á rss.molum. Lesendur eiga að geta gengið að glænýju bloggi daglega svo skítt með haugana.
---
Ég ætla ekki á Jethro Tull, Toto, Cannibal corpse , Kim Larsen, Norah Jones eða Chris Cornell. Iceland Airwaves lítur þó hrottalega vel út og hneyksli ef maður drullast ekki á það. Og auðvitað fer maður á Simpsonsmyndina (frumsýnd 27.07 á Íslandi skv. Miða).

28.06.07
Tveir ógæfumenn migu sælir hlið við hlið á vegg fyrir framan hús á Hofsvallagötu í gær. Ég hugsaði: Mikið er gott að enginn smákrakki á hér leið hjá á leið heim úr skólanum því þessir myndu örugglega míga á hann. Svo hugsaði ég: Mikið er maður orðinn meðvitaður eitthvað og miðaldra.
---
Einu sinni heyrði ég af einhverjum fræðingi sem skrifaði mikla fræðiritgerð um hinar ýmsu mosategundir á kirkjugarðsveggnum við Suðurgötu. Ég held fátt slái þá lesningu út í leiðindum nema hugsanlega bókmenntaafrek Les Stewart sem vélritaði einn upp í eina milljón á 16 árum og setti heimsmet í leiðinni. Heimsmet í leiðindum. 
---
Nei sko, jólin koma snemma í ár: Mengellan er upprisin.

27.06.07
Tilkynning um næsta Skemmtiþátt:
Það verður dæmalaust dúndurstuð í Skemmtiþætti Doktors Gunna á laugardaginn. Í æsispennandi sólópunkti keppa Jón Þór úr hljómsveitinni Lada Sport og Eddi úr Ljótu hálfvitunum. Lada Sport spilar vandað nútímarokk og gefa út fyrstu plötuna sína þann 9. júlí. Hún heitir Time and Time Again og Geimsteinn gefur út. Ljótu hálfvitarnir eru hressir hálfvitar á uppleið og hafa notið mikilla vinsælda með laginu Sonur hafsins sem sigraði sjómannalagakeppni Rásar 2 á dögunum. Fyrsta platan þeirra er komin út hjá Senu. Auk Sólópunkts verða fastir liðir í þættinum, klikkaðasta lagið, topp 10 og óskalögin, sem að þessu sinni eru óskalög íssölufólks. Og svo auðvitað frábær tónlist! Skemmtiþáttur Dr. Gunna er hér á Rás 2 strax á eftir fjögur fréttum á laugardaginn.
---
Ísbúðarfólk verður í sviðsljósinu og velur óskalög í næsta þætti, enda hápunkturinn í íssölu yfirstandandi. Það mun hafa verið 3. júní árið 1954 sem fyrsta ísbúð landsins opnaði sem var Dairy Queen í Hjarðarhaga. Því miður hefur þessari búð verið lokað fyrir nokkru. Þarna kom síðan sjoppa og pízzastaður en nú er líka búið að loka því enda varða orðið gífurlega slísí undir lokin. Það hefur verið mikil framsýni að opna Dairy Queen hérna í fásinninu árið 1954 og væntanlega verið biðraðir út á götu. Ekki er svo gífurleg samkeppni í góðum ísstöðum í Rvk. Best finnst mér Ísbúðin í Álfheimum, en þar finnst mér best að fá mér Peanut butter smoothies. Sá líkist Peanut butter banana shake-num í Ed's easy diner í London, nema hvar þar má fá sékinn "maltaðan" sem er dúnduræðisnilld. Ég held að Ísbúðin Álfheimum sé með útibú í Kringlunni, en þar má líka fá boozt, m.a. geggjaðan skyrboozt með hunangi. Ekki skammt undan í gæðum er Ísbúðin í Úlfarfells (Hagamel), en þar er boðið upp á "gamla ísinn" sem líkist Brynjuís á Akureyri, en er samt ekki alveg eins. Fín ísbúð þar. Á Akureyri er Brynja sem er geðveik snilld og furðulegt að ekki hafi verið opnað útibú í Rvk. Ben og Jerry's er svo gríðarleg snilld og nú er búið að opna ísbúð hérlendis í þeirra nafni. Fyrst var hún í Smáralind, sem virðist ekki hafa gengið því nú er búðin komin í Kringluna. Svo má fá B&J-dósir í flestum búðum. Ben og Jerry's er þó svo yfirgengilega góður (og dáldið dýr) að maður leyfir sér ekki að éta hann nema við hátíðleg tækifæri. Ég er svo ekki að skilja fössið með margan annan ís, t.d. Häagen-Dazs og venjulegur Kjör- eða Emmess í brauðformi er ekki að gera mikið fyrir mig. Hér er ís-listi af Wiki ef menn vilja reyna að komplítera á sér ísinn.

26.06.07
Magnað að "Lagið um Keikó" sé enn í barnamyndbandabanka Rúv. Dagbjartur skildi ekkert hvað var í gangi þegar þetta skall á áðan, einhver hvalur í flugvél og önnur stórundarleg sýra úr flippaðasta augnabliki íslandssögunnar.

25.06.07
Ekkert svo æðislega frábærlega margir "skemmtistaðir" eru í boði fyrir fjölskylduplebba eins og okkur þar sem hægt er að drepa tímann á sunnudegi. Innan borgarmarkanna er það beisiklí Húsadýragarðurinn, Árbæjasafn og núna Viðey, sem ég gef eflaust tækifæri aftur þrátt fyrir stórbömmer í síðustu ferð. Það eru víst komnir einhverjir vindbílar þar og stöff. Fínt var í Árbæjarsafni í gær í góða veðrinu. Þarna eru skólakrakkar í sumarvinnu klæddir í eldgömul föt sem eru þung, efnismikil og eflaust óþægileg. Ágætt er að skokka þarna á milli og glápa inn í fornaldarhús. Allir voru smávaxnir í gamla daga og öll rúm eins og fyrir dúkkur. Ég þarf að ganga þarna um í keng til að rota mig ekki á næsta hurðarkarmi. Diskó/pönk-sýningin er ennþá og mikið stuð. Við feðgarnir dönsuðum eins og ólmir á gamla Hollywoodljósagólfinu. Aldrei dansaði ég þar í gamla daga og fór eiginlega aldrei í Hollí fyrr en eitthvað sirka 1986 þegar þetta var hætt að vera diskópleis (enda diskóið löngu búið). Svo má fá gamaldags kaffihúsakruðerí þarna í Duus-húsi sem er ekkert svo dýrt. Árbæjarsafn fær fullt hús stiga.
---
Byrjun á skáldsögu (í boði Einars Kárasonar): Vegabréfahliðið í Leifsstöð. Miðaldra maður kemur gangandi og leggur snjáð vegabréf á skenkinn. Nafn: Geirfinnur Einarsson.
---
Strákarnir í Reykjavík! sáu Mika koma hlaupandi af sviðinu og æla í ruslatunnu eftir gigg. Þessi poppmoli var í boði Lífstykkjabúðarinnar.

24.06.07
Nú er til sölu gamla íbúðin mín á Óðinsgötu 18b. Uppsett verð er 13.8 millur, ég keypti íbúðina árið 1990 á 3.2 millur og seldi árið 2000 á 5.8 millur. Glæsileg þróun í fasteignaverði, takk Framsókn. Þarna voru ýmis glæsileg partý haldin og alveg ágætt að búa. Við hliðina bjó blússandi fíkniefna- og brennivínskarl um sjötugt og oft stóðu þar yfir útigangsmannasamkvæmi. Ég fann þó merkilega lítið fyrir þessu og eiginlega ekki fyrr en karlinn andaðist. Þá kom þarna ógæfumaður oft á dag og barði allt utan vikum saman. Ég margsagði honum að "xxx væri dauður!!!" og var farinn að öskra á hann fyrir rest, enda var karlinn að koma að banka allt utan um nætur og stundum bankaði hann líka hjá mér. Seinna heyrði ég að xxx hefði skuldað ógæfumanninum pening sem útskýrði þrjóskuna. Ágætis íbúð fyrir einstæðinga eða par í sínu fyrsta húsnæði. Alveg í miðbænum og stutt í stuðið. Leigubílakostnaður enginn og fínir nágrannar, síðast þegar ég vissi.
---
Klikkaðasta lagið í þættinum í gær var með Shooby Taylor. Sækja má lög meistarans á síðuna og ég mæli með meistaraverkinu Lift Every Voice and Sing.
---
Hin ágæta síða Panama birtir nú nærmynd af mér. Þar má líka lesa um uppáhaldsbíómyndir Sigurjóns Kjartanssonar og fleira skemmtilegt.

23.06.07
Þessi Topp fimm ber undirtitilinn Plöturnar hans Steina. Steini spilaði á gítar í S.H.Draumi og líka í Dordinglum, Geðfró og Beri-Beri. Hann bjó í foreldrahúsum lengst upp á Álfhólsvegi. Við höfðum mikil samskipti framan af en lítil eftir að hann stofnaði fjölskyldu snemma í lífinu og hætti að dandalast í hljómsveitarugli. Hann er í dag skólastjóri á Egilsstöðum. Heilinn á manni er skrýtinn. Þó ég væri pyntaður gæti ég ekki munað hvað ég gerði á mánudaginn fyrir þrem vikum, en ég man skýrt og greinilega eftir nokkrum plötum sem Steini átti í fornöld. Ég hef örugglega fengið þær lánaðar og tekið upp á kasettur. 


The Cure - All cats are grey: Plata Cure, Faith frá 1981, er held ég almennt ekki talin til meistaraverka Roberts Smiths og félaga, en einu sinni fannst mér þetta samt lang besta plata í heimi. Hún er gífurlega drungaleg, hæg og sorgleg, grá í gegn, kostir sem hafa líklega rímað ágætlega við unglinginn í manni á þessum tíma. Ég hafði ekki hlustað á þetta lengi þegar þetta lag kom úr hátölurunum áður en Air stigu á svið í höllinni á þriðjudaginn. Það kom auðvitað ánægjuleg músik-minning yfir mig og voila.


Madness - Nightboat to Cairo: Skabylgjan hitti í mark þrátt fyrir að vera glaðlegri en flest annað sem maður var að spá í. Kannski var maður ekki svo unglingaþunglyndur eftir allt saman. Þetta var meira að segja svo mikil stuðmúsik að það er ekki laust við að maður hafi æft sporin sem maður sá skaböndin viðhafa í myndböndum og til dæmis hér framan á plötuumslagi fyrsta albúms Madness (frá 1979). Einnig hafði ska-ið þau áhrif að manni dauðlangaði til að burstaklippa sig. Ágætis árangur hjá tónlistarstefnu að æsa upp í neikvæðum þunglyngislingi dans- og háráhuga. Það fjaraði þó hratt undan enska retróskainu. Eftir standa fá meistaraverk í plötuformi, þetta og fyrsta Specials-platan + nokkur lög. Ég fór ekki einu sinni að sjá Madness þegar þeir komu hingað 1986. Var reyndar í mikilli fýlu út í Listarokktónleikana (Fine Young Cannibals, Lloyd Cole og Simply Red spiluðu líka) því Stranglers höfðu verið auglýstir en hættu við á síðustu stundu. Mætti þó niðrí Laugardal og hékk fýldur og eflaust fullur fyrir utan. 


XTC - Sgt.Rock (is going to help me): Xtc hefur löngum verið með mínum uppáhalds hljómsveitum. Einhverra hluta vegna átti ég þó aldrei plötuna Black Sea (Fjórða plata bandsins, frá 1980) heldur Steini. Þetta er poppað stöff og þetta lag naut nokkurra vinsælda þótt það hafi náttúrlega aldrei heyrst í útvarpinu hérna á þessum tíma nema kannski í Áföngum. Allt var á leiðinni í megameik hjá bandinu. Það var að hita upp á megatúr með Police þegar aðalgaurinn Andy Partridge fékk sviðsskrekkstengt taugaáfall á tónleikum í París 1982 og hefur neitað að koma fram síðan. 


DAF - Der Mussolini: Hinir þýsku DAF eru stórmerkilegt fyrirbæri sem hefur haft áhrif á allskonar lið, t.d. Þeysara og Nine Inch Nails. Tveir hommar sem sungu um sadómasókisma, hómóerótík og allskonar gúmmilaði á þýsku svo maður skildi ekki neitt. Ég held ég hafi aldrei veitt því gaum að þeir væru hommar enda voru hommar eiginlega ekki til á þessum tíma – hugsanlega bara Laugi rakari. Maður hélt bara að DAF væru svona góðir vinir. DAF-bítið er alveg sérstakt og má eiginlega heyra í öllum lögum sveitarinnar. Það er í fjórðu/fjórðu og er svona: bassatromma-lokaður hæhatt-snerill-lokaður hæhatt. Bítið má heyra vel í þessu sjokklagi þar sem hlustendum er boðið að dansa Mússólíni og Hitler og Jesús og ég veit ekki hvað. Meira sjokk 1981 en núna auðvitað enda sjokkgildi almennings orðið svo hátt að amma þín myndi ekki kippa sér upp við það þótt hún sæi myndir af þér að eiga samræði við svín dulbúinn sem Hitler. Lagið er af annarri plötu DAF, Alles ist gut (1981).


Scars - Horrorshow: Safnplata frá Fast Product, sem var eitt af þessum ensku DIY-fyrirtækjum sem veittu innblástur til að taka málin í eigin hendur og gefa bara út tónlistina sína sjálfur. Hér eru fimm misþekkt bönd að spila misspennandi stöff, eiginlega allt gott þó nema kannski hljómsveitin 2.3 sem er síst. Umslagið var líka spennandi og eftirminnilegt. Scars munu hafa verið frá Edinborg og byrjuðu í þessum hrágír sem hér má heyra. Á einu stóru plötu sveitarinnar, Author! Author! sem kom út 2 árum síðar, 1981, var tónninn orðinn meira njúveif með sintum og vasaklútum.

Og líkur þá dagskrárliðnum Plöturnar hans Steina. Í náinni framtíð má búast við dagskrárliðnum Plöturnar hans Trausta, en sá liður verður reyndar að vera í nokkrum pörtum.
---
Skemmtiþátturinn í dag kl. 16:08 - bara að minna á.

22.06.07
Stóratburður: Ungur maður með Devo-plötuna Duty Now for the Future á vinýl gekk framhjá dyrunum hjá mér í dag í þann mund er ég kom út. Ætlaði að hrópa á eftir honum Hva, menn bara með Devo undir hendinni í Vesturbænum?!, en sá að mér.

21.06.07
Í Bónus var FM957 á fullu gasi. Plötusnúðurinn tilkynnti að þennan dag árið 1905 hefði Jean-Paul Sartre fæðst. Hlustendur hafa án efa sperrt eyrun.
---
Allt stefnir í Megasar-fár á þessu ári. Von er á tveim plötum með meistaranum þar sem Hjálmar leggja honum lið. Kominn tími á almennilegt Megasarstöff segi ég. Hefi heyrt smávegis á fyrri plötuna sem heitir Frágangur og kemur eftir sirka 6 vikur. Seinni platan heitir Mold er hold (eða Hold er mold, man ekki) og kemur í haust. Stöffið er léttleikandi og ferskt og ekki ósvipaður fílingur í gangi og á meistaraverkunum Millilendingu og Fram og aftur. Semsé rítörn í það besta. Í textunum er Megas í gríðarlega góðum gír, syngur m.a. erótískt til Silvíu Nætur (um að gaman væli að "smúla hana að innan" o.s.frv. - eða öllu heldur "spúla" þar sem smúla er færeyska og þýðir að smygla (sjá)) og eitt lagið fjallar hugsanlega um feril Bubba Morthens. Vinslit Megasar og Bubba eru mikil mistería í íslenskri poppsögu og ber mönnum ekki saman um ástæður. Gaman væri að fá hávísindalega tímaritsgrein um þetta mál. Þá heitir eitt lagið "Gott að elska" (textabrot: Gott er að elska hnakkamellu eins og þig). Lagið "Flærðarsenna" með texta eftir Hallgrím Pétursson sem heyrist nú á Rás 2 þótti að sögn ekki nógu gott til að komast á plötutvennuna. Sumsé: klár í bátana, Megasarfrík.
---
Nýr sturtuhaus var keyptur inn á heimilið í gær. Hann kostaði 5.000 kall. Mér skilst á Lufsunni að dýrasti sturtuhausinn í búðinni hafi kostað 400.000 kall. Hvaða hálfvitar kaupa sturtuhaus á 400.000?!
---
Tja, kannski sturtuhálfvitar, eða eigum við að segja áhugamenn um sturtur, til að móðga ekki sturtuhálfvita. Hjá sturta punktur is fást svo glæsilegar sturtur að mann sundlar. Þessi sturtu er til dæmis eitthvað fyrir sturtugúrme: Sturta í lofti, handsturta, blöndunartæki, lýsing, gufa, punktanudd, loftræsting, upplýst talnaborð, hita/tímastillingar á gufu, útvarp, stöðvaleitari í útvarpi, hátalari, neyðarhnappur, baðker með nuddi, höfuðpúðar, shampó-hilla, spegill, hreinsibúnaður, 6mm hert gler... Það er ekki laust við að líf mitt hafi loksins fengið tilgang.
---
Óskalögin í næsta Skemmtaþætti verða valin af fólki sem var að skoða Hallgrímskirkju á milli kl. 14:55 og 15:10 í gær. Það er ótrúlegt hvað margir skoða þetta ferlíki þarna á holtinu, stöðugur straumur allan daginn og þetta er ein helsta túristaattraksjónin hér í bæ. Einkennilegt að enginn hafi komið sér upp sölubási við Leif Eiríksson með Hallgrímskirkjubolum og lyklakippum. Í sólópunkti næst keppa svo þeir Snorri úr Sprengjuhöllinni og Högni úr Hjaltalín. Þetta eru tvö MH bönd á hvínandi uppleið um þessar mundir og það verður gaman að fá þá í þáttinn. Kannski fáum við að heyra glænýtt efni með þeim? 

20.06.07
Séntilmennin og stælgæjarnir í Air stóðu nokkurn veginn undir væntingum. Fimm á sviði, þeir þarna tveir fremst, grindhoraðir í hvítum fötum og þrír fyrir aftan, trommari og tveir græjukarlar. Tóku góðan þverskurð og alla hittarana, nokkuð góðar útsetningar og svona, en þetta er náttúrlega ekkert brjálað stuðband svo stundum var dálítill gufu og þokukeimur af þessu (enda heitir jú bandið Loft). Best tókst upp með People in the city, sem keyrðist upp í góða keyrslu, og svo voru Run og loka uppklappslagið La Femme D'Argent mögnuð. Hrifnastur var ég af bassaleik Nicolasar Godin, sérstaklega þegar hann var með Hofnerinn en ekki Fenderinn. Þetta Hofner sánd er drulluskemmtilegt og minnir á 60s-stöffið hans Serges Gainsbourg, sem Air menn eiga meira en lítið að þakka. Ljóst að maður þarf að verða sér úti um gamlan Hofner fyrir rest. Ég var með upptökustautinn minn (keypti hann á netinu fyrir 100$ en þurfti svo að borga 7000 kall aukalega í toll, svínin!) og tók upp tvö lög. Nokkuð gott sánd bara á þessu:

Air - Run (læf í Reykjavík 19.06.07)
Air - La Femme D'Argent (læf í Reykjavík 19.06.07)

Á undan spilaði einhver norsk Bjarkar-vannabí og var fimm árum á eftir áætlun með melódíkuna sína, fiðluvegginn og brakandi skrjáf-takta. Ágætis söngkona svo sem en ég hefði alveg verið til í að sjá eitthvað annað.

19.06.07
Kolefnisjafni ég bílinn minn kostar það 5235 kall til að gróðursetja 35 tré á ári. Kolefnisjafni ég bíl nágranna míns kostar það bara 6651 kall eða 45 tré, sem mér finnst alltof lítið, því hann er á geðveikum Ford F350 trukki, örugglega átta tonn og allur móðurjarðarnauðgandi á að líta. Fær maður svo þessi tré send heim til sín eða hvað? Annars leiðast mér svona auka ég-er-svo-góður-og-meðvitaður greiðslur. Alveg nóg hirðir ríkið af manni í skatt og ekki beint eins og maður skíti peningum í allskonar góð málefni. Lufsan lét þó plata inn á sig mánaðarlegan 500 kall í Amnesty svo ég er ekki alveg hjartalaus. Þoli ekki heldur aukalífeyrisgreiðslur. Er ekki nóg að vera skildaður í 11% lífeyrissjóð (sé maður sinn eigin atvinnurekandi)? Betra að eyða þessum helvítis leiðindapeningum bara jafnóðum en að láta bankaglæpamenn braska með þetta. Verða svo snautt gamalmenni upp á veluppalda afkomendur sína kominn og fá að eiga heima í 700 fm glæsivillunum þeirra í Örfyrisey. Með einkasundlaug og kolefnisjöfnuðum arni.
---
Ole Lund Kirkegaard var bara 39 ára þegar hann lést, komst ég að í morgun. Fæddur 1940, lést 1979. Samt skrifaði hann góðan slatta af frábærum barnabókum. Fúsi froskagleypir líklega best. Ég er 41 og ekki enn búinn að skrifa barnabók þótt ég sé að spá í að byrja á einni. Svona er þetta mismunandi.
---

Í litla vasakompu er ég farinn að skrá niður minningar mínar. Fyrst átti þetta bara að vera minningar frá barnsaldri en nú skrifa ég allt niður sem ég man eftir, unglingsár og tventísomþing meðtalið. Það eru alltaf að koma einhver minningarleiftur og eins gott að skrá þetta. Stundum man maður eitthvað sem ekki er hægt að skrá með orðum, maður man eftir einhverri tilfinningu sem maður hafði á einhverjum tíma. Stundum kemur þetta þegar ég er að svæfa Dagbjart með lestri. Ég er alltaf hálfsofandi sjálfur við svæfingarnar en hann glaðvakandi í fulla hnefana og heimtar meira og meira. Nú eru sýrubókmenntirnar um Rasmus Klump vinsælastar og alltaf sömu bækurnar aftur og aftur. Þetta er algjört bull og samhengislaust rugl en Dagbjarti finnst voða gaman. Carla og Vilh. Hansen skammist ykkar!
---
Vinsamlegast veitið því athygli hvað ég er réttsýnn í bakgrunnslit dagsins. Í kvöld: AIR!

18.06.07
Eins og mér finnst nú gaman að borða, finnst mér undarlega lítið gaman að elda. Þegar ég bjó einn var teikavei út í eitt, minnir mig. Nú leggur Lufsan hart að mér að elda og ég er allur að vilja gerður. Kann að gera pasta og eitthvað og er að reyna að fylla mig af matreiðsluáhuga. Kannski maður fari á námskeið? Ég keypti pönnukökupönnu og spaða og amerískt pönnukökuduft frá Missisippi. Útkoman leit kannski ekki sérlega vel út en smakkaðist ágætlega með síropi og rjóma. Næst geri ég enn betur og bæti beikoni og eggjum við. Fiskisúpa í kvöld! Stundum hefur mér dottið í hug að gerast bakari. Náttúrlega A-maður svo það væri lítið mál að mæta í vinnuna kl. 4 um nótt. Þá gæti ég flutt til Ástralíu og fengið vinnu við að baka og svona.
---
Maður á alls ekki að fara í miðbæ Rvkur á 17. júní eða á menningarnótt, heldur koma sér sem lengst í burtu frá mannmergðinni. Tja, nema ef maður er í stuði fyrir að velkjast um eins og rifin pulsa í fitupotti. Á Álftanesi var ekkert svakalega margt um manninn og alveg eins hægt að kaupa pulsu og rándýra Mikka mús blöðru þar. Aðalnúmerið var Rokkstjarnan Magni (eins og hann var kallaður í bæklingi) sem kom með gítarinn og söng Traustur vinur og fleiri slagara. Hann var með hökutoppinn og sólgleraugun og klikkaði ekki. Dagbjartur fékk tveggja kílóa sleikibrjóstsykur og hljóp heim.
---
Það er eitthvað vélmennageimaldarlegt við að fólk sé hætt að vilja eignast krakka með dánsindrom. Bara tveir fæddir á síðustu átta árum eða eitthvað, hinum eytt. Kannski stendur svokölluð hnakkamæling undir nafni einhvern daginn og hægt verður að mæla hvort fóstrið verður hnakki eða enni. Hvort ætli verði vinsælla? 
---
Í Kópavogi var allt vaðandi í "kynlegum kvistum" í gamla daga, hælið og svona. Einn strákur hljóp alltaf upp að mér og Hannesi og spurði í sífellu "Þykir nonna gaman að rokklögum?, Þykir Nonna gaman að rokklögum?" Vissi aldrei hvað hann átti við og ef maður spurði þá glotti hann bara. Í húsi á móti var stelpa sem sagði ekkert nema "Abbavóa, Abbavóa" og slefaði. Í strætó var svo oft hinn kostulegi Axel Bang sem var með bullandi torrett og hélt öðrum farþegum í gíslingu niðurbælds hláturs með ýmsum furðuhljóðum. Þegar farþegi missti sig og skellti upp úr æstist Axel bara upp og varð enn háværari svo þetta var vítahringur. Farþegar komu rauðþrútnir út á Lækjartorgi. Annar sem iðkaði strætó heilsaði öllum skælbrosandi. Ég held hann hafi verið kallaður "Heilsi". 

17.06.07

Það eru erfiðar tímar í sveitaballapoppinu og táknmynd þess er að hin árlega safnplata Svona er sumarið kemur ekki út í ár. Svona er sumarið línan birtist fyrst árið 1998 og alls eru plöturnar orðnar átta. En bíðum við... hvað sé ég hér? Ja, svei mér þá! Út er komin safnplatan Svona er sumarið '07, eþs TOPP 6ex! (bara íslenskt í dag, enda sautjándi móðurserðandi júní):


Reykjavík! - Rex: Af Dirty weekend, 3ja laga epplötu suddtuddanna í Rvk! Gríðarleg rokkabillíhrösun með meitluðum ég-þarf-að-æla söng. Möndulsnúningur jarðar hefur sjaldan hljómað jafn ögrandi. Meitlað. (meira)


Samúel Örn Samúelsson - Boba: Af Fnyki, fyrstu sólóplötu Jamma í Sajúar. Um rannsóknarlögreglumanninn Boba, svifaseinan blökkumann í rykfrakka og með barðastóran hatt. Boba kemst í bobba en leysir málin með hjálp Galvösku Guddu og töfralykilsins. 


Amiina - Seoul: Þegar Yoko Ono verður loksins sett á eyðieyju (Viðey?) mun þetta lag hljóma um eynna og lýsa upp skammdegið hjá japanska íslandsvininum. Hvað þarf maður annars að gera til að komast í partí með Yoko næst þegar hún kemur, Gísli Marteinn? Af Kurri, 12 laga stórhveli Amiinasystra, sem rekið hefur á land við Galtarvita. Tókstu eftir því að ég sagði hvergi krútt í þessum texta?


Hraun - Impossible: Kvavar Snútur og félagar í Hrauni snýta toppstöffi á I can't believe it's not happiness en hefur verið legið á hálsi fyrir að vera ekki stuðband og syngja ekki á íslensku. Jadda jadda. Hér má heyra velsamið og smurt þægindapopp sem skartar kántrí-blíðu og kemur á óvart. (Hefurðu tekið eftir því að önnur hver mynd sem kemur út á dvd er sögð "skarta" einhverjum snillingum og "koma á óvart" í auglýsingum.)

Halli og Laddi - Ég vil fá meira pönk: Laddi er réttilega vinsælasta maður í heimi í augnablikinu, alltaf uppselt á sjóið og 8000 eintök seld af safnplötunni. Því hefur Sena gripið til þess tímabæra ráðs að endurútgefa katalók meistarans. Um er að ræða 7 plötur sem nú eru komnir á vönduðum diskum:
Látum sem ekkert c (Halli Laddi og Gísli Rúnar frá 1976)
Hlunkur er þetta (Halli og Laddi 1978)
Deió (sóló 1981 - með 2 aukalögum!)
Allt í lagi með það (sóló 1983)
Einn voða vitlaus (sóló 1985)
Ertu búnaðverasvona lengi (sóló 1987)
og Of feit fyrir mig (sóló 1990 með 2 aukalögum)

Reyndar var ekki farið í endurútgáfu á Fyrr má nú aldeilis fyrrvera (Halli og Laddi 1977), Umhverfis jörðina á 45 mínútum (Halli og Laddi 1980) og Halli og Laddi í Strumpalandi (1995), enda þessar plötur líklega þegar endurútgefnar. 
Ég vil fá meira pönk kom út á Hlunki er þetta 1978 sem gerir lagið að fyrsta "pönk"lagi Íslands (ásamt með Paradísarfugli Megasar á Bleikum náttkjólum). Lagið sömdu Halli, Laddi og Tommi Tomm og Laddi textann. Laddi var enn í pönkfílingi 2 árum síðar á smáskífunni Skammastu þín svo, þar var Stórpönkarinn b-hlið, reyndar minna og verra pönk en þetta eðallag hér.


Motion boys - Hold me closer to your heart (wurlitzer útgáfa): Og þá er það akkústik útgáfa af hinu frábæra Hold me closer með hinum frábæru Hreyfistrákum. Dáldið nýr flötur á laginu. Bara tvö lög hafa heyrst með bandinu til þessa, bæði frábær, svo ekki er laust við að maður búist við miklu. Plata mun vera í bígerð. Svo er Birgir Ísleifur mikill poppheili og vann stórsigur á Togga í Skemmtiþættinum í gær. Ef ég væri spurður að því hvaða íslenska sveit meikar það næst segði ég Motion boys.
---
Vanti fólki nöfn á hljómsveitir bíð ég upp á tvö í dag:
Þú getur sjálfur verið mannæta (fyrir flippband) og Illettes (eða The Illettes, fyrir band sem vill meikaða).

16.06.07
Ætli sé hægt að kolefnisjafna á sér rassgatið?
---
Abbababb! fékk Grímuna sem besta barnaleikrit ársins. Eggert tók mynd:

Sem betur fer var þetta fyrsta verðlaunaafhending kvöldsins svo ég gat brunað heim með bikarinn og horft á restina í sjónvarpinu. Það var annað hvort það eða að hrynja íða. Það er ekki laust við að manni langi á Mr. Skallagrímsson. Þess má geta að sýningar á hinu stórfenglega og verðlaunaða Abbababb! hefjast að nýju í byrjun september. 
---
Þá á ég bara eftir að fá Nóbelinn. Ég slepp ekki fyrr við að taka þátt í heimilisstörfunum. Það segir Lufsan allavega alltaf þegar ég segi: Þrífa klósettið? Ég? Heldurðu að Halldór Laxness hafi þrifið klósettið á Gljúfrasteini? Þá segir hún: Fáðu Nóbel. Svo sjáum við til. 
---
Minni á Skemmtiþáttinn í dag kl. 16.08 á Rás 2 í boði Lottó! Toggi og Biggi í Motion boys í sólópunktinum...

15.06.07
Fyrir framan World Class er risinn risastór hvítgrár gerviskaufi. Smart.
---
9 áhrifamestu Íslendingarnir árið 2047: Ásmar Snær Bang, Bambi Hirst, París Parísardóttir, Davíð Hannes Kjartansson, Draupnir Axelsson, Smári Thor Hannesson, Pétur Aron Valtýsson, Tinna Jónsdóttir, Kári Stefánsson.
---
Hvað eru menn að væla yfir Tónlist.is? Get ekki séð annað en þetta sé bara hið fínasta mál, eins lengi og hægt er að hafa alla góða, þ.e.a.s. Hef reyndar aldrei fengið krónu frá þeim fyrr en núna. Á nýjustu Stef-skýrslunni sem var að koma inn um lúguna er hver sala hjá Tónlist.is skilmerkilega útlistuð á 40 blaðsíðum og svoleiðis þúsund kallarnir streyma inn á reikninginn minn.
---
Strax stórgróði á GesTAbókinni sem er orðin bleik, kannski ekki innanpíkubleik, en allavega bleik. Eða fjólublá. Ef hér væri verið að vitna til Tits n ass héti hún GesT'N'Abók. Flestir vita að þeir eru ekki hálfvitar, nema hálfvitar, þeir halda að þeir séu töff. Bæta má enni við orðabók unga fólksins sem andstæðunar við hnakki. T.d. "stelpurnar í Amiinu, þær eru nú meiri ennin." 
---
Ef Woody Harrelson og Luke Wilson myndu eignast saman son myndi hann líta úr eins og karlinn í Sægreifanum. Staðreynd! Annars skil ég nú ekki þessi læti út af fiskisúpunni hans. Ekkert meira en ok.
---
Jónsi í SR búinn að kaupa torfbæ. Glæsilegt! Svona á að gera þetta. Enginn helvítis flottræfilsháttur í geðveikt dýrri blokkaríbúð í Skuggahverfinu. Það er víst sundlaug þarna uppi í penthásinu, en myndi maður tíma 230 millum fyrir að hírast í sundlaug í hávaðaroki og glápa á fjólubláa drauma?
---
Abbababb! er tilnefnt til Grímuverðlauna í flokki barnasýninga. Neyðist því til að mæta ef svo ólíklega vildi til að við myndum fá þetta en ekki Egner, Helgadóttir eða Prokofieff. Ég er strax kominn með hvínandi magapínu að þurfa að vera innan um síkyssandi og faðmandi leikara heilt kvöld. Finn mér horn til að fela mig í. Kannski hitti ég Ólaf og Dorritt?
---
Las í Fbl að Yoko Ono segir að síðustu orð Johns Lennons hafi verið að verið um að hann vildi fara heim að hitta Sean áður en hann sofnaði. Ég held hins vegar að allra síðasta orðið hans hafi verið "Yeah" þegar sjúkraliðar í sjúkrabílnum sem fluttu hann á spítalann spurðu hvort hann væri John Lennon. Ekki að síðustu orð skipti svo miklu máli.

14.06.07
Tók Jón Ásgeir & afmælisveislan e. Óttar M. Norðfjörð í bókasafninu í gær. Skemmtileg teiknimyndabók, mæli með henni. Hér er rammi úr bókinni:

Það er einkar óheppilegt að Óttar notar sama stíl og ég í teiknimyndasögunni Líf og fjör í fiskvinnslu Sigvalda sem mun birtast í fyrsta tölublaði Rafskinnu innan skamms. Ég gerði þessa sögu fyrir mörgum mánuðum löngu áður en lýðnum var ljóst um sögu Óttars. Ég klippti út hausana á Rannveigu Rist, Hreiðari Má, Bjarna Ármanns og fleirum og lét þau vinna á lúsarlaunum í fiskvinnslu Sigvalda. Hér er rammi úr sögunni:

Útkoma Rafskinnu hefur tafist mánuðum saman svo nú lítur út fyrir að ég sé að stæla Óttar. Ég verð að lifa með það.
---
Næsta teiknimyndatengt skref í lífnu er hinsvegar að kaupa Ókei bæ.

13.06.07
Vegna fjölda áskoranna er komin gesTA!bók. Hálfvitar bannaðir.
---
Ég er að læna upp stórfínum viðureignum í sólópunkti í Skemmtiþættinum. Um að gera að velja saman keppendur sem maður getur búist við að séu svipað vel að sér því fátt er leiðinlegra en algjör burst. Næst mætast þeir Birgir Ísleifur úr Motion boys og Toggi. Ég bind vonir við að þetta verði hörku leikur.

12.06.07
Simpsons-þættir eru alltaf jafn frískir. Í 400. þætti (You Kent Always Say What You Want) er fréttamaðurinn Kent Brockman rekinn úr vinnunni, flytur til Simpsons-fjölskyldunnar og slær í gegn á netinu með aðstoð vefkameru Lísu. Hann videóbloggar um aumingjaskap nútímafjölmiðlunar:

Friends, the press and the government are in bed together in an embrace so intimate and wrong they could spoon on a twin matress and still have room for Ted Koppel.

Journalists used to question the reasons for war and expose abuse of power. Now, like toothless babies they suckle on the sugary teet of misinformation and poop it into the diaper we call the six-o'clock news.

Demand more of your government! Demand more of your press!

Klassík!
---
Leðurhulsa skilar hinsvegar bara einni niðurstöðu.

11.06.07
Slái maður inn orðið kíttisbyssa í google fær maður bara þrjár niðurstöður. Pældu í því!
---
Kajakfólkið notaði rangt netfang. En harmóníkufólkið?
---
Djöfull er ég orðinn leiður á þessu græna röfli í öllum, sérstaklega allskonar fyrirtækjum sem telja sig græða á að vera "græn". Það verða allir hættir að spá í þessu eftir 2 ár. Þá verður grænt álíka heitt og teygjustökk.

10.06.07
Mp3-bloggið er enn í góðu stuði. Það virðist allavega ekkert annað trend í netheimum ætla að ganga að því dauðu. Því er ástæða til að benda áhugasömum á nokkur góð. Who the bloody hell are they er ástralskt og kynnir til sögunnar nýtt ástralskt efni. Fjögur setja inn á síðuna svo þarna er engin ládeyða. Fat planet er líka rekið frá Ástralíu, en þarna er stöff frá öllum heiminum, oft eitthvað íslenskt. Til dæmis var Steed Lord hampað um daginn. Big stereo er enskt og í rafdanspoppindiefílingi, 20 jazz funk greats er líka enskt og svona sturlpoppað. Þrjú mest hæpuðustu mp3bloggin (eða "stærstu" mp3 bloggin, ef þú vilt) eru svo líklega Fluxblog, Music for robots og Stereogum. Það þykir ekkert verra að komast inn með lag þar sé maður á uppleið í bransanum. Lesendur ættu fastlega að þekkja íslensku mp3bloggarana, en mest kveður að Agli, Breiðholti, Buddy og Halla. Svo er á öllum þessum síðum ótal hlekkir í allar áttir svo fyrir músiknörda er hægt að brimbretta út í hið óendanlega... Svo má líka fara á Hæp maskínu, sem er regnhlíf.
---
Í yfirferð minni sé ég að Reykjavík! eru með lag á safnplötu tímaritsins Believer innan um haug af upp og komandi böndum. Lagið Rex mun vera úr nýjustu upptökusessjón bandsins, en tekin voru upp 4 lög (eða kannski bara 3?) sem öll eru með ferðamannaiðnaðartengdum nöfnum. 
---
En svo er spurning hvort ekki sé hætta á óverdósi. Músikóverdósi. Það er svo gífurlegt framboð að hætta er á sundli. Hefur maður tíma til að hlusta á þetta allt? Sjálfur dánlóda ég þvílíkum haugum að ég kemst hreinlega ekki yfir að hlusta á allt. Þetta er náttúrlega geðveiki. Og ég þekki menn sem eru eins. Dánlóddjönkí. Samkeppnin er í að vera "fyrstur með fréttirnar" og á undan öllum öðrum að blogga heitum skít. Því eru flest bönd bara heit í smá tíma en fáir nenna að líta við annarri plötu einhvers ef hann meikar það ekki því feitar í fyrstu tilraun. Já svona gerast kaupin á eyrinni hróið mitt.
---
Og er óverdós netsins betra en gamla leið músiknördsins sem fólst í því að kaupa vikugömul músikblöð, lesa um bönd, panta plötur með þeim frá útlöndum og skella plötunni á fóninn og hlusta? Ferli sem tók vikur eða mánuði. Nú er maður löngu búinn að hlusta á plötur áður en þær koma út! Kannski síaðist allt draslið út þá og maður einbeytti sér að kjarnanum? En nei, ekki ætla ég að fara að væla um gömlu góðu dagana og fornöldina fyrir net. Alveg óþarfi að vera í tilvistarkreppu yfir allsnægtum, og of biblíulegt. 
---
Sjálfur hef ég verið að leita að hinni fullkomnu tónlist fyrir líkamsræktina. Lengi vel blastaði ég hröðustu lögum System of a down á mig og missti örugglega ein 10 kg bara út á það. SOAD er frábær músik í ræktinni en ég fékk samt loksins nóg. Í seinni tíð hef ég verið að gera tilraunir með allskonar rafdansstöff, hús og teknó, gert mix og blastað á mig, eða dánlódað einhverjum mixum. T.d. má dánlóda brennheitum skít hjá Dj Margeiri og ég var að enda við að sækja Kitsune Maison Compilation Vol 4. Svo er nú þarna "útvarpsstöð" í World class sem blastar bara Scooter og þannig drasli. Og það virkar alveg. Til dæmis er þarna stundum eitthvað lag sem ég veit ekki hvað er. Svaka taktfast eitthvað með skrítnu bíti og svo er verið að tala um Detroit í textanum held ég, nema það sé Chicago. Þetta er spilað á FM957 líka en hnakkarnir þar hafa ekki svarað tölvupósti mínum til að segja mér hvað þetta er. Svo ef einhver lesandi veit hvaða fjandans lag ég er að tala um mættann gjarnan láta mig vita. (uppdeit: lagið mun vera Put your hands up 4 Detroit með Fedde nokkrum Le Grand sem kom og spilaði á technokvöldi fyrir nokkru.)  Einnig eru uppástungur um gott líkamsræktarstöff velþegnar.
---
Samt eru Fræbbblarnir og Bítlarnir náttúrlega alltaf bestir!

09.06.07


Pete Best á Íslandi!
Lesandi sendi línu:
Ég er að vinna uppí Leifsstöð, nánar tiltekið í Skífunni. Það er auðvitað mismikið að gera eftir því hvaða tími dags er. En í gær þegar það var frekar lítið að gera labbar inn í Skífuna gráhærður maður. Mér fannst ég kannast alveg ofboðslega við hann. Ekkert fancy við þennan mann þannig, leit bara ósköp venjulega út. Ég varð að labba til hans og bjóða honum aðstoð mína til að getað skoðað manninn betur. Hann svaraði ,,I´m fine". Ókei, hann talar ensku.... en ég var engu nær. Var þetta gamall flakari sem ég vann með í frystihúsi fyrir um 10 árum? Bróðir minn rak nefnilega frystihús og var stundum með enska flakara. Ég labba inn á kaffistofu...
Þá rann það upp fyrir mér! Pete Best! Óheppnasti trommuleikari fyrr og síðar. Þegar ég fer út á gólfið aftur er hann sestur í svona bíða-eftir-flugi stóla við hliðina á búðinni minni. Hvað á ég að gera?! Grípa næsta Bítla-disk, rífa af honum plastið og biðja hann um að árita hann fyrir mig? 
Nei, afhverju í ósköpunum ætti hann að vilja það!? Ég gæti alveg eins grýtt salti í augun hans. En ég meina, hér situr maður sem er hluti af Bítla-sögunni og ég ætla ekki að aðhafast neitt! En hvað á ég  þá að gera? Biðja um eiginhandaráritun? Æj, mig langar ekki það mikið í hana beint. Ég væri samt til í að spjalla við hann. En hvað ætti ég svosem að segja við hann? 
Hann sat þarna dágóða stund og um þetta leyti var orðið soldið að gera í búðinni og fyrr en varði var hann horfinn...
---
Spurning hvað Pete var að gera á Íslandi? Var hann að spila í leynipartíi hjá einhverjum millanum? Eða kannski bara að millilenda frá USA? Eða kannski var þetta bara einhver sem er alveg eins og Pete Best? Dularfulla Pete Best málið telst óupplýst. 
---
Uppdeit: Tekið af heimasíðu Bests: The Pete Best Tour - 2007 
USA and Canada Summer Tour 2007
Flights sponsored by Icelandair The Americas.
Karlinn á ferð á sponsi frá Æslander! Afhverju neyðar þeir hann ekki til að taka gigg á Gauknum fyrst þeir eru að þessu? Þetta hefur þá verið hann sem var að spígspora þarna í Leifsstöð.
---
Og þá, góðir gestir, er komin út safnplatan Bíttíðig beibí, eþs Topp 5:


Justice - Stress: Næsta kafla í frönsku rafútrásinni skrifa Justice. Loks komnir með albúmið "kross" hafandi kítlað á tónlistaráhugafólki úfinn með slömmfínum slögurum í löngum bunum síðustu misseri. Platan er þétt og mun betri en t.d. nýja Efnabræðraplatan, enda bandið jú í startholum og gratt á hjalla. Takið sérstaklega eftir breikinu í þessu lagi en þá skellur á gamalt sintasturl með Devo. Klassi.

Chromeo - My Girl Is Calling Me (A Liar): Næsta Æsland erveifs verður meira djúsí með hverri vikunni sem líður og nú verð ég hreinlega að stunda hátíðina næst til að sanna fyrir mér að ég sé ekki algjör miðaldra steingerfingur. Búið er að tilkynna um súperstöff eins og Of Montreal, !!!, Bloc party og svo núna síðast Chromeo og Bonde do role + allt íslenska jömmið. Allt er þetta erlenda stöff funheitt um þessar mundir. Eitísdiskóboltarnir í Krómeó hafa nýlega sett út fyrstu plötuna, Fancy footwork. Þeir munu vera frá Kanada og fara hamförum á sintum og pitchstikkum og sintörum og hvað þetta heitir. Ég er kannski ekki algjörlega að míga á mig yfir þessari plötu en hún er fín engu að síður. Hér er eitt poppsmellnasta lagið. (prófíll á Iceair)


Bonde do role - Solta o frango: With Lasers er fyrsta albúm þessara neonhettupeysukrakka frá Brasilíu. Fékk nýlega laladóma hjá Pitchfork og jamm, þetta er engin snilldar plata. Samt hressandi í smáskömmtum og eflaust hörkustuð á sviði. Söngkonan í stuttbuxum og ekkert hrædd við að skaka sér enda frá karnivallandinu. (prófíll á Iceair)


Hellogoodbye - Here in your arms (Young americans remix): Ég er allur að komast í gráa gírinn og kominn með Fm957 á vali í bílnum. Ef ekkert skárra er annars staðar villist ég stundum í hnakkið. Bæði er gaman að heyra vitleysuna í hnökkunum og innan um leiðinlegt r&b væl og handboltaruslrokk kemur stundum nútímaleg poppsnilld eins og Timberlake og þetta lag. Hellogoodbye eru einhverjir hnakkalingar frá Kaliforníu og platan þeirra Zombies! Aliens! Vampires! Dinosaurs! er öskup hefðbundin. Þetta remix gerir þó gæfu- og gæðamuninn. Topp hnakkapopp!


YACHT - So post all'em: Jona Bechtolt frá Portlandi í Oregon er YACHT og hann er líka í hljómsveitinni The Blow. Brakandi fínt ljúflingspopp á fyrsta albúminu, I Believe in You, Your Magic Is Real.
---
Áríðandi tilkynning: Í dag á eftir fjögur fréttum á Rás 2: Skemmtiþáttur Dr. Gunna! Heyrið topp tíu-lista, klikkaðasta lagið í dag, óskalög tattúgerðarmanna og æsispennandi sólópunkt á milli Ceresar 4 og Svavars Knúts í Hraun. Plús: hörku töff sumartónlist! 

08.06.07
Fyrir hverju ætli það sé að dreyma Megas? Í draumnum var ég í ræktinni að bíða eftir að komast í spinning þegar Megas mætti. Hann var í bleikum tie-dye hlýrabol og latex stuttbuxum. Djöfull lítur kallinn vel út, hugsaði ég. Því miður varð þessi draumur ekki lengri því Elgurinn fór að veina. Annars er stúlkan eins og ljós og maður vaknar úthvíldur og hress.
---
Því miður er Seðlabankinn ekki viðskiptabanki og maður getur ekki stofnað bankabók þar. Ef það væri hægt gæti maður núna mætt alveg tjúllaður yfir kauphækkun Davíðs og tekið allt út til að mótmæla kauphækkuninni. Það myndi sko sýna þessu liði... 
---
Langt annars síðan maður átti bankabók og mætti með hana í banka. Einu sinni var stimplað í bókina sjálfa þegar maður mætti. Einu sinni var líka skildusparnaður, 10% af laununum manns fyrir einhvern aldur (26 líklega) var settur með frímerkjum í bók. Ég beytti öllum ráðum til að ná þessu út enda í engu stuði þá frekar en nú að sanka að mér aur. Lengst gekk svikamillan þegar ég falsaði kaupsamning á íbúð í Grindavík og náði skildusparnaðinum út með því plaggi. Maður hefur verið ótrúlega kræfur. Ég man að ég þoldi ekki liðið á kontornum sem maður þurfti að díla við til að ná þessu út. Sama óþol hafði ég gegn fólki í ríkinu. Þá var ríkið eins og í austanblokk eitthvað, maður gat ekki skoðað neitt heldur var allt brennivínið fyrir innan borð og kallar sóttu það sem maður bað um. Sextán ára fór ég og keypti í fyrsta skipti (örugglega Vodka víbróva eða hvað þetta hét). Það var ótrúlegt stress á manni í hvert einasta skipti. Ég fékk alltaf afgreiðslu nema einu sinni. En þá hljóp ég bara úr Snorrabrautarríkinu í Lindargöturíkið og fékk afgreiðslu þar. Löngu eftir að ég varð tvítugur fékk ég alltaf skilvirka magapínu þegar ég fór í ríkið. Ah minningar...

07.06.07
Elísabet Lára laus við guluna og kom heim í gær. Það er smám saman að renna upp fyrir mér sú staðreynd að ég er tveggja barna faðir. Þetta er nokkuð svakalegt og menn sem maður hittir glotta við tönn og segja að nú byrji alvaran loksins fyrir alvöru. Að eitt sé djók en tvö sé fúll tæm djobb. Ég er samt ekkert svo svakalega stressaður yfir þessu og það er allt annað að eignast fyrsta eða annað barn. Þegar DÓG fæddist var maður uppspenntur og fyrstu vikurnar var maður gífurlega heilagur. Núna veit maður hvað er að fara að gerast og tekur ekki þennan heilagleikapakka eins og síðast. Er ekkert að læðast um húsið.
---
Stofnaði Moggabloggið drgunni.blog.is til að benda hingað yfir og til að geta tjáð mig í kommentakerfi og svona. Maður verður að fylgjast með. Ætla þó að halda áfram bloggi hér þótt þetta sé fornaldarkerfi og ekkert RSS eða neitt. 

06.06.07
Eitt hið drephlægilegasta í nútímanum er ofuráhersla og ofuráhugi karla af léttasta skeiði á fótbolta, sérstaklega enskum. Menn kenna sig við lið, og eru fyrst og fremst Liverpool-maður, Chelsea-maður, eða hvað sem það er, frekar en Íslendingur eða faðir. Svo þusa menn um að "við áttum leikinn í gær" eða "þið skituð í ykkur á Anfield". Þetta er bara fallegt finnst mér og ég er löngu hættur að ergja mig að menn hafi svona leiðinleg áhugamál. Svo sem alveg eins gott að menn velkist í þessu þar til þeir hrökkva upp af og er holað niður í kistum í fánalitum Arsenal.
--- 
Annar fílingur er í kringum íslenska landsliðið sem menn halda alltaf að geti eitthvað. Nú mun eflaust skella á holskefla kvartana á liðið og þjálfararæfilinn eftir 5-0ið á móti Svíum. Menn fóru yfir um að Liechtenstein skildi ekki vinnast heldur aðeins nást fram 1-1 jafntefli. Í Liechtenstein búa náttúrlega bara 30.000 manns, 0.1 af okkur, svo þetta er vissulega aumingjalegt. Það að tapa 5-0 fyrir Svíum er hinsvegar ekkert svo slæmt. Þar búa náttúrlega 9 milljón plús og bara 0.3 milljón hér svo 5-0 er vel sloppið. Þaggi? Annars er ég fyrst og fremst QPR-maður. Ég hætti ekki fyrr en ég hef farið á 40 leiki á Loftus Road. Grín.
---
Já og Skemmtiþáttur Dr. Gunna skellur á á laugardaginn eftir 4 fréttir. Komin heimasíða og allt.

05.06.07
Það er full mikið af andlátum á netinu, dauða og uppgjöf. Ýmsir menn glenna sig og blogga eins og þeir lífið eiga að leysa í smá tíma en renna svo á rassgatið. Misfljótt auðvitað. Margir nennessu í ár, nokkra mánuði, vikur eða daga en svo kemur dánartilkynningin: Ég er kominn með leið á bloggi eða Hér með tilkynnist að ég er hætt að blogga svo dæmi séu tekin af tveimur bloggum sem maður nennti að lesa. Það sama á við um ýmsar síður sem fólk glennir sig með í smá tíma, Núlleinn, Undirtónar og hinn frábæri tónlistarvefur Músik. Og allskonar annað dót sem maður er búinn að gleyma. Allt dautt og búið að gefast upp. Það vantar allt úthald í fólk.
---
Meira bullið í FBL, alveg út í hött samsæriskenning um nýjan þátt okkar Þorvaldar Bjarna. Góð tilraun samt. Búa til nýjar rokkstjörnur? Fuss... Ég er ekki að gera neinn þátt með Þorvaldi svo það sé nú alveg á hreinu. Fór hins vegar á afar mikilvægan fund í gær með Björgólfi, Geira á Goldfinger og Júlla í Draumnum. Mikið í gangi en ég segi ekki múkk. 
---
Elgurinn enn í kassanum en kemur á morgun eða hinn. Það er búið að slökkva á henni lampana og gulan öll í rénum. Lufsan mjólkar og mjólkar en tilgangsleysi karlpunga er sjaldan ljósara en þegar barn kemur í heiminn. Skraufþurrar geirvörtur og eina gagnið í manni er sem þjónustuaðila. Sjá til þess að það sé nóg til af Malti og bönunum og svoleiðis. Ég er samt með undarlega harðar geirvörtur þessa dagana. Það er hálf vandræðalegt.
---
Keypti miða á Air. Það þarf mikið til núorðið að draga mig út úr húsi og á tónleika en Air tókst það. Svo fer ég kannski líka á Of Montreal sem eiga að spila á Airwaves.
---
Rétt er að benda á færslur á bloggsíðu Bergljótar blaðakonu, systir Geira á Goldfinger, vilji fólk fá aðra hlið á Goldfinger-peningnum. Hún segir bróðir sinn eðalmann sem ekkert illt megi sjá og Ísafold vinna á vegum ónefnds óvildarmanns Geira.
---
Djöfull reyndi ég að horfa á leiðinlega mynd í gær: 28 weeks later. Ég gafst upp í miðri mynd. Kannski er ég bara kominn með leið á heimskulegum hryllingsmyndum. Nenni t.d. allsekki að sjá myndir Elis Roth. Kannski bara rugl í mér eða kannski er ég bara búinn með þennan pakka enda tók ég svaka hryllingstímabil fyrir sirka 15 árum. Nú bara ég nenni ég að láta bregða mér og sjá gerfiblóð frussast úr leikurum.

02.06.07
Sá Egil Helgason á kontornum hjá Rúv í gær, nýkominn frá að skrifa undir. Hann var hress með þetta. Sjálfur var ég að fara á áríðandi fund en má ekki segja múkk. Elgurinn enn í kassanum. Það er bölvað rót á manni en mikið hangið þarna upp á fæðingardeild. Ég er satt að segja kominn með dauðleið á öllum þessum ambrandi reifabörnum og belgmiklu mæðrum þeirra og lúpulegu feðrum. Því fyrr sem fjölskyldan kemst heim til sín því betra.

01.06.07
Það er vesen á Elgnum. Með blóðflokkamisræmi svo það þurfti að skipta um allt blóðið í henni í gærkvöldi. Þetta hljómar ansi ógnvænlega en gekk eins og í sögu enda ekkert nema toppfólk í þessu heilbrigðiskerfi okkar. Ég tók eftir því að læknirinn flautaði With a little help from my friends þegar hann hafði kvatt okkur eftir aðgerðina. Allsstaðar eru Bítlarnir. Nú verður Elgur litli í ljósakassa næstu daga en hún er strax að verða bleik en ekki gul. Vonandi komumst við heim með hana um eða strax eftir helgina. 
---
Keypti mér Ísafold til dægrastyttingar. Ansi sláandi Goldfinger grein og myndir af þeim báðum belgsíðu karlpungum Geira og bæjarstjóranum með fórnarlömb fátæktar hangandi utaná sér. Þetta KópavogsGoldfingerdæmi er þrælrotið í gegn miðað við greinina og minnir á spillt hyski í bókum Carls Hiaasens. Svo er Byko búið að fjarlægja tímaritið úr hyllunum samkvæmt þessu. Uss. Ég ætla rétt að vona að fjölmiðlar fylgi þessu máli eftir.

31.05.07

Hátíð í bæ! Elísabet Lára Gunnarsdóttir (code name Elgurinn) mætti í gær kl. 12.53, 3650 grömm og 50 cm. Henni heilsast vel en gæti þurft að vera nokkra daga á sængurkvennadeildinni með móður sinni ef hún fær guluna sem er ekki á hreinu ennþá. Það er fylgst með henni. Fæðingin tók lítinn tíma og var auðvitað miklu minna mál einhvern veginn en í fyrsta skipti. Ætli maður sé þá ekki búinn að fjölga sér nóg og ég á leið í aðgerð. Snip snip eins og kettirnir.
---
Elgurinn hefur sofið aðallega só far en er trillað í blóðtöku á 4 tíma fresti. Henni er nokk sama um það. Hún er brúnaþung, munnsmá, rauðhærð og með undirhöku. Hún kom út fjólublá og mökuð í barnafitu en er nú að óðum að fá eðlilegan lit. Hún rekur annað slagið upp rokur en það er lítilsháttar og auðvelt að laga það með geirvörtu. Dagbjarti fannst ekkert svo mikið til koma og var strax farinn að fikta í hækkunarfjarstýringunni á rúminu sem honum fannst mun merkilegra fyrirbæri en systir sín.
---
Maður er bara keyrandi í sumri og sól, í dúndurstuði í, pabbi í annað sinn að koma úr ræktinni, blastandi Justin Timberlake á FM957 þegar einhver meistarahelmút byrjar að masa með hressu röddinni: Hvað ætli séu mörg dægurlög sem innihalda setninguna love, eða íslensk lög sem innihalda setninguna ást eða elska. Ég er viss um að ef dægurlagasagan yrði kryfjuð þá myndi koma í ljós að alla vega 1/3 af lögum innihalda setninguna ást. Bingó! Ég fór auðvitað beint heim og samdi lagið Setningin ást.

28.05.07
Hér er spennan að verða óbærileg. Það fjölgar í fjölskyldunni á morgun eða hinn. Ég bind miklar vonir við að nýja barnið verði jafn þægt og gott og DÓG. Á fimmtudaginn urðu foreldrar mínir demantshjón, þ.e. 60 ár í hjónabandi. Við Lufsan munum halda upp á okkar demants árið 2062, en þá verð ég ekki nema 97 og sjaldan hressari þökk sé LiVmORe-pillunni frá Decode. Talandi um demanta þá sá ég Blood diamond í gær. Æi ekkert spes. En aumingja Afríka endalaust. Svo hlustaði ég loksins á The good, the band and the queen. Það er ágætis ballads. Jæja best að fara út að hjóla með DÓG.

27.05.07
Sóley Tómasdóttir var í heita pottinum með vinkonu sinni. Ég lagði við hlustir og heyrðist þær vera að tala um staðalímyndir. Mér fannst það einhvern veginn mjög gott dæmi um staðalímynd.
---
Ég tek ofan af fyrir Tomma í Tommahamborgurum að vera einungis með gott starfsfólk. Hann hlýtur að borga meira en aðrir skyndibitastaðir.
---
Er þá kannski sumarið komið?
---
Safnplatan Beiskir dropar og fjólublátt fiður er komin út, eþs Topp 5!:


Paul McCartney - Nod your head: Eldgamla dúllan enn & aftur komin með nýja plötu, sem er alls ekki annað en notaleg og alveg ágæt. Hér er síðasta lag plötunnar, stutt og skorinort og helterskelterað. Þegar Páll hefur klárað einfætta pakkann má jafnvel búast við honum hingað. 


Mínus - Cat's eyes: Mínus hamra járnið á Great Northern Whalekill. Hér er stálslegið opnunarlagið. Spilist hátt. Fyrirsætan á umslaginu ku vera 19 ára Mínus-aðdáandi. "Feit plata" segja menn.


4ps - Ich würde, wenn ich wüßte, daß ich könnte: Austantjalds softdiskó í partísenu í Lífi annarra. Skeggjaðir og hleraðir kommar súpa vodka og ræða djúp málefni ilmandi af gúllassúpu. Lagið kom út um 1978 en um hljómsveitina 4ps veit ég ekki mikið enda hundslappur í þýskunni. Hér er þó upplýsingaveita á þýsku um austantjaldstónlist hafi fólk áhuga.


The Go find - Perfume V: Morr Music er Berlínsk útgáfa með tvær íslenskar á sýnum snærum, Seabear og Benna Hemm Hemm. Áskellandi er Morr kynning á Íslandi (1. júní - Akureyri - Græni hatturinn og 5. júní - Reykjavík - Iðnó) þar sem þessar tvær sveitir plús The Go Find, Tarwater og Isan leika fyrir dansi. Það eru kraumandi pottar, heillin. Út er komin 10 laga safndiskur með þessum 5 böndum sem fólk ætti að verða sér útum (í 12 tónum?) vilji það byrja að hita upp. Hér er belgíska bandið The Go Find að juðast á Pavement slagara af Slanted & enchanted.


Henry Henry - Hong Kong, Mississippi: Snargalinn rokkabillítvistur af safnplötunni Nasty Rockabilly vol. 1 sem þýska suddaútgáfan B-sharp maulaði úr sarpinum fyrir nokkru. Veit ekkert um Henry Henry nema hann var líklega frá Birmingham, Alabama og hét Henry Levoy. Vann líklega á jarðýtu og lést ungur í mótorhjólaslysi. (Fann hvergi mynd af listamanninum svo myndin er óskild fréttinni. Þar má sjá japanskan rokkabilling. Fyndið hvað rokkabillíið er alltaf í gangi samhliða öðrum straumum og stefnum í tísku og músik. Japanir og Finnar virðast sérstaklega svag fyrir rokkabillíi. Hér er örfáir einstaklingar sem gangast upp í þessum stíl. Skemmtilegastir eru orginal rokkabillíarnir, gamlir karlar með feiti í hausnum og í leðurjökkum.)

25.05.07
Ég hafði orð á því við samferðarmann í lyftunni á skattstofunni að nú værum við í lyftunni í helvíti. "Þessi lyfta ætti því faktískt að fara niður en ekki upp," bætti ég við í góðu gríni. Nú liggja frammi hinar árlegu möppur með tekjum Íslendinga. Það var enginn að skoða þetta og róttækir Heimdellingar lágu ekki einu sinni á möppunum eins og búttaðar kríur á eggjum. Ég fletti þessu aðeins og leið eins og brundkarli að skoða klámblöð. Svo skilur maður ekkert í þessum tölum hvort eð er. Mér datt ekki annar í hug en ég sjálfur til að fletta upp á og skildi ekkert í þeim tölum heldur. Svo sá ég að Jón Gnarr er með Jón Gnarr ehf, en þess má geta að ég er með Erðanúmúsik ehf. Úlfur Eldjárn var þarna eitthvað að flækjast og spurði hvort ég væri með allt niðrum mig. Ég sagði ekki svo vera.
---
Helstu andstæður landsins fara jákvæðum orðum um mig, eða viðurkenna allavega tilvist mína. Þannig vitnar hvorki meira né minna en sjálfur dómsmálaráðherra landsins til Bakþanka minna í enda viðtals í Viðskiptablaðinu. Nú er lag að fá að fara með Birni í bíó en það hefur lengi verið markmið mitt í lífinu að fara í bíó með Birni og skrifa um það greinina/viðtalið "Í bíó með Birni Bjarnasyni". Hann er mikill bíókarl og maður sér hann stundum einan í bíó. Sjálfur fer ég oft einn í bíó. Það er alveg ágætt enda fer maður ekki í bíó til að gjamma framan í þann við hliðina á sér. Fátt er reyndar ömurlegra en að lenda í sæti fyrir aftan gjammandi pakk. "Í bíó með Birni" gæti orðið tímamóta grein og nú hefur maður sig kannski upp í að senda dómsmálaráðherranum email, fyrst það er komið á hreint að hann veit hver ég er og telur mig kannski með sér í liði gegn ríku körlunum. Eins konar erkióvinur Björns er Jónas Kristjánsson, sem fer svona líka jákvæðum orðum um mig í dag og telur í hópi með Erpi, Guðbergi og Davíð Þór sem beztu stílista landsins á prenti. Guðbergur er þó auðvitað hálfum kílómetra fyrir ofan okkur alla. Það segir sig sjálft. Þetta er samt gífurleg viðurkenning frá mentor íslenskrar blaðamennsku, eins og hann er jafnan kallaður. Kannski væri góð hugmynd að fara út að borða með honum til að skrifa greinina/viðtalið "Út að borða með Jónasi Kristjánssyni." Mér er minnisstætt einu sinni á fundi þegar Jónas sagði í umræðu um gamla auðinn versus nýríka að þetta væru allt lýs, en þessar gömlu væru þó alla vega saddar og það væri betra að vera með gamlar saddar lýs á sér heldur en banhungraðar nýjar. Mér fannst þetta svo skarpt að ég setti saman hið óútgefna lag Lýs.
---
Hér til hliðar má sjá ýmis afkvæmi mín og Kim Il Sung. Bestur er þessi sem lítur út eins og Kentucky fried karlinn. Sá var víst minnipokamaður fram eftir öllu og komst ekki í feitt fyrr en rúmlega sextugur þegar hann opnaði fyrsta kjúklingabitastaðinn. Enn er von, segi ég nú bara.

24.05.07
"Viltu finna stækkunargler Gunni og það strax!" sagði vinur minn skipandi og klæddi sig snögglega úr buxunum.

Í dágóða stund starði ég á kynþokkafulla buxnalausa æskuvin minn sem kann vissulega þá list að laga líf sitt að óskum kvenna sem hann hrífst af og spurði: "Hvað í ósköpunum er þetta?"

"Sífillis," svaraði hann samstundis. "Viðurstyggilegur kynsjúkdómur eftir dömuna sem fór alltaf með mig á sýningarnar, manstu?" bætti hann við reiður.

"Þetta er algjör viðbjóður" sagði ég máttlaus og starði á sífillis-sárin sem blöstu við mér á ofanverðum lærum hans. 

"Finnst þér þetta ekki ógeðslegt Gunni? Ég meina hefur þú séð annað eins?" spurði hann ágengur án þess að breyta um stellingu.

"Nei, aldrei" svaraði ég og sofnaði. "Zzzzz."

"Hey, vaknaðu," æpti hann. "Ég er hér með bullandi siffa og þú sofnar bara."

"Æi mér finnst svona lummulegt kynórakjaftæði svo leiðinlegt," svarði ég. "Og Siffi – er það ekki bara einhver útvarpsmaður á FM95.7?"

"Éttu skít," sagði kynþokkafulli æskuvinur minn og sótti í sig veðrið. "Hvað ert þú að herma eftir Ellý Ármanns sem er með almennilegt blogg og það vinsælasta á landinu. Ertu öfundsjúkur ræfillinn þinn?"

"Heyrðu!" öskraði ég, gafst upp og fór að grenja. "Bú hú, bú hú." 
---
Fór á Líf annarra (Das Leben der Anderen) í gær, helvíti gott drama um martraðarkennda þjóðfélagið sem var Austur-Þýskaland með sitt Stasi og rugl. Fyrsta 4 stjörnu mynd ársins. Eins og gerist bara eftir alvöru góðar myndir fór ég heim og kynnti mér meira um myndina, las t.d. viðtal við einhvern gamlan andófsmann sem fannst myndin góð en sá margar staðreyndavillur. Leikstjórinn er ungur gaur sem upplifði ekki þessa tíma og því er kannski myndin enn merkilegri. Svo er oft nokkuð gott austantjaldsfönk og rokk í gangi í hljóðrásinni sem skemmir ekki. Möst sí!

23.05.07
Sé mark takandi á stefnuskrá nýrrar ríkisstjórnar er eins og hér sé að komast á hið himneska hamingjuríki sem toppar allt annað. Sjáum til. Það er allavega einhver ferskleiki, ekki stöðnunin sem hefði stafað af líki gömlu stjórnarinnar hefði hún haldið áfram. Ég skulda Sigurjóni 500 kall.
---
Heyrði að Fjölvi sé að blása í Tinnalúðra. Góðir. Þeir hafa staðið sig vel. Íslensku þýðingarnar náttúrlega gegnheil snilld. Fjölvamenn ætla loksins að gera Tinna í Sovét á íslensku og opna Tinnabúð. Ég leyfi mér að efast um þá viðskiptahugmynd að opna Tinnabúð, myndi allavega ekki sjálfur leggja út í það, en það er vonandi að allt gangi upp. Þetta Tinnadót er náttúrlega alltaf á okurprís í búðum erlendis svo kannski gengur þetta upp. 25.000 kall fyrir litla plaststyttu af Flosa Fífldal, einhver?
---
Mogginn er farinn að berast frítt í hús á mánaðartilboði. Sérstaða blaðsins liggur í dána fólkinu og svo hinum æðislegu kverúlöntum sem skrifa í Moggann sinn – Tuðmenn Íslands. Kverúlant dagsins er Valgeir Sigurðsson sem eyðir góðum tíma í að hneyklast á því að sumir skuli nota "geðveikt" sem lýsingarorð yfir eitthvað gott, flott eða frábært. (Lesist með rödd Jóns Gnarrs í Smásálinni): Nýlegt dæmi um þessa ómenningu mátti lesa í Fréttablaðinu 21. apríl síðast liðinn, þar sem kvenmaður hælir sér af því að hafa snætt "geðveikan" mat í útlöndum og segir: "Hvar annars staðar en í Íran getur maður borðað yfir sig af "geðveikum" heimagerðum mat..." o.s.frv. Hvers vegna segist hún ekki hafa étið yfir sig af "berklaveikum" mat? Það hefði þó a.m.k. verið hægt að trúa því að berklasýkill leyndist í matvælum, heldur en að þar væri geðveiki fyrir hendi! Góður Valgeir. Berklaveikt góður!
---
Wikitravel er það nýjasta í Wikipedia fjölskyldunni. Helvíti gott svona uppfæranlegt Lonely planet dæmi á netinu.
---
Las það í Fbl að einhverjir hundómerkilegir bloggarar út í bæ séu farnir að fá 50000 kall á mánuði fyrir auglýsingar á síðunni hjá þeim. Halló!? Hver er þriðji besti bloggari landsins skv. vísindalegri könnun með hátt í 20.000 heimsóknir á mánuði? Nei, segi bara svona...

22.05.07

---
Aldarafmæli í dag – Heill þér mikli meistari Hergé! Hver ætli eigi nú að leika Tinna í bíómyndunum? Spennan er í hámarki. Leonardo di capríó? Nei andskotinn! Þegar áhugamál mín eru smættuð niður í tvær frumeindir þá eru eftir Tinni og Bítlarnir. Talandi um Bítla þá var þokkalega athyglisverður þátturinn um Love sýninguna í LV. Reyndar finnst mér loftfimleikar og óverkill í sviðsetningu ekkert gríðarlega spennandi en maður myndi láta sig hafaða að sjá giggið ef maður færi þarna út. Vonandi verður Love enn í gangi árið 2012 þegar við Lufsan höldum til LV á ný til að endurnýja hjúskaparheitin 10 árum síðar. Síðast tímdum við ekki að sjá tígrisdýrahommana enda dollarinn þá 110 kall en ekki 62 kall eins og núna. Djöfuls rugl alltaf með þetta gengi.
---
Maggi strump er kominn með mp3-blogg. Þar er m.a. lag með Vér eðlum oss, sem er mikið hulduband sem gaman væri að vita meira um. Ef lesendur þekkja Vér eðlum oss, Vér eðlum oss, þá skal endilega skilja eftir komment hjá Magga.

21.05.07
Þú getur komið út úr skápnum Tinky Winky – Jerry er dauður.
---
Tónlistarlífið í Kópavogi var fremur dauft eftir gullöld Fræbbbla og Kópavogsbíós og um mitt eitís voru þarna að harka fyrir utan S.H.Draum bönd eins og Dron, Tea4-2 og Band nútímans. Mér, í eðlislægum unglingahroka, fannst þetta náttúrlega allt algert drasl enda hafði ekkert af þessu liði heyrt í Birthday Party eða The Fall og vitnaði frekar í Duran Duran og aðra nýrómantík í tónsköpun sinni. Nú er auðvitað öldin önnur og hver fór annar á DD á Íslandi annar en ég sjálfur. En allavega, nú eru "strákarnir" í Bandi nútímans komnir með hvínandi gráfiðring og hyggja á kombakk. Þetta er svo sannarlega skratti úr sauðalegg. Kombakkið verður í Salnum í Kópavogi þann 6. júní og kostar 1000 kall inn. Þar sem lesendur munu án efa flestir spyrja Band nútímans hvað? þá er hér á vegum samfélagsþjónustu burtfluttra Kópavogsbúa lítið tóndæmi: Band Nútímans - Courage
Fréttatilkynning: Ef þið vissuð það ekki nú þegar þá mun unglingahljómsveitin Band Nútímans genga í endurnýjun lífdaga og troða upp í Salnum í Kópavogi miðvikudagskvöldið 6. júní kl. 20.30. 
Sem sagt í fyrsta sinn saman á sviði í 22 ár! 
* * * * * * * * * * * * * * * * * * * * * * 
Miðasala er hafin á tónleikana: 
http://salurinn.is/event_info.asp?event_id=4482 
* * * * * * * * * * * * * * * * * * * * * * 
Endurkomutónleikar Bands Nútímans eru kærkomin afsökun fyrir þá sem voru táningar í Kópavogi á þeim tíma þegar Óli vörður gekk um Hamraborgina og þrívíddarbíóið á Skemmuvegi varð að skemmtistaðnum RÍÓ, til þess að endurnýja kynnin og skemmta sér undir stórbrotnum lagasmíðum 15 ára drengja sem ætluðu sér aldrei neitt annað en að verða poppstjörnur. Nú koma þeir saman aftur, löngu síðar og hver veit... er draumurinn kannski loksins í augsýn? 
Ekki láta þig vanta í Salinn, miðvikudaginn 6. júní.
Tónleikarnir hefjast klukkan 20.30 og aðganseyrir er aðeins 1000 krónur. 
Það er einlæg ósk okkar að sem flestir vilji gleðjast með okkur að tónleikunum loknum á veitingahúsinu Catalinu í Harmaborginni. 
Tónleikagestir munu njóta sérstakra fríðinda þetta kvöld í formi afslátta af völdum veigum. 
Munið bara að hafa tónleikamiðana tiltæka.
Kveðja frá Bandi Nútímans 
http://myspace.com/bandnutimans 
Ps.
Endilega sendið þetta á þá sem ólust upp með okkur ráfandi um Kópavoginn.

20.05.07

Þetta eru Böddi og Simbi, hugsanlega æðislegustu menn á Íslandi í dag. Það versta við skalla að maður hefur enga afsökun til að láta svona menn strjúka á sér hausinn.
---
Annars er síðasta sýning á Abbababb! í dag en sýningin verður án efa tekin upp aftur í september. Góðar stundir!

19.05.07
Safnplatan Glataður blöðkur er komin út, eþs Topp 5imm: 


Silver sun - Facts of life: Breskt kraftpopp af plötunni Dad's weird dream, sem er þeirra númer 4. Hefur verið lýst sem "Buzzcocks slæst við Cheap Trick og útkoman er pródúseruð af Jeff Lynne", sem verður að teljast rétt.


Battles - Ddiamondd: Fólk er skjálfandi yfir bandarísku Battles þessa dagana, bandið þykir fínt stöff og viðurkennt af mjóum tjúuskeggjum í sænskum prjónapeysum. Mirrored er platan sem Warp gefur út, full af langhundum og sprettum. Hér er auðgrípanlegasta lagið, sungið eins og jólakór á spítti, en annars er ekkert svo mikið sungið á plötunni heldur hjakkað og tilraunað. 


Of Montreal - No conclusion: Plata Of Montreal "Hissing Fauna, Are You the Destroyer" er ennþá ein af bestu plötum ársins. Fimm laga ep-platan "Icons, Abstract Thee" er einskonar fylgja þeirrar plötu og bætir á brúsann. Hér er rúmlega 9 mínútna lag um sjálfsmorðshugleiðingar sem hljómar mun betur en það hljómar.


Goose - Bring it on: Og þá er komið að Belgum. Hér eru Belgarnir í Goose í svaka stuði í tillagi flúnkunýrrar plötu. Þetta eru gaurar í svipuðum rokkdansgír og landar þeirra í Soulwax og það má gera margt verra af sér en að blasta þessu á sig í ræktinni.


Simian mobile disco - Tits and acid: Túttur og sýra með þessu enska dúói af væntanlegu fyrstu plötunni Attack Decay Sustain Release. Enn erða líkamsræktartónlist heillin og enn erða margt verra en að láta þetta leka með svitanum niður andlitið á þér þar sem þú glápir á þrýstna rassa hlykkjast fyrir framan þig hugsandi hugsanir sem í fullkomnu ríki myndu kalla á skilyrðislausa vönun. Hikk!

18.05.07
Ef maður nennir ekki að svara einhverju þá er auðveldast að segja bara: Þetta dæmir sig sjálft.
---
Refsing við ökuníðingsbrotum er ennþá alltaf væg. Það á að taka af þessu bílprófið í nokkur ár og sekta í erfiðisvinnu og samfélagsþjónustu. Eina leiðin til að bæla niður fávitana er refsigleði.
---
Bloggarinn Siggi talar um hressleika, sérstaklega þann sérstaka hressleika sem stafar af Bylgjunni (svo ekki sé nú talað um Hemma Gunn). Mér finnst alltaf jafn asnalegt þegar auglýst er eftir "hressum" starfskröftum og sé fyrir mér eintóma fábjána. Vilji maður ekki þennan uppgerðar fávitaskap dulbúinn sem hressleika er auðveldast auðvitað að leiða hann hjá sér. Þess vegna hef ég aldrei hlustað á Bylgjuna. Fyrr en núna það er, (hér er játning:) Bylgjan er á vali í bílaútvarpinu af því stundum vill maður heyra fréttirnar. En svo hefur það komið fyrir þegar maður sörfar stöðvarnar í bílaútvarpinu að maður staldrar við á Bylgjunni ef einhverjar 80s lummur eru í gangi því það er stundum skárra en gítarrúnkið á RvkFm/Xið eða Garðar Cortes eða eitthvað væl á Rás 2. En ég myndi skipta um leið og einhver hress byrjar að tala með endaþarminum á sér. Brúttó!


Stútfullur aukapakki