04.09.10

Minni á Kolaportið í dag. Ég verð bara þarna í dag með stöffið á spottprís. Ekkert á morgun! Kolaportið er opið á milli 11 til 17.
---
Svo minni ég á alveg geðveikan Popppunkt í kvöld. Hellvar og Skriðjöklar eigast við og annað hvort liðið mætir Lights on the Highway í úrslitaþættinum í beinni 18. sept! Spennan er gríðarleg. Þarna á milli, 11. sept, verður svo sýndur algjör flippþáttur þar sem tvö grínteymi takast á – Fóstbræður (Sigurjón, Helga Braga og Jón) á móti Mið-Íslandi (Ara Eldjárn, Berg Ebba og Jóhanni).
---

Þórarinn á Samúel birtir skemmtilegt viðtal við Björk síðan 1983. Mikill fengur er í myndum af Björk að þræla í sveitinni hjá Labba í Glóru (Mánum).
---

Conan O'Brien gengur aftur á kapalstöðinni TBS í nóvember – fyrsti þátturinn er 8. nóv og hann heitir CONAW (eða Conan, sko). Karlinn var á uppistandstúr í sumar og tók m.a. upp litla plötu með vini sínum Jack White. Hana má heyra hér.

03.09.10
Einu sinni sagði Þór Eldon við mig: „Ef þú sérð mig einhvern tímann inn í Dressman máttu skjóta mig“. Nú segi ég við þig: Ef þú sérð mig einhvern tímann í Timberland-fötum máttu skjóta mig. Ég sá nefnilega væmnasta prest landsins í Timberland-fötum að máta Timberland föt inn í Timberland-búðinni og mig langar ekkert minna en að verða eins og hann. Þór sagði reyndar líka: „Það er ekkert eins ömurlegt og myndbönd með gömlu fólki og krökkum“. Skömmu síðar var þetta myndband búið til.
---
Þórunn Sveinbjarnardóttir er ekkert kúl. En hún varð samt smá kúl þegar hún sagði einhverjum hálfvita (eða manni með óvenju þroskað skopskyn) að hoppa upp í rassgatið á sér. Svo varð hún ennþá minna kúl en áður með þessari afsökunarbeiðni. Afhverju dauðheldur þetta fólk í þá mýtu að það sé eitthvað dannaðra en fólk er flest? Afhverju rogast fólk um með opinbera grímu? Getur það ekki bara verið það sjálft? Að segja einhverjum að hoppa upp í rassgatið á sér er hluti af því að vera bara eins og maður er.
---
Ég er að taka til dótið sem ég ætla með í Kolaportið á morgun – Geðveik grisjun 2010. Þetta eru fleiri fleiri pappakassar. Þetta verður hryllilega ódýrt og undursamlegt. Geðsturlun hreinlega að missa af þessu. Svo er ég á kafi í undirbúningi fyrir S.H.Draums kombakkspakka. Er að lesa gömul viðtöl, öll stútfullt af stælum, skætingi og leiðindum (les: minnimáttarkennd?) Ha ha ha! Verð nú að birta hérna eitt eftir Árna Matt úr Mogganum frá 1988 í ljósi þess sem framtíðin átti eftir að bera í skauti sér:

---

Mosi frændi - Útihátíð (með Felixi Bergssyni)
Tónleikadiskur með Mosa frænda er kominn út á CD! Kombakk giggið frá í fyrra snilldarlega mixað og masterað af Ragnari gamla Jóns. Fæst í Havarí og einnig hægt að kaupa í gegnum facebooksíðu Mosans. Á disknum má líka heyra í Páli Óskari og Þorsteini Joð.
---
Annars er það helst að frétta að gáfaðasti maður í heimi segir að guð sé ekki til og eitthvað lið er hætt að vera í ríkisstjórn og eitthvað annað lið er komið í staðinn – geisp.

02.09.10
Helv. nýi bíllinn er alltaf að bila svo ég er alltaf að fara með hann til karlanna í Bílvogi í Auðbrekkunni, Kóp. Alltaf er gaman að koma í Kóp að rifja upp sjálfan sig. Allt er svipað nema það sem hefur breyst. Margt af þessu nýja er framtíðarlegt. Mér líður alltaf eins og ég sé í Blade Runner þegar ég er í nýju hverfunum í Kópavogi. Í Blade Runner sjást samt gömul minni eins og Hr. Stefán Grímsson, sem gekk framhjá þegar ég var sestur í strætó - Leið 1. Ég greip símann og smellti af:

Ég skil annars ekki hvað fólk er alltaf að væla yfir strætó. Það er ekkert að strætó. Allavega ekki leið 1. Gengur á korters fresti á álagstímum. Svo er komið nýtt. Vinaleg kvenmannsrödd segir í kallkerfinu hvar maður er. „Landsspítali... Háskólinn..." Mjög erlendis. Mjög flott! Áfram strætó!
---

Búdrýgindi - Snobbuð kelling
Hinir frábæru Búdrýgindi - ekki litlir lengur - taka gigg: Eftir mjög svo vel heppnaða afmælistónleika í Mars 2009 ætlar hljómsveitin Búdrýgindi að halda tónleika á skemmtistaðnum Venue 3. september næstkomandi áður en Viktor bassafantur flytur af landi brott.
Í ljósi atburða sem hafa átt sér stað á þessu landi síðustu 2 ár hafa Búdrýgindi ákveðið að stíga fram með sína hápólitísku texta sem taka á spillingu og siðferðisbrotum og láta samfélagið heyra í sér. Rokkstjörnurnar í Papa Roach gengu jafnvel svo langt í spillingunni að stela eins og eitt stk. Ósonlagi af Búdrýgindi, en Ósonlagið verður einmitt á meðal þess sem verður boðið upp á á föstudaginn.
Hljómsveitin Sing for me Sandra sem er að gefa út plötu fyrir jólin mun stíga á svið á undan Búdrýgindahraðlestinni. Hraðlestin mun svo stíga á svið á miðnætti.
Það er frítt inn og þeir sem vilja fá endurgreitt ef þeir verða fyrir vonbrigðum. Við lofum stuði, tæknilegri fullkomnun og almennri geðveiki.
Þið getið hitað upp með því að horfa á youtube.com/budrygindi(m.a. klipps úr Popppunkti!) eða myspace.com/budrygindi
Lagið er af plötunni Kúbakóla.

01.09.10

Góðan-daginn dagurinn er í dag. Hr. Borgarstjóri útskýrir þetta nánar á þessu myndbandi. Góðan daginn!
---
Baggar snúa til byggða. Fréttatilkynning: Samningar hafa náðst um endurfjármögnun vefs útgáfu- og afreyingarrisans Baggalúts - Baggalutur.is. Endurfjármögnunin nemur vel á fjórða þúsund króna, sem ætti að tryggja Baggalúti rekstrargrundvöll næstu mánuði. Því er ljóst að tíunda starfsár Baggalúts er að bresta á. 
Já tíunda!
Meðal nýjunga á næsta Baggalútsári má nefna endurbætt útlit, þar sem sérstakt tillit er tekið til farsímaunnenda, grímulausan áróður og stórauknar fjárheimildir til sjónvarpssviðs samsteypunnar.
Vefurinn veður opnaður kl. 00:00 þann fyrsta september, eftir langt og óvenjuleiðinlegt frí.
Meðal nýjunga á þessu 10. starfsári Baggalúts má nefna grímulausan áróður sem við kjósum að kalla BMX – Gallsteina, stórkostlega endurbætt útlit, sem hannað er af nemendum hannyrða- og fágunarskóla Sigþrúðar í Grafarholti – auk þess sem sérstakt tillit er tekið til farsímaunnenda, sem geta nú notið lystisemda Baggalúts á m.baggalutur.is.
Að gefnu tilefni skal tekið fram að Randver verður ekki með að þessu sinni...
---
Örvar sendi bréf í framhaldi af reynslu minni af 3D: Sá að þú varst alveg hoppandi brjálaður út í þrívíddarmyndirnar.  Samkvæmt fréttanördunum á slashdot.org er þetta tilltölulega ódýr leið fyrir kvikmyndaverin til að auka tekjur af myndum.  „Tickets for 3-D films carry a $3 to $5 premium, and industry executives roughly estimate that 3-D pictures average an extra 20 percent at the box office“.    http://entertainment.slashdot.org/story/10/08/03/233200/Filmmakers-Resisting-Hollywoods-3-D-Push
Að auki er menn með áhyggjur af komandi þrívíddarsjónvörpum vegna yngri barna sem eru með lítið þroskaða þrívíddarskynjun.  Þrívíddargleraugnaglápið þvingar víst augun í rangeygða stöðu (svona eins og maður gerði þegar maður starði stíft í sig höfuðverkinn  yfir þrívíddarbókunum fyrir 10-20 árum)
http://hardware.slashdot.org/story/10/06/26/2059205/3D-Displays-May-Be-Hazardous-To-Young-Children
Sem sagt, vel hægt að smjatta á samsæriskenningum um þrívíddardjöfulinn !
Einmitt! 3D = SATAN!
---

S.H.Draumur - Trúboði
Í framhaldi af kombakki S.H.Draums, lúxusútgáfunnar Goð+ og kynlífs- og þöggunarhneykslisins sem hefur skekið kirkjuna, þykir mér upplagt að blasta hér laginu Trúboði af 12" plötunni Bless (útg. 1988). Á svipuðum tíma var Ham með lagið Trúboðasleikjarinn. Ég held nú að það hafi bara verið tilviljun. Um upptökustjórn á plötunni sáu bræðurnir Sveinn og Sigurjón Kjartansson. Myndin var tekin í stúdíóinu (Sýrlandi). Gríðalega kúl ungir menn.

Trúboði
Ég er trúboði frá Salt Lake City
boða heimsendi stíft í Breiðholti
ef ég verð heppinn kemst ég inn
en samt oftast ekki yfir þröskuldinn
ég ferðast í strætó með töskuna
ferðaslædsvél og biblíuna
í rigningu á rykfrakkanum
að komast inn er allt sem ég bið um.

Ég fæ mér sæti í sófanum
létti á mér, fer kannski úr frakkanum
þú sýnist góð, volg undir peysunni
ég sýni þér slæds af upprisunni
gef þér guðsspjöllin fyrir náttborðið
gef þér glansmyndir fyrir smábarnið
ég tal'um ésú, guð og englana
en hef mestan áhuga á þér milli fótanna.

Valíumþyrstar í blokkunum
allt löngu löngu farið forgörðum
þær lafa slappar yfir stjörnunni
og póstmenn eru flestir af kvenkyni
ÉS-Ú-VAR-KANN-SKI-BEST-I-VIN-UR BAR-NANN-A
EN-ÉG-ER-LANG-BEST-I-VIN-UR HÚS-MÆÐR-ANN-A!

ps - SAKTMÓÐÍGUR tekur Trúboða á Facebook-síðunni sinni.

31.08.10
Ætli hrossaflugan sem drapst í baðkarinu áður sé ekki alveg jafn grunlaus um eðli alheimsins og ég? Afhverju er þetta allt og til hvers? Biblían segir að ekkert hafi verið en þá kom Guð og bjó til allskonar. Hver bjó þá til Guð? Svipaða speki býður Stórahvells-kenningin upp á. Fyrst var allt ógeðslega samanþjappað og svo víkkaði það út í hvelli og er enn að víkka... Já en, ö, til hvers? Afhverju var allt þarna samanþjappað í klessu og hvaðan kom það? Það veit enginn maður! Kannski bara ekki til neins. Allt er ekki til neins er rökréttasta niðurstaðan, en það er náttúrlega alltof lásí svo fólk finnur sér eitthvað annað. Best samt að gleyma því að hugsa um þetta og hugsa um eitthvað áþreifanlegra eins og... 

Björk massaði þetta á Pólar! Ég hafði reyndar aldrei heyrt um Pólar áður. Ég hafði heldur aldrei heyrt um Brits áður þegar Björk fékk þau verðlaun á síðustu öld. Fréttakona á Stöð 2 hringdi sama dag og vildi fá mig í settið til að tala um Björk og Brits en ég sagðist bara ekki geta það því ég hefði aldrei heyrt um þessi verðlaun áður. Hallærisleg svona álitsviðtöl líka. Já, þetta er mikill heiður fyrir Björk og bla bla bla. Sá eini sem kann svona er Guðbergur Bergsson sem var kallaður til þegar Laxness lést til að tjá sig um snilli hans og bla bla bla. Gubbi sagði að Jón úr Vör (eða hver það var) hefði nú haft miklu meiri áhrif á sig en Laxness og sjónvarpsfólkið sem var reddí í massíft lofrullurúnk varð fúlt og pirrað. Ha ha ha! En auðvitað er þetta æðislegt hjá Björk og alveg kassmonní - milljón sænskar, 16 millur - í vasann. Líka kúl að fá verðlaun á sama tíma og snillingurinn Ennio Morricone. Í veislunni tók hin sænska Robyn (væntanleg á Airwaves!) Hyberballad fyrir kónginn og Björk á fremsta bekk.
---
Ég veit ekki hvað mér á að finnast um það að Jóhannes í Bónus eigi ekki Bónus lengur. Ég hef ekki heyrt annað en að karlinn sé hinn kumpánlegasti við starfsfólk og almenning. Kannski er hann alltof harður við heildsala - hvað veit ég? - en var það þá ekki bara til hagsbóta fyrir almenning? Gamli maðurinn sást stundum í búðunum að raða í hillur. Leiðinlegt ef sú rútína dettur út hjá honum. Því finnst mér að hann mætti nú alveg fá að raða í hillur áfram, sé hann í þannig stuði. En hann fær náttúrlega 90 millur fyrir að hætta, 5.6 sinnum meira en Pólarpeningurinn hennar Bjarkar. Ég versla í Bónus eftir sem áður. Mér væri sama þótt Hitler Satansson ætti ódýrustu búðina. Ég myndi samt versla þar. Hef alveg nóg annað með mína peninga að gera en að nota þá til sýna sefasjúkan siðferðisstyrk.
---
Á FBók var ég að lista upp 15 bestu plöturnar sem hafa "fylgt mér í gegnum lífið". Svona er ágætis dútl. Hér er listinn:
Fræbbblarnir - Viltu nammi væna
Purrkur Pillnikk - Ekki enn
Wire - Pink Flag
XTC - Drums & Wires
Bítlarnir - Revolver
Bítlarnir - Sgt. Peppers
Bítlarnir - Hvíta albúmið
Elvis Costello - Armed Forces
The Birthday Party - Prayers on Fire
The Fall - Slates EP
Devo - Q: Are we not men, A: We are Devo
Black Box Recorder - England made me
Iggy & The Stooges - Raw Power
The Feelies - Crazy Rhythms
Love - Forever Changes

30.08.10

S.H.Draumur og pönk á Rás 2 1985
Sit hér sveittur við að hlusta á gamlar kassettur. Það er S.H.Draums-kombakk í loftinu. Eftir ýmsar pælingar ákvað ég að S.H.Draums katalóknum yrði flottast niðurkomið í 2ja diska CD pakka, GOÐ+. Á einum diski verður GOÐ í hámarksgæðum, á hinum verða hinar plöturnar + sirka 50 mínútur af óútgefnu aukaefni. Hnausþykkur bæklingur með, allt vaðandi í myndum og texta. Kimi gefur út! Svo er það spiliríið. S.H.Draumur og HAM á NASA 14. okt. Sérstakir GOÐ tónleikar svo skömmu síðar - sitjandi gigg. Í gramsi mínu rakst ég á stórmerkilega kassettu með upptökum úr útvarpinu 1985. Fyrst eru það ég og Steini í viðtali við Ása í Gramminu og Árna Daníel í "Bylgjur", sérstökum 10 ára afmælis pönkþætti 1985 - svo eru það Steini og Haukur í einhverju míní-viðtali við einhverja gauka á Rás 2 - og svo er klippt aftur í pönkþáttinn 1985 þar sem Valli í Fræbbblunum fer á kostum í umræðu um pönk og pólitík og allskonar kjaftæði sem þótti áriðandi fyrir 25 árum síðan. Reyndar var búið að klippa öll lögin burt á kassettunni. Almennilegt útvarp!

29.08.10
Helvíti er þetta þrívíddargimmikk í bíó orðið þreytt. Hvaða sturlun er þetta að neyða mann til að sitja með gleraugu heilu myndirnar til þess eins að fá blörrí myndgæði og hausverk? Hollywood er náttúrlega alveg að skíta á sig út af dánlódinu og þetta er mótleikurinn - ömurlegt! Og okrið maður... iss... 3d er þessi fínasta ástæða til að hækka miðaverð í botn. Ég rauk auðvitað út í fússi þegar mér var sagt að það kostaði 1400 á Aulann mig í Háskólabíói og skipti þá engu hvort miðinn væri fyrir 3ja ára eða 44 - 1400 kall á mann! Ég var auðvitað búinn að lofa krökkunum að fara í bíó og komst ekki upp með neitt múður. Snéri því sneyptur við og borgaði uppsett verð, 4200 kall fyrir okkur þrjú. Aulinn ég indeed! Hef sent Okursíðunni harðort bréf vegna málsins.
---

"Lífið er of stutt fyrir sellerí," sagði einhver kerling í einhverri kerlingamynd sem ég sá einu sinni. Ég horfi stundum á kerlingamyndir enda kerling inn við beinið. Sellerí-gos er því varla eftirsóknarvert fyrirbæri, en er þó til. Cel-Ray heitir það og er framleitt af Dr. Browns í NY. Skv. wiki hefur Cel-ray verið framleitt síðan 1869 (eldra en Kók!) og er vinsælt meðal gyðinga enda kosher. Var kallað "gyðinga kampavínið" þegar það var vinsælast, 1930 og eitthvað. Heiða þurfti að fara inn í strangtrúað gyðingahverfi í Brooklyn til að finna dósir af þessu. Það fylgdi sögunni að best væri að drekka þetta með steikarsamloku svo ég svarði því kalli og keypti þessa fínu samloku hjá Aski. Dóminn er auðvitað hægt að lesa á Gos, en þetta smakkast svona sirka eins og daufur cyder með sellerí-lykt. Ekkert æðislegt! Enda hefur allur kosher matur sem ég hef smakkað um dagana verið frekar vondur, bragðdaufur, blautur og óspennandi. Ég vona að þetta skiljist ekki sem rasismi.
---

Wire - What is this feeling called love (1976) / Wire - Feeling called love (1977) 
Fyrst voru það Bítlarnir, svo Ramones og Fræbbblarnir, svo "dýpra" efni. Ensku böndin Wire og The Pop Group voru meðal þeirra djúpu. Fyrstu þrjár plötur Wire eru náttúrlega háheilög snilld. Bandið hætti en byrjaði svo aftur og gaf út plötu 1987 og hefur síðan verið starfandi on/off. Ekkert af seinni tíma dótinu er eins spennandi og fyrstu 3 plöturnar. Langt í frá. Þetta ýtir undir kenningu mína um gamla karla og rokk. Ég uppgötvaði nýlega bútlegg plötuna Wire 1976 demo, sem sýnir bandið áður en það fann sig á plötunni Pink Flag 1977. Þarna 1976 voru þeir bara í fremur hálfvitalegum pönkfílingi (eitt lagið heitir Mary is a dyke) og undir miklum Stooges-áhrifum. Ég skil vel að þeir vilji ekki að fólk viti um þetta efni (það er hvergi minnst á þessa plötu á heimasíðu Wire, Pink Flag). Fyrir aðdáendur er þessi plata samt náttúrlega fyndin viðbót. Ekkert lag af henni er á Pink Flag, nema textinn í What is this feeling called love, sem gekk aftur á Pink Flag. Viljirðu almennilegt efni ferðu núna í að redda þér Wire-plötunum Pink Flag, Chairs Missing og 154.
---
Hljómsveitin The Pop Group var þó eiginlega of djúp fyrir mann - öskur döbbsýrufrídjass eitthvað. Ég reyndi mitt besta til að "ná" plötunni Y (1979), en allt kom fyrir ekki. Ég náði þó smáskífulaginu We are all Prostitutes og lét Stebba bróður m.a.s. kaupa t-bol með þessari speki í London. Nú eru víst karlarnir í The Pop Group komnir saman aftur og eru að spila á fullu. Og það sem meira er: Það á að koma ný plata út á árinu, sú fyrsta síðan 1980! Þetta er nú meira kombakkruglið á öllum. (Heimasíða Pop Group).

28.08.10
Ég er ekkert að grínast með það að Popppunktsþátturinn í kvöld er hrikalega spennandi. Annað hvort Hjaltalín eða Lights on the Highway fara í úrslitaleikinn... Alls ekki missa af þessum þætti!
---
Og þá er ekki nema ein vika í Geðveika grisjun 2010:

---
John Lennon verður sjötugur 9. okt og ég fæ ekki betur séð en Yoko Ono Plastic Ono Band ætli að spila í Viðey að því tilefni. Eða það verður allavega eitthvað megastuð. Sem vara borgarfulltrúi trúi ég ekki öðru en ég komist loksins út í eyjuna og geti fengið mér snittu með fræga fólkinu, en þurfi ekki að hírast eins og eitthvað nóboddí á bakkanum hinu megin eins og þegar var kveikt á þessu. Já! 
---
Sko, mér er þokkalega sama hvað annað fólk gerir við líf sitt eins lengi og það er ekki að bögga mig. Fólk má trúa því sem það vill um yfirnáttúrulegt eftirlíf og súperveru sem er með svaka plan fyrir okkur öll. Fólk (les: Karlar) má líka eyða tíma sínum í að horfa á aðra karla eltast við bolta og eiga sér uppáhaldslið og svona. Alveg er mér sama. Ég hef samt tekið eftir því hvernig fótboltaiðjótar tala og það er dáldið fyndið. Þeir segja alltaf "við" og "þið". Alveg er ég viss um að íslenskir Liverpool-aðdáendur segja oftar "við" um það þeir haldi með Liverpool en "við" um að þeir séu Íslendingar. Sem er kannski bara allt í lagi. Í þessum sketsi er einmitt fjallað um nákvæmlega þetta.
---
Lofthæna er eitt frægasta "skrýtna" mannanafnið á Íslandi. Skv. Íslendingabók hefur þó bara verið til ein Lofthæna á Íslandi, Lofthæna Guðmundsdóttir, sem lést 1912. Það getur vel verið að fleiri hafi verið til en þá hafa þær breytt nafninu sínu. Hins vegar hafa verið til fjórar Eggþórur, en þær eru allar látnar. Ein kona er þó á lífi sem heitir Eggþóra að millinafni. Er kannski kominn tími á eina litla Lofthænu Eggþóru Gunnarsdóttur? Það væri allavega kjörin leið ef maður vildi kalla einelti yfir stelpugreyið. 
---
Ekki það að ég sé á leiðinni að fjölga mér frekar. Ætli ég fari ekki einmitt núna og gúggli "ófrjósemisaðgerðir karla". Þetta er auðvitað ægileg tilhugsun. Að láta einhvern krukka í konfektinu á sér með skærin á lofti. Hvernig velur maður sér þvagfæraskurðlækni? Verður maður ekki að skoða myndir af þeim? Hitta þá og sjá hvort þeir séu skjálfhentir eða líti út fyrir að geta fengið æðisköst upp úr þurru. Eru til kvenkyns þvagfæraskurðlæknar? Vill maður frekar að kona geri þetta, snipp snipp? Þetta er hræðileg tilhugsun, en eftir stanslausan heilaþvott frá Lufsunni sé ég ekki fram á annan möguleika. Ó mig auman.
---

Vek athygli á ágætis DV-grein um Henry Darger. Þetta er einn frægasti "outsider" listamaðurinn (umfjöllun wiki um fyrirbærið) og gríðarlegt költætem, eins og lesa má um á wiki-síðunni um hann. Mikið flott stöff og spúkíkrípí.
---

Brian Wilson - Someone to watch over me
Brian Wilson Reimagines Gershwin heitir ný plata. Útkoman er eins og Pet Sounds og Porgy & Bess saman í hrærivél. Einn poppnillingur að "endurímynda" verk annars snillings. Miðað við gamlan karl er Brian ennþá að gera þokkalega hluti. Gamlir karlar eiga það til að gerast ansi leiðinlegir og gamlir karlar fara yfirleitt að notast við það sem ég kalla "gömlukarla sánd", eltast við nýjustu tækni og tól og fatta ekki hvað gerði þeirra fyrri verk spennandi. Áherslurnar breytast. Gömlum körlum finnst "vandað" vera eitthvað issjú. Einn gamlikarl var þó spikferskur fram á síðasta dag, John Peel útvarpsmaður, bólstruð sé minning hans. Popp og rokk er náttúrlega ungafólks dót. Ég hef reiknað út meðalaldur þeirra sem sömdu og spiluðu á plöturnar sem Rolling Stone tímaritið nefnir sem bestu plötur allra tíma og útkoman var 26 ára. Menn "toppa" sem sé 26 ára (og því er kannski ekkert furðulegt við þessa rokkdánartölu, 27 ára). Það þýðir ekkert að halda öðru fram. Eftir þrítugt er þetta bara hjakk. Síðan Brian Wilson endurgerði Smile 2004 hefur hann haldið ágætum dampi. That Lucky Old Sun var ágæt plata sem kom 2008 en nú er það sem sé þessi ágæta Gershwin plata.

27.08.10

Leynifélagið - Hraðfrystistöðin i Reykjavík
Inn um lúgu mína barst á vormánuðum dularfull sending, diskur og bréf. Þetta reyndist vera fyrsta plata Leynifélagsins, "1". Í bréfinu stóð m.a. að diskurinn væri aðeins gerður í 65 eintökum og tekinn upp á einum degi + einn dagur í lagfæringu. Þar að auki -"við "strákarnir" erum konir á sextugsaldur og höfum aldrei gert svona áður."
Þegar ég smellti disknum loksins undir geislann kom í ljós að þetta er hinn fínasti diskur þar sem íslenskar karlahannyrðir í músíkformi blómstra sem aldrei fyrr. Hér er skapað beint frá hjartanu, upp á grínið og án stæla og tilgerðar. Auðvitað erum við ekki að tala um einhverja sprenglærða FÍH-gauka með sex strengja bassa upp að höku og trommara með sjötíu og fimm simbala - eða einhverja spúkí náunga sem eru að reyna að vera gáfulegir og kúl. Nei, ef þessi plata væri kaffihús væri hún Kaffivagninn á Granda - kaffi, kleinur og ekkert kjaftæði. 
Sem betur fer er diskurinn spikfeitur: 51 mínúta, 13 lög. Það fylgir textabæklingur og mikið er lagt í útgáfuna, svona miðað við að það átti bara að gera 65 eintök. Mjög gott mál. Öll lög og textar eru eftir Jón Geirsson, sem syngur og sér um áslátt á plötunni. Hann er með þægilega rödd sem smellpassar við verkið. Textarnir eru skemmtilegir, en fara kannski seint í Skólaljóðin. Þeir fjalla um karllæg áhugamál eins og veiðar og veðrið. Stundum er rímið óvænt, t.d. í hinu frábæra lagi, "Hraðfrystistöðin í Reykjavík" - "Til vinnu mætti fólk í stígvélum, bjó til gjaldeyri úr fiskinum" - og - "vélasalir, snyrtiborð og kælar í móttöku, fylltust dag hvern af frísku fiskvinnslufólkinu." - Einhverra hluta vegna datt mér Jón Gnarr í hug þegar ég heyrði þetta lag, enda er hann búinn að vera með þetta lag á heilanum síðan ég sendi honum það. Önnur uppáhaldslög eru "Safnarinn", sem fjallar um vonlausa þrá sumra til að eignast alltaf meira og meira, og "Í bæ býr lítil snót," þar sem skemmtilegar bakraddir, aukahljóð og skemmtilegt rím eru í stóru aukahluverki.
Tónlistin er fínt alþýðurokk. Mér dettur í hug Logar frá Vestmannaeyjum eða hljómsveitin Sume frá Grænlandi - það er allavega eitthvað norðurslóðalegt við þetta. Hér er lamið taktfast og stælalaust á gítar, bassa og trommur, en oft kryddað snyrtilega með sólógítar og hljómborði. Fjölmargir komu að gerð disksins auk Jóns og standa allir sig vel og ríflega það. Frábært hjá ykkur, strákar!

26.08.10

Ég er dáldið búinn að vera að glápa. Tók Klovn seríuna komplett í beit. Ég missti af þessu upprunalega, var held ég alltaf að horfa á King of Queens á sama tíma. Ekki segja nokkrum einasta manni frá þessu. Klovn er hrikalega gott stöff. Yfirnáttúrulega fyndið á köflum. Þetta veistu. Það er samt til fólk sem getur bara alls ekki horft á þessa þætti. Því finnst Frank bara einum of mikill fábjáni. Steini Sleggja og Heiða geta til dæmis ekki horft á Klovn, sem er leiðinlegt fyrir þau. Frank Hvam er að koma í Háskólabíó til að vera á skemmtikvöldi með Frímanni Gunnars og ég er að sjálfssögðu búinn að panta mér miða. Gnarristinn verður þarna líka og fleira lið.
---
Klovn ku vera undir áhrifum af Curb Your Enthusiasm eins og sést auðvitað langar leiðir. Ég skellti mér beint í sjöttu seríu af Curb og er nú á sjöunda sísoni. Það er vissulega fínt stöff, stundum alveg frábært, en Klovn er samt betri. Það eru allir alltaf öskrandi í Curb sem Könum finnst örugglega fyndnara en Evrópubúum. Þess ber að geta að ég hef aldrei horft á Seinfeld.
---

Sá The Runaways um samnefnt kvennaband. Þær áttu hið dúndurgóða lag Cherry Bomb, en svo varð Joan Jett sóló og sló í gegn með I love rock n roll, sem var reyndar kóverlag og upphaflega flutt af ensk/bandaríska bandinu The Arrows. Þetta er fremur þunnyldisleg mynd, mér finnst hún aðallega hafa verið gerð til að sýna ungar stelpur í seventís rokkgöllum. Ekki mikil dýpt, en kannski var bara ekki meiri dýpt í þessu bandi. Sá sem setti bandið saman heitir Kim Fowley og er víðfrægur sprelligosi í rokksenunni í LA. Hann er alltaf á útopnu og allur hinn hástemmdasti. Litríkur karakter, eins og sagt er. Kim sást í hinni stórgóðu heimildarmynd The Mayor of Sunset Strip, sem fjallar um útvarpsmanninn Rodney Bingenheimer, sem er hálfgerður Stjáni stuð rokksins í LA, en samt frekar stórt númer. Rodney er ennþá með þætti á útvarpsstöðinni KROQ. Ég væri mikið til í að lesa ævisögu Kims Fowleys, en hún er ekki til svo ég viti. Ég fékk einu sinni bréf frá Kim. Hann er greinilega alltaf á tánum fyrir nýjum stjörnum svo hann skrifaði og bað mig að senda sér Snarl 2. Minnst hafði verið á safnkassettuna í Rolling Stone viðtali við Sykurmolanna og bárust Erðanúmúsík fjölmargar fyrirspurnir bréfleiðis í kjölfarið. Kim fékk auðvitað spólu en hafði aldrei samband aftur. Hann hefur ekki heyrt hitt potential í neinu af þessu. Veit ekki hvort ég á bréfið ennþá. 
---

Ég sá líka myndina Sex & Drugs & Rock n Roll, um breska (pöbba)rokkarann Ian Dury. Mér fannst nú myndin full tilgerðarleg á köflum, en svona la la. Ian veiktist af lömunarveiki í æsku og var á hæli. Miklu púðri er eytt í dramatísk flassbökk frá hælinu. Hann var með visinn fót upp frá þessu og haltraði um á staf. Það var ægilegt sukk á karli og vesældómur. Mikið er fjallað um leið hans á toppinn, en þangað náði hann með stuðlögunum Sex & Drugs & Rock & Roll (Dury fann upp þennan frasa) og Hit me with Your Rhythm Stick. Hann átti reyndar fleiri góð lög. Sonur hans, Baxter Dury, kemur nokkuð við sögu í þessari mynd. Hann barnið hékk með pabba sínum (feðgarnir eru saman á umslagi plötunnar New Boots and Panties) sem  hafði ekki beint góð áhrif á uppeldið. Ég veit ekki hvernig Baxter vann úr sínum málum, en hann gaf allavega út ágæta sólóplötu fyrir nokkrum árum. Ég er enginn sérstakur Dury-aðdáandi, sá hann á Hróarskeldu 97 eða eitthvað, og fannst hann þreyttur og leiðinlegur. Það er Gollum, Andy Serkis, sem leikur Dury, en næst verður hann Kolbeinn kafteinn. Ekkert smá fjölbreyttur leikaraferill það!
---

Reykjavík! - Cats
Hljómsveitin Reykjavík! hamast nú við að stefna að næstu plötu. Þeir fóru í Sundlaugina á dögunum og tóku upp 2 lög, en þetta mun vera í fyrsta skpti sem þeir taka upp utan Gróðurhússins. Næst taka þeir örugglega upp í Verksmiðjunni eða í Mötuneytinu. Cats er annað þessara laga og má greina áhrif frá Maus og Jesus Lizard með dassi af Barry Manilow.
---

Miri - Hamingjulagið
Ein af allra bestu íslensku plötum ársins er Okkar með Miri, sem Kimi gaf út fyrr á árinu. Þetta er mjög gott stöff og ilmandi vel pródúserað af Curver. Ósungið sem kemur ekki að sök. Hér er lag sem ber nafn með rentu. Strákarnir í bandinu ætla að skella á útgáfutónleikum og hér kemur fréttatilkynningin: Útgáfutónleikar Miri í Reykjavík munu fara fram í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu þann 27. ágúst en þetta verða aðrir útgáfutónleikar hljómsveitarinnar í tilefni útgáfu þeirrar á breiðskífunni Okkar sem Kimi Records gaf út í júní síðastliðnum. Þeir fyrri fóru fram á Seyðisfirði þar sem fólk á öllum aldri fyllti húsakynni Herðubreiðar. Ásamt Miri komu fram á þeim tónleikum hljómsveitirnar Broken Sound og Sudden Weather Change.
Í höfuðborginni verða tónleikarnir ekki síður veglegir en ásamt Miri munu stíga á stokk Bergur Ebbi Benediktsson, Snorri Helgason og Loji Höskuldsson. Munu þeir allir gefa tóninn hver á sinn hátt áður en Miri eignar sér sviðið en á þessum tónleikum mun upptökustjórinn sjálfur, Curver Thoroddsen, koma fram með hljómsveitinni ásamt fleiri gestaleikurum.
Eru þetta síðustu tónleikar Miri í bili en Ívar Pétur Kjartansson trommuleikari sveitarinnar mun halda til Danmerkur í upphafi september.
Það er einlæg von sveitarinnar að sem flestir muni sjá sér fært um að mæta og fagna með þeim þessum áfanga.
Miðaverði er stillt í hóf og verður einungis 1500. ísl. kr. Húsið opnar kl. 21:00.
Okkar hefur fengið góða dóma í fjölmiðlum, en sé smellt á meðfylgjandi tengla ættir þú, lesandi góður að geta lesið tvo slíka:
http://www.icelandreview.com/icelandreview/reviews/?cat_id=16568&ew_0_a_id=366454
http://www.facebook.com/photo.php?pid=4827827&fbid=432250727898&id=111626857898
Eins er við hæfi að benda á úrvalsvefinn Gogoyoko en á honum er hægt að hlusta á, sem og fjárfesta í breiðskífunni:
http://www.gogoyoko.com/#/album/Okkar
---

Swords of Chaos - Skeletons Having Sex on a Tin Roof
Beinagrindur að stunda samfarir á blikkþaki er ágætis lýsing á tónlist Óreiðusverðanna. Ekki samt jafn góð og "lúðrasveit að detta niður stiga," sem er lýsing sem var höfð um fríktónlist Luciu Pamelu. Sverðin hafa pumpað út fyrstu plötunni sinni sem er æpandi og ærandi hressileg. Fréttatilkynningin er svohljóðandi: Fyrsta breiðskífa Swords of Chaos er nú loks tilbúin til útgáfu og mun koma út 3. september næstkomandi. THE END IS AS NEAR AS YOUR TEETH  heitir breiðskífan og kemur hún út hjá Kimi Records. Platan verður hinsvegar fáanleg í forsölu hjá GOGOYOKO frá og með miðvikudeginum 25. ágúst. 
THE END IS AS NEAR AS YOUR TEETH inniheldur 11 lög eftir þá Albert Finnbogason (gítar), Ragnar Jón Hrólfsson (trommur), Úlf Alexander Einarsson (söngur) og Úlf Hansson (bassi). Hljómsveitin hefur unnið að plötunni undanfarin tvö ár og fyrst núna í sumar urðu allir aðilar ásáttir um að ekki yrði gert betur. Meðal þeirra sem leggja þeim lið á plötunni er tónlistarkonan Kira Kira og sex manna brasssveit.
Í síðastliðnum janúarmánuði komu fram ótímabærar fregnir af andláti sveitarinnar en þar virðist hafa verið um einhvers konar fjölmiðlabrellu að ræða, jafnvel til að fá fólk til að mæta á tónleika, tónleika sem margir töldu þeirra síðustu. Þrátt fyrir þessar fregnir þá hafa þeir komið fram á nokkrum tónleikum nú í sumar og munu halda nokkra tónleika til viðbótar á næstu mánuðum til að fylgja TEIANAYT.
Um upptökur sá Friðrik Helgason, Aron Arnarsson sá um hljóðblöndun og Helmut Elrer hljómjafnaði. Umslagshönnun var í höndum Söru Riel og Svavar Pétur Eysteinsson sá um uppsetningu. Sara Riel hannaði einnig bol sem er nú fáanlegur í Havarí. Hann er hálfgerð skyldueign fyrir aðdáendur sveitarinnar.
Nánari upplýsingar:
www.hordesofcrayons.com (hér má heyra endurhljóðblöndun Stilluppsteypu á streymi)

25.08.10
Mig heldur áfram að dreyma sjálfan mig og poppara. Í nótt dreymdi mig Barða í Bang Gang en ég man ekki alveg hvað við vorum að gera. Hann var allavega ekki með afró.
---
Eftir að hafa hlustað á ótal viðtöl við svokallaða málsaðila, nú síðast við Don Fredo, þá hef ég komist að eftirfarandi: Það er allt í frábærum fílingi innan ríkiskirkjunnar, það eru engin skuldavandamál hjá OR, það varð ekkert bankahrun á Íslandi. Ef svo ólíklega vill til að það séu einhver vandamál, eða að það sé einhvers staðar allt í steik, þá eru það allavega pottþétt engum að kenna.
---
Í ljósi frétta spyrja sig nú e.t.v. margir hvort drulludelar og skítapakk komist til himnaríkis til að móka þar í gufukenndu sælulífi að eilífu. Að sjálfssögðu gerir það það, eins lengi og það hefur svokallaða lifandi trú á Jesúm frelsara vorn. Þetta er frábært kerfi og betur útskýrt hér. Ég er mjög ósáttur við sjálfan mig að hafa ekki náð þeirri fullkomnun í lífnu að eignast lifandi trú á Jesúm og eiga þar af leiðandi engan séns á himnasælu sama hvað ég rembist við að vera sæmilegur gaur. Kannski maður ætti bara að byrja á geðveikum nautna- og saurlifnaði því maður fer hvort sem er beina leið til helvítis. 
---
Nú er túnfisksbátur bátur vikunnar hjá Subway. Þar sem þetta er uppáhalds-Subwayið mitt fæ ég mér svona eins oft og ég get. Fínt verð, 379 kr. báturinn - þ.e. hálft brauð. Það er bara tilboð á hálfum báti. Hann kostar 459 kr. vanalega svo þetta er alveg 80 kall sem maður "græðir". Ef ég keypti svona tvisvar á dag í þann mánuð sem tilboðið stendur yfir myndi ég græða 4800 kall. Ööö... það munar um minna.
---
Annars er besti díllinn í dag núðlusúpan (nauta eða kjúklinga) hjá Noodle Station, Skólavörðustíg, á 850 kall. Þetta er algjör snilld og fullnægjandi kvöldverður. Fékk mér nauta síðast og það er síst lakara en kjúklinga.
---

Orri Harðarson - Albúm
Enn heldur Orri áfram að hita upp fyrir plötuna sína sem kemur út í sept. Áður hefur Perfekt par heyrst en nú er það titillagið, Albúm. Textinn fjallar um þá tíma þegar að plötur voru plötur og rekur svo þróun sem fólk er misánægt með. Albúm heitir platan og er öll spiluð á einn gítar. Samt er óverdöbbað, bæði gítarlykkjur og bakraddir. Ég heyri ekki betur en að þetta sé mjög spennandi plata.
---

Lifun - Ein stök ást
Hljómsveitin Lifun er popparabarnaband. Björgvin er sonur Baldurs og afabarn Rúnars Júl og systurnar Lára og Margrét Rúnarsdætur eru dætur Rúnars Þórissonar sem er í Grafík. Hinir tveir eiga ekki popppabba, svo ég viti, en eru enga og síður í allskonar öðru dóti; Smári Klári m.a. í Klassart með Fríðu systur sinni og Helgi í Benny Crespo's Gang. Nú er fyrsta plata Lifunar, Fögur fyrirheit, á leiðinni. Umbúðirnar sjást hér að ofan og hér er lag af henni, gamall poppslagari með söngkonunni Mary Hopkin sem Baldur Guðmundsson græjaði íslenskan texta við. "Platan er komin í framleiðslu og mun mjög líklega verða plata ársins í flokknum old school popp sungið á íslensku," skrifar Björgvin. VIÐBÆTUR: Fékk upplýsingar um að þetta lag væri eftir Palla Maccartney og upprunalega sungið inn á smáskífu af Mary Hopkin 1969. Lagið heitir Goodbye. Wiki um lagið.

24.08.10

Ætli maður sé ekki alla nóttina að veltast um í sýrðu draumarugli og svo man maður ekkert af því nema það sem gerist nokkrum sekúndum áður en maður vaknar? Ég var í plötubúð og einhverra hluta vegna að leita að Megasi Klæddur og kominn á ról á LP. Megas sjálfur var að vinni í þessari búð, en varla þekkjanlegur því hann var með risastórt afró í gulri fleginni pimpskyrtu og allur hinn skæslegasti. Kannaðist hann ekkert við að eiga Klæddur og kominn á ról en bauð í staðinn glænýja plötu með Gylfa Ægissyni og unnustu hans, sem var tvöföld plata á vinýl sem keypti að sjálfssögðu. Umslagið var blátt.
---
Að gefnu tilefni: Svona áttu að skrá þig úr ríkiskirkjunni.
---
DV fjallar um Nauthóls-brönsferð mína og annarra frægðarmenna á sunnudaginn. Það var verið að prófa nýtt hlaðborð á fræga fólkinu: mér, Arnari Grant, Kjartani Gunnarssyni o.fl. – creme de la creme, sem sé. Kærar þakkir fyrir það! Hlaðborðið var hið fínasta, allskonar gúmmilaði, en varla marktækt að maður sé að tjá sitt eitthvað um það sem maður fær frítt. Og þó, allar plötur sem ég hef skrifað um um dagana hef ég fengið frítt og þegar ég hef skrifað um bíómyndir hef ég fengið frítt á þær. Að eta bröns með familíunni á sunnudegi er ágætis mál. Hjá Nauthól kostar þetta 3.300 kr. per mann og hálfvirði fyrir börn frá 5-10 ára. Ég tel ósennilegt að ég myndi tíma þessu. Ef ég væri snögglega svona fjáður myndi ég frekar fara á sunnudags-brönsið á Vox sem kostar minna, 2.950 kr, og er þar að auki jafn gott, ef ekki betra.
---

Baraflokkurinn - Catcher comin'
Það er allt að verða vitlaust í kombökkunum. Nú berast fréttir af því að Baraflokkurinn ætli að koma saman á ný. Það band komst nú aldrei alveg inn um lúgunni hjá manni í gamla daga, en er auðvitað hluti af bylgjunni og fínt band, hefur maður fattað seinna. Hér er fréttatilkynningin: Af tilefni opnunar menningarhússins Hofs á Akureyri mun hljómsveitin BARAFLOKKURINN halda uppá 30 ára afmæli sitt með stórtónleikum í sínum gamla heimabæ þann 3. september n.k.. í Hofi. Laugardaginn 4. september mun hljómsveitin síðan stíga á svið á Græna Hattinum á Akureyri þar sem BARAFLOKKURINN rifjar upp ferilinn sem stóð frá 1980 til 1985. Á þeim árum gaf hljómsveitin út þrjár plötur hjá hljómplötuútgáfunni Steinum. Þær voru Baraflokkurinn ( 1981) , Lizt (1982) Gas (1983) og Zahír (2000). BARAFLOKKURINN var ein af þeim hljómsveitum sem kom fram í Rokk í Reykjavík (1982). Hljómsveitin hélt fjölmarga tónleika víða um landið á þessum árum og kom iðulega fram þegar haldnir voru stórtónleikar í Laugardalshöll. Aðalvígi hljómsveitarinnar voru Hótel Borg og Safarí í Reykjavík. Hljómsveitin kom síðast saman árið 2000 af tilefni útgáfu plötunar Zahyr sem innihélt þeirra bestu lög. Hljómsveitina skipa eins og á níunda áratugnum og allar götur síðan: 
Ásgeir Jónsson - söngur 
Þór Freysson - gítar 
Baldvin H. Sigurðsson - bassi 
Jón Arnar Freysson - hljómborrð 
Sigfús Örn Óttarsson - trommur 
Bakraddir og aukahljóðfæraleikur - Ásgeir Sæmundsson og Björgvin Ploder. 
Þess má geta að myndin hér að ofan var tekin þegar Páll Óskar og Ágúst Bogason voru starfandi í bandinu (djók) og þess má einnig geta að Baraflokkurinn er ekki skrifaður Bara flokkurinn, og Nýdönsk er ekki skrifuð Ný dönsk (ekki djók). 

23.08.10

Martin Denny - Ah me Furi
Eins og allir vita er mikill hátíðardagur í dag - það er 100 ára afmæli íslensku hljómplötunnar. Sjálfur á ég ekki teljandi gamlar plötur í safninu mínu. Þegar ég fór á stúfana sýndist mér það elsta ekki vera nema 53 ára gamalt, frá 1957. Eina EP með Íslandsvininum Tony Crombie á ég frá þessu ári og tvær LPs með hawaii-stórsnillingnum Martin Denny, Exotica og Exotica II (reyndar er þetta allt án umslags). Ég á enga 78 snúninga plötu enda ekki með plötuspilara sem ræður við svoleiðis. Eitt lagið á Exotica, Ah me Furi, finnst mér eftirminnilegast, enda stal ég riffi úr því og notaði í lagið Heim á Hellissand með Unun. Elsta íslenska platan sem ég á er hinsvegar að 7" plata með Erlingi Ágústssyni, útgefin af hinni stórkostlegu Stjörnuhljómplötuútgáfu árið 1960. Nei, plötusafnið mitt er ekkert sérstaklega merkilegt.
---
En allavega: Það er dúndurdagskrá í Norræna húsinu í dag, eða svohljóðandi:

Haldið verður upp á 100 ára afmæli íslensku hljómplötunnar í Norræna húsinu mánudaginn 23. ágúst 2010 - Í DAG!!!. Fram kemur fjöldi listamanna ásamt því að flutt verða erindi úr sögu íslenskrar tónlistar. Kynnir á dagskránni verður Halldór Halldórsson (Dóri DNA).

Dagskrá:

Söguleg sýning á íslensku hljómplötunni verður í anddyri og stendur frá 23. – 27. ágúst.
...
Kl: 13:15 Skiptimarkaður í anddyri þar sem safnarar og aðrir unnendur tónlistar hittast og bera saman plötur sínar.

Kl: 14:00 Barnadagskrá - Gradualekór Langholtskirkju flytur syrpu af þekktum barnalögum frá 1965 – 1985.

Kl:14:50 Ómar Ragnarsson heiðraður fyrir textagerð.

Kl: 15:10 Einsöngur - Garðar Thor Cortes syngur Dalvísur og önnur lög af íslenskum hljómplötunum.

Kl: 15:40 Ólafur Þór Þorsteinsson flytur erindi um fyrstu íslensku hljómplötuna og sögu 78 snúninga plötunnar.

Kl: 16:10 Ragnar Bjarnason flytur nokkur lög sem komu út á fyrstu íslensku 45 snúninga plötunum.

Kl: 17:10 Jónatan Garðarsson fjallar um íslenskar smáskífur og rokktímann milli 1950–1960

Kl: 17:50 Fjórtán Fóstbræður syngja nokkrar lagasyrpur.

Kl: 18:10 Gunnar Svavarsson ræðir um hæggengar hljómplötur – LP og SG hljómplötur.

Kl: 19:00 Skiptimarkaður í anddyri þar sem safnarar og aðrir unnendur tónlistar hittast og bera saman plötur sínar.

Kl: 21:00 Hljómsveitin Þeyr á 30 ára starfsafmæli á árinu og í tilefni þess mun hluti hennar ásamt ungu tónlistarfólki koma fram á 100 ára afmæli hljómplötunnar. Þau sýna meðal annars kvikmynd um Þeysara í þrjátíu ár, flytja gjörning og fremja tónlist.
Hljómsveitin Þeyr kom fyrst fram í Norræna húsinu 18. Nóvember 1980.

Kl: 23:00 Lok.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

22.08.10
Allir fóru á bílastæðið hjá Kolaportinu til að sjá Pollapönk rokka spikfeitt á Tónaflóðinu. Elísabet og Dagbjartur störðu á dýrðina sem deliveraði sem aldrei fyrr í mögnuðu setti. Ég sé alveg fyrir mér að fara með þau á Hróarskeldu þegar þau eru orðin aðeins eldri. Pabbi kúl eitthvað að ausa úr viskubrunni sínum. Á leiðinni heim í strætó vildi Dagbjartur endilega hafa buffið fyrir andlitinu svo mér leið eins og Michael Jackson. Helvíti fínt annars að hafa bara frítt í strætó. Ef ég væri nú boss da bus eins og ég var í 2 daga, myndi ég a.m.k. skoða það að hafa þetta bara frítt. Það er helsta hindrunin fyrir því að maður er ekki oftar í strætó, þetta vesen endalaust með að finna klink.
---

Planet Claire með The B52's var spilað í spað á Safarí í gamla daga (ekki Rock Lobster, eins og ég skrifaði óvart í Grapevine-grein nýverið). The B52's var frábært band og hefur haft mikil áhrif hér (sjáið bandið í gleðisvitafrenzíi hér). Ekki síst var B52's fílingur á mótunartíma Sykurmolanna, sem tóku áhrif frá léttleika bandsins og gamansemi, svo ég tali nú ekki um Risaeðluna. The B52's báru með sér fíling sem ég kýs að kalla eitís-fiftís, þau notuðu fiftíslúkk og fíling í eitísinu. Nú bíð ég bara eftir bylgjunni tugtíns-eitís-fiftís. Þennan eitís-fiftís fíling má finna víða, t.d. í barnasjónvarpsþáttum Pee Wee Hermans og myndum Jonathans Demme, eins og Something Wild og Married to the Mob, og dótinu hans Johns Waters. Mjög góður fílingur! Ég er að þusa um þetta af því ég var eitthvað að tékka á því hvað þau eru að gera núna  (síðast var bandið á ferð með hinni ekki svo fínu plötu Funplex árið 2008). Kemur þá í ljós að önnur söngkonan Kate Pierson rekur nú hótelið Kate's Lazy Meadows í Catskills í NY og er búin að fylla öll herbergin af flóamarksdóti sem hún hefur safnað á tónleikaferðalögum. Við þangað.
---

Stórsöngvarinn og stórmeistarinn Jón Kr. Ólafsson er sjötugur í dag og fær allar mögulegar hamingjuóskir að því tilefni. Jón rekur sem kunnugt er hið frábæra og ómetanlega merkilega safn Melódíur minninganna á Bíldudal og það er hreinlega sturlun ef þú ert ekki búinn að fara þangað. Melódíur minninganna heitir einnig ævisaga Jóns sem Vestfirska forlagið gaf út 2008. Skyldueign á hverju heimili, eins og maður segir. Afmælistónleikar til heiður meistaranum fara fram í september. Nánar auglýst síðar.


Facon - Vísitölufjölskyldan
Og í tilefni dagsins: Hið frábærasta kóverlag Íslandssögunnar, Facon frá Bildudal að spila Pink Floyd-lagið The Gnome á íslensku. Þetta kom út á sömu 4-laga 7" plötunni 1969 og Ég er frjáls er á og það mun hafa verið hugmynd Péturs Bjarnasonar bassaleikara (lengst til hægri) að taka þetta á íslensku. Hann samdi íslenska textann og hann er einnig höfundur lags og texta Ég er frjáls. Gaman er að tveggja ára gömul sýrupæling Syds Barretts hafi rekið eins og músíkalskt flöskuskeyti til Bíldudals - og þá fengið á sig þennan vestfirska blæ - en lagið var upphaflega á fyrstu LP-plötu Pink Floyd, The Piper at the Gates of Dawn, sem eins og allir vita er eina góða platan með Pink Floyd. Hlusta á lagið með Pink Floyd hér

20.08.10

Einu sinni var kósí gufubað á Laugarvatni. Þetta var eldgamalt fyrirbæri og mjög næs. Ég fór þarna stundum, enda Heiða og Elvar oft að vinna þarna. En þetta þótti ekki nógu fínt svo nokkrir sveittir karlar tóku sig til og vildu smella upp einu Bláa lóni 2 og væntanlega selja ofan í á 4.500 kall eins og í hinni túristagildrunni  (já, 4.500 kall!) Hófst nú æsilegt samspil spillingar og óráðssíu, að sjálfssögðu með aðkomu Sjálfsstæðisflokksins og Framsóknar. Góðæris-Ísland var í essinu sínu og allir of uppteknir við að hafa það gott í 2007-inu til að spá í þessu. Sjálf Húsafriðunarnefnd veitti m.a. 9 millum til að gamla draslið yrði rifið. Það hlýtur að vera fyndnasta spillingardæmi Íslandssögunnar. Harpa Hreinsdóttir fer nokkuð náið ofan í þessa blöðrulegu ömurðarsögu. Hér var "2007-hugsunarhátturinn" á útopnu (sorrí að ég hljómi eins og Steingrímur Joð): Burt með gamla draslið - inn með nýtt og æðisgengið - græða græða! Skipta sjæní jakkafatauppa inn á fyrir gamlan grasahippa. Í dag er auðvitað ekkert þarna á bakkanum nema niðurnídd skemmdarverk, eins og Siggi Hrellir kallar það á sínu bloggi. Kannski opnar þetta Bláa lón 2 á Laugarvatni einhvern daginn, hver veit – en það getur hoppað upp í rassgatið á sér mín vegna.
---

Útlendingar voru hér að rogast með 37 kíló af khat, sem mun vera nokkurs konar diet dóp í formi laufblaða. Aldrei hafði ég nú heyrt um khat áður, en þetta virðist vera ágætis dóp - a.m.k. miðað við umræðuna hér. Ég held þetta sé ekki bannað á Íslandi (ennþá) svo laufblaðamenn ættu að sleppa. Svona svipað og þegar þau Trúbrot voru tekin með "maríhjúana" en lítið var hægt að gera enda ekki búið að banna draslið. Eða allar húsmæðurnar í gamla daga sem voru ryksugandi á nóttunni af því þær voru á "grenningarpillum" (amfetamíni). Ég segi með þetta khat eins og gras - það væri gott að geta keypt þetta í Tóbaksbúðinni Björk til að koma sér í örlítið annarlegra ástand á Gamlárskvöld - en ef þjóðfélagið vill endilega að ég noti áfengi og tóbak til að koma mér í annarlegra ástand þá verður það bara að vera þannig. 
---

Bjartmar & Bergrisarnir - Konan á allt
Platan með Bjartmari og Bergrisunum er komin út og er ofur massífur rokkhlunkur með skemmtilegum textum. Mjög "Bjartmarísk" plata (hvað annað?) og auðvitað fáránlegt annað en að þú eignist kvikindið. Hér er snarfínn rokkari - "Ef Sérlegur skildi nú droppa við hjá mér... konan á allt, konan á allt" - og svo er hér lagið Sagan frá því fyrr á árinu og Feikmeik, sem er ekki á plötunni. Bjartmars-veisla, sem sé - þeir hljóta að fara að spila eitthvað svo það er um að gera að vakta Facebook-síðuna þeirra.

19.08.10

Rólórónar gerðu gott gigg á Lynghagaróló. Næsta skref er tvímælalaust Nú er ég klæddur og kominn á róló-túrinn um róluvelli bæjarins. Pæling. Fólk verður að bjarga sér.
---
S.H.Draumur og Ham verða að að spila öllum líkindum að spila á sama kvöldinu á Airwaves, 14. október á NASA - Ham að spila nýtt efni í bland við gamalt og S.H.Draumur að spila prógrammið frá Duus húsi 17.12.1987! (eða eitthvað í líkindum við það.) Ertu búinn að pissa á þig eða ertu búinn að pissa á þig? Ég er allavega búinn að pissa á mig.
---
Annars eru haugarnir af súperspennandi böndum komnir á lager festivalsins í ár, en svo er alltaf verið að bæta við. Þetta er nýjasta viðbótin: From France Chateau Marmont, Gablé and Mondkopf.. From the UK James Blake, Rolo Tomassi, Ramadanman, Teeth, Wild Geese, Yunioshi and Walls.. From the USA Neon Indian, Yuni in Taxco, Dominique Young Unique and Angel Deradoorian and from their cousins in Canada Timber Timbre and Diamond Rings. For the first time ever we have acts from Greece - Film and from Greenland - Nive Nilsen. From our Nordic cousins in the Faroe Islands Marius, from Norway Moddi, from Finland Vuk and from Denmark My Buba & Mi. 
Ég kannast nú ekki stórkostlega við þetta stöff, nema Timber Timbre, sem ég fór hamförum yfir hér á blogginu um daginn eftir að ég heyrði lag með þeim í sjónvarpsþættinum Breaking Bad. Þetta er alveg ógeðslega gott band og platan Timber Timbre sem kom út í fyrra er algjört smurálegg. Súpergott stöff og rólega kúl. Magic Arrow heitir lagið sem ég setti inn, og þú gerðir margt verra í dag en að redda þér plötunni. Þetta band má bara ekki spila á sama tíma og ég er að juðast á ellismellunum á Nasa.
---
Varúð: Blogglegt blogg: Ég ætlaði að skrifa eitthvað hérna um hina "Neikvæðu umræðu Bloggheima", þar sem ekkert gerist nema endalaust og gelt stagl um sömu hlutina aftur og aftur, en ég bara nenni því. Og svo myndi slíkt stagl um stagl ekki samræmast lífsskoðunum mínum eins og þær birtast í Geðorðum Lýðheilsustöðvar. Eftir 6. okt 2008 hefur bara hin mikla losun ekki átt sér stað og það er líklega ástæðan fyrir því að spólið í drullupollinum stendur enn yfir. Landhreinsun er enn eftir - manni finnst ekki eins og "eitthvað hafi gerst". Það var smá í áttina þetta með Skýrsluna, en svo gerðist bara ekkert meira - hinir seku ganga enn lausir og maður spyr sig: Nú, voru þá engir "hinir seku"? Kannski verður aldrei neitt þannig, bara spól og stagl þagnað til einhver klikkhausinn snappar og grípur til sinna ráða, eða þetta rennur hljóðlega út í sandinn svona um leið og næsta hagsveifla skellur á (þegar Sjálfsstæðis- og Framsóknarflokkurinn taka við því það "getur varla verið verra en þetta drasl sem er núna," eins og kjósendur munu segja). Já fokk þessum leiðindum öllum. Þú mátt spóla ef þú vilt. Ég nenni því ekki - það er ekki "hollt fyrir sálina".

18.08.10

Gigg í dag kl. 18:00 - stórdúettinn RÓLÓRÓNAR treður upp - Ég og Magga Stína erum RÓLÓRÓNAR og verður tekið barnalegt prógramm. Giggið fer fram á Lynghagaróló á milli Tómasarhaga og Lynghaga á árlegri íbúahátíð Gríms - vináttufélagi Lynghagaleikvallarins. Grill, ís, kökur og popp og ávörp: Borgarstjórinn fyrstur, síðan nýmunstraður Hverfisráðsformaður, Gísli Marteinn Baldursson, og síðan rekur formaður Gríms lestina (og helstu þroskamerki síðustu 12 mánaða). Allir velkomnir!
---
Ósýnilega Fitulöggan lét til sín taka í gær í Krónunni. Ég get svo svarið það að ég var búinn að setja baguette í kerruna, en þegar ég fór inn gosganginn til að ná mér í Orku og kom til baka, var búið að fjarlægja baguettið og setja ferskjukassa og vínber í staðinn. Ég er ekki alveg að skilja þetta. Ég tók þó mark á þessu óvænti inngripi, keypti ávextina en sleppti baguettinu.

11.08.10

Í stað Spaugstofunnar, mætti ekki sýna grínefni með Jóni Bjarnasyni? Fréttafólk eltir hann með Benny Hill músík undir (Jón á flótta, ekki ósvipað og Bítlarnir í A Hard Days Night). Svo má krydda með stórgóðum viðtölum þar sem Jón snýr út úr og svarar einhverju allt öðru en spurt var um. Vikuskammturinn með Jóni Bjarnasyni, eða eitthvað svoleiðis, gæti þátturinn heitið - JB Show, jafnvel. Ef hann er ekki til í þetta mætti auðveldlega ná honum helvíti vel með Muppet show brúðu. Hann minnir mig alltaf á svoleiðis brúðu, ekki síst þegar hann er að jórtra á einhverju. Klárlega skemmtilegasti ráðherrann!
---
Svo ég haldi áfram að tala um sjónvarpsfréttir í gær þá er Magnús Hlynur hvílíkt að gera góða hluti. Elsta hæna á Íslandi var frábær frétt og ekki vissi ég að það væri flugvöllur á Selfossi, hvað þá að það væri bögg af ruslahaug við hliðina.
---
Eftir því sem ég kemst næst er fyrsti áratugur þessarar aldar ekki liðinn. Það byrjar nefnilega ekkert á núll – 2001 - 2010 er áratugurinn. Næsti áratugur byrjar svo ekki fyrr en 1. jan 2011 og þá verður Núllísið búið. Þetta stoppaði þó ekki menn af í fyrra að koma með allskonar best af áratuginn-lista. Einn slíkur er The Best films of the 00's, á AV Club. Það er slatti af dóti þarna sem maður hefur ekki séð og því kannski tilefni til, en líka slatti af slöppu dóti sem maður skilur ekki hvað er að gera þarna -  A.I.: Artificial Intelligence? Moulin Rouge!? Svo eru það myndirnar sem vantar, t.d. Borat, About Schmidt, Sideways, Walk the Line, Whatever works, Das leben der anderen, American Splendor og Ghost World. Rugl!
---

Rökkurró - Sjónarspil
Hin mjög svo ágæta plata Í annan heim með Rökkurró kemur út á morgun. 12 tónar gefur út. Þetta er önnur platan þeirra og mun háþróaðari en sú fyrsta. Innihaldið er "krúttað" og alveg yfir í Mammútlega rokkhörku á köflum. Bandið spilar í 12 tónum á föstudaginn kl. 17:30. Hér er fréttatilkynningin: Hljómsveitin Rökkurró gefur út sína aðra breiðskífu, 'Í annan heim', þann 12. ágúst n.k. Frá og með mánudeginum verður hægt að hlusta á plötuna í heild sinni sem og kaupa hana í sérstakri forsölu á www.gogoyoko.com. Jafnframt verður þar hægt að nálgast aukalag sem er ekki á plötunni sjálfri en í því heyrist kunnugleg rödd úr íslensku tónlistarlífi. Hljómsveitin hefur nú þegar fengið lofsamlega umfjöllun í miðlum hvarvetna og var til að mynda í sérstökum brennidepli á heimasíðu Útón. Einnig eru lög af plötunni farin að heyrast á öldum ljósvakans.
Sérstakir tónleikar verða í 12 Tónum, sem jafnframt eru útgefendur plötunnar á Íslandi, föstudaginn 13. ágúst. Þar verður hægt að heyra forsmekkinn af plötunni en einungis lög af henni verða spiluð. Tónleikarnir hefjast kl. 17:30. Rökkurró skelltu sér í myndatöku á dögunum hjá Marsý Hild Þórsdóttur sem er að læra tískuljósmyndun í London og fær ein myndin að fylgja hér með. Rökkurró á Facebook

10.08.10

Borgarstjóri spyr á FB-síðu sinni: Hér er smá vandamál sem ég veit ekki alveg hvernig ég á að tækla: Á Orkuveitan að vera með þriggja milljón króna flugeldasýningu á Menningarnótt eins og venjulega? Er það bruðl? Er skrum að sleppa því? Er þetta smámál eða stórmál?
Svörin láta ekki standa á sér, 425 höfðu svarað í morgun, sem er mesti fjöldi sem ég hef séð kommenta á FB. Svo þetta er greinilega stórmál. Allar hugsanlegar skoðanir koma fram, og þetta er snúið mál. Flugeldasýningar eru flottar og það er löng hefð fyrir þeim á Menningarnótt. Fátt sýnir hinsvegar betur flöktandi eðli peninganna, þeir hreinlega fuðra upp á örskotsstundu - voða gaman, svo allt búið. Fyrir 3 milljónir mætti gera ýmislegt annað sem varir lengur, en þessar, hvað, 10 mínútur sem sýningin stendur. Það mætti eyrnamerkja peningana í eitthvað annað, "þarfara". Ef það yrði gert fengjust tvenns konar viðbrögð, jákvæð og neikvæð í garð þess að sleppa þessu. Báðir kostirnir eru eiginlega jafn góðir/vondir og hvað hefði Salamón gert í því? Haldið flugeldasýningu fyrir 1.5 millu? Kannski á bara að bera fyrir sig hefðir og skella þessu í gang fyrir 3 millur. Þetta er jú algjört smámál miðað við flest, t.d. byggingu tónlistarhússins Hörpu, sem kostar eflaust 30 milljarða á endanum, eða tíu þúsund svona flugeldasýningar (hafi ég reiknað rétt, sem er alls ekki víst!). Ef Harpa hefði aldrei verið byggð og öllu eytt í flugelda í staðinn hefði sú sýning staðið yfir í 70 daga samfellt. Væri það ekki sniðugt? Myndi virka sem svaka landkynning: Komið til Íslands og sjáið flugeldasýninguna sem aldrei endar.
---
Talandi um flugeldasýningar... manstu eftir sjóinu á gamlárskvöld 07/08? Þá var sko enginn að velta einhverjum tittlingaskít fyrir sér eins og hvað svona kostaði. Ég er viss um að margir hafa slefað hátt í 3 millur með sínu einka tertufargani úti í garði.
---
Nei sko, fyrsta árlega viðtalið við Svein Rúnar Hauksson berjasérfræðing er komið. Ég hélt það myndi ekkert viðtal koma við hann í ár, en svona er maður vitlaus. Ég ætla að berja mig stíft á næstu vikum, enda kræki-, blá- og aðalblá-ber algjör snilld.
---
Það er annars helst að frétta að ég fór til útlanda í gær, þ.e. til Vindakórs, sem er annað hvort í Kópavogi eða Rvk, ég er ekki viss. Ég á bara kortabók frá 2005 og þar er þetta hverfi sýnt sem götulaust grænlendi. Vitanlega var því algjör martröð að finna þetta. Ég var rammvilltur mínútum saman. Fór marga hringi á hringtorgum því önnur hver gata sem maður gat beygt út á var ómalbikuð og svo bara endalaust Hvörf og Heimsendir og Kór - ef þetta var þá merkt á annað borð. Ég var orðinn brjálaður í skapinu og hefði tekið vegakast (e. Road rage) við minnsta tækifæri. Minnismiði til mín sjálfs: Kaupa nýja kortabók!

09.08.10

"Didn’t see that one coming". Þessi gullfallega mynd af Jónsa og Kalla (nýr dúett?) er af Flick my Life síðunni (hér), sem hefur verið til í einhver ár. Ekki gleyma að lesa "tags". Ég var nú bara að rekast á síðuna nýlega, hún er ferlega góð. Allskonar fyndinn bjánagangur í gangi - og það besta er að allur bjánagangurinn er íslenskur. Loksins eitthvað gott á íslenska internetinu!
---

Við feðgarnir fórum á Karate Kid. Ég hef ekki séð Dagbjart svona spenntan í bíó síðan feita rottan sturtaði fínu rottunni niður um klósettið í Flushed Away. Svaka mynd, sem sé, og þrjár auglýsingar frá bardagalistaskólum og búningabúð í hléinu - Tækvondó, Þórshamar og Bushido - nú á aldeilis að fá krakkana á námskeið. Þótt myndin heiti Karate Kid var aldrei talað um Karate heldur bara Kung Fu. Karate mun vera japanska bardagadæmið á meðan Kung Fu er það kínverska. Myndin gerist í Kína (gaman að sjá nútíma Peking í mynd) svo það hefur bara verið vegna væntanlegs gúddvills frá gömlu myndinni að þessi heitir ekki bara Kung Fu Kid, sem er mun meira töff nafn. Þá hefði Carl Douglas vonandi fengið smá aur.
---

New York er nafli alheimsins og borg borganna. Þangað er alltaf æðisgengið að koma. Því gladdist ég mjög yfir fréttum yfir að Delta ætlaði að fljúga þangað næsta sumar. Því fleiri ferðir, því hagstæðara verð - hefði maður haldið. Fréttinni fylgdi þó að ferðirnar kostuðu 190-260.000 svo Delta geta nú bara átt sig ef þeir ætla ekki í íslensku flugfélögin sem bæði bjóða ferðir í kringum 60.000 kall. Ég trúi nú varla öðru en Delta taki sig saman í andlitinu í þessu máli.
---

Frábært viðtal átti Helgi Seljan við Reyni Pétur. Mikill spekingur hann Reynir. Sú hugmynd kom upp að Reynir myndi ganga annan hring og auðvitað væri það gjörsamlega upplagt. Alveg er ég viss um að milljónirnar myndu sópast inn. Málefnin er fjölmörg sem hægt væri að styrkja, dettur nú strax í hug sumarbúðirnar í Reykjadal sem eiga að vera lokaðar í vetur til að spara 15 millur. VG og Samfó eru hvílíkt að standa sig með þessari Norrænu velferðarstjórn sinni. 
---
Nei, hvað sé ég: Það þarf ekki Reyni til. Starfsmennirnir eru byrjaðir að ganga til styrktar málefninu - Hér er Facebook síðan þeirra - þetta er alvöru málefni sem skiptir máli, enda fáránlegt að níðast á fötluðum krökkum þótt það sé smá kreppa.
---

Þetta kalla ég sko nýsköpun.
---

Fréttir hafa verið sagðar af því að hljómsveitin Þeyr ætli að gera einhverskonar kombakk í Norræna húsinu 23. ágúst n. k. á 100 ára afmæli íslensku hljómplötunnar. Mismikið hefur heyrst af gömlum Þeysurum á tónlistarsviðinu eftir að bandið hætti, kannski minnst frá Magnúsi söngvara. Hér er þó nýlegt lag sem hann syngur, gríðarleg útrásarvíkingaflenging með namedropping og alles, sem heitir Drápa. Þetta er ekki Þeysaralegt fyrir fimm aura, enda upphaflega kántríslagarinn The Night The Lights Went Out In Georgia eftir Bobby Russell. Þeysarakántrí, hmmm...

08.08.10

Topp 7 vagnar á Gay-pride:
7 Leðurhommarnir
6. Haffi Ga Ga Haff
5. Takk Ísland
4. Gnarrína
3. Jólagay
2. Gullfallegar og ögrandi FM-essur á stöng
1. Páll Óskar, sem toppaði sig enn og aftur með vökvalyftukjól. Allt fyrir ástina!
---
Úr pissublautum sandkassanum er það helst að frétta að því er haldið fram að Ólafur "Snillingur" fái 400 - 900.000 á mánuði fyrir að níða skóinn af Davíð Oddssyni á þessu bloggi. Ef þetta er satt þykir mér þar helvíti illa farið með fé. Ég er hér að ofan búinn að bjóða til sölu auglýsingapláss sem bara einn hefur sýnt áhuga á, en svo dró hann allt til baka. Ég er örugglega ekkert svo mikið minna lesinn en Ólafur - og jafnvel meira lesinn - og set því fram ofurtilboð: Fyrir 150.000 kall á mánuði skal ég níða skóinn af hverjum sem er daglega á útsmoginn og ógeðslegan hátt. Það getur verið Davíð, Jón Ásgeir... hver sem er, jafnvel Siggi Stormur ef einhver er svo illa innrættur að vilja borga fyrir að sjá hann dissaðann.
---

Það borgar sig að koma skikki á álit sitt á plötuútgáfum ársins innra með sér - taka svona stöðuna í hálfleik. Bestu erlendu plöturnar til þessa eru án efa:
1. MGMT - Congratulations
2. Sleigh Bells - Treats
3. Surfer Blood - Astro coast

Svo koma haugar af eðal efni eins og:
Gorillaz - Plastic Beach
Devo - Something for everybody
The Chemical Brothers - Further
Robyn - Body talk vol. 1
Waaves - King of the Beach
Woods - At Echo Lake
The New Pornographers - Together
The Black Keys - Brothers
Ariel Pink's Haunted Graffiti - Before Today
Vampire Weekend - Contra

Á Ísalandi lítur þetta hins vegar svona út:
1. Jónsi - Go
2. Ýmsir - Hitaveitan
3. Meira pollapönk

Svo koma aldeilis haugarnir af eðalefni eins og:
Miri - Okkar
Hvanndalsbræður - Hvanndalsbræður
Nóra - Er einhver að hlusta?
Seabear - We built a fire
Stafrænn Hákon - Sanitas
Moses Hightower - Búum til börn
Rökkurró - Í annan heim
Jóhann Kristinsson - Tropical Sunday
Buxnaskjónar - Nýtt Ísland

Maður er nú örugglega að gleyma einhverju og svo kemur vonandi fullt af nýju spennandi dóti út...
---

Nick Cave & Debbie Harry - Free Walk
Út er komin hljómplatan We are only riders, sem er tribute-plata fyrir söngvarann Jeffrey Lee Pierce. Sá náungi var söngvari The Gun Club, bands sem hljómaði eins og millistig á milli The Bad Seeds og The Cramps. Besta plata Gun Club er án efa sú fyrsta, Fire of love, en bútleggurinn Sex beat 81 er einnig ansi öflugur. Jeffrey lést 1996 úr heilablóðfalli. Hann hafði lifað óheilbrigðu lífi og varð ekki nema 37 ára. Á plötunni eru tekin kóver af lögum hans og lög sem hann náði ekki að klára áður en hann lést, eru kláruð. Allskonar dúndur lið er þarna, Nick Cave, Debbie Harry (Jeffrey var með Blondie aðdáendaklúbb áður en hann byrjaði með The Gun Club), The Ravonettes og Lydia gamla Lunch. Hér er súperdúett Nicks og Debbie, sem ég veit ekki til að hafi sungið saman áður. Næsari. Þýska útgáfan Glitterhouse gefur út.
---
Í Popppunkti í gær var leikið kóver Birgis Gunnlaugssonar á A world without love, sem Paul McCartney samdi fyrir mág sinn Peter og Gordon. Birgir kallar íslensku útgáfuna Lokkar og hey (hægt að heyra lagið í seríunni "Bítlarnir á íslensku", 11.06.10 hér). Jens Guð sendi mér skeiti varðandi þetta lag á FB: Birgir gaf lagið út í óþökk Pauls McCartneys. Einhver sem gætir höfundarréttar lagsins hafnaði því að lagið væri gefið út í þessum flutningi Birgis. Þótti þetta vera misþyrming á góðu lagi. STEF kom því á framfæri við Birgi. Birgir svaraði STEF með ósk um að Paul hefði samband við sig. Paul hringdi aldrei í hann svo hann gaf lagið út. Það urðu aldrei neinir eftirmálar.

07.08.10
Búinn að panta bás í Kolaportinu. Það verður "Geðveik grisjun" 4. sept!
---
Ég var að heyra frá ungum Framsóknarmanni að ef við göngum í ESB á að reka okkur öll úr landi, hola okkur niður víðsvegar í blokkum í Evrópu og selflytja alla Sígauna Evrópu hingað í staðinn. Operation Romani Lebensraum, kalla þeir það þarna í Brussel. Síðan á að loka landinu og henda lyklinum.
---
Umræðan í þjóðfélaginu er á mjög háu plani og þá sérstaklega víðsvegar á netinu. Komment vikunnar eru í framhaldi af Eyjufrétt um stórgott drag Jóns Gnarrs:

"Dögg" er greinilega rosa vel inn í málefninu og heldur að einhverjar tilfinningar tengist dragi aðrar en þær að hafa gaman. Drag er ekki það sama og að hafa kenndir til klæðskiptinga - voru Monty Python, t.d. í þessum sketsi, að hæðast að tilfinningum klæðskiptinga - og/eða tilfinningum eldri kvenna? Þetta með "þroskahefta fólkið" er samt ansi fyndið í bjánagangi sínum hjá "Dögg". Ég er að sjá Ólaf Ragnar fyrir mér í þessum sporum. "Hrólfur" er svo forpokaður í þessu "Er ekki nóg komið af þessu homma og lesbíudekri" kommenti sínu að þetta hlýtur að vera grín a la Smásál Tvíhöfða. Ef hann er for real má benda á að einmitt þetta "homma og lesbíumdekur" er eitt af því - að því virðist - fáa, sem sýnir að Íslendingar geta nú verið frábær þjóð ef hún leggur sig fram. Áfram allskonar!
---

Jóhann Kristinsson - Tropical Sunday
Ungur lófæ trúbador frá Kópavogi sem nýlega gaf út aðra plötuna sína, hina 7-laga Tropical Sunday. Hér er titillagið með laufléttu hawaii-þeli, sem ég get ekki annað en verið hæst ánægður með. Þetta er flott plata sem mætti að ósekju heyrast meira, kannski er Jóhann ekki öflugur sjálfs-plöggari. Framabrautarlega er "Jóhann Kristinsson" líka ekki mjög sterkt. Ég bendi á ÍHNB. "Jóhann Kristinsson" kallar auðvitað fram hugrenningatengsl við hinn æðislega Jóhann R. Kristjánsson og þar sem það er aldrei of mikið af honum kemur hann nú aftur ef einhver missti af honum hér á blogginu 14.08.05:


Jóhann R. Kristjánsson - Tilfinningar
Meistari sem minnir mig á snillinginn Wreckless Eric. Ég skrifaði smá um hann í Eru ekki allir í stuði: Ekki er hægt að fara frá Austfjörðum án þess að minnast á Jóhann R. Kristjánsson. Hann hafði fundið út að hann gat samið lög og eftir hvatningu frá strákunum í Eglu gaf hann sjálfur út 4-laga 12" plötu um vorið 1982. Platan hét þeim óheppilega titli Er eitthvað að? og þjóðsagan segir að hún hafi fengið stystu gagnrýni sem sést hefur: "Já!!!". 
Jóhann var niðurbrotinn maður og talaði um "viðbjóðslega gagnrýni" -- Gunnlaugur Sigfússon í Helgarpóstinn hafði t.d. skrifað: "Ég kæri mig ekki um að eyða meiru af dýrmætu plássi í þessa vitleysu. Ég vona bara að þetta sé eitthvert meiriháttar grín, því ef svo er ekki er þetta ákaflega sorgleg plata." Þó Jóhann væri á bömmer og að auki stórskuldugur því platan seldist illa, lofaði hann endurkomu og því að "næsta plata verði góð". Jóhann er í dag kennari á Egilsstöðum og hefur því miður ekki ennþá efnt loforðið. 
Sé Austfjarðarokk eitthvað sem þú vilt lesa um í dag bendi ég á þetta.


Markús & The Diversion Sessions - Stay
Brak gaf út plötu Markúsar, Now I know, í sumar. Markús var í Skátum. Platan hefst á þessum límkennda indie smelli sem ætti að vera á hvers manns eyrum. Platan er sjö laga og mjög fín, reyndar er mestu púðri eytt í þetta lag, útsetningarlega séð. Væri gaman að heyra feitari plötu frá Markúsi, eina rándýra þar sem nostrað væri við allt jafn mikið og við þetta lag. 
---

Örfá innlegg berast nú í ÍHNB en ég fékk "Handriðið" um daginn. Það er eiginlega ekki innlagnarhæft því það tilheyrir flökkusögu sem er einhvern veginn svona:

Einu sinni ætlaði hljómsveitin Sjálfsfróun að auglýsa tónleika í útvarpinu. Sá sem las auglýsinguna vildi ekki taka sér hið dónalega orð "Sjálfsfróun" í munn, en dó ekki ráðalaus og las í staðinn: Hljómsveitin Handriðið heldur tónleika í bla bla bla...

Ég er svo sem ekki 100% viss en ég held að þetta sé bara uppspuni. Ég á a.m.k. erfitt með að sjá fyrir mér strákana í Sjálfsfróun standa í því að kaupa auglýsingu í Gufunni 1981 þegar þeim peningi hefði betur verið varið í lím og gas. Það var ekki eins og menn gengju hér um með vísa og debit og yfirdrátt. Sé samt sannleikskorn í þessu væri gaman að heyra af því og þá hver þessi sniðugi útvarpsþulur var.

(--> uppfært: Ari Eldon skrifar: Þetta dæmi með Handriðið var síðar, í endurkomu þeirra um það leyti sem ég var að byrja að spila 1987. Ég hitti þá félaga þegar þeir voru að springa úr kátínu yfir þessari hugmynd sem var til að komast framhjá einhverjum siðprúðum ritskoðanda, ekki viss um hvort það var í útvarpinu samt. Þetta var fyrir tónleika í Útideildinnni, minnir mig, og hugmyndin var þeirra eigin.)

Önnur saga sem snertir á því sama - unglingapönki úr Rokki i Rvk og þulum á Rúv - er hins vegar sönn: Að morgni dags eftir borgarstjórnarkosningar 1982 þegar Sjallar unnu stórsigur og Davíð varð borgarstjóri og vinstri stjórn fór frá, var Pétur Pétursson þulur (líklega frekar en Jón Múli) að spila "lög af plötum". Hann læddi persónulegri skoðun inn í kynninguna (sem var ekki ætlast til að þulir gerðu) með því að segja: Næst skulum við heyra lag, Vonbrigði með Reykjavík," og spilaði svo Ó Reykjavík með Vonbrigðum.

06.08.10
Einhverskonar botn virðist vera kominn í stóra Botnsskála-málið. Að minnsta kosti varpar Pressan einhverju ljósi á þetta dularfulla mál. Fékk annars þá ágætu tilgátu frá Alberti Sig á Facebook að "ætli þessar myndamaskínur séu ekki bara það verðmætasta í þessum landshluta, þessvegna fylgjast þær hver með hinni" - sem væri þá nokkuð athyglisverð "verðmætasköpun" og dálítið í ætt við margt í þjóðfélaginu.
---
Einu sinni var ég að spila í Eistlandi og ræddi við gaur í lókal upphitunarbandinu. Hann var nógu gamall til að upplifa sovéttímann og hann sagði að hann hefði alltaf hugsað sem svo að þegar hann gæti keypt banana útí búð þá væri allt orðið gott og þrúgandi sovéttíminn liðinn. Kannski má segja að Bauhaus sé "banani" okkar þrúgandi krepputíma (sem er nú kannski ekkert svo svakalega þrúgandi ef maður er með sæmilega innkomu og ekki skuldsettur langt upp fyrir topp). Þegar Bauhaus höllin opnar loksins þá verður það merki um að "kreppan sé búin". Aðal Bauhaus-kallinn var hér í einhverjum viðtölum, sem ég missti af, en mér skilst að hann ætli að opna þegar það sé lógískt. Nógu voru þeir nú búnir að reyna lengi að komast inn á markaðinn. Kannski McDonalds komi aftur um leið og Bauhaus opnar. Allavega held ég að Metro sé ekki alveg að trekkja eins og Makkið. Nýjasta nýtt hjá Metro er "Randís", röndóttur ís í brauðformi, sem nú er auglýstur villt og galið. Sem bæði neytenda/neyslu-frömuður og ís-áhugamaður lét ég slag standa og öll fjölskyldan mætti á svæðið. Hinn auglýsti veruleiki er í engu samræmi við raunverulega veruleikann:

Sko, ísinn heitir Randís af því hann á að vera röndóttur (sjá mynd 1), en ef hann er ekki röndóttur (sjá mynd 2) þá er þetta náttúrlega ekki Randís! Enda sagði lúgustelpan afsakandi: "Við erum að stilla vélarnar, ísinn er ekki eins og á myndinni". Hægt er að velja um nokkur brögð, mest tvö brögð á ís. Ég valdi eitthvað sem heitir Blár Hawaii/kókos + karamellu. Ég fann hvorki bragð af kókos né karamellu, bara eitthvað veikt sætubragð ofan á ofur venjulegt ísbragð. Fyrir 290 kr. er þetta alls ekki málið. Svona fer þegar maður svíkur ísbúðina sína, Ísbúð Vesturbæjar. Það gerist ekki oftar (reyndar er Ísbúðin í Álfheimum mjög góð líka og ekki má gleyma Ísbúðinni Íslandi með Holtsels-snilldina. Já og Brynju!).
---

Fólk sem er eldra en tvævetur (það er einstaklega uppskafningslegt að nota þetta orðaval, tvævetur) man eftir teiknimyndakarlinum Gústav. Hann var ungverskur og sýndur um öll Ráðstjórnarríkin. Og á Rúv. Kannski var skipt á honum og síld. Þetta er dúndur stöff, dáldið krípí en skemmtilegt. Youtube er fullt af Gustav og svo á hann auðvitað Facebook-síðu. Nostalgía fyrir miðaldra.
---

Firring - Firring / Firring - Skopleikur
Tryggvi Þór Herbertsson hefur verið all nokkuð á milli tannanna á hinu þunglyndislega fyrirbæri "Bloggheimum" að undanförnu. Maður gæti nú alveg eins eytt tíma sínum í að kynna sér tímgun rykmaura eins og að velta sér upp úr þeirri "umræðu". Tryggvi, sem ég hef enga ástæðu til að halda annað um en að sé topp náungi þótt þetta peningavafstur hans sé allt frekar mislukkað - a.m.k. utan frá séð - var einu sinni upptökumaður í Reykjavík. Ég man að manni fannst það furðu sæta þegar hann mætti allt í einu eitthvað hagfræði bla bla og í XD. Tryggvi var aðallega viðriðinn Stúdíó Mjöt á Klapparstígnum (í kjallara hússins sem nú hýsir CCP) og rak það, held ég með Magnúsi söngvara Þeyr og fleirum. S.H.Draumur tók upp Bensín skrímslið skríður þarna og í kringum það sá maður Tryggva fyrst. Einu sinni vorum ég og Haukur trommari (eða Haukur á gullsmíðaverkstæðinu Carat, eins og hann er þekktur í dag) á BSÍ (að gera hvað? ekki man ég það) og þar var Tryggvi Þór (hvað var hann að gera á BSÍ? Kannski að koma af einhverju skralli). Tryggvi bað um skutl upp á Klapparstíg. Haukur, sem átti bílinn (sjálfur eignaðist ég ekki bíl fyrr en 14 árum síðar) hafði einhverra hluta vegna ekki hitt Tryggva áður og brást hinn versti við. Hann ætlaði sko ekki að fara að snattast með "einhvern róna" um allan bæ, man ég að hann sagði. Tryggvi fékk þó far fyrir rest þegar ég útskýrði að "róninn" (var Tryggvi svona vafasamur útlits á þessum árum?) væri mikilsvirtur upptökumaður í Mjöt þar sem við værum að fara að taka upp fyrstu plötuna okkar. Það var þó reyndar Kjartan Kjartansson sem tók þá plötu upp.

En allavega. Ein af plötunum sem var tekin upp í Mjöt var eina plata Firringar, sem verður að teljast meðal sjaldgæfustu plötum nýbylgjurokksögunnar. Tryggvi sjálfur kom að sköpun verksins (sá hugsanlega um klippingar og hljóðeffekta), en aðalfólkið í dæminu virðist hafa verið Jón Skuggi, sem er þekktur fyrir sín þrumuskot með Langa Sela og Skugganum og fleiri böndum, og Kristrún Sæva, sem ég hef ekki hugmynd um hver er, en skýt á að hafi verið kærasta Jóns á þessum tíma. Það er ljóst að Kuklið - og jafnvel Fan Houtens Kókó - hefur haft áhrif á Firringu því þetta er ægilega tilraunakennt, djúpspakurt og ljóðaupplestrarlegt á köflum. Platan kom út 1984, var í "Crass-umslagi" (35" x 24"), eins og platan The Eye með Kuklinu hafði gert skömmu áður. Það er sjö verk á plötunni, en þessi tvö eru áberandi lagrænust og best. Einnig minnir þetta mig á ensku hljómsveitina This Heat, sem gerði fína svona tilraunaplötu 1981, Deceit.
---

Hljómsveit ein heitir Útidúr, en bókverkaverslun ein heitir Útúrdúr. Ég fékk fréttatilkynningar frá báðum sama daginn og er nema von að maður ruglist:
Útidúr í Sundlauginni
Indie-poppsveitin Útidúr tekur upp sína fyrstu breiðskífu í Stúdíó Sundlauginni um þessar mundir.
Birgir Jón Birgisson sér um upptökur sem ganga vel en þessi fjölmenna sveit, sem telur tólf meðlimi, hefur fengið í lið við sig hóp valinkunnra snillinga svo alls taka 25 manns þátt í upptökum á þessari hljómmiklu breiðskífu.
Platan mun svo rata í hendur almennings í haust. Viðkomandi almenningur má búast við plötu sem verður hressileg, lifandi, fjölbreytt og dramatísk.
Útidúr, sem hefur vakið athygli fyrir skothelda sviðsframkomu og mikla spilagleði, fagnar einmitt eins árs afmæli sínu í þessum mánuði. Stigmagnandi suð hefur verið í kringum hljómsveitina á hennar stutta líftíma og þessi fyrsta breiðskífa verður vegleg afmælisgjöf til landsmanna allra. http://utidur.bandcamp.com/
+
Útúrdúr bókverkabúð, Austurstræti 6, Laugardaginn 7. ágúst 2010, kl 16:00
Útgáfa á bókverkinu L’homme, l’animal de la ville 
Eins og endra nær mun Útúrdúr bókverkabúð hampa bókinni og hennar dýrð með útgáfuteiti á bókverki Sigurðar Atla Sigurðarsonar. Sigurður fagnar útgáfu á bókverkinu "L'homme, l'animal de la ville", sem hann vann að í Marseille, Frakklandi vorið 2010.  Bókverkið sem er prentað í offset prenti inniheldur ljósmyndir fundnar á götum Marseille ásamt öðrum verkum.  Listamaðurinn vinnur með inngrip í prentferlið til að leggja áherslu á manninn í borginni sem og náttúrunni, náttúruna í borginni og náttúru mannsins.  Bókverkið er prentað í 25 eintökum og verður til sýnis og sölu samhliða verkum sem tengjast því.  http://www.uturdur.blogspot.com/

05.08.10
„Hei, hvenær ætlarðu að koma með nýja Love Guru plötu?“ - einn 12 ára í sundi í gær (í Mosfellslaug - topp laug!)
---
Hvalfjörður er okkar Route 66. Alfaraleiðin sem varð fáfarnaleiðin. Þetta er frábært svæði til að hjóla (Akranes - Rvk) eða dóla með fjölskyldunni á fínum sumardegi eins og í gær. Þarna voru sjoppur þrjár sem skiptust á milli Shell, Esso og BP (Olís). Mín fjölskylda fór alltaf í Esso, eða Þyril sjoppuna, þessa í miðjunni. Sú stöð var í eigu Framsóknar sem var skárra en íhaldið, sem átti hin tvö olíufélögin. Ég geri þessu betur skil í laginu Hvalfjörður '78, sem fjallar um ferð mína, ma og pa, um Hvalfjörð til Akureyrar. Mikil nostalgía. Ég sá í gær að það er komið eitthvað líf í Þyrilsjoppuna á ný - kannski eitthvað hvalkarladæmi? Ferstikla varð áfram þótt göngin kæmu, en síðan 1998 hefur Botnsskáli, gamla Shell sjoppan, drabbast niður og lítur orðið svona út í dag: 


Sem sé algjör hjallur að niðurlotum kominn og spurning afhverju þetta er ekki bara rifið. Ég gekk hring um húsið og eitt vakti brátt mikla furðu mína: Það eru fimm eftirlits-kamerur sem vakta húsið á öllum hliðum þess! Þær eru vandlega faldar á hjallinum  og ég hefði örugglega ekki tekið eftir þeim nema af því að ein þeirra er sýnilegri en hinar fjórar, þessi hér:


Mér var svo mikið um þessa uppgötvun að ég tók myndir af hinum fjórum:


Ég var satt að segja orðinn frekar paranojaður yfir þessu. Ímyndaði mér að linsurnar færðust til og beindust að mér og bjóst við að hvað úr hverju kæmu Man in Black karlar eða vöðvahnakkar á svörtum risajeppum og fjarlægðu okkur með valdi. Því til hvers í andsk er verið að þrælvakta ónýta kofadruslu utan alfaraleiðar? Kannski vegna þess að Botnsskáli er:

* Amfetamínverksmiðja?
* Felustaður útrásarvíkingagóss?
* Felustaður fyrir fórnarlamb mannráns?
* Verið er að búa til eitthvað listrænt videóverk?
* Verið er að njósna um veiðiþjófa? (Er það annars eitthvað vandamál í Botnssá?)
* Þetta er eitthvað hvaladæmi - er húsið fullt af óseldu hvalkjöti?

Ég bara skil þetta ekki - skilur þú þetta? Afhverju eru fimm eftirlitsmyndvélar á Botnsskála? Rannsóknarblaðamenn: Þetta er tilvalið tækifæri til að rífa hausinn á sér út úr Magma og/eða "Umboðsmaður skuldara" rassgatinu og koma með svar. Koma svo, Mulder og Skully!
---

Spaðar - Horfnihvammur
Þar sem þema bloggsins nú um stundir virðist vera "Griðastaðir sem tíminn gleymdi" kemur hér aðeins meira um Hótel Fornahvamm. Hjörtur B. Hjartarson sendi línu og hresst lag: Börn í Borgarfirði voru send á skíðanámskeið í Fornahvamm í gamla daga. Við gistum þarna í tæpa viku, átum saltað hrossakjöt og búðingssúpu úr vatni. Þarna voru átján kettir sem  settu svip sinn og angan á staðinn, allavega er kattarhlandslyktin það sem situr í minningunni. Löngu seinna kom ég aðeins við í hljómsveit sem heitir Spaðar. Þeir áttu í fórum sínum texta eftir Gyrði Elíasson um Fornahvammshótelið, sem þá var löngu rifið (eða brennt). Lag var ekki til, svo ég fór í júðalagasafnið og fann freilachs sem passaði nokkurnveginn. Ég hef ekki þorað að hlusta á upptökuna í sjö ár en þetta er skárra en mig minnti. Svolítið eins og átján kettir að spila klezmer.
---

Örugglega hafa margir gist í svefnpoka fyrir utan Eymundsson í nótt að bíða eftir Playboy með Ásdísi Rán. Verst að þetta sé á búlgörsku því þá getur maður ekki lesið greinarnar (það er það sem maður gerir með Playboy, jú sí). Síðast keypti ég Playboy þegar Nancy Sinatra, líklega eitthvað blönk, fækkaði fötum og lá sextug og fín í einhverju kántríléttporni. Það var airbrushað og ægilegt. Í klámblaðadeildinni er líka eftirminnilegt þegar ég bjó í Lyon, Frakklandi, 1986 og það spurðist út að í nýjasta franska Playboy (eða í "Oui" eða hvað þetta var) myndi sjálf Samantha Fox láta allt flakka. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar og var viðbúinn á útgáfudegi að næla mér í eintak. Ég skil ekki hvernig ég klikkaði á þessu, en ég þræddi allar blaðasjoppur Lyon en þetta helvítis blað var allsstaðar uppselt. Ég spurði meira að segja eftir blaðinu, svo áfjáður var ég að ná í eintak, og ég man eftir einum feitum sjoppukarli með skegg sem hló og sagði Ví, big búbbís, nó nó, sold át.
---

Helvítið hann Mark Chapman. Andskotann var hann að vilja með því að drepa hann Lennon okkar og koma þannig í veg fyrir Bítla kombökk, Lennon & sons plötuna og Lennon og U2 samstarfið. Megi hann dúsa sem lengst þar sem hann er. Sá í gær myndina Chapter 27, sem segir frá dögunum 6-9 des 1980 í New York. Þetta mun vera nokkuð nákvæm eftirmynd af atburðarrásinni þegar Mark norpaði fyrir utan Dakota bygginguna kreistandi Catcher in the rye og Double Fantasy. Þetta er frekar leiðinleg mynd, geðveikin fremur klisjulega sett fram og maður spyr sig til hvers þetta var búið til. Jæja, sæmó svona. Mark virðist ekki vera mikill Bítlasérfræðingur því í geðveikisrússi sínu tengir hann saman Roman Polanski sem tók satanísku myndina Rosemary's baby í Dakota húsinu --> þar sem Lennon bjó síðar --> Charles Manson hyskið drap ólétta kærustu Polanskís undir áhrifum frá Helter Skelter Bítlanna --> Ergo: Lennon er satan! Í dag er vitað að Helter Skelter, þetta brjálaðasta lag Bítlanna, er eftir hann Palla okkar, svo klikkrausið í Mark gengur ekki upp.

Jæja allavega. Jared Leto leikur Mark og fitaði sig um 30+ kíló til að vera sem líkastur geðveiku feitabollunni. Miðað við hvað það er mikið mál að grenna sig er skítlétt að fita sig. Ég gæti auðveldlega fitnað um 30 kg ef ég þyrfti að leika einhverja bollu eftir mánuð. Trixið hans Letos var að bræða Haagen Dazs ís í örbylgjuofni og sturta því í sig með ólífuolíu og soyamjólk. Mmmm, nammi. Svo fastaði hann til að ná spikinu af sér. Þetta er eiginlega merkilegra en þessi mynd. Heilsufríkið Lindsey Lohan leikur að auki einhverja grúppíu sem hangir fyrir utan Dakota og stendur sig vel. Hún og Sean Lennon eru víst vinir en Sean fyrirgefur henni að hafa verið í myndinni, sem hann segir vera "tacky". Annars virðist Mark hafa hitt Sean 5 ára með fóstru sinni í Central park (allavega skv. myndinni) og tekið í hendina á honum, sem er frekar krípí. Ljósmyndarinn sem tók þessa frægu mynd af Mark og Lennon er líka ein af aðalpersónum myndarinnar. Double fantasy eintakið sem Lennon skrifaði á fyrir Mark seldist á uppboði 2003 á 525.000$ (63 milljónir - ætli Jón Ásgeir hafi keypt þetta?), sem mun vera mesta verð sem greitt hefur verið fyrir plötu (a.m.k. skv. wiki).

04.08.10
Búinn að standa í ströngu við að sannfæra poppara um að vera "peð" í nýja Popppunkts-spilinu. Það verða náttúrlega aðrir popparar en í fyrra PP-spilinu, enda verður allt nýtt í nýja PP-spilinu. Nei, það er nú ekki beint "staðið í ströngu" því það finnst eðlilega öllum voða gaman að fá að vera peð. Allir eru boðnir og búnir að vera með og lána á sér andlitið þótt þeir fái ekkert í staðinn nema eitt spil þegar það kemur út (í haust). Allir nema einn það er að segja. Þegar ég reyndi að fá andlitið á þessum poppara til að samþykkja að vera peð (í fyrra PP-spilið), sagðann að ég yrði að tala við lögfræðinginn sinn, andlitið á sér væri söluvara og hann gæti bara ekki látið eitthvað lið út í bæ nota það án þess að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Ég talaði auðvitað aldrei við lögfræðinginn hans og þessi poppari var náttúrlega bara ekkert með. Þú mátt geta tvisvar hver þetta var.
---
Ég bíð Runólf velkominn í klúbbinn "Í opinberu starfi í minna en viku". Svo mæli ég með bók hans Enginn ræður för, sem fjallar um ferð hans þvert yfir Ástralíu. Bókin höfðaði til mín enda bæði áhugasamur um ferðabækur og Ástralíu. Hann skrifar líka nokkuð um landflutninga Íslendinga til Ástralíu (sem ég tengi líka sterkt við, enda bjó Ási bróðir þarna í tvö ár leit sixties/örlí seventís) og eyðir miklu púðri í Jörund Hundadagakonung, sem ég er ekki alveg jafn spenntur fyrir.
---
Oss kæri borgarstjóri hefur fengið aftur inni á Facebook: http://www.facebook.com/dagbok.borgarstjora. Ég skil svo sem alveg þetta Múmmínálfafár í honum og Björk, krúttlegt dót og gaman að Tove hafi verið lesbía og svona, en ég hef aldrei tengt sterklega við Múmmínálfana. Ég man alveg eftir því þegar ég var svona 10 ára að ég gerði áták í að fíla þetta og tók nokkrar bækur á bókasafninu. Allt kom fyrir ekki og ég kláraði enga þeirra. Dagbjartur vildi ekki sjá þetta þegar ég reyndi að tengja mig aftur í Múmmínland í gengum hann, svo kannski maður geri lokatilraun í gegnum Elísabetu bráðlega.
---
Maður út í bæ var ekki ánægður með að ég tengdi Gunnar Gunnarsson við Nasista(hreiður). Hann skrifar: Gaman að lesa blogg þitt um Austurland. Fór þó dálítið í mínar fínustu þetta stagl um fansí nasistahreiður á Skriðuklaustri. Þú bloggar eftir gömlu tuggunni sem Þjóðviljinn lamdi inn í hausinn á þjóðinni á árum kaldastríðsins, að Gunnar væri nasisti, húsið teiknað af sama arkitekt og Arnarhreiðrið og þetta ætti að vera skjól fyrir Hitler ef illa færi í stríðinu. Allt saman tómt kjaftæði sem lifir þó ótrúlega meðal leikinna sem lærðra. Hvað höfundinn varðar mæli ég með því að þú lesir Aðventu, Svartfugl eða Fjallkirkjuna eða súrrealísku fantasíuna Vikivaka. Alveg þess virði þó að þú nennir því ekki og bragðast jafn vel og lerkisveppasúpan sem þú hælir. Tja, ég var nú kannski ekkert að segja að Gunni greyið væri nasisti, þótt ég kallaði húsið "nasistahreiður" (enda lítur það út fyrir að geta hafa verið í Ölpunum og innihaldið spígsporandi nasistafávita). Gunnar er þó eini Íslendingurinn sem hitti Hitler (svo vitað sé) og hann var megahittari í Þýskalandi á dögum Hitlers og félaga.
---
Annar maður út í bæ sendi áríðandi upplýsingar um Hótel Fornahvamm: Ekki nema von þú hafir ekki þekkt Hótel Fornahvamm af þessari mynd, þetta er Hvollinn á Hvolsvelli sem er notaður í þessari auglýsingu. Skandall!! Hér er hins vegar líklega mynd af rétta staðnum:

Já, það er ekki laust við að þessi mynd kveiki á einhverjum minningarbrotum, en mikið er skrítið að gera auglýsingu með kolvitlausri mynd af hóteli. Kannski hefur einhver starfsmaður Þjóðviljans 1970 fengið að fjúka í kjölfar þessa skandals.
---
Og nú: "Allnokkur" (það mun þýða 3 stk, a.m.k. á Breiðdalsvík) brakandi fersk og glæný íslensk lög:


Orri Harðarson - Perfekt par
Nýtt lag með Orra Harðar lofar góðu fyrir nýju plötuna. Gaman að þessu -ar-rími, en gæti ég biturðar í garð fallega góða fólksins í 101? (djók). Fréttatilkynning: PERFEKT PAR ... Er fyrsta lag í spilun af væntanlegri plötu Orra Harðarsonar, Albúm. Áætlaður útgáfudagur plötunnar er 6. september 2010. Þessi fimmta sólóplata Orra er sérstök fyrir þær sakir að allur undirleikur á henni er handspilaður á einn og sama kassagítarinn. Þrátt fyrir að í ár séu liðin 25 ár síðan Orri kom fyrst fram opinberlega, vopnaður kassagítar, er þetta í fyrsta skipti á hljómplötuferli hans sem að slíkur gítar er í aðalhlutverki. Fimm ár eru liðin síðan Orri sendi síðast frá sér plötu, en þá var plata hans „Trú“ tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem „plata ársins.“ Áður hafði Orri sent frá sér hljómplöturnar „Drög að heimkomu,“ „Stóri draumurinn“ og „Tár,“ en fyrir þá fyrstu var hann útnefndur „nýliði ársins“ á Íslensku tónlistarverðlaununum. Auk áðurnefndra sólóplatna hefur Orri komið að vinnslu á tugum íslenskra platna, sem upptökustjóri, útsetjari, hljóðfæraleikari og tæknimaður.


SG og Memfismafían - Þitt auga
Ég er drulluspenntur fyrir fyrstu leiknu kvikmyndar Gríms Hákonarsonar í fullri lengd. Hann gerði eina bestu mynd sögunnar, Varði fer á vertíð, og hefur gert nokkrar flottar stuttmyndir. Svo er hann náttúrlega Kópavpogsbúi. Sumarlandið heitir nýja myndin, kemur í bíó 10. sept (a.m.k. skv. þessu) og er lýst svona: Grínmynd um venjulega fjölskyldu sem rekur óvenjulega, álfatengda ferðaþjónustu og býður upp á miðilsfundi. Heimili þeirra er byggt utan um álfastein sem skyggn eiginkonan, Lára, metur mikils, en þegar þeim býðst tækifæri til þess að selja steininn dýru verði þykir eiginmanninum Óskari það býsna freistandi. Hér er Sigurður Guðmundsson og Memfis mafían að syngja og leika lag úr myndinni.


Valdimar - Undraland
Áríðandi fréttatilkynning frá nýju bandi! Hljómsveitin Valdimar er um þessar mundir að að taka upp sína fyrstu breiðskífu í upptökuheimili Geimsteins, en hún kemur út á þeirra vegum í haust. Hljómsveitin hefur getið sér gott orð með hljómleikahaldi að undanförnu og er fyrsta lagið af plötunni, "Hverjum degi nægir sín þjáning," farið að vekja athygli. Öll lögin á plötunni eru sungin á Íslensku og mætti segja tónlistin væri brass skotið popp með dökku ívafi. Hljómsveitina skipa Ásgeir Aðalsteinsson, Guðlaugur Guðmundsson, Kristinn Evertsson,Valdimar Guðmundsson og Þorvaldur Halldórsson.
Bandið verður að spila á Sódómu á fimmtudagskvöldið ásamt balkansveitinni Orphic Oxtra. Aðgangseyrir 1000 krónur, húsið opnar klukkan 21 og Valdimar hefur leik klukkan 22.
http://www.myspace.com/valdimartonlist
http://www.facebook.com/home.php?#!/pages/Valdimar/145674977749?ref=ts
Orphic Oxtra: http://www.facebook.com/home.php?#!/Orphicoxtra?ref=ts

03.08.10

Nýja bakmyndin á blogginu sýnir heiminn í gegnum trampólín net (eða "hoppulín" eins og dóttir mín kallar það, sem er mun betra nafn enda hoppar maður á svona fyrirbæri, trampar ekki). Það var sem sé hoppað all nokkuð á svona fyrirbæri á Bessastöðum, þar sem við vorum í fríi. Ekki hjá Óla og Dorrriti samt, hvað ætli maður yrði rekinn fljótt í burtu ef maður tjaldaði í garðinum á Bessastöðum, Álftanesi? Hálftíma? Nei, við vorum á Bessastöðum í Fljótsdal í tjilli í viku. Ég hef aldrei verið svona lengi á Austfjörðum áður. Eiginlega eru Austfirðir hálfgerð útlönd fyrir manni, maður er svo sjaldan þarna. Það var Majorkaveður að hluta og það er voða erlendis þarna í Hallormsskógi og Atlavík sem er rétt hjá. Allt vaðandi í trjám. Steini gítarleikari í S.H.Draumi býr á Egilsstöðum og er skólastjóri Tónlistarskólans. S.H.Draums kombakkið er framundan og ekki seinna vænna að kíkja á hann. Ég hef nú varla séð Steina síðan 1993 þegar síðasta S.H.Draums kombakk var svo það var upplagt að líta á hann áður en stíft æfingarferli fyrir kombakkið hefst. Dagbjartur Óli tók þessa mynd af gömlu körlunum:

Áður hafði fjölskyldan dvalið á Dalvík og svo stoppuðum við aðeins á Akureyri á leiðinni heim, já og á Hvammstanga. Allt saman algjör unaður. Platan Meira Pollapönk hefur verið spiluð í spað og krakkarnir kunna hana utan að og það eru engar ýkjur. Hér koma merkilegustu punktarnir úr ferðinni:

* Klassískt stöff var framkvæmt: ís í Holtseli og ótakmarkaður Brynju ís. Einu sinni fór ég tvisvar sama daginn að kaupa ís í Brynju og sama stelpan afgreiddi mig í bæði skiptin sem var dáldið vandræðalegt. Til að innramma Eyjafjörð íslega séð keyptum við jólaskraut í Jólagarðinum (annað sígilt stöff) sem lítur út eins og ís í brauðformi. Keyptum að sjálfssögðu líka salt water taffy, fimm á mann. Hr. Jólasveinn er alltaf höfðingi heim að sækja og gefur manni hangikjöt.

* Sundlaugin í Þelamörk er orðin ein sú besta á landinu eftir endurbætur. Vatnið er svo heitt í henni að það er nánast sem sundlaugin sé heitur pottur. Krakkarnir fóru endalaust í rennibrautina og gátu það án þess að maður væri með hjartað í sundbuxunum.

* Las bókina Sendiherrann e. Braga Ólafsson. Ljóðskáld í ruglinu í Litháen. Sniðugt og gaman. Þrjár stjörnur. Nú redda ég mér hinum bókunum hans á bókasafninu með snatri.


* Það er gullfallegt á Austurlandi. Seyðisfjörður er eins og fullnæging úr Ölpunum. Í Bistró Skaftfelli fást bestu pítsur á Austfjörðum í nýlistarlegu umhverfi. Dieter Roth með draslið sitt er í miklum metum á Seyðisfirði enda bjó hann þarna. Allskonar listalið hefur hreiðrað um sig í bænum og arkar um í stígvélum og stundar drasllist. Ég er ekki að segja að listin sé eitthvað drasl heldur að listaverkin samanstanda oftar en ekki af drasli, brauð að mygla í glerkassa og svona Dieter-ískt listadrasl. Alveg ágætt þannig séð þótt ég sé of snobbaður til að hafa myglað brauð upp á vegg. Eða of nískur, enda get ég "gert svona sjálfur". Hinu megin í firðinum búa einhverjir listvænir bræður sem eru með drasl um allar grundir og leggja þannig sitt til listsköpunarinnar - gömul öku- og vinnutæki að grotna í tó, eins og stundum vill verða þar sem nóg er pláss. Lömbin þarna eru gríðarlega mannelsk og hópuðust um bílinn eins og japanskir túristar að Björk. Eitt lambið stökk hreinlega upp í bílinn og notaði hann sem klórubekk.

* Stríðsminjasafnið á Reyðarfirði er fínt og flott. Fólkið þar var höfðinglegt heim að sækja og dældi í mann og annan kaffinu. Reyðarfjörður virðist hafa "grætt" mest á Valgerði og virkjuninni. Ég keyrði þarna í gegn eftir ball 1996 (með bankastjóra Landsbankans, en það er önnur saga) og þá man ég glögglega eftir því hvað Reyðarfjörður var tíkarlega smár og lítilfjöllegur. Nú eru búðir og byggð og allskonar. 

* Fáskrúðsfjörður er gullfallegur og grotnandi sjarmi víðsvegar að sjá. Þeir eru alveg Frakkaðir á því þar með götuheitin líka á frönsku á skiltum, eitthvað gamalt Fransmanna dæmi. Kaupfélagið er oðentik. Sami unglingurinn hékk utan í vegg þar þegar við komum og var á sama stað klukkutíma síðar þegar við fórum. Hann leit út eins og Fúsi froskagleypir, bara glaðlegri. Albert, eiginmaður Bergþórs Pálssonar, rekur kaffihús í Franska safninu, "Fransmenn á Íslandi" heitir þetta. Ég tímdi ekki að borga mig inn á safnið en við fengum okkur köku og kaffi. Því miður var eiginlega allt búið (of mikið að gera) og svo fór rafmagnið af húsinu og ég varð að borga með reiðufé. Spes! Ég þarf að koma fyrr næst því mér sýndist spennandi Quiche hafa verið fáanlegt fyrr um daginn. Því miður var sundlaugin lokuð til kl. seint og um síðir. Grotnandi innilaug og mikill ellismellur sem gaman hefði verið að fara í.

* Það kom nú ekki að sök því á Stöðvarfirði er ein lítil og grotnandi stuðlaug sem við deildum með Kínverja og syni hans. Mjög fín sundferð, oðentik út á landi, ekkert 2007 rugl. Alúðlegar starfskonur sem létu manni líða eins og heima hjá sér. Önnur hringdi í son sinn til að hann gæti komið og séð fræga kallinn úr Popppunkti, sem var nú bara gaman. Svo fórum við í Steinasafn Petru þar sem ég sá svo marga steina að það endist líklega út lífið. Rosalega glæsilegt safn sem æsandi gaman er að skoða jafnvel þótt maður hati og fyrirlíti grjót. Sem ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður geri, en ég segi bara svona. Krakkarnir voru svo fíraðir upp í steinasöfnun að við fórum í fjöruna að tékka á grjóti. Þar hitti ég Stöðvarfirðing sem ég var að vinna með og spurðann hvar maður fengi að eta. Hann benti okkur á næsta fjörð, Breiðdalsvík, þar sem þýskt fólk hafði reist þýskan bjálkakofa og byði upp á þýskan mat. Meira spennandi væri það varla svona in ðe middle og nóver svo við þangað.

* Ég var ekki fyrir vonbrigðum með neitt í þessari ferð, nema kannski veitingarhúsið Café Margrét í Breiðdalsvík. Lýsingin af staðnum var svo góð, þýskt fólk reisir þýskan bjálkakofa og býður upp á þýskan mat. En ég get svo sem sjálfum mér um kennt því ég valdi bara vitlausan rétt - "Allnokkrar tegundir af þýskum pulsum með brauði og salati". Hvað er "allnokkrar" mikið? Þar sem þessi réttur kostaði heilar 3.350 kr. sá ég fyrir mér svoleiðis pylsuhaugana á trébretti, allskonar exótískar pulsur sem breiðdælsku Þýskararnir höfðu smyglað til landsins með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn. Ég var farinn að slefa, en slefið þornaði í skyndi þegar rétturinn kom, bara örfáar pylsur og bara tvær tegundir, sýndist mér, þar af önnur móðurserðandi malakoff! Þrjár veiklulegar maltbrauðsneiðar í körfu og smá gras og tómatur! Nú hefði ég náttúrlega átt að berja í borðið verandi þessi víðfrægi neytendafrömuður, en ég var algjör luðra og sagði ekki neitt. Djöfulsins malakoff á 3.350 kall! Þetta reyndust vera þrjár pulsutegundir, hinar tvær voru bara alveg eins, gráar aumingjapylsur, bragðdaufar og ekkert spes. Eins gott að Lufsan var til í skipta sínu með mér, ágætis gyrosi með sáerkrauti. Ég er enn að hugsa um helvítis pylsuplattann, ég er ekki að djóka að þetta voru bara tvær sneiðar af malakoffi (reyndar var þetta óvenjulega breitt malakoff) og svona 10 sneiðar samtals af hinu. 3.350 kall!!! Þegar ég borgaði féll ég í þann neytendapytt að þora ekki að segja neitt af því ég nenni ekki að rífast við fólk og vill ekki særa það eða móðga. Í staðinn skrifa ég neikvæða gagnrýni og fer aldrei aftur á Café Margréti. 1.500 kall hefði verði toppverð fyrir þennan aumingjalega pylsuplatta. 3.350 kall!!! Ó mig auman í pylsuna.

* Breiðdalsvík er annars voða krútt. Mest krútt gömlu auglýsingarnar í glugganum á kaupfélaginu (sem var lokað). Það var þoka á heiðinni til baka. Við sáum miklar þokur í þessari ferð. Menn eru ekkert að djóka með þessa Austfjarðarþoku. En reyndar lentum við líka í þoku á fleiri stöðum, bæði í Vatnsskarði og einhverjum öðrum skörðum sem ég man ekki hvað heita og nenni ekki að gúggla.


* Ég og svili minn Skafti gengum á Hött, fjallið sem fótboltafélagið á Egilsstöðum er nefnt eftir. Þetta er ágætis fjall, alveg 1106 m.y.s. Það er komið í dagskrárliðinn Sund/fjöll auk nokkurra nýrra lauga sem ég tékkaði á. Einnig hefur bæst við dagskrárliðinn Veitingarhúsagagnrýni og Menningarafurðir.

* Ég fór í túristaferð frá Végarði inn í einhver göng og sá einhverja hreyfla í þessari virkjun. Gaman að fá að vera með hjálm og í vesti. Svo fór ég líka loksins keyrandi 60 km upp að Kárahnjúkavirkjuninni. Það var ágætt, dáldið massíft. Fullt af brúnu vatni að steypast ofan í gljúfur til að Reyðarfjörður geti verið stærri en fyrir 10 árum. Allt í lagi mín vegna. 

* Ég var dáldið að labba. M.a. stóran hring á milli brúnna þarna í dalnum innaf Leginum. Sá hreindýrskálf í skóginum gegnt Gunnarsklaustri. Við vorum einmitt nálægt því, Skriðuklaustri þar sem Gunnar Gunnarsson (Halldór Laxness íhaldsmanna, sem ég hef aldrei lesið neitt eftir og hef ekki áhuga á), byggði sér ægilega fansí nasistahreiður. Gunnar er þessi týpa af listamönnum sem ég nenni ekki, dáldið sami pakkinn og Ólafur Elíasson og æi þarna hvað hann heitir Ólafsson sem vann hjá Sony. Allt eru þetta listamenn sem "koma sér áfram í lífinu" og eru oftar en ekki með kraftmiklar hökur. Eflaust voða fínir kallar samt, ég er ekkert að segja það, en bara einum og stutt í Ólaf og Dorrit hjá þeim. Nasistahreiðrið er vissulega mjög flott og ég mæli eindregið með lönshlaðborði á 2.200 kall á mann. Ekkert déskotans malakoff þar heldur allskonar gúmmilaði og sumt beint úr sveitinni. Lerkisveppasúpan algjört æði. Svo kom í fréttum að þarna fyrir neðan hefði fundist við uppgröft beinagrind af risa og önnur af fílakonu. Sá því miður hvorugt. 
 

* Okkur datt ekki í hug að fara í jarðböðin við Mývatn á 2500 kall á mann heldur fórum bara í sund í Reykjahlíð, sem var bara plein og solid. Fengum okkur pítsu á Daddi's pizza á Mývatni sem er án efa besta pístan á Mývatni og með flottasta útsýni sem um getur á pítsastað (aukastjarna fyrir það!)

* Fór á sýningu Tónmunaseturs á Glerártorgi, Akureyri. Tónlistarsaga Akureyrar (og Austfjarða) í máli og myndum og munum. Algjört möst að tékka á þessu. Sýningin stendur bara til 8. ágúst og ólíklegt er að sýningin verði sett upp aftur, var mér sagt, því það er svo mikið vesen. Þarna var allt vaðandi í spennandi dóti, t.d. nokkur fleiri sýnishorn af öreigalegum gíturum frá gítarverkstæðinu "Stengir" (sixtís dæmi). Hitti nokkra meistara. Gunnar Tryggvason úr Póló, sem við Steinn Skapta höfum heimsótt tvisvar, trommarann Rafn Sveinsson úr Löxum (sem var með skýrslur um öll gigg sem hann hefur spilað á frá upphafi - ekki ósvipað þessu hjá mér) og sjálfan Pálma Stefánsson sem stofnaði Tónabúðina og rak stórútgáfuna Tónaútgáfuna á Akureyri. Sú útgáfa gaf m.a. út Lifun og fyrstu sólóplötur Björgvins Halldórssonar. Ég spurði þá m.a. út í hljómsveitina Hjólið (sem gerði hið frábæra lag Hjólið mitt) og kom þá í ljós að aðalgaurinn í Hjólinu er með Hjólið mitt sem hringitón í símanum sínum. (sjá nánar um Hjólið 19.06.10 hér á blogginu).


* Dagbjartur þurfti að kúka hjá Fornahvammi. Þar hefur tíminn búið til tóftir einar. Sýndist mér, maður komst ekkert að þessu fyrir girðingu. Það virðist hafa tekið tímann litla stund að rústa pleisinu miðað við þetta stóra hús í auglýsingu í Þjóðviljanum frá 1970. Foreldrar mínir stoppuðu oft þarna á leiðinni til Akureyrar og staðurinn er því til í sagnasafni fjölskyldunnar. Nafnið kallar þó bara fram þjóðvegaryk og ímyndaðar veitingar en engar æskuminningar. Þetta var Staðarskáli fyrir Staðarskála. En nú er Staðarskáli bara enn eitt N1 og ekki annar sjarmi þar en sá að sama konan er enn að vinna og var á gamla staðnum. Gamla steikingarbrælan hefur líka verið fljót að festast við nýja staðinn. Skást á leiðinni til Akureyrar finnst mér vera Potturinn og pannan, Blönduósi. Það er kannski örlítið meira en skást, svona alveg lala.

* Ég hélt ég myndi sakna "út á landsins" meira þegar ég kæmi heim. Það er gott að vita af "út á landi" en samt er alltaf það besta við öll ferðalög að koma aftur heim til sín, eins og klisjan segir, enda klisjur yfirleitt sannar.
---
Síðan ég kom heim hef ég reynt að kaupa kopp af Valda koppasala, en hann heiðraði vitanlega frídag verslunarmanna. Ég las svo rosalega góðan dóm um Shalimar í Grapevine að ég varð að tékka og við átum þarna í gær. Það var mjög fínt. Kannski ekki eins rosalega gott og Haukur á Grapevine segir og ég hef alveg smakkað betra mangó lassí. Sprellifínt samt og brjálað að gera.
---
Hið frábæra Sjóræningjasafn á Patró (sem er ekkert skítaþorp sama hvað Jónas pönk er að röfla) býður upp á Pönk á Patró part 2. Ef ég vissi ekki betur gæti manni skilist á plaggatinu að Amiina ætlaði að leika Never mind the bullocks, here's Sex Pistols í heild sinni. Það er vissulega æsandi fersk hugmynd sem ég vona að Amiina skoði:

---
((((((( Fimmti hluti ársins 2010 - fyrir frí)))))))