TOPP 5! 46. vika: Bloodgroup - Red egypt / Fulli kallinn - Just married / Sometime - Heart of spades / Bennys Crespos Gang - Next weekend / For a minor reflection - Fallegt útsýni  ELDRI LISTAR
15.11.07
Einu sinni var ég í áskrift að Film Threat. Nú er blaðið aðallega á netinu held ég, en segir svo sem hlutina jafn umbúðalaust. Hér er snotur listi yfir það kaldasta í Hollywood þessi misserin. Það er ánægjulegt að sjá t.d. draslleikstjórann Eli Roth og gerpið Perez Hilton á þessum lista.
---
Ég viðurkenni það: Ég hef stundum sett nafnlaus komment við blogg út í bæ, jafnvel rætin og ómerkileg, en nú er ég alveg hættur. Ég held að bottomlænið sé að ef maður getur ekki staðið við skoðanir sínar undir nafni þá séu þær skoðanir ekki þess verðugar að þeim sé útvarpað. Þá á maður bara að halda þeim í sínum fúla haus. Þetta er ekki diss á bráðskemmtilega hrægamma eins og Mengellu og Hnakkus, þetta er bara ekki eitthvað sem ég hef gert upp við mig. Mig hefur reyndar stundum dottið í hug að stofna leyniblogg, skitapesi.blogspot.com eða runkirunkason.blog.is – eitthvað í þessum dúr, þar sem rætið og/eða öfgakynferðislegt blogg myndi ráða ríkjum (Hlutverk Rúnka átti t.d. að vera það að tjá sig um atburði líðandi stundar út frá manni með króníska sjálfsfróunaráráttu, dæmi: Eddan: Lippaðist allur niður þegar Eyvindur Karlsson var í mynd en kom allur til þegar Silja Hauks og Sólveig Arnardóttir, báðar sexí í svörtu, afhentu saman. Ú la la...) Eitthvað svona karlpungatáfýluhjal sem ég mynda aldrei þora að útvarpa undir nafni. En til hvers ætti ég að nenna því? Ég á í fullu fangi með þetta blogg...
---
...og get svo sem verið alveg nógu opinn og persónulegur hér. Til dæmis hafa draumar mínir verið sérlega upplífgandi síðustu tvær nætur. Í nótt dreymdi mig að mér var boðin staða bassaleikarans í Sigur Rós. Georg Hólm bankaði sjálfur upp á. Ég sagðonum að það væri ekkert mál og var byrjaður að æfa mig þegar ég vaknaði. Dálítið leiðinlegt því ég átti eftir að fara með þeim á túr og allt. Nóttina þar á undan dreymdi mig að ég væri kominn með svo stórt undir mér að ég þurfti bara smá að beygja mig til að ná. Vaknaði þá líka áður en ég gat notfært mér þessa stöðu til fullnustu. Það er allt að gerast í draumunum. Hefur draumaritstjórinn verið að lesa The Secret? Hvað næst, segi ég nú bara.
---
Eðlilega hefur Okursíðan fengið færri email en þegar mesta athyglin var á henni. En það er samt alltaf eitthvað. Var að enda við að setja inn sjö ný dæmi. 
---
Kvót dagsins: "Ég segi nú bara fyrir mig: Frekar færi ég með pening í gröfina heldur en Kallakaffi." – Örn Úlfar Sævarsson í þessum kommentum.

13.11.07
Abbababb! lokasýning (í bili) á sunnudaginn (18. nóv). Tvær sýningar, kl. 14 og kl. 17. Uppselt kl. 14 en enn til miðar á sýninguna kl. 17. Síðasti séns! Athugið málið hjá Hafnarfjarðarleikhúsinu.
---
Heilinn á mér er frábær. Ég vildi ekki skipta. Pæliði íðí hvað það væri leiðinlegt ef heilinn úr Árna Johnsen eða Karli Sigurbjörnssyni væri allt í einu kominn í hauskúpuna á mér. Heilinn tekur upp á ýmsu skemmtilegu. Þegar ég er að ganga á fjöll fer ég stundum að tauta sama orðið fyrir munni mér aftur og aftur eins og kolgeðveikur maður. Fyrst tautaði ég aftur og aftur Fann-tó-fell, Fann-tó-fell, Fann-tó-fell. Þess má geta að Fanntófell er álitlegt fjall í Kaldadal sem ég hef ekki gengið á enn. Nokkru síðar, þegar ég var búinn að tauta Fann-tó-fell í nokkrum ferðum, fór ég að tauta annað. Það var Lillý-Valgerður-Pétursdóttir, Lillý-Valgerður-Pétursdóttir, Lillý-Valgerður-Pétursdóttir. Nú veit ég ekki hvað Lillý Valgerður var að vilja upp á dekk í hausnum á mér en það skiptir ekki máli. 
---
Þegar ég er í spinning bregður heilinn á mér stundum upp sömu myndinni. Það er af mér og Dagbjarti að skoða drasl í Góða hirðinum. Við höfum stundum farið þarna og gramsað í gömlu drasli. Í dag kom fram alveg glæný heilasýn. Það var mjög skemmtilegt og óvænt. Ég fór að hugsa um popppokana sem voru seldir í sjoppunni sem var á móti Austurbæjarbíói í gamla daga. Ég man greinilega eftir þessum popppokum. Sá stærsti var með teiknaðri mynd af káboja sem snéri slöngvivaði fyrir ofan hausinn á sér. Kábojinn minnti á eiginmann Ljósku í teiknimyndunum, Dagwood heitir hann á ensku, en var samt ekki hann. Veit einhver hvað ég er að tala um? Þessi popppoki var allavega frábær minning. Ég spann eins og galinn.
---
Ég held ég hafi samt aldrei haft efni á svona stórum popppoka og er svo sem ekki það mikill poppfíkill að ég hafi haft lyst á heilum svona poka. Í Kópavogsbíói fékk ég hinsvegar alltaf einn poka af Lollípopp. Hvaða mynd var nú aftur á Lollípoppinu? Af töfralampa? Lollípoppið var mun minni skammtur og í plastpoka. Ekki ferskt popp eins og þarna í sjoppunni gengt Austurbæjarbíói.
---
Í dag hef ég bæði hlustað á fyrstu plötuna með Specials og fyrstu plötuna með Madness. Hvað er í gangi? Einhver skabylgja? Maður ætti kannski að skella sér á This is England?
---
Hver er Mengella? Hver er Mengella? Ert þú Mengella? Rassgatið á jólasveininum? Mengellu-ævintýrið náði hámarki í gær þegar blogggæran "opinberaði" sig. Ég grét endalok Mengellu (sjá hér að neðan) en fékk skömmu síðar hughreistandi email frá Mengellu sjálfri. Það er svona (birt með góðfúslegu leyfi): 

Blessaður og sæll.

Ég þakka falleg eftirmæli um mig, hitt er þó annað mál að ég er ekki
dauð úr öllum æðum enn. Í einhverri galinni tilraun til að outa mig
tók þetta fólk upp á að gangast við mér um víðan völl. Ég get mér þess
til að þau hafi talið að hégómleiki minn myndi ekki þola það og ég
gengi sjálf fram fyrir skjöldu til að sleikja upp heiðurinn. Ég ákvað
í staðinn að dansa með og gera mitt besta til að koma nokkrum af
þessum sálum í vandræði, t.d. með því að auka enn við þrálátan orðróm
um meinta tvíkynhneigð Hildar.

Ástæða þess að óli Sindri er hvergi nefndur er sú að þetta er uppspuni
frá upphafi til enda. En nú er Óli kominn fram (takk fyrir það). En
þér er fyrirgefið. Hann hefur alltaf verið tilbúinn að sitt nafn komi
fram og það verður ekkert mál að fóðra það. Hann hefur jú hannað
grafíkina og svona.

Hitt er annað mál að það stendur ekki til að afhjúpa Mengellu í bráð.

Og þar hafiði það, þið getið andað léttar því Mengella er ekki hópur ljóðarúnkara (svo vitnað sé til orða Rudda). Þetta er ægileg hringavitleysa og óveður í plastmáli. En svona er þetta bara.

12.11.07
Internetið gæti verið frábært. Vandamálið er bara hvað það er leiðinlegt. Maður leitar logandi ljósi að einhverju skemmtilegu til að lesa en þarf að böðlast í gegnum hauga af leiðindum fyrir hvert snifsi af skemmtilegheitum. Mogga- og Vísisblogg er uppfull af óskrifandi sauðum, oftar en ekki með mannskemmandi eða feysknar skoðanir svo maður missir trúna á mannkynið og vill flýja til Puka Puka við að líta þau leiðindi augum. Ekki það að fólk sé yfirleitt skemmtilegra á Puka Puka (eða hvað veit ég, ekki eins og ég hafi komið þangað og þar búa bara 197), en þar er vonandi ekkert netsamband og því ekki hægt að lesa moggabloggið. Jú jú hvaða hvaða, það eru nokkur ágæt blogg þarna á moggablogginu. Barnaland ætti að heita Í guðana-bænum-takið-börnin-af-þeim-land og það er jafn aðlaðandi að lesa málefnin og að sleikja sokka á Grund. Hvar er allt glæsilega, gáfaða og góða fólkið á þessu landi? Ég meina, fyrir utan mig. Skrifar það aldrei á netið? 
---
Nú hefur textahöfundur minn Mengella, sem lengi (eða ekki svo lengi, bara þetta ár) hefur verið það hressasta á netinu, opinberað og lagt sig niður í sömu færslunni. Maður er í sárum. Mengella var:

1. Hildur Lilliendahl
2. Jón Örn Loðmfjörð
3. Ásgeir H. Ingólfsson
4. Þórarinn Björn Sigurjónsson
5. Þórdís Björnsdóttir

Og ekki má gleyma Ólafi Sindra. Hann fékk allavega tékkann fyrir Ísinn.

Hvað hefur nú þetta lið betra að gera en að þykjast vera Mengella? Skrifa ljóð? Jæja, ég þakka fyrir mig. Nú má bara loka Internetinu.
---
Nei annars. Það eru Baggalútur, Jónas og Egill og eitthvað svona hér og þar, nokkur stopul en ágæt blogg. Þið vitið hvað ég er að tala um.
---
Ég hékk yfir Eddunni enda Þorsteinn Guð guð. Ólafía Hrönn og Eyvindur Karlsson sýndu góða takta. Næturvaktin átti allt skilið sem hún fékk enda bestu þættirnir síðan Fóstbræður. Veit ekki með sigurgöngu Foreldra. Fannst það frekar fúl mynd eitthvað og Veðramót mun skæslegri. Ólétta konan reyndar vel að styttunni komin enda mögnuð sem þessi lummulega mús sem hún lék.

11.11.07
Nýtt í veitingahúsagagnrýni: Prikið – fullt hús fyrir "vörubílinn"
---
Íslensk tónlist með góðum íslenskum textum gefur mér einfaldlega miklu meira en íslensk tónlist með enskum textum, skiptir þá engu hvort þeir séu góðir eða vondir – í sannleika sagt heyri ég ekki enska texta sem skilaboð, bara sem enn eitt hljóðfærið í súpunni. Ég tek undir með Bubba og fleiri góðum mönnum hvað þetta varðar, íslenskt er einfaldlega betra og nær manni. Sjálfur hef ég ekki sungið á ensku nema í meikþoku. Bless-platan Gums er á ensku og þess vegna ónýt í mínum huga. Ég sé mjög eftir því að hafa ekki heimtað að hún yrði á íslensku. Allir textarnir voru til á íslensku og allt. Því var bara haldið fram að við myndum selja miklu meira með enskum textum. Þetta var löngu fyrir Sigur Rós og svona. En allavega. Á meðan fólk treystir sér ekki til að syngja á íslensku getur það bara hoppað upp í sitt enska rassgat eins og bjánar. Sí if æ ker, eins og (enska) kerlingin sagði. Topp 5imm í dag er fjögur íslensk lög með enskum textum. Þetta er náttúrlega glatað ástand og hallærislegt. En hvað er hægt að gera? Setja lög á lög? Syngdu á íslensku eða þú verður aldrei spilaður á Rás 2? Mætti reyna það? Taka hörkuna á þetta? Tala um "hlutverk ríkisútvarpsins" og vera harður? Nei nei, þetta hefur sinn gang og kannski áttar fólk sig. Hér koma landráðamennirnir, svikarar við tungumálið og ættjörðina. Þið ættuð að skammast ykkar:


Bloodgroup - Red egypt: Þetta austfirska/færeyska stuðband er komið á kortið með núeitísdansmúsik. Þegar hafa allavega þrjú lög hitt í mark en platan, Sticky situation (Klístrað ástand), er góð í gegn, þótt þau eigi eflaust fullt inni ef þú halda út í aðra plötu. 


Fulli kallinn - Just married: Halli Botnleðja er Fulli kallinn og Hafnafjörður capital of the universe er platan. Hressar melódíur og fjör hjá Halla og ekkert rugl.


Sometime - Heart of spades: Danni í Maus, Curver, söngkonan og einhver gaur eru Einhvern tímann. Þau eru í núreifinu og hafa dúndrað út plötunni Supercalifragilisticexpialidocious. 


Bennys Crespos Gang - Next weekend: Leiló og félagar rokka úr sér lungu og lifur á 9 laga flóðhesti, ellegar nashyrningi. Næsta helgi er gott lag. 


For a minor reflection - Fallegt útsýni: Ósungin lög með íslensk lagaheiti, en einhverra hluti vegna nefna þessir fjórir 18 ára strákar sig upp á ensku, og frekar óþjálu nafni þar að auki. Það eru fullt af póstrokk náttúruvænum nöfnum á íslensku sem hefði verið hægt að nota á bandið, t.d. Andvari, Blær, Draumakunturnar, Eilífð, Foss, Geisp og Herðubreið – svo 7 fyrstu stafir stafrófsins séu teknir sem dæmi. Fyrsta plata strákanna er komin út í brúnum pappa og stendur sig í póstrokkstykkinu.

10.11.07

Abbababb! - bókin kemur út í dag! Ég verð í Bókabúð Máls og menningar, Laugavegi, kl. 14 í dag (laugardag) með kynningu. Landsþekktir listamenn taka þátt.
---
Bókin er 265 x 200 mm og 48 bls. Lýsing: Leynifélagið Rauða hauskúpan fæst hér við dularfullt sakamál þar sem við sögu koma meðal annars diskóboltar og pönkarar, Pála spákona og Doddi draugur, að ógleymdum skuggalegum Rússum og Hr. Rokk. Bráðfjörug saga fyrir hressa krakka! Stórglæsilegar litmyndir Fanneyjar Sizemore prýða bókina.
---
Það eiga enn 18 lög eftir að heyrast í Laugardagslögunum en samt er eins og Ho hoið hans Barða sé búið að vinna þetta. Ekki misskilja, mér finnst þetta frábært lag, frábært atriði og frábært grín, og það væri unaðslegt að fylgjast með því í Serbíu, en kommon pípol, hold jor horses – forsíðan á DV? Er það nú ekki einum of snemmt? Hvað ef Fabúla kemur nú með lag sem er miklu betra en Yesterday og fær Björk til að syngja það? Eða ef Svala kemur með enn fyndnara eurotrash en Barði? Eða jafnvel ef Barði sjálfur kemur með enn fyndnara lag en Ho ho? Fólk er alveg að tapa sér hérna. Sjálfur á ég einn séns enn til að sanna mig og nú þýða engin vettlingatök. Ekkert meira settlegt og sakleysislegt popp. Það er ljóst að fólkið vill flipp og kjöt og grín og þá fær fólkið það. Það þýðir ekkert hálfkák og því er hráasta rokkkjöt Eurovisionsögunnar komið í vinnslu. Úrbeinað og blóðugt á diskinn þinn í desember.

09.11.07
Fátt kemur á óvart í bestu plötur landsins-lista Moggans. Svona er topp 10:

1. Sigur Rós – Ágætis byrjun
2. Trúbrot – Lifun
3. Bubbi – Ísbjarnarblús
4. Bubbi – Kona
5. Megas & Spilverkið – Á bleikum náttkjólum
6. Björk – Debut
7. Sigur Rós – Takk
8. Utangarðsmenn – Geislavirkir
9. Stuðmenn – Sumar á Sýrlandi
10. Emilíana Torrini – Fisherman's Woman

Niðurstaðan fyrir Eru ekki í stuði var svona árið 2000:

1 Sigur Rós - Ágætis byrjun
2 Björk - Debut
3 Megas & Spilverk þjóðanna - Á bleikum náttkjólum
4 Stuðmenn - Sumar á Sýrlandi 
5 Trúbrot - Lifun 
6 Bubbi Morthens - Ísbjarnarblús 
7 Utangarðsmenn - Geislavirkir 
8 Stuðmenn & Grýlurnar - Með allt á hreinu
9 Bubbi Morthens - Kona 
10 Sykurmolarnir - Life’s too good

Ágætis byrjun er enn sú besta en annars færast plötur upp og niður. Fulltrúar 2000-ins eru Takk Sigur Rósar og Fisherman's woman og bola burtu Life's too good (oní 17. sæti) og Með allt á hreinu (oní 13. sæti).
---
Jan Terri - Lose you tonight: Ófríð kerling, leiðinlegt lag, hugsanlega versta myndband sögunnar.

07.11.07
Dreif mig loksins á Veðramót. Nokkuð þétt bara, vel leikin og trúverðug. Samt of endaslepp, hefði mátt vera meira djús í endanum.
---
Meira af plötum sem þarf að tékka á: Sticky situation með Bloodgroup vitanlega og plötuna með Sometime.
---
Skotsilfur er vefsíða um persónuleg fjármál og sparnað. Meðvitaðir neytendur ættu að streyma þangað.
---
"Eftir fund með blaðamönnum" er færsla á síðu Egils Helgasonar. Egill bendir réttilega á að blaðamennska sé síðasta athvarf "próflausra aumingja" og að flestir sem eitthvað geta eru droppát úr skólum, margir ekki einu sinni með stúdentspróf. Ef Egill væri sprenglærður gæti hann eflaust ekki séð um jafn dán tú örð þætti og Silfrið og Kiljuna, enda væri hann sífellt að sýna fram á menntun sína með skrúðmælgi og gáfulegum leiðindum. Vilji fólk komast nálægt því andlausa rassgati sem sprenglærdómur skilar er nærtækast að fletta Lesbókinni. Egill þorir þó ekki að mæla með menntunarleysi. Fjölmargt af því sem flokkast undir menntun er þó greinilega tímasóun og ekki annað en flóttleið upp í eigið rassgat. (En þetta segi ég náttúrlega bara af því ég er ómenntaður ræfill og fullur af minnimáttarkennd.)

06.11.07
Sit hér og hlusta á kassettuna Pakk með samnefndri hljómsveit. Gramm gaf út árið 1982. Snældan mun hafa verið seld í sokk en það fylgir enginn sokkur þessu eintaki sem ég komst yfir. Þetta er ægilegt experíment, þarna eru á ferð Einar Örn og Bragi úr Purrki Pillnikk og Þórólfur Eiríksson og Sveinbjörn Gröndal sem voru í Tríói Ólafs ósýnilega og Lojpippos og spojsippus. Allt saman toppbönd. 
---
Ónefnd hljómsveit vill láta hjálpa sér að finna hljómsveitarnafn. Hér er könnunin. Þetta eru allt hundléleg nöfn sem strákarnir bjóða upp á en það má líka stinga upp á einhverju öðru. Ég er að hugsa um að senda þeim hljómsveitarnafnið Blóðsmokkur.
---
Hér er svo önnur könnun: Mogginn bíður upp á bestu plötu allra tíma. Þetta er nú svipað úrval og könnunin sem ég gerði fyrir rokkbókina um árið. Þá bustaði Ágætis byrjun Sigur Rósar algjörlega kosninguna, enda nýkomin út. Nú verður gaman að sjá úrslitin. Kæmi lítið á óvart þótt Ágætis byrjun þyki enn best. Úrslit verða kynnt á degi íslenskrar tónlistar, 9. nóv. Það kemur á óvart að ein snælda kemst á listann, Minnir óneitanlega á Grikkland með Bag of joys. Ég hef nú ekki einu sinni orðið svo frægur að keyra þá spólu.

05.11.07
Nú dettur mér sjálfum ekki í hug að fara að fóðra vasa Símans og Rúv með hundrað kalli fyrir hvert símtal en ef einhver er í sérstöku stuði til þess þá er símanúmerið fyrir Drepum tímann 900 2201. Ég meina, það væri ekkert verra að slefast í þetta wildcard dæmi. Hið undursamlega lag má svo hlusta á hér:
DREPUM TÍMANN
---
Halli spyr í gestabók hvort Ho ho sé ekki með saman viðlagi og We all live in America með Rammstein. Líkt kannski en ekki eins, myndi ég halda.

04.11.07
Ég neita því ekki að ég var dáldið fúll þegar Ísinn tapaði fyrir fyllibyttuleigubílalaginu hans Magga Eiríks. Í gær átti sófistikeraða kókaíndiskóið Drepum tímann, þrátt fyrir að vera yndislega flutt af Siggu og Kalla og frábærlega pródúserað af Óskari Páli, ekki séns í fríksjóið hans Barða. Ho ho er komið í heilabörkinn á þér eftir eina umferð og situr þar fast svo það kom síst á óvart að það ynni. Og ég er ekkert fúll enda er þetta frábært lag til að tapa fyrir. Ef ég á ekkert að fara að vinna þessa keppni (á reyndar einn séns enn sem verður að nýta til fullnustu) vil ég sjá Ho ho fara alla leið. Frábært lag en algjört rusl. Við tökum Austur-evrópu með trompi með þessu. Því segi ég: Barði til Belgrad! Og ef Valli Sport og Siggi Hlö eru að lesa þetta þá gef ég þeim leyfi til að prenta þetta slagorð á stuðaralímmiða, barmnælur og bolla.
---
Annars eru sigurlíkur Ho ho undir því komnar hvað fólk verður lengi að fá leið á djókinu. Reyndar undir því komnar líka hvort einhver sterkur andstæðingur komi fram. Úrtöluraddir eru þegar farnar að tala um að þetta sé annað Silvíu hneyksli í uppsiglingu og að Barði sé að gera grín. Auðvitað, og hvað með það? Það eru 50/50 líkur á gott gengi grínlaga í sjálfri keppninni úti svo afhverju ekki að reyna einu sinni enn? Reyndar eru meira en 50/50 líkur á góðu gengi, grínlög hafa eiginlega alltaf náð langt. Það var eiginlega bara Silvía Nótt sem náði ekki í mark með grínið, enda náttúrlega kannski full absúrd grín fyrir austantjaldsbolinn. Varðandi gott gengi grínlaga bendi ég á Lordi og norska metalbandið þar áður og svo Austuríkismanninn Alf Poier 2003 (6. sæti með Weil der Mensch zählt) og litháenska megaruslið We are the winners (hugsanlega versta lag í heimi en flaug samt upp úr milliriðli og endaði í 6. sæti 2006). Um þetta verður eflaust rætt næstu vikur og mánuði... 
---
Afhverju hefur Vatíkanið aldrei tekið þátt í Eurovision? Þaðan gæti eflaust komið gott múnkadiskó. Og svo er Guð með þeim í liði. Myndi ekki klikka.
---
Vöðvabúntin hans Barða voru geypihress baksviðs. Ceres 4 er náttúrlega meistari og þurfti að fá tvær umferðir af spraututani áður en hann fékk að fara upp á svið. Tröllið Gazman skóflaði í sig torkennilegu jukki úr bitaboxi og Partý Hans, sem var hálf rindilslegur við hliðina á tröllinu, reyndi að peppa sig upp með armbeyjum. Sjálfur Gillz fór aldrei úr að ofan enda vissi hann upp á sig sökina og sagðist vera off season. Allt saman góðir strákar á bakvið dýrslegan frontinn, en stelpuna sem söng sá ég aldrei á sama stað. Hún mun aðallega vera fræg fyrir það til þessa að syngja bakraddir hjá hljómsveitinni The End.
---
Nú held ég að eina leiðin til að ná úr sér eurohrollinum sé einn nettur Topp 5imm:


7. apríl - Choose your season: Gústaf Hannibal Ólafsson syngur og Hrafn Hrólfsson gerir rest í hljómsveitinni 7. apríl. Þeir eru upp og komandi og það mætti segja mér að þeir eigi nokkrar plötur með The Brian Jonestown Massacre í safninu sínu. Fínt band sem verður stuð að heyra meira í. Á mæspeisinu þeirra má heyra fleiri lög en eitt besta lagið þeirra hefur verið myndskreytt með eggjandi myndbandi hér. Það lag minnir glettilega á The Fall. Fínt stöff.


The Hives - Square one here I come: Litla skoffínið og félagar hans í Hævs er komnir með nýja plötu, The Black and white album. Bandið er nú kannski ekki að skora hátt á töfflistanum í dag enda dáldið svona 2002. Platan er engu að síður fín. Poppaðar pródúseringar og skemmtileg popprokk lög. Hér er eitt með skemmtilegum texta. Hífað stöff.


Sambassadeur - Subtle changes: Meira sænskt, nú poppband frá Gautaborg sem nefnir sig eftir Gainsbourg-lagi. Þetta undurfagra lag er af annarri plötu bandsins, Migration, sem kom út í ár. Gúddí stöff.


Cut Copy - So Haunted: Ástralskt nú-ELO frá Melbourne. Gríðar gott lag af næstu plötu, The Ghost Colours, sem kemur í febrúar. Það verður önnur platan þeirra, Bright like neon love kom út 2004. Topp stöff. 


Tuff monks - After the fireworks: Og enn meira ástralskt, nú undarlegt sædpródjekt úr grárri forneskju (1982). Nick Cave, Mick Harvey og Rowland S. Howard (úr The Birthday Party eins og alþjóð veit) slógu saman með Robert Forster, Lindy Morrison og Grant McLennan (úr The Go-Betweens eins og alþjóð veit) og hljóðrituðu þetta lag og gáfu út á sínglu. Útkoman er stórskrítið bland af straumum þessara tveggja súpergrúppa ástralskrar indiemennsku 9. áratugarins. Og lengra verður varla komist frá Eurovision í dag.
---
Það eru fullt af góðum íslenskum plötum að koma út. Listinn lengist bara af stöffi sem maður þarf að redda sér. Við erum að tala um Megas og Hold er mold, sem ég hef ekki enn skriðið eftir. Við erum að tala um bjargvættina í Sprengjuhöllinni sem eiga vafalaust plötu ársins, plötuna sem gerir það vonandi kúl aftur að syngja á íslensku. Mér finnst þeir frábærir. Veit einhver hvort maður fái eitthvað umslag með eða texta þegar maður kaupir heilar plötur hjá Tónlist.is? Svo erum við að tala um nýja Mugison sem menn eru slefandi yfir eins og þar sé á ferð ný biblíuþýðing. Ofan á þetta nú þegar útkomna stöff legst stöff sem er á leiðinni. Hellvar eru með Bat out of Hellvar, hellvíti góða plötu sem ég hef heyrt og er að fíla í botn. Hjaltalín hafa klárað sína plötu og hún er á leið í framleiðslu. Þau eru að spá í að kalla hana Vla vla vla, en hætta vonandi við það. Að mér var gaukað 9 lögum á disk með Bennys Crespos Gang. Það er fínt stöff en ég veit ekki hvort málið sé að það komi út fyrir jól. Pallinn er með ofurplötu sem má nú forhlusta á hér. Palli klikkar ekki í hommateknóinu og þetta er líklega besta sólóplatan hans só far. Hvað meira? Tja, örugglega hellingur!
---
Og fyrst verið er að skófla þessum vítisenglum öfugum heim til sín aftur getur þá ekki Ríkislögreglustjóri gengið alla leið og skóflað meðlimum Fáfnis úr landi í leiðinni? Ef grafið er nógu langt hlýtur að vera hægt að finna gömul lög um að gera óæskilega menn sem haga sér ekki samkvæmt grunngildum þjóðfélagsins landræka.

03.11.07
Laugardagslögin í kvöld. Drepum tímann er fyrsta lag kvöldsins. Ekki missa af því. Og muna svo að kjósa eins og vindurinn.
---
Einþáttungurinn Í sjoppunnni

Ég: Ég ætla að fá einn Ópal, sykurlausan með xílitol.
Kall: Gjörðu svo vel.
Ég: Hvað er það mikið?
Kall: 170 krónur. Þetta er verðkönnunarverð, he he.
Ég: Ha ha, já einmitt. Heyrðu, ég er frá útvarpinu að gera verðkönnun. Hvað fæ ég þá ópalið á?
Kall: 150 krónur. He he.
(Tjaldið)
---
Pönkaðar auglýsingar í gangi. Leikbær titra í buxunum vegna innkomu Toys R us. Eru með auglýsingar sem segja beisiklí: Þeir eru ekkert ódýrari en við plús það þá erum við íslensk og tölum íslensku og allt. Múrbúðin er að pönkast á Byko í heilsíðu í Fbl í dag og slær því upp að sömu eigendur eiga Krónuna og Byko eins og það sé eitthvað hefí svakalegt. Kannski er öllum orðið geðveikt í nöp við Krónuna núna en Bónus sleppur? Samt eru Bónus og Krónan í sömu súpunni og hvað geta neytendur gert? Beðið og vonað að erlend verslunarkeðja komi hingað og bjargi okkur úr fákeppninni? Það gerist aldrei. Við erum fökkt. Og ef einhver kæmi væru þeir ekki lengi að átta sig á að Íslendingar eru sauðir og væru farnir að okra og tuddast á okkur eins og hinir innan skamms.

02.11.07
Aftur erða skilmingaþrælahringurinn í Laugardagslögunum annað kvöld. Ég hef búið til þennan fína auglýsingaborða hér að ofan til að hvetja fólk til að spandera í lagið mitt nokkrum símtölum. Að þessu sinni verður skilmingaþrælasamlíkingin ekki úr lausu lofti gripin því skv. því sem ég les í 24st í dag ætlar Barði að tefla fram eintómum vöðvabúntum (með Ceres 4 og Gillz í fararbroddi) og hressasta stuðlagi í heimi. Magnús Þór teflir fram Seth Sharp sem vann einmitt Á balli á fyrir 2 vikum. Djöfull verð ég með í magnum yfir þessu, en maður vonar það besta; lagið er ógeðslega gott þótt ég segi sjálfur frá og Kalli og Sigga geisla...

01.11.07
Fann þessa fallegu mynd hjá foreldrum mínum:

Ég sendi þeim hana frá Lyon í nóvember 1986 til hughreystingar. Ég var mjög blankur á þessum tíma enda ekki búið að finna upp vísakortið. Át eina baguette og túnfiskdós á hverjum degi, en heilsteiktan kjúkling um helgar. Eins og sjá má er ég strax þarna rúmlega tvítugur byrjaður að missa hárið. Mér fannst það ekki svo hræðilegt. Hár? Hú kers? Þarna í Lyon gerði ég þó nokkrar tilraunir til að vera hipp og kúl (að mér fannst). Ef glögg er gáð má sjá eiturgræna paisley-munsturs skyrtu undir gráum mjög hallærislegum jakkafötum. Fljótlega eftir að ég kom út fékk ég mér svona Robert Smith-stutt í vöngum, mikið hár ofan á-klippingu (sem ég hefði aldrei þorað að fá mér á Íslandi sökum minnimáttarkenndar), en ég tók þó ekki Robert Smith til fyrirmyndar heldur miklu frekar Roland S. Howard og síðast en ekki síst stamarann Billy Bibbit sem Brad Dourif lék svo eftirminnilega í Gaukshreiðrinu. Billy hætti ekki að stama fyrr en hann fékk að ríða og þessi karakter höfðaði af einhverjum orsökum til mín.
---
Í Lyon dvaldi ég einn vetur og lærði að meta franskar drykkjavenjur eins og að blanda grenadíni í bjór. Er þá kominn rauður bjór sem gengur undir nafninu Monakó. Þá fyrst, og aðeins þá, er bjór orðinn nógu sæmilegur til að hægt sé að drekka hann, finnst mér. Einnig komst ég upp á bragðið með að drekka mint a l'eau - óáfengt mintusírop í vatni. Gúdd tæms, eins og maður segir. Ég skrifaði óútgefna og lélega unglinganóvellu Tuttugu árum of seinn í bíó (undir miklum áhrifum frá Back to the future myndunum), en hætti snemma við að verða rithöfundur, keypti mér kassagítar af ódýrri og obskjúr tegund – Calif – en hann hefur reyndar dugað mér síðan – og samdi megnið af því sem síðar varð platan Goð með S.H.Draumi (sem við erum enn að melta hvernig sé heppilegast að endurútgefa - kannski bara á kassettu?)
---
Ef maður vill mótmæla meintu samráði Krónu og Bónus hvað á maður þá að gera? Þvælast í Fjarðarkaup eða Melabúðina? Matvörumarkaðurinn er sérlega gruggugur og óheilbrigður. Þetta er allt saman þrælrotin rotþró samráðs og okurs. Ætli verði mikið fjallað um þetta í Baugsmiðlunum? Nei ég segi svona.
---
Hvað ætli margir grínarar mæti annars í dag í búðirnar og segjast vera fréttamenn frá Rúv? Ha ha, fæ ég ekki fréttamannaafslátt? Ég skal veðja að Spaugstofan grípur þetta á lofti líka. Níski kallinn sem Karl Ágúst leikur fer í Krónuna og segist vera frá fréttastofu Ríkisútvarpsins. Og svo framvegis!
---
Áfram á neytendavaktinni. Stefán Máni skrifar góða grein um helvítis tuddaskapinn í Byko: Brynja, ég elska þig.
---
Alveg sæmilegur Bakþanki hjá mér í dag. Svo skrifar Bergsteinn góðan pung og vill eðlilega fá Popppunkt aftur. Það eru náttúrlega komin fullt af nýjum böndum og því góður grundvöllur fyrir nýjum skammti. Við Felix ráðum þessu vitanlega ekki en erum báðir ólmir í að taka slaginn. Dagskrárstjórarnir ráða þessu. Við pöntum fund.
---
Hugleikur með fallega mynd af kunnuglegum gaur hér.

31.10.07
Kemur einhverjum þetta á óvart? Bónus og Krónan eigast við á matvörumarkaðnum. Fyrrverandi starfsmaður annarar keðjunnar segir munnlegt samkomulag vera á milli fyrirtækjanna um vöruverð og einnig sé vöruverð hækkað seinnipart dags og um helgar, þegar ekki sé von á verðkönnunum. (af rúv). Muniði verðstríðið um árið? Þegar mjólkurlíterinn kostaði 1 krónu? (ég á enn nokkrar fernur í fyrstinum - djók) Helvítis pungarnir ættu frekar að fara í almennilega samkeppni í stað þess að slá upp gervistríði tvisvar sinnum á áratugi.
---
Loksins skrifar kvenremban Sóley T eitthvað að viti. Mér hefur stundum dottið þetta sama í hug. Þess ber þó að geta að þessar Nastak-romsur eru mun seinna í fréttatímunum en um það leiti er strákarnir á Skjá einum voru að stela frá Símanum. Þá var þetta svona 3. frétt.
---
Tveir kynvillingar, einn mongólíti, hinn surtur, hittu trukkalessu á bar. Þau reyktu öll yndislegar sígarettur.
---
Þetta er vitanlega algjörlega harðbönnuð setning sem lýsir megnustu mannfyrirlitningu. Sá sem talaði svona myndi opinbera sig sem algjört fífl og yrði rasskelltur af blóðheitum félagsfræðingum á Arnarhóli. Rétta orðanotkunin væri: Tveir samkynhneigðir menn, annar með Downs heilkenni, hinn blökkumaður, hittu samkynhneigða konu sem keyrir vöruflutningabifreið, á bar. Ekkert væri minnst á sígaretturnar enda er bannað að mæra slíkt á almannafæri.
---
Sjálfur Bó tekur þátt í afeitrun tungumálsins. Eftir því sem ég kemst næst er hann hættur að tala um "bolinn". Notar nú "einstaklingar".
---
Annars langar mig ekkert til að lesa þessa 10 litlir negrastrákabók fyrir Dagbjart. Hann nennir aldrei að hlusta á ljóð og grettir sig bara þegar ég reyni að troða Dr. Seuss upp á hann. En kannski er allt í lagi að endurútgefa þessa fornaldar negrabók, svona eins og Mein Kampf eða eitthvað. Og fyrst verið er að grafa upp gamla smelli og endurútgefa er þá ekki kominn tími til að endurútgefa Harmsögu ævi minnar e. Birkiland? Það er eitt þessara verka sem maður hefur aldrei séð eða lesið en heyrt heilan helling um. Hér er t.d. gott yfirlit úr Ský.
---
Ég er skýjum ofar vegna næsta framlags míns til Laugardagslaganna. Þetta er hvílík massíf gargandi poppsnilld að það hálfa væri nóg. Lagið heitir Drepum tímann og textann gerði Bragi Valdimar Skúlason, eþs Bragi Baggalútur. Lagið syngja þau Sigga og Kalli, eþs Sigga í Hjaltalín og Kalli í Baggalút. Kannski verður fundið eitthvað sneddí nafn á dúettinn (Ég og þú, Þara flokkurinn, Flex?) Prógrammer og pródúser er hinn ofsaklári poppsilfurrefur Óskar Páll sem bæ ðe vei er eini Íslendingurinn sem hefur unnið Eurovision (Pródúseraði norska vinningslagið Nocturne með Secret Garden 1995). Lagið verður frumflutt á laugardaginn, en þá verða einnig lög frá Barða og Magnúsi Þór. Það er líklega hægt að komast að sem klappandi áhorfandi í sal, ágætis skemmtun og frír bjór. Skrifið lovisaa@ruv.is, ef þið eruð í stuði.
---
Hengilsvæðið er gullfalleg náttúruperla við bæjarfótinn. Bæði er unaðslegt að ganga á Skeggja (hæsta punkt Hengils) og fá sér heitt bað í lækjunum í Reykjardal. Nú stendur víst til að rústa pleisinu til að búa til Bitruvirkjun sem á að dæla orku í álver í Helguvík sem á svo að framleiða ál ál og meira ál og ál ál ál – aaaargh! Ég hef reyndar engar myndir séð af þessari Bitruvirkjun og veit ekki nákvæmlega hvar hún á að vera, en fólk mér fróðara um þessi mál telur þetta óðs manns æði og hefur opnað síðu um framtíð Hengilsvæðisins. Er í uppsiglingu enn eitt umhverfisstríðið? Hei, Samfylking, ég minni á fallega umhverfisbæklinginn sem þið gáfuð út þegar þið voruð enn í stjórnarandstöðu.
---
Kærkomin kynslóðaskipti: (úr fréttatilkynningu:)
SALA HEFST Á TÓNLEIKA SPRENGJUHALLARINNAR, MOTION BOYS OG JEFF WHO? FIMMTUDAGINN 1.NÓVEMBER
Það eru breyttir tímar í íslenskri popptónlist. Svo virðist sem lítt burðugt sveitaballapopp sé á undanhaldi og ferskari kynslóð sé tekin að úða olíu á nær útbrunninn kyndil íslenskrar popptónlistar.

Af þessu tilefni, og þessu til sönnunar, blása þrjár af vinsælustu poppsveitum Íslendinga til tónleika á NASA við Austurvöll föstudaginn 16. nóvember nk. Þar koma fram Sprengjuhöllin, Jeff Who? og Motion Boys. Milli atriða sér hinn ógurlegi Terrordisco um skífuþeytingar.

Miðaverð á tónleikana er 1500 krónur og hefst miðasala 1. nóvember á miða.is og í verslunum Skífunnar og BT á landsbyggðinni. 

Þá þurfa Motion Boys og Jeff who? bara að fara að syngja á íslensku til að ferilinn sé fullkomnaður.

29.10.07
Abbababb! sýningar #26 og #27 í gær. 6000. gesturinn fékk gjafir (sjá baksíðu Mbl). Þá eru bara 3 sýningar eftir og síðustu forvöð að sjá meistaraverkið.
---
Er hér axlaraumur, hausverkjaður og verkjatöflufullur. Held ég kaupi mér rándýran heilsukodda í dag, þetta gengur ekki. Í dag liggur fyrir að taka upp næsta eurovision-smell en frumheimssýning verður á laugardaginn. Um er að ræða annað stuðlag, "Drepum tímann". Þriðja og síðasta framlag mitt til Laugardagslaganna verður líka stuðlag, það heitir líklega "Prinsessan mín". Ég nenni ekki að semja ballads í ár.
---

Elísabet Lára er nýr starfsmaður Okursíðunnar. Elísabet verður fimm mánuða á morgun og er almennt hissa á lífinu. Hún hefur einu sinni sogið melónu, en að öðru leiti þekkir hún ekki annað en geirvörtur móður sinnar. Það hefur aldrei verið okrað á Elísabetu og því er hún vel til starfans fallin.

28.10.07
Rúnar Júl í Höllinni var magnað stöff, algjört best off, bandið í blússandi stuði og meistarinn sló ekki feilnótu. Sagnfræðileg skemmtiatriði Bjögvins Franz gerðu úr þessu nokkuð Vegas-legt sjó, sem var bara vel til fundið. Bakkstage var náttúrlega aðalfjörið og meistarar eins og Gylfi Ægis, Bó og Bubbi svifu um. Ég talaði við Gylfa í fysta skipti á ævinni og komst að hann er um þessar mundir að mála risastóra mynd af látnum hundi Karls Möllers, hljómborðsleikara og Woody Allen lúkkalæk. Gylfi opnar heimasíðu sína í nóvember, sagðann, og sagði að það yrði "ævintýraleg" heimasíða. Ég ámálgaði þann möguleika að kaupa af honum málverk og hann sagði mér bara að hringja. Bó var hress og fékk sér vindling með Baggalúti. Bubbi var enn hressari og sagði hvílíkar bransasögur að menn hvítnuðu upp (hann fékk sér þó ekki vindling). Ef Bubbi hættir allt í einu að geta spilað og sungið getur hann hafið nýtt líf sem uppistandari og gert allt vitlaust með mannlýsingum sínum og tröllasögum. Shady var þarna líka, Mæja Baldurs, Jón Ólafsson í vatninu, Maggi Kjartans og ég veit ekki hvað og hvað. Gríðarlegt persónugallerí og allir stuði í.
---
En nú erða safnplatan Splundrskessur og krúttmagar, eþs Topp 5imm:


Monnípeningaglás - Bæn: Í undirbúningi fyrir kassettuþættina hef ég komist að því að fólk er enn gefandi út kassettur árið 2007. Hin mjög svo dularfulla kvennahljómsveit Monnípeningaglás mun t.d. hafa gefið út kassettuna Jóhann Húss og handóðu mæður hans á þessu ári, í átta eintökum held ég, a.m.k. er mitt númer 6/8 og kostaði 200 kall í 12 tónum. Nafnið er fengið úr ljóði Dags Sigurðarsonar sem hér er tekið til efnislegrar meðhöndlunar af stelpunum.


Doddi - Beautiful görl: Spóluna Split með þeim Dodda og Loja hafði ég reyndar séð eitthvað um í Mbl. Hér leyfa þér sér hvað sem er enda má allt á snældum. Listamennirnir eru í hljómsveitum, Loji í Sudden weather change, sem þykir eitt það besta síðan smurosturinn kom á markað,  Doddi í Heróglym. (Bónus: Loji - Jacques Chirac)


Akron/Family - Phenomena: Þessi magnaða ameríska hljómsveit spilar á Organ 7. des með Hjaltalín og verður nánast ókeypis inn, eða 1700 kall. Kvartettinn ku almagnaður læf og verður örugglega dýrvitlaus hér enda er það síðasta giggið í túrnum. Love is simple er hin frábæra nýja plata og þetta er smáskífulag af henni. Gúdd tæms.


Siouxsie & The Banshees - Red light: Siouxsie var algert goth megabeib og ásamt Lydiu Lunch sú kvennímynd sem maður bjóst við að draga með sér heim af Zafarí (é ræt). Kaleidoscope er mikið meistaraverk með henni og bandinu frá 1981. Hún mun hafa verið að gefa út nýja sólóplötu í ár sem ég nenni nú varla að tékka á. Tvær Siouxsie tilvísanir hef ég séð í bíómyndum nýlega; Cate Blanchett er gamall Siouxsie aðdáandi í myndinni Notes of a scandal og eiginkona Ian Curtis finnur símanúmer viðhalds Ians inn í umslagi fyrstu plötu Siouxsie, Join hands.


Serj Tankian - The unthinking majority: System of a down hefur hrisst af mér ófá kílóin á brettinu, enda eru hröðu lögin þeirra algjör snilld í svitamyndnarathöfnum. Fyrir það er ég Serj söngvara þakklátur. Nú hefur hann gert sólóplötuna Elect the dead, sem er eflaust ágæt þótt lögin séu því miður ekki nógu hröð til að gagnast á bretti. Eiginlega öll hæg eða miðlungs en þetta tekur á sprett og má vera með í tónhlöðunni.

25.10.07
Ég er merkilega lítið fyrir að besservisserast. Eða það ímynda ég mér. Í Fbl í dag á bls. 16 á Tilveru-síðunni sem ég sá einu sinni um er þó poppfræðilegt rugl sem ég fann mig knúinn til að besservisserast yfir og sendi email: Þykir miður að geta ekki setið á mér að besservisserast aðeins varðandi örpung í blaðinu í dag með að lagið Popcorn hafi verið upphafsstef Nýjustu tækni og vísinda. Það var það aldrei (svo mig rámi í a.m.k.), en lagið var samt kynningarlag einhvers annars þáttar, líklega Skonrokks, án þess ég þori að hengja mig upp áða. Lag með Kraftwerk var vissulega notað í Nýjustu tæknum og vísindum, a.m.k. síðustu árin, lagið Home computer af plötunni Computer world (1981). Úff, nú iða ég ekki í besservisserskinninu lengur. - ÖPPDEIT: Stefið í NTOV var með Tworld undir það síðasta, en Home computer Kraftwerks þar á undan.

24.10.07
Er Samfylkingin í rauninni bara fín eftir allt saman? Eini flokkurinn sem hugsar um svo kallaðan almenning? Fyrst ætlar Dagur Bé að bjarga Kolaportinu og svo þetta frá Björgvini Gé:

Vörugjöld, stimpilgjöld og uppgreiðslugjöld afnumin
Á fundinum kynnti ráðherrann nýja sókn í neytendamálum og sagði ráðuneytið myndu vinna að því á kjörtímabilinu að stuðla að góðum viðskiptaháttum í íslensku samfélagi og því hefði verið ákveðið að hrinda af stað heildarstefnumótun á sviði neytendamála. Meðal annars stendur til að setja lög um greiðsluaðlögun til að skapa leið til að létta óyfirstíganlega skuldabyrði fólks án þess að til gjaldþrots komið.
Björgvin sagði að fyrsti áfangi vinnunar væri hafinn en í honum felst að háskólastofnunum hefur verið falið að vinna ítarlega rannsókn á stöðu neytendamála. „Markmiðið er að skapa réttindum og hagsmunum neytenda verðugri sess í samfélaginu, vinnna gegn háu verðlagi á Íslandi á Íslandi sem margir kalla fákeppni [og] okur á sumum sviðum. Við ætlum að vinna gegn háu verðlagi, auðvelda almenningi að takast á við breytta verslunarhætti, styrkja og auka vitund neytenda um sinn rétt," sagði Björgvin.
Hann benti á að á hinum Norðurlöndunum hefðu hefðu neytendamál stóran sess og vitund neytenda væri sterk, „Það er erfitt til dæmis að okra á Dönum. Fólk er mjög meðvitað um þessi mál," sagði ráðherra. (af MBL)

Verður þá kannski okursíðan óþörf eftir smá tíma? Það er auðvitað stefnan. Kannski óþarfi að fagna alveg strax, en ég segi allavega Húrr fyrir Bjögga pönk.
---
Íslandsáhugafólk er sérstök tegund af fólki, en ég skil það alveg. Ísland er náttúrlega upplagt til að dást að úr fjarlægð; landslag sem maður getur upplifað smæð sína í samhengi hlutanna í, klikkaða listræna liðið, menningarafurðirnar. Wim Van Hooste er á kafi í íslenskri tónlist og bloggar um það hér: http://icelandicmusic.blogspot.com. Hann sýnir mikið úthald og heldur upp á Heiðu. Síðu henni til dýrðar starfrækir hann hér: http://gotohellvar.blogspot.com. Topp gaur!
---
Eitt er lítilsháttar pirrandi við hina stórfenglegu Airwaves hátíð. Það er allt þetta myndavéla- og kameru-fargan sem má sjá á hverju einasta giggi. Bönd eru varla byrjuð að spila fyrr en tíu ljósmyndarar eru búnir að taka upp kameruna í fremstu röð og beina henni að því sem fyrir augu ber. Það er eitthvað svo upplifundarskemmandi að sjá bara ljósmyndara berjast um besta sjónarhornið og flassblikkandi kamerur. Þetta var sérstaklega pirrandi á Rvk! gigginu á Gauknum, enda er sviðið svo lágt þar. Maður var ekkert að spá í þetta í Listasafninu.
---
Þetta minnti smá á alla tónleikana sem maður fór á sem var verið að taka upp fyrir Rokk í Reykjavík veturinn 1981-82. Það var jafnvel enn verra, járnbrautarteinar á sviðinu og Friðrik Þór bendandi út í loftið. Mér er minnisstætt í hinu horfna Hafnarbíói þegar atriði Sjálfsfróunar og Vonbrigða voru tekin upp að HC missti þolinmæðina og öskraði: Burt með myndatökumennina! Burt með myndatökumennina! Það brást þó ekki að þegar kameru var beint að bandi fór það umsvifalaust í stellingar og í svaka stuð. Þess vegna eru allir í miklu meira stuði í Rokki í Rvk en þeir voru dags daglega. Kameran kveikti svona í þeim.
---
Annað pirrandi á tónleikum í dag er að annar hver maður er sífellt takandi mynd á myndavélasímann sinn. Allt í kringum mann er lið að lyfta upp símanum sínum og svo að skoða myndina á skerminum. Æi nei nei, ég skal ekkert láta þetta pirra mig eins og einhver karlfauskur. Bara krúttlegt, ehaggi?

23.10.07
Það er alltaf jafn spennandi þegar maður kemur í nýjar götur í Reykjavík. Í gær kom ég í fyrsta skipti á ævinni í Rauðagerði í skóla FÍH til að æfa með hljómsveit Rúnars Júl. Æsandi stórtónleikar Rúnars eru einmitt í Höllinni á laugardaginn og grundvallaratriði að fá sér miða. Í bandinu eru synirnir, Júlli og Baldur, Tryggvi Hubner, bassaleikari Deep Jimi og Þórir Baldursson er hljómsveitarstjóri og hamrar á Hammond og fleira. Áður en ég tók í spiluðu þeir Lífsgleði af hvílíkri snilld að maður fékk dún í hnén, en samt á Shady eftir að mæta og allt. Jóhann Helgason var þarna líka í miklu stuði og Rúnar var mjög hress og mundi textana eins og að drekka vatn. Held þetta verði glæsilegir tónleikar.

21.10.07
Toppsi fimmsi er mættur, ópalangandi og kaffipeppaður:


Svanhildur & Sextett Ólafs Gauks - Ef bara ég væri orðin átján: Sándið sem Óli Gaukur var með hef ég hvergi heyrt annars staðar og það fær mann til að finnast það vera algjörlega séríslenskt. Þegar ofan á bætist kætandi söngur Svanhildar (og Rúnars) þá er komin blanda sem hellir æsilegri nostalgíu yfir mann í hvert skipti sem maður rekst á hana. Hér er notalegt stuðlag af 4 laga ep-plötu frá 1968. Textinn er eftir Ólaf en bónusstig eru í pottinum fyrir þann sem kemur með höfund og þekktasta flytjandann (í gestabók). 


Kevin Ayers - Song for insane times: Norman úr Teenage Fanclub hefur tekið upp nýja plötu með Kevin Ayers ("Unfairground"), en Kevin líklega er þekktastur fyrir veru sína í hljómsveitinni Soft Machine. Fylgdi sögunni að sólóplata Kevins, Joy of a toy frá 1968, væri vanmetið meistaraverk. Ekki þurfti ég að lesa meira því ég trúi alveg meðlimum Teenage Fanclub og tékkaði á plötunni. Hún er góð. 


Silver fleet - Come on plane: Áður en strákarnir sem stofnuðu 10cc stofnuðu 10cc ráku þeir hljóðverið Strawberry studios 1969-1972 og dældu þar út eftir pöntun tyggjórokki, fótboltalögum og allra handa stöffi. Á hinni ilmandi safnplötu Strawberry bubblegum má finna rjómann af þessu efni. Tyggjóbændurnir Jerry Kasenetz og Jeff Katz voru með í púkkinu og sömdu þetta lag ásamt Grahman Gouldman. Kevin Godley syngur og sínglan er frá 1971. 


Sort sol - Boy-girl: Sort sol var fyrsta danska pönkbandið, eða gerði allavega fyrstu dönsku pönkplötuna, Minutes to go 1979. Bandið hét reyndar Sods þá og alveg fram á þriðju plötuna, Dagger & Guitar sem kom 1983 og innihélt m.a. þetta bráðfjöruga ræflarokk. Sort sol voru nógu kúl til að hin guðumlíka pönkdrottning Lydia Lunch syngi með þeim í þessu lagi. (Engin almennileg mynd fannst af bandinu svo Lydia kemur í staðinn, enda mun sætari.)


Sunset Rubdown - The Mending of the gown: Og nú; nútíminn. Þessir eru frá Montréal eins og margt gott og spila svona ofsakaflaskipt og marglaga indípopp með mjórri röddu (eins og önnur hver hljómsveit í dag). Af glænýjustu plötunni, Random spirit lover, sem var að koma út á vegum Jagjaguwar. Þetta opnunarlag grípur mann strax með trukki en svo er restin meira seigfljótandi.

20.10.07
Húrra fyrir Of Montreal! Ógeðslega góð þrátt fyrir smá tæknirugl í byrjun.
---
Húrra fyrir Reykjavík! Ógeðslega góðir og tudduðu þétt.
---
Húrra fyrir Degi Bé, sem ætlar ekki bara að bjarga öllu í leikskólunum (Sjálfsstæðismenn höfðu enga lausn á því, vældu bara um nauðsyn þess að "hugsa út fyrir rammann"), heldur líka bjarga Kolaportinu. Húrra fyrir Degi!
---
Húrra fyrir Þorsteini Guðmundssyni sem fékk mig til að hlæja upphátt yfir því sem hann sagði um götuheiti í Fbl. Hommagrund. He he. Húrra fyrir Þorsteini!
---
Húrra fyrir Næturvaktinni! Ógeðslega góðir þættir. Djöfull er ég ógeðslega jákvæður.

19.10.07
Engin biðröð í TRU áðan og ég gat rétt komist yfir síðasta mp3 spilarann. Reyndar bölvað rusl en allavega ekki á nema 1800 kall. En þetta er hryllileg búð. Ég veit eiginlega ekki hvenær ég get komið þarna með soninn án þess að fá stress- og þunglyndiskast. Kannski í janúar.
---
"Mannakjöt bragðast eins og svínakjöt - bara örlítið beiskara," segir þýska mannætan, sem lét gamlan draum rætast og át tölvunarfræðing. Fyrst átu þeir lim tölvunarfræðingsins saman, en hann hafði étið 20 róandi pillur og drukkið heila flösku af áfengi áður. Held ég þyrfti meira. Kannski mannát verði ásættanlegt þegar fram líða stundir. Þegar sigur auðvaldsins verður hvílíkur að þeir ríku lifa í sér heimi með vopnuðum vörðum til að halda ræflum frá (eins og sumstaðar er þegar komið, t.d. í Brasilíu), þegar þeir ríku hafa það milljón sinn betra en ræflarnir og geta lifað a.m.k. öld lengur með rándýrum pillum frá Decode. Að auki verður kaldlyndið og siðleysið orðið svo útsmogið og allsráðandi að mannát við hátíðleg tækifæri verður félagslega samþykkt. Aðalfundur FLgrúpp í kvöld: boðið verður upp á þrjár einstæðar mæður á teini og Stebbi og Eyvi syngja Nínu og fleiri lög. Stutt í þetta. Bara spurning um áherslur.
---
Bolurinn lét ekki að sér hæða í gær og myndaði biðröð fyrir framan Toys R Us frá því að opnað var kl. 10 og fram til lokunar. Ég ætlaði með Dagbjart að skoða dótið (dótabúðir eru hans uppáhalds búðir) og ég ætlaði að auki að ná mér í mp3spilara á erlendu verði (minn gafst upp í gær og ef ég neyðist til að hlusta á sykurþvottavélina á "útvarpi World Class" í aðra tvo tíma ábyrgist ég ekki andlega heilsu mína). Klukkan 16 voru 30 manns hímandi í röð í slagviðri og ég lét mig auðvitað hverfa, enda dreg ég línuna við að bíða í röð eftir að komast inn í búð. Ætli verði biðröð í dag líka?
---
Mér sýnist absólútt augljóst að ég fari á Airwaves í kvöld og sjái þau tvö bönd sem hæst bera þarna að mínu mati, Deerhoof og Of Montreal. Þau spila með klukkutíma millibili sitthvoru megin við Tryggvagötuna svo maður þarf að vera á tánum...
---
Þess má einnig geta að Of Montreal ætla að spila í Bókabúð máls og menningar á Laugavegi kl. 18 í dag. Bókabúðin hefur verið stöppuð með litlum giggum, eins og reyndar fleiri off-venue staðir, en OF MOnt sem sé kl. 18 í dag.

18.10.07
Rjómaísvefur Jóns er vitanlega standandi bit yfir afhroði Íssins í Júró. Og vegna fréttaflutnings síðustu daga þá tek ég fram að mér hefur frá fyrsta degi verið full kunnugt um að ég sé að taka þátt í Júróvisjón.

17.10.07

Ég er nú að undirbúa fjögurra þátta seríu þar sem ætlunin er að kynna kassettu útgáfu á Íslandi. Við erum að tala um gríðarlega vinnu því hvergi eru til útgáfulistar yfir þetta. Ég ætla því að henda upp einum slíkum í leiðinni. Umfjöllunarefnið verður útgáfur af tónlist (ekki upplestur þ.e.a.s.) íslenskra flytjenda sem voru bara gefnar út á spólum. Þetta eru oft miklar neðansjávarútgáfur í fáum eintökum svo ég þarf alla þá hjálp sem lesendur geta veitt. Ég á sjálfur um 60 spólur sem falla í þennan flokk. En ég býst við að fjöldi útgáfna sé kannski 200-300 stk, maður veit ekki. Meðal meistaraverka sem komu bara út á snældum og hafa legið í gleymskunnar dái nefni ég:

OXZMÁ - Biblía fyrir blinda (1984)
Fan Houtens Kókó - Musique elementaire og Það brakar í Hr. K (báðar 1981)
Texas Jesús - Njammsa tjammsla (1993)

Svo eru haugar af safnspólum, bæði það sem ég gaf út á Erðanúmúsik, og annað. Ekki hika við að senda línu ef þú telur þig geta hresst upp á kassettuminni mitt eða bent mér á spólu sem verður að vera með.
---
Hvers vegna ættu strákarnir í Sigur Rós að vera hressir í viðtölum? Hér er hið víðfræga viðtal. Bráðskemmtilegt. Í fyrsta viðtalinu sem ég tók við bandið um vorið 1999 gerði ég þau mistök að væna þá um gríðarlegar hassreykingar. Hélt því fram að þeir hlytu að vera útúrhassaðir til að búa til svona músik. Þeir voru fúlir út í mig næst þegar ég sá þá en svo gleymdist þetta, enda eru bara hálfvitar sem erfa hlutina endalaust.
---
Á heimasíðu Don Pedro sá ég þessa sönnu greiningu á fréttum:

Fréttir á Íslandi eru ömurlegar
Fréttir á Íslandi skiptast í eftirfarandi:

75% - fréttir af peningum, auðjöfrum og hlutabréfum, kryddað með einkaþotuskýrslum og innherjasvikum. Nokkuð sem breytir ekki lífi 92% landsmanna, en gerir það samt að verkum að fólk talar orðið ekki um neitt annað en peninga. Sem er ömurlegt umræðuefni, og ekki það mikilvægasta í lífinu.

11% - fréttir af veðurhörmungum, stríði og Írak

9% - fréttir af Lindsey Lohan, Britney Spears, og Paris Hilton. Barmafylltar, útúrkókaðar og lausgirtar Hollywooddræsur sem hafa engin áhrif á líf mitt. 

5% - fréttir af því sem er að gerast í heiminum og á Íslandi í alvörunni. 

16.10.07

Guðbergur Bergsson heill þér 75 ára í dag. Þú varst sá lang besti af því þú varst alltaf svo fyndinn og enginn hefur komið í staðinn. Runa meistaraverka hófst með smásagnasafninu Leikföng leiðans 1963 og lauk með Sögunni af Ara Fróðasyni og Hugborgu konu hans 1980. Síðan hafa vissulega komið nokkur samskeytin inn, en ekki Svanurinn. Það er slöpp bók, sama hvað kellingum finnst.

Ungur maður, sléttholda, líkur skógarpúka, mændi á okkur úr dyrunum. Ef trúa á vörðunum var hann fágætt fyrirbrigði geðveiks fávita. Slíkar manntegundir eru fágætar í heiminum. Fávitar hafa ekki nægilegt vit til að verða geðveikir. (úr Ástir samlyndra hjóna, bls. 176) 

Var ekki annars flokkunin svona: Hálfviti, fáviti og örviti? Mig minnir að þessi vísindalega flokkun hafi verið kennd í skóla. Ég man a.m.k. greinilega þegar Óli yfirkennari kenndi okkur krökkunum muninn á mongóla og mongólíta.

15.10.07
Ég er búinn að vera með þessa síðu í meira en 6 ár. Ég hef aldrei nennt að gera þetta öðruvísi en svona, á einhverju fornaldar html. Ég byrjaði með blogg á blog.is. Það var drasl. Ég eyðilagði það 2 dögum síðar. Ég byrjaði með mæspeis síðu fyrir ári eða eitthvað. Ég var kominn með 800 og eitthvað vini en núna, rétt í þessu, var ég að eyðileggja mæspeis síðuna mína. Þetta var ekkert nema bögg. Endalausar tilkynningar um að kommentað hefði verið á síðuna, sem var svo ekkert nema auglýsingar um einhverja tónleika. Upp á síðkastið fylltist þetta svo allt af spammi. Þar fyrir utan er mæspeis alltaf ógeðslega hægvirkt. Maður er að bíða 5 mínútur eftir því að einhver lög byrji. Og að auki er Satan sjálfur eigandi Mæspeis. Ég nenni þessu ekki og segi: Mæspeis, hoppaðu upp í rassgatið á þér.
---
Síðasta sýning á Abbababb! verður að öllum líkindum 18. nóv. Það er því um að gera að panta miða og tékka á þessu glæsilega barnaleikriti.
---
ÍSINN er ekki alveg bráðnaður oní úldna ormagryfju lúserlaga Júró-undankeppna. Rúv bíður nú landsmönnum af einstakri væntumþykju og engu öðru (9990 aurar hvert símtal) upp á þann möguleika að kjósa á milli ÍSSINS og hins lúserlags síðasta laugardagslagaþáttar (If I fall in love e. Svölu Björgvins). Það er eitthvað voðalegt system í gangi, sem ég hef ekki kynnt mér, en það er semsé enn von að ÍSINN slefist áfram og endi jafnvel á sviði í Slóveníu, eða hvar sem þetta verður haldið í maí.

Hlustið á hina almögnuðu poppsnilld hér: ÍSINN.

Kjósið eins og þráhyggjusjúklingar með stolið vísakort í síma 900 2201.  Það virðast ekki vera nein takmörk fyrir því hvað má kjósa oft. Úrslit verða svo tilkynnt kl. 15 á Rás 2 á laugardaginn.

Lesið færslur textahöfundarins Mengellu um málið hér. Mengellan er líka með sjálfan textann og fallega teikningu af væntanlegri aðstoðarstúlku.
---
ASÍ gerði verðkönnun í lágvöruverslunum. Í fljótu bragði sýnist mér Bónus með fleiri ódýrari vörur en Krónan, en ég hef samt séð auglýsingar í Krónunni þar sem þeir snúa niðurstöðunum sér í hag. Allavega tryllist Bónus, segir niðurstöðuna rugl og bannar ASÍ að gera fleiri kannanir. En bíddu bíddu... Þarf Bónus eitthvað að samþykkja að gerð sé verðkönnun í búðinni? Hringja kurteisir ASÍ-menn alltaf á undan sér svo búðirnar geti lækkað verðin rétt á meðan? Afhverju þarf Bónus að gefa leyfi? Getur ekki hver sem keypt sömu körfu hjá Krónu og Bónus og birt niðurstöðurnar? Þetta er albjánalegt. Kannski ég fari að gera verðkannanir ef ASÍ ætlar að láta tudda sig til hlíðni. Verður mér þá ekki hleypt inn í Bónus? Það væri þá eitthvað. Þetta minnir mig á mál fyrir sirka 10 árum þegar Gísli, sem nú rekur Nexus, fékk ekki að sjá myndir í Sambíóunum því þar fannst þeim hann ekki gefa myndunum nógu góða dóma. Gísla skrifaði dóma fyrir DV í þá tíð og fékk ekki að fara inn í Sambíóin. Amnesty International tók því miður ekkert á því grófa mannréttindabroti. 

14.10.07
Uss... Þá á maður bara eftir að tapa fyrir Helgu Möller í Eurovision.
---

Ég var að horfa á bestu stuttmynd allra tíma hjá höfundinum Sigga Sigga Bang Bang. Ég er enn eftir mig og vankaður af geðshræringu. Myndin nefnist Dauðataflið og er meira en 15 ára gömul. Í henni sést bæjargersemin Stefán Grímsson vinna leiksigur og vinur minn, fræðimaðurinn Steinn Skaptason fer á fágætum kostum (Lesið stórkostlega úttekt hans á hljómsveitinni Eik). Meistari David Lynch hefði aldeilis getað notað þá Stein og Stefán. Sjón er sögu ríkari. Siggi Bang (ekki skildur Axeli Bang) kynnir líka til sögunnar stuttmyndina Bæjarmelir um hina goðsagnakenndu bæjarvinnu í Kópavogi.

13.10.07
Jæja. Í kvöld: heimsfrumflutningur á lagi mínu ÍSINN í sjónvarpsþættinum Laugardagslögin. Heiða syngur en dulkvendið Mengella skóp textann, eftir ströngum fyrirmælum og nokkrum viðbótum mínum. ÍSINN er dillandi gleðipillupopp, snargrípandi og hamingjuvekjandi. Þetta er tvíburi Heilans. ÍSINN er fyrsta lag kvöldsins, verður flutt um kl. 20:20. Boðið verður upp á símakosningu og hvet ég alla til að eyða peningunum sínum í þetta þarfa átak. Kannski við komumst þá til Slóveníu. Keppnin er geypihörð í kvöld. ÍSINN keppir við ballöðu eftir Svölu Björgvins sem Edgar úr Lúxor syngur og blúslag eftir Magga Eiríks sem Pálmi Gunnarsson syngur. Allar að kjósa – popplýðræði í verki!
---
Ég hef sankað að mér vinýlplötum eins of mofo að undanförnu. Kíkti á Curver í gær þar sem hann var að setja upp sýninguna sína í Listasafninu (Glaumbæ). Margt gott stöff þar – allir að mæta!, sýningin hefst í dag kl. 12, sýnist mér. Tók forskot og keypti eitthvað, þ.á.m. nokkrar plötur sem ég átti en hafði selt Curver og bróðir hans Arnari þegar ég tók kast um árið og seldi allan vinýlinn minn. Ég hafði lengi staðið af mér CD-byltinguna og fannst CD krapp í mörg ár. En svo einn daginn, líklega svona 1991, nennti ég þessu ekki lengur, enda eina leiðin til að nálgast nýja músik á CDum, seldi megnið af vinýlnum og hóf CD-væðingu. Sem endaði svo í fyrra þegar ég seldi CDana með netsölu. Nú kaupi ég notaðan vinýl og dánlóda. Kaupi m.a.s. dánlód líka, aðallega íslenskt á tonlist.is. Í gær fór ég líka í Góða hirðirinn og keypti eitthvað rusl þar á 200 stk. Tók eftir að þar var frískara úrval en vanalega. Strákarnir eru kannski farnir að flokka þetta og henda draslinu úr. Ég hef líka kíkt á þá Hannes og Ingvar, sem eru með sitthvorn básinn í Kolaportinu og svo auðvitað í Geisladiskabúð Valda. Topp 5 í dag er því eðlilega stafrænt sýnishorn af þessum innkaupum:


Fred Schneider & The Shake Society - I'm gonna haunt you: Fred var og er í The B52's (þau eru að gera nýja plötu!). Fann fyrstu sólóplötuna hans í Góða hirðinum ("Fred Schneider & The Shake Society" 1984) og hún er partístuð eins og von var á. Áhrif The B52's voru mikil á íslensku hipp og kúl klíkunni sirka 1984. Ekki nóg með að Rock Lobster hafi verið spilað til óbóta á Zafarí heldur var fólk umvörpum klætt í svona amerísk partíföt. Flóin og Dóra Einars. Þetta er líka skemmtilegt fifities lúkk með gay kitch ívafi og tróð sér inn í kúlturinn víða, t.d. í bíómyndina Something Wild. Þetta er eigthies sem bragð er af.


Landscape - Einstein a go go / Norman Bates: Ég hafði aldrei heyrt um þetta band þegar ég sá plötuna í Góða hirðinum. Platan heitir því tölvupopplega nafni "From the tea-rooms of Mars... to the hell holes of Uranus", er frá 1981 og er svona líka ljómandi. Hér fáiði 2 hittara sem eru í beit á plötunni. Fyrra lagið komst í 5 sæti í Englandi en lagið um sækóinn fór í fertugasta sæti. Wiki kemur sér vel ef þið viljið vita meira.


John Cooper Clarke - The Ghost of Al Capone: Mjóni gamli er pönkljóðskáld frá Manchester sem virðist ekki eldast neitt. Honum brá fyrir í Ian Curtis-myndinni Control og var alveg eins þar og í gamla daga. Karlinn hitaði upp fyrir pönkböndin og gerði plötur, bæði með þurrum upplestri og músik. Hér er lag af sjöttu plötunni hans, Zip style method, sem kom út 1982 (og ég keypti í Góða hirðinum) og var með annað Manchester-legend, Martin Hannett, á tökkunum.


Plasticland - Pop! Op drops: Upp úr 1980 fór að bera á böndum í Paisley-skyrtum sem tóku sér sixtísmúsik til fyrirmyndar, bæði rokkið og sýruna. The Fuzztones, Dream Syndicate og Green on Red eru meðal þessara "Paisley underground"-banda, eins og þessi lína var síðar kölluð. Plasticland var í genginu, voru frá Milwakuee, Wisconsin, og rokksýrðu út og suður á mörgum plötum. Þetta stutta en flotta lag er af þeirri fyrstu, Color Appriation frá 1984 (sem ég endurheimti frá Curver). Þess má geta að þetta er eitt af uppáhaldslögum Trausta Jónssonar veðurfræðings. Það sagði hann mér þegar ég ræddi við hann um árið í heimildarvinnu fyrir Eru ekki allir í stuði?


Zager & Evans - Mr. Turnkey: Flestir tónlistarmenn ná aldrei að búa til vinsælt lag sama hvað þeir hamast. Aðrir hitta einu sinni á óskastund og eiga einn risasmell og síðan ekki sögunnar meir. One hit wonders eru þeir kallaðir, einssmellsundur er hin lélega þýðing. Mér dettur strax í hug lið eins og Babylon Zoo og Norman Greenbaun í þessu sambandi. Í fríðan flokk ohw má sannarlega setja dúett þeirra Denny Zagers og Rick Evans frá Nebraska, sem sprengdi poppskala 1969 með þessu framtíðarlagi sem Rick samdi að sögn á 30 mínútum árið 1964 og var búið að liggja lengi í skúffu áður en það var tekið til flutnings. Lagið fór á toppinn í USA, var þar í 6 vikur og smáskífan seldist í 5 milljón eintökum. Fólk hafði samt nákvæmlega engan áhuga á öðru efni frá dúettnum þótt þeir reyndu allt til að halda vinsældum. Mr. Turnkey var næsta lag sem kom út á sínglu en komst ekki einu sinni á lista. Stóra platan (sem ég keypti hjá Ingvari) er full af jafn vonlausu stöffi. Í dag býr Zager í Englandi og smíðar gítara, en Evans er lögfræðingur og semur einstaka sinnum lög. (Bónus: Zager & Evans - In the year 2525 (Stórsmellurinn. Ætli lagið verði dregið upp og spilað (í geimvörpum framtíðar) árið 2525? Ef þeir félagar hefðu haft meira viðskiptavit hefðu þeir átt að nefna lagið In the year 2005. Þá hefðu þeir fengið stefgjöld í hittifyrra. Þetta gerði Prince og mokaði inn feitt á 1999.)
---

Stelarc hefur látið græða eyra á hendina á sér. Hann heyrir ekki með eyranu. Enn meira flipp hefði verið ef hann hefði grætt tittling á ennið á sér, eða rassgat á hökuna.
---
Krónan á Granda er nýja uppáhalds "lágvöru" matvörubúðin mín. Mér sýnist Krónan hafa sigrað Bónus í síðustu verðkönnun og svo er þetta bara flott búð, rúmgóð og hrein og ekki þessi mannastía sem Bónus á Seltjarnarnesi er. Í Krónunni er líka heilsuhorn og dálítið útlenskt lykt í loftinu. Krónan!

Krakkar léku saman