17.10.08
Mér finnst Gagnaeyðing hafa auglýst full mikið upp á síðkastið. 
---
Það eru tvö átök framundan. Fyrst trommuhringur í dag kl. 17 á Ingólfstorgi. Almennt pepp:

---

Næsta átak er svo á laugardaginn kl. 15 á Austuvelli. Einföld krafa: Burt með Davíð Oddsson seðlabankastjóra:

http://www.nyirtimar.com/

Ég er skráður þarna sem aðstandandi, set nafnið mitt undir. Þau töldu það sterkt. Þekkt andófsfólk eins og Biggi í Gus Gus og Hörður Torfa þar að auki. Kannski þetta endi sem nýtt band. Það er vitanlega öllum ljóst að Davíð greyið þarf að taka pokann sinn. Og þótt fyrr hefði verið. Að láta Davíð hætta væri fyrsta skrefið í aðgerðarpakka Ríkisstjórnarinnar sem ég lagði fram í Bakþanka í gær. Fjölmennum. Þetta verður eitthvað svo hallærislegt ef bara 300 mæta gaulandi Njallann.
---

Mjöög - Gluggagægir + Flughoppið / Mjöög - Helvítis gráðu fífl
Frá Mjöög: Þá er við hæfi að halda enn eina (og þá síðustu) minningartónleika um Purrk Pillnikk. Það eru ekki allir vissir um ágæti þessa framtaks en við lofum að þetta kemur frá hjartanu. Morðingjarnir hita upp, ókeypis inn, Grand Rokk í kvöld!!!
Hér renna strákarnir sér einnig í lag e. mig af hinni dílíteruði Að gefnu tilefni.
---
Líkt og Eiríkur Örn Norðdahl fékk ég þetta bréf frá helgarblaði Fbl í fyrrasumar:

Bentu á þann sem að þér þykir bestur ...
Hver er besti auðmaður Íslands? 

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jóhannes í Bónus 
Björgólfur Thor
Björgólfur eldri
Lýður og Ágúst Guðmundssynir – Bakkarvararbræður 
Ingibjörg Pálmadóttur og Lilja Pálmadóttir 
Sigurður Pálmason 
Hannes Smárason
Ólafur Ólafsson 

NEFNA SKAL ÞRJÁ EFTIRLÆTISAUÐMENNINA OG META ÞÁ EFTIR EFTIRFARANDI ÞÁTTUM:
Gott að fá einhver rökstuðning með valinu. Kvót sem birt verða með. 

a) Stíll og ásjóna
Klæðnaður og útlit. Hvernig er fatastíll þeirra. Hafa þeir gott sjónvarpsútlit (a la Kennedy til dæmis). Hvernig bera þeir sig og hafa þeir góðan smekk?

b) Hegðun og framkoma
Þennan þátt má meta eftir því til dæmis hvernig auðmennirnir koma fyrir á opinberum vettvangi. Eru þeir orðheppnir? Hvaða einkunn gefurðu þeim fyrir góðverk sín? Hvernig koma þeir fyrir  í viðtölum? Hvernig hafa þeir þeir hagað sér í viðskiptalífinu – sem sjentilmenn eða óþokkar? 

c) Munaður og lúxus
Hver á flottustu bílana og kann best að nýta sér lífsins lystisemdir? Hver á flottustu flugvélarnar og húsin? Hver lifir öfundsverðasta munaðarlífinu? 

Þetta er svona "hringt í marga"-efni eins og vinsælt var og er að gera. Eiríkur neitaði að taka þátt í þessu, en ég er alltaf svo góður og eiginlega á því að gera alltaf allt sem fjölmiðlar biðja mig um. Ég hef meira að segja verið í blaði Heimdellinga for kræin át lád. Því skrifaði ég til baka:

Er þetta nokkuð bundið við þessa 9 í viðhenginu? Þetta er náttúrlega allt saman hundleiðinlegt, óáhugavert og glatað pakk en ef ég hef frjálsari hendur en þessa 9 þá get ég eflaust týnt eitthvað til. 

Ég mátti fara út fyrir rammann en gerði það svo sem ekki. Niðurstaða mín var þessi:

1. Jóhannes í Bónus er ,,besti auðmaður Íslands” af því hann var einu sinni venjulegur maður og virðist muna eftir rótunum og rækta sambandið, t.d. með því að birtast annað slagið í búðunum og raða klósettpappír. Af því sem maður hefur heyrt er hann mjög alúðlegur við starfsfólk og heilsar öllum en strunsar ekki framhjá því eins og sonurinn á að gera. Að auki er Jóhannes óhræddur við að segja skoðanir sínar, kaupir sér jafnvel heilsíður ef honum liggur sérlega mikið á hjarta.

2. Björgólfur eldri er næst bestur. Man tímana tvenna og er því nokkuð niðri á jörðinni. Ef maður sér hann út á götu er hann iðulega brosandi og virðist heilsa öllum. Svo er hann nokkuð galsafenginn í klæðaburði og minnir einna helst á Willy Wonka.

3. Bjarni Ármanns fær brons. Hann á óvenjuleg áhugamál (útsaum og rokksöng) og ber með sér það fas að vera nokk sama hvort hann sé auðmaður eða ekki. Honum er alveg trúandi til þess að gefa skít í þetta allt saman einn daginn og ganga til liðs við jógakölt. 

Ég get svo sem alveg staðið við þetta. Nema með Bjarna ræfilinn. Ég held hann sé ekkert kominn í jógakölt út í Noregi.

16.10.08
Það er ekki sannfærandi að nýi ríkisbankastjórinn neitar að gefa upp hvað hún fær í laun. "Nýja Ísland" verður sem sé ekkert gegnsærri og meira upp á borðinu en "Gamla Ísland", bara sama gamla súpan, allir með spilin þétt við brjóstið. Bara miklu fleiri atvinnulausir og líklega miklu verri misskipting. Þetta er glatað. Hvað ertu með í laun kona? Þú ert ríkisstarfsmaður, ekki Lárus fokking Welding.
---
Ég auglýsti eftir röddum rithöfunda. Hér er Einar Már. Verst að hann er á dönsku.
---
Fór á glataða mynd í gær án Björns. Svaf helminginn af tímanum. Eins gott að hann var ekki með. Hefði verið glatað að liggja slefandi utan í Hr. Dómsmálaráðherra. Ég mæli alls ekki með Hamlet 2.
---
Ég sýndi pabba gamla sósíalista hallir ríkukallanna í gær. Aumingja gamla manninum varð flökurt.
---

Lay Low - Last Time Around
Farewell Good Night´s Sleep, ný plata Lay Low, er það lang besta sem hún hefur gert. Mér hefur aldrei fundist hún eitthvað spes en á þessari plötu koma allir þræðirnir saman í gegt flottan pakka. Þetta er algjört laidback monsterhitt, sándið eins og Texas 1958 eða Lee og Nancy, ókorní kántrípopp og bara rosalega gott stöff. Við erum undanbragðalaust að tala um fullt hús. Til hamingju! Útgáfutónleikar Lay Low eru í kvöld kl. 20.30 í Fríkirkjunni og svo spilar hún á Nasa (Airwaves) kl. 23.15. Platan er komin út á tónlist.is en kemur í verslanir þriðjudaginn 21. október.

15.10.08
Hvaða vitleysa, ég kann mjög vel að meta að Björn Bjarnason vitnar í mig á heimasíðu sinni. Mér finnst mikil upphefð í að hann gefi sér tíma í þetta nú þegar mestu hamfarir fjármálasögunnar ríða yfir þjóðina. Ég kann svo vel að meta þetta að ég bauð Birni í bíó. Því hefur hann ekki svarað. Tilboðið er samt enn í fullu gildi. Björn heldur hinsvegar að ég sé hundfúll og skrifar: Í gær vitnaði ég hér í dagbókinni í dr. Gunna, af því að ég safna ummælum þeirra, sem brjótast undan ritstjórnarvaldi eigenda sinna. Dr. Gunni kunni ekki að meta, að ég vitnaði í orð hans (skyldi hann hafa fengið skömm í hattinn?). Hann segir í dag:
„Sjálfur Björn Bjarnason vitnar í lítlfjöllegan mig v/ játninga minna um ósýnilega sjálfsritskoðunarvaldið. Þetta finnst honum spennandi karlinum, ennþá hjakkandi í gömlum og einskisnýtum hjólförum. Þetta gefur honum kannski von um að heimurinn sé ennþá svart/hvítur en ekki í hommafánalitunum, eins og hann er.“
Ég játa, að „einskisnýt" hjólför þekki ég ekki og ekki var ég að vitna dr.-inn með fánaliti í huga heldur vegna þess, sem hann sagði. Hann hlýtur að standa við það - eða hvað?

Auðvitað stend ég við það. Ég veit ekki hvernig það var á Mogganum í gamla daga en á Fbl fá menn ekki skammir í hatta. Kannski var svar mitt í gær of flækt. Það sem ég vildi segja var að ég, einn 320.169 Íslendinga, er orðinn hundleiður á þessu endalausa "við á móti ykkur" typpatogi sem allt gengur út á á Íslandi. Ég útskýrði afstöðu mína í einfaldri yfirlýsingu þann 05.10:

Ég held ekki með Baugi.
Ég held ekki með Davíð Oddssyni.
Ég held bara með því að hér verði rekið heilbrigt þjóðfélag á jafnaðargrundvelli og að við losnum við tröllin af bakinu á okkur!

Mér sýnist og ég vona að þegar rykið af spýtnabrakinu hefur sest verði hér heilbrigt og tröllalaust þjóðfélag. Gegnsærra. Eðlilegum spurningum eins og hverjir borga fé til stjórnmálaflokka verði svarað. Bananalýðveldislegum lögum eins og þessum um extra lífeyrisréttindi stjórnmálamanna verði hent út á hafsauga. Ég vona vona vona það. Ef boðið verði upp á áframhaldandi þras og status quo fer maður bara að hugsa sér til hreyfings. Kannski bara til Kanada eins og langafi. Það nennir enginn gamla Íslandi aftur upp á nýtt.

Það sem ég vildi þó helst segja er að fólk er ekki hrætt lengur við ríkukallana sem áttu hér allt. Ástandið var orðið gríðarlega óeðlilegt því sami litli hópurinn var með puttana í öllu. Borgaralegt uppsteyt gegn föllnum eigendum landsins greini ég til dæmis hjá Kjartani Pétri Sigurðssyni og glæsilegri myndaseríu hans HÉR ERU MYNDIR AF MILLJÖRÐUNUM SEM HURFU! Hann hefði aldrei þorað að birta þetta á þennan hátt fyrir hrunið. Hér er einhver Pelgi með myndir af Range Roverum, táknmyndum sturlunarinnar. Og þetta er vonandi bara byrjunin á uppgjörinu. 

Minni svo aftur á bíóið, Björn. Láttu nú ekki svona, ég er ekki óvinur þinn. (Skil samt alveg ef þú kemst ekki, nóg að gera og svona).
---
Þetta hafa verið gríðarlega tens dagar. Heilinn á manni hefur verið í algjöru óverlódi. Ég held að þjóðin öll sé í svipuðum gír enda hafa heimsóknir á fréttaveitur stóraukist. Traffíkin hingað hefur líka aukist mikið. Ég hef mest verið að slefa í 30.000 hits á mánuði, en nú er mánuðurinn hálfnaður og ég þegar kominn með 30.000 hits. (sjá) Maður lepur allt upp sem maður sér. Fréttamiðla og bloggara. Mér þykir verst að heyra ekki í skáldunum. Fólkinu sem lifir á því að skrifa. Skoðanir þeirra heyrast varla. Ég væri alveg til í að heyra hvað Guðbergi Bergssyni, Sjón, Hallgrími Helgasyni, Einurum Kára- og Má Guðmundssyni, Ólafi Hauk Símonarsyni, öllum glæpaköllunum og Ólafi Jóhanni Ólafssyni, jafnvel, finnst um ástandið. Þeir ættu að byrja að blogga.
---
Sigmundur Halldórsson skrifar: Sá á blogginu þínu að þér fyndist eins og það væri 1981 nema bara með netinu - þetta hér er þess vegna ótrúleg lesning, geri ráð fyrir að við séum báðir aðeins og ungir til að muna eftir þessu. BTW 1974 er annars nokkuð skemmtilegt ár en það er magnað hversu margt er líkt.
---
Einar Ómar veit að ég hef gaman að Tinna og sendi mér þetta: 

14.10.08
Ólafur Ragnar Grímsson er ekki minn forseti. Það er mjög langt síðan mér fannst hann ókei, enn lengra síðan mér fannst hann fínn. Vigdís var ágæt en Kristján Eldjárn bestur. Hann hefði aldrei yfirgefið fólkið sem kaus hann í embætti til að dingla með froðuhyski í einkaþotum og í snobbstúkum á fótboltaleikjum. Nú á að snúa vælandi í ræturnar þegar frauðplastið sem hann dýrkaði er fuðrað upp. Ég get ómögulega tekið þátt í að kóa með þessu. 
---
Sjálfur Björn Bjarnason vitnar í lítlfjöllegan mig v/ játninga minna um ósýnilega sjálfsritskoðunarvaldið. Þetta finnst honum spennandi karlinum, ennþá hjakkandi í gömlum og einskisnýtum hjólförum. Þetta gefur honum kannski von um að heimurinn sé ennþá svart/hvítur en ekki í hommafánalitunum, eins og hann er. 
---
Það þarf auðvitað ekki að leita lengra en til orðatiltækja eins og "ekki bíta í höndina sem fæðir þig" til að vita að þetta er allsstaðar eins, á öllum fjölmiðlum landsins. Og þarf engar sérstakar játningar til að það liggi ljóst fyrir. Þetta er álíka augljóst og að sonur Davíðs og frændi eru í sínum djobbum vegna fjölskyldutengsla, ekki yfirburða hæfileika. Allt sem liggur í augum uppi, liggur í augum uppi, og þarf ekki að þrasa um í þaula eins og alltaf gerist samt á Íslandi. Við erum algjört þraspakk. Það er þrasað og þrasað þangað til allir gleyma um hvað er verið að þrasa eða eitthvað annað kemur upp á sem hægt er að þrasa um. Ef það væri ekki þrasað svona mikið væri til dæmis búið að ákveða eitthvað með þennan blessaða flugvöll eða hvort við ætlum í Evrópusambandið eða ekki. Þrasið er versti ókostur Íslendingsins og að þurfa alltaf að spila með "í liði". Hér ætti bara að vera eitt lið og við ættum öll að vera í því.
---
Ef nýi vinur minn, Hr. Dómsmálaráðherra, vill skella sér með mér á bíó annað kvöld (miðvikud), t.d. á myndina Hamlet 2, kl. 18 eða kl. 20, þá skal ég sækja hann og allt. Ég er með kort frá Satani, 365, sem gildir fyrir tvo. Þú mættir samt alveg splæsa í kók og popp. Sendu mér bara email ef þú vilt koma í bíó, elsku nýi bloggvinur minn. Ég vona innilega að þú sjáir þér þetta fært (eða þá bara seinna).
---
Blaðamaður Dagens nyheter rakti úr mér garnirnar í gær. Mér fannst hún svakalega illa undirbúin. Þekkti ekki Jón Ásgeir frá Björgólfi Thor og ég þurfti að útskýra allt. "Sko, þessi átti búð með pabba sínum og svo átti hann allt í einu allt á Íslandi, en hinn átti bjórverksmiðju í Rússlandi og varð allt í einu einn af ríkustu mönnum í heimi. Enginn skildi þetta en allir fengu yfirdráttarheimild eins og þeir vildu enda var talað um "offramboð á peningum". Svo fóru þeir báðir á hausinn og við þurfum að borga upp yfirdráttinn og engar refjar." Hún krotaði eitthvað hjá sér og sagði svo að líklega færi ekkert af þessu í blaðið. Það væru allir orðnir leiðir á Íslandi og þessu rugli hérna. Þetta væri ekki disaster area lengur og það nennti enginn að fylgjast með uppbyggingarstarfinu. Svona alveg það sama og ef það kemur jarðskjálfti í Blingblong, þá eru allir að telja líkin í tvo daga, en svo nennir enginn að hanga lengur og segja frá rústabjörgun og uppbyggingu. Við erum því sloppin í bili, æ gess.
---
Hér er teiknimyndasaga sem ég birti í fyrra í Rafskinnu 1. Líf og dauði í fisvinnslu Sigvalda.
---
Getur einhver hjálpað mér: Ég las einhvers staðar á netmiðli í gær um einhverja bók eftir breskan fyrrverandi bankamann sem var orðinn geðveikur af góðærinu og græðginni. Þá gekk hann út og hætti og er nú greinarhöfundur hjá einhverju blaði og er að skrifa um fyrringuna. Veit einhver hver þetta er? Svara í gestabók takk.

13.10.08


Hér erum við á Ísafirði í sumar fyrir utan Bónus. Pétur Friðgeirsson tók. Heimamenn eru flestir á því að með innkomu Bónus í bæinn hafi verðlag batnað og úrval aukist mikið. Sjálf Jónína Ben segist fíla Bónus. Sjálfur geri ég alltaf magninnkaup í Bónus enda margsannað og algjörlega á tæru að þetta er ódýrasta matvörubúð landsins. Krónan segist hafa þann metnað að vera "alltaf einni krónu dýrari en Bónus", en það er í flestum tilfellum bara þvæla og ömurlegt metnaðarleysi þar að auku. (Það er reyndar skemmtilegra að versla í Krónunni, flottari búðir og svona). Sjáið t.d. samanburð á morgunkorni sem ég fékk sendan og er #1347 á Okursíðunni
---
Bónus hefur því jákvæða ímynd í hugum Íslendinga. Bónus okrar minnst á okkur. Því notar Jón Ásgeir eðlilega búðina til að reyna að gera sína ímynd jákvæðari. Hann mætti með gögn í Bónuspoka til dómara og sagði hjá Agli í gær að hann væri alveg tilbúinn í að fara að vinna á lyftara hjá Bónusi. Ég held það séu reyndar engir lyftarar í gangi hjá Bónus, kannski frekar hjá Aðföngum, byrgðageymslunni sem dælir út dóti á þrjá staði, Bónus/Hagkaup/10-11, þar sem þeir eru seldir á þremur mismunandi verðum. Auðvitað væri eðlilegast og sanngjarnast að Jón Ásgeir missti allt sitt og færi að vinna á lyftara. Hann kæmi niðrá jörðina til okkar hinna.
---
Því hvað var þetta hrunda draslbrask annað en flug um himnaskaut? Til hvers voru menn að standa í þessu? Hvað með þá einföldu hugmynd að vera bara með sitt fyrirtæki, reka það vel og reyna að vera til gagns fyrir þjóðfélagið? Vera decent náungar, fair og skver, en ekki krepptir saman í andlitinum af græðgi og rugli. Hvenær og hvers vegna stakk sú hugmyndin niður kollinum að menn þyrftu endilega að eiga allan heiminn? Og til hvers langar einhverjum það? Til að vera guðir sem deila og drottna? Brást uppeldið?
---
Annars er ég ekkert að segja að Jón Ásgeir sé krepptur af græðgi í framan. Hann er alveg þokkalega jákvæður í framan þótt ég hafi enga samúð með honum eða hans málstað. Bara svona sveittur gaur eitthvað í braski. Ákaflega lítið töff. Hefur alltaf minnt mig á Tóta í Íslenska draumnum. Og þessi grein er um subbulegt ástand. Liðið bara á fylliríi. Á þetta lið ekki börn til að vera heima hjá? Held maður myndi nú bara vera heima og horfa á rómantíska gamanmynd með konunni við svipaðar aðstæður. 
---
Mun svipljótari kapítalistar hafa legið á landinu og éta nú vonandi úldinn skít. Hvar er Finnur Ingólfsson? Er hann ekki alltaf á bakvið allt? Hann er krepptur í fésinu og spillingin lekur af honum. Sömuleiðis Hannes greyið. Maður sér það nú langar leiðir að eitthvað er að. Ólafur í Samskip er með þetta fés líka. Þótt hann eyði peningum í rokkara.
---
Sjáiði hvað ég er kræfur? Eitt af því fjölmarga góða við hrunið er að maður er ekki lengur HRÆDDUR við þetta lið. Hvernig er hægt að vera hræddur við lið með skít upp á bak sem búið er að koma landinu á kúpuna? Auðvitað þorði maður ekki að tala hreint út eða segja eitthvað því þetta lið átti ALLT. Ég held að hvað sem fólk reyni að stinga hausnum í sandinn með að eignarhald hafi engu skipt þá sé það einfaldlega rangt. Hin ósýnilega hönd sjálfsritskoðunar hvíldi alltaf á lyklaborðinu. Allavega mínu.
---
En áfram með útrásarvíkingana (æl). Einhver ætti að taka sig til og búa til ríkukallatyggjó með auðjöfrum núna þegar þeir eru fallnir og orðnir að óreiðumönnum. Björgólf Thor hef ég aldrei séð öppklós, en hann ætti að hætta þessu rugli og fá að vera skemmtanastjóri á Tunglinu aftur. Eða fara bara á lyftarann líka, hjá Eimskipum. Pabbi hans er óneitanlega hlægilegur náungi. Alltaf smælandi og heilsandi öllum sem hann sá. Mér fannst það reyndar mjög jákvætt. Mér var hlýtt til hans því hann heilsaði manni allavega þótt hann þekkti mann ekki neitt. Kannski lá hans siðferðislega samfélagslega ábyrgð í því að heilsa öllum? 
---
Ég sá Bjarna Ármanns í WC Seltjarnarnesi. Hann var eitthvað flóttalegur fannst mér, enda stutt í hrunið þá. Frábær gaur, segir Bubbi. Á maður ekki bara að trúa því? Hann allavega var nokkuð krútt með prjónana sína. Veit samt ekki hvað tengdamömmu hans finnst. 
---
Bakkavarabræður eru eitthvað lið sem ég sá aldrei og aldrei bar neitt á. KB-tvíburarnir voru alltaf nokkuð solid fannst manni og hrundu þá allavega síðastir. Sigurður eins og moldvarpa og Hreiðar eins og héri. Ég var einu sinni við hliðina á Hreiðari á bretti í WC (sjá) og það kom mér á óvart hversu mjög hann líktist bara einhverjum flissandi fmhnakka í framkomu. Pálmi Haraldsson er stundum í WC líka og með svona Finns Ingólfssonar svip. Eitthvað í pokahorninu lúkkið.
---
Ég át bröns á Vox í gær (eða mötuneyti Hótel Esju eins og það heitir vonandi bráðlega). Þar var ennþá góðæri og ég þurfti að losa beltið í græðginni. 2750 kall á kjaft og alveg fínt. Hey, ég átti afmæli! Þar í röðinni var Róbert Wessman sem er víst ógeðslega ríkur og gefandi milljarða hægri vinstri og á tvær einkaflugvélar eða eitthvað. Hann virðist nokkuð ókrepptur í framan, voða blíður eitthvað með aflitað hnakkahár. Ég veit ekkert um þennan gaur nema að hann er stundum með mér í venjulegu sturtunni í WC. Og sá sem getur staðið á typpinu í almenningsklefa innan um samborgara sína er ókei í minni bók. Geir Haarde og Einar K Guðfinnsson gera það líka en Össur og Lúðvík þurfa að fara í snobbklefann með ríkari typpunum.
---

Aumingja arabinn sem henti 25 milljörðum í Kaupþing nokkrum dögum fyrir hrunið. Allt farið út um gluggann eins og áblásinn fífukollur. Líklega er þetta samt smotterí fyrir hann. Svona eins og ef ég tapaði 20 þúsund kalli í niðurfelldri utanlandsferð með Iceland Express. Samt. Hann hefði getað keypt átta Boeing 757 fyrir þennan pening. 

12.10.08
Karlarnir í sturtu í WC voru að ræða málin. Mér skildist á þeim að okkar helsta von sé að allt fari í köku alls staðar annars staðar í heiminum líka.
---
Ég skildi þetta ekki. Abba og Vilhjálmur Vilhjálmsson vinsælastu tónlistarmenn á Íslandi, nú árið 2008? Það var eins og það væri bara ennþá árið 1978. Meikar allt saman mun meiri sens núna!
---
Hitti Jóa í Vonbrigðum í Kolaportinu. Við urðum ásáttir um að það sem tæki nú við væri 1981 en bara með interneti. Okkur þótti það satt að segja alveg fínt.
---
Hitti Óskar Jónasson í bókasafninu. Hann sagði: Nú er manni sagt að maður verði að halda áfram að kaupa og kaupa svo hjól atvinnulífsins stöðvist ekki. Hvað gerast þá eiginlega?, spurði ég. Við vissum það ekki. Ætlum því að halda áfram að kaupa og kaupa þar til við getum ekki meir. Hjól atvinnulífsins má ekki stoppa. Eða svo er manni sagt. Ef það stöðvast ryðst þá eitthvað höfuðskrýmsli illu kapitalistana fram og étur alla – eitthvað Matrix dæmi? Eða kemur kannski bara annað hjól sem snýst ekkert verr en gamla hjólið? Hjól atvinnulífsins getur hoppað upp í rassgatið á sér.
---
Það er helgarfrí frá atinu. Er ekki hægt að framlengja helgina með nýjum neyðarlögum? Bara út í hið óendanlega? Nei uss, hjól atvinnulífsins, mannstekki.
---
Kreppan hefur drepið hagfræðinginn. En búið til 300.000 nýja í staðinn.
---
Er kreppa? Maggi Guð spáir í spilin.
---
Hvað er hægt að gera við allan peninginn sem við skuldum Bretum? Óli Sindri fer í verslunarleiðangur.
---
Ég veit satt að segja ekki hver skuldar hverjum og hvað það er mikið, nú í þessu hruni öllu. Var það ekki 12 sinnum þjóðarframleiðsla Íslands? Svo maður smætti þetta, þá er ástandið eins og maður myndi allt í einu fatta að maður er með 70 millur í fullnýttann yfirdrátt og hann gerir ekkert nema safna dráttarvöxtum. Það er óhætt að fullyrða að maður myndi velta sér á koddanum við slík tíðindi.
---
Okursíðan er full af gúmmilaði. Aldrei eins nauðsynleg og nú, býst ég við.
---
Uppbyggilegur fjöldapóstur frá Elleni Kristjáns, góð lífsspeki ættuð frá Charles Schultz, höfundi Peanuts. 

Þú þarft ekki að svara spurningunum. 
Lestu verkefnið og þér mun verða þetta ljóst: 

1. Nefndu fimm auðugustu einstaklingana í heiminum. 
2. Nefndu fimm síðustu sigurvegara í fegurðarsamkeppni Evrópu. 
3. Nefndu tíu einstaklinga, sem hafa unnið Nobels verðlaunin. 
4. Nefndu sex leikara og leikkonur, sem unnu Óskars verðlaunin á síðasta ári. 

Hvernig gekk þér? 

Niðurstaðan er, að enginn okkar man fyrirsagnir gærdagsins. Þetta eru ekki 
annars flokks afreksmenn. Þeir eru þeir bestu á sínu sviði. En klappið deyr 
út. Verðlaunin missa ljómann. Afrekin eru gleymd. Viðurkenningarnar og 
skírteinin eru grafin með eigendum sínum. 

Hér eru nokkrar aðrar spurningar. Sjáðu hvernig þér gengur með þær: 

1. Skrifaðu nöfnin á fimm kennurum sem hjálpuðu þér á þinni skólagöngu. 
2. Nefndu þrjá vini, sem hafa hjálpað þér á erfiðum stundum. 
3. Nefndu fimm einstaklinga, sem hafa kennt þér eitthvað mikilvægt. 
4. Hugsaðu um fimm einstaklinga, sem kunnu að meta þig að verðleikum. 
5. Hugsaðu um fimm einstaklinga, sem þér þykir gott að umgangast. 

Auðveldara? 

Lexían: Fólkið sem skiptir þig mestu máli í lífinu eru ekki þeir, sem hafa bestu meðmælabréfin, mestu peningana eða flestu verðlaunin. Heldur þeir, sem finnst þú skipta mestu máli. 

11.10.08
Ég bendi á góðan bás Trausta og Helgu í Koló um helgina (sjá að ofan). Brandari Baggalúts um Kolahöllina er enn ein snilldin þaðan. Dallas-leiðin er líka snilld.
---
Það segir sitt að sameining Moggans og Fréttablaðsins hafi verið tíunda frétt eða eitthvað. Bæði blöðin skulda skrilljónir svo þau ákváðu að gifta sig. Þá komast þau af með einn skrjóð og eina kjallaraholu. Næsti víxill ku falla í nóv. Nú á að reyna að skrapa saman fyrir honum.
---
Faðmaði Helga í Góu í gær upp á Rúv og hópknúsaði gömlu MK-ingana Hrabbí og Gunnu. Það var ekkert korní við það. En verður vonandi eftir viku. Svo fór ég í bæinn. Sýndist ég sjá grátandi konu við Krambúðina. Vona að hún sé bara alltaf svona í framan. Á Kaffitári, Bankastæti, bætti ég kaffi latte (380 - okur!) í eignasafn mitt en afskrifaði skömmu síðar í klósett. Þarna var biðröð og það gaf mér von. Líka að það væri setið á öllum borðum. Ketill Larsen sat á einu með myndverk sín. Hafði hemil á mér að kaupa eitt. Það lá lágt muldur yfir staðnum. Eins og að á hverju borði væri verið að leysa vandann. 
---
Nýtt fólk og ný hugsun held ég að sé óumflýjanleg niðurstaða þegar rykið sest. Á liðið sem kom okkur á botninn virkilega að redda okkur aftur upp með sömu hugmyndafræðinni? Auðvitað ekki. Maður spyr sig hvort Ísland sé of fámennt til að manna nýtt lið inn á völlinn. Þessar nýju bankastýrur eru ný andlit en maður veit svo sem ekkert um þessar konur. Það að Auður capital sé bara í ágætum málum er gleðilegt. Það væri traustvekjandi múv að meirihluti brunaliðsins væri kvenkyns. Strákarnir koma heim til mömmu og sleikja sárin eftir fylliríið. Í þynnkunni fatta þeir svo: Æ, sjitt, ég er ekki bara ógeðslega þunnur heldur barði ég saklausan mann í gær (breska sparifjáreigendur). Kræst, ég vona að ég hafi ekki nauðgað einhverjum.
---
Það sem rústaði öllu var auðvitað "þetta reddast" viðhorfið. Og líka Eurovision-viðhorfið. Við héldum að "útrásarvíkingarnir" (ég fer næstum því að æla þegar ég slæ þessu orði inn) myndu sko aldeilis rústa þessari söngvakeppni eins og Gleðibankinn. Það var bara formsatriði að mæta til keppni.
---
Seðlar og mynt í umferð á Íslandi er 16.624.714.000 kall. Það hlýtur að vera til gullfótur á móti. Í því ljósi eru ofurlaunin geðsjúk. Ég er ekki að segja að liðið hafi gengið út með 5000 kalla í ferðatösku, en samt. Til dæmis 300 millurnar hans Lalla Weld, það eru 1.8 prósent af öllu reiðufé sem til eru í landinu!!! Einn gráhærður stráklingur, miklu yngri en ég, fékk þessa upphæð fyrir að byrja í vinnunni! Venjulegur lúði væri svona 100 ár að vinna fyrir þessu. Og þetta er bara hluti af því sem grámann fékk Og þetta er bara eitt af fjölmörgum svona óráðsíu geðveikisdæmum. Neró gerði hest að ráðherra. Það er mun minni sturlun er þetta. Ég held að mun minni skaði væri skeður ef allir ráðherrar íslensku ríkisstjórnarinnar væru hestar. 
---
Kreppubrandararnir eru byrjaðir: Bandaríkjamenn eiga George W. Bush, Stevie Wonder, Bob Hope og Johnny Cash. Íslendingar eiga Geir Haarde en no wonder, no hope og no cash.
---
Ef gleðigjafinn Guðni "Hr. Rugli" Ágústsson hefur ekki ruglað sig út í horn með paprikunni sinni forðum þá gerir hann það með þessum derringi út í Breta. Heldur hann að ástandið lagist eitthvað ef múgurinn brýtur allar rúðurnar í breska sendiráðinu? Verð þó að segja Framsóknarmönnum það til tekna að tal þeirra um "fæðuöryggi" meikar meiri sens núna en fyrir viku.
---
Hér gæti verið um síðasta tækifæri að ræða: Stórsýning F4x4
Miðaverði stillt í hóf, aðeins kr. 1.000 og kr. 1.500 fyrir helgarpassa
Þetta verður stórkostleg sýning með stærsta jeppa landsins á 54”, 6 hjóla jeppa ýmsar nýjungar í smíðum,  upphækkað jeppahjólhýsi á loftpúðum, fjarskiptasýning, radíóamatörar með risaloftnet, fullt af venjulegum áhugarverðum ferðajeppum  og margt margt fleira.
Notum tækifærið og eigum góða stund með allri fjölskyldunni  í Fífunni um helgina. 
---
Ég held að maður verði með minni kvíðahnút í næstu viku nó matter vott. Maður er að verða kominn með ágætis skráp fyrir þessu ástandi og það þarf orðið meira til en röfl um skrilljón tittilljón skuldir Íslands til að koma manni úr jafnvægi. Hvað heitir þetta skref í sorgarferlinu? Viðurkenning á ástandi? En maður er samt svona næstum því oft með tárin í augunum. Samt er ekki Ísland að deyja. Sturlaða Ísland er bara að deyja. Og Nýja Ísland rís úr rústunum. Koma svo!

10.10.08
Horfði á 10-fréttir í gær. Það voru afdrifarík mistök sem ég geri ekki aftur. Kvíðahnútur inn í nóttina þýðir bara eitt: martraðir. Ég var í einhverju stríði með einhverju liði. Haarde og einhverjum. Svo kom Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og bjargaði okkur í restina. Öll önnur sund voru lokuð.
---
Í kvíði engu í sjálfu sér. Allir frískir, ég átti enga peninga sem ég græt nú, sólin er þarna ennþá og rokið. Esjan líka og bygging Decode. Ég hef alveg verið atvinnulaus á lífsleiðinni. Ég er alveg reddí í að skeina ungabörnum og gamalmennum ef með þarf. Ég flaug aldrei á fyrsta farrými hvort sem er. Kannski verður ennþá hægt að fá Kaffi latte, en ef ekki þá hvað með það? Það verður vatn í krönunum. 
---
Ég held að það sem framundan er geri ekkert nema gott. Við vorum komin í rugl. Alltof margir gerðu ekki neitt af viti hvort sem er. Færðu tölur á milli, svo ég vitni í Sigga pönk í Fbl í dag. Þetta var innantómur gerfiheimur sem hrundi inn í sjálfan sig. Sönn gildi munu lifa. Biblíuleg, HC-Andersen leg, og allt þetta. Beisik stöff um manninn. Margur verður af aurum api, Sódóma Gómorra, Róm, allt þetta margendurtekna sjitt úr veraldarsögunni. Heimsveldi græðginnar er að hrynja (svo ég leyfi mér að taka spekingslega til orða). Maður verður auðvitað að vera bjartsýnn og vita að það sé hægt að rísa úr rústunum og gera þá vonandi ekki sömu mistökin aftur (é ræt!). Ég er alveg maður í það og líka þú. Og ef verðbréfagutti verður kominn á leikskólann hans Dagbjarts eftir helgi, einhver gaur í rándýrum jakkafötum með bindi að lesa barnasögur fyrir krakkana, mun ég taka honum fagnandi. Poetic justice, kannski, en það er ljótt að hlakka yfir óförum annara. 
---

Ég veit ekki hvað er innifalið í sorgarferlinu, en akkúrat núna er ég á gríntímabilinu. Ég ætla að grína mig í gegnum þetta. Hvað er annað hægt? Baggalútar eru hvílíkt að gera sig núna. Myndin af Dabba við stýrið, Haarde fram í og Árna afturí, er fréttamynd ársins. Þetta eru the three stooges. Eða kannski Klaufabárðarnir frekar. Þrír klaufabárðar. Þeir ætla að skipta um peru en áður en þátturinn er búinn er búið að rústa íbúðinni. Magnaður andskoti. Sigmar lét ekki Árna sleppa við neitt múður þegar hann svitaperlaði hann í gær í Kastljósi. Djöfulsins þrugl í dýralækninum. Það mun enginn Íslendingur geta vaðið í Davíð Oddsson af svipaðri hörku. Við erum öll eins og lítil börn frammi fyrir ströngum föður þegar þetta tröll er annars vegar. Tröll með dáleiðsluhæfileika. Líkt og kerlingin hans Ceausescu mun hann ybba gogg fram á síðustu stundu og hafa réttast fyrir sér af öllum. Og nei, ég er ekki að segja að hann verði leiddur fyrir aftökusveit. Við erum engin dýr. Ég er tilbúinn að fyrirgefa, enda er nú ekki eins og grey kallinn hafi látið drepa einhvern.
---
Ég var að enda við að hlaupa framhjá húsinu hans. Það fer alltaf um mig hrollur þegar ég geri það. Svona tröllahrollur. Það var allt slökkt en bíllinn í stæðinu. Ég sá enga úr sérsveitinni hans BB.
---
Nú blogga allir úr sér kvíðann. Óttann við óvissuna. Óttann við framtíðina. Teitur Atlason skrifar um sökudólgana. Er þetta ekki bara svona? 
---
En krakkar mínir. Svo ég segi það nú bara einu sinni enn. Peningar eru bara peningar. Og hér kemur fallegt lag handa ykkur af safnplötunni Í kreppu sem Steinar gaf út 1976. Kominn tími á endurútgáfu?

Kaktus - Hvaða kreppa?

---
Svo er ég að fara að peppa upp mannskapinn á RÁS 2 núna kl. 8. Ég held að næsta bók sem ég lesi verði Góði dátinn Svejk.

09.10.09
Ég fékk alveg geðveikt símtal í gærkvöldi. Í símanum var eldri kona, heyrðist mér.

- Já, góða kvöldið. Er þetta Gunnar Lárus?
- Jú, það er víst
- Ég heiti (man ekki nafnið) og hringi frá Kaupþingi. Mætti ég kynna þér nýjung hjá bankanum, "Tekjuvernd"?
- Er þetta eitthvað grín?
- Eh, nei, það getur nú komið sér vel að vera með "Tekjuvernd".
- Nei, sorrí, ég hef ekki áhuga á að stofna til nýrra bankaviðskipta akkúrat núna. Bless.

Ég sagði þetta ekkert hranalega, en svona eftir á að hyggja hefði ég átt að sýna þessari konu sérstaka alúð. Mér heyrðist hún kveðja með nokkrum trega. Ég er ekki frá því að hún ætti að fá Bjartsýnisverðlaun Bröstes. Er hann ennþá að útdeila þeim?
---
Sá svo þegar ég vaknaði að Kaupþing fauk í nótt. Ég verð að segja að mér finnast það sorgleg tíðindi. Að þeir væru opnir var smá von um að þetta væri ekki bara algjört meltdán. Þá er þetta allt komið aftur í eigu ríkisins. Allir loksins komnir í sama björgunarbátinn, nema þeir sem eru komnir til Cayman auðvitað. Og hvað tekur við? Fer ekki allt á bullandi kúpuna og það strax? Átti þetta lið ekki eiginlega allt á þessu fáráðlingaskeri með krosseignatengslum frá helvíti? Varla ætlar Ríkið að reka áfram allt sem þetta gjaldþrota drullupakk "átti"? Eða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem tekur við hræinu af Íslandi á enn einum blaðamannafundinum í dag kl. 16. Á einhver pening til að kaupa eitthvað? Eiga Helgi í Góu og Bjössi í World Class Fréttablaðið á morgun (svo ég tali nú bara um vinnustaðinn minn)? Í síðustu viku var talað um sameiningu Árvakurs og 365 en nú eru eigendur beggja fyrirtækja komnir í gjaldþrot.
---
En auðvitað gerir maður bara eins og konan í Kaupþingi. Mætir í vinnuna og vonar að dyrnar verði ekki læstar. Og ef þær verða læstar þá fer maður bara að gera eitthvað annað. Ekkert mál. Ég myndi hanga heima og blogga út í eitt á meðan ég leita mér að vinnu á dagvist barna eða KFC. Fólk þarf að éta og krakkar halda áfram að mæta í skóla (ætla ég a.m.k. að vona). Eða verð kannski kominn í lopapeysu og kuldagalla einhvers staðar upp á hálendi að steypa stíflu fyrir rússneskan álrisa eftir mánuð. Maður hefði bara gott af því. Gæfist "andrými" til að hugsa skömmustulega til myntkörfurekstrarlánsins á Renaultinum, eina framlagi míns til geðveikinnar (næsta afborgun 80.000 kall - jibbí! - var 65 þar áður, og 45 í fyrstu afborgun bakk in ðe gúdd óld days. Hvað ætli þarnæsta afborgun verði? 700 rúblur?).
---
Ég neita auðvitað að taka á mig nokkra ábyrgð á hvernig fór (eins og nú er í tísku að gera, a la Doddson). Vísa þar í nokkra eitilharða bakþanka máli mínu til stuðnings:
Af lúserum
Þjóð í rugli
Ný frík
Pönkhagfræði
Frjálshyggju ég
Æ, ég nenni nú ekki að finna meira. Þú getur dundað þér við sjálfur í ritstörfum.
---
Ekki gleyma samt aðalmálinu: Áhyggjur laga ekkert. Þetta eru bara peningar. Og þar að auki ætlar Yoko að bjóða okkur öllum til Viðeyjar í viku. Stuð blessi Yoko Ono. Stuð blessi íslensku þjóðina.

08.10.08
Lánalínur eru frosnar. Hvaða helvítis lánalínur? Ég hafði ekki heyrt um neinar helvítis lánalínur fyrr en í fyrradag og nú eru þær frosnar. Og við munum öll deyja úr hor!!! En fyrst borga trilljón krónur fyrir mjólkurlíterinn. Hjálp, himinn er að hrynja!
---
Svo mikið hefur svartnættis ástand þjóðfélagsins fengið á mig að ég hef lést um þrjú kíló síðan um helgina. Ég get ekki borðað fyrir kvíðahnútinum í maganum. Hann bara kemur af öllu svartnættinu. Þetta er auðvitað mjög jákvætt. Tvær vikur af sama ruglinu og ég verð kominn oní kjörþyngd án þess að hreyfa litla fingur (nema spinning auðvitað). Bring it on motherfuckers! Haldiði áfram helvítis ruglinu um þessa helvítis peninga ykkar sem, þegar allt kemur til alls í eilíðarsamhenginu, skipta ekki neinu helvítis máli. Bara tölur á skjá, línur í excelskjali. Æ æ allar línurnar stefna niður. Bú hú. Það hefur samt ekkert gerst. Ekkert! Ekki faraldur, náttúruhamfarir, stríð (kannski seinna samt!). Og ég neita að lifa lífinu eftir excelskjölum. Ég er ekki excelmaður (meira svona word). En samt, ég get ekki hætt að fylgjast með fréttum. Og svo er það svo helvíti grennandi.
---
Þar fyrir utan gat ég ekki betur séð á Davíð en að það verði búið að redda þessu öllu eftir 2-3 vikur max. Ég var næstum því rokinn niðrí Ikea að kaupa sófa. Verst að það var lokað.
---

Í gær átti ég (43) ammæli eins og Pútin (56), Auðunn Arnórsson (40) og bassaleikarinn í Kansan (59). Fyrir löngu, þegar "kreppa" var ennþá bara eitthvað djók, pantaði ég mér afmælisgjöf af meistara Gylfa Ægissyni. Myndin mátti kosta 20 kall og átti að vera af Bítlunum og Tinna í íslensku landslagi í draumkenndum stíl. Að öðru leiti hafði hann frjálsar hendur. Gylfi mætti í gær og ljósmyndari Séð og heyrt. Myndin er auðvitað stórglæsileg og stóðst allar væntingar. Hann bætti mér í hópinn og nokkrum húsdýrum, burstabæ og sól. Gylfi fékk sér kaffi en enga köku enda í átaki. Efnahagsástandið hefur engin áhrif á hann. Enda er hann enn minni excelmaður en ég.

07.10.08
Ekki misskilja mig. Ég er ekki að líkja saman tímabili Nasista í Þýskalandi og nýhrunda góðærinu á Íslandi. Það var enginn drepinn. En samt. Það eru líkindi. Eftir Nasistana skildi enginn utankomandi þetta: Hvernig gat þjóðfélagið liðið það að allt þetta fólk var drepið í útrýmingarbúðunum? Afhverju sagði enginn neitt? Afhverju stoppaði þetta enginn? Á hvaða tímapunkti lagði þjóðin blessun sína yfir geðveikina? Maður klóraði sér í hausnum yfir þessu allan menntaskólann.
---
Í framtíðinni mun fólk spyrja: Hvernig stóð á því að allt í einu var það orðið allt í lagi á Íslandi, 300.000 manna dverg-samfélagi, og bara hið fínasta mál satt best að segja, að menn gætu stungið undan hrúgu af peningum í kaupsamninga, starfslokasamninga og jú neim it, og að einhver gaur gæti verið með það á mánuði í laun sem einhver venjulegur lúði við hliðina á honum út í búð var í 20-30 ár að vinna sér inn? Að sexfaldur lottóviningur var eins og mánaðarlaun þeirra ríkustu? Hvernig leið samfélagið þennan geðveika mismun? 
---
Á hvaða tímapunkti varð þetta siðlausa rof þjóðfélagsgerðarinnar ásættanlegt? Á hvaða tímapunkti varð mannát samboðið samfélaginu? Á hvaða tímapunkti fæddust ofurmenn á ofurlaunum?
---
"Þeirra ábyrgð er svo mikil" og "þeir eru að vinna í alþjóðlegu umhverfi," löptu hálfvitarnir hver upp úr öðrum þegar maður fann að þessu, og líka: "Þeir leggja náttúrlega svo mikið til samfélagsins". Einmitt. Eins og sést núna. Rosaleg ábyrgð. Hlaupa eins og rottur í burtu með sjóðina. Davíð Oddsson má eiga það, hann einn sýndi lit (kannski bara sjóbiz?) og tók út aurana sína í KB. En það var fyrir mörgum árum síðan. Afhverju gerði enginn neitt? Afhverju sagði enginn neitt? Geir Haarde sagði að "menn ættu nú ekki að missa svefn yfir þessu"... 
---
Hann hefði betur misst smá svefn. Þá væri hann kannski ekki alveg jafn ósofinn núna.
---
Annars er þetta norska viðtal algjör snilld (hugsanlega er búið að fjarlægja það einhverra hluta vegna). Afhverju spurði enginn svona á Íslandi? Ó já, nú man ég. Eigendur bankanna eiga líka fjölmiðlana. Greiningadeildirnar skrifuðu spurningarnar. Og hvaða 20-30 manns komu hér öllu til fjandans eins og Vilhjálmur Bjarnason vill meina í þessu norska innslagi? Fær maður aldrei að vita það? Verða engin Nuremberg réttarhöld? Verður þetta bara svona, eins og Árni spáir? Eða verður það kannski bara enn einu sinni hið séríslenska suð þegar draga á menn í gapastokkana: Aðgát skal höfð í nærveru sálar...
---
Svo verður sagt við okkur eins og þýsku þjóðina: Þetta er ykkur að kenna, fíflin ykkar. Þið tókum þátt í þessu með myntkörfulánunum og öllu hinu draslinu ykkar.
---
Annars er mér drullusama um þetta allt saman því pönkið er að koma aftur. Annað er steindautt, krúttið er steindautt. Hver nennir innihaldsleysinu lengur? Hver nennir yfir höfuð helvítis froðunni, helvítis innihaldsleysinu, rassgatið á engu glennir sig - myndir? Einu sinni sagði Eyþór Arnalds: Græðgi er góð. Græðgin er drifkrafturinn. Grægði er komið að orðinu "að græða upp". Hann sagði þetta auðvitað til að mæra hið ríkjandi mannætukerfi sem nú er hrunið. En batnandi mönnum er best að lifa: Hvernig sem fer er líklegt að nú verði vatnaskil, skrifar nú Eyþór. Græðgin víkji til hliðar og önnur gildi taki við. Undirstöður taki við af of stórri yfirbyggingu. Samheldni taki við af flokkadrætti. Kannski kominn tími til?  Kominn tími til? Þótt fyrr hefði verið. Kapitalisminn er dauður. Taumlaus græðgin drap hann. Og vonandi tekur eitthvað skárra við. Vonandi gleyma menn ekki um leið og fyrstu 300 millurnar blasa við aftur í sjálfstökugeðveikinni að við erum öll í sama "björgunarbátnum". Að "almannaheill" ganga ALLTAF fyrir.
---
Nú hlaðast margar spurningar upp. Verður tónlistarhúsið einhvern tímann klárað? Verður 2 milljarða glerdraslinu hans Óla Elías skipt út fyrir kork? Mun Yoko færa okkur frið á ekki á morgun heldur hinn? Komumst við í Öryggisráðið? (mú ha ha ha ha!) Kaupir einhver flugelda fyrir næstu áramót? Verður fólk enn að keyra pallbílana sína eftir 40 ár eins og gömlu kaggana á Kúbu? Fær maður aldrei aftur klettasalat á pítsuna sína? Æi, hvað veit maður. Ereddiggi bara spurning um meira pönk, meira helvíti? Það held ég!
---

Pönkmix fyrir gjaldþrota krúttkynslóð
(Inniheldur: Big Balls & The Great white idiots - Coconuts / The Damned - Neat neat neat / The Vibrators - London girls / Wire - Dot dash / Sex Pistols - Did you no wrong / Eater - You / Sham 69 - Borstal breakout / Iggy & The Stooges - Search & Deatroy / The Saints - Know your product / Gang of Four - Not great men) - Spilist hátt, til að yfirgnæfa ekkasogin.
---
Eða bara smá svona:

Ghostigital - Hvar eru peningarnir mínir? (Gus Gus Remix)
Fréttatilkynning:
Í ljósi atburða seinustu daga á Íslandi hefur hljómsveitin sívinsæla
Ghostigital ákveðið að gefa þjóðinni remix af laginu "Hvar eru
peningarnir mínir".
Endilega áframsendið til vina. Þetta er líklegast það eina sem fæst
ókeypis í einhvern tíma núna.
"Hvar eru peningarnir mínir" er endurhljóðblöndun sem MoneyMaster
(endurskoðandi GusGus) gerði af laginu Bank sem við gáfum út á fyrstu
sveitarinnar árið 2003.
Lagið er um mann sem man ekki hvar peningarnir hans eru. En hann var
viss um að þeir væru í umslaginu. Athugið að hann á enga skó.
Annað er af Ghostigital að frétta að sveitin er að leggja lokahönd á
E.P. plötu sem kemur út fyrir jól hjá Smekkleysu.
Sveitin mun gefa út splunkunýtt lag "Hovering Hover Skates" í lok
þessarar viku. Í tilefni þess mun Ghostigital spila á Airwaves
hátíðinni um miðjan október.
Verið tjúnuð!
www.ghostigital.com
www.myspace.com/ghostigital

06.10.08
Ég legg fram þennan aðgerðarpakka:
1. Hættu að horfa á fréttir. Hættu að fylgjast með genginu.
2. Hlustaðu meira á tónlist í staðinn.
3. Vertu almennileg(ur) við alla í kringum þig.
---
Vá, hugsaði ég þegar Egill Helgason skammaði tvo aula á launum hjá mér í þættinum sínum í gær, loksins...
---
Það er kviknað í. Skíðlogar í kofanum. Fólk hleypir um í panik með fötur að skvetta á bálið. Það er búið að vekja allt þorpið. Brennuvargurinn stendur á miðju torginu og skælir: svona svona, við skulum nú ekkert vera að leita að sökudólgum.

05.10.08
Korputorg er ekkert torg, heldur risa lengju hús, litlu minna en álverið í Straumsvík, með búðum í. Enginn sameiginlegur gangur er á þessu svo fólk þarf að rölta á gangstétt fyrir framan. Þegar ég var á einum enda og sá í hinn endann fannst mér það helvíti langt, en samt er ég  nú göngumaður. Samt var veðrið í gær fínt. Ég á ekki eftir að sjá að "úti-lengju-moll" sé sniðugt fyrir veðurbarða þjóð. Ætli liðið verði ekki keyrandi á milli enda. "Inni-mollin" eru hins vegar kjörin fyrir Íslendinga eins lengi og við eigum einhvern pening. Í Korputorgi eru ekkert sérlega spennandi búðir. Toys R us er vitanlega uppáhaldsbúð Dagbjarts og því var ég mættur þarna í gær. Þetta er álíka stór búð og á Smáratorgi, kannski aðeins minni. Sama dót og þar er til, enda varla til gjaldeyrir í að flytja meira inn í bili. Legóið er á útsölu í dag, 50%, og var því auðvitað búið að hækka verðið í gær svona sirka sem því nemur. Ilva er við hliðina. Henni er best lýst sem "dönsk Ikea, bara helmingi dýrari". Þar er líka The Pier, sem er óspennandi sprullbúð. Tveim km fjær hinum megin eru Rúmfatalagerinn og Europris, tvær mest óspenanndi búðir á landinu. Þarna á milli er tómt eins og er. Það var allt fullt af fólki þarna í gær, metnaðarfull bílastæðin sneysafull. Byrjar allavega vel. Íslendingar að sýna samstöðu með sjálfum sér. Sjálfur keypti ég plasteldhús fyrir krakkana. Maður má ekki láta deigan síga.
---
Fjölskyldurúnturinn lá næst á Garðatorg á útsölumarkað bókaútgefanda. Bók HHG, Hvernig getur Ísland orðið ríkasta land í heimi, var til sölu. Af hverju hlustum við ekki á Hannes? AFHVERJU HLUSTUM VIÐ EKKI Á HANNES!!!???

04.10.08

Svalbörð - Hemmi Gunn
Gústi frændi sendi mér lag til að bæta og kæta á þessum síðustu og verstu... Er þaggi bara!? Allir í stuði? Það þýðir ekkert annað! Nú erða bara Henson, Hemmi Gunn, lambakjöt í öll mál og Gríms plokkfiskur. Ég er alveg til í 1986 aftur í nokkur ár! Íslandi allt! Við komumst ekkert annað!!!
---
Skrýtið, en það var hnútur í maganum á mér í allan gærdag og eiginlega alla vikuna. Maður rétt kíkti á gengið. Bjóst við 1$ = 300 kall eða eitthvað, en það hrundi ekkert, meira. Í fréttunum var sagt að við værum nú þrátt fyrir allt 5ta ríkasta land í heimi, miðað við höfðatölu. Ég hélt við hefðum nú verið miklu ríkari en það, en það hefur þá bara verið einhver peningur sem Jón Ásgeir og kó fékk lánað frá útlöndum og getur svo ekki borgað núna. Yfirdráttur. Í fyrra keyptum við mest þjóða af Range Rover og það var ekki einu sinni miðað við höfðatölu. Nú þurfa lífeyrissjóðir landsmanna að koma til að skeina þessum uppábakskitnu græðgisbjánum sem hafa knésett þjóðina. Ég ætla rétt að vona að þeir seku verði dregnir fram í sviðsljósið og stillt vandlega upp við vegg svo við getum þó allavega híað á þá. Eigum við það ekki inni?
---
Sjónvarpið: Voðalega var Hannes Hólmsteinn eitthvað uppstökkur í Kastljósi í gær. Ætlaði sko ekkert að láta valta yfir sig. Það voru allir sallarólegir nema hann. Samviskan eitthvað að naga hann? Nei, það getur ekki verið, frjálshyggjan er bestust af öllu bestu. Á hinni stöðinni fór Óli forseti enn einu sinni að röfla um sitt unga fólk, orkuna og bla bla. Held hann hafi sleppt FL-group úr upptalningunni að þessu sinni, en Össur var þarna, enda verður seint hægt að segja eitthvað neikvætt um útrásarfyrirtæki með gervilappir. Göfugt og gott. Ekki bara í þessu til að græða sem mest heldur líka til að leggja sitt á vogarskálar betri heims. Afhverju var Jón Ásgeir og þetta lið að standa í þessu? Kaupandi dótabúðir, flugfélög og drasl út og suður á yfirdráttarlánum. Var það í einlægri ósk um að búa til betri heim? Nei! Til hvers þá? Bara til að ganga í augun á hinum? Til að geta djöflast á silfraða Bentleyinum á fokkings Seltjarnarnesi? Jóhannes hefði betur neytt son sinn til að raða í poka í nokkur ár í viðbót á kassanum í Bónus. 
---
Lufsan sagði mér að kaupa klettasalat oná pítsuna. Klettasalat er svo 2007. Þetta var ekki til í Hagkaupum en það var til mixsalatpoki sem innihélt klettasalat. Mér datt í hug að kaupa pokann og tína klettasalatið úr oná pítsuna. Hætti snarlega við þegar ég sá verðið. 499 kr. fyrir 100 gr poka. 5000 kall fyrir kíló af grasi. Erteggi að kidda mig!? Annað hvort verður okursíðan líflegri sem aldrei fyrr á næstunni, eða steindauð af því fólk hættir bara að taka þátt í þessari vitleysu og fer að kjósa með buddunum sem aldrei fyrr.
---
Yfirlýsing:
Ég held ekki með Baugi.
Ég held ekki með Davíð Oddssyni.
Ég held bara með því að hér verði rekið heilbrigt þjóðfélag á jafnaðargrundvelli og að við losnum við tröllin af bakinu á okkur!

03.10.08

Gjöriði svo vel. Smá jákvæð og skemmtileg upprifun á tímunum og fólkinu sem kom okkur þagað sem við erum núna. Svo 2007 er hér. Lagið verður nr. 2 á 18-laga plötunni Dr. Gunni með öllum mjalla, sem kemur út í mars nema annað komi í ljós (eins og heimsendir).
---
Á Titanic voru margar tegundir herbergja. Margir lágu bara eins og drasl á dekkinu, aðrir voru í lúxusklefum. Þegar dallurinn sökk var bara ein tegund björgunarbáta, minnir mig a.m.k. Það er langt síðan ég sá myndina. Sem sé, þegar allt er í lagi, er alveg ókei að fólki sé mismunað, þegar allt fer í bál og brand þjappar fólk sér saman í kös. Er það ekki?
---
Eftir 11. sept í New York urðu allt í einu allir voða almennilegir við hvorn annan. Samþjöppun átti sér stað, við erum öll saman í þessum björgunarbáti og drepumst öll á endanum, en við sluppum og erum ennþá lifandi, hugsaði fólk. Eins gott að vera almennilegur þangað til, er það ekki?
---
Þannig að nú verður Ísland svoleiðis. Allir gefa stefnuljós og stoppa fyrir gangandi vagfarendum. Brosa og eru í stuði. Örvæntingafull bjartsýni. Botninum náð og bara hægt að fara upp úr þessu. Engin eru náttúrlega að flýta sér eitthvað – flýta sér hvert? Heim að horfa á krónuna hrynja?
---
Annars er stemningin ekki ósvipuð núna og eftir 11. sept, einhverveginn. Maður hugsar um grunninn, beisik hluti eins og þjóðfélagsgerðina og bla bla. Það er panikk eins og þá. Muniði eftir slökkviliðinu að smúla "miltisbrandsbréfin"? Sprenghlægilegt eftir á. Núna er gamla fólkið með spariféið sitt að spila út, heyrði ég hjá bankafólki. Ein kom í banka og vildi fá 30 millur í kass til að fela undir gólffjölunum heima hjá sér. 

En ef það kviknar í húsinu?

Gamla hafði ekki hugsað út í það. Svo voru heldur ekki til 30 millur í bankanum. Útibúin liggja ekki með slíkar fjárhæðir.

Samt kannski meiri séns að bankinn fari á hausinn en kofinn brenni?
---
Maður sárvorkennir Geir Haarde. Hann er eins og ráðalaus klessa sem bekkjarböllíið Davíð Oddsson er búinn að etja út í algjöra vitleysu. Árni Mathiesen og Geir Haarde verða komnir í þægileg og ábyrgðarlaus innistörf fyrir áramót, það hlýtur bara að vera. Hverjum datt í hug að gera dýralækni að fjármálaráðherra? Afhverju ekki bara að setja Árna Johnsen í djobbið? Hvað þá með DO. Burt með hann strax. Glæsileg efnahagsstjórn – not! Aðeins Þorgerður Katrín hefur bein í nefinu af þessu Sjallaliði. Sammála Bubba sem kiknaði í hnjánum fyrir henni á Stöð 2 í gær. Beinið í nefinu á henni mun gera hana að formanni. Ég nenni ekki kurteisum og malandi aulum lengur. Það vantar fleira fólk með bein í nefinu. Guðmunda Jaka. Rífa þetta helvíti upp á helvítis rassgatinu. Spýta í lófana. Við erum svo dugleg, jadda jadda. Og gáfuð og æðisleg. Kaupa spítt fyrir þjóðina fyrir restina af aurnum og taka þetta svo á hörkunni. Sjálfur læt ég ekki mitt eftir liggja og verð mættur til að gera góð kaup í Korputorgikl. 8 í fyrramálið. Árangur áfram ekkert stopp!

01.10.03
Erðanúmúsik kynnir: Dr. Gunni - Svo 2007 - Fyrsta lag "í spilun" af væntanlegri plötu, Dr. Gunni með öllum mjalla (mars 2009). Verður gefið frítt á alnetinu frá og með föstudeginum 03.10.08
---
"Satt. Svo satt. Mikið er það nú dæmigert að í krísunni sé komin fram enn ein runkkeppnin milli Davíðs og Jóns Ásgeirs. Það er eiginlega þetta ömurlega þreytta rugl sem fær mann til að vilja flýja land, frekar en efnahagslegt hrun skersins. Hið síðara er þó alla vega áhugavert og hressilegt! Baugsröfl hætti að vera áhugavert og hressilegt árið 1999."
(Nafnlaust komment hjá Hnakkus)
---
Þreytta rugl. Djöfull er ég sammála þessu. Má ekki skipta út leikurum í þessu eilífðar leikriti? Hvað ætli dollarinn fari annars í í dag? 110 kall? Pundið 200? Dernáttlekkihægt! Ætli þeir taki enn vel á móti löndum í Íslendingabyggðum Kanada?
---
Fór á agalega fína frumsýningu á Reykjavík Rotterdam. Hún er því miður ekki nema la la.

30.09.08
Ástandið er hræðilegt. Það hriktir í grunnstoðum þjóðfélagsins. Ekkert verður eins og það var áður. Maður myndi ekkert kippa sér það mikið upp við það úr þessu þótt einhverjir færu að hoppa öskrandi um miðbæinn í loðvestum, veifandi beinum yfir höfði sér og öskra á vegfarendur. Fréttir af hópmannáti myndu heldur ekkert koma svo á óvart. Einhver allsherjar upplausn er í loftinu.
---
Armageddon! Eins og segir í hinni helgu bók. 2012. Varist táknin.
---
Kolkrabbinn snýr aftur! Og Smokkfiskurinn.
---
Gott ráð, þegar maður er farinn að sjá framtíðina svona, er mjög einfaldlega að hætta að fylgjast með fréttum. Þá virðist nú bara allt í fínu lagi (eins lengi og maður er ekki með myntkörfulán!). Maður veit ekki af neinum næturfundum. Veðrið er bara ágætt og jafnvel smá sól í gær. Hvaða æsingur er þetta?
---
Einn lærdóm má draga af deginum í gær. Ég væri glæsilega hommalegur ef ég væri með hárið af forsetanum:

Satani sé lof að ég er sköllóttur.

29.09.08
Fyrst menn eru farnir að funda á nóttinni hlýtur eitthvað svakalegt að vera í gangi. Glitnir að fara á hausinn? Mér sýndist Lárus Welding vera ægilega brattur eins og strokinn minkur hjá Agli um daginn. Ef bankarnir fara allir á hausinn hlýt ég þá ekki að sleppa við að borga upp yfirdráttarheimildina mína og húsnæðislánið? Helvíti væri það fínt. Svo myndi maður bara fá sér nýjan yfirdrátt hjá Bauhausbankanum. Eða ekki!

28.09.08
Við efrivör Huggy Ragnars, ef þetta er ekki æðislegasta veitingarhús í heimi þá veit ég ekki hvað! 500 mismunandi gosdrykkjategundir!

27.09.08

  Ýmsir flytjendur - Iceland Airwaves 2008 Brennslumix
Nú styttist í Iceland Airwaves. Haugarnir af hljómsveitum sem enginn hefur heyrt í eða heyrt um leggja land undir fót og spila í Rvk. Til kynningar og heilsubóta hefi ég sett saman Iceland Airwaves 2008 Brennslumix, sem, ef notað er rétt, mun brenna utan af þér a.m.k.1000 kalóríur (3 Mars). 

Notkunarreglur:
1. Niðurhalið og setið fæl í þartilgerðan spilara.
2. Spilið fæl og hreyfið yður við taktinn, á krosstreiner, bretti, á skokki, eða það sem hentar.
3. Ekki láta deigan síga.
4. Ef þú ert ekki orðin(n) blaut(ur) í gegn af svita eftir 30 mín ertu að svindla. Hertu því á.
5. Njóttu tónlistarinnar og svitans.

Lögin sem lögð eru til grundavallar þessari samfélagsþjónustu eru eftirfarandi:

Fm Belfast – Synthia
Simian mobile disco – Tits and acid
Dr. Spock – Hvar ertu nú? (Dr. Skítamix)
Pnau – Wild strawberries
CSS – Alala
The Young Knives – Up All Night
Jeff Who? – She’s got the touch
White Denim – Darksided Computer Mouth
Ultra Mega Technobandið Stefán – Story of a star
Biffy Clyro – Living is a problem because everything dies
Motion boys – Misfit (Brot)
The Mae Shi – Boys in the attic
Familjen – Det Snurrar I Min Skalle
Florence & The Machine – Kiss with a fist
Vampire Weekend – A punk
These New Puritans – Colours
Fuck Bottons – Bright tomorrow
Yelle – Amour du sol
Robots in Disguise – The Tears
El Perro del mar – God knows

Góðan svita og skemmtun!
---
By and by er nýtt lag með Lay Low sem má heyra á myspace. Þetta er satt að segja lang besta lagið sem ég hef heyrt með henni enda enginn suðurríkjarembingur í gangi. Í staðinn er komið angurvært stelpupopp með gamaldags undirspili a la Lee Hazlewood. Ég vona að þetta sé línan sem Lovísa býður upp á á Farewell good nights sleep.
 

(Bakk tú ðe fjúttjér III)