02.11.10
Jæja þá er komið að því: S.H.Draumur spilar Goð (o.fl) á Sódómu Reykjavík laugardaginn 4. desember. Miðasala hafin!
---
Í Reykjavík samtímans ber það helst til tíðinda að...

...á Vatnsstígnum er einhverjum mjög í nöp við Yoko Ono og mótmælir svívirðilegu peningaplokki hennar til heimsfriðar.


...og við Háskólann hafa hin víðfrægu kastljós í gangstéttinni verið fjarlægð. Því er ekki lengur hægt að gera allskonar dónalegan látbragðsleik og láta kastljósin varpa því á hinn helga vegg Háskólans. Ég myndi segja að ákveðnu tímabili sé þar með lokið.
---

Helgi Valur & The Shemales - L.O.V.E. (Get Away From Me)
Helgi Valur hefur aldrei verið í Idol. En hann er búinn að gera 3 plötur. Sú glænýjasta (Electric Ladyboy Land) er bara að koma út og á henni pósar Helgi í svaka töffarapósum í glamrokkgalla. Ekkert glamrokk á plötunni samt, heldur svona bæði popp og rokk og rokkpopp og allt á ensku og alveg fínt. Þetta er fyrstu síngöll, ossa popp og ég heyri smá Jónatan Richman í þessu, bara smá samt. Hér kemur fréttóið: 
Miðvikudaginn þriðja nóvember (á morgun!) ber það til fregna að tónlistarmaðurinn Helgi Valur sendir frá sér sína þriðja plötu, Electric Ladyboyland. Auk Helga Vals kemur að plötunni fjöldi listamanna undir samnefnaranum The Shemales, en hópinn skipa sumir af frambærilegustu fulltrúum reykvísku tónlistarsenunnar. Má þar helst telja til Kára Hólmar Ragnarsson (básúna), Arnljót Sigurðsson (bassi), Magnús Tryggvason Eliassen (trommur), Jón Elísson (píanó) og Hallgrím Jónas Jensson (selló). Upptökum stjórnaði Magnús Árni Øder (Benny Crespo's Gang, Lay Low).
Áður hefur Helgi gefið frá sér plöturnar Demise of Faith (2005) og  The Black man is God, The White Man is the Devil (2009) en á þessari nýjustu plötu eru það ekki málefni á borð við trú eða húðlit sem verða fyrir barðinu á samfélagsrýni Helga Vals heldur er hér tekist á við á eina af rótgrónustu hugsmíðum samfélagsins, kynið. 
Hér er brakandi fersk popptónlist á ferðinni þar sem hárbeittir krókar og skotheld grúv byggja traustann ramma utan um frumlega laga- og textagerð Helga Vals sem dansar fimlega um þá hárfínu línu að taka sig mátulega alvarlega.
Platan verður fáanleg á gogoyoko og tonlist.is og í öllum betri plötuverslunum landsins en Record Records sér um dreifingu.

30.10.10
Nú geturðu farið að koma þér í hinar svokölluðu startholur því miðasala á S. H. Draum spilar GOÐ (o.fl) á Sódómu 4. des hefst á þriðjudaginn, 2. nóv. kl. 10. Miðinn kostar ekki nema 2.200 kr. Skelkur í bringu hitar upp. Það þýðir ekkert að væla í mér ef þú færð ekki miða. Það komast náttúrlega ekki endalaust margir þarna inn og þetta verður sveitt og þröngt. Kaupa strax, sem sé. Gömlu voru í banastuði þegar KEXP tók okkur upp 14/10. Nú er komið videó af tveimur lögum - Nótt eins og þessi og Eyðimörk eru hér. Þar að auki verðum við á Græna hattinum á Akureyri 20. nóv og er miðasala þegar hafin á Hattinum. Suicide Coffee hitar upp á Akureyri og þess má geta að þetta verða fyrstu tónleikar S. H. Draums á Akureyri ever! 
---

(Mynd: Fræbbblarnir á fótboltavelli æsku minnar við Kópavogsskóla. Nýbyggð Hamraborg í bakgrunni. Úr umfjöllun í Vísi 25.03.80)
Aðalgigg helgarinnar er þrímælalaust Fræbblarnir (athugið: Nú aðeins með tveimur bé-um eftir að Stebbi trommari hætti) og Q4U á Faktorý (áður Grand Rokk) í kvöld. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 23:00 og kostar 500 kr. inn.

Fræbblarnir – nýtt og nammi
Nú eru 30 ár frá því að Viltu nammi væna? kom út og verður um helmingur laganna af plötunni á hljómleikunum.
Auk þess kynnir hljómsveitin nýtt efni af væntanlegri plötu - efni sem ætti að endast næstu 30 árin.
Fræbblarnir eru Guðmundur Þór Gunnarsson á trommum, Helgi Briem spliar á bassa, Arnór Snorrason á gítar, Valgarður Guðjónsson syngur og spilar á gítar og Iðunn Magnúsdóttir syngur – Iðunn nær reyndar ekki að vera með á laugardaginn.

Nánari upplýsingar um Fræbblana eru á www.fraebblarnir.com. Valli bloggar um plötuna/giggið hér.

Q4U
Hljómsveitin Q4U hefur komið saman á ný og er nú skipuð eftirfarandi meðlimum: Ellý, söngvari, Gunnþór Sigurðsson bassi, Árni Daníel Júlíusson hljómborð, Ingólfur Júlíusson gítar og síðast en ekki síst er nýr maður á trommunum, Halldór Lárusson þekktur úr Júpíters og fleiri sveitum.

Q4U hefur þegar leikið á einum tónleikum í ár og er nú að semja nýtt efni, en nokkur ný lög verða flutt á tónleikunum.
---

Útidúr - Killer On The Run
Eru engin takmörk fyrir því hversu margir geta verið í hljómsveit? Augljóslega ekki, myndin hér að ofan er annað hvort af hljómsveitinni Útidúr eða tekin í ferð náttúrufræðinema í Fossvog að skoða setlög. Allavega er fyrsta plata Útidúrs komin út og er svona líka lekker, full af tónlist sem minnir á Belle & Sebastian eða jafnvel The Triffids, svei mér þá. Svaka fínt allavega. Fréttatilkynningin er svohljóðandi:
Hið mikla suð sem hefur umkringt hljómsveitina Útidúr frá því að hún hóf störf, fyrir rétt rúmu ári, neyddi hljómsveitina til að flýja út í sveit, nánar tiltekið Mosfellssveit, í hljóðeinangrað athvarf í gamalli sundlaug. Þar stillti sveitin saman strengi sína og lúðra og tók í sumar upp sína fyrstu breiðskífu undir handleiðslu Birgis Jóns Birgissonar Sundlaugarvörðs sem snéri tökkum og renndi sleðum. Afurðin hefur verið nefnd This Mess We've Made.
Útidúr er fjölmenn sveit og hljómmikil og kemur platan vel til skila metnaðarfullum lagasmíðum hljómsveitunga sem hafa vaxið og dafnað í þessu stutta en frjóa samstarfi. Útidúr gefur plötuna út sjálf en um dreifingu sér Record Records.
Takmörkuðu upplagi af plötunni var komið í umferð í Iceland Airwaves vikunni og plötur voru settar í helstu búðir og seldar á tónleikum. Almenn ánægja var með tónleika hljómsveitarinnar á hátíðinni, bæði á og utan dagskrár, og platan hreinlega rauk út að tónleikum loknum. Svo vel gekk að platan fór til dæmis beint á topp metsölulistans í Bókabúð Máls og menningar, enda mest selda platan þar á bæ hina viðburðaríku Airwaves-viku. Ónefndur stórlax í útgáfubransanum benti á að salan hjá Útidúr væri á tæpri viku komin nokkuð yfir það sem Lady Gaga seldi fyrstu vikuna hérlendis af sinni nýjustu plötu. Því styttist hugsanlega í hin eftirsóttu heimsyfirráð.
Útgáfutónleikar verða haldnir í Iðnó 17. nóvember svo áhugasamir hafa nokkrar vikur í að kynna sér tónlistina og æfa sig í að syngja, eða jafnvel radda með - eftir því sem efni standa til. 

27.10.10

Ég var ekkert á netinu í gær (vetrarfrí í skólanum = feðgar á ferð) en Lufsan hakkað sig inn á Facebookið mitt (les: ég skildi mig eftir opinn á tölvunni hennar) og framdi Facebook-hryðjuverk. Skrifaði í mínu nafni: er að enduruppgötva WHAM! þeir eru helvíti góðir! Þetta vakti nokkra kátínu og sumir fussuðu: Lítið pönk í þessum status, skrifaði einn. Friðrik Ómar var hins vegar glaður og skrifaði: af öllum hommavinum sem ég á hérna á fésbókinni þá sló þessi status öllum gay statusum dagsins við. Þarna þekki ég þig Gunni! Svo þurfti ég endilega að fara að leiðrétta þetta og þá varð Friðrik leiður og skrifaði: Þetta bjargaði deginum mínum fyrr í dag. Ég sem trúði þessu innilega. Núna er aftur leiðinlegt. Það er þó alveg heilagur sannleikur að mér hefur alltaf fundist Wake me up before you go go frábært lag þótt ég hefði auðvitað aldrei viðurkennt það á sínum tíma. Ég tók minn tónlistarþroska út í Bítlunum og svo í pönki og póstpönki svo það er ekki fræðilegur möguleiki að ég hefði verið að hlusta á þetta píkupopp á sínum tíma. Wham og Duran sama draslið fyrir mér, samt skárra en þungarokk, sem var alltaf hallærislegasti botninn. Nú er ég náttúrlega svo hræðilega víðsýnn að ég hef verið að hlusta á fyrstu plötu Wham! sem mér áskotnaðist nýlega á plasti. Get samt ekki sagt að ég sé heillaður. Ég verð nú eiginlega að segja að Duran voru betri. Þar á undan í morgun var ég að hlusta á nýju plötuna með Friðriki Dór. Það er fínt píkupopp. Nú er sándtrakk ELO úr Xanadu komið á fóninn. ELO er sko skíturinn!
---

Árni Sveins slær ekki slöku við. Er ekki fyrr búinn að frumsýna hina fínu Backyard að hann kemur með heimildarmynd um Ragga Bjarna, Með hangandi hendi. Þetta er frumsýnt annað kvöld en hér er fréttó: 

Heimildamyndin um söngvarann og tónlistarmanninn Ragnar Bjarnason, Með hangandi hendi, verður frumsýnd í Háskólabíó þann 28.október n.k. kl. 20. Myndin fjallar um feril eins ástsælasta söngvara Íslands, Ragga Bjarna, sem hefur sungið sig inn í hjörtu landsmanna í yfir 60 ár og spannar ferill hans nánast alla sögu íslenskrar dægurtónlistar. Um leið og farið er yfir feril hans, er fylgst með undirbúningi hans fyrir stórtónleika í Laugardalshöll til að fagna 75 ára afmæli sínu. Þó árin hafi færst yfir er hann enn ungur í anda enda tekur Raggi lífinu létt og hefur kímnigáfuna í lagi. Leikstjórinn Árni Sveinsson hefur fylgt Ragga eftir síðastliðin tvö ár til að varpa ljósi á manninn á bak við þennan goðsagnakennda og síunga rokkara. Lögin hans Ragga þekkja vel flestir, bæði ungir sem aldnir; Rokk og cha cha cha, Vorkvöld í Reykjavík, Flottur jakki og lagið Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig sem hefur jafnan verið kallað „Þjóðsöngurinn“, svo fáein lög séu nefnd. Það má því með sanni segja að tónlistin hans sameini kynslóðirnar. Í dag skemmtir hann mjög fjölbreyttum hópi fólks; allt frá eldri borgurum á Hrafnistu til yngstu kynslóðarinnar á Þjóðhátíð í Eyjum - og öllum þar á milli. En Raggi á sér fleiri hliðar en þá hlið sem við sjáum oftast. Hann er fjölskyldumaður og hefur fengist við ýmislegt annað en tónlist; hefur m.a. rekið bæði bílaleigu og sjoppu. Í myndinni koma fram margir af samstarfsmönnum Ragga í gegnum tíðina; Ómar Ragnarsson, Guðmundur Steingrímsson, Páll Óskar Hjálmtýsson, Þorgeir Ástvaldsson svo einhverjir séu nefndir. Með hangandi hendi var forsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Riff í september og fékk frábærar viðtökur, t.a.m. fékk hún 5 stjörnur í dómi Fréttablaðsins þar sem segir m.a.: „Í raun virkar Með hangandi hendi svo vel sem heild að vandséð er hvernig gera hefði mátt betur og ómögulegt annað en að gefa myndinni hæstu einkunn. Glæsilega að verki staðið.“ ( K.G.-Fréttablaðið, 5.okt. 2010). Myndin verður í almennum sýningum í Háskólabíói frá og með 29. október og í BíóParadís frá 5- 11 nóvember. Í tengslum við sýningarnar í Bíó Paradís verða eldri borgara boðnir sérstaklega velkomnir í rjómapönnukökur og ýmsar uppákomur tengdar efni myndarinnar. Hér er treilerinn!
---

Prinspóló - Niðrá strönd
Fyrsta fullvaxna plata Prinspóló heitir Jukk og kemur ekki seinna en bráðum (10. nóv.). Plötuna má streyma í heilu lagi á www.prinspolo.com (Ýttu á örvarnar til að hlusta!) Það kom fréttó: Skapari Prinspóló er Breiðhyltingurinn Svavar Pétur Eysteinsson. Svavar þessi lærði heimspeki hálfan vetur í lok síðustu aldar, nam síðan grafíska hönnun í Listaháskóla Íslands og reyndi án árangurs að útskrifast þaðan sem hljómlistamaður. Hann var í sveit sem barn þar sem hann lærði söng með aðstoð vasadiskós og heyhrífu. Hann starfar nú sem hönnuður hjá Kimi Records og rekur menningarmiðstöðina Havarí ásamt ástkonu sinni og vini. Þess á milli dælir hann tilfinningum sínum inn á segulband. Á bak við jukk er frekar einföld speki. Allt er jukk sem ekki á sér aðrar eðlilegar skýringar. Jukk er lýsing á atburði, ástandi eða verkfæri sem allir þekkja en á sér enga hliðstæðu. Jukk er skortur á ótilkvaddri hugsun. Allt er einhverntímann jukk. Kimi Records gefur út Jukk. Ótilkvödd hugsun? Ég veit nú ekkert hvað það er. Eru ekki allar hugsanir ótilkvaddar? Kannski er það jukk? (Ljósmyndin er af hljómsveitinni Prinspóló sem mun fylgja Jukki eftir.)
---
Hljómsveitin Rökkurró er með grískan umboðsmann, Vas. Hin fína nýja pata með Rökkurró, Í annan heim, kom nýlega út á vinýl hjá grísku merki. Vas er líka umbi grísku sveitarinnar Film, sem var á síðasta Airwaves. Hildur Kristín söngkona Rökkurróar hefur sungið lag með Film sem má heyra hér. Á sama stað er boðið upp á FM Belfast remix af laginu. Pottur!
---

Ensími snúa aftur! Þetta kom: Hljómsveitin Ensími gefur út langþráða fjórðu plötu sína - Gæludýr - eftir átta ára bið þann 10. nóvember n.k. Platan verður fáanleg á Tónlist.is frá og með 4. nóvember. Sveitin hefur unnið að plötunni í Sundlauginni undanfarna mánuði með hléum og var grunnur laganna hljóðritaður lifandi í stúdíóinu. Lögin tíu sem prýða plötuna eru öll sungin á íslensku.
Ensími lá lengi vel í dvala eftir útgáfu þriðju plötu sveitarinnar, sem er samnefnd sveitinni og kom út árið 2002.
Ýmsar ástæður hindruðu framgang Ensími á sjónarsviðinu, til að mynda nám liðsmanna erlendis, mannabreytingar og annir liðsmanna í öðrum tónlistarverkefnum. Á þessu tímabili tók sveitin sig þó til og hljóðritaði um 20 lög fyrir útgáfu en á endanum var ákveðið að byrja upp á nýtt til að viðhalda ferskleika á upptökum sem skilar sér svo sannarlega á plötunni Gæludýr.
Þó að Ensími hafi lítið látið á sér bera undanfarin ár hefur hún haldið vinsældum sínum, en það sannaðist þegar hún steig á stokk í júní á síðasta ári og flutti fyrstu plötu sína, Kafbátamúsík, í heild sinni fyrir troðfullu húsi Nasa. Í kjölfarið hefur sveitin leikið á nokkrum vel völdum tónleikum og nú síðast á Iceland Airwaves hátíðinni og hlotið mikið lof fyrir. Ensími mun fylgja Gæludýr(um) eftir af krafti á komandi vikum og mánuðum. Fyrsta lagið sem heyrist af plötunni Gæludýr heitir Aldanna ró og er það farið að heyrast á öllum betri útvarpsstöðvum landsins. Hlustaðu á Aldanna ró hér!

25.10.10
(rænuræpa): Vetrarslen hefur gert vart við sig í öldruðum líkama mínum. Ég er farinn að sofa átta tíma í beit og vakna kl. 7 eins og einhver meðalmaður. Þetta er skammarlegt. Enginn eldmóður. Þetta er tímabundið mál, ekki vandamál. Ég hef ekki áhuga á neinu af því sem er að „gerast í þjóðfélaginu“. (Fokk þessu hyski öllu til helvítis. Látíði mig vera, síröflandi pakk, gæti ég sagt ef ég væri reiður (les: skuldaði ógeðslega mikið), sem ég er ekki.) Ég nenni ekki að æsa mig yfir neinu. Ég er svo sjálfmiðaður. Það gerist ekki neitt ef það gerist ekki fyrir mig. Eina leiðin fyrir þjóðfélagið til að breytast er að konur taki yfir. Ég bind vonir við byltingu kvenlegra gilda. Það er eina vonin. Graðir karlar í jakkafötum eru strax byrjaðir aftur að riðlast utan í hjólum atvinnulífsins. Þeim dettur ekkert annað í hug. Áfram stelpur! Bjargið okkur frá gröðu vitlausu körlunum. Mér fannst gaman að þættinum um Vigdísi í gær. Hún er forsetinn minn. Á mánudegi er smá átak að komast í gang. Þetta kemur. Slen er bara hugarástand.
---
Má ég benda á myndbönd: Fyrst eru það strákarnir í Reykjavík! Þeir tjóna rokkið á Kaffibarnum. Myndbandið gerði Árni Sveins. Svo kemur Hjaltalín með myndband sitt "Fílamaðurinn hefur kynferðismök við flugfreyju" eftir Árna Zúra. Pollapönk hefur vikið fyrir plötunni með Retro Stefson sem uppáhaldsplatan á heimilinu. Krakkarnir hafa stofnað hljómsveit og taka Mama Angola.
---

Saktmóðígur - 2007
Þessir kappar eru alltaf traustir. Og ný plata á leiðinni! Ég fékk email: Hljómsveitin Saktmóðigur sem á tuttugu ára starfsafmæli um þessar mundir skellti sér í stúdíó fyrr á árinu og tók upp efni sem verður vonandi gefið út á næstu mánuðum. Þar á meðal er þetta lag, 2007.

22.10.10
Kópavogsmeistarinn Gillz hjólar nú í glettið gamalmenni af mikilli yfirvegun eftir að gamli tók þátt í velheppnuðu markaðsátaki Símans og heimtaði að láta taka sig út úr símaskránni. Vonandi að fleiri gamalmenni fylgi í kjölfarið. Símaskráin er eingöngu fyrir elliærustu gamlingja og fólk sem notar ekki tölvur og ja.is. Mér þykir eiginlega furðurlegt að þetta hnausþykka kvikindi sé enn í umferð (símaskráin, þ.e.a.s.). Ég hef ekki nennt að hafa símaskránna á heimilinu í sirka tíu ár. Gaman verður að sjá hvaða þjóðlega fróðleik Gillz ætlar að bjóða markhópnum upp á. Hvernig skal vaxa siginn pung? Hvernig á að skafa fúna kleinu? Gillz er góður. Nú bíð ég spenntur eftir næsta múví DV í markaðsátakinu og hvort gamli svari ekki fyrir sig og komi með eitthvað annað gott eins og "ofvaxið kjötstykki".

Svona stönt eins og þetta með gamla gæti heitið í markaðsfræðum "rimmuplögg". Blöðin hafa engan áhuga á að segja beinar þurrar fréttir eins og "Beikon, nýtt leikrit frumsýnt í kvöld – fjallar um mann sem breytist í svín". Svona fengi topps 2 dálka. Annað fyrirbæri í plögginu, svokallað "Stöntplögg", fær mun meira pláss: "Leikari fótbrotnaði við æfingu á Beikoni – rann á steiktu beikoni." Þetta fengi 3 dálka og ljósmyndari væri sendur út af örkinni til að mynda fótbrotna leikarann. Rimmuplögg er þó sterkara en stöntplögg. Blöðin geta smjattað á því dögum saman. Gamli og Gillz er klassískt dæmi. Nú fer DV og fær gamla karlinn til að segja eitthvað. Svo svarar Gillz og svona gengur þetta. Á meðan er kastljósið á vörunni, símaskránni, og allir sáttir. Önnur góð plögg-tegund er hneykslis-plöggið. Það hefur lítið farið fyrir hneykslis-plögginu síðan Jón Gnarr hætti að gera hneykslanlegar auglýsingar, en þessi plöggtegund gengur út á að fá sterkt umtal með því að hneyksla eitthvað lið, t.d. trúaða með Jesú farsíma auglýsingunni.
---
Fólk hefur verið duglegt að kaupa Goð bolina með Stefáni Gríms. Restin af bolunum er nú til sölu í versluninni Havarí í Austurstræti – örfá eintök eftir. Restin. Síðasti séns! Hlauptu!
---
Besta plata ársins só far fær 5 stjörnur í dómi undirritaðs í Fréttatímanum í dag. Kimbabwe með Retro Stefson! Svakalega fín plata!
---

Diskóeyjan - Dvergadans
Út er kominn mjög skæsleg barnaplata, Diskóeyjan. Fyrsta íslenska fönkbarnaplatan! Þetta er ekki ósvipuð plata uppbyggilega séð og t.d. bara Í sjöunda himni með Glámi og Skrámi. Sögumaðurinn Sigtryggur Baldursson leiðir þetta áfram og spiluð eru hin frábærlega skæslegu lög inn á milli. Þetta er vissulega mögnuð hugmynd. Funkstrasse hópurinn gengur aftur með hjálp Braga Baggalúts (sem er ofvirkur snillingur, líklega andsetinn af ofurþróaðri geimveru) og Memphis-mafíunnar og Páll Óskar kíkir inn og Sigga Hjaltalín og Unnsteinn í Stefson og allskonar! Gefum markaðsdeild útgáfunnar orðið: Út er komin hljómskífan Diskóeyjan í flutningi Prófessorsins og Memfismafíunnar. Óhætt er að segja að þessi nýjasta afurð Memfismafíunnar valdi straumhvörfum á íslenska diskó- og fönkbarnaplötumarkaðnum.
Diskóeyjan er hugarfóstur þeirra Braga Valdimars Skúlasonar, Óttars Proppé og Guðm. Kristins Jónssonar (Kidda Hjálms), sem fá til liðs við sig hóp valinkunnara og ástsælla listamanna til að gæða eyjuna lífi. 
Lög og textar eru eftir Braga Valdimar sem sendi frá sér Barnaplötuna Gillligill ásamt Memfismafíunni fyrir tveimur árum. Óttarr bregður sér hlutverk gamals kunningja af íslensku tónlistarsenunni, Prófessorsins, en hann er mörgum að góðu kunnur úr sveitinni Funkstrasse. Kiddi sá um að taka herlegheitin upp í Hljóðrita í Hafnarfirði.
Prófessorinn rekur fágunarskóla fyrir börn á Diskóeyju við Diskóflóa. Þar kennir hann þeim ýmsa góða siði og fræðir þau um gildi fönksins ásamt því að gefa gagnleg ráð um klæðaburð og líkamstjáningu. Þangað eru systkinin Daníel og Rut send og sækist þeim námið vel. Það setur hins vegar strik í reikninginn þegar Ljóti kallinn birtist með tilheyrandi mjaðmasveiflum og hyggst breyta Fágunarskólanum í tehús. Allt fer þó þokkalega að lokum.
Með helstu hlutverk fara Óttarr Proppé, sem er prófessorinn; Páll Óskar Hjálmtýsson sem leikur ljóta kallinn; Sigríður Thorlacius og Unnsteinn úr Retro Stefson, sem leika Daníel og Rut – og Sigtryggur Baldursson sem fer með hlutverk söguúlfsins.  Sigurður Guðmundsson syngur hlutverk sólkonungsins og Magga Stína er gæludvergur prófessorsins.
Platan inniheldur meðal annars ofursmellinn „Það geta ekki allir verið gordjöss“, sem tröllriðið hefur útvarpsrásum, diskótekum og ípóðum þjóðarinnar undanfarið.
Memfismafían mun ásamt fríðu föruneyti kynna diskinn á næstu vikum og verður m.a. með stórtónleika í Hofi á Akureyri 28. nóvember.
---
Ummi talar: Smáskífan Svefnleysi sem kemur út þann 23/10/2010 er þriðja smáskífan af plötunni
Ummi sem kom út fyrr á þessu ári.
Í tilefni af útgáfu smáskífunnar og einnig vegna þess að þetta er lag sem listamanninum
þykir mjög vænt um, þá fékk hann dætur sínar sem eru 6 og 9 ára með sér og saman
föndruðum þau þetta "stopmotion" myndband við lagið.
Myndbandið má finna í HD gæðum í gegnum heimasíðuna www.ummi.is og einnig á
YouTube.
Lagið verður ókeypis og aðgengilegt til niðurhlaðs sem .mp3 á www.ummi.is frá og
með útgáfudeginum.

21.10.10

Ari Up, söngkona The Slits, lést í gær. Hún var 48 ára og "serious illness" er dánarorsökin. Frá þessu var greint á heimasíðu Johns Lydon, enda John giftur Noru, mömmu Ari. The Slits var frábær hljómsveit og þú gætir gert margt vitlausara í dag en að hlusta á fyrstu plötuna þeirra, Cut. Döbbað "kvenna"-nýbylgjurokk og Ari ekki ósvipuð Nico í söngstíl, enda hálfþýsk. (Meira um Ari á bloggi Johns Robbs)
---
Fólk sýnir enn metnað til videógerðar enda gott plögg fólgið í því að láta videó liggja á Youtube. Lára Rúnars með sitt grípandi da-da-dam-dam lag In Between er með gott one-take videó hér og hljómsveitin Vigri eru með videó við lagið Sleep hér. Vigri spilaði á Iceland Airwaves um síðustu helgi og er þessa dagana að berja saman live prógrammið sitt eftir að hafa að mestu legið í upptökum síðustu mánuði við vinnslu á frumburði hljómsveitarinnar, plötunni Pink Boats. Vigri hljómar eins og mix af altkántríi og Sigur Rós og í myndbandinu má sjá lúpínubreiðu, Emil í Kattholti og pabba hans, Valdimar Örn Flygendring.
---
Fór á The Social Network í gær, aka Facebook-myndina. Hún rann smurt og ágætt að fá smjörþefinn af sögunni bakvið síðuna. Þetta eru hálfgerðir lúðar allt saman, Mark Zuckerberger einhverfur nörd og Sean Parker (stofnandi Napster) paranoid pleier. Svo endar þetta eins og Citizen Kane, Rosebud er bara aðeins öðruvísi. Smurð mynd en engin geðveik snilld.

19.10.10
Sitt sýnist hverjum um framtíðina. Þó er morgunljóst að við drepumst öll og eftir kannski ekki nema 300 ár (þegar síðasta Ununar-platan brennur í stóra Þjóðarbókhlöðubrunanum) þangað til enginn man hver ég var. Þá verður það auðvitað fyrir löngu hætt að skipta nokkru einasta máli. Því er niðurstaða djúpspekilegrar tilvistarkreppu alltaf sú sama: Að njóta dagsins. Hvað þarftu að sjá margar myndir með Robin Williams til að stimpla þetta inn? 

Þótt framtíðin sé svona ráðin skortir ekkert upp á að fólk tjái sig um það hvernig hún verði. Allt ofsalega erfitt, segir nú allskonar lið í fjölmiðlum dag eftir dag. Útvarpsfólk dæsir mæðulega í kapp við svartagallið og allir eru með ægilega miklar áhyggjur af framtíðinni. Hafa þó hvorki orðið jarðskjálftar né flóð, né herjar á ný flensa kennd við eitthvað annað dýr en síðast. Það er bara eitthvað vesen með hlæglega lítilfjöllegt og manngert fyrirbæri sem heitir peningar. Ræfilstusku Íslendingar hafa verið með þetta á heilanum árum saman. Það kemst ekkert annað að. Fyrst voru allir með það á heilanum hvað það var ofsalega mikið til af peningum og hvað allt var æðislegt, svo hvað er lítið til af peningum og hvað allt er ömurlegt. Á maður að nenna að taka þátt í þessu? Fokk nei. 

Til að rífa upp stemmninguna bendi ég að hljómsveitina Black Box Recorder og lag þeirra Child Psychology. Þar kemur fyrir hinn stóri sannleikur: Life is unfair. Kill yourself or get over it.
---
Kínverjarnir sendu prufueintak af nýja Popppunkts-spilinu babú til okkar. Þetta er allt eins og draumur manns, ofsaflott og svaka næs. Höfundur spurninga (ég) og höfundur útlits (Gotti Bernhöft) léku fyrstu leikinn.




Er skemmst frá því að segja að eftir öskamma stund var Gylfi Ægisson búinn að gjörsigra Lay Low. Spilið kemur á almennan markað í nóvember. Það er svona helvíti langt til Kína, jú sí.
---

Geimsteinn - Svo er nú það
Rúnni Júl, María kona hans, Þórir Baldursson bróðir hennar, og fleira gott fólk gerði út hljómsveitina Geimstein á 8. áratugunum. Músíkin var diskóstuðrokk og þótti ekki merkilegt. Nú er auðvitað komið að endurskoðun á þeirri skoðun enda mikilfengleiki allra viðstaddra löngu orðinn ljós. Hópurinn gaf út 4 plötur: Geimsteinn (1976), Geimstré (1977), Geimferð (1978) og Með þrem (1980). Hér er opnunarlag Geimtrés, eðal sintaknúið diskópopp sem Þórir hefur kokkað upp samhliða meikinu í erlendum diskóheimum. Umslag Geimtrés gerði meistari Þorsteinn Eggertsson, sem einnig samdi lang flesta textana. Nú stendur mikið til hjá Þorsteini: 


Þann 20. október næstkomandi verða haldnir nokkuð sérstæðir af tónleikar í Salnum í Kópavogi. Óperusöngvararnir Davíð Ólafsson og Stefán Helgi Stefánsson munu syngja þar nokkur af þeim vinsælu lögum sem Þorsteinn Eggertsson hefur gert texta við. Helgi Már Hannesson píanóleikari mun annast undirleik en Þorsteinn mun sjálfur segja frá tilurð textanna við lögin – og rifja upp nokkrar kostulegar sögur í því sambandi.
Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 – í framhaldi af því að Þorsteinn ætlar að ganga í hjónaband með Jóhönnu Fjólu Ólafsdóttur, þarna í Salnum, rétt áður en skemmtunin fer fram - eða klukkan 20:10, 20. dag 10. mánaðar árið 2010. Í hlénu geta síðan tónleikagestir heilsað upp á brúðhjónin.
Húmorinn er að Þorsteinn Eggerts giftir sig kl. 20:10 20.10 2010 og er búinn að vera giftur í 20 ár og hefur ferðast til 10 landa. (Nánar um giggið).

18.10.10
Ingvi Hrafn er að gera allt brjálað með geðsjúkum performans sem á heima á einhverskonar uppistandshátíð. Alveg er mér nú sama hvað þessi meistari er að delera. Evu Joly er örugglega sama líka, vön svona frethólkum. Fólk, sérstaklega fólk sem á að vera víðsýnt og vinstri sinnað, er almennt alltof viðkvæmt fyrir svona dellu í karlpungum. Öllum ætti að vera drullusama hvað grömpí pungar eru að frussa á klósettinu heima hjá sér. Kann fólk ekki að vera kúl? Greinilegt samt að Saga Pro hvannarpillurnar eru alveg hættar að virka á Ingva og hann vaknandi um allar nætur til að pissa. Skýrir margt. Ég skrifaði hér agalega lofgjörð um þessar pillur eftir að hafa sofið út í eitt skipti "á þeim", en svo hefur þetta ekkert virkað síðan og skiptir engu máli hvort ég tek pillurnar eða ekki – blaðran á mér fer sínar eigin leiðir. Mæli sem sé ekkert sérstaklega með þessu, engin merkjanleg virkni af þessum pillum.
---
Gaman þótti mér að lesa að Yoko Ono hefði eytt 100.000 kalli í Lífsstykkjabúðinni. Sjálfur eyddi ég ekki nema 800 krónum í plötudeild Jóa í Vonbrigðum í Kolaportinu, en á því frábæra verði var þriggja platna albúm George Harrison All things must pass. Um helgina nældi ég mér í bestu plötu The Fall, 10" plötuna Slates, og keypti 180 gramma samnefnda plötu með Timber Timbre, sem ég sá spila 4 lög offvenjú í Kanadapakkanum á Hressó. Hann var ægilega rólegur og stóðst ekki alveg væntingar. Var með fiðlustelpu og mann á kjöltustáli með sér. Músíkin er umtalsvert flottari á plötunni en svona læf, allavega í þetta skipti. Að sjálfssögðu stóð ég mig hörmulega á Airwaves í ár, eins og undanfarin ár, sá ekkert nema þessi 4 lög með Timber Timbre, stöffið við hliðina á S. H. Draumi á Nasa og svo fórum við aðeins og kíktum á Sódómu og sáum eitt lag með Deep Jimi áður en gítarleikarinn sleit streng og allt hætti. Frámunalega frábær hátíð engu að síður.
---

GRM - Mærin í Smáralind
Platan MS GRM með Gylfa, Rúnari Þór og Megas er að sigla í land á allra næstu dögum. Þar taka þessir stórmeistarar gömul lög eftir sjálfan sig og nokkur ný. Bræðurnir Magnús og Albert Ásvaldssynir leika undir af rokkuðu öryggi. Lagalistinn er eftirfarandi:

Sjúddirarí rei
Drottningin Vonda
Spáðu í mig
Jón á röltinu
Út á gólfið
Mærin í Smáralind
Minning um mann
Gígja
Brotnar myndir
Lóa Lóa

Svo á að spila. 4. nóv í Austurbæ og 10. nóv í Hofi, Akureyri. 

16.10.10

Gríðarmikið Kanada offvenjú má berja augum á Hressó í dag frá kl. 15:00 þegar Timber Timbre, eina bandið sem mig langaði 100% að sjá á Airwaves í ár, hefur leik. Diamond Rings kemur næstur. Hann er indie Haffi Haff og svaka fínn. Restin er eflaust svaka fín líka en ég hef bara ekki kynnt mér það nógu vel. Góð öll þessi off-venjú gigg. Þá getur fólk sem er yfirleitt farið að sofa kl. 22 séð stöff á almennilegum tíma. Maður nennir nebblega varla út úr húsi eftir kl. 19. Og þar fyrir utan er alveg ókeypis inn á allt sem heitir off venjú.
---

Það sem S. H. Draumur var að gera fyrir KEXP er nú komið á netið. Við hljómum eins og við séum spólgraðir unglingar, bara ekki jafn vitlausir (ímynda ég mér). Það má heyra þetta hérna. Svo voru þarna fleiri íslensk bönd og allir mjög hressir.
---
Fór að borða á Brauðbæ/Hótel Óðinsvé í hádeginu í gær. Þau eru með danskt smörrebröd hlaðborð á 2.200 kall á mann. Mjög solidd dæmi. Allskonar smörrebröd og súpa og purusteik og ég veit ekki hvað og hvað. Vandamálið við hlaðborð er að þegar ofætur komast í svona feitt hætta þær ekki að stinga í gatið á sér fyrr en þær bara hreinlega geta það ekki lengur. Ekki bætir ef ofætan er nísk og vill fá sem mest fyrir peninginn. Þess vegna er ég pakksaddur ennþá næstum heilum degi síðar!
---
Keypti mér þó bókina Mataræði e. Michael Pollan (einn af þeim sem fékk Ono verðlaun um daginn) og var skammaður fyrir af Lufsunni. Hún sagði að þetta væri allt svo almennur sannleikur að ég hefði átt að vita þetta allt. Þó þetta sé náttúrlega hugsað fyrir frekar vitlausa Ameríkana þá finnst mér samt hvetjandi og fínt að hafa alla spekina á einum stað. Það samræmist illa kjaftinum á mér, sem er Kani, en niðurstaða Pollan er sem sé: Borðaðu mat. Ekki of mikið. Mestmegnis grænmeti. Og svo er hann með allskonar handhæga visku eins og Það er ekki matur ef það kemur inn um gluggann á bílnum þínum og Ekki borða morgunkorn sem breytir litnum á mjólkinni. Ég er að reyna. Ég er að reyna.
---

Just Another Snake Cult - Strong Enough
All frábær plata er nýkomin út hjá Brakinu, The Dionysian Season heitir hún og er með  Just Another Snake Cult  - (Myspace). Þetta er "sólóband", strákurinn heitir Þórir og ólst upp í USA. Þú getur lesið smáatriðin hér. Tónlistin er góður lófæpoppgrautur. Television Personalities finnst mér sterkur áhrifavaldur og þar af leiðandi hljómar sumt líka í ætt við Belle & Sebastian og Mgmt jafnvel. Það getur samt alveg verið að Þórir hafa aldrei heyrt í TV Personalities á ævinni, þetta eru engar hráar stælingar. Í þessu lagi er svo sinti sem er með nákvæmlega sama sándi og eitthvað með Magazine. Nettviljun. Þórir býr nú á Íslandi og hefur safnað í band sem hefur verið að taka gigg. Þau verða á Sódómu í kvöld kl. 20:20 (Erveifs).

15.10.10

Gömlu voru svaka bissí í gær. Byrjuðum daginn á að djöflast upp á Rúv fyrir KEXP stöðina í Seattle. Það verður eitthvað onlæn frá því innan tíðar. Átum á hamborgarfabrikkunni. Fékk mér eitthvað guðfenglegt unit, Forsetann, með portobello sveppi og spældu eggi. Mættum belgsíðir á Nasa í sándtékk. Spiluðum í Havarí. Þar var allt troðið og ógeðslega heitt. Svo tók við þessi ógeðslega leiðinlegi dauði tími fyrir gigg. Maður er einhvern veginn of stressaður og upptjúnaður fyrir komandi átök og er ekki í stuði til að gera nokkur skapaðan hlut. Best væri að fá að sofa. Næst best að fara í heita pottinn sem og við gerðum. Í Árbæ. Lágum þar eins og skötur í tvo tíma. Svo var loksins komið að þessu. Rifum þakið af helvítis kofanum og svo kom Ham og kveikti í rústunum. Ég var að vona að unga fólkið myndi kalla þetta The legends of Icelandic classic rock return, eða eitthvað álíka, en kvöldið gekk víst undir nafninu "Gömlukallakvöldið" manna á meðal. Það er nú ekkert að marka enda hefur ungt fólk sjaldan verið vitlausara en einmitt í dag. Það var náttúrlega ekki komist hjá því að ybba aðeins gogg við hina pungsíðu Ham (eins og sjá má sýnishorn af hér), enda var ekki sami skáta - allir vinir - fílingur í rokkinu í gamla daga eins og núna. S. H. Draumur og Ham voru nú reyndar aldrei með nein leiðindi í hvers annars garð, enda var þetta bara í annað skipti í gær sem við spiluðum saman (hitt skiptið var 14/4/88 á Borginni). Bless og Ham voru aftur á móti alltaf með skæting og leiðindi, enda spiluðu þessi bönd miklu meira saman. Sigurjón notar hvert tækifæri til að minnast á einhverja gítarsnúru sem ég vildi ekki lána honum í New York 1989! Ham helvítin voru auðvitað ógeðslega góð og nýju lögin fín. Þetta verður snilldarplata hjá þeim ef þeir koma henni einhvern tímann út. Borgarstjórnarfundir og eitthvað rugl setja náttúrlega óþarflega mikið strik í reikninginn.
---
Hérna er vandað viðtal við mig á ensku.

14.10.10


Goð+ valt út úr tolli í gær og streymir nú í búðirnar. Í Havarí fylgja fyrstu eintökunum orginal Stebba Gríms límmiðar frá 1987. Hér er Kristján Freyr hjá Kima útgáfunni og ég með fyrsta eintakið sem plastið var tekið af. Goð+ er vægast sagt stórfenglegur pakki, djúsið svoleiðis sullast út úr honum – þetta er allt eins og vonir stóðu til. Rjóminn er alltaf svo góður við okkur og hefur nú slengt á Goð+ heilum 5+ í stórstjörnudómi. Svo erða bara rokk og/eða ról í allan dag (sjá borðann hér að ofan).
---
Strákarnir í Ham, sem spila á eftir okkur á Nasa, voru í góðu innslagi í Kastljósi í gær og tóku nýtt lag. Óttarr var í gífurlega góðri peysu.

13.10.10
Jæja hvað segirðu, ert ekki reddí í massífu tónlistarhátíðina? Júps, Airwaves byrjar í dag og Kima kvöldið á Venue er feitasti pakki kvöldsins, sýnist mér. Þar verða m.a. Prins Póló, Miri og Benni Hemm Hemm. Það er allt í gangi og geðveiki! Allir að vanda sig rosa mikið svo maður er alveg viss um að fá topp tónleika hvert sem maður fer. Ég ætla ekki að hugsa um annað en tónlist næstu daga. Mér gæti ekki verið meira sama um úrræði og almennar skuldaniðurfellingar. Kommon, þetta eru nú bara peningar. Það er svo plebbalegt að hafa áhyggjur.
---
Hér er gott stöff:

FM Belfast eru með nýtt lag sem heitir Vertigo.

Menningarsíðan Vinkill lofar góðu. Tónlistarspekúlantinn gæti haft gaman að þessari grein um myndbandamanninn Vincent Moon eða þessari grein um bækurnar Our Band Could Be Your Life: Scenes From the Indie American Underground 1981-1991 (sem fjallar um amerískt skruggrokk áður en Nirvana slógu í gegn, bönd eins og Butthole Surfers, Sonic Youth et al... bók sem ég þarf að fara að drífa mig í að lesa) og skáldsöguna The Alternative Hero (sem hljómar eins og eitthvað sem ég ætti að lesa). 
---
Eins og kemur fram á vönduðum auglýsingaborða hér að ofan verður S. H. Draumur á ferð á morgun, spilar í Havarí kl. 16 - 17 og svo á Nasa um kvöldið. Þetta er nú alveg milljón. Ekki nóg með þetta heldur byrjum við daginn á að taka upp nokkur lög fyrir útvarpsstöð í Seattle, KEXP. Þeir ætla að taka upp slatta af íslensku dóti.
---
Gefum nú Grími da boss orðið:
Hátíð í bæ – 80 milljarðar!

Til hamingju! Iceland Airwaves tónlistarhátíðin er að bresta á.  Nærri 300 listamenn, 280 tónleikar og annað eins „off-venue“, frábær tónlist, blátt lón, bestu pylsurnar og almenn gleði í borginni í tæpa viku. Yfir 2300 erlendir gestir heimsækja hátíðina, þar af um fjögur hundruð blaðamenn og fólk sem starfar í tónlistariðnaðinum og hefur verið óspart á fögru orðin í erlendum fjölmiðlum í garð lands, borgar og listamanna undanfarin ár.  Íslenskt tónlistarlíf nýtur virðingar út um allan heim.  Hér sé stuð!

Fyrir nokkrum árum var gerð rannsókn á því hverjar gjaldeyristekjur þjóðarinnar af hátíðinni væru. Á þeim tíma námu þær um 350 m.kr. en þá voru gestirnir 1700 og dagarnir fjórir en ekki fimm eins og í dag. Varlega áætlað má því gera ráð fyrir að erlendir gestir eyði 760 m.kr. þessa daga í október og þá eru flug ótalin. Íslendingar eyða öðru eins og er veltan vegna hátíðarinnar vart undir 1500 m.kr. Virðisaukatekjur ríkissjóðs og aðrar skatttekjur eru á bilinu 150 til 300 m.kr. Þetta eru beinharðir peningar og er þá ótalin sú landkynning sem hátíðin hefur stuðlað að sl. 11 ár. Orðspor hátíðarinnar hefur borist um allan heim sem sést best af fjölmiðlaumfjöllun í  Japan,  Brasilíu og alls staðar þar á milli. Framlög ríkisins í tónlistarsjóð, listamannalaun og o.fl. er fjármagnað með tekjum af Iceland Airwaves.

Það hefur löngum verið lenska á Íslandi að gera lítið úr peningalegum arði skapandi greina. Listamenn mæta enn í dag talsverðum fordómum. Það þykir dyggð að vinna með höndunum og moka eins og einn skurð á dag. Þetta er allt gott og blessað en staðreyndin er sú að velta í skapandi greinum er  um 80 milljarðar samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum kortlagningarverkefnis sem nú er í gangi. Til samanburðar er velta  íslenska landbúnaðarins um 25 milljarðar og kerfið nýtur um 10 milljarða niðurgreiðslan  úr ríkissjóði.  Menning og listir og þá ekki síst poppkúltúrinn er alvöru atvinnugrein og þjóðin hefur í raun öðlast sjálfsvirðingu með útrás Bjarkar, Sigur Rósar, Iceland Airwaves og þess mikla fjölda listamanna sem eru á ferðalagi um heiminn á hverjum tíma. Nágrannaþjóðirnar öfunda okkur af þeim frábæru listamönnum en það virðist vera erfitt að vera spámaður í eigin föðurlandi.

Stuðningur Icelandair og Reykjavíkurborgar er ómetanlegur fyrir Iceland Airwaves. Hátíðin er gríðarlega vítamínssprauta fyrir ferðamannaiðnaðinn yfir vetrarmánuðina. Þrátt fyrir þetta er staðreyndin sú að rekstur hátíðarinnar er í járnum. Starfsmenn eru allir í hlutastarfi og á lágum launum. Ríkið styrkir hátíðina ekki um eina einustu krónu! Til samanburðar er vert að nefna að sambærileg hátíð í Osló, by:Larm  nýtur styrks að fjárhæð 30 m.kr.  frá Oslóborg og 20 m.kr. frá norska ríkinu.  Sömu sögu er að segja um M for Montreal sem er u.þ.b. 5 sinnum minni í sniðum en Iceland Airwaves. Út um alla Evrópu má síðan finna hátíðir sem njóta umtalsverðra opinberra styrkja: c/o pop og Reeperbahn í Þýskalandi, Spot í Danmörku og Eurosonic í Hollandi – svo einhverjar séu nefndar. Það er skilningur fyrir því í þessum löndum að með því að leggja aur í komi króna til baka. Iceland Airwaves stenst fullkomlega samanburð við þessar hátíðir og telja reyndar margir gesta hátíðarinnar að hún sé sú besta sinnar tegundar í heiminum í dag.

Að styrkja hátíð sem þessa veitir henni möguleika á að lifa og dafna um leið og það eflir tekjumöguleika og samstarfsverkefni við erlenda aðila. Hátíðin skilar ríki og borg umtalsverðum fjármunum svo ljóst er að yrði hátíðarhöldum hætt sökum fjárskorts yrðu þessir opinberu aðilar af töluverðum tekjum. Hugsum því heildrænt – hugsum um menningu um leið og við hugsum heildrænt um þann ávinning sem fæst af tónlistarhátíð sem þessari.

Það er ástæða til að óska okkur öllum til hamingju með 3. vikuna í október ár hvert í Reykjavík – já, hér sé stuð!

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri
Iceland Airwaves

12.10.10
Músík, músík, músík... lekur út um eyrun í trylltu magni þessa dagana. Nýjar plötur á fóninum með Belle & Sebastian, Elvis Costello, White Denim, Marnie Stern og Deerhunter. Svo er Airwaves komming öpp og hægt að nálgast spikfeitan safnpakka með fullt af íslenskum hljómsveitum á Greipvæn hér (m.a. Glæpur gegn ríkinu með S. H. Draumi). Og svo bara streyma spennandi íslensku plöturnar út:


The Way Down - Heart Over Soul
Ari Eldon, Riina og Orri – öðru nafni The Way Down – hafa gefið út 8 laga plötuna Icelandic Democracy. Hún er til á Gogoyoko og kemur etv síðar í föstu formi. Átta manns komu við sögu sem gestaleikarar á plötunni: Þór Eldon, Danny Pollock, Frank Arthur Blöndahl Cassata, Sigrún Eiríksdóttir, Hafsteinn Michael, Pétur Úlfur Einarsson, Gísli Már Sigurjónsson spila á gítara (í sitt hvoru laginu) og Orrustubjarki klappar og spilar á hljómborð.Videoupptökur frá gerð plötunnar eru til á Youtube. The Way Down spila í Nonnabúð kl. 17 á laugardaginn.


Ég - Draumveruleikinn
Þriðja plata Ég er komin út og heitir Lúxus upplifun. Að vanda er allt vaðandi í góðu grúvi, lögum og textum. Til á Gogogyoko og væntanleg í næstu búð í hardkóver.


Retro Stefson - Velvakandasveinn
Önnur plata Retro Stefson, Kimbabwe, er handan við hornið - er komin á Gogoyoko - en er væntanleg í hörðu formi í búðir á mánudaginn næsta (eftir Airwaves). Gestir tónlistarhátíðarinnar þurfa þó ekki að örvænta því hljómplatan verður fáanleg í forsölu á völdum stöðum á meðan hátíðinni stendur. Fréttatilkó: Kimbabwe inniheldur 11 þétta smelli sem teknir voru upp og hljóðblandaðir í Hljóðrita af Guðm. Kristni Jónssyni. Um hljómjöfnun sá Styrmir Hauksson. Umslagshönnun var í höndum Haralds Civelek. Ákveðið var að fara óhefðbundari leiðir við hönnun á því og er umslagið í raun veggspjald brotið um geisladiskinn sjálfan.
Retro Stefson er að verða flestum tónlistaráhugamönnum þjóðarinnar kunn enda hefur hún komið fram undanfarið ár við ýmis tilefni og verið sérlega iðinn við spilamennsku um allt land. Hitaði hún meðal annars upp fyrir stórtónleika Amadou & Mariam í Laugardagshöllinni á Listahátíð í Reykjavík í maí síðastliðnum. Hljómsveitin var stofnuð árið 2005 þegar meðlimir hljómsveitarinnar voru enn í gagnfræðaskóla. Árið 2008 kom svo út Montaña, fyrsta breiðskífa sveitarinnar, einnig á vegum Kimi Records.

11.10.10

Tvennt gengur allavega ógeðslega vel á Íslandi í dag. Annars vegar Hamborgarafabrikka Simmogjóa. Við Biggi ætluðum að snæða þarna fyrir Ono en þá var klukkutíma bið eftir sæti. Fórum í staðinn á Ruby sem er traust og gott. Hitt sem gengur gríðarlega vel er Yo Yo ís (eitt útibú eins og er á Nýbýlaveginum), sem er á góðri leið með að drepa alla samkeppni í ísbúðarbransanum. Hér hefur bland í poka menningin haldið innreið sína í ísbransann og fólk mixar að vild, velur úr 12 tegundum íss og hrúgar allskonar gúmmilaði ofan á. Fólk er kolfallið fyrir þessu og það er alltaf brjálað að gera. Fór þarna á laugardaginn og þá var biðröð út úr dyrum. Röðin gekk þó hratt fyrir sig. Ég tók eftir því í blaði nýlega að Yoyo auglýstu eftir húsnæði í Austur- og Vesturbæ, svo Yo Yo innrásin er greinilega bara rétt að byrja. Ísinn þarna er fínn (misfínn reyndar, síðast tékkaði ég á New York Creamcheese cake bragði sem var frábært) og það er her starfsfólks þarna sem passar upp á að þetta verði ekki subbulegt. Það myndi náttúrlega gerast fljótt þar sem allir eru að búa til sína eigin ísrétti í gríð og erg. Svo borgar maður bara eftir vigt, 169 kr. fyrir 100 grömm, sem mér sýnist vera sanngjarnt.
---

Yoko Ono Plastic Ono Band - The Sun is Down (læf í Háskólabíói 09.10.2010)
Ég var svo framarlega á Yoko að mér fannst hún alltaf vera að stara á mig. Ég var eiginlega dauðhræddur, mér finnst Yoko vera svo ógnandi, og þorði eiginlega ekki að taka af henni myndir. Hún er ansi lífleg miðað við að vera 77 ára og þar að auki fyrrverandi heróínisti (nema það sé bara svona heilsusamlegt?). Það voru hvílikir stórmenni með henni á sviðinu (fattaði ég seinna). Þarna voru m.a. japanski meistarinn Cornelius, Nels Cline úr Wilco, Yuka Honda úr Cibo Matto og Harry Hosono úr Yellow Magic Orchestra. Mark Ronson, þekktur breskur meistari kom inn og spilaði á gítar í einu lagi, og svo fylltist allt af selebs í lokin, bassaleikari Nefrennslis og fleiri minni spámenn komu þá inn á svið og tóku Friður á jörð með Samsteypunni.
Ekki skal vanmeta frammistöðu Seans Lennons. Mér er sama hvað menn djóka með að hann hafi "útlit pabba síns, en tónlistarhæfileika mömmunar" – hann er greinilega mjög fær tónlistarmaður. Sólóplöturnar hans eru fínar og hann sýndi funheita takta á bassann. Spilaði á köflum með 10 metra háa útglennta píkuna á mömmu sinni fyrir aftan sig - og sló ekki feilnótu. Nei reyndar var þetta ekki píkan á mömmu hans (þarna í myndinni Fly frá 1970) og það skiptir sköpum (ho ho), heldur var þetta eitthvað módel (sem heitir Virginia Lust, skv. Imdb). Nýjasta tónlist Ono bandsins er helst skyld fönki. Það var vampað á riffum og tætt í og gamla jarmaði og gól yfir. Alls ekkert gamalmennalegt við það. Gott gigg og heimssögulegt!

10.10.10

Plastic Ono Band Starr, Gnarr o.s.frv - Give Peace a Chance
Jæja þetta var fínt! Best endirinn þegar allir komu fram og tóku Gefðu friði séns. Ringo og Jón og allir í fínu stuði. Hlustaðu bara!

09.10.10
Stóri Lennon dagurinn er í dag. Karlinn sjötugur. Yoko Ono og Ringo (ímynda ég mér, jafnvel fleiri frægðarmenni. Paul? Nja.) og japönsk framúrstefnusveit leidd af Sean með gigg í næsta húsi í kvöld og ég með miða á 4. bekk. Ú a hú! Ég þurfti ekkert að nota sambönd mín við ráðandi borgarstjórn til að redda svona góðum miða, brást bara ofurhratt við þegar ég heyrði þetta auglýst á Rás 2 og keypti miðann á skitinn 2000 kjall á midi.is. Það verður að sjálfssögðu hlustað á Lennon í allan dag, Bítla og sóló, jafnvel nýju Plastic Ono plötuna til að komast í gír. Jafnvel pabb'ans líka:


Freddie Lennon - That's my life (1965)
Eftir því sem ég hef lesið mér til þá var John Lennon frekar óútreiknanlegur og kannski ekkert svo rosalega viðkunnanlegur á köflum. Náttúrlega í smá steik frá mömmu og pabba dramanu í æsku og allt það. Ef ég mætti ráða færi ég nú frekar hringveginn með Paul. Alfred "Freddie" Lennon, pabbi Lennons, stakk af en snéri aftur þegar John var orðinn frægur, en Bítillinn vildi ekkert með pabba gamla hafa og rak hann á dyr. Sem "pabbi Johns Lennons" átti Freddie nokkuð ljúfa daga, byrjaði með "einni ungri" og gaf út þrjár litlar plötur með hljómsveitinni Loving Kind. John skammaðist sín fyrir pabba sinn og bað Brian Epstein að gera sitt besta til að láta þessar plötur hverfa. Þær eru rarítí í dag. 


Bítlarnir - She Loves You og Twist & Shout (Olympia Theater, Paris, Jan. 1964)
Lífið er frábær tilviljun og yndislegt rugl. Eitthvað fólk æst af greddu hefur mök og sirka 9 mánuðum seinna veltum við út blaut og vælandi. Freddie og Júlía í tilfelli Lennons. Svo 40 árum síðar setur þunglyndur geðsjúklingur strik í reikninginn og bamm bamm bamm. Það sem gerist á milli er allt. Ekki gleyma því.

(úr minnisbók 1980)

8. DES Mán.
Skrópa í leikfimi. Fer til Halla um kvöldið.

9. DES Þri.
Tek sundpróf. O.K. John Lennon deir. Mikið vesen. Horfi á TV um kvöldið.

(Bendi á að snillingarnir í Víðsjá voru með spikfeitan Lennon pakka í gær). 

Það er auðvitað gjörsamlega frábært að við hérna á kreppuskerinu séum miðpunkturinn í Imagine verkefni Yokoar. Það er massíf dagskrá í gangi sem má skoða hér. Mæli alveg með myndinni Nowhere Boy sem er sýnd í Bíó Paradís. Fín mynd.


Bítlarnir - Get back No Pakistanis (demo 1969)
Auðvelt væri að áætla að Paul McCartney hefði samið Get Back um Yoko Ono ("Get back to where you once belong - Get back, Jojo...") Svo er þó ekki heldur er lagið einskonar grín um rasisma. Jónas Bítlafan sendi mér orginal demó af laginu og línu: Svona til gamans ætla ég að senda þér Get Back lagið eftir Paul og sýna að upphaflega er þetta lag samið er Pakistanar fluttu unnvörpum til UK þegar einhverjum innflytjendalögum var breytt, sem ég kann ekki að útskýra. Heyrn er sögu ríkari. Lennon var með einhverja paranoju útaf þessu seinna. Hann spilaði nú sólóið í þessu lagi.
Bæ ðe vei einsog kellingin sagði: Boxið með Lennon sem nornin sendi frá sér á dögunum er bara enn ein endurtekningin á JL stöffinu. Ekkert nýtt. Bestu kaupin eru útgáfan á 2004 útgáfunni með aukalögunum og boxið með diskunum 4.


GLH - Jarðaberjaengið alltaf
Að lokum, í stóru Lennon-færslunni, erða tileinkun, kóver af Strawberry Fields Forever. Upptökur fóru fram á Álfhólsvegi 30a 17. desember 1982 og þetta "kom út" í einu eintaki á kassettunni Heilagt heilaæxli, sem var ein af 10 sólókassettum sem ég framleiddi sem unglingur með allan tíman í heiminum og ekki áhuga á neinu öðru en músík. Á þessum tíma notaði ég listamannsnafnið GLH. 

08.10.10
Búinn að eiga afmæli. Fékk þráðlaus heyrnartól, einmitt það sem mig vantaði, og get nú hlustað út um allt hús. Drífa 150 metra, gegnum veggi og allt! Næsta skref er kannski að fá sér almennilegar steríógræjur, ég er ennþá með sambyggðan Sanyo hlunk sem ég fékk í ritlaun fyrir skrif í tímaritið "O" 1992 eða eitthvað! Fékk einnig vindla, yndislega pjeninga (pjeningar - ég elska þá!!!) og nýju myndina um Serge Gainsbourg á dvd. Almennilegt afmæli! Ég fór að leita að Stefáni Grímssyni – enda fráleitt að búa til boli án þess að spyrja fyrirsætuna. Flæktist um allan Kópavog, mínar æskuslóðir, enda fátt meira viðeigandi á afmælinu sínu. Ég verð alltaf Kópabogsbúi í "hjartanu". Það er bara þannig. Hélt kannski að ég myndi rekast á Stefán í Hamraborginni. Tékkaði á hinu stórkostlega Tónlistarsafni, en þar stendur nú yfir sýning um Sigfús Halldórsson. Komst að munnlegu samkomulagi við forstöðumanninn að hafa samstarf þegar ég fer að skrifa öppdeitið og endurmixið af Eru ekki allir í stuði e. áramót (vinnsluheiti bókar: Rokk2). Stefán var ekki á safninu og ekki á bókasafninu svo ég brenndi heim til hans. Hann var ekki heldur þar, en vissulega er póstkassinn glæsilegur. Mér þykir þetta sterkt innlegg í umræðuna um "listamenn" sem nú stendur yfir.

Beytti ítrustu leynilögregluhæfileikum og fann Stefán loksins á Dvöl í Reynihvammi þar sem hann fær hádegismat og félagsskap. Meistarinn var að sjálfssögðu mjög ánægður með þessi plön öll saman varðandi kombakk S. H. Draums og bolinn. Sem bæ ðe vei hefur rokið út eins og funheit lumma. Ég vona að ég fái bolina úr verskmiðjunni í dag og geti farið að senda út. Stefán verður svo að sjálfssögði heiðursgestur þegar Goð verður spiluð þarna í nóv/des.


---
Ég hef verið að ota mínum tota í fjórða valdinu. Maggi Strump gerði all spakurt viðtal sem nú má lesa á Rjómanum. Þrjú tóndæmi að auki og "sagan á bakvið lagið" (eins langt og það nær, ég man ekki hvernig flest af þessu dóti varð til). Mogginn var með mjög góða breiðsíðu í blaðinu gær og Arnar Eggert krufði líkið. Hann minntist á gæsahúð viðloðandi sum þessara laga og það er einmitt sú upplifun sem ég fékk þegar við vorum að æfa þetta. Ég var eiginlega með eina samfellda gæsahúð á æfingum og það er frábær tilfinning. Vona að við komum henni til skila á giggunum. Krakkarnir sem skrifa Toppfimmáföstudegi báðu mig um að velja topp 5 sem ég ætla að tékka á á Airwaves og þær niðurstöður má lesa hér.
---

Beatles - What Do You Want To Make This Eyes At Me For
Ú la la! Nú styttist í Yoko Ono og alla leynigestina. Vóa! Á morgun Háskólabíó. Mikil Lennonveisla hefur staðið yfir hjá Rás 2 þar sem fólk er að leika sér með snilldina. Keppninni líkur í dag svo líklega skipta atkvæðin ennþá einhverju máli. Ég mæli að sjálfssögðu heilshugar með því að þú kjósir Heiðu trúbador til sigurs með snyrtilegu útgáfuna sína af I'm only Sleeping.
Hér eru Bítlarnir að syngja Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig í Let it Be sessjóninni. Ég heyri nú ekki í Lennon þarna. Kannski var að hann djönka sig inn á klósetti. Þetta lag var gert vinsælt af Emile Ford & The Checkmates 1959 (Youtube!) áður en Raggi tók það 1960. Talandi um Ragga. Djöfull þarf maður að sjá þessa nýju heimildarmynd um hann. (Ps. Þessi grín trekantsmynd af Onohjónum með Andy Warhol er fengin af síðunni Strange Cosmos). Djöfull er "trekantur" eitthvað bartalegt orð annars.
---

Gunnar Óskarsson / Pálmi Gunnarsson - Götustelpan
Þetta er nú eitt af skárstu 80s lögunum, enda Pálmi klassískur og textinn svo aðdáunarverðar lélegur að hann verður eiginlega mega klassík. Platan Blankalogn, sólóplata Gunnars Óskarssonar, kom út 1986. Gunnar var bara einhver gaur sem enginn vissi neitt um (kom frá Þorlákshöfn, það var það eina sem var vitað um hann!) og svo virðist hann hafa horfið jafn hratt úr bransanum, að því er virðist með skuldaklafa á bakinu eftir plötuútgerðina. Eftir því sem ég kemst næst hefur þetta lag ekki verið endurútgefið (á náttúrlega heima á öllum 80s safnplötum). Hér er dómur Andreu Jóns úr Þjóðviljanum:

Langvarandi vændi tekur ört á taugarnar.

07.10.10

Ég er 45 ára í dag. Iss, það er ekki neitt og ég bendi á að unglambið George Clooney er fjórum árum eldri en ég. Sama afmælisdag eiga Ragga Gísla (54) og Skapti Ólafsson (83). Ég er með það framtíðarplan að búa til lagið "7. október" sem við þrjú flytjum. Það yrði einskonar bjartsýnislag enda er 7. okt fyrsti dagurinn á eftir 6. okt, en eins og fólk veit er 6. okt 2008 einmitt dagurinn þegar Haarde bað Gvöð að bjarga þjóðinni (og nýjasta Egó-platan heitir eftir). Erlend frægðarmenni sem eiga afmæli í dag eru Kevin Godley (trommuleikarinn (o.m.fl.) úr 10cc (sjá mynd) - 65), Vladimir "Rússland" Putin (58), Simon "Idol" Cowell (51),  Luke "Auteurs" Haines (43) og Thom "Radiohead" Yorke (42). Bara toppfólk sem á afmæli í dag!
---

Alveg er mér nú drullusama hvað þessi Ásbjörn er að tuða um listamenn og að þeir ættu að fá sér vinnu. Fólk er að fara á límingunum yfir þessu í einhverri ofurviðkvæmni, eins og það sé eitthvað nýtt að klunnalega þenkjandi Sjálfsstæðismenn séu með brundfyllisbull á Alþingi. Hinn atvinnulífshjólaupptekni þursinn var einmitt líka með gott grín í gær. Sjálfur hef ég lengi haft á móti því að ég sé kallaður listamaður – og aldrei hef ég fengið almennileg listamannalaun enda er ég því miður alveg glataður í að totta spena skattgreiðanda  – en ég er spá í að fara að kalla mig listamann hér eftir, bara til að hræra í pappakössunum sem sjá rautt þegar orðið listamaður ber á góma. Kannski er ég líka bara listamaður þegar allt kemur til alls.
---
Í dag er rafrænn útgáfudagur GOÐ+. Hlekkurinn í að kaupa þessa geðveiku snilld er þessi (í vinnslu, ætti að hrökkva í gang asap í dag) Fyrir 2990 kall færðu að dánlóda 50 lögum og færð svo sendann hinn veglega viðhafnarpakka ilvolgan út verksmiðjunni (um miðja næstu viku). Frábær díll eða frábær díll?
---
Þetta er ekki allt því það er LÍKA KOMINN BOLUR:

Þessi útúrgeðveika snilld er framleidd í takmörkuðu upplagi (50 stk) og verður aldrei framleidd aftur*. Stykkið kostar 2000 kall (+ sendingarkostnaður 300 kr. innanlands, meira til útlanda) = 2.300 kr - Bolirnir eru til í MEDIUM / LARGE / XLARGE

SKRIFIÐ OG PANTIÐ!!!

Þess má geta að allur ágóði af sölu bolanna rennur óskiptur til fyrirsætunnar, Hr. Stefáns Grímssonar, og er auðvitað fyrir löngu kominn tími til að Stefán fái eitthvað fyrir sinn gullfallega snúð.
---
Það var smá viðtal við mig í Víðsjá í tilefni af þessu S. H. kombakki öllu. Má hlusta hér.
---
Nýi bakgrunnurinn er fenginn úr gömlu plaggati frá árdögum S. H. Draums. Því miður fannst þetta gullfallega collage plaggat ekki áður en pakkinn fór í framleiðslu svo það birtist bara hér:

---
* nema annað komi í ljós.
 

Fortíðin er niðurkomin hér.