Jolli í Amadeus, takk fyrir hjálpina á árinu

Rikshaw og Herbert. Þetta eru erkitýpur eitísins. Útlitið og tónlistin gæti ekki hafa komið úr öðrum heimi en umbúðaheimi eitísins. Maður hefur stundum á tilfinningunni að strákarnir í Rikshaw hálfpartinn skammist sín fyrir fortíðina. Eða gerðu það einu sinni. Nú hlýtur að vera hægt að hlægja að myndunum.

Máluðum okkur eins og kerlingar
Sigurður Gröndal gítarleikari hafði verið í hljómsveitinni Árblik, sem starfaði um miðjan 8. áratuginn. "Við vorum undir pönkuðum Yes-áhrifum," segir hann. "Í Klúbbnum á fimmtudögum voru haldnir tónleikar á öllum hæðum, yfirleitt um 1000 manns mættir. Við máluðum okkur í framan og tókum kannski lög sem voru 20 mínútna löng, sum frumsamin. Við vorum líka mikið í Tjarnarbúð, staður sem var beint á móti þar sem Ráðhúsið er núna. Þar hékk myndlistarliðið og maður varð stónd bara af því að labba inn. Þar tókum við Zappa-lög og Stóns, og svo vorum við á skólaböllum og á rúntinum bara."
Frægust varð hljómsveitin fyrir að sitja nakin fyrir í einhverju klámblaðinu, stífmáluð í framan og veifandi kjötinu. Ekki var fyrirsögnin til að draga úr umtalinu: "Maður verður óhjákvæmilega var við kynvillu í þessu bandi" -- eitthvað grín frá Sigurði Hannessyni trommara.
Eftir að Árblik hætti og pönkið geysaði vann Sigurður í Landsbankanum og æfði sig heima á gítarinn. Síðan varð Magnús Stefánsson trommari utan banda og hafði samband; vildi stofna hljómsveit. Sigurður hringdi í vin sinn Ingólf "Golla" Guðjónsson, sem var í lögfræði og átti Fender Rhodes píanó, en hafði hins vegar aldrei snert synta. Þórður Bogason söng og fleiri voru í bandinu sem kallaði sig The Boys Brigade. Smám saman þróaðist sú sveit yfir í Rikshaw. Nafnið þýðir kínverskur hlaupavagn. Nokkuð yngri strákur, Dagur Hilmarsson, kom á bassa, Sigurður Hannesson tók við af Magnúsi, en síðar kom eitt barnið enn, í staðinn fyrir Sigurð, Sigfús Óttarsson trommari, sem hafði þá þegar verið í Bara flokknum. Mikilvægasta mannabreytingin varð þó þegar söngvarinn Richard "Richie" Scobie kom til sögunnar. Hann hafði rétta útlitið, leit töffaralega út, en var einlægur strákur að innan. Hann átti íslenska móðir en amerískan pabba og kom hingað eftir að hafa búið í Ameríku í tíu ár; var í raun orðinn Ameríkani. Richard hafði miklar og háar meikhugmyndir sem hann dældi út úr sér yfir strákana, sem voru lengi að gleypa við þeim -- sumum fannst þetta jafnvel allbrjálaðar hugmyndir í fyrstu. Richard var þó sannfærandi og að lokum voru allir komnir í meikgírinn.
"Þegar búið var að æfa upp átta lög létum við gera rándýr plaköt í lit, fengum stílista, máluðum okkur eins og kerlingar og spiluðum í Safarí. Það var troðfullt en okkur var spáð þrem vikum," segir Sigurður. Frá fyrsta degi var stefnt að heimsyfirráðum Rikshaw. Pabbi Scobie var með puttana í meikleiknum sem framundan var. Fyrsta mál á dagskrá var 4-laga 12" plata sem kom út 1985 á vegum eigin útgáfu strákanna, Koolie Records. Lagið "Into the burning moon" varð vinsælt, enda var gert myndband við það sem kostaði jafnmikið og platan sjálf. Frostfilm sá um framleiðsluna, allt tekið á filmu, strákarnir og Dóra Takefusa, 14 ára, að glenna sig á sviði Háskólabíós: Mikið hár, mikil förðun.
"Okkur langaði að gera hluti í anda þess sem var að gerast í Bretlandi á þessum árum," sagði Richard í Mannlífsviðtali 1990. "Maður bjóst aldrei við þeim viðbröðgum sem við fengum. Fólk tók okkur svo alvarlega og var annaðhvort mjög jákvætt eða neikvætt. Það var ekkert þar á milli."
Hljómsveitin þurfti aðstoð til að komast út úr Tónabæ þegar 300 manna múgur gerði aðsúg að henni, en þess á milli var erfitt að vera eitís hetja í Reykjavík. "Við vorum undir stöðugri smásjá á þessum tíma," sagði Richard, "og öllu sem við gerðum var líkt við eitthvað sem var að gerast erlendis. Einn daginn sat ég í strætó og einhver sagði svo ég heyrði að þarna væri gæinn með Duran Duran hárgreiðsluna. Ég fékk alveg nóg og fór inn á næstu rakarastofu og lét snoða mig. Tveimur vikum seinna virtist svo ný mynd af Simon Le Bon, þar sem hann var líka búinn að snoða sig. Allir héldu náttúrlega að ég væri enn að stæla kappann."

Pizzur og whisky fyrir strákana
Hlaupið var á eftir gulrót meiksins og málaflækjurnar og ruglið samfara því langhlaupi voru miklar -- allskyns klúður, svikin loforð, óheppni. Meðlimir Rikshaw litu stórt á sig, verðlögðu sig hátt og tóku ekki hvaða tilboði sem er. "Við vorum svoddan sveitalúðar og fannst þessi 8% sem bönd fá yfirleitt alveg fáránlega lítið," segir Sigurður. Hann segist annars lítið hafa fylgst með þessu vafstri, hugsaði bara um að spila á sinn gítar, en hann segir Rikshaw hafa boðist tilboð svipað því sem Sykurmolarnir fengu síðar, munurinn var bara sá að þeir hafi ekki farið beint með fréttirnar í blöðin.
Í þau fáu skipti sem Rikshaw spilaði á Íslandi var það til að sýna sig erlendum útsendurum frá plötufyrirtækjum. Sveitin spilaði í Þýskalandi og London, þar sem hún dvaldi langdvölum við upptökur í bestu hljóðverum stórborgarinnar. LP-platan Rikshaw kom út á vinýl 1987 á vegum lítils fyrirtækis í Þýskalandi; úrvals eitís-músik sem gefur erlendum fyrirmyndum ekkert eftir. Strákarnir urðu steinhissa þegar þeir sáu plötuna á CD á einhverju plötumerkjum sem þeir könnuðust ekkert. Þá kom í ljós að umboðsmaðurinn hafði gefið ýmsum fyrirtækjum grænt ljós án þess að ræða það sérstaklega við bandið sjálft. "Hann var einfaldlega með of mörg járn í eldinum og allt fór í rugl," sagði Richard 1990 og bætti við mikið niðri fyrir: "Rikshaw hefði fyrir löngu verið komin á alvöru samning ef rétt hefði verið staðið á málum".
Harkinu fylgdi mikil blankheit og Sigurður segir strákana hafa orðið að vera "algjörar hórur" til að hafa í sig og á. Hann lék m.a. sjálfur í lopapeysuauglýsingu og eyddi kaupinu í pizzur og whisky fyrir strákana. "Einu sinni komum við heim eftir að hafa búið í London í sex vikur, auralausir og ruglaðir. Þá bauðst okkur að gera auglýsingu fyrir einhverja ferðaskrifstofu og við sömdum lag sem var einhvern veginn svona: "Í í í í í Íbíza! Í í í í í Íbíza!" Við fengum miða fyrir átta manns til Íbíza og vorum þar á fylliríi út á einhverri eyju með bassaleikaranum úr Doobie brothers og öðru fínu fólki."
Hrafn Gunnlaugsson fékk Rikshaw til að gera tónlistina við Völuspá og Sigurður segir það hafa verið vel borgað dútl og komið sér vel. Nokkrir Rikshaw menn tóku einnig þátt í meikharki Jakobs Magnússonar með Strax í London og Sigurður spilaði með Geira Sæm í Hunangstunglinu. Endalaus bullandi mínus kennir þó rokkara að setja saman pöbbaband og Sköllótta músin varð til. Músin spilaði mikið í Bíókjallaranum undir Tunglinu og var m.a. með Pixies- og Cure-lög og "hallærisleg gömul íslensk lög". Sigurður og Golli voru í bandinu ásamt ýmsu liði, m.a. söngvaranum Ásmundi "Makríl" Magnússyni, sem hafði verið varasöngvari Skriðjökla. Þegar Richard Scobie tók við af Makrílnum varð Músin að Loðinni rottu, sem varð vinsæl kóvergrúppa með aðsetur á Gauknum. Nú var eitísið orðið að næntís og Duran Duran og blásið hár gamall draugur úr fortíðinni. Í staðinn komu rúskinnsjakkar með kögri á ermunum, támjó kúrekastígvél og gallabuxur frá Levi's. Í þessum ameríska Lenny Kravitz-fílingi var Rikshaw þegar síðasta LP-platan, Angels and Devils, kom út 1990. Nú var eðlilega ætlunin að pota sér inn á ameríska markaðinn, en þrátt fyrir að Rikshaw hafi spókað sig í New York með einum af lögfræðingum Rolling Stones kom allt fyrir ekki og fimm ára meikvonir urðu loks peningaleysi og vonbrigðum að bráð -- "Við gáfumst einfaldlega upp á blánkheitunum," segir Sigurður.
Richard Scobie kom með sólóplötuna X-rated 1993 og var á svipuðum töffararokkslóðum og Rikshaw hafði verið undir það síðasta. Í dag býr hann í Bandaríkjunum, kallar sig Rich Scobie og er viðloðandi bransann; hefur gert músik við B-myndir og auglýsingar og sést í aukahlutverkum. Aðrir hafa haldið sig mismikið við rokkið. Sigurður og Golli munstruðu sig á Pláhnetuna í tvær vertíðir og spiluðu á Uxa-hátíðinni með Agli Ólafssyni í bandi sem þeir kalla 3 to 1. Þeir hafa tekið upp efni í sumarbústöðum víðsvegar um landið og Sigurður segir það kannski koma einhvern tímann út: "Þetta er bara svo þung tónlist að ég efast um að það myndu seljast meira en þrjú eintök".

Með vindinn í fanginu
Herbert Guðmundsson hefur ekki bara gengist við sjálfum sér á níunda áratugnum, hann hefur líka gert út á eitís-Herbertinn, enda eftirspurnin mikil. Í hugum margra er hann áratugurinn holdi klæddur. Þegar fjölmargir Íslendingar heyra hljóðgervla-intróið í "Can't walk away" og directions-rections-rections-rections bergmálar í viðlaginu hríslast um þá eitís-gjólan sjálf.
En Herbert þurfti að berjast fyrir þessum sessi. Framan af var hann í hálfgerðum aukahlutverkum; kom við í Tilveru, Eik og fleiri böndum og hoppaði inn í Pelican þegar búið var að sparka Pétri. Stofnaði sum bönd sjálfur, Dínamit til dæmis, en allt var þetta skammlíft og setti ekki stór strik í reikning rokksins. Árið 1977 gaf Fálkinn út sólóplötuna Á ströndinni, sem var sungin á íslensku. Eik spilaði undir, Hilmar Örn Hilmarsson samdi flesta textana og æskufélagi Herberts, Mike Pollock, samdi nokkur lög. Þeir höfðu kynnst 12-13 ára og spilað saman í bítlabandi í Langholtsskóla. Á ströndinni seldist ekki vel og Herbert setti músikina á ís um tíma; gerðist kokkur í Hrauneyjarfossvirkjun og á millilandaskipum, en samdi samt alltaf lög þegar hann komst til þess.
Herbert skildi árið 1980. Hann var laus og liðugur og tók boði Finnboga Kristinssonar um að fara vestur á Bolungarvík og ganga í ballgrúppuna Kan. Fyrir vestan vann Herbert í fiski og síðar í plötubúð, og tók smám saman völdin í Kan. Hann gekkst fyrir því að menn æfðu "eins og menn", keypti söngkerfi og lét leggja í plötusjóð af balla-innkomunni. Kan varð að lokum sterkasta ballband Vestfjarðarkjálkans. Árið 1984 var plötusjóðurinn orðinn nógu feitur til að fjármagna plötuna Í ræktinni, sem innihélt smellinn "Megi sá draumur". Þar með ætlunarverki Herberts á Bolungarvík lokið og hann flutti suður með nýrri konu, sem hann hafði kynnst vestra. Nú fékk hann loks fé út úr íbúðinni sem hann hafði átt með fyrri konunni og lagði hverja einustu krónu í að gera sólóplötuna Dawn of the human revolution. Hann gerði að auki rándýrt myndband við "Can't walk away" og enn fitnuðu sjóðir Frostfilm, enda allt tekið á filmu og hægt að smyrja vel á reykvélina. Hin metnaðarfulla plata Herberts er tvískipt mjög. Á fyrri hliðinni er hljóðgervla eitísið allsráðandi og Steingrímur Einarsson helsta hjálparhellan. Á seinni hliðinni er hefðbundnara rokk, enda Utangarðsmennirnir Rúnar og Mike með í spilinu og Purrkurinn Ásgeir trommari. Sum þessara laga höfðu verið flutt af þessum mönnum á Melarokki '82, en þá kölluðu Herbert og félagar hljómsveitina Bandóðir.
Mörgum þótti fjáraustur Herberts síður en svo gáfulegur, en dæmið borgaði sig á endanum; um 5000 eintök seldust í fyrstu lotu -- mest út af stóra smellinum "Can't walk away" -- en síðan hefur talan tvöfaldast.
Herbert hafði kynnst búddisma í gegnum Ásgeir Júl. Ásgeirsson árið 1984 og það er Ásgeir gúrú sem sjá má ásamt Herberti aftan á Dawn of the Revolution. Herbert kyrjaði nú kvölds og morgna og fullyrti í Mannlífi 1986 að það hefði ýmsa góða kosti. "Ég sótti um víxil í sumar og fékk dræm viðbrögð. Um kvöldið kyrjaði ég, nei ekki fyrir víxlinum, heldur fyrir bankastjóranum. Morguninn eftir var þessi grimmúðlegi maður eins og lamb og samþykkti víxilinn án málalegginga."
Enda eins gott, því Herbert var óstöðvandi. Hann setti á fót stúdíóið Bjartsýni á Leifsgötu ásamt Steingrími syntamanni og kýldi á nýja LP-plötu 1987, Time flies, þar sem eitísið og syntarnir tóku öll völd. Árið áður hafði Herbert gert 4-laga plötuna Transit.
Herbert dó ekki ráðalaus þegar móttökur á Time flies reyndust dræmar og skellti sér út á land í bóksölu fyrir AB. Hann hefur enst í því djobbi og hefur það orð á sér að vera einn ötulasti sölumaður landsins. Hann gerði tvær metnaðarfullar söluplötur á 10. áratugnum og tók mikla áhættu. Í kringum Being human (1993) fór hann til Hollywood og gerði myndband við smellinn "Hollywood". Árið 1998 kom platan Faith með fimm nýjum lögum í bland við gömlu smellina (m.a. þrjár útgáfur af "Can't walk away").
"Menn segja oft þegar þeir sjá mig: "Hérna, söngst þú ekki góða lagið þarna?", og þá er ég tilbúinn með diskinn inn á mér," segir Herbert í farsíma á Hornafirði. Það er október 2001, Herbert er í söluferð og er að hengja upp plaköt fyrir nýja diskinn sinn, Ný spor á íslenskri tungu -- "Sá diskur mun koma mörgum skemmtilega á óvart," lofar hann.
Herbert getur ekki verið annað en ánægður með stöðu sína í dag. "Það hefur verið sagt um mig að ég sé alltaf með vindinn í fanginu. Ég söng til dæmis á ensku og margir kvörtuðu og skömmuðust yfir því, en mér leið bara best að syngja á ensku. Ég hef bara alltaf haldið ótrauður áfram og það hefur verið drjúgt að gera hjá mér síðustu árin".
Netið er fullt af heimasíðum um "Hebba", það eru til nokkrir HG-klúbbar og Herbert kemur ósjaldan fram á árshátíðum og afmælum. "Ég er í símaskránni og fólk hringir bara. Ég þarf ekki lengur að koma mér mikið sjálfur á framfæri," segir hann og heldur áfram að hengja upp.

Meira hárgreiðslustofupopp
Fyrir utan Rikshaw og Herbert eru fjölmörg dæmi sem koma upp um upprunann með hárinu á sér. Ein hrikalegasta eitíshljómsveitin var Model, sem var reyndar ekki hljómsveit heldur hljóðversverkefni Gunnlaugs Briem og Friðriks Karlssonar, sett saman þegar hlé gafst frá Mezzoforte til að taka þátt í Eurovison-undankeppninni. Lagið "Lífið er lag" tapaði fyrir Valgeiri og Höllu Margréti, en naut samt sem áður nægra vinsælda til að ákveðið var að kýla á plötu fyrir jólin 1987. Það var vígalegur hópur sem sást framan á plötunni Model og greinilegt að mikil alúð hafði verið lögð í háalvarlegar hárgreiðslur viðstaddra. Aftan á plötunni var Jolla í Amadeus þökkuð hjálpin á árinu, en Simbi sá að öðru leiti um hár og Elín Sveindóttir um förðun. Að sjálfssögðu var leigð reykvél og gert myndband, en þó metnaðurinn væri mikill í myndabandagerðinni var meiri metnaður í hárinu -- meiri tími fór að minnsta kosti í greiða liðinu en að skjóta myndbandið.
Hljóðgerflapælarinn Máni Svavarsson var heilinn á bakvið Cosa Nostra, sem líkt og Model gerði lítið af því að spila opinberlega. "Bandið" sló í gegn í sjónvarpsþætti Lyons með laginu "Rauða fjöðrin", í höfuðið á samnefndu átaksverkefni 1985. Í framhaldinu var gerð 6-laga platan Answers without questions. Framan á er söngkonan Ólöf Sigurðardóttir sýnd háförðuð, liggjandi í dramatískri eitís-stellingu. Aftan á sést "bandið" með hinum viðkunnanlegu eitís-röndum í andlitinu. Þar kemur fram að Bentína Björgúlfsdóttir hafi séð um förðun, Salon Töff um hárgreiðslu og nokkrum tískuverslunum eru færðar þakkir. Platan gekk ágætlega. Þar var "Rauða fjöðrin" sungin á ensku sem "Where's my robot". Cosa Nostra birtist ekki aftur fyrr en 1987 á styrktarplötu fyrir Vímulausa æsku, sem Herbert og Jón Gústafsson stóðu fyrir. Þar voru m.a. Ragnhildur Gísladóttir og eitísbandið Art frá Akureyri, en annars bar helst til tíðinda lagið "Skemmtileg nótt", sem var það fyrsta sem heyrðist með Síðan skein sól. Sama ár var Ólöf í stúdíódæmi Einars Oddssonar, Flass, ásamt fleiri eitíshetjum, m.a. Model-unum Eddu Borg og Evu Ásrúnu, en síðan hefur ekki mikið til hennar spurst. Máni hefur hins vegar haldið ótrauður áfram að sýsla við syntana, m.a. í Pís og keik, Tweety og í fjölmörgum  auglýsingaverkefnum.
Líkt og Model og Cosa Nostra var Da da hljóðversverkefni sem þakkaði hárgreiðslustofu fyrir hjálpina á plötuumslaginu. Að þessu sinni var það hárgreiðslustofan Effect. Da da var tríó skipað Jóni Þóri Gíslasyni sem hafði verið í Fjörefni, Bjarna Sveinbjörnssyni og Ívari Sigurbergssyni, sem átti lítillega eftir að koma við sögu hljómsveitarinnar Gulleyjan. Plata Da da var 4-laga 12" og Steinar gaf hana út 1987. Þrátt fyrir að hárið væri glæsilegt kveiktu fáir á perunni.

"Þetta gerðist allt mjög hratt eftir Músiktilraunir"
Á meðan fólk kepptist við að þakka hárgreiðslustofum í höfuðborginni og dúndrandi syntapoppið rann úr hverri kú þróaðist létt og hressilegt popp á landsbyggðinni. Þetta var gleðipoppið svokallaða, runnið undan rifjum þess stuðs sem sást og heyrðist í Með allt á hreinu. Stelpurnar í Dúkkulísunum frá Egilsstöðum vildu reyndar aldrei viðurkenna bein áhrif frá Grýlunum, enda var draumur þeirra um að stofna hljómsveit mikið eldri en Grýlurnar. Eftir óteljandi Mackintosh og badminton-spaða hljómsveitir fóru stelpurnar að bardúsa af alvöru síðla árs 1982. Dúkkulísurnar voru fimm og kom Gréta Jóna Sigurjónsdóttir gítarleikari síðust inn. Hún hafði verið í tveim kvennaböndum áður -- Orghestrum og Gvendólínum -- og þar af leiðandi heyrðu Dúkkulísur af henni og buðu í samstarf.
Fyrsta afrek stelpnanna var að lenda í öðru sæti í Atlavík '83 á eftir hljómsveitinni Aþena. Dúkkulísurnar sigruðu hins vegar í Músiktilraunum 1983 og þá fór allt af stað. Gréta hafði samið lög í anda The Pretenders og Jóni Ólafssyni hjá Skífunni leist nógu vel á til að bjóða bandinu samning. Um sumarið '84 kom 6-laga plata samnefnd bandinu. Meðal laga var lagið um Pamelu í Dallas, sem sló í gegn.
"Þetta gerðist allt mjög hratt eftir Músiktilraunir," sagði Gréta í Veru 1997, "varð mikil keyrsla -- plata, hljómleikar, böll. Við urðum útkeyrðar á stuttum tíma og peningalega var þetta mjög erfitt. Við þurftum að leggja pening í allskyns græjur en innkoman var ekki eins mikil."
LP-platan Í léttum leik (stelpurnar þoldu aldrei nafnið) kom loksins út um vorið 1986. Þá voru Dúkkulísurnar hálfpartinn búnar að gefast upp á brasinu og hugðust einbeyta sér að framhaldsnámi. Þrjár Dúkkulísur voru í útskriftarferð á meðan "Svart hvíta hetjan mín" ruddist upp vinsældalistana. Smellurinn framlengdi líf bandsins aðeins. Það lafði til vors 1987 en þá voru sumar stelpurnar fluttar á mölina. Þrátt fyrir a.m.k. tvö kombakk síðan þá, hefur Gréta ein tekist á við rokkið af einhverri alvöru. Hún hefur komið fram sem trúbador, spilað í árshátíðarböndum og gaf út sólódiskinn Glópagull í lok aldarinnar.
Band nútímans úr Kópavogi varð í öðru sæti á eftir Dúkkulísunum í Músiktilraunum. Duran Duran var málið hjá þessum kvartett: "Það voru goðin okkar þó að önnur bönd læddust inn þegar líða tók á ferilinn," sagði söngvarinn Magnús Árni Magnússon í Fókus 1999. "Bönd eins og U2, Simple Minds og Big Country. Wham þoldum við hins vegar aldrei."
Eina afrek bandsins á plötusviðinu var eitt lag á Satt safnplötunni 1984. Bandið breytti um nafn, kallaði sig Twilight Toys og fór að syngja á ensku til að líkjast goðunum sem mest. Fullir bjartsýni létu þeir taka hljómsveitarmyndir og sendu á alla fjölmiðla landsins. Eftir tvenna tónleika fannst strákunum enskan orðin lummuleg, svissuðu yfir í íslenskuna aftur, en hættu skömmu síðar. Gítarleikarinn Ævar Sveinsson hefur einn haldið eitthvað áfram, var í hljómsveitinni Uzz sem gaf út lítinn disk og kom lögum á nokkrar safnplötur.
Dúkkulísurnar voru ekki einráðar á Austfjörðum. Á Neskaupsstað var hljómsveitin Súellen, sem skautaði á milli gleðipopps og hársnyrts eitíspopps og var að auki hörkulegt ballband sem átti eigið söngkerfi og Benz sendibíl.
Stofnendurnir -- söngvarinn Guðmundur R. Gíslason og bassaleikarinn Steinar Gunnarsson -- sömdu flest lögin til að byrja með en svo lögðu allir í púkkið. Eftir sjaldséða kasettuútgáfu kom 4-laga 12" plata árið 1987. Umslag þeirrar plötu getur fengið verðlaun fyrir "Eitíslegasta umslag Íslandssögunnar" hvenær sem er. Tónlistin var gleðipopp í hæsta gæðaflokki og ekkert verið að fela áhrifin. Í samnefndu lagi hét dyravörður Súellen t.d. Dabbi, en ekki Sigurjón digri eins og hjá Stuðmönnum. Lagið "Símon", rótgróinn standard af prógrammi Súellen, náði þó mestri hylli. Bandið gaf fyrstu plötuna út sjálf, en þrem árum síðar gaf Skífan út syntapoppsplötuna Í örmum nætur.

Léttleiki, sumarstemming og hressleiki
Helstu fulltrúar gleðipoppsins eru þó að sjálfssögðu strákarnir í Greifunum. Öskubuskustund þeirra var þegar sveitin sigraði í Músiktilraunum Tónabæjar um vorið 1986. Þá voru liðin þrjú ár síðan forsprakki Greifanna, Kristján Viðar Haraldsson ("Viddi") og félagar hans á Húsavík höfðu byrjað að glamra saman. Þeir kölluðu bandið Special treatment, spiluðu frumsamin stuðlög á ensku og fylltu félagsheimilið á Húsavík, enda með frumlegar auglýsingar; eins og þá að hengja þriggja metra nærbuxur framan á heimilið. Bandið æfði stíft en var á hægri uppleið: hreppti fjórða sæti í Atlavík '84 en var í öðru sæti á Músiktilraunum '85 á eftir blúsrokkurunum í Gypsy. Þá voru strákarnir byrjaðir í Menntaskólanum í Ármúla og voru einskonar skólahljómsveit þar. Í verðlaun fyrir annað sætið á Músiktilraunum voru stúdíótímar og með afrakstur þeirra undir hendinni komst Special treatment svo langt að spila í sjónvarpsþætti Jóns Gústafssonar, Rokkarnir geta ekki þagnað.
Eitthvað róttækt þurfti þó að gera til að rífa bandið upp. Eftir nokkra umhugsun var ákveðið að syngja á íslensku. Í framhaldi af því var skipt um nafn og Special treatment vék fyrir Greifunum. Einnig var ákveðið að styrkja framlínuna og Felix Bergsson fannst í skólasýningu í Versló. "Það má eiginlega segja að hann hafi verið flísin sem vantaði í rassinn, til að þetta gæti smollið saman," sagði Viddi í tímaritinu Ung '86.
Með Felix í fararbroddi vakti sigur Greifanna mikla eftirtekt enda var kastljósi fjölmiðla mikið beint að Músiktilraunum árið '86. Sprungu nú rósrauðustu draumar Greifanna út. Bandið hitaði upp á Listapopps-tónleikunum '86 og var eina íslenska sveitin sem var klöppuð upp. Greifarnir lögðu mikla alúð í útliðið, komu sér upp hrúgu af fötum til að spila í, m.a. dragsíðum hvítum frökkum sem vöktu mikla lukku. Til að halda meikinu og hárinu á réttum stöðum var hárgreiðslu- og förðunardaman Íris ráðin til starfa og fór með bandinu hvert á land sem er -- "Hún er sjötti Greifinn," sagði Felix.
Í partýi eftir Listarokkið narraði ein bakraddasöngkonan í Fine Yong Canibals hvíta frakkanum af Vidda og spókaði sig í honum á Borginni. Jón Ingi Valdimarsson bassaleikari, sem sá baksvip frakkans og hélt að þetta væri Sigurbjörn Grétarsson gítarleikari, sló kumpánlega á öxlina á konugreyinu. Þegar hún snéri sér furðulostin við mælti hinn hressi Jón: "Sorrí, æ þot jú vas von of ðe Greifs".
Steinar Berg sá hvert stefndi og gerði samning við Greifana. Fyrsta platan, Blátt blóð, var 4-laga 12". Topp 20 listi Rásar 2 var nýbyrjaður um þetta leiti. "Útihátíð" náði fyrsta sætinu rétt fyrir Verslunarmannahelgina, en á tímabili voru öll lögin fjögur á listanum.
"Útgefandinn vildi fá léttleika, sumarstemmingu og hressleika," sagði Felix í Ung. "Við leyfðum honum að ráða."
Viddi: "Það má segja að það sé léttleiki yfir okkur, en á milli er eitt og eitt rólegt, ástarþvæla, en það kemur ekki fram á plötunni. Bara húmorinn og léttleikinn."
Sigurbjörn: "Við eigum alvarlega músik á bak við, en hún verður að bíða."
Felix: "Fyrst ætlum við að verða nafn áður en við kýlum á pælingarnar!"
Greifarnir kýldu sér inn í þjóðarsálina þegar þeir komu fram á Arnarhóli á 200 ára afmælishátíð Reykjavíkur í ágúst 1986. Um 20 þúsund manns voru á staðnum og allt sent út beint í sjónvarpinu. Sveitin lifði á þessari góðu byrjun, gerði út á böll næstu árin og átti mörg vinsæl lög. Árið 1987 kom önnur 4-laga 12", Sviðsmynd, með eintómum smellum, m.a. "Þyrnirós" og "Ást" sem fékk marga til að spyrja: Ást -- er það bara þriggja stafa orð notað í skáldsögum? Fyrir jólin 1987 kom fyrsta LP-platan, Dúbl í horn, með gjuggandi stuðsmellum eins og "Viskubrunnur" og "Púla".
Greifarnir voru afgreiddir sem þunnildisleg afþreying af mörgum og það fór í taugarnar á þeim. "Við tökum okkur alvarlega og gerum okkar besta. Samt er ekki reiknað með okkur. Í stað þess er verið að smjaðra fyrir hinum og þessum hljómsveitum sem að flestu leyti hafa náð mun minni árangri en við," sögðu þeir í Rokkspildu Þorsteins Joð í DV 1987. Þegar Felix hætti 1989 til að snúa sér að leiklistinni hélt hljómsveitin áfram án hans um hríð, en gafst svo upp.
Greifarnir "dúkkuðu upp" á samnefndum safndiski 1996. Þar var Felix mættur á ný og tekin voru nokkur böll. Platan seldist vel og fólki þótti gaman að rifja gamla stuðið upp á böllum. Því hafa Greifarnir haldið ótrauðir áfram þótt Felix drægi sig fljótlega aftur í hlé.

Vörumerkið sprell
Eftir sigur Greifanna á Músiktilraunum réði þar gleðipoppið ríkjum um hríð. Árið 1987 fylgdi Stuðkompaníið frá Akueyri í kjölfarið og sigraði keppnina auðveldlega. Synir harmóníkuhetjunnar Örvars Kristjánssonar, Karl og Atli, voru aðalsprauturnar, bráðungir eins og aðrir meðlimir; bræðurnir Jón Kjartan og Trausti Már Ingólfssynir og Magni Gunnarsson. Sveitin hafði verið stofnuð árið áður til að spila á böllum og græða peninga, en metnaðurinn var ekki langt undan: "Ég er draumóramaður," sagði Karl í Mannlífi 1987. "Mig langar til að verða poppari, frægur poppari!" Eftir sigurinn tók við svipaður ferill og í tilfelli Greifanna, spilað var á böllum og Steinar gerði samning við bandið. Útkoman var 4-laga 12", Skýjum ofar, sem kom beint á eftir sigrinum, nokkur lög á safnplötum og tveggja laga 12 tomma árið eftir. Stuðkompaníið varð skammlíft, en meðlimirnir hafa flestir fengist við tónlist síðan, Karl gerði t.d. sólóplötuna Eldfuglinn 1992 og Atli var í Sálinni og Sólinni.
Örvar á tvo syni í viðbót með annarri konu; Karl Birgi, sem söng fyrsta tenór í Fóstbræðrum, og hljómborðsleikarann Grétar, sem var með eigið band ásamt eldri bransakörlum á Hótel Sögu á þeim tíma er yngri bræðurnir voru í gleðipoppinu. Grétar var kominn í ballhljómsveitina Stjórnina árið 1989 og þar hefur hann staðið vaktina ásamt Sigríði Beinteinsdóttur með hléum síðan. Mjög poppuð tónlist Stjórnarinnar er einhvers konar samruni eitíspopps og gleðipopps og sveitinni hefur varla verið haggað úr hjörtum Íslendinga eftir að hún vann það einstæða afrek (þá) að lenda í 4. sæti í Eurovision 1990 með "Eitt lag enn".
Enn á ný sigraði gleðipoppið á Músiktilraunum 1988. Þá voru JóJó frá Skagaströnd á ferðinni, en bandið hafði kallað sig Rocky í Tilraununum árið áður. Herramenn og Fjörulallar fylgdu í næstu sætum svo gleðipoppið var allsráðandi. Jójó og Herramenn komust með nokkur lög á safnplötur hjá Steinum, en náðu hvorugar svo langt að gefa út eigin plötu.
Einhver hressasta gleðipoppssveitin var hin kostulega sveit Skriðjöklar frá Akureyri með söngvarann Ragnar "Sót" Gunnarsson og gítaristann Jakob R. Jónsson í fararbroddi. Sveitin var andlega skyld gleðisveitinni Haukum, sem hafði séð um stuðið á áratugnum á undan, því Skriðjöklar tóku böllin með trukki og voru ekkert að pukrast með drykkina á sviðinu. Skriðjöklar byrjuðu sem afsökun fyrir því að komast ókeypis inn á Atlavík '84. Til að ná sem flestum frítt inn voru dansarar í bandinu og alls kyns flipparar. Þó sveitin ynni engin verðlaun mæltist hún vel fyrir og ákveðið var að starfa áfram í anda flippsins á Atlavík -- "Þetta byrjaði allt sem sprell en það er sjálfssagt komin einhver alvara í spilið," sögðu þeir Árna Matt á Mogganum 1987. "Sprellið er samt alltaf í fyrirrúmi, enda vörumerki okkar".
Mjöt gaf út fyrstu plötuna 1985, hina 4-laga Var mikið sungið á þínu heimili? Lagið um kynlega Akureyrar-kvistinn Steina átti nokkrum vinsældum að fagna enda tók Steini sjálfur þátt í myndbandsgerðinni.
Jöklarnir voru brattir og gerðu út af símeiri krafti. Þeir settu upp eigið stúdíó á Akureyri og tóku böllin með hamagangi. Þeir keyrðu um á frambyggðum rússajeppa sem þeir skýrðu Arne Treholt. Jeppinn gafst upp á einhverri heiðinni og þá keyptu þeir sér rándýra rútu í staðinn. Þeirra eigið útgáfufyrirtæki, Jiðskröklar, tók til starfa 1986 með 12" plötunni Manstu eftir Berlín bollan'ðín sem framleidd var í 1500 eintökum og voru öll eint0kin gefin þeim sem þiggja vildu. Upplagið kláraðist á einum degi enda bæði lögin smellir; "Hesturinn", lag eftir Rúnar Júl sem hafði komið út 8 árum fyrr með Geimsteini og "Tengja" eftir hirðlagahöfund Skriðjökla, Bjarna Hafþór Helgason, en textinn var eftir mág Bjarna, íþóttafréttamanninn Arnar Björnsson. Árið eftir kom önnur 12" í tilefni af landsmóti ungmennafélaganna; lögin "Á landsmóti" og "Mamma tekur slátur", sem vöktu gleði íþróttafólksins og annarra. Fyrir jólin 1987 kom svo fyrsta LP-platan, Er Indriði mikið erlendis?, sem var flippuð mjög en bísna laus við smelli. Hljómsveitin gafst ekki upp, ærslaðist eins og hún ætti lífið að leysa og kom út enn einni 12" plötu 1988, Þetta er svívirða við greiðendur afnotagjalda. Enn var það Bjarni Hafþór sem sá um smellinn, "Aukakílóin". Útgerð Skriðjökla hélt áfram um sinn, en ný plata kom ekki fyrr en 1993, Búmm-tsjagga-búmm. Nú var juðast á gömlum popplummum, fáum til mikillar gleði.
Í svipuðum flipp og hressleikagír var Sniglabandið. Skúli Gautason hafði verið í rokksveitinni Púngó og Daisy, en var nú í Bifhjólasamtökum lýðveldisins, öðru nafni Sniglunum, og þar var vöntun á góðum lögum til söngs á samkundum. Því fór Skúli í stúdíó og lamdi inn "Þríhjól" og "Jólahjól". Innan Sniglanna leyndust ýmsir rokkarar og fyrr en varði var Sniglabandið orðið til með Stefán Hilmarsson meðal annars innanborðs. Skúli hætti í bandinu 1991, en þá hafði það m.a. komist á túr um Sovétríkin. Bandið hélt áfram án stofnandans og er eflaust enn til í einhverri mynd. Eftir bandið liggur haugur af plötum, m.a. Áfram veginn með meindýr í maganum (1987), ?rativfláhgosnieðitálikkeðivmuteG (1991), Þetta stóra svarta (1993) og Gull á móti sól (1995).
Kátir piltar úr Hafnarfirði var enn ein gleðisveitin og var síst minna sprell í gangi hjá henni en öðrum, enda grínistar framtíðar innanborðs; Radíus- og King Kongbræðurnir Davíð Þór Jónsson, Steinn Ármann Magnússon og Jakob B Grétarsson, ásamt Atla bróður hans, Halli Helgasyni og Erni Almarssyni. Dýpra var þó í sprellið en vanalega, enda dýpri menn á ferð en almennt í gleðipoppinu -- "Við erum einna mest í jeppa- og kadilákkarokkinu og leikum einnig bedúínabít," sögðu þeir Rokksíðu Moggans í apríl 1988. "Við höfum reynt að byggja upp heildina af kontröstum, en því verður þó ekki breytt að við erum spegilmynd þjóðfélagsins." Platan Einstæður mæður kom út um sumarið 1988 og var mikið lagt í Al Capone-myndband sem kynnti plötuna. Lagið um feitu konurnar átti góðu gegni að fagna um hríð. Félagsskapur kátu piltanna var þó lítið meira en saumaklúbbur og piltarnir fundu aldrei hjá sér mikla þörf fyrir að hjakka á böllum. Önnur plata kom því ekki fyrr en hinn blúsaði Blái höfrungur synti í plötubúðirnar 4 árum síðar, en Davíð Þór var ekki alveg laus við rokkþarfir og birtist óvænt árið 1996 með plötuna Farísearnir.
Þegar eitísið varð að næntís vék farðinn og gleðin fyrir svita og síðu hári. Þó eitís-stællinn komi varla tvíefldur aftur í bráð hafa fá rokktímabil yfir sér spaugilegri sjarma. Menntaskólakrökkum í dag finnst a.m.k. fátt skemmtilegra en að halda eitískvöld; klæða sig upp í sjúskaðar spjarir úr geymslu foreldra sinna, mála sig í framan og fá kannski Hebba til að troða upp.