OKUR! OKUR! OKUR!
Okur á Íslandi er ekki náttúrulögmál. Ef þú lætur ekki okra á þér verður ekki okrað á þér. Láttu vita um okur!


#260  Ég þurfti að kaupa mér 2 ný vetradekk um daginn. Fór í Max1 því það var engin biðröð þar. Bað um ónegld vetradekk. Oki ekkert mál sagði kallinn. Síðan eru skipt um dekkin hjá mér.
Síðan kemur reikningurinn, sem hljóðar uppá 35 þús kall. FYRIR 2 DEKK!!!!!! Þetta voru ósköp venjuleg Pirelli dekk á 15”felgu og ekkert sérstakt við þau. Minnir að þau hafi kostað 13990 kr stk + vinna. Samt sem áður sá ég á kvittuninni að ég hafði fengið 20 % afsl. OKUR OKUR OKUR!!!!! (viðbót: Ég sendi þér um daginn ábendingu vegna viðskipta minna við Max1 bílavaktina um daginn. Ég vil að það komi fram að eftir að þú birtir málið á síðunni þinni höfðu þeir samband við mig og útskýrðu vandlega fyrir mér málavexti. Þeir komu mjög hreint fram við mig og buðu mér m.a. dekkin á kostnaðarverði eða að eiga inni eina smurþjónustu fyrir bílinn í sárabætur þar sem á þeim tíma sem ég var að eiga viðskipti við þá voru ekki til ódýrari dekk sem hefðu dugað mér fyllilega, sem mér finnst náttúrulega mjög gott og sanngjarnt. Niðurstaðan var að ég kaus að eiga inni smurningu í eitt skipti sem kemur mér mjög vel þar sem ég ek um á VW Bora og þarf langtímaolíu sem er alls ekki ódýrust þannig að ég tók því og er nú mjög sáttur við þá félaga á Max1, bílavaktinni.)

#259  Fór með nokkrum vinum á Kaffitár í Bankastræti um daginn. Ein vinkona mín keypti sér beyglu með einhverjum smurosti í plastdollu og söxuðu grænmeti í plastdollu líka. þetta kostaði heilar 895kr!!!!! Svo keypti hún tvær 1/4 lítra af epla trópi sem kostuðu 240kr stykkið!! Heill líter kostar semsagt tæpar 1000 krónur í Kaffitár. Veit að þetta er alls ekki bundið við Kaffitár en er ekki mál að segja hingað og ekki lengra? Borga tæpar 1400kr fyrir ósmurða beyglu og trópí!! OKUR!

#258  Eymundsson Austurstræti, í dag kl. 13. Okrað á erlendri bók:
And Another Thing: The World According to Clarkson Volume Two: Vol. two (Hardcover) e. Jeremy Clarkson 
Verð í UK:
Verð á bókarkápu £18.99 (upphaflegt verð í UK).
Nú á £11.39 á Amazon.co.uk. enda komið ár síðan bókin kom út í hardcover og bókin hefur eðlilega lækkað mikið í verði. Nú er einnig hægt að fá bókina í kilju á Amazon.co.uk á £3.99.

Verð á Íslandi:
Upphaflegt verð hjá Eymundssyni kr 4200.
Nú á 50% afslætti á kr 2100.
Ári eftir að bókin kom út kostar hún hér á Íslandi álíka mikið og þegar hún var á hæsta mögulega verði í UK (og líklegt að fáir hafa borgað svo hátt verð heldur keypt hana á 3 for 2 tilboði, £5 off tilboði o.s.frv.) Þetta “súperverð” fæst aðeins í gegn með því að veita 50% afslátt. Þetta er illa gert og OKUR.

#257  Mig langar til að deila með ykkur smá sögu úr hversdagslífinu – ekki vegna þess að ég öfunda auðmenn þessa lands eða vegna þess að ég ástunda rógburð – heldur vegna þess að ég hef enga þolinmæði gagnvart fólki og fyrirtækjum sem ástunda óheiðarlega viðskiptahætti. Í kjölfar frétta um verðblekkingar smásöluverslana var mér nóg boðið og ákvað að taka mig á sem neytandi. Ég tók því með mér penna í næstu innkaupaferð í Bónus sem ég hef verslað reglulega við, þar sem hvorki Krónan né Nóatún eru með verslanir í hverfinu mínu (Hólahverfi). Um helgina var ég að koma frá Keflavíkurflugvelli og ákvað að koma við í Bónus í Reykjanesbæ á leið minni heim. Ég skráði hilluverð á allar vörur sem ég setti í innkaupakörfuna og fór síðan með þær að kassanum. Í stað þess að setja vörurnar í poka um leið og afgreiðslustúlkan renndi þeim í gegnum skannann, fylgdist ég grannt með verði á vörunum og á skjá kassans. Í ljós kom að eldsrúllurnar 3 sem ég ætlaði að kaupa kostuðu samkvæmt kassaskjánum 398 kr. en ekki 298 kr. eins og stóð á hillunni. Ég stoppaði afgreiðslustúlkuna og sagðist ekki taka í mál að greiða rúmlega 30% hærra verð fyrir eldhúsrúllurnar og leiddi hana að hillunni til að sanna mál mitt á meðan að röðin við kassann beið þolinmóð eftir okkur. Afgreiðslustúlkan gat auðvitað ekki neitað þessu verði og ég fékk eldhúsrúllurnar á 298 kr. Ég hafði sigur að þessu sinni en ansi er ég hrædd um að allir aðrir séu enn að greiða 398 kr. fyrir eldhúsrúllurnar. Það þarf nefnilega miklu meira til en að ein húsmóðir taki upp pennann og mótmæli. Ég hvet því alla til að taka upp pennann og veita smásöluverslunum þessa lands aðhald! (nb. Þetta er nákvæmlega það sem þarf að gera. Að allir verði ógeðslega "leiðinlegir" og það verði hreinlega hryllilegt að fara út í búð á meðan kassadömur hoppa um með reiðum kúnnum. Ef neytendur sýna að þeim er ekki sama geta verslunareigendur ekki annað en farið að haga sér eins og menn.)

#256  Var stoppaður af löggunni vegan þess að það vantaði framljósaperu. Fann út að peran átti að vera af gerðinni HB4 12V. Sá á ebay að par af svona perum kostar $9.90 (600 kr tvö stykki). Renndi við á bensínstöð og þurfti að borga fyrir EINA peru 1.999 kr. Okur!

#255    Gamalt okur en enn í fullu gildi...tvö dæmi. Hvít bómullarskyrta (saumuð á Indlandi) kostaði 700 kr í verslun í Soho London (1990). Viku síðar rekst ég inn í verslunina 17 og þar er nákvæmlega sama skyrta 1000% dýrari.
Handsaumað seðlaveski úr leðri saumað í Bólivíu (nokkur ár síðan) kostaði á götunni í La Paz 50 kr. Nokkrum mánuðum síðar rakst ég á nákvæmlega samskonar veski frá sama landi á 2950 kr.
Í báðum þessum dæmum sést glöggt hverjir það eru sem troða vasana fulla á þrælahaldi alþjóðavæðingarinnar og þar eru íslenskir kaupmenn verstir allra. Þeir hafa enga siðferðisvitund og því enga hugmynd um hvað er okur.
Vil benda mönnum á af gefnu tilefni á að skoða mismun á verði því sem bændur fá í sinn vasa af t.d. lambakjöti og síðan útsöluverði verslana hins vegar. Þar er munurinn 400-500 %. Neytendur ættu því að snúa sér að milliliðamafíunni þegar þeir kvarta undan óhóflegu verði á íslenskum landbúnaðarafurðum því þar liggur okrið. Bændum er haldið á sultarmörkum og bera ekkert úr bítum fremur en aðrir hráefnaframleiðendur í veröldinni.

#254    Ég þurfti að láta taka passamynd af mér um daginn og eftir að hafa skoðað vefsíðu Nærmyndar á Laugavegi 178 sá ég að það kostaði 1500 kall þar að fá mynd á disk, og ef maður fær útprentaðar fjórar myndir bætist þúsund kall við. Ég fer niðreftir, er á hraðferð, og segist vanta passamynd af mér. Ljósmyndarinn (eigandi stofunnar, Guðmundur KR Jóhannesson) spyr mig hvert tilefnið sé, og þrátt fyrir að mér fyndist það ekkert koma honum sérstaklega við svara ég því að mig vanti mynd af mér til að birta með grein sem ég var að skrifa í tímarit. Hann segir þá, já - þá hef ég hana stafræna. Það segir mér ekkert svo ég humma bara og fer í myndatökuna sem tekur ca 2 mínútur. Hann rukkar mig við kassann hins vegar um 7500 kall - og þegar ég hváði og sagðist hafa komið inn í passamyndatöku sem samkvæmt verðskránni kostaði 2500 kall með útprentun - sagðist hann að sjálfsögðu ekki taka venjulega passamynd þegar myndin eigi að birtast í tímariti. Svo verð ég líka að bæta við að hann kallaði mig "elskan" og "vinan" á eftir hverri setningu - sem bætti ekki skapið hjá mér, sem var orðið ansi fúlt þegar hér var komið sögu.
Ég þurfti að drífa mig svo ég borga bölvandi í hljóði og held að ég hafi klúðrað þessu með því að vita ekki að stafræn mynd sé þyngdar sinnar virði í gulli - en þegar ég skoða síðuna aftur þá sé ég að hann kallar passamyndirnar líka stafrænar. Ég fæ tíuþúsund kall fyrir greinina sjálfa, svo sú vinna er komin ansi lágt í tímakaupinu. OKUR! OKUR! OKUR!

#253  Við hjónin keyptum hoppurólu fyrir okkar fyrsta barn – FisherPrice Rainforest jumperoo – kostaði 21900 í Ólafía og Óliver þegar við keyptum hana (í sumar), kostar núna 18900. Sáum nákvæmlega sömu róluna í Shopco í USA á 58.99 dollara (3600 kr). Höfum séð mörg svona dæmi í þessum íslensku barnabúðum. Ef fólk ætlar að eignast barn þá er best að fjúga til USA eða UK og versla þar - myndi án efa borga sig. (nb. Já það gerir það! Það er álíka verðmunur á fatnaði og öðru sem smábörn þurfa.)

#252    EKKI-OKUR: Ný danskir tónleikar í Borgarleikhúsinu = kr 2900
OKUR:  Þursaflokkurinn einhvers staðar = kr 6900
OFUROKUR:  Bó Halldórsson með jólatónleika í Laugardalshöll = kr 7900!!!! 

#251    Krónan stundar þann leik hafa u.þ.b. þriðju til fjórðu hverju vörutegund í hillunum óverðmerktar. Við sem erum eilíft að flýta okkur nennum ekki að eltast við þessa örfáu starfsmenn sem eru í búðinni til að spyrja um verðið og skellum þessu bara í körfuna. "Hva, þetta er Krónan. Getur ekki verið það dýrt". Tíminn er peningar, segjum við. Krónan veit það líka! 
Annar leikur er sá að auglýsa afslætti á vörum við hillurnar en kassinn "gleymir" oft á tíðum að reikna afsláttinn þegar þangað er komið. Þegar maður er á kassanum er það eins og Sláturhúsið hraðar hendur hf. og maður hefur engan tíma til að staldra við og fara yfir strimilinn, hvað þá að passa upp á að afslátturinn hafi verið reiknaður á þessa vöru eða hina. Ef maður gerði það myndi flæðilínan stoppa og fólkið í röðinni myndi verða fúlt. Þegar maður er svo kominn heim og rekur augun í svikin þá nennir maður ekki að gera sér ferð til baka út af sviknum afslætti sem til samans gerir kannski 150 krónur eða þá að röfla yfir óverðmerktum fjölskyldusjampóbrúsa sem kom í ljós að kostaði 895 kr. þegar búið var að borga hann. En það er akkúrat þetta sem Krónan, og eflaust fleiri verslanir, spila inn á. Fólk að flýta sér. Auðvitað eigum við að vera trotryggin. Við eigum að fara með óverðmerktar vörur fram á kassana og gerast svo "ókurteis" að "trufla" starfsfólkið með spurningunni "hvað kostar þetta?" Við eigum að stoppa við kassanna ÖLLSÖMUL og fara yfir strimilinn. Þannig myndu viðskiptin ekkert ganga, flæðilínan myndi hætta að skila afköstum. Svik og prettir upp á hundraðkall hér og hundraðkall þar myndu hætta að borga sig. Það færi að borga sig fyrir þessar verslanir að stunda heiðarleg viðskipti. Tja, í einhverjum mæli í það minnsta. (nb. Nákvæmlega. Helvítin komast upp með þetta af því að við viljum ekki vera "leiðinleg".)

#250  Það kostar 1800 kr. fyrir fullorðna að fara í Bláa Lónið. Mér brá! Það er af sem áður var. Einu sinni var Bláa Lónið fyrir Íslendinga! Maður skrapp jafnvel stundum í Lónið eftir skóla.  Aumingja túristarnir, segi ég nú bara. Einhver sagði að þeim þætti þetta hins vegar vera ódýrt "spa". Ég veit svo sem ekkert um það. Þetta lyktar af þeirri stemmningu að Bláa Lónið sé þá fyrst og fremst ætlað "ríkum" túristum? Held reyndar að margir Íslendingar hafi misst áhuga á túristavæðingunni í Lóninu. Svo er hægt að velja "betri stofuna" fyrir 10.000 kr. en það er önnur 
saga, saga þeirra sem hafa efni á því! (nb. Já blessað Bláa lónið. Þeir hafa þetta náttúrlega svona dýrt því búið er að telja útlendingum trú um að þeir verði að fara þarna þegar þeir koma til Íslands. Að borga 10 þús kall fyrir að fá að sturta sig í næði frá öðrum er sjálfssagt lúxus sem sumum teprulegum útlendingum finnst í lagi. Sjálfur fer ég með útlendinga í Árbæjarlaugina sem er alveg jafn merkilegt "spa".)

#249    Hér er ekki okur á ferð heldur ábending um virka verðvakt á útvöldum tölvuíhlutum http://vaktin.is. Þessi síða er reyndar sponsuð af þeim sem er verið að vakta en er þetta ekki einmitt það sem t.d. talsmaður neytenda ætti að vera að gera? Kannski væri ráð að skófla styrk í þessa menn svo þeir geti gert meira, t.d. vaktin.is/tannlaeknar eða vaktin.is/tryggingar? (nb. eða vaktin.is/lagvoruverslun - sem yrði geðveik vinna því mér skilst að þessar búðir hækki og lækki allt í búðinni 30 sinnum á dag, eða svo...)

#248    Áðan fór ég í sjónmælingu hjá Gleraugnasmiðjunni í Kringlunni en gekk úr skugga um það fyrst hvað þjónustan kostaði og þá var mér sagt að ef ég ætlaði mér að versla linsur eftir á þá væri sjónmælingin innifalin. Tek það fram að ég hef oft áður farið í sjónmælingu og þetta tíðkast í mörgum gleraugnabúðum. Ég spyr þá hvað parið kostar af linsum og mér er svarað að það kosti 2000 kr. Svo þegar ég var búin í mælingunni þá stekkur afgreiðslumaðurinn frá og kemur til baka með tvo pakka af linsum (3 pör í hvorum kassa). Hann segir ekki neitt og byrjar eitthvað að krota á kassana með leiðbeiningum fyrir mig og þá spyr ég hann hvað hann sé að gera. Þá var maðurinn bara búinn að ákveða það að ég myndi kaupa þessa tvo kassa og borga fyrir þá 9.000 krónur!!! (á laugaveginum kostar sama magn af linsum 7.000) Þegar ég segist ekki hafa ætlað mér að versla svona mikið, hafi bara viljað eitt par, þá verður maðurinn fýlulegur á svip og segist sko ekkert ætla að rífa upp heilan kassa bara fyrir mig... En það var búið að segja mér að það væri hægt að kaupa eitt par og það kosti 2000 kr. Hann ólundast þá bak fyrir að leita að linsum í lausu fyrir mig, kemur svo til baka, skellir þeim á borðið og rukkar mig um 3.000 kall. Þá vildi hann núna allt í einu rukka 1000 kall fyrir sjónmælinguna. Ég lét mig hafa það en sé núna eftir því því maðurinn lét mig aldrei fá neitt recept fyrir sjónstyrkleikanum mínum, ég hef ekkert í höndunum ef ég vil kaupa mér gleraugu og hann vildi varla segja mér hver sjónstyrkleikinn minn er. Fáránlega léleg þjónusta og OKUR! 

#247  Ég er ekki með upplýsingar um okur, en þar sem síðan þín er orðin mjög vinsæl er ég að spá í hvort þú getir ekki safnað upplýsingum um hversu dýrar tannréttingar eru. Þó svo að það sé bannað að læknar auglýsi hlýtur að vera í lagi að fólk sem borgar fyrir þjónustuna tali saman um verðið. (nb. Úlalala... Jú fólk má endilega láta vita ef það veit um góðan tannlækni sem okrar lítið. Sjálfum var mér bent á Þórkötlu Mjöll á Óðinsgötunni sem var sögð vera kommúnisti, svo sanngjörn er hún. Svo var minn gamli tannlækni, Þórir á Digranesvegi, góður og sanngjarn. Það eru eflaust fullt af öðru góðu fólki í þessu.)

#246    Ég fór í BT um daginn til þess að kaupa mér hleðslutæki með hleðslubatteríum. Vantaði fyrir stafrænu myndavélina mína (sem frændi minn keypti í Kanada á tólf þúsund kall, með tollum og tveimur minniskubbum, vélin kostar ein þrettán þús í Elko.) Allaveganna þá kostar þetta hleðslutæki 8 þúsund! Fyrir hleðslutæki! Ég kíki í Elko þar sem að mér var strax bent á hleðslutæki sem kostaði 4 þús, með batteríum og hægt að hlaða í bíl! OKUR! (nb. BT eru almennt að koma mjög illa út og mörg dæmi á þessum síðu eru frá þeim. Ég held það sé málið að Elkoast eða panta þetta bara frá útlöndum. Það er reyndar vesen og tekur tíma, en maður sparar samt alltaf eitthvað. Best væri að komast til siðmenntaðra stórborga 1-2 sinnum á ári og vera með innkaupalista. Og vona svo bara að tollurinn fari ekki að snuðra í töskunum.)

#245    Er nýorðinn pabbi og vantaði lítinn pela (125ml). Fór því í apótekið sem er hér í þorpinu sem ég bý í og hvað haldið þið? 631 krónur takk fyrir. Segi og skrifa, þetta er okur!

#244  Bók af Amazon á 24 dollara ber 7% virðisaukaskatt, 105 krónur. Fyrir að innheimta þær tekur Tollmiðlun Póstsins 450 krónur. "Rökin" er þau að þetta sé ákveðið af samgönguráðherra. Sama gildir líka um t.d. geisladiska. Ég legg til að við minnumst tollstjóra og samgönguráðherra sérstaklega í bænum okkar. Í leiðinni mætti nefna fáránlegan afþvíbaraskatt á hverskyns upptökutæki, nema þau sem mest eru notuð, nefnilega tölvur.

#243    Kaffið í Háskóla Íslands!!!!!! ERUM VIÐ AÐ GRÍNAST...?? Ekki áfylling???? og soðið vont bónuskaffi?? lítill bolli.. kjaraverð 85 krónur?? Kaffistofurnar þarna mættu aðeins fara hugsa sig um að lækka matarskattinn á kaffinu og einbeita sér frekar að hafa dýrar óhollustusamlokur eins og þeim er von og vísa. OKUR!! 

#242  Allir þeir sem eiga kreditkort hafa kannski tekið eftir því að í hverjum einasta mánuði er rukkað svokallað útskriftargjald. Visa rukkar 95 kr. á mánuði og Mastercard 325 kr., 3900 kr á ári takk fyrir. OKUR! Ekki nóg með það, ef maður vill sleppa því að fá reikning rukkar visa samt 50 kr. og Mastercard 170 kr. OKUR! Svo skulum við ekki gleyma því að kreditkorta-fyrirtækin rukka ársgjald sem er í kringum 6000 kr. á ári. Svo venjulegur Mastercard kortahafi er að borga um 10.000 kr á ári bara fyrir að eiga kreditkort!! OKUR! 

#241    PES8 tölvuleikur í xbox:

BT : 6999 kr
Elko og Max: 4500 kr

Borgar sig að gera verðkönnun!

#240    Philips - HTS8100 heimabíókerfi:

Hjá Heimilistækum: 149.990 kr
Hjá Best buy, USA: 43.508 kr ($719.99 x 60,43 (núverandi gengi skv. mbl.is))

Verðið er um 350% dýrara á Íslandi... FOKUR!!! (Fuckings Okur!)

Einnig hægt að kaupa á Ebay á $ 600 eða 36.258 kr. Verðið þá orðið um 415% dýrara hér. FHOKUR!!! (Fuckings Helvítis Okur!) 

Afsakið málfarið, en mér brá svakalega þegar ég ákvað að kíkja á verðið á þessu í USA áður en ég færi að testa og hugsanlega kaupa gripinn í Heimilistækjum. Spurning um að skella sér frekar fyrir yfir 100 þúsund kall til USA, versla feitt inn fyrir jólin, éta fínan mat, gista á góðu hóteli 
og skella sér svo á gripinn áður en maður flýgur heim og koma út á sléttu :) New York hljómar ágætlega til að ná góðri jólastemningu :D (nb. Já og vona svo bara að tollararnir fari ekki að snuðra.)

#239  Sodasteam áfylling kostar 804.- í hvert hylki.  Þetta er verðið í Hagkaup sem reyndar er eini staðurinn sem oftast á þessa vöru til sölu. Í öðrum búðum er þetta enn dýrara.  Maður er þó bara að kaupa loft.  Ég skila tómu hylkinu og kaupi nýtt áfyllt með lofti fyrir 804.- krónur.  Þetta var nýlega hækkað um 200 krónur sagði afgreiðslustúlkan mér. Launin mín hækkuðu ekki á sama tíma um 25%. Mér skilst að Vífilsfell séu þeir einu sem sjá um þessar sodasteamáfyllingar og þeir geta því sett upp hvaða verð sem þeim sýnist.  Þeir selja auðvitað líka flöskur með sódavatni í svo það er eðlilegt að þeim sé ekki í mun að maður drekki kranavatn sem maður hefur sett gos í sjálfur. Mér finnst hallærislegt að okra svona á lofti.

#238  Sem betur fer þarf ég ekki oft á heilsugæslur, en fyrir skömmu þurfti ég læknisvottorð sem fylgja þarf endurnýjun skotvopnaleyfis. Komugjald er 700 krónur og vottorðið sjálft 3000 að auki, sem sagt 3700 kr. fyrir að bíða 15 mínútur á biðstofu og glugga í gömul tímarit auk 4 mínútna setu í sjónmáli læknis! Þetta er kannski eðlilegt tíma- og og pappírsgjald, en þetta finnst mér OKUR!

#237    Fórum í Tölvulistan í Hlíðarsmára um daginn og vantaði einhverja tölvuíhluti sem ég kann ekki að nefna en þar var ágætis leiserprentari á rétt um 12 þúsund, þurftum að fara í verslunina í nóatúni og þar kostaði nákvæmlega sami prentari um 18þúsund – margar borgar sig greinilega að versla í úthverfunum ;)

#236  Það er mjög undarlegt tilboð í gangi í Hans Petersen búðunum sem hljóðar svona „100 myndir á 2.500 kr." Þegar maður kemur í búðina er ekkert nauðsynlegt að vera með 100 myndir, en auðvitað var ég búin að safna saman 100 myndum. Það kostar sem sagt aðeins 25 kr. í október að framkalla myndir hjá Hans Petersen, það kemur ekki fram í auglýsingunni. (nb. Jamm, gott hjá þeim. En þess má geta að það kostar 2000 kall að framkalla 100 myndir í Úlfarsfelli í október og 9 Pund að framkalla 150 myndir hjá bonusprint.co.uk.) 

#235  Svínað á námsmönnum eins og venjulega. Konan fór fyrir mig í gær og keypti reglustiku sem mér er nauðsynleg til að klára ákveðið fag í skólanum. Hún er með þremur hliðum í stað tveggja og mismunandi skölum á hverri brún, t.d. til að teikna hluti í mismunandi hlutföllum eða mæla vegalengdir á landakorti. En samt bara úr plasti. Kannski 50gr. Ég bað konuna um að fara í Office1 því mig minnti að þeir hefðu verið sæmilega sanngjarnir, en þvert á móti, reglustikan kostaði 1599kr! Hvað er þá heimsmarkaðsverð á plasti? 32.000 kr kílóið? Að öllu gamni slepptu, þá kostar svona dót varla meira en 150-300 kr í innkaupum. Svo er gaman að fylgjast með hvernig kennarar sem gefa út bækur til kennslu í framhaldsskólum komast upp á lagið með að endurútgefa þær á ca. 2 ára fresti til að taka allar notaðar bækur úr umferð og neyða nemandann til að kaupa nýjar bækur. Oft á tíðum eru þetta litlar breytingar á einum kafla og jafnvel er blaðsíðnaskipan breytt, ekkert róttækar breytingar. Veit ekki, finnst allavegana saurfnykur af þessu. 

#234    Ég veit að Bónus og Hagkaup eru ekki á sama verð-"level", en engu að síður langar mig að koma með dæmi um verðmun hjá þeim.
Bónus: Wella hárlitur, 798 kr.
Hagkaup: Sama tegund, sama dag: 1197 kr.
Sem sagt 50% hærra verð (nákvæmlega). Skyldi þetta vera stefna Baugs?
(nb. Já ætli það ekki bara. Enda þarf maður að versla í tveim búðum til að eitthvað vit eigi að vera í þessu. Fyrst allt sem fæst ódýrt í Bónus og svo restina sem ekki fæst í Bónus í Hagkaup. Já og svo getur maður líka bara sleppt Bónus og keypt í Krónunni. Til dæmis út á Granda sem er að verða mín uppáhalds lágvörubúð. Miklu betra úrval og meira kósí en í kraðakinu í Bónus.) 

#233    Er að leita mér að linsu á myndavélina mína. Sá þessa líka fínu linsu frá Canon í Hans Petersen á 89.900 krónur. Sama linsa kostar 46.900 krónur í Beco á Langholtsvegi. Rétt tæplega 100% verðmunur á þessum búðum í þessu tilfelli. OKUR! Linsan er af gerðinni Canon "EF 28-135mm f/3.5-5.6 IS USM". Þetta er linsa sem fylgir með mörgum Canon myndavélum í dag.

#232    Mig langar til að tilkynna okur á spurningaspilinu Meistarinn. Nú hef ég ekki hugmynd um hvað spilið sjálft kostar en það eintak sem ég er með er óspilanlegt vegna óskiljanlegra leiðbeininga og og misræmis í spurningaflokkum. Ég get ómögulega gert þessu ítarleg skil hér en sem dæmi má nefna að í flokknum  Lagt undir er talað um í leiðbeiningunum að keppandi velji sér stigafjölda (1,2,3) "...en þar auki geta mótherjar keppt um að ná til bjöllunnar." Ekkert hefur verið rætt um að þetta sé bjölluspurning en það er annar flokkur. Svo kemur Gagnleg ábending: "Hún verður ekki þyngri þó lögð séu 5 stig undir." Áður hefur verið tilgreint að aðeins séu 3 stig í boði. Einnig virðist sem bakhlið á spjöldum hafi víxlast og spjöldin fyrir Potturinn séu í raun Lagt undir. Gagnlega ábendingin fyrir Pottinn er að á "...  hverju spjaldi er að finna tvær spurningar sem merktar eru samsvarandi lit og er að finna á viðkomandi pottreitum á spilaborðinu. Lesa skal upp spurningu sem passar við litinn á reitnum." Á borðinu eru báðir pottreitirnir grænir og eins á litinn og á engu spurningaspjaldi eru spurningar ólíkar á litinn eða tilgreint hvaða lit þær eiga að tilheyra. Væru hinsvegar spurningarnar tilgreindar með lit, væru þá 12 spurningar? Á ofangreindum forsendum er þetta auðvitað okur ef ekki hreint svindl og svínarí. Þegar ég ræddi við Loga Bergmann Eiðsson sagði hann mér að þetta væri í raun ekki á hans könnu og bað mig um að tala við mann sem ég man nú ekki hvað heitir. Logi Bergmann er þó einn af þremur höfundum leiksins ásamt spúsu sinni og Trausta Hafsteinssyni. Ég reyni að kenna barninu mínu að éta ekki skít, en maður er alltaf að velja kúk eða skít. Meistarinn var möndlugjöf síðustu jól sem ég fékk hjá tengdó. Agalegt. (nb. Kannski er eina leiðin til að spila Meistarann að vera á mjög öflugum ofskynjunarlyfjum? Þá ættu þessi smáatriði ekki að koma að sök.)

#231  Fór síðasta sunnudag í þynkunni á American style og pantaði mér steikarloku og bað um extra hráan lauk á hana, 160 kr takk fyrir.

#230  Svívirðilegt okur.  ELKO Leifsstöð.  Stafræn myndavél, Canon IXUS 75, kr. 34.990.  Vissi að þetta væri okur svo ég keypti hana ekki þar. Mér brá heldur betur þegar ég keypti þessa vél útí búð í Englandi daginn eftir á kr. 18.700. Þetta gerir um 87 % verðmun.  En það er ekki allt. Búðin útí Englandi þarf að standa skil á 17,5% virðisaukastatti á meðan ELKO í Leifsstöð þarf ekki að greiða neinn virðisaukaskatt. Englandsbúðin fær því í sinn hlut kr. 15.914 á meðan ELKO fær kr. 34.990 í sinn hlut.  Það gerir um 119% verðmun.  Verð að segja að þetta er grófasta okurdæmið sem ég hef rekist á uppá síðkastið. Til hamingju ELKO! Svo mættu þeir líka verðmerkja allar vörurnar sínar.

#229  Það er ódýrara að verzla í Geisladiskabúð Valda og á Stóra diskamarkaðinum hjá  krökkunum hans Péturs Kristjánssonar heitins heldur en í Skífunni og Hagkaup og mikið meira úrval heldur en þar. Til dæmis diskar með frægasta Íslendingi sem uppi er, Neil Young, og 
margt fleira sem Skífan selur ekki og of langt mál yrði að telja upp.Og það á betra verði en Skífan selur sömu vörur. Þetta er samkeppni sem varið er í. Flugleiðir eru annað dæmi um okur, en það er hægt að fara með öðrum flugfélögum til sömu áfangastaða fyrir margfalt minna verð. Til dæmis British Airways, Lufthansa, KLM, Sabena, Olympic Air Lines, Alitalia, TAP, Iberian Airlines, Aer Lingus og svona mætti lengi telja.

#228  Fór í Ísleif Jónsson byggingavöruverslun og var að leita mér að eldhúsvaski. Ég hafði keypt samskonar vask fyrir 2 árum og þá kostaði hann 50 þúsund krónur. Í dag kostaði þessi vaskur 135 þúsund!!! Ég spurði afgreiðslumanninn hvort þetta gæti virkilega staðist og hann játti því, ástæðan fyrir þessari miklu hækkun væri að þeir hefðu skipt um birgja!!! En furðuleg tilviljun að á netinu hefur verðið á vaskinum haldist það sama, skrýtið hvernig furðulegustu hlutir hafa einungis áhrif hér á landi... 

#227  Nú er kjúklingalíkhúsið KFC ágætt til síns brúks, sérstaklega í þynnku, og hingað til hefur þarna verið hræódýrt. Mér brá í gær þegar ég keypti örlítið rautt pappírsbox með lítilfjöllegum kjúklinganöggum - svokölluðum chicken popcorn - og var látinn borga 549 kr fyrir. Og ekki sósa eða neitt fylgdi með. Aldrei nokkurn tímann aftur kaupi ég svona rusl, sem er ábyggilega ekki nema svona 30% kjúklingur. Restin vatn og hveiti (og sag?) OKUR!

#226    Fórum þrjú í Sunnudagsbíó fjölskyldan að sjá íslensku myndina ,,Veðramót´´ í Háskólabíó. Brá frekar mikið að einn miði kostaði 1.200 kr !!! Það er alveg fáranlegt hvað það kostar mikið í bíó þrátt fyrir fjölda bíóhúsa í landinu. Sambíóin einoka markaðinn og við höldum áfram að fjölmenna í bíó. Þetta kvöld kostaði 3.600 kall !! Bara 3 bíómiðar!! Svo átti eftir að kaupa popp og kók!! OKUR!! (nb. Íslenskar myndir kosta 25% meira en erlendar, líka í VOD og á dvd. Þetta er auðvitað vegna þess að íslenskar myndir eru yfirleitt 25% betri en erlendar myndir – a.m.k. fá þær alltaf 25% betri gagnrýni en sambærilegar erlendar myndir!) (ath: Varðandi þetta þá reka Samíóin ekki Háskólabíó. Sambíóin reka aðeins bíó sem heita því nafni ss. Sambíóin Kringlunni, Sambíóin Álfabakka, Sambíóin Akureyri, Sambíóin Keflavík og Sambíóin Selfossi. Reyndar vorum við með Háskólabíó en það datt út í maí í fyrra.)

#225  Meira okur: Það kostar 800 krónur að láta geyma fyrir sig bíllykil í einn dag hjá Securitas á Leifsstöð. Lykillinn er settur í umslag, merktur og geymdur þar í hólfi. Ansi dýrt umslag! Lifi byltingin!

#224  Ég og frænka mín lentum í þeirri óskemmtilegu lífreynslu að borga 1250 krónur fyrir hálfan kálhaus og 2 renninga af papriku. Við fórum á veitingastaðinn Síam í Hafnarfirði í hádegisverð í gær. Enduðum á því að panta núðlur af hádegismatseðli og steikt blandað grænmeti af “stóra” matseðlinum. Núðlurnar kostuðu 950 krónur af hádegismatseðlinum og voru ekki upp í nös á ketti. Við fengum núðlurnar í einhverri dessertísskál og kjúklingabitarnir voru á stærð við furuhnetur. Steikta blandaða grænmetið kostaði 1250 krónur og samanstóð af 2 paprikubitum og hálfum kálhaus í saltri sósu. EKKERT annað grænmeti fylgdi með!!!!!!! Eftir þessa dýrindismáltíð fórum við að afgreiðsluborðinu og útskýrðum fyrir miðaldra afgreiðslukonunni að þetta væri óhæft að bjóða fólki uppá. Við værum ennþá svangar og værum á leiðinni í bakarí til að fá okkur eitthvað. Svörin sem við fengum voru frekar lásí. “ha var ekkert annað grænmeti....mér er sagt að maturinn hérna sé svolítið skrítinn....ja ég hef nú aldrei borðað á tælenskum veitingastað...” ertu ekki að grínast í mér. Við þurftum að borga fullt verð!! OKUR!!!!!! Aldrei fer ég þangað aftur og vonast til þess að þú prentir þetta svo að annað fólk borgi ekki 2200 krónur fyrir að fara svangt frá borði! (nb. Þetta er leiðinlegt að heyra. Ég fór einu sinni í Síam í Hafnafirði, reyndar fyrir allavega 2-3 árum, og það var mjög gott og ekki dýrt.) 

(Athugasemd: Ég rakst á ansi leiðinlega umfjöllun um veitingastaðinn minn á Okursíðunni þinni.  Þarna eru gagnrýndir tveir hlutir:

1.Núðlur á hádegismatseðli:  Þarna gerði ég mistök varðandi verðlagningu.  Við ákváðum að vera með smærri skammta af réttum í hádeginu, þar sem fullir kvöldmatarskammtar eru ansi mikill matur (sérstaklega þar sem það fylgja hrísgrjón og salat með).  Við settum verðið á sirka 60% af verðinu á heilum réttum.  Þetta átti ágætlega við kjötið (þar sem verðið á skammtinum fór úr 1700 krónu í 1150 með hrísgrjónum og salati) en passaði frekar illa við núðlurnar.  Við ákváðum því að taka þær út af hádegismatseðlinum og bjóð bara uppá fulla skammta, sem kosta eingöngu 1.150 (nota bene Síam er fínn veitingastaður, þar sem þjónað er til borðs).  Þessi breyting tekur hins vegar ekki gildi fyrr en á mánudag.  Þó ber þess að geta að allir sem panta á hádegis-seðli eru látnir vita að skammtarnir séu mun minni.

2.Seinna með grænmetisréttinn er augljóslega mistök í eldhúsinu og ég veit ekki enn útaf hverju það er.  Grænmetisréttirnir hjá okkur eiga að innihalda allar tegundir af grænmeti, en ekki bara eina einsog þessi kona virðist hafa fengið.)

(nb. Þess má svo geta að eigandinn hefur haft samband við óánægða kúnnan og ætlar að bjóða henni að borða. Hann trúir því ekki að sú upplifun sem líst er sé dæmigerð fyrir Síam.)

#223  Keypti eina einustu skinkusneið á 770 krónur á Tapasbarnum sl laugardagskvöld. Hét því fína nafni "Serrano með manchego og jómfrúarolíu". Sneiðin náttúrulega næfurþunn, manchego osturinn sem átti að fylgja með var svo fínt rifinn og af svo skornum skammti að litla skinkusneiðin leit út fyrir að vera rykug en ekki borin fram með osti. Ég bað um meira af manchego en fékk rifinn brauðost í undirskál (þeir héldu að ég þekkti ekki muninn!) Fyrir þetta verð er hægt að fá ca 12 serrano sneiðar útí búð.

#222    Já verðlagið er athyglivert á klakanum, og merkingarnar stúdía út af fyrir sig, því ef ég man rétt er til dæmis bannað skv lögum ESB (EU) að hindra aðgang viðskitavina að verði = VERÐMIÐI verður að sjást! og okkar bælda þing hefur undirgengist þessa tilskipun í gegnum EES. Því ætti ”pipp plottið” (#206) að vera hreinn og klár glæpur... en í skjóli þagnarinnar starfa okurkaupmenn... (nb. Þetta með verðmiðana er athyglisvert því þessu er gríðarlega ábótavant. Það er sirka önnur hver vara verðmerkt. Ég myndi fara í búð, fá að tala við verslunarstjórann, ganga með honum um búðina og benda á þar sem vantaði verðmiða og æpa: Þetta er glæpur! Þetta er glæpur!, en geri það ekki af því ég er ekki geðveikur. Neytendasíða einhvers blaðsins ætti þó að tékka á þessu.)

#221    Ég get nefnt sem dæmi um okur verð á einstökum bíómiðum 900 kr stykkið eingöngu vegna þess að það er einokun á bíómarkaðinum, hérna á Íslandi. Íslendingar eiga um þrennt að velja: (A) Vera áfram dýrasta land í heimi og halda í ónýtan gjaldmiðil krónuna. (B) Tekið upp evruna og gengið í Evrópusambandið. (C) Tekið upp dollarann og gerst 51 ríki Bandaríkjanna og þá jafnframt fengið sterkasta gjaldmiðil í heimi. Sjálfum líst mér bæði á (B) og (C), en þér? (nb. Ööö... af þessum kostum er (B) líklega best því (C) yrði aldrei samþykkt. Samt væri (D) best: Verð lækka með alvöru samkeppni og vitundarvakningu íbúa. En kannski feitur séns í helvíti.)

#220  Keypti 2 lífrænt ræktuð avokato (bæði mjög lítil) í Krónunni í Mosfellsbæ þau kostuðu 1000 krónur !!! algjört okur! (nb. Já það kostar sitt að éta lífrænt. Sjálfur keypti ég einmitt 3 lífræn avakadó frá Earth farm, pínkulítil kvikindi og þetta kostaði 699 kr. Annars sýnist mér lífræna dótið hjá Yggdrasil, Skólavörðustígi, ekki vera á svakalegu okurverði og mæli með því. Gott úrval líka.)

#219    Tímaritið Marie Claire kostar í Pennanum 930 kr. Í áskrift fæ ég 24 blöð á 50 USD sem gera 127 kr stykkið, komið heim til mín u.þ.b. viku áður en það ratar í hillur bókaverslana. Hef verið áskrifandi af fleiri tímaritum frá Hertz Magazines, aldrei neitt vesen.

#218    Sama dag og ég sá frétt um að þú værir farinn að skrá okrara var ég á leið af landi brott. Til að geta komist með barnabílstól dóttur minnar óskaddaðan gegnum flugið varð ég að kaupa plastpoka til að pakka honum í  (gleymdi mínum poka heima). En þetta reddaðist þó því þeir hjá Icelandair eru svo almennilegir að selja fólki plastpoka í þessu skyni (og fyrir kerrur/barnavagna).
Þá kemur okrið: Fyrir EINN PLASTPOKA rukka þeir 1.500 krónur!. FIMMTÁN HUNDRUÐ KRÓNUR fyrir einn plastpoka – hann er að vísu stór og þykkur – en 1.500 krónur !!!!???. Ég bað um kvittun svo það er hægt að sýna fram á þetta – þar sést líka að skattmann fær ekkert af söluverðinu.

#217  Ég eiginlega get ekki orða bundist um okrið, ég þurfti að kaupa bolta/ró á hjólið á bílnum mínum (eða hvað þetta heitir sem passar að dekkið detti ekki af bílnum) í Ingvari Helgasyni á Akureyri. Vantaði bara einn af fimm sem er á hjólinu og þetta er ekki neitt fínn bíll eða neitt, Subaru Forrester 2002 módel. Alla vega, ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrir fram hvað þetta örsmáa og hversdagslega stykki myndi kosta en að það kom á daginn að það kostar litlar 692 krónur. Algjört OKUR!!!! 

#216    Ekki-okur: Vitaborgari (Ármúla) er með hamborgaratilboð (börger+franskar+kokteill, reyndar ekki drykkur): 600 kall. Gleym-mér-ei tilboð, sem er alveg spes börger: 800 kall. Enda eru Íslendingar LOKSINS byrjaðir að fjölmenna á þennan stað. EKKI-OKUR!

#215    Skellti mér á Megas og Senuþjófana. Flottur konsert. Bauð konunni, bróður mínum, mágkonu og svo mér sjálfum uppá bjór á undan. Fékk 4 litlar dollur og plastglös með..... 2400 kall takk!!! Hverskonar bull er þetta eiginlega???

#214    Keypti 2 ristabrauðsneiðar með osti og gúrkusneiðum á 460 kr á Súfistanum. Það finnst mér væææææægast sagt okur!

#213  Uppþvotavélin sem er reyndar frekar vönduð og dýr byrjaði að leka um daginn. Ég fékk pípara í málið hann skoðaði hann í klukkutíma og sagðist ekki geta gert við hana þar sem þetta væri rafmagnsbilun. Píparinn sem er annálaður fyrir að vera sanngjarn vildi ekkert taka fyrir verkið þar sem hann gat ekki lagað meinið. Ég hringdi í rafvirkja, sá var 6,5 tíma að gera við djásnið. Auk þess skipti hann um skoldælu og drenslöngu (1,5m löng gúmmíslanga sem liggur úr vél í niðurfall). Samtals kostaði viðgerðin 139þ kr.- þar af kostaði drenslangan tæpar 14þ kr. Ég ligg á bæn að eldavélin og ísskápurinn fari nú ekki að bila líka. Takk fyrir síðuna, ágætt að fá útrás fyrir þessu.

#212  Í dag keypi ég pakkningu af  Glucosamin Pharma Nord 400 mg, 90 stykki á kr. 3820 í verslun Lyfju á Reyðarfirði. Í Danmörku kostar það sama 119 Dkr, eða um 1428 kr. Það má sem sé kaupa 2,7 pakka í Danmörku á móti einni hér. Hvaða skýring skyldi vera gefin upp á þessum verðmun? Er þetta eitthvað annað en svívirðilegt okur?! 

#211  Kaffibolli á Organ: 350 kr. OKUR!

#210    Mig langar að benda á svínarí í ýmsu sem stillt er upp sem tilboðum í krafti magninnkaupa. Athugið smærri pakkningar og kílóverð. Bara sem dæmi má nefna Cheerios í tvöföldum pökkum, sem er oft stillt upp sem tilboði (Krónan, Nettó o.fl), þá er eftir allt lægra kílóverð á minni pakkningunum í hillunum. Eins er með fleiri vöruteg. 

#209  1 egg kostar á American Style kr 195 (já, 1 stk!)  10 kosta í Krónunni kr 290-
Annars hefur AS verið að hækka og hækka, sl ár 100 kall hér og 100 kall þar, kannski tilviljun en eftir að innkoma eigenda Staldursins að AS, virðist allt vera á sömu leið og í Staldrinu (sjoppa sem ég hætti að versla við fyrir mörgum árum og er reyndar að hætta líka að versla við AS).

#208  Ég pantaði gorm í kúplingu á dráttavél og kostaði hann 814 kr. með vsk. Hann var pantaður frá Sturlaugi & co á Fiskislóð. Þegar ég fékk hann í hendurnar varð ég að borga 530 kr. í póstkostnað og 245 kr. í seðilgjald fyrir að fá reikning. Gormurinn sem átti að kosta 814 kr. varð þar með búinn að kosta mig 1589 kr. Gjaldið sem ég varð að borga fyrir að fá hann til mín var 775 kr. OKUR!!!

#207    Ég er komin með afsláttarkort á heilsugæslustöðina mína vegna þess að ég þarf mikið að nota læknisþjónustu. Það þýðir að ég borga 350 kr. fyrir tíma hjá heimilislækninum mínum (amk síðast þegar ég fór, veit ekki til að það hafi hækkað síðan). Í tíma hjá honum fékk ég vottorð og borgaði ekkert auka fyrir. Svo fyrir 3 mán. hringdi ég í símatímann hans til að fá endurnýjun á vottorðinu. Þegar ég sæki það er ég rukkuð um 700 kr. og afsláttarkortið veitir engann afsátt. Nú, þremur mán. seinna, þurfti ég aftur endurnýjun á sama vottorðinu, hringi í lækninn og fer og sæki það. Þá er ég rukkuð um 1200 kr.! Og enn enginn afsl. út á afsláttarkortið. Hvernig stendur á því að vottorð hefur hækkað um rúm 70%? Og af hverju þarf ég að borga 4 sinnum meira fyrir það ef ég hringi og spara lækninum/heilsugæslunni 20 mín. tíma, og það eina sem hann þarf að gera er að ná í gamla vottorðið í tölvunni, breyta dagsetningunum, prenta það út og skrifa undir. Tekur varla meira en 5 mín. Ég er yfir mig hneyksluð! 

#206    Áðan keypti ég í 10-11 Lágmúla Pipp-súkkulaði, 3 saman í pakka. Ég veit að það er dýrt að versla þar, svo ég leit á verðið undir hillunni og þar stóð eitthvað rúmlega 100 kr. Ég áttaði mig hins vegar ekki á því að það var verðið á einu stykki af Pippi, sem var við hliðina á þriggja stykkja pakkanum. Verðmiði fyrir þriggja stykkja pakkann var enginn! Þegar ég kem svo heim lít ég á miðann og þar stendur 329 kr! OK, mín mistök að skoða ekki betur verðið, EN ég var nýbúin að kaupa sama Pipp-pakkann (það er 3 saman) í Bónus á 141 kr. Þetta er meiriháttar OKUR! (nb. verðmerkingar í flestum búðum eru ömurlega lélegar og mjög oft beinlínis rangar. Búðir komast upp með þetta af því að enginn segir neitt. Á sama hátt að búðir komast upp með að okra af því enginn nennir að spá í það. Ergó: Þetta ömurlega ástand er okkur að kenna. Búðirnar ganga bara á bragðið.)

#205    Vantaði SCART snúru. Fór í BT í Skeifunni þar sem snúruræfillinn kostaði 5000 krónur. Fannst það fullmikið þannig að ég kíkti í Elko hinum megin við götuna. Þar var full tunna af SCART snúrum sem kostuðu ekki nema 990 kr. stykkið. Fæ ég "OKUR"? (nb. Já!)

#204    Fór á tónleika á NASA fyrir einum eða tvemur mánuðum. keypti stórt glas af kók (30-40 cl) á 650 kr. I shit you not. Afgreiðslukonan sagði að þetta væri tvöfalt stærra en lítið glas (sem 
var á 350 kr), og því tvöfalt dýrara. Fór aftur á tónleika á NASA fyrir viku síðan, þá kostaði reyndar stórt kókglas aðeins 450 kall. Svakadíll.

#203    Fjarðarbíó – Reyðarfirði: Börn 7 ára og YNGRI 450.- OK en eru þetta ekki börn að 18 ára aldri!!! Ég meina 8 ára og eldri þurfa að borga 900 krónur í bíó!!! 900 krónur, og það er ekki eins og þetta sé neitt EÐAL bíó!! OKUR!!!

#202    Varið ykkur á "FRÍ" hafnarverði. Í ELKO í Komu-Fríhöfninni kostaði PS2 leikur fyrir (TM Turtles) 100 krónum meira en í ELKO í Skeifunni. Geisladiskar (Skífan) voru á svipuðu verði og í Reykjavík. Á þetta ekki að vera án aðflutningsgjalda og virðisaukaskatts þarna. Hvað þýðir FRÍhöfn?  Hefði haldið að verðið ætti að vera um 20% lægra. (Athugasemd: Þetta tilheyrir Skífunni, ekki ELKO. Það verður að segjast að Skífan er ekkert að leyfa viðskiptavinum að njóta þess að þeir séu að versla á svokölluðu frísvæði. Það er drulludýrt í Skífunni uppí Leifsstöð, finnst mér og fleirum. Djöfulsins græðgi alltaf hreint!!!)

#201    Mér var hugsað til Okursíðunnar þegar ég var í Hagkaupum í gær, þar sem ég hafði meðal annars hugsað mér að kaupa tvö mangó. Ég hef vanið mig á í gegnum tíðina að fylgjast með því sem er stimplað inn í afgreiðslukassann, sem borgaði sig sannarlega í þessu tilviki því mangóin tvö kostuðu tæpar 1.300 krónur! 1.280 kr. kg. að mig minnir. Ég er vön að versla í Krónunni og Bónus en stend nú ekki klár á kílóverði mangó þar, en þykist mjög viss um að Hagkaupsverðið sé svo sannarlega okur.
 
 

Okur #131 - 200 eru hér.

Veistu um skefjalaust og svívirðilegt okur? Láttu vita!