ENN MEIRI POPPPUNKTUR
Íslenska tónlistarspilið

Enn meiri Popppunktur - Íslenska tónlistarspilið kemur í gullfallegum kassa og er ógeðslega flott eins og sjá má. Meiningin er að það kosti hvergi meira en 6.000 kall. Leiðbeinandi útsöluverð er 5.990 kr, eins og sagt er í bransanum. Það verður ekki til í Bónus, en í flestum öðrum búðum, t.d. Hagkaup, Eymundsson, Spilavinum, Havarí, 12 tónum og ég veit ekki hvað og hvað! 

Spilið samanstendur af stórfenglegu spilaborði, glæsilegu popphjóli, 12 poppköllum (og 12 stöndum), stundaglasi (sem mælir 30 sek), bjöllu og spjöldum með samtals 2.460 spurningum!

Keppendur geta valið úr hópi 12 íslenskra popp/rokkara og "eru" þeir í leiknum (í staðinn fyrir peð). Poppararnir í boði eru: Lay Low, Lóa Hjálmtýsdóttir í FM Belfast, Haukur Heiðar í Diktu, Gylfi Ægisson, Hera Björk, Högni Egils í Hjaltalín, Bjartmar Guðlaugsson, Gummi í Ljótu hálfvitunum, Siggi Guðmunds Hjálmur, Haffi Haff, Rósa í Feldberg og Sometime og Ingó Veðurguð.
---
Leikurinn skýrir sig nokkuð sjálfur, sérstaklega ef fólk hefur spilað "gamla" Popppunkts-spilið. Það fylgir gríðarlega vandaður bæklingur með þar sem þetta er allt skýrt lið fyrir lið. Í leiknum er enginn "dómari" heldur sér alltaf sá sem er þér á hægri hönd um að spyrja. Popppunktsleikinn geta því 2 upp í ég veit ekki hvað margir spilað. Það mega líka alveg vera margir í liði ef það er stemmning fyrir því. 
---
Fimm tegundur spurninga (spjalda) eru í spilinu:

HRAÐASPURNINGAR:

Sex spurningar eru á hverju spjaldi. Eitt spjald skal dregið og lesið þegar keppandi lendir á Hraðaspurninga-reitum. Tímaglasið er notað í þessum lið og fær því keppandinn 30 sekúndur til að svara þessum 6 spurningum. Fyrir hvert rétt svar fer keppandi áfram um 1 reit og kæmist því hugsanlega áfram um 6 reiti ef hann er algjör poppheili. 

BJÖLLUSPURNINGAR:

Á hverju spjaldi eru tvær bjölluspurningar og á efri spurningin við B1 á spjaldinu, sú neðri við B2. Í þessum lið geta allir svarað (nema sá sem les). Bjallan er höfð fyrir miðju og mega keppendur bara reyna að svara einu sinni um leið og þeir hafa náð bjöllunni. Sá sem svarar rétt fer áfram um 1 reit.

VALFLOKKASPURNINGAR: 

Á hverju spjaldi eru tveir valflokkar í þrem styrktarflokkum. Keppanda er gert grein fyrir möguleikum sínum (Hér getur hann t.d. valið um Björgvin Halldórsson eða Soul) og þarf að velja annað hvort og auk þess hversu þunga spurningu hann vill. Hann getur fengið 3 stig, 2 stig eða 1stig út úr þessum lið, og svo auðvitað ekkert ef hann getur ekki svarað! Keppandinn fer fram um jafn marga reiti og stigin sem hann fær. Ef hann veit ekki svarið og gefst upp mega hinir keppendur spreyta sig og gildir þá að ná til bjöllunar.

VÍSBENDINGASPURNINGAR:

Á hverju spjaldi er ein vísbending. Allir mega svara (nema sá sem les) í þessum lið og er bjallan notuð. Keppendur fá bara einn séns við hvern lið. Hægt er að fá 3, 2 eða 1 stig út úr þessu (og fram um jafn marga reiti).
POPPHJÓLIÐ

Keppendur snúa popphjólinu þegar þeir lenda á þeim reit. Hægt er að lenda á 6 mismunandi spurningum: 
Sá sem situr til hægri við keppanda dregur og spyr 3 tegundir spurninga:
Snuð (Gult - létt - Fram um einn reit fyrir rétt svar) 
Martröð (Rautt - þungt - Fram um einn reit fyrir rétt svar)
Popprugl (Svart - stafarugl - sá sem les heldur fyrir rétt svar (Megas hér að ofan) og sá sem spreytir sig fær 30 sek (stundaglasið) til að "afrugla" stafaruglið (Games) og svara. Geti hann ekki svarað mega aðrir keppendur spreyta sig (bjallan gildir).

Keppandinn sem er í Popphjólinu þarf svo sjálfur að draga spjald í 3 tilfellum: 
Poppstjarnan (Blátt - Hér reynir á leikhæfileikana, keppandi leikur þann sem hann lendir á en má ekki segja neitt. Aðrir keppendur reyna að geta hver poppstjarnan er innan tímamarka stundaglasins (30 sek). Ef rétt svar kemur fram fer "leikarinn" fram um 1 reit og líka sá sem svaraði rétt.
Bransinn (Grænt - Hér getur keppandi ekkert gert nema að taka örlögum sínum, því sem stendur á spjaldinu. Fram eða aftur um jafn marga reiti og gefið er upp eða jafnvel beint í meðferð).
Semja lag (Vínrautt - Keppandi "semur lag" í stíl við lagaheitið sem gefið er upp á spjaldinu er og má gera það á alla þá vegu sem hann vill eða þorir með og án hjálpartækja (hljóðfæra). Hinir keppendurnar meta frammistöðu hans og gefa 1 til 3 stig eftir því sem þeir telja réttast – og fer þá keppandinn fram um jafn marga reiti og stigin sem honum eru veitt. Ef keppandi neitar aðsemja lag fær hann ekkert stig)

MEÐFERÐ:

Þeir sem lenda í Meðferð (einn reitur á spjaldinu) verða að bíða í heilan hring og mega ekki taka þátt í neinu sem fer fram þá umferð. Þegar keppandi kemur úr meðferð fer hann fram um einn reit og tekst á við það verkefni sem þar bíður.
---
Þá held ég þetta sé bara komið. Ef svo ólíklega vill til að einhverjar spurningar vakna um þetta magnaða spil hef ég opnað sérstaka hjálparlínu sem fólk getur spurt á ef allt er komið í óefni. Ég mun svara um hæl. 

POPPPUNKTSSPILS-HJÁLPARLÍNAN

Popppunkts-spilið á Facebook.