Fæ ég eitthvað úr pottinum, Maggi minn?

Íslenska þjóðin sameinast ekki um margt. Henni er alveg sama þó á henni sé lamið út í eitt, þó gamalmenni og fatlaðir lepji dauðann úr skel, þó vaxtapíning bankanna sé hrikaleg, þó nauðsynjar séu miklu dýrari hér en annars staðar, þó spilling og óréttlæti leki af flestu. Allt þetta meikar ekki diff hjá þjóðinni enda hugsar hver fyrst og fremst um sjálfan sig og við keyrum bara framhjá þegar konum er nauðgað við vegkanta eða karlar fá slag í strætóskýlum.

Maggi góði
Íslenska þjóðin, sem gaf meira að segja skít í kristnihátíð þótt hún borgaði nauðug fyrir hana, sameinast þó alltaf um eitt. Það er auðvitað Júróvision. Þá tæmast göturnar, þá verður stemmingin aftur eins og hún var fyrir svona sirka 20 árum, þegar allir Íslendingar voru með á sömu Rúv-nótunum. Þetta eina kvöld á ári verðum við samheldin þjóð með eitt áhugamál.
Auðvitað varð því allt vitlaust þegar Mörður ætlaði að svína á Einari Bárðasyni og krökkunum hans. Götuvígi komu á strætin og Mólótov-kokteilar flugu í reykmettuðu loftinu. Þegar æstur múgurinn hafði handsamað Mörð og ætlaði að hengja í ljósastaur gafst hann upp og leyfði Einari að segja Baby en ekki Birta. Þá komst ró á mannskapinn og sumir töldu jafnvel enn von fyrir mannkynið.
Meðan á þessu stóð var Maggi Kjartans góði karlinn og kom glaðbeittur í sjónvarpið. Hann hafði hljómgrunn, barðist eins og riddari fyrir listrænu málfrelsi og hafði sigur.

Maggi vondi
Fljótt skipast veður í lofti og Maggi Kjartans, sem andlit poppara landsins út á við, hafði ekki fyrr verið sameiningartákn íslensku þjóðarinnar, en hann varð snögglega óferjandi frekjuhlunkur. Það gerðist um leið og honum tókst að fá nýjan skatt á tölvur, tóma geisladiska og brennara. Þá varð Maggi vondi karlinn og tölvufólk og almenningur allur veinaði hátt, enda alltaf ömurlegt að vera skattpíndur, þó maður haldi reyndar stundum að allir séu orðnir samdauna almennri skattpíningu.
Þessi nýja skatttaka er heimskuleg og óréttlát og ekki í takt við tímann. Hér er verið að hengja marga saklausa bakara fyrir einn smið sem hugsanlega brenndi Kántrý 7, en hver getur vitað eða ákveðið að Hallbjörn og félagar hans eigi að fá 17 kallinn?

Poppþrælar og klassískt hefðarfólk
STEF er fullt af dularfullum sjóðum, og úr þeim hefur hingað til runnið einna helst til plötuútgáfnanna sjálfra, sinfóníunnar, til þeirra sem eru duglegastir að snapa og pota sér áfram, og til stórkostlegra listamanna í klassíska geiranum, sem búa til mun merkilegri músik en ég og aðrir poppræflar geta nokkurn tímann búið til. Ætli þessari nýju tekjulynd verði ekki deilt út á svipaðan hátt og STEF-gjöldin eru greidd út. Þau eru greidd út eftir ákveðnu kerfi. Hvert lag og verk er sett í bás: A, B, C, D eða E bás, eftir því hvað það þykir merkilegt. Popp- og rokkrusl er sett í lægsta flokkinn, en guðdómleg sígild snilld, sem sprenglærðir hálfguðir semja, er flokkuð í æðri bása. Ég veit ekki hvaða listrænu hæstaréttadómarar ákveða flokkun á nýrri tónlist, en einu sinni heyrði ég að þeir væru þrír og ákveddu þetta á vikulöngu fylliríi á Hótel Geysi einu sinni á ári.
Þessi flokkun ræður því svo hvað höfundar þéna á útvarpsspilun á hugverkum sínu. A-flokkur gefur minnst, 6 punkta, en E-flokkur mest, 24 punkta. Íslenskri tónlist er sem sagt mismunað í kerfinu. Popplögin, þetta drasl sem svokallað venjulegt fólk vill helst hlusta á, eru svartir þrælar á bómullarakri STEFs; klassíska snilldin í efri flokkunum, hefðarfólk í sparifötum. Ekki bætir það stöðu poppara að til grundvallar skiptingu góssins eru lagðir spilunar-listar frá Ríkisútvarpinu og eru mörg dæmi um það að hljómsveitir sem mikið eru spilaðar annars staðar fái varla krónu.

Ódýrt prump
Lesendum langar örugglega að vita hvað vinsælt lag gefur af sér og búast við að það sé alveg glás. Ég hef stundum álpast til að semja lög sem hafa orðið vinsæl og fengið mikla spilun í útvarpinu. STEF gjöldin fyrir spilun í útvarpi eru borguð einu ári eftir á og einu ári eftir að "Prumpufólkið" hafði verið spilað í tætlur á öllum útvarpsstöðvum landsins var ég svo viss um að spikfeitur tékki væri að koma í póstinum frá STEFi að ég eyddi 20 þúsund kalli í hárkollu fyrir fram. Ég hefði betur sleppt því, því ég fékk bara 12.000 kall fyrir spilun á laginu og hef þar að auki aldrei þorað að láta sjá mig með kolluna á almannafæri. Jón Gnarr, sem samdi textann og átti því að fá 1/3, fékk 6 þúsund kall. Svona græðir maður nú mikið á vinsælu lagi, krakkar mínir!
Ég var ekki alveg sáttur við þetta og fór og vældi í STEF og talaði við Magga Kjartans, sem fannst þetta líka skrítið. Hann sagði mér að redda útprentun á spilun lagsins hjá útvarpsstöðvunum og leggja fram. Ég gerði það og nokkru síðar ákvað STEF að borga mér tuttugu þúsund kall í viðbót fyrir Prumpufólkið. Þá var ég orðinn svo pirraður á barningnum að ég nennti ekki að heimta svör um það hvernig sú tala hefði verið fundin út.

Sótt um úr Kasettusjóði
Skömmu síðar varð ég aftur verulega pirraður þegar ég frétti að lög af barnaplötunni minni væru spiluð í gríð og erg og hefðu jafnvel rúllað árum saman á "Kid's Club"-rásinni í Flugleiðarvélunum. Enginn hafði spurt mig um leyfi og ég hafði aldrei séð krónu fyrir þessa þjónustu. Þegar ég athugaði málið kom í ljós að STEF hafði gefið Flugleiðum leyfi fyrir spiluninni og peningarnir sem borgaðir voru fyrir farið í einhvern "pott". Hvað þetta var mikið eða hvert þessir peningar runnu nákvæmlega fékk ég aldrei að vita. Nú kom hins vegar Maggi aftur til skjalanna og sagði mér að sækja um úr einhverjum Kasettu-sjóði, sem ég hafði ekki hugmynd um að væri til. Ég gerði það og þaðan kom að lokum þrjátíu þúsund kall. Nú var ég kominn á það stig að hugsa: Þeir geta troðið þessum peningum upp í rassgatið á sér, ég nenni ekki að taka þátt í þessu og Atli Heimir og kó, eða hver sem það er, mega bara hirða þessa helvítis peninga.
Í þessum gír hefur mér fundist margir ungir popparar vera. Þeir eru óhressir með STEF, en fallast hendur framan við þverhnýpta vegginn sem blasir við þeim. Maggi og gamla popplandsliðið, sem einu sinni voru kúgaðir af listrænu goðunum, lögðu í þetta klifur og sitja nú sem fastast og totta spenann sem bíður á tindinum. Auðvitað sjá þeir litla ástæðu til að handa kaðli niður. Ungu poppararnir gefa því bara skít í þetta allt saman og ætla að meikaða í útlöndum í staðinn.
Innkoma í gamla kasettu-sjóðinn skiptir milljónum og það sem kemur til með að renna í þennan nýja afritunartækja- og geisladiskasjóð verða eflaust miklu hærri tölur. Fólkið í landinu sem nú er skattpínt hlýtur að eiga heimtingu á að vita í hvað þessir peningar fara. Nákvæmlega. Þúsund kall fyrir þúsund kall.
Eftir minni reynslu fá popparar sem finnst á þeim brotið þrjátíu þúsund kall úr pottinum. Hvert fara þá allar hinar milljónirnar? Hverjir munu græða á tómu geisladiskunum? Hverjir ætla að skipta góssinu? Verður sú skipting réttlát? Fæ ég eitthvað úr pottinum, Maggi minn?