Nánast alveg eins og Hendrix

Músiklífið í Gagnfræðaskólanum í Kópavogi var í góðum gír á bítlatímanum. Strákarnir í Ríó tríó göntuðust og bræddu hjörtu með léttri þjóðlagatónlist en hljómsveitin Tacton sá um bítlið. Meðal meðlima var riþma-gítarleikarinn Árni Blandon. Tacton vann sér það helst til frægðar að spila í Kópavogsbíói og var m.a. með Dúmbó-lagið "Angelina" á efnisskránni.
Eftir landspróf fóru flestir úr Kópavoginum í MH og þar var Árni í nokkrum böndum, m.a. í Bláa bandinu og Dýrlingunum, en trommari þeirrar sveitar var á tímabili Árni blaðamaður Þórarinsson. Eftir allskyns mannabreytingar og endurskýringar varð hljómsveitin Tatarar til um vorið 1968. Með Árna Blandon voru Magnús Magnússon trommari, Þorsteinn Hauksson á gítar og 200 kílóa Hammond-orgel og Stefán Eggertsson söngvari, en Jón Ólafsson bassaleikari úr Zoo kom síðastur og var yngstur, 16 ára. 

SG finnur nýjan gullkálf
Strákarnir voru með á nótunum og tóku sér Jimi Hendrix og hans menn sér til fyrirmyndar. Fyrsta giggið var í hljómsveitarkeppninni í Húsafelli '68. Flutningur Tatara á "Manic Depression" eftir Hendrix var nóg til að fleyta þeim í 2. sæti, á eftir Mods. Næsta gigg var í Breiðfirðingabúð, sem þá hét reyndar Club de Paris eftir að Jörmundur Ingi Hansen hafði tekið við rekstri staðarins. Það hafði spurst út að Tatararnir væru þéttir og margir þungaviktarpælarar mættu því til að sjá þá, m.a. Óttar Felix Hauksson. Magnús þótti ná Mitch Mitchell trommara í Hendrix-bandinu fyrnavel, en enn nær þótti Þorsteinn komast snilldinni; gítarleikur hans þótti nánast alveg eins og hjá Jimi sjálfum. 
Á þessum árum var málið að "herma" sem best. "Þegar við spiluðum "Lady Madonna" einu sinni í Casa Nova get ég svarið að mér fannst sjálfur Paul McCartney vera að syngja," segir Árni Blandon um Stefán söngvara. 
Svavar Gests tók Töturum vel þegar þeir mættu á fund hjá honum. SG hafði misst gullkálfinn Hljóma og reyndi að fylla tómið með Töturum. Ákveðið var að gefa út 2 lög. Strákarnir höfðu nýlega byrjað að fíla hljómsveitina Family, svo Svavar fékk vin sinn Matthías Jóhannesson til að búa til texta við lag þeirrar sveitar og úr varð "Sandkastalar". Mogga-ritstjórinn vildi þó ekki hafa hátt um rokkævintýri sitt og bað Svavar um að segja strákunum að þeir mættu ekki segja neinum hver þessi "m" væri.
Það vantaði lag á hina hliðina og Árni, sem ekki hafði samið lag áður, samdi lag yfir nótt í æfingarhúsnæðinu.
"Ég byrjaði á E-moll, því það er auðveldast," segir hann hæverskur um frumraun sína. "Ég hafði lært smá á nikku hjá Karli Jónatanssyni og kunni fimmunda hringinn, vissi því að G-dúr væri fínn þarna líka."
Um morguninn var Árni tilbúinn með lag sem hinum strákunum leist vel á. Næstu nótt stóðu Jón og Magnús vaktina og sömdu sitt hvorn textann við nýja lagið. 
Árni: "Jón samdi texta um krakka að leika sér í sandkassa og við völdum það því það var ekki eins væmið og það sem Magnús hafði samið. Þá reis hann upp á afturlappirnar og heimtaði að við notuðum hans texta."
Úr varð "Dimmar rósir", sem varð vinsælasta íslenska lagið árið 1969. SG lagði mikið undir, setti mikla peninga í auglýsingar og otaði sínum Tatara-tota hvar sem færi gafst. Plötuumslagið var fullt af myndum af hinum hlédrægu liðsmönnum og stofnaður var sérstakur Tatara-klúbbur, sem "nokkrar stelpur" skráðu sig í.

Hvers vegna? Hvers vegna?
Þrátt fyrir auglýsingaherferðina voru Tatarar skynsemdar strákar og byggðu sér enga sandkastala um rokkaða framtíð. Í byrjun árs 1970 ákváðu aðalmennirnir, Árni, Magnús og Þorsteinn, að leggja bandið niður til að einbeita sér að lærdómi fyrir yfirvofandi stúdentspróf. Magnús sá þó einhvern neista í rokkinu, hætti við stúdentinn og endurvakti Tatara með nýjum mannskap, Árna ekki alveg að sársaukalausu. Hann hafði reyndar lýst því yfir sjálfur í viðtali að veikasti hlekkur bandsins yrði alltaf að víkja. Á þessum tíma voru riþma-gítarleikarar í mikilli útrýmingarhættu svo viðtalið sem Svavar Gests tók við hann 1969 var með spádómslegri fyrirsögn -- "Kannski verð ég bara rekinn næst".
Magnús fékk Þorstein og Jón aftur til liðs við sig og tók Jón að sér að syngja. Siglfirðingur nýfluttur í bæinn kom inn á gítar. Þetta var Gestur Guðnason, sem hafði m.a. verið í bítlaböndunum Stormum og Hrím fyrir norðan. Hrím hafði helst unnið sér til frægðar að vera kosin "táningahljómsveit árið 1969" á bindindismóti í Húsafelli. Tatarar lögðust nú í enn þyngri pælingar og sömdu lög í samvinnu á æfingum að undangengnum miklum og löngum "djömmum". Bandið var á samningi hjá SG, sem gaf út aðra smáskífu í sumarbyrjun 1970. Þyngra og tormeltara stöff hafði varla heyrst á plötu áður. Lögin hétu "Gljúfrabarn" og "Fimmta boðorðið", sem var með miklum friðarboðskap og viðeigandi vélbyssuskothríð, sprengingum og söngli 11 ára stelpu, Valgerðar Jónsdóttur, sem spurði sorgmædd, "Ég ligg hér ein, í kaldri gröf. Hvers vegna? Hvers vegna?"
Ómar á Vikunni hitti í mark í gagnrýni sinni. Lokaorðin voru: "Þessi plata er það góð, að hún slær örugglega ekki í gegn og selst áreiðanlega lítið."

Raddbandabólga
Þrátt fyrir slakt gengi plötunnar var hugur í Töturum. Ingibergur Þorkelsson tók að sér umboðsmennsku og brugðið var á það ráð að fá "hina íslensku Shandie Shaw", Janis Carol í bandið, því söngur Jóns þótti veikasti hlekkurinn. Tatarar með Janis innanborðs þótti ákaflega efnilegt band. Janis þótti fylli gatið sem Shady Owens skyldi eftir sig, var með túberað hár og söng berfætt -- "Það hefur liðið langur tími síðan maður sat jafn dolfallinn og það kvöld," skrifaði Ómar eftir að hafa farið á æfingu. 
Sælan stóð stutt því eftir mánuð þurfti Janis að hætta samkvæmt læknisráði. "Þetta hafa sennilega verið of snögg viðbrigði fyrir mig," sagði Janis með hvínandi raddbandabólgu, "enda er þetta viðfangsefni það erfiðasta sem ég hef glímt við".
Þegar Óðmenn hættu í söngleiknum Óla komu Tararar í staðinn og Jóhann G söng með þeim á sýningunni. Hljómsveitin var í dauðakippunum fram eftir vori 1972, kom m.a. fram í Sjónvarpinu og "impróvíséraði": "Ég heyrði ýmsar raddir sem voru lítt hagstæðar okkur, en það var yfirleitt frá fólki sem ekkert er inn í þessari músik," sagði Þorsteinn í viðtali 1972, sem bar fyrirsögnina "Hvað varð um Tatara" -- "Maggi ætlaði að fara að hella sér í stúdentsprófið og var hættur, og eftir að við höfðum prófað nokkra trommuleikara gáfumst við alveg upp".
Af Töturum er það að frétta að Gestur og Jón héldu áfram í rokkinu; Gestur stofnaði Eik og var m.a. í Orghestunum, en Jón fór í Pelican og þaðan í ótal sveitir. Aðrar Tatarar snéru sér að öðru. 
Lagið "Dimmar rósir" upp á ný þegar tónlist hippanna gekk aftur í byrjun 10. áratugarins. Þá sigraði Þóranna Jónbjörnsdóttir með laginu í Söngvakeppni framhaldsskólanna og lagið hefur lifað ágætu lífi síðan, Árna Blandon til lúmskrar ánægju -- "Það er vandi að semja góð lög, en ekkert mál að semja fullt af vondum," segir hann.