Tréð í höll blekkinganna
 
Eirún Sigurðardóttir stillir sjálfri sér upp í verki sínu sem tré í höll blekkinganna. Í fornum goðsögnum og listum er tré iðulega myndhverfing þeirrar hugmyndar að konur séu nátengdari náttúrunni en karlar. Höggmynd Berninis af goðsögninni um Dafnis sem umbreytist í tré til að sleppa undan hinum ástfangna Apollo sem eltist við hana kemur upp í hugann. Vegna meintrar nálægðar kvenna við náttúrunnar var litið svo á að þær gætu auðveldlega umbreyst í plöntu eins og gerðist með Dafnis. Tengsl kvenna, holdlegrar þrár og trésins má rekja aftur til sögunnar um hina upprunalegu synd er Eva tældi Adam við skilningstréð. Lengst af í menningarsögunni hafa siðferðispostular þess vegna litið holdlega þrá hornauga og talið hið jarðneska eðli mannsins vera hinu andlega óæðra. Á síðari tímum hefur þessari fordæmingu hins holdlega verið andmælt. Simone de Beauvoir notfærir sér einmitt trémyndlíkinguna í skáldsögu sinni Blóð hinna til að lýsa erótískri upplifun konu, sem við gælur og snertingu ástmanns síns líður eins og hún umbreytist í tré. Við það að finnast hún umhverfast í tré flýr hún ekki kynlífið eins og Dafnis heldur gefur hún sig því fullkomlega á vald.
 
Reyndar má einnig líta á tré Eirúnar sem skilningstré. Platon taldi að sá heimur sem birtist okkur gegnum skilningarvitin sé að einhverju leyti blekking, en andstætt Platoni talar Eirún um höll blekkinganna og ekki um helli blekkinganna. Skilningarvitin eru stundum óáreiðanleg og minnið brigðult, en það merkir samt ekki að við séum lokuð inn í helli þar sem við erum blind á hið sanna eðli hlutanna eins og Platon hélt fram með hinni frægu hellislíkingu sinni. Þess vegna gerir Eirún ekki mun á sannri þekkingu sem fæst utan hellisins og blekkingu eins og Platon gerði. Höll blekkinganna er allt sem við höfum. Þar vex skilningstréð og spinnur út úr sér skilning á heiminum sem er í senn jarðneskur og andlegur. Við sjáum ekki rætur trésins en vitum að rótarverkið er síst minna um sig en trjákrónan og greinarnar sem vaxa í allar áttir. Veran spinnur angana út úr sér og nærist á lífsorku sem er í henni. Höll blekkinganna er spunastofa veruleikans. Heimurinn er uppspunninn í krafti þess skilnings og þeirrar þekkingar sem við höfum á honum hverju sinni. Þekkingarleitin er viðleitni okkar til að ráða í rúnir veruleikans og gullnir þræðir þekkingar teygja sig lengst inn í undirrætur verunnar.
 
Í fyrri verkum sínum hefur Eirún m.a. velt mikið fyrir sér líkamleika mannverunnar. Líkt og Matthew Barney rannsakar vessa og kirtla sem tengjast kynreynslu karlsins hefur Eirún lýst vissum þáttum í kvenlegri kynreynslu, eins og t.d. með sýningunni „Blóðholu“. Hola blóðsins er engu að síður merkilegur íverustaður en höll blekkinganna ef út í það er farið. Höll blekkinganna vex nefnilega upp úr holu blóðsins og hola blóðsins er hugarfóstur í höll blekkinganna. Tréð í höll blekkinganna er í senn planta og skilningur, jarðnesk og andleg. Okkur er margt hulið og skilningurinn velur og hafnar, skynjar sumt en kemur ekki auga á annað. Skilningur af öllu tagi er oftast svolítið einsýnn. Hettan á höfði verunnar minnir óneitanlega á mynd Magritte af elskendunum sem eru með hulu yfir andlitinu. Milli þeirra og veruleikans er himna sem veitir himneska sýn. Veran í höll blekkinganna er einnig eineygð, en eins og Óðinn getur hún verið vitur þrátt fyrir það. Hitt augað sem er ósýnilegt beinist inn á við og veran fer út úr sér og inn í sig í gullgreftri sínum. Líkt og ræturnar leita sér gljúpa leið um undirheima, vaxa greinarnar í átt að ljósinu í trausti þess að skilningurinn verði meiri í ljósi sólar. Rótarangarnir sem teygja sig um undirheima líkt og gullþræðir fálma sig áfram í sömu vissu um finna sér farveg og festu. Trjáhringirnir marka tíma trésins. Eitt vex af öðru og trjáveran er eins og babúska sem getur af sér sífellt stærri dúkkur. Listin er sífelld sköpun, sífelld fæðing hins nýja, sem er ævinlega framandlegt í fyrstu. Og Eirún myndgerir listina með sjálfri sér, heklandi út úr sér heima.
 
Sigríður Þorgeirsdóttir,
 heimspekingur