Gullið í höll blekkinganna
 
Listamenn eru furðulegt fólk sem talar í gátum sem enginn skilur. Persónulega líður mér oft eins og ég sé að hlusta á endinn á einhverjum brandara eða dæmisögu þegar ég er á listasýningum. Ég heyrði aldrei byrjunina svo ég hef engar forsendur til þessað vita um hvað málið snýst. Þess vegna finnst mér að öllum listaverkum ættu að fylgja útskýringar. Vandinn er bara að listaverk eru margræð og það er ekki til nein ein leið til að nálgast þau. Þau eiga líka að vekja okkur til umhugsunar og laða fram einhvern skilning eða sköpun hjá okkur sjálfum. Þess vegna er það öðruvísi að skoða listaverk en að lesa fréttir í dagblöðum. Þetta eru ekki bara upplýsingar heldur eitthvað sem við eigum að uppgötva sjálf. Og vegna þess að við leggjum alltaf eitthvað sjálf til þessa skilnings þá verður hann aldrei annað en okkar útgáfa af honum.
Það er með þessum fyrirvara sem ég segi frá mínum skilningi á verki Eirúnar. Þetta verk lýsir veru sem situr ein í tómarúmi og spinnur einhverskonar skynjunarnema eða skilningssprota út í umhverfið. Þetta minnir mig augljóslega á einmanalegt hlutskipti okkar mannanna að reyna að botna í tilveru sem við skiljum ekki. Við erum alltaf að senda út nema og loftnet og fálmara, en rétt eins og heklunemar Eirúnar, leggjast þeir við fætur okkar eins og dauðyfli en verða sjaldnast þeir lifandi sprotar visku og lífsskilnings sem við vonumst til. Enda sama hvað við reynum þá skiljum við ekki mikið í lífinu og höfum aldrei gert.
Það má líka skilja sprotana sem við spinnum eins og rætur. Rætur eru traustar og vekja öryggi og gera okkur jarðbundin en binda okkur þannig líka niður. Með því að reyna að skilja heiminn festum við betur rætur í honum og verðum þar af leiðandi ófrjálsari eftir því sem við eldumst og þroskumst. Kannski eru skilningssprotar okkar meira eins og akkeri sem festa okkur við okkar útgáfu af sannleikanum. Að minnsta kosti er talað um að víðsýni og fordómaleysi séu eiginleikar æskunnar.
En kannski er sannleikurinn í verki Eirúnar einfaldlega sá að við spinnum okkar eigin veruleika. Við erum aldrei að uppgötva neitt heldur bara að alhæfa út frá okkar tilveru. Við höldum að við séum að skilja en erum í rauninni að spinna. Þetta er napurleg tilhugsun og við munum auðvitað aldrei komast að því hvort hún er sönn eða ekki af því sprotarnir okkar eru svo máttlausir. Hvílík klemma sem lífið er. En kannski er málið bara það að sannleikurinn liggur ekki í hinum ytri veruleika. Kannski verða sprotarnir að liggja inn á við til að leiða til einhvers raunverulegs sannleika um lífið? Kannski er það þess vegna sem verkið heitir Höll blekkinganna og veran sem situr þar heitir Gull? Veruleikinn er höll blekkinga en við erum fjársjóðurinn.
Sigrún Daníelsdóttir,
sálfræðingur