Hún liggur, hann stendur upp. Hún rís – draumurinn á enda – það sem fylgir er félags- og menningarlegt: hann býr til fullt af börnum handa henni, hún eyðir æsku sinni í fæðingarhríðir/strit; úr einu rúmi í annað, þangað til sá tími kemur að hluturinn er ekki kona fyrir honum lengur.[1]
                    
Stelpa/móðir – ég.
Hugleiðing um hlutverk, líkama og verk Eirúnar Sigurðardóttur.
 
Hugsun/ég/líkami. Þegar ég hugsa um líkama rek ég mig ávalt á þau vandkvæði sem fylgja því að hugsa líkamann yfirhöfuð. Hugsun um og vinna með líkamann er oft of auðveldlega staðsett, einhvernveginn, fyrir utan, þarna hinu megin – sem viðfang (object) í öruggri fjarlægð frá súbjekt. Það er óhjákvæmilegt að líkaminn, þegar ég lít á hann og skilgreini sem einhverskonar heild, hvort sem hún er eðlislæg eða huglæg/hugtakaleg, aðskilji sjálfan sig á einhvern yfirborðslegan máta frá smáatriðum, örum, svipmóti og blæbrigðum einstaka – eiginlegra – líkama. Að það myndist fjarlægð milli hugmyndar og raunveru; hugmyndarinnar um líkama og hins raunverulega líkama. Þegar líkaminn er útskýrður, útfærður, og tilgreindur í vinnu eða hugsun er hann frystur, gerður hentugur, viðeigandi, aðgengilegur og þar af leiðandi öruggur. En samstundis missum við sjónar af hinum óviðeigandi líkama, þeim líkama sem spornar við takmörkunum og skilgreiningum en er þó sá sem upplifanir mínar segja mér að fanga.
 
Ég spyr: ef hugsunin um líkamann er vandkvæðum háð, hvað þá með upplifunina? Ef ég hugsa líkamann er ég þá fjarri mínum eigin? Er upplifun mín af líkamanum háð upplifunum af sjálfi eða samfélagi? Lifi ég í brotinu/gjánni, hinu “liminal” ef nota má slík hugtök, á milli ímyndar/hugmyndar um líkama og veru minnar í líkamanum, eða veru minnar í huga-líkama, eða líkaman eins og Merleau-Ponty skilgreindi hann. Eru upplifanir mínar líkamlegar eða huglægar?
 
Það er ekki ætlun mín hér að leita endanlegra svara við þessum spurningum eða öðrum sem óhjákvæmilega leita á mann þegar tekist er á við líkama á einhvern hátt; hinsvegar mun ég velta frekar fyrir mér upplifunum af líkama. Þá sérstaklega kvenlægum upplifunum af líkömum í samspili og andstöðu við móðurhlutvekið eins og það birtist innan samfélagsins. Því líkt og Carolee Schneemann benti eitt sinn á þá verðum við að fara aftur að líkamanum, aftur og skoða hversvegna hið persónulega er alltaf pólitíkst fyrir konur; hversvegna upplifanir þeirra af þeim sjálfum sem líkamar, sem mæður, vísa ávallt út fyrir sig.
 
Líkami/ég/hlutverk.
Ég er stelpa, kona, stjúpmóðir með/í líkama. Líkama sem ólíkt karlkyns-líkömum er ætlað ákveðið hlutverk, hlutverk sem hefur mótandi áhrif á upplifanir mínar og skilgreiningar á sjálfi. Það er jafnvel talað um ákveðið eðli, líkt og Simone de Beauvoir bendir á í upphafsorðum umfjöllunar sinnar um móðurina;
 
Það er í móðurhlutverkinu sem konan uppfyllir lífeðlisfræðileg örlög sín; það er henni eðlislægt þar sem öll líffæraleg bygging hennar er aðlöguð fjölgun mannkyns og varðveislu. [2]  
 
En hvað gerist þegar ég stend andspænis þessu hlutverki, stend andspænis væntingum um það að ná líkamlegri fullkomnun, væntingunum um að ég muni finna fyrir endanlegri hamingju; ákveðinni fullnægju.
 
Í kafla sínum um móðurina notast Beauvoir við fyrirbærafræðilegar aðferðir til þess að sýna hvernig líkamleg upplifun konunnar hefur áhrif á sjálfsmynd hennar.  Hún lýsir því hvernig móðurinni finnist hún verða að engu þar sem fóstrið er bæði hluti af líkama hennar, en einnig snýkjudýr sem lifir af honum; líkami konunnar hýsill. Hún missir stjórnina og einhver óþekktur máttur tekur yfir sem þvingar líkama hennar til breytinga. Hún er föst í mótsögn þar sem Beauvoir segir hana bæði upplifa uppfyllingu og þá tilfinningu að hún sé líkamlega særð. Líkaminn er ekki lengur aðeins fyrir sjálfan sig heldur stækkar hann og verður töluvert meiri en áður. Með þessu dæmi um barnshafandi móður sem finnst líkami sinn vera sér framandi er Beauvoir að sýna fram á hvernig „heimurinn í konunni“ brýst fram í upplifun hennar á líkama sínum. „Heimurinn í konunni“ á þá einnig við það hvernig viðleitni menningarinnar er greypt í það minni sem hún er hluti af.  
 
Beauvoir heldur áfram; þegar kona er barnshafandi fær hún loks fullnægt réttlætingu á tilvist sinni. Þessi réttlæting er í takt við þau gildi sem konan hefur gert að sínum en tók ekki þátt í að skapa. Ekki fyrr en þessari stöðu er náð finnst henni hún vera áhugaverð í augum annarra en það er tilfinning sem hún hefur þráð frá því að hún var unglingur. Hún er ekki kynferðislega hlutgerð lengur heldur er hún holdgervingur tegundanna, tákn fyrirheit lífsins sem og eilífðarinnar. Konan er sett í hlutverk náttúrunnar og hún öðlast loks tilgang með því að leika aðalhlutverkið í æxlunarferlinu.
 
Hin unga kona gefur móðurhlutverkinu hátt gildi þar sem hún trúir því að í gegnum það öðlist hún sjálfsbirtingu. Beauvoir segir móðirina þó verða fyrir vonbrigðum. Konan telur móðurhlutverkið réttlæta tilvist sína; barnið er ósjálfbjarga og móðirin finnur að hún er því nauðsynleg og uppfyllir kröfur þess. Það sem reynist henni erfitt er að samband hennar við barnið er ekki gagnkvæmt. Hún verður að réttlæta fyrir sjálfri sér að hún búist ekki við neinu á móti. Móðirin er því ófullnægð.
 
Sú fullnægja sem á, samkvæmt hugmyndum samfélagsins, að fylgja því að verða móðir, geta af sér afkvæmi, verður því ekki að veruleika. Barnið staðfestir ekki tilvist móðurinnar. Hugmyndin skapar togstreitu við raunverulegar upplifanir af ófullkomnun, erfiðleikum, líkamlegri fjarlægð og sársauka. Líkt og Beauvoir bendir á þá er hugmyndin um að æðsti tilgangur kvenna sé að eignast barn álíka marktæk og slagorð í auglýsingum en þó má færa rök fyrir því að slíkar hugsanir séu ríkjandi í samtíma samfélagi og hafi þar af leiðandi áhrif á upplifanir kvenna af móðurhlutverkinu og líkama sínum. Beauvoir er ekki ein um þessar skoðanir; franski femínistinn Irigaray telur móðurhlutverkið vera eina hlutverkið sem konum hefur verið úthlutað af feðraveldinu, og telur þær fanga hlutverksins. Fyrir Irigaray er móðir sú sem hegðar sér í samræmi við þá staðalímynd sem feðraveldið hefur skapað henni. Hún hefur hvorki sitt eigið persónulega tungumál, né eigin sjálfsmynd.
 
Enn og aftur er konan ófullnægð, staðsett einhverstaðar í bilinu/gjánni milli hugmyndar og upplifunar, milli líkama/sjálfs og móðurhlutverksins. Tilvist kven-líkamans er því ávallt pólitísk, hún vísar alltaf út fyrir sig.  Upplifanir mínar af sjálfi/líkama mínum eru því í andstöðu við ráðandi hugmyndir um móðurhlutverkið, ég því staðsettt á jaðri hvors fyrir sig.  
 
Líkami/hlutverk/afhjúpun.
Samtíma femínískir listamenn sýna eigin líkama í samanburði eða andstöðu við hvernig líkami sem merktur er kvenkyns, líkami sem oftast er neysluvænn í framsetningu, hefur verið lesinn og gerður merkingarbær í gegnum söguna. Því má segja að listamaður sem glímir meðvitað og  opinskátt við líkamann standi við hlið sér sjálfrar á þann hátt að hún tekst á við sögu útskýringa á sínum eigin líkama; glímir við drauga útskýringarinnar. En út frá þessari hugmynd, að hún standi við hlið sér, er hægt að útskýra tjáningu/sýningu femínískra listamanna á líkama sínum sem díalektískar ímyndir, líkt og Rebecca Schneider bendir á í bók sinni the explicit body in performance.
 
Walter Benjamin kom fram með orðasambandið díalektískar ímyndir og notaði það til þess að vísa til viðfangs eða sambands hluta/viðfanga sem draga fram hið leynda – sem fletta ofan af eða gera sýnileg ummerki þeirra fölsku fyrirheita sem staðsett eru innan ímyndarinnar. Gera sýnilega þjónustu sína við hið kapítalíska umhverfi. Díalektískar ímyndir eru hlutir/viðföng sem afhjúpa/gera sýnilegt að þau eru ekki algerlega það sem þau eru vanalega talin tákna; á sama hátt og sprungur í andlitsmálingu eða taumar augnfarða geta sýnt efnið í togstreitu við hina tilbúnu samfélagslegu fyrirmynd. Fyrir Benjamin dregur lestur á díalektískum ímyndum fram andstæða sögu við fyrirheit samtímans, þá bæði vegna afhjúpunar eiginleika þeirra og minninganna sem þær innihalda. Því lesa má viðföngin á ný gegn ríkjandi goðsögum og mýtum um náttúruna, gildi og samfélagslega skipan og geta því díalektísar ímyndir svarað eða tjáð öllu því félagslega fyrirtæki sem leynir þeim og hylur, aðra og nýja merkingu.
 
Díalektískar ímyndir fá áhorfandann/lesandann til að hugsa aftur – til að horfa í annað sinn. Ennfremur, það er einhverstaðar í flöktandi óákveðninni á milli lesturs hins horfandi súbjekt og sprungna viðfangsins/hlutarins (þar sem flett er ofan af dulbúningum) sem díalektískar ímyndir virka. Ögrunin við það að fást við díalektískar ímyndir virðist liggja einhverstaðar á milli, í brotinu – í rými sem er á samatíma einstaklega persónulegt, fullt af einstaklingsbundnum atriðum og staðsetningum til lesturs, og einstakleaga almennt, fullt af samfélagslegum leiðarvísum og yfirvarpi til lesturs. Sprunga, brot þessa rýmis, milli hins einstaklega persónulega og hinna samfélagslegu leiðarvísa, er þrungið rými.
 
Verk Eirúnar Sigurðardóttur eru engin undantekning frá verkum annarra listamanna sem taka á hugmyndum tengdum kven-líkama/sjálfi og upplifana af honum. Það er því með hugmyndir um hinar díalektísku ímyndir í huga sem við ættum að nálgast verk hennar nú. Hún býður okkur hér að lesa hugmyndir um líkama og móðurhlutverkið upp á nýtt, býður áhorfandanum að mynda nýja þekkingu sem inniheldur aðrar upplifanir, annan lestur en þann sem lifir innan goðsagnanna og samfélagsins sem hinn rétti, ef hægt er að nota slíkt orð. Ennfremur, hvað er það sem verk Eirúnar afhjúpa? Þau draga fram í dagsljósið togstreituna milli móðurhlutverksins og líkama/sjálfsins, á sama tíma og þau gera sýnilegt að þau eru ekki algerlega það sem þau standa fyrir. Verkin sýna leitina að fullkomnun og að uppfyllingu hlutverksins. En þau sýna einnig hvernig konan verður nafnlaus, einungis hýsill, enn eitt púsl í fjölgun mannkynsins, líkt og sjá má greinilega í því verki hennar sem hér er tiltað Sjálfsmynd. Ennfremur sýna verk hennar hvernig samfélagslegar hugmyndir um fullnægju konunnar í móðurhlutverkinu stangast á við upplifanir hennar af sársauka, ófullnægju, erfiðleikum og líkamlegri fjarlægð – þ.e. konan fjarlægist líkama sinn, við gætum sagt sjálf sitt, því líkaminn þjónar ekki henni einni, er ekki lengur hennar eign. Hún verður náttúran, fortíðin, framtíðin en ekki lengur hún sjálf. Verk Eirúnar eru því í bilinu/í sprungunni á milli upplifana af líkama/sjálfi og móðurhlutverkinum, í bilinu á milli raunveru og hugmyndar samfélagsins. Það má í raun segja að þau séu bilið á milli hins persónulega og hins samfélagslega, að þau séu hið þrungna rými. Í raun eru þau ummerkin um togstreituna eða líkt og við séum komin inní hana miðja, inní heim hennar – líkamann.
 
Það sem er ennfremur áhugavert er að hinn eiginlegi líkami er fjarverandi, honum er einungis miðlað, á meðan verkin vísa í þá sprungu/það bil sem upplifanir hennar eiga sér stað í. Líkt og listakonan reyni hér að leita svara, leita að tilvist sinni. Reyni að afhjúpa þær hugmyndir sem tengdar eru móðurhlutverkinu til að komast nær hinni raunverulegu upplifun, til að geta viðurkennt hana, dregið hana upp á yfirborðið og gert hana sýnilega samhliða þeirri upplifun sem hugmyndir um móðurhlutverkið halda í hávegum – með því að sýna okkur vegsummerkin. Sýna okkur upplifunina. Einnig má velta því fyrir sér hvort líkami konunnar sé fjarverandi úr verkunum vegna þess að hún er ætíð fjarri sjálfri sér og hlutverkinu, aldrei fullkomin. Verkin eru því persónuleg á sama tíma og þau vísa út fyrir sig í þá umræðu sem ég hef lauslega reifað hér að framan. Ennfremur eru verk hennar pólitísk vegna þess að þau taka á þeirri alda gömlu hugmynd um að konum sé það eðlislægt að verða mæður og finni í því hlutverki fullkomnun tilgangs síns.
 
Að lokum; ég/líkami á ný.
Konan/líkaminn/ég get aldrei verið heil, hentug, viðeigandi – verð aldrei fullnægð í því hlutverki sem mér er talið eðlislægt – móðurhlutverkinu. Því líkt og Beauvoir bendir á þá verð ég alltaf fyrir vonbrigðum – get ekki haldið grímunni á lofti. Þrátt fyrir að samfélagið ætli mér að finna fullkomnun og hamingju innan hlutverksins þá stangast upplifanir mínar af því á við hugmyndina. Líkami minn afskræmist/breytist – þjónar öðrum en mér; ég er ekki ein lengur. Og þegar á hólminn er komið þá er þetta erfitt – jafnvel spurning um fórn. Við gætum eflaust spurt; er eitthvað ég/líkami í móðurhlutverkinu?
    
                
 
 
                                Una Þorleifsdóttir
                            Sviðslistamaður/leiklistarfræðingur.
 
 
---------
[1] Héléne Cixous. Úr “Sorties: Out and Out: Attacks/Ways/Out/Forays” í The New Born Woman . Tilvísun tekin úr Performance Analysis. Colin Counsell (ritsj.) o.fl. London: Routledge, 2001, bls. 69. Á ensku: She is lying down, he stands up. She arises – end of the dream – what follows is socio-cultural: he makes her lots of babies, she spends her youth in labor; from bed to bed, until the age at which the thing isn’t woman for him any more
 
[2] Simone de Beauvoir. The Second Sex. London: Vintage, 1997, bls.501. Á ensku: It is in maternity that woman fulfils her physiological destiny; it is her natural calling, since her whole organic structure is adapted for the perpetuation of the species. En Beauvoir er hér að vísa til viðtekinna samfélagslegra hugmynda um móðurhlutverkið, sem hún er í reynd ekki sammála.