Viðtal 6. sept. 2006.
 
Gunnhildur Hauksdóttir, myndlistarmaður, heimsækir Eirúnu  Sigurðardóttur á vinnustofuna og ræðir um tilurð sýningarinnar "Blóðholu".
 
 
LAUKAR OG KARTÖFLUR, BRJÓSTAMJÓLK OG SÆÐI.
 
g. Segðu mér frá sýningunni sem þú ert að vinna að, hvað heitir hún?
 
e. Hún heitir Blóðhola og samanstendur af skúlptúrum, ljósmyndum, teikningum og myndbandi. Þessi hérna skúlptúr, Sigurlaug, sprettur af gamalli hugmynd þar sem ég var að hugsa um kraftinn frá konu til konu. Kraftinn að fæða barn, þessari keðjuverkun útrá einni móður. Hversdagslegasta kraftaverkið í heiminum.  Ég var búin að prufa ýmslegt einsog að taka myndir af mömmu, mér og eldri dóttur minni, en það var ekki að virka. Þetta er búið að þróast og stækka og er komið útí þennan skúlptúr. Ég nýti mér Sigurlaugu ömmu og hennar ættboga sem grunn fyrir verkið, með áherslu á kvenlegginn.
 
g. Þá lítur þetta núna út einsog einhverskonar útskot eða rætur, útfrá einni aðalrót. Svona rótarmengi, frumumengi eða genamengi og þetta er allt svona hvítt?
 
e. Já,  ég ákvað að nota þetta hvíta filtefni vegna þeirrar tilfinningar sem ég fékk þegar ég fann það í búðinni. Þá vissi ég að þetta var rétta efnið... það var örugglega hlýjan í því sem talaði til mín. Ég hafði lagt af stað með það fyrir augum að verða mér útum dumbrautt stroffefni. Því að grunnpælingin með formin, laukana hennar Sigurlaugar, kemur frá rúllukragabol. Ljósmóðirin mín lýsti því fyrir mér hvernig leghálsinn styttist og opnast þegar barn fæðist, einsog höfuð sem fer í gegnum rúllukraga. Lokaútkoman er svo meira einsog laukar eða hnyðjur.
 
g. Sigurlaug hefur þessa rótarstemningu, kartöflustemningu…
 
e. En mömmukartaflan er oftast orðin krumpuð og slöpp í lokin því hún er búin að gefa allt sitt í börnin, í framtíðina.
 
g. Þessir laukar, hver og einn af þeim táknar eina konu ekki satt? Þær eru allar tengdar saman með þessum naflastreng. Þetta er einsog valdastrúktúr. Heldur þú að það hafi verið gert of lítið úr því, að þetta sé vanmetið vald kvenna? Finnst þér að það eigi að gera þessu stórkostlega náttúrufyrirbæri hjá okkur spendýrum hærra undir höfði?
 
e. Það er tilfinningin sem maður hefur eftir að hafa sjálfur alið af sér barn. Þá hugsar maður um þennan kraft. Legið er sterkasti vöðvi mannslíkamans, enginn vöðvi getur orðið jafn sterkur.
 
g. Já og enginn jafn sveigjanlegur.e. …og bara magnaður.
 
g. Svo er þetta með kynlíf kvenna og fullnægingar kvenna sem geta orðið svo öflugar. Er eitthvað sem þú vilt segja um það i þessu samhengi?
 
e. Ef við horfum t.d. á Sigurlaugu og allan þennan ættboga, þá er hægt að ímynda sér að á bak við hverja kúlu sé margháttaður unaður og fullnægja. Kannski jafnvel hægt að ímynda sér skúlptúrinn sjálfan sem eina allsherjar raðfullnægingu. Röð af gnissum og sprengingum.
 
g. Já einmitt, þegar ég horfi á þetta verk finnst ég sjá svolítið svona sæðisfrumur. Ef maður hugsar þetta bara sem kynlíf og horfir á þessa hérna, einhverskonar limi sem annaðhvort eru að koma útúr hnyðjunum eða fara inní þær...
 
e. Já, það eru strákarnir.
 
g. Eru það strákarnir? Vá einmitt... Já og þeir eru einhvern veginn að fara um þetta allt. Mann fer að langa til að pota hérna inní þú veist þetta er eitthvað svo bjóðandi þó þetta sé svona rjómahvítt þá er þetta svo holdlegt ef maður hugsar það þannig. Hvernig egg frjóvgast, hvernig sæðisfrumurnar eru í kapphlaupi að komast fyrstar að egginu. Margar og pínulitlar. Eggið er þarna stórt, kyrrt og bíðandi. Það hefur yfirleitt verið séð sem passíft en það er víst þannig að eggið velur hvaða sæðisfrumu það hleypir inn á sig og ef eggið nær taki á einni sæðisfrumu þá festir það hana. Sogar hana inní sig. Þetta breytir svolítið myndinni af getnaðinum...en ég meina, frjósemin var dýrkuð, en sú dýrkun heyrir sögunni til. Frjósemisgyðjur, þær eru gyðjur, guðir, en í okkar samfélagi er þetta orðið klínískt. Kraftaverkið er orðið læknisfræðilegt. Öll mystík dottin út.
 
 
DÝRKUN KVENLEIKANS, DRULLA OG TENGILL
 
e. Þegar þú segir frjósemisgyðjur þá fer ég að hugsa um þessa litlu styttu af frjósemisgyðju, Venusi frá Willendorf. Hún lítur út fyrir að  vera  búin að eignast mörg börn, allavega vera blómleg og þroskuð kona. Maður fer stundum að pæla í því þegar maður sér alla þessa mismunandi líkama í kringum sig, t.d. í sundi eldri konur, aldurinn í líkamanum, reynsluna, glæsileikann, slitin og örin. Þetta væri einmitt eitthvað sem væri svo verðugt og fallegt að dýrka, allar þessar lifandi tímavélar með vaxandi hrukkur og visku. En þetta tengist öðru verki sem ég er að vinna að. Þessi hérna skúlptúr, Þórdís, hún er belgmikil og lin og úr sama efni og Sigurlaug. Útúr henni kemur þessi rosalengja og svo ofsalega sperrt lítil hnyðja hér í enda með hekluðu glitrandi dúlleríi.
 
g. Eitthvað sem lítur út fyrir að vera að fara að vaxa meira? Rétt að byrja að springa út?
 
e. Jafnvel. Eitthvað glitrandi, einhver fegurð. Úr lina hlutanum heklast út eitthvað svona rautt og brúnt, það er greinilega eitthvað búið að ganga á, miklir kraftar verið notaðir. Það eru saumar í henni og húðin toguð, ég er að útfæra þetta smátt og smátt. Ég er búin að vesenast heilmikið með nafn handa henni en sko, Þórdís er ljósmóðirin sem tók á móti börnunum hennar ömmu. Hún hjólaði um bæinn og tók á móti börnum. Hún tók meðal annars á móti mömmu minni í kjallara við Laugaveg.
 
g. Vá.
 
e. Og þegar þetta nafn kom þá var það ekki spurning lengur.
 
g. Þetta er þá óður til ættmæðra þinna, fæðingarinnar, og þessa fyrirbæris bara að fæða,  ganga með börn, ala þau og ...
 
e. Já, hluti af sýningunni tengist því að gefa líf. Maður verður svolítið heltekin af því eftir að hafa tekið þátt í því, sérstaklega eftir að ég átti eldri stelpuna mína og horfði svo á aðrar konur með börn þá hugsaði ég, bara vá... Ef það eru til hetjur þá eru þetta þær.
 
g. Manstu eftir tilfinningunni þegar þú fékkst mjólk í brjóstin fyrst?
 
e. Gífurlega þensla og spenna.
 
g. Já rosaleg þensla og spenna og svo þetta að brjóstin verði funksjónal. Ekki lengur kynörvandi heldur funksjónal.  
 
e. Já, til þess eru þessir tvíburar sem við erum með framan á okkur....
 
g. Þessi tilfinning að nú sé þetta fullkomið. Nú fær þetta að gegna hlutverki sínu. Svolítið flott. Ég man mjög vel eftir þeirri tilfinningu.
 
e. En það eru líka allskonar tilfinningaflækjur og flókar sem geta gert vart við sig ef þetta virkar ekki. Það hefur með þennan skúlptur hérna að gera, Drulla, heitir hann og tengist óþægilegum tilfinningum. Þyngslum og drasli sem maður er oft að druslast með í hausnum á sér. Það eru þessar sogskálar sem soga úr manni allan kraft og þess vegna kemur þetta slef og þetta blauta niður úr týpunni sem hangir úr slöngunum. En það væri alveg hægt að sjá þetta öfugt... að allar þessar slöngur, sem eru svona frekar typpalegar, væru að sprauta saman út þessari hugmynd eða þessum hvíta haus.. búa til þetta líf.
 
g. Að slöngurnar gætu verið á einhvern hátt að fæða? En eru þær ekki að soga þetta útúr veggnum?
 
e. Jú, það getur nefnilega alveg verið. Kannski er þetta sagan sem þær eru að soga?
 
g. Þeir eru þá að taka úr veggnum söguna, gefa þeim mál og uppfylla þessa ósk um að “ef veggirnir gætu nú talað".
 
e. Já einmitt, það væri alveg hægt að leggja af stað í svoleiðis ferðalag...Svo kom þessi týpa til mín þegar ég var að búa Sigurlaugu til. Þarna, hangandi á veggnum.
 
g. Hann gæti verið nokkurskonar grímubúningur? Við förum í allskonar búninga til að geta betur tekist á við lífið kannski?
 
e. Stundum er það eina leiðin. Þessi búningur er búinn til úr sama efninu og skúlptúrarnir. Þetta setur maður yfir hausinn á sér og útúr hausnum kemur þessi sproti eða þreifari sem ég sé sem leifar af naflastreng, tengingu við fortíð, tilraun til þess að skilja, reyna að ná sambandi. Úr klofinu kemur snúra með með kúlu á endanum, kúlu eða hlekk. Ég fór á ljósmyndastofu og lét taka mynd af mér í þessum búningi en svo er ég líka búin að vera að taka ljósmyndir af öðrum í honum við að reyna að ná einhvernvegin samhengi hlutanna. Það hvaðan við komum, sveitin og dýrin... tengja við það og líka daginn í dag.
 
g. Fallegar þessar myndir af Tenglinum og sauðkindinni og fallegar þessar kálfamyndir. Það er svo mikl móðurást og varnarleysið í ungviðinu kemur svo vel fram á þessari mynd. Af því þetta er kálfur, þeir þurfa svo mikið að sjúga. Svo er hann allur svo slímugur og umkomulaus einhvernveginn.
 
e. Og um leið er maður minntur á hvað manneskjan er mikið dýr. Hvað líkaminn er dýrslegur, einfaldlega vél sem þarf að virka. Svo eru ærnar að bera þetta tveim til þremur lömbum á hverju vori sem við snæðum svo á tillidögum. að eignast þetta tvö til þrjú lömb á hverju ári og maður étur þau um páskana. Á meðan okkur manneskjunum finnst þetta svo merkilegt og eignumst alltaf færri og færri af þessum fyrirbærum. Ég var mikið í sveit sem barn og unglingur. Systir mín er bóndi og að komast í sveitina er ólýsanlegt. Tengja sig við hringrás náttúrunnar, horfast í augu við hana.g. Sorgina í kringum það líka, tragedíuna.e. Þegar maður ætlar að bjarga heimalingnum og heiminum um leið. Kálfarnir teknir, sorgin í kringum það, lambið sem var keyrt á, allt þetta.
 
 
Í MILJÓNASTA VELDI. STURLUÐ GLEÐI.
 
g. Ef við snúum okkur að saumaskapnum, þú ert með þessa útsaumuðu mynd af hyperbrosandi móður. Veistu hvað þetta minnir mig á þegar þetta liggur svona? Þetta minnir mig á mjólkurpoll á gólfi eða borði, mjólk sem hefur hellst niður og formast í mynd.
 
e. Það er nú reyndar mjög falleg mynd. En þessi á eftir að breytast töluvert, það á eftir að sauma meira út í hana. Hárið á eftir að koma sterkar inn. Hárið er mikilvægt, samkvæmt sumum söfnuðum og trúarbrögðum er hárið á konunni verndandi fyrir fjölskylduna. Hárið á þessari verður sítt og það á eftir að verða mjög flókið. Ég ætla líka að sauma beina þræði sem búa til munstur inní hárið á henni sem eru beinar röklegar línur. Þessi mynd heitir Í miljónasta veldi.
 
g. Hún brosir líka alveg í milljónasta veldi.  Hún er svo "psychopata-glöð" afhverju er hún svona hyper, svona psychopata-leg? Hún er stirð af gleði.
 
e. Kannski finnst henni bara svona gaman að hún gerir sér ekki grein fyrir því hvað hún er á miklum yfirsnúningi í því. Þetta getur líka verið tákn fyrir það að vilja halda öllu á beinu brautinni. Allt þarf að vera röklegt og meika sens. Bæði í því að vera foreldri og reka heimili, reka fyrirtæki eða bara allt sem að fólk tekur sér fyrir hendur.
 
g. Já, fólk gleymir að elska melankólíuna og beyglurnar í lífinu. Þú ert að tala um fólk almennt eða ertu að gera þetta útfrá sjálfri þér?
 
e. Ég er fólk almennt. Þetta er kona með barn, ég er að gera þetta útfrá þessu dæmi. Ég vinn útfrá mér inn í víðara samhengi.
 
g. Þannig að þetta er ekki sjálfsmynd af upplifun þinni, að þér hafi fundist það vera skylda þín að finnast alltaf allt ofsalega gaman í sambandi við að eignast börn?
 
e. Nei, mér hefur ekki fundist það vera einhver utanaðkomandi pressa. Ég set það alls ekki svoleiðis upp. Þetta er meira svona almennt að ef maður fer í eitthvert verkefni einsog þetta að eignast barn. Það er einsog öll önnur verkefni. Stundum er æðislega gaman og allt er bara fínt og stundum er það ekki jafn flott og frábært. Ég er t.d. að undirbúa þessa sýningu og er líka með lítið barn heima sem ég sinni hluta dagsins. En er á meðan að hugsa um vinnuna.
 
g. Og kannski öfugt líka.. með hugann við barnið þegar þú ert með nálina í hendinni?
 
e. Já, þetta fer í báðar áttir. Stundum er ég límd við tölvuna eða eitthvað annað þegar hún er vakandi og eitthvað að bralla, en það er kannski einsog áður þegar konur voru að sinna miljón húsverkum á með börnin brölluðu. Þetta er líka mjög fínt þegar ég er komin með algjöra mónómaníu varðandi vinnuna, sleppi því að fá mér að borða. Þá virkar svona lítið barn einsog lifandi klukka sem sér til þess að maður líti upp og komi sér út eða fari að gera eitthvað annað um tíma og er líka ferskari þegar maður byrjar aftur að vinna. Það er líka pirrandi að vera truflaður. En þetta er samt ekki neitt svakalegt drama. Þetta er bara svona.
 
 
TENGILLINN, KLÆR OG INNSTUNGUR
 
e. En svo er ég líka með þennan fjarstýrða bíl þarna með hárið sem mér fannst mjög fyndinn fyrst, síðan alveg ömurlegur og núna er hann á mörkunum. Í bílnum er annarskonar kraftur, hestöfl. Ég er búin að vera að vinna að þessari sýningu í tæp tvö ár og á leiðinni tek ég inn fullt af hugmyndum. Það eru líka margar hugmyndir og kláruð verk sem detta út eða taka á sig aðra mynd.
 
g. Hestöfl? Þetta er óttalega aumingjalegur kraftur. Hann er einsog lítill hundur klaufalegur einhvernveginn "wzzzzz pong!" hann klessir á vegg. Ég skil þennan ekki alveg.e. Ég veit ekki heldur hvað gerist með þetta fyrirbæri en það er gaman að stjórna honum.g. Hann er svoldið skemmtilegur. Auk þess þarf maður ekki alltaf að skilja allt.
 
e. Já, það er nefnilega málið, maður þarf þess alls ekki. Bíllinn verður sennilega með. Svo er líka fullt af teikningum á sýningunni og ljósmyndum.
 
g. Þú varst með eina ljósmynd sem þú vildir minnast á.
 
e. Já, sem er svarthvít mynd af mér í tenglabúningnum. Ég fór á ljósmyndastofu og lét fagmann taka myndir af mér þar sem ég stend í ákveðinni pósu. Ég sá einu sinni gamla uppstillta ljósmynd af söngkonu sem stóð við píanó ofsalega fín með hendurnar svona, (leggur þumalfingur saman og vísifingur saman og myndar langan tígul neðarlega fyrir framan magann á sér). Á minni ljósmynd  er ég komin í Tengil (búninginn) og mynda þetta kvenlega form, verandi með þessa framtíðar snúru undan pilsfaldinum og skilningssnúru úr höfðinu að reyna að átta mig á núinu og bara heiminum en til þess þarf að vera í einhverjum tengslum við fortíðina. Þetta er nokkurs konar vikivaki.  
 
g. Maður sjálfur er með sinn eigin tengil á milli fortíðar og framtíðar. Þú kallar það Tengill, er tengill þá ástand?
 
e. Eða nafn.. Tengill eins og Þengill og líka bara að tengja. Innstunga og tengi, fjöltengi. Í rauninni mætti ímynda sér að við værum öll gangandi millistykki. Alltaf að tengja úr einu í annað, til þess að búa til nýjar tengingar og kveikja ný ljós. Það er það sem ég er að reyna að gera. Alltaf eitthvað að tengja, við fortíð og nútíð og vonandi að tengja líka við hausinn á áhorfandanum. Sýningin er öll ein heljarinnar innstunga eða fjöltengi og hver sýningargestur er með sinn tengil á lofti.
 
g. Klóna?
 
e. Já, gesturinn er með klóna á lofti, þegar hann kemur á myndlistarsýningu.
 
g. Ert þú ekki klóin og gestirnir eru innstungurnar? Eða hvort ert þú kló eða innstunga?
 
e. Listamaður er hvorki kló né innstunga, listamaður býr til innstungur sem áhorfandi hefur möguleika á að stinga sinni kló í og reyna að ná einhverju rafmagni, einhverri tengingu.
 
g. Hefur þú þörf fyrir að stjórna þeim skírskotunum sem verkið hefur, viltu sjá fyrir endann á því hvernig verkið er túlkað?
 
e. Nei ég vil alls ekki sjá fyrir endann á því. Maður býr til myndheim, treystir hugboðum, lætur tilfinninguna ráða, orðin og útskýringarnar koma seinna. Tilfinningar eru aldrei einsog orðin sem notuð eru til þess að lýsa þeim, þetta er tjáning á öðru sviði. Eftir því sem fólk skilur hlutina á mismunandi vegu þeim mun betra. Þá eru verkin, að tengja, við eitthvað hjá þeim sem eru að horfa.
 
g. En ef fólk tengir alls ekki við þetta. Kemur bara og sér einhver nöfn. Sigurlaug og Þórdís og eitthvað, hugsar með sér "hvaða rugl er nú þetta?" vill kannski bara ekkert tengja. Hvað þá? Heldur þú að það geti gerst?
 
e. Já já, þá er það bara þannig. Þá er klóin á þessu fólki amerísk eða eitthvað. Passar ekki í innstunguna, nær ekki sambandi. Það þarf þá bara að skipta um kló hjá viðkomandi. Nei, auðvitað vil ég að fólk tengi. En ég vil og get ekki ákveða hvort og hvernig það tengir eða skilur. Þetta snýst heldur ekki bara um að skilja, þetta snýst um að skoða og skynja. Taka skrefið. List er er ekki list fyrr en einhver sér hana. Ljóð er ekki ljóð fyrr en einhver les það. Verkið er hálfklárað þar til einhver tengir við það.
 
 
... Segir Eirún og beygir sig yfir útsaumsmyndina sína. Þar með lýkur þessu spjalli um samhengi hlutanna.