Til baka í bloggfærslu um börn siðblindra

Þýðing á fyrirlestrinum  Den pæne psykopat,
eftir Irene Rønn Lind (2008), sem birtist á Barnets Tarv Nu.
Upphaflega var þetta ræða eða innlegg á samráðsfundi um breytingar á dönskum barnalögum.
Fyrirlesturinn er þýddur með leyfi höfundar.
 

Sá snotri siðblindi

Ímyndaðu þér að þú sitjir frammi fyrir pari og umræðan snúist um forræði yfir börnum þeirra, eins og hálfs árs og fjögurra ára. Hann er aðlaðandi. Hann brosir þegar hann beinir orðum sínum að þér og að konu sinni. Hann er mjög traustvekjandi. Honum mælist vel og hann rökstyður mál sitt vel. Hann segir þér frá vinnu sinni og húsnæði og þú færð á tilfinninguna að þetta sé maður sem höndli tilveruna vel. Hann hefur líka hreint sakavottorð. Hann lítur út fyrir að vera heilbrigður til sálar og líkama og hann er mjög aðlaðandi og sannfærandi.
Hann minnir sko hreint ekki á siðblindan.

Samt er hugsanlegt að verið sé að plata þig. Þetta gæti verið snotur, siðblindur náungi. Það sem þú sérð er gríma - varnarskel. Komist þú inn undir grímuna blasir við allt annar maður, sem stjórnast af óseðjandi þörf fyrir völd og stjórn og aðdáun og viðurkenningu og er samviskulaus.
Hann er sjálfselskur.
Hann lætur sínar þarfir ganga fyrir öllu.
Hann er árásargjarn, getur rokið upp í reiðikasti og beitt ofbeldi.
Hann stofnar sífellt til ófriðar en sækist ekki eftir ró og sættum.
Hann er lyginn - snýr sannleikanum sér í hag - án þess að þú takir eftir því. Siðblindir geta nýtt sér svo til eingöngu sannleikskorn til lyga.
Kannski eru margar konur í lífi hans.
Og svo lítur hann á annað fólk sem „einnota“. Annað fólk skiptir einungis máli svo lengi sem það gagnast hinum siðblinda.
En það óhugnalegasta við þennan aðlaðandi mann er hæfni hans til að finna óöryggi og veikar hliðar annarra - að eiginkonu sinni meðtaldri. Hann virðist næstum hafa sérstaka ánægju af því að uppgötva galla annarra til þess að reka þá á hol, ýkja gallana, sýna kaldhæðni og notfæra sér þá í eigin þágu. Hann fær menn til að tortryggja getu og hæfni annarra og vekur sektarkennd. Þannig tekst honum að brjóta niður sína nánustu og ná tangarhaldi á þeim svo hann geti ráðskast með þá og ráðið hugsunum þeirra og tilfinningum. Hægt og rólega, án þess nokkur taki eftir því, brytjar hann niður sína nánustu í spað. Þetta líkist aðferð termíta (hvítmaura) í náttúrunni. Þeir byrja á að naga tréð að innan en ytra byrðið er heilt svo engan grunar að neitt sé að þessu tré, ekki fyrr en það hrynur saman. Alveg eins er ástatt fyrir fórnarlömbum siðblindra.

Hvernig stendur á því að þessi aðlaðandi maður hagar sér svona? Hvernig getur hann fengið þetta af sér? Hann breytir svona vegna þess að hann hefur skaddaðan persónuleika. Samband hans við aðra er skaðvænlegt. Og samviska hans er meinafull. Þess vegna er hegðun hans svo ófyrirleitin. Þegar venjulegt fólk lýgur sést það oft á því, t.d. flökir augnaráðið, menn ræskja sig og aka sér til. En sá siðblindi lýgur eða baktalar aðra á mjög sannfærandi vegu því framkoma hans er í alla staði eðlileg á meðan. Í hann vantar allar hömlur.

Hve margir eru siðblindir?
Á að giska 2-4% íbúa Danmerkur má telja siðblinda og karlar eru 3-5 sinnum fleiri í þeim hópi en konur. En hvað varðar hina snotru siðblindu, þ.e.a.s. þá sem valda öðrum ósýnilegum skaða, eins og þessi aðlaðandi maður sem lýst var að ofan, þá er enn erfiðara að fá einhverja yfirsýn yfir algengið. Vinnustaðasálfræðingar í Danmörku og Svíþjóð álíta að 10% stjórndenda á vinnustöðum hafi ríkjandi siðblindueinkenni. Svo við verðum að reikna með að þeir séu nokkuð margir, þessir snotru siðblindu sem sinna alls konar störfum og eiga fjölskyldur. Hver og einn á mörg fórnarlömb - og þar með höfum við talsverðan fjölda fólks sem siðblinda snertir á einn eða annan máta.

Og hvað með konuna sem situr við hlið huggulega mannsins?
Gerir hún sér grein fyrir því að maðurinn er siðblindur? Ekkert endilega. Oft verður konum ekki ljóst að þær voru fórnarlömb siðblindra fyrr en eftir að þær hafa skilið við þá og, í mörgum tilvikum, þegið faglega aðstoð.

En áður en þau komu hingað, þar sem á að semja um forræði yfir börnunum, er löng saga. Hún lét líka blekkjast af manninum í upphafi, af grímunni hans, varnarskelinni hans. Hún dróst að seiðmagni hans og varð hugfangin af honum. Smám saman náði hann tangarhaldi á henni, með ráðríki, að hamra sífellt á göllum hennar og brjóta hana niður. Kannski telur hún að hún geti ekki án hans verið. Hún er hvort sem er einskis nýt. Hún hefur verið smækkuð niður í nytjahlut handa honum. Hún er orðin andlega háð honum og sýnir þverstæðukennda hollustu, það sem frægt er orðið undir nafninu Stokkhólmsheilkennið, þ.e. hollustan sem gíslar sýna gíslatökumönnum.

Núna, þegar hún er að skilja við hann, bíður hennar mikil og krefjandi vinna. Hún þarf að skilgreina líf sitt upp á nýtt. Hún þarf að finna sér nýtt innihald í lífinu því öll tilvera hennar hefur lengi snúist um hann. Hún þarf að öðlast sjálfstraust að nýju og finna aftur styrk sinn. Hún þarf að uppgötva eigin skoðanir og lífssýn. Hún þarf að átta sig að nýju á sambandi sínu við annað fólk því í sambúðinni með hinum siðblinda var hún neydd til að lúta áliti hans á öðrum. Kannski þarf hún að endurvekja tengslin við fjölskyldu og vini - þau voru e.t.v. hunsuð ef þau gagnrýndu  hann eða voguðu sér að gera athugasemdir við lygar hans.

En akkúrat núna, í umfjöllun um forræðið yfir börnunum, er stærsta vandamál hennar að hann virkar sannfærandi og hún kemur fyrir sem niðurdregin, taugaóstyrk og óörugg. Og reynsla hennar af ofbeldi og áreitni er alls ekki í samræmi við þá mynd sem hann dregur upp. Svikunum linnir ekki þótt þriðji aðili sé viðstaddur.

Hvað með börnin?
Þau hófu líf sitt með siðblindum föður og eiga áfram að þroskast í tengslum við siðblindan föður, í umhverfi sem hann hefur sett mark sitt á.  Það er vandamálið. Allt það sem börn þarfnast í uppvextinum, s.s. að fá uppfylltar andlegar og líkamlegar þarfir, að fá hrós og vera sett mörk, að ýtt sé undir sjálfstæði þeirra og einstaklingseðli o.fl., á nú að uppfylla í tengslum við föður sem  er knúinn áfram af þörf fyrir völd og stjórn og aðdáun og viðurkenningu. Hann getur krafist aðdáunar sem nær nánast guðlegum hæðum - „Þið eigið að líta upp til mín og einungis mín“.
Börnin eru enn svo lítil að þau sýna báðum foreldrunum tryggð og líta upp til þeirra. Kannski hafa þau tekið að sér hið erfiða hlutverk að bera ávallt klæði á vopnin og sjá til þess að heimilisbragurinn sé þokkalegur. Slíkt torveldar börnunum að verða sjálfstæð og þróa eigin persónuleika og gera sér grein fyrir eigin þörfum. Það er víst nógu erfitt að byggja upp gott og traust samband við venjulega foreldra.
Kröfunni um algera aðdáun er ögrað þegar börnin fara að umgangast aðra að ráði, sem venjulega verður þegar þau byrja í skóla og verður enn greinilegra á unglingsaldri. Hversu vel þeim tekst til í  að mynda tengsl við aðra, þar á meðal kærasta / kærustur og seinna meir maka, ræðst af því hvort þau eru ennþá undir ægivaldi hins siðblinda föður síns.

Hvað er mikilvægt að hafa í huga um hina snotru siðblindu einstaklinga?
- Hinir snotru siðblindu einstaklingar eru til. Í forræðisdeilum rekst maður oftar á þá en mann grunar.
- Af því maður hefur einungis takmörkuð kynni af þeim þá sér maður einungis grímuna sem þeir bera. Hættan á að láta blekkjast er þess vegna mikil.
- Það tekur tíma, jafnvel mörg ár, að afhjúpa snotran siðblindan. Forsaga hans er mikilvægur hlekkur í því að afhjúpa hann.
- Makinn er niðurbrotinn og samskipti við siðblint foreldri mun hamla þroska barnanna.

Svo hér er um verulega flókin mál að ræða sem krefjast mannþekkingar og tíma. Þetta er samt mikilvægt viðfangsefni því einhverjir - einhverjir makar og börn - sitja í súpunni.
 

Irene Rønn Lind
Löggiltur sálfræðingur
Í hlutastarfi í Uppeldis- og sálfræðiráðgjöfinni í Glostrup
Starfar að hluta sem sálfræðingur á stofu
Höfundur bókarinnar Forklædt. Pæne psykopater of deres ofre (2007)
 

Harpa Hreinsdóttir þýddi
21. jan. 2011