Þófamjúk rándýr sem læðast: Um siðblindu
 
 
 
Nánari útlistun á sumum einkennum siðblindu í gátlista Roberts D. Hare (PLC-R)
Robert D. HareÞessi listi er nokkuð stytt þýðing á  grein Roberts D. Hare, „This Charming Psychopath. How to spot social predators before they attack“ sem birtist í Psychology Today 1. jan. 1994 en vefútgáfan var síðast endurskoðuð 1. júní 2010.  Greinin er á hinn bóginn ofurlítið stytt úr 3. kafla, „The Profile: Feelings and Relationships“ og 4. kafla, „The Profile: Lifestyle“, í bók Hare: Without Conscience. The Disturbing World of the Psychopaths Among Us, sem kom fyrst út 1993. Myndin er af Robert D. Hare.
 

Tungulipurð og yfirborðskenndir persónutöfrar

Siðblindir eiga oft gott með að koma fyrir sig orði. Þeir geta verið þægilegir viðræðu og aðlaðandi. Oft segia þeir hróssögur af sjálfum sér eða koma vel fyrir við fyrstu sýn.

Sem dæmi nefnir Hare konu sem tók viðtal við fanga og sagði eftir á: „Ég settist niður og tók fram ritspjaldið og hið fyrsta sem þessi náungi sagði mér var hve ég hefði einstaklega falleg augu. Honum tókst síðan að strá gullhömrum inn á milli í viðtalinu svo um það leyti sem ég pakkaði saman var mér farið að líða óvenju ... ja, fallegri. Ég er vör um mig, sérstaklega í þessari vinnu, og get venjulega þekkt svikahrapp. Þegar ég var komin aftur út gat ég alls ekki skilið hvernig ég gat fallið fyrir svona frösum.“

Stórmennskuhugmyndir um eigið ágæti

Siðblindir eru oft fullir aðdáunar á eigin ágæti og hafa ákaflega ýktar hugmyndir um það. Þeir eru sjálfselskir og telja sig nafla alheimsins. Þetta finnst þeim gefa sér rétt til að haga lífi sínu eftir eigin höfði.

Þeir halda því oft fram að þeir stefni að ákveðnum markmiðum en hunsa aftur á móti kröfurnar sem þarf að uppfylla til að ná slíkum markmiðum. Oft vantar þá menntun eða skólagöngu til þess arna eða hafa forsögu sem kemur í veg fyrir líkt.

Siðblindur fangi gæti talað um óljósar hugmyndir um að gerast lögfræðingur fátækra eða auðjöfurs. Einum hálf-ólæsum fanga tókst að fá skráðan höfundarétt á eigin ævisögu sem hann hugsaði sér að skrifa og var þegar farinn að telja í huganum þau auðævi sem væntanleg metsölubók hans myndi færa honum.
 

Skortur á eftirsjá eða sektarkennd

Siðblindir sýna ótrúlegt hirðuleysi um hvaða afleiðingar gjörðir þeirra hafa fyrir aðra, sama hversu niðurbrjótandi þær kunna að vera. Þeir geta verið alveg hreinskilnir um þetta, haldandi því rólega fram að þeir hafi enga sektartilfinningu, sé alveg sama um þann sársauka sem þeir ollu og að það sé engin ástæða til að láta þetta sig neinu máli skipta.

Einn fanginn í  okkar rannsókn svaraði, þegar hann var spurður hvort hann sæi eftir að hafa um leið og hann framdi rán stungið fórnarlamb sem varð svo að dvelja á sjúkrahúsi vegna sára sinna: „Vertu raunsær maður! Hann eyðir nokkrum mánuðum á spítala og ég rotna hér. Ef ég hefði viljað drepa hann hefði ég skorið hann á háls. Þannig er ég bara; Ég skaffaði honum gott frí.“

Skortur á eftirsjá eða sektarkennd tengist þeim stórmerkilega hæfileika að geta ævinlega réttlætt hegðun sína og  hrist af sér persónulega ábyrgð á ýmsum verkum sem valda fjölskyldu, vinum og öðrum hrolli og vonbrigðum. Venjulega hafa siðblindir þægilegar afsakanir fyrir hegðun sinni á hraðbergi og stundum neita þeir einfaldlega að atburðir hafi átt sér stað.
 

Skortur á samhygð

Mörg þau einkenni sem siðblindir sýna eru nátengd djúpstæðum skorti á samhygð og vanmætti til að sjá aðra manneskju sem tilfinningaveru.  Þeir geta ekki sett sig í annarra spor þótt þeir geti vitað hvernig öðrum líður. Þær upplýsingar eru þeim bara þurrar staðreyndir.

Þeim er algerlega sama um réttindi eða þjáningar hvort sem um er að ræða fjölskyldumeðlimi eða ókunnugra. Ef þeir tengjast fjölskylduböndum þá er það eingöngu vegna þess að þeir líta á fjölskyldumeðlimi sem eign. Ein þeirra sem við rannsökuðum leyfði kærastanum sínum að misnota fimm ára dóttur sína kynferðislega vegna þess að „hann þvældi mér alveg út. Ég var ekki til í meira kynlíf það kvöld.“  Konan átti bágt með að skilja af hverju yfirvöld tóku af henni barnið.
 

Svikulir og stjórnsamir / drottnunargjarnir

Á valdi ímyndunaraflsins og baðaðir í eigin birtu virðast siðblindir ótrúlega ónæmir fyrir þeim möguleika - eða jafnvel staðreynd - að upp um þá komist. Þegar þeir eru staðnir að lygi eða sannleiknum flaggað framan í þá virðast þeir sjaldan verða hissa eða fara hjá sér - þeir breyta einfaldlega sögunni eða reyna að aðlaga eða skrumskæla staðreyndir svo þær falli að lyginni. Afleiðingin eru annars vegar alls konar staðhæfingar sem stangast á og hins vegar mjög ringlaður hlustandi.

Og siðblindir virðast hreyknir af hæfileika sínum til að ljúga. Þegar kona nokkur var spurð hvort hún ætti auðvelt með að segja ósatt, hló hún og svaraði: „Ég er sú albesta!  Ég held að það sé vegna þess að stöku sinnum viðurkenni ég eitthvað slæmt um mig sjálfa. Þau hin hugsa þá: Jæja, ef hún viðurkennir þetta þá hlýtur hún að segja satt um hitt.“

Yfirborðskennt tilfinningalíf

Siðblindir virðast þjást af einhvers konar tilfinningafátækt sem setur umfangi og dýpt tilfinninga þeirra skorður. Stundum virðast þeir kaldir og fálátir en eiga til að sýna dramatískar tilfinnnaþrungna takta, sem reyndar standa stutt og rista grunnt. Athugult vitni að slíku fær á tilfinninguna að þeir séu bara að leika og atriðið sé heldur yfirborðskennt..

Siðblindur náungi í rannsókn okkar sagði að hann skildi ekki alveg hvað aðrir ættu við með ótta. „Þegar ég ræni banka“, sagði hann, „þá tek ég eftir því að gjaldkerinn skelfur. Ein ældi yfir alla peningana. Hún hlýtur að hafa verið öll í steik en ég veit ekki af hverju. Ef einhver beindi byssu að mér hugsa ég að ég yrði hræddur en ég mundi ekki kasta upp.“ Þegar hann var spurður hvort hann fyndi hjartað nokkru sinnu berjast eða magann hniprast svaraði hann: „Auðvitað! Ég er ekki vélmenni. Ég æsist heilmikið upp í kynmökum eða þegar ég lendi í slag.“
 

Hvatvísi

Siðblindir eru ólíklegir til að eyða miklum tíma í að hugleiða fyrirfram kosti og galla gerða sinna eða íhuga hugsanlegar afleiðingar þeirra. „Ég gerði þetta vegna þess að ég var í stuði til þess“, er algengt  svar. Hvatvís hegðun stafar oft af því markmiði sem er siðblindum efst í huga: Að ná samstundis fullnægju, ánægju eða létti.

En  fjölskyldumeðlimir, ættingjar, vinnuveitendur og samverkamenn standa gjarna á gati og spyrja sig hvað hafi eiginlega komið fyrir; hætt er í vinnu, samböndum slitið, áætlunum breytt, hús rænd, fólk meitt, oft að því er virðist einungis af einhverjum duttlungum. Eiginmaður siðblindrar konu, sem ég rannsakaði, sagði: „Hún stóð upp frá borðinu og fór og það var það síðasta sem ég sá af  henni næstu tvo mánuðina.“
 

Léleg sjálfsstjórn

Auk þess að vera hvatvísir sýna siðblindir sterk viðbrögð við öllu því sem þeir telja móðgun eða hunsun. Flest okkar hafa öfluga innbyggða stjórn á eigin hegðun; jafnvel þótt okkur langi til að bregðast grimmilega við þá getum við venjulega stillt okkur. Í siðblindum er þessi innbyggða stjórn veik og minnsta ögrun nægir til að þeir missa hana.

Afleiðingin er sú að þráðurinn í siðblindum er stuttur, þeir eru fljótir að rjúka upp og hneigjast til að bregðast við vonbrigðum, mistökum, aga og gagnrýni með skyndilegu ofbeldi, hótunum eða að hella sér yfir viðkomandi. En þessi skapofsi, svo óskaplegur sem hann kann að vera, stendur stutt og fljótlega láta þeir eins og ekkert hafi í skorist.

Sem dæmi má taka fanga nokkurn sem rakst óvart utan í annan fanga, í röðinni eftir kvöldmatnum. Sá síðarnefndi sló hinn í rot. Síðan fór hann aftur í röðina, eins og ekkert hefði gert. Þrátt fyrir að hann ætti einangrunarvist í vændum og refsingu fyrir brot á reglum var það eina sem hann sagði til útskýringar: „Ég reiddist. Hann réðst inn á mitt svæði. Ég gerði bara það sem ég þurfti að gera.“

Þótt siðblindir séu eins og þaninn þráður eru árásir þeirrar „kaldar“ því þá skortir skaphitann sem veldur því að venjulegt fólk missir stjórn á sér.
 

Spennufíkn

Siðblindir hafa sífellda og gífurlega mikla þörf fyrir spennu eða örvun - þeir þrá að lifa lífinu hratt eða vera í miðri hringiðu atburðanna. Í mörgum tilvikum er spennan fólgin í að brjóta reglur.

Margir siðblindir lýsa því hve glæpsamlegt athæfi er heillandi og kveikir neistann. Siðblind kona sagði, þegar hún var spurð hvort hún gerði einhvern tíma eitthvað hættulegt bara að gamni sínu: „Já, helling! En það sem mér finnst mest spennandi er að fara um flugvelli með fíkniefni á mér. Vá ! Það er sko spennandi!“

Hin hliðin á þessari spennufíkn er að þola illa fastar skorður eða einhæft líf. Siðblindum leiðist auðveldlega og þeir eru ekki líklegir til að taka þátt í neinu rólegu athæfi, sem er síendurtekið eða sem krefst mikillar einbeitingar um langa hríð.
 

Ábyrgðarleysi

Skyldur og skuldbindingar eru merkingarlaus fyrir siðblindingja. Fögur fyrirheit á borð við: „Ég mun aldrei aftur svíkja þig“ eru loforð út í loftið.

Sögur af hroðalegri óreiðu í fjármálum sýna að stofnað er til skulda án fyrirhyggju, afborganir lána hunsaðar, meðlag með börnum látið veg allrar veraldar. Frammistaða siðblindra í vinnu er ófyrirsegjanleg og oft fylgja margar fjarvistir, misnotkun á eigum fyrirtækisins, brot á reglum fyrirtækisins og almennt er þeim alls ekki treystandi. Þeir fylgja ekki formlegum reglum eða óformlegu samþykki í samskiptum við fólk, stofnanir eða stjórnendur.

Siðblindir láta það ekki aftra sér að breytni þeirra bitni á öðrum. 25 ára gamall fangi, í rannsókn okkar, hafði hlotið meir en 20 dóma fyrir glæfraakstur, akstur undir áhrifum, að hafa horfið af slysstað, akstur án ökuskírteinis og glæpsamlegt gáleysi sem olli dauða. Þegar hann var spurður hvort hann mundi halda áfram að keyra þegar hann losnaði úr fangelsinu sagði hann: „Af hverju ekki? Auðvitað keyri ég hratt en ég er góður ökumaður. Það þarf tvo til að verði slys.“
 

Hegðunarvandi í æsku

Flestir siðblindir sýna alvarlega hegðunartruflanir frá bernsku. Þetta geta verið endurteknar lygar, svindl, þjófnaður, íkveikja, skróp, misnotkun vímuefna, skemmdarverk eða óvenju snemmkominn kynþroski. Vegna þess að oft má finna einhverja þessa þætti í börnum - sérstaklega börnum sem alast upp í ofbeldisfullu umhverfi eða í rofnum  fjölskyldum þar sem einhvers konar misnotkun á sér stað - er mikilvægt að leggja áherslu á að saga siðblindra í þessum efnum er viðameiri og alvarlegri en flestra, jafnvel þótt hún sér borin saman við sögu systkina eða vina sem ólust upp við sambærilegt atlæti.

Maður nokkur, sem sat í fangelsi vegna fjársvika, sagði okkur frá því að þegar hann var barn skemmti hann sér við að leggja snöru um háls kattar, binda hinn endann efst í flaggstöngina og berja svo köttinn áfram kringum flaggstöngina með tennisspaða. Þótt ekki hafi allir siðblindir sýnt slíka grimmd í uppvextinum hafa  nánast allir þeirra ratað hvað eftir annað í alls konar vandræði.
 

Andfélagsleg hegðun á fullorðinsaldri

Siðblindir líta á reglur og væntingar samfélagsins sem óþægilegar og ósanngjarnar hindranir gegn þeirra eigin hegðunarmáta. Þeir búa til sínar eigin reglur, bæði sem börn og sem fullorðnir.

Margar andfélagslegar gerðir siðblindra leiða til kæru og dóms. Jafnvel innan glæpamannasamfélagsins skera siðblindir sig úr, aðallega vegna þess að andfélagslegar og ólöglegar gerðir þeirra eru fjölbreyttari og tíðari en annarra glæpamanna. Siðblindir tengjast yfirleitt ekki neinni sérstakri tegund glæpa eða „sérhæfa“ sig í einni tegund heldur virðast til að prófa hvað sem er.

En ekki enda allir siðblindir í fangelsi. Margt sem þeir gera kemst ekki upp og er ekki kært eða er á gráu svæði laganna. Andfélagsleg hegðun þeirra getur falist í braski með verðlaus hlutabréf, vafasömum viðskiptaháttum, að beita konur og börn heimilisofbeldi  o.s.fr. Margir siðblindir gera eitthvað af sér sem er ekki beinlínis ólöglegt heldur siðlaust, ósiðlegt eða skaðar aðra. Nefna má  framhjáhald eða svik við maka.
 
 
 
 

Gert 6. janúar 2011
Harpa Hreinsdóttir