opidii
Eva Berger, Katrín I. Jónsdóttir, Rakel McMahon, Una Björk Sigurðardóttir
Opið - til eru hræ
21. 03. 2009 - 19. 04. 2009
 
LAUGARDAGINN 21.MARS KLUKKAN 17.

Opið – til eru hræ er í grunninn vinnuaðsetur fjögurra listamanna, Evu Signýjar Berger, Katrínar I. Jónsdóttur, Rakelar McMahon og Unu Bjarkar Sigurðardóttur.
Kjarni sýningarrýmis Kling & Bang verður því vinnuaðstaða, bæði einstaklingsrými listamannanna sem og fjölnota vinnurými sem er tileinkað starfsemi af margvíslegum toga. Rýmið verður því vettvangur lifandi og skapandi athafna en mun ekki sinna hlutverki hefðbundins sýningarrýmis og sýningarforms. Því er frekar við hæfi að tala um byrjun fremur en opnun því ekki verður hægt að sjá niðurstöðu og/eða fullgerða sýningu fyrr en á loka degi ferlisins. Áhorfanda gefst hér því tækifæri til að hafa áþreifanleg áhrif á útkomu sýningarinnar og þá sérstaklega á verk listamanna.
Ásamt því mun Opið – til eru hræ vera vettvangur fyrir þverfaglegt stefnumót ýmissa listgreina. Stefnumótin munu eiga sér stað á sérstökum kvöldum á opnunartímabilinu þar sem ýmsir listamenn koma fram. Munu þar mætast meðal annars gjörningar, video, ljóð og ritlist, sviðslistir; dans, leiklist & tónlist.
Með þessum hætti er verið að reyna á þanþol ýmissa listgreina og leitast við að skapa gagnvirka brú. Það sem sameinar þessa ólíka hópa listgreina er einungis rammi utan um tíma og rými, allt annað á sér engin takmörk og ekkert markmið er fyrirfram ákveðið. Allt á rétt á sér, rýmið er sem eitt verk sem umvefur mörg önnur verk.
Opið – til eru hræ hefur það að leiðarjósi að efla grasrótina í íslensku menningarlífi og vera því vettvangur þar sem skapandi einstaklingar geta starfað utan stofnanna og notið þannig listræns frelsis. Að því gefnu er hér um að ræða vettvang fyrir allt sem hefur ekki hingað til fengið tækifæri til þess að eiga sér stað og tilverurétt í víðu samhengi.

Þátttaka allra er velkomin!

Opið er frá fimmtudögum til sunnudags frá kl.14 – 20, og mun alltaf einhver vera til staðar við sköpun í rýminu.
Byrjunardagur ferlisins verður 21. mars og mun rýmið opna kl. 17
Uppgjörningur verður 18. apríl kl.17
Föstudagurinn langi, 10. apríl – Langur dagur, opið frá 12 – 00
Negld stefnumót verða 27. mars, 3. apríl, 10. apríl og munu þau hefjast kl. 20:00
Nánari dagskrá þeirra verður auglýst þegar nær dregur.
 
 
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is