dream3
Ráðhildur Ingadóttir
INNI Í KUÐUNGI EINN DÍLL
11. 03. 2005 - 03. 04. 2005
 
Ráðhildur, hefur kuðungurinn snúið sér? Erum við komin inn í annan díl?
Ég held ekki. Kuðungurinn er eins og alheimurinn, við upplifum mismunandi veruleika eftir því hvar við erum stödd í honum. Sama er með dílinn. Hann er í mörgum lögum og þar sem mismunandi atburðir eiga sér stað.

Á fyrstu hæðinni er sérkennileg blanda af efnisleysi og massa. Gætirðu sagt okkur eitthvað um þessa tvo þætti, er nauðsynlegt að massinn sé úr vaxi eða mætti hann vera úr einhverju öðru?
Massi og efnisleysi er sami hluturinn, hvorugt er til án hins. Massi er bara önnur mynd af efnisleysi og efnisleysi er önnur mynd af massa.
Þessi innsetning er umhverfi úr draumi. Það skiptir máli að vaxið hefur þann eiginleika að geta auðveldlega orðið að hinni hliðinni á massanum þ.e. efnisleysinnu. Það er einhvers staðar mitt á milli þess að vera fast og fljótandi, það bráðnar og brennur auðveldlega.
Mér finnst það líka góð tilfinning að þessi innsetning verður ekki að drasil þegar hún verður tekin niður, þar sem vaxið er endurnýtanlegt. Það er auðveldara fyrir mig að gera skúlptúra eða innsetningar þegar ég veit að veröldin á ekki eftir að sitja uppi með eithvað drasl eftir mig í framtíðinni.

Annars vegar virðistu hafa tilhneigingu til að leysa upp afmörkuð svæði eins og þau rými sem þú vinnur í og hins vegar ertu að búa til litla afmarkaða heima með myndbandsverkunum. Segðu okkur eitthvað um þessa tvo þætti, þ.e. að draga saman og þenja út.
Þegar ég leysi upp rýmið með því að mála það eins og ég gerði t.d í Nýlistasafninu í haust eða geri vax-innsetningu eins og ég er að gera tilraun með núna, upplifi ég mig á öðrum stað í veruleikanun.
Þetta er eins og að komast inn í annað lag af dílnum, upplifa veruleikann frá öðrum stað.
Svolítið eins og þegar fólk fær bréfin frá mér um lykkjuhreyfingu plánetanna. Bréfin draga athygli þeirra út í geiminn. Sá sem fær bréfið er allt í einu kominn á annan stað í veruleikanum.
Ég er ekki að búa til afmarkaðan heim með myndböndunum, ég er að fjalla um sama veruleika og í uppleysta rýminu, frá svolitið öðru sjónarhorni sem krefst annars miðils



Hvaða gildi hefur það fyrir sýninguna að hún skuli teygja anga sína inn í mismunandi herbergi?
Ég held að það ýti undir tilfinninguna um margræðan veruleika

Draumar eru eitt af því maður getur geymt í griðum eigin hugskota. Í þeim felast oft dulin boð um sálarlíf hvers og eins. Er þetta undirmeðvitund þín sem okkur er boðið til?
Ég veit það ekki. Draumarnir eru bara. Eg endursegi þá eins og ég man þá, notast við þá tilfinningu sem þeir skilja eftir
Ég túlka ekki drauma mína. Ég upplifi þá, þeir eru hluti tilveru minnar.
Þeir hafa haft mikil áhrif á hvaða verkefni ég hef valið mér í myndlistinni i gegnum tíðina, þessvegna er ég að skoða þá.





Hvernig velurðu draumana sem þú sýnir, á einhver ritskoðun sér stað?
Það er ekki langt síðan ég fór að vinna með drauma mína á þann máta sem ég er að gera núna. Ég þurfti að temja mér ný vinnubrögð svo að sumir af þeim draumum sem eru hér eru valdir út frá því hversu auðvelt var að framkvæma þá. Annars vel ég draumana eftir því hversu sterkt þeir lifa með mér inn í daginn.


Er kuðungurinn á stöðugri hreyfingu?
Allt er á stöðugri hreyfingu.

Viðtal Margrétar Blöndal við Ráðhildi Ingadóttur nóvember 2004 vegna sýningar Ráðhildar í Nýlistasafninu 13.11 til 12.12 2004


Ráðhildur, geturðu sagt okkur eitthvað um titilinn Inni í kuðungi einn díll ?
“Inni í kuðungi, einn díll” er verkefni sem ég hef verið að vinna að undanfarin ár. Kuðungurinn getur staðið fyrir tíma, td milljón, þúsund, hundrað eða örfá jarðár. Þetta er eins og umgjörð um myndlist mína. Innan rammans getur hvað sem er gerst.

Af hverju er kuðungurinn þér svona hugleikinn? (Kæmu eyrarrós eða baggalútar til greina...)
Þegar ég held á kuðungi finnst mér ég halda á litlu kosmosi.
Ég upplifi tíma, vaxtarryþma, snúning jarðar, skipulag og óreiðu.
Eyrarrós kæmi til greina því hún hefur vísbendingar um þetta allt en hún staldrar stutt við og þessvegna get ég ekki haft hana hjá mér eins og kuðunginn. Baggalútur hefur þetta allt líka en hann sýnir það ekki eins skýrt og það fyrrnefnda.

Hvaða hlutverki gegna draumarnir í myndlist þinni?
Þegar ég var búin að vinna að myndlist í þónokkur ár gerði ég mér grein fyrir því að draumar sem mig hafði dreymt löngu áður voru tengdir því sem ég var að fást við í myndlistinni. Ég ákvað að endurgera nokkra drauma í formi myndbanda til að skoða þá.

Þú vísar gjarnan í drauma þína, eru þeir aðferð til að losna úr fjötrum þeirrar víddar sem er skilgreinanleg?
Ég veit það ekki, en ég veit bara að draumar mínir eru helmingur tilveru minnar

Verkin skiptast í einhvers konar kerfi annars vegar og hins vegar tímaleysi og óreiðu.
Eru þetta órjúfanlegir þættir?
Já þetta er ein heild. Þegar maður upplifir tímaleysi og óreiðu er maður í raun að upplifa kerfi. Maður er bara staddur á öðrum stað. Td þegar við horfum út í geiminn upplifum við óreiðu og tímaleysi en ef við förum út fyrir vetrabrautina og horfum á hana utanfrá upplifum við kerfi þ.e spíral.

Í myndbandinu samsamar áhorfandinn sig alheiminum, eru þarna duldar athugasemdir um: 1. takmörkun okkar sem vitsmunaverur, 2. þá áráttu að vilja flokka allt og 3. tilhneiginguna til að vilja hafa fullkomna stjórn á öllu?
Ég veit það ekki, en eitt er víst að víð eigum erfitt með að treysta einhverju sem við skiljum ekki.
Þegar ég var tíu ára dreymdi mig að ég væri stödd úti geimnum. Ég sveif og horfði yfir alheiminn. Ég varð hrædd en á sama tíma fann ég til löngunar til að vera þarna áfram.
Í mörg ár á eftir sundlaði mig þegar ég hugsaði um þennan draum.

Svimar þig ekki í öllum þessum víddum? Hvar er haldreipið?
Stundum.
Myndlistin er haldreipið.
 
 
draumur21
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is